Frægasta spákona Íslands ...

SpákonaÁ sunnudaginn kvaddi ein frægasta spákona Íslands þetta jarðlíf, sjálf Amý Engilsberts. Konan sem lærði stjörnuspeki í Svartaskóla í París og heilmiklar sögur spunnust um. Ég heyrði af ungum manni sem fór í lestur til hennar og fékk að heyra hvaða dag hann myndi deyja. Maðurinn tók sig til og lagðist í tryllt djamm og djúserí og dó svo "saddur lífdaga" á tilsettum degi. Þessi saga er eflaust bull en hún og fleiri svona fengu fólk til að bera óttablandna virðingu fyrir Amý. 

Mamma fór til hennar fyrir örugglega hálfri öld og ég fór alla vega tvisvar, síðast fyrir svona 15 árum.  Amý sagði við mömmu að eitt barna hennar yrði frægt (fullyrðir mamma) .... well, alla vega varð þetta til þess að við börn hennar fjögur kepptust við að ná frægð og frama í hinum ýmsu greinum. Held í alvöru að Amý hafi ekki sagt neitt, mamma bara haldið að það væri kúl að eiga frægt barn og æsti okkur upp í þetta. Sumum er hreinlega ekki vel við börn. Okkur tókst öllum að verða skrambi fræg ... á Akranesi.

Guðrún Eva og TómasMía systir er þekktur tónlistarkennari með meiru á Skaganum og margir á stór-Akranessvæðinu vita að hún er sígaunamamman hennar Guðrúnar Evu skáldkonuSjálf trana ég mér fram við öll tækifæri í von um frægð, síðast tróð ég mér í Útsvar (RÚV) í nóvember sl., mæti næst núna á föstudaginn. Fólk klappar sífellt fyrir mér og biður um eiginhandaráritun mína, t.d. í Skrúðgarðinum, en ég slepp þó við að dyljast undir sólgleraugum annars staðar.  Hilda systir er þekkt um allt land fyrir að reka bestu og æðislegustu sumarbúðir á Íslandi, jafnvel í öllum heiminum, Sumarbúðirnar Ævintýraland, þar sem börnin eru ræktuð á allan hátt andlega og líkamlega, fjölmenningarlegar sumarbúðir og hlutlausar í trúmálum. Gummi bróðir er leikari sem t.d. sjálfur Jón Viðar hefur hrósað í sjónvarpinu (Djöflaeyjan á Akureyri um árið) og svo lék Gummi auðvitað pabba Benjamíns dúfu í samnefndri bíómynd. Strákurinn sem lék Benjamín er ansi líkur Eyjó Braga, eldri syni Gumma, sem er bara brilljant. Rosalega er ég í raun fegin að ekkert okkar systkinanna skyldi verða t.d. þekktur vélsagarmorðingi ... það hefði verið einum of kúl.

The KringlEina sem ég man af því sem Amý sagði við mig var að ég myndi skrifa bók/bækur, líklega barnabók/-bækur. Af þrjósku minni hef ég að sjálfsögðu ekki látið þetta eftir Amý, enda á maður ekki að trúa á spákonur eða láta þær stjórna lífi sínu! Sjáum til þegar ég fer á eftirlaun, ég er bara rúmlega fertug núna og nægur tími til stefnu.

Amý sagði mér frá því að eitt sinn hefði hún verið í gönguferð. Allt í einu hefði komið yfir hana löngun til að fleygja tarotspilunum sínum sem hún var búin að fá nóg af. Spilin voru í handtöskunni hennar. Hún ákvað að láta eftir þessarri löngun sinni og fleygði spilunum ofan í húsgrunn og fuku þau um byggingarsvæðið. Þarna reis Kringlan í öllu sínu veldi og hvílir sem sagt á tarotspilunum hennar Amýar Engilberts.

Bilað NetiðP.s. Allt var netlaust í morgun þegar ég mætti kl. 7.30 og skelfilegt að geta ekkert gert að gagni í einn og hálfan tíma. Ég lagðist bara fram á skrifborðið og grét, enda vinnualki. Um níuleytið hafði fjölgað til muna í húsi og við Vikukonur sáum að samstarfsmenn annars staðar í salnum unnu sem óðir og þótti okkur ótrúlegt að allir væru að taka til á desktop, eins og við dúlluðum okkur við ... Hrund metsöluhöfundur (Loforðið) áttaði sig fyrst á þessu ... kíkti undir borð hjá Björk og spurði: „Hvaða snúra er þetta sem er ekki í sambandi?“Jamm, til að gera langa sögu stutta þá datt allt í gang skömmu síðar ... nákvæmlega þremur mínútum áður en klikkaðislegabissí tölvumaðurinn kom hlaupandi utan úr bæ til að redda okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Eftir að hafa hent englapsilunum mínum í húsgrunn við Grund spái ég því að klikkaðislegabissí tölvumaðurinn út í bæ sem kom fýluferð í vinnu til kvenna sem voru ekki í sambandi hafi gleymt öllum sínum vonbrigðum og brugðið sér í vonbiðilshlutverkið þegar hann sá þig..frægustu konu Akraness. Rétt???

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.1.2008 kl. 11:19

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Englapsilunum má lesa sem englapilsunum eða englaspilunum og eiga auðvitað að vera englaspil í þessu samhengi....

Þetta ritrugl er í boði mbl.blogg.is

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.1.2008 kl. 11:28

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jú, katrín. Hann horfði áfergjulega á mig þótt ég hafi ekki verið í flegnum bol, heldur rúllukragapeysu sem náði upp að augum. Innanfyrir var ég í skírlífsbelti til öryggis, strætóferðirnar geta verið krassandi. Ég horfði á tölvumanninn á móti, minnti hann á og sagði: "Ég er á lausu." Hann táraðist af gleði að vanda en það dugði ekki til og ekkert gerðist. Gengur kannski betur næst. Kolvitlausir og bissí tölvumenn eru eitthvað sem ég er alveg brjáluð í ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.1.2008 kl. 11:36

4 identicon

Heil og sæl, Himnaríkis frú og gleðilegt ár og aðrir skrifarar !

Hygg; að þú gætir alveg orðið, hin virðulegasti vélsagarmorðingi, þyrftir þó, að sækja um undanþágu, frá öllum ákærum, hjá Ríkislögreglustjóra, því annars kynnu hinir myrtu að ganga aftur, Guðríður mín.

Að öllum systkinum þínum ólöstuðum; þá ert þú gersemi Guðríður, ekki hvað sízt fyrir þann eiginleika, að koma fólki í gott skap, og varpa, með tilveru þinni ákveðnum ljóma, á annars dauflega jarðvist, okkar dauðlegra manna. Blessuð sé minning, frú Engilberts.

Óborganleg; frásögnin, af netleysi vinnustaðarins, að morgni.

Mbk., sem ætíð / Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 11:40

5 identicon

Ekki séns að ég trúi á spádóma.. ekki smuga, does not make sense.

DoctorE (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 12:34

6 Smámynd: Ívar Pálsson

Blessuð sé minning Amýar. Mjög margir íslendingar leituðu til hennar í gegn um árin. Frægustu miðlar og spákonur landsins eru verulega umsetnar, raunar svo að hæfileikar þeirra ná ekki að njóta sín eins og skyldi, ef þær væru undir hæfilegu álagi. Því er mjög mismunandi hve mikið var að marka spádómana. Þegar hún kom til vinahóps míns fyrir 27 árum, þá renndi hún okkur í gegn á færibandi svo að lítið græddist á því. Aftur á móti sögðu aðrir mér frá einstökum hæfilekum hennar.

Ívar Pálsson, 9.1.2008 kl. 12:57

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er þetta Guðrún Eva Minervudóttir sem er frænkos þínos?

Amy hefur verið mögnuð en ég fór til hennar einu sinni og skildi ekki orð af því sem hún sagði.  Enda bara 16 ára.

DoktorE það þyrfti að fara með þig til almennilegrar spákonu og láta hana hræða úr þér líftóruna.  Muhahaha

Njóttu dags

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.1.2008 kl. 13:00

8 identicon

Yea right Jenný :)
En ég er ekki úr týndum þjóðflokk í amazon þannig að ég verð ekkert hræddur, gæti hlegið smá samt :)

DoctorE (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 13:10

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þú ERT búin að skrifa bók, og það er bara sú fyrsta ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.1.2008 kl. 13:17

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Jess, hún er frænkos mínos, Jenný, og ég er ekkert smá montin af henni.

Óskar Helgi, knús og kveðjur í sveitina.

Ég er líka ansi skeptísk, DoktorE, skil þig vel. Verst finnst mér þegar meintir spámenn og spákonur nota "hæfileikann" til að stjórna lífi annarra og græða á trúgirni. Veit þó að gott fólk er til í þessum bransa eins og alls staðar.

Já, Ívar, ég gleymdi nú að setja í sjálfa færsluna: Blessuð sé minning hennar. Amý var mjög vinsæl til að fá í heimahús, ég var búin að gleyma því.  

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.1.2008 kl. 13:53

11 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Tvær, Anna mín, barnabókina Lífsreynslusögur og barnabókina Kaffibókin! (fylgirit Gestgjafans)

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.1.2008 kl. 13:55

12 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Við systur fórum einu sinni til Amy og engin okkar man hvað hún sagði við okkur. Það er skiljanlegt með Helen því hún var pikkandi sykurlaus meðan Amy spáði fyrir henni og því kolrugluð. Afsakanir okkar hinna eru verri.

Steingerður Steinarsdóttir, 9.1.2008 kl. 14:30

13 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Synd að muna svona lítið ... held þó að ég hafi skrifað e-ð niður en þar sem ég flutti fyrir 2 árum þá gæti það hafa lent í ruslinu ... arggg

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.1.2008 kl. 14:33

14 Smámynd: www.zordis.com

Vélsagarmorðingi ..... my god sko!  Gott að þú ert það ekki, þú ert bara flott og ert heimamundur Akraness!

www.zordis.com, 9.1.2008 kl. 15:34

15 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hvattli sá sem nælir í Gurrí fái margar öldur í heimamund með henni????

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.1.2008 kl. 15:52

16 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... milljónir, trilljónir ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.1.2008 kl. 16:02

17 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 9.1.2008 kl. 16:12

18 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Yndisfagra Skagamær með rentu.

Ert þú viðlátin á Laugardaginn? Um rétt eftir hádegisbil?

Edda Skagamær ekki með rentu.

Edda Agnarsdóttir, 9.1.2008 kl. 16:33

19 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Tja .. skyldum við reyna að gera það sem spáð er fyrir okkur ? ... Fór til Amýar þegar ég var unglingur, fannst hún svolítið skrítin en hún sagði mér að það myndi henta mér að vinna í félagsmálum og ætti vel við mig að syngja í kór! Mér fannst þetta bæði á þessum tíma alveg ,,far out"   ...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 9.1.2008 kl. 17:15

20 identicon

Þeir sem hafa áhuga á tarotlestri og andaglösum, og öðru þessháttar dúlli ættu að kíkja á bloggið hjá Rósu Aðalsteins . Þar er skyggnst ansi vel á bak við tjöldin í þessum málum . ÁHUGAVERT

conwoy (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 17:28

21 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl Gurrí mín. Mikið fjör hér. Þú ert allavega fræg. Ég veit hver þú ert eftir að hafa villst inná bloggið í vetur.  Kærar kveðjur frá hjara veraldar.

Rósa Aðalsteinsdóttir, 9.1.2008 kl. 18:08

22 identicon

Já það er betra að snúruna í sambandi við tölvuna

Ég hef aldrei farið til spákonu og ég held að ég fari bara aldrei. Vil frekar láta lífið koma mér á óvart. 

Bryndís R (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 18:24

23 Smámynd: Þröstur Unnar

Sko Guðmundur, ég er frægari, á heima við hliðina á Henni.

Þröstur Unnar, 9.1.2008 kl. 19:16

24 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þröstur, ég sat við hliðina á henni á síðasta laugardagskvöld, og átti alla hennar athygli dágóða stund, ég kyssti hana líka na na bú bú.

Svo ætla ég að hitta hana bráðum aftur, en vonandi ykkur tvo líka Þröst og Guðmund.  Knús til þín fræga kona og ég hef fullvissu um það að þú ert orðin fræg út fyrir Skagann.  Famous 

Ásdís Sigurðardóttir, 9.1.2008 kl. 19:58

25 Smámynd: Þröstur Unnar

Þá á ég bara eftir að smella einum  á hana.  

Þröstur Unnar, 9.1.2008 kl. 20:03

26 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ég er svo montin af að þekkja þig, maddama Gurrí,  þó einungis sé á öldum netsins ..... (einn góðan dag, hittumst við í bolla). Við sem erum ófræg erum sökkerar fyrir þeim frægu. Það ku vera gangur nútímalífs  - eða svo er mér tjáð.

Vissi ekki að Amy væri búin með þennan bekkinnn í skólanum ....  ég varð aldrei svo fræg að fara til hennar. Bless her soul.

Bara að þú vitir það, Guðrún Eva er ein af mínum eftirlætisskáldkonum af yngri kynslóðinni og mér finnst röddin í henni alveg æðisleg .... Hún las uppúr bók sinni á vinnustað mínum í hitteðfyrra fyrir jólin - og kom, sá og sigraði 

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 9.1.2008 kl. 20:53

27 Smámynd: Heiðrún Klara Johansen

synd ég fékk aldrei að fara til hennar.

fyndinn sagan um netið.. Kannast við þetta sjálf í vinnunni.. ótrulega er maður fljótur að kalla á rándýran fagaðila.. þegar eitthvað voða litið var að..)

Heiðrún Klara Johansen, 9.1.2008 kl. 23:51

28 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Ég varð nú svo fræg að fá Amy heim til mín,við vorum 6 vinkonurnar samankomnar sem hún spáði fyrir.  Ég var síðust í röðinni sem hún Amy spáði fyrir og ég skildi ekkert af því sem hún sagði við mig. Hinar 5 vinkonurnar voru allar mjög sáttar við spádóminn hjá henni.

Blessuð sé minning hennar Amy.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 10.1.2008 kl. 00:19

29 Smámynd: Jens Guð

  Mamma mín,  Fjóla Kr. Ísfeld,  er vinsælasta spákona Norðurlands.  Yfirleitt bókuð 2 - 3 mánuði fram í tímann. 

Jens Guð, 10.1.2008 kl. 01:20

30 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Edda, ég verð örugglega viðlátin skömmu eftir hádegi á laugardaginn.

Veit ekki hvað var með Amý, hún var alla vega komin á áttræðisaldur.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.1.2008 kl. 09:22

31 identicon

Amý var góð kona, burtséð frá því hvaða skoðun maður hefur á spádómum þá er missir af henni

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 15:01

32 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Ég varð svo fræg að hitta Amy tvisvar með margra margra ára millibili. Það var mjög eftirminnilegt að hitta hana, elskuleg kona, en virkaði nokkuð köld í allra fyrsta viðmóti. Mig langaði til að spyrja hana hvort hún væri sporðdreki hún hafði þannig nærveru, sharp as a needle, bráðskörp kona og líka næm. Margt af því sem hún spáði fyrir mér rættist síðar. Mér fannst svo einlægt í seinna skiptið sem ég hitti hana hvernig hún varpaði af sér spákonunni og varð fótafúin, ósköp mannleg, eldri kona þegar hún kvaddi mig. Hún lék ekki hlutverk fyrir mann, hún bara hafði þessa sérgáfu að geta séð ýmislegt sem flest okkar hinna getum ekki skynjað.

Marta B Helgadóttir, 10.1.2008 kl. 23:49

33 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þá þekki ég hann Gumma bróður þinn ágætlega.  Ég vann við að búa til leikmynd, leikmuni og effekta í Benjamín Dúfu og er sú mynd ætíð mín uppáhaldsmynd.  Gumma hef ég síðan rekist utan í við auglýsingagerð og fleira smálegt síðan,gott ef ekki í fleiri myndum.  Bið að heilsa honum.  Langt síðan ég hef rekist á hann.   Kannski er það tilgangur spádóma að skerpa okkur í viðleitni til betra lífs og afreka. Ef það virkar, eru spákonur fullkomlega réttlættar, hvort sem á undan kemur, hænan eða eggið í því samhengi.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 07:50

34 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já og frænkos þínos Gúðrún Eva Sígaunadrottning, skenkti mér lengi sem ung snót á gamla Kaffi List, þar vann hún ásamt Róbert nokkrum Douglas, þöglum spekúlant, sem síðar fór að gera kvikmyndir. Íslenski Draumurinn, Strákarnir okkar ofl.

Ég hef hætt slíkum barsetum fyrir löngu, en þau gáfu þó þessum stundum mínum einhvern tilgang og gleði.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2008 kl. 07:55

35 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Er hún dáin blessunin.   Hún var fastagestur hjá okkur í mörg ár ósköp vinaleg kona en sérvitur.  Fór einu sinni til hennar og það eina sem ég man var að hún vildi staðsetja okkur hjónin í henni Ameríku í framtíðinni.  Það fór nú á annan veg við lentum hér í mið Evrópu. 

Ía Jóhannsdóttir, 11.1.2008 kl. 14:20

36 Smámynd: Sif Traustadóttir

Ég gerðist nú aldrei svo fræg að fá hana Amy í heimsókn til að spá fyrir mér.

Hins vegar fór ég einu sinni í vitjun til hennar til að líta á kanínu sem hún átti.  Sá strax að þetta var merkileg kona.  Hún sagði mér sögu af því þegar fjölskyldan hennar flutti til Íslands þegar hún var lítil stelpa.  Hún sagði mér líka að sonur minn yrði merkur maður, auðvitað fannst mér mikið til hennar koma eftir það

Sif Traustadóttir, 11.1.2008 kl. 19:34

37 identicon

Já, blessuð sé minning Amy.

 Hún var bara 73, en var orðin mikið veik og búin að vera í nokkur ár.  Þekkti hana nokkuð vel og hitti hana mjög reglulega seinustu árin hennar í gegnum vinnu mína.

ókunnug (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 636
  • Frá upphafi: 1505989

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 513
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband