Af mæðrum, húmorsprófi og Tommaergelsi

Skagakonur í strætóförElskan hann Tommi kom í Skrúðgarðinn á meðan ég beið eftir súpunni. Hann er á seinni strætóvaktinni núna, Heimir á morgunvakt. Er alveg komin út úr þessu vegna drossíuferða með Ástu. Tomma seinkaði ógurlega einn daginn, sagði hann mér. Tvær konur með fimm börn, þrjú á fæti og tvö í vögnum, tóku sér far með honum. Svaka strætódrossía er í förum núna, eiginlega glæstur langferðabíll, og ekki byggð fyrir slíka farþegar og þurfti Tommi að leggja vagnana saman og setja í farangursgeymsluna áður en hægt var að bruna út úr bænum. Þegar Tommi var næstum kominn upp í sveit görguðu konurnar og spurðu hvers vegna hann færi þessa leið, þær höfðu ætlað sér að taka innanbæjarstrætó upp í hverfi en voru sannarlega ekki á leiðinni í Mosfellsbæinn. Nú, Tommi stoppaði, tók vagnana út og konugreyin þurftu að labba nokkuð langa leið til baka. Þar sem hver mínúta skiptir máli kom þetta sér ekki vel fyrir farþegana en eins og allir vita eru strætóbílstjórar með hjartahlýjustu mönnum og leið 15 hinkraði bara í smástund í Mosó.

Kirkjubrautin í morgunSvo nöldraði Tommi yfir nýkomnum jólaskreytingum og sagði að nú væri tími villibráðar, við ættum ekki að skreyta fyrr en 11. des! Sá út um gluggann hjá sjúkraþjálfaranum að aðalgatan er að verða ansi jólaleg. Seríur í gluggum og jólaskreytingar við verslanir. María var meira að segja með jólatónlist í gangi í Skrúðgarðinum.

Litla, dásamlega dóttir Maríu var á staðnum og okkur kom samstundis vel saman. Barnið æsti mig fljótlega upp, ég sver það, ég var mjög stillt þegar ég kom inn. Erfðaprinsinn sótti mig þangað að vanda og fannst hegðun mín ekki við hæfi virðulegrar móður. Ég kannaði hvort barnið hefði húmor, hef þróað sérstakt próf í þá veru í gegnum tíðina. María sagði mér að sú stutta væri strákastelpa og ég spurði barnið hvort það væri kannski sjóræningjastelpa. Hún hnussaði og hélt nú ekki. Þá hófst prófið. „Ertu þá þvottapoki? Eða kannski sjónvarp? Þú skyldir þó ekki vera strætisvagn?“ Og svo framvegis. Barnið skellihló og stóðst þannig prófið. Einn kosturinn við þetta próf er það að börnin vilja að maður haldi endalaust áfram ...

MarmarakakaErfðaprinsinn engdist og sagðist ekki vilja að fólk héldi að ég væri rugluð og færi að hlæja að mér, hann vildi ekki þurfa að meiða það ... Þá orgaði ég úr hlátri og stóðst væntanlega prófið hans. Jamm, þetta var skemmtilegt hádegi og grænmetissúpan sérdeilis góð. Við erfðaprins gripum síðan með okkur líklega bestu marmaraköku í heimi en hún fyrirfinnst í Harðarbakaríi. Svo verður bara unnið af krafti í dag! Kökublaðið kemur út í næstu viku! Það verður GEGGJAÐ!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað er hann að röfla drengurinn, kominn af miklu jólafólki, þetta er bara í nösunum á honum, er örugglega með skreitt jólatré inn í herbergi og hefur hlustað á jólaplötur síðan í ágúst...Bið að heilsa brósa

Magga (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 18:06

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hann er nú alltaf kankvís á svipinn, strákurinn, þegar hann nöldrar svona, enda sér hann að ég skemmti mér konunglega yfir röflinu í honum. Skila kveðjunni!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.11.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1505977

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 553
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband