Farþegi frá helvíti ...

Ég hef hingað til skrifað um kosti þess að ferðast með strætisvögnum milli Akraness og Reykjavíkur. Þar sem undantekningarnar sanna víst regluna var ég harkalega minnt á í morgun hversu dásamlegar þessar ferðir eru vanalega þegar „farþegi frá helvíti“ steig upp í vagninn. Örugglega yndislegur maður og það allt EN ..... Fyrsta dæmi: Það tekur þrjár mínútur að keyra frá endastöð og að himnaríki, á morgnana. Þegar ein mínúta var liðinn hringdi maðurinn í Strætó bs alveg í losti, hélt að hann hefði misst af vagninum. Hann hefði átt að spyrja mig sem kom þarna aðvífandi en sumir elska gemsana sína og taka þá fram yfir fallegar konur á stoppistöð ...

Að drepa símaGreinilega aðkomumaður ... Hann hlammaði sér niður við hliðina á mér hinum megin við ganginn og það var í fínu lagi ... hélt ég. Ég var viðkvæm eins og postulínsbrúða eftir of lítinn nætursvefn og ætlaði að reyna að ná Nirvana-hugarástandi og hvílast á leiðinni. Þegar við komum að Hvalffjarðargöngunum vissi ég allt um hann, ekki að hann segði orð við mig, hann talaði bara nokkur símtöl. Hann talaði líka hátt, mjög hátt. Mig langaði að garga: „Fyrirgefðu, en það er fólk að reyna að sofa hérna!“ 

Ég veit allt um þennan áður ókunna mann. Hann var að fara til læknis í Reykjavík, hann elskar kærustuna sína, hann er kurteis og góður við mömmu sína, hann heldur að maður græði mikið á kaupum og sölum íbúða af því að maður fái svo mikið endurgreitt frá skattinum í ágúst. Ég var farin að hafa áhyggjur af bílstjóranum sem fékk þetta háværa málæði allt á hnakkann. Ég hef taugar úr stáli en ég fann samt hvernig rafgeymasýran bullaði í æðunum á mér. Ég var full morðfýsnar út í  ... síma! Ég veit reyndar miklu, miklu meira um manninn eftir öll símtölin en það á ekki heima á virðulegu bloggi. „Ég myndi láta lítið fyrir mér fara á næstunni, hann er brjálaður út í þig,“ sagði hann t.d. í einu símtalinu ... úúúú

Á leið niður Lopabrekkuna (Ullarnessbrekkuna í Mosó) hallaði maðurinn sér fram og spurði bílstjórann hvort hann væri virkilega með stillt á barnastöð. „Já, Latabæ,“ sagði þessi elska, „svo kannski trúarlega stöð á morgun, Bylgjuna hinn, bara eftir því hvaða stöð síðasti bílstjóri hefur stillt á.“ Ég bætti ekki um betur (alveg óvart) og spurði í gríni hvort við mættum þá eiga von á honum frelsuðum á morgun, hvort hann keyrði kannski út af og út í sjó í beygjunni niður í Kollafjörð, svona ofsatrúar-terroristi sem liti á nokkra strætófarþega sem fórnarkostnað í stríði ...  hmmm, það féll heldur ekki í sérlega góðan jarðveg, enda búið að skemma morguninn fyrir bílstjóranum sem er vanur rólegum, greindarlegum og ekki síst ofsafallegum farþegum.

Farþegar voru sjokkeraðirStrætó nr. 15 rann inn á stoppistöðina í Háholtinu þegar við komum þangað þannig að við urðum að hlaupa yfir götuna en ég held að þessum háværa hafi verið refsað á sinn hátt því hann ákvað að hinkra vitlausu megin við götuna eftir strætó, múahahaha, hann endaði örugglega uppi í sveit, múahahahahaha. Nema reyndar hann hafi sloppið í 15 án þess að ég sæi til.

Ég er búin að gulltryggja eitt: Maðurinn er nú kominn í lífstíðarbann hjá Strætó bs, það er komið byssuleyfi í strætó fyrir okkur farþegana og svo er búið að skella nýju bannmerki við hliðina á merkjunum sem ég sá í gær, þessum: BANNAÐ AÐ BORÐA ÍS, BANNAÐ AÐ DREKKA, MÁ KOMA MEÐ HUND SEM ER MEÐ MÚL og nú stendur: BANNAÐ AРTALA HÁTT, VIÐKVÆMIR FARÞEGAR/BÍLSTJÓRI. Drjúg eru morgunverkin.

Í leið 18 við Ártún voru yndislegir farþegar að vanda. Bara þrír Indverjar og svo hægláti maðurinn. Ógreiddi maðurinn er algjörlega horfinn! Strætó hefur einhvern veginn lag á því að losa sig við óæskilega farþega. Martraðarmaðurinn háværi í Skagastrætó í morgun mun ekki birtast aftur og svo er okkur ekkert um ógreitt fólk gefið heldur. Snyrtimennskan ávallt í fyrirrúmi í strætó!

Útrás dagsins var í boði mínu ... syfjaðar stuðkveðjur úr Hálsaskógi!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

ó

annars er það alveg magnað þegar fólk tekur upp á að dæla yfir mann slíkum prívatsímtölum (segi ég sem blogga um allt nema klósettferðir )

Ragnheiður , 7.8.2008 kl. 13:35

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Yndislegt að vanda og ég bið að heilsa til baka í Hálsaskóg. 

Ásdís Sigurðardóttir, 7.8.2008 kl. 13:36

3 identicon

Þetta var nú ansi hressandi svona í morgunsárið Gurrí mín  bara að færa sig aftar í strætóinn  - við villingarnir sofum alla leiðina og tölum ekkert hátt í símann haha!

Erla Björk strætóstelpa (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 14:24

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ullarnessbrekkuna, Gurrí mín, Ullarness…

Ég segi þér satt, ég kvíði þeim degi sem ég kynni að þurfa að nota strætó!

Sigurður Hreiðar, 7.8.2008 kl. 14:26

5 Smámynd: Þröstur Unnar

Var þetta nokkuð Bjarni á Steinstöðum?

Þröstur Unnar, 7.8.2008 kl. 14:28

6 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Eru ekki blaðamenn alltaf forvitnir um samferðamennina?...múhaha...þarna gastu gert heilt blogg um bara einn mann...sem talaði nógu hátt til að gefa þér allar upplýsingarnar sem þú þurftir....eða ekki....

Mannlífið er nú soldið krúttað svona í allri sinni dýrð...árla dags.....ef maður er ekki of sybbin til að njóta þess...

Vonandi verður samt rólegra í fyrramálið...undir ljúfum takti frá trúboðsstöðinni...eða Bylgjunni...eða...Effemm....

Bergljót Hreinsdóttir, 7.8.2008 kl. 14:29

7 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Manngreyið hefur verið að hamast við að reyna að vekja athygli hinnar "glæsilegu sofandi blaðakonu" á sér, og hann hefur kannski verið alveg búinn með símakortið, þegar þið komuð í Háholtið og því gat hann ekki fylgt þér á leiðarenda.  -  Og hann sem langaði svo í viðtal við þig.

Annars lenti ég í svona símagali því sá maður galaði hástöfum í eyra mér jafnt sem í eyra viðmælanda síns hinum megin á línunni. - Þetta var inn í verslun þar sem ég stóð við kassann og beið eftir að borga vörurnar sem voru komnar upp á færibandið. (annars hefði ég farið). -

Og þessi maður var að tala um sifjaspellsmál, og mjög ljóta atburði sem upp hefði komist um, - ég horfði á manninn og reyndi að frysta hann til að þegja, og hætta þessu gaspri. - Þá æstist hann allur upp og hækkaði róminn enn meir, - og var svo ósvífinn að hann fór að nikka til mín eins og til að leggja áherslu á hvort að við værum ekki örugglega alveg sammála. -  Þá var mér allri lokið, og ég hvæsti á hann, að bera þá virðingu fyrir þeim sem hann sjálfur kallaði fórnarlömb gerandans og hætta þessum hávaða, þarsem ég kærði mig ekki um að hlusta á þessar persónulegu upplýsingar.  -  Ég tek það fram að ég þekki ekki þennan mann,  og hafði aldrei talað við hann né hann við mig, hvorki fyrr né síðar. - En hins vegar veit ég núna hver hann er.

Þetta var afar óþægilegt, ég vildi að ég hefði getað sussað á þennan lögræðing og sagt að ég væri að reyna að sofa. - 

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 7.8.2008 kl. 15:58

8 Smámynd: Guðrún Ágústa Einarsdóttir

já það er margt sem gerist í strætó..bara misjafnlega fyndið eða leiðinlegt... nú eða allt frá engu og uppí allt... kv Gunna.

Guðrún Ágústa Einarsdóttir, 7.8.2008 kl. 17:50

9 Smámynd: Kolgrima

Kolgrima, 7.8.2008 kl. 17:54

10 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ja, þetta var nú örugglega ágætisgaur, utanbæjarmaður samt (hehehehe), hann vissi a.m.k. ekki hvað gatan hét hjá stoppistöðinni þegar hann hringdi í Strætó ... allir Skagamenn vita hvar Garðabraut er. Bara fyndið samt að geta fundið svona marga til að hringja í og tala um landsins gögn og nauðsynjar fyrir klukkan átta að morgni. Sest aftast hjá Erlu og hinum villingunum á morgun ef þessi maður kemur aftur!

Takk, Siggi, fyrir leiðréttinguna, skal hafa þetta rétt í framtíðinni!!! Vélstýran mín sagði mér nafnið á brekkunni en ég var búin að gleyma því.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.8.2008 kl. 18:24

11 Smámynd: Ásta Björk Solis

Ae eg tholi ekki thessa gemsa i matvoruverslunum laeknastofum og bara hvert sem thu ferd,samt a eg nu einn sjalf en slekk a honum thegar a vid haefir.

Ásta Björk Solis, 7.8.2008 kl. 19:23

12 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sjálfumglaðir símverjar eru á bannlista! Gargandi sín og annarra einkamál yfir alla sem yfirleitt þjást í hljóði.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.8.2008 kl. 19:42

13 Smámynd: Brynja skordal

Já hérna fyrir kl 8 í svona samtölum ertu viss um að hann var ekki bara að tala við sjálfan sig til að fá athygli ykkar sem í vagninum voru eins og flotti kallinn sem var í röðinni í bankanum og talaði svo hátt um hvað hann ætti margar millur og væri flottur á því svo úpps allt í einu hringdi síminn

Brynja skordal, 7.8.2008 kl. 23:12

14 Smámynd: Aprílrós

Gaman í strætó hja þér Gyrry mín, verður margs fróð.

Guðrún Ing

Aprílrós, 8.8.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 216
  • Sl. viku: 641
  • Frá upphafi: 1505932

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband