Kaupmannskoss, smitandi gen, Stormsker hættur? og fl. o.fl.

Erna kaupmaður á milli Elínar og BogguFór með erfðaprinsinum í Einarsbúð í dag og kyssti kaupmanninn fyrir afmælisgjöfina sem hinn kaupmaðurinn, eða frúin, færði mér þegar hún mætti í veisluna. Vildi að kossinn hefði greitt matarreikninginn líka en þá hefði ég líklega þurft að senda mömmu. (Hún mamma kemur í bæinn bráðum og borgar skuldina mína ... tra la la) Það var ansi gott að komast aðeins út á meðal fólks en ég hef bara hitt krakkann og kettina síðan í sjúkraþjálfuninni í gær og erfðaprinsinn er alltaf í skólanum. Í Einarsbúð hitti ég gamla skólasystur (50) sem ég reyndi mikið að fá til að mæta í reunion sem verður 4. október nk. fyrir árganginn okkar. Hún sagðist vera lítill djammari og ég sagðist vera lítið skárri, eða fjarskalítið drykkfelld, en maður mætir nú til að hitta þessar elskur úr barnaskóla. Þó ekki væri nema bara til að vita hverjir eru fráskildir, fjárglæpamenn, forstjórar eða fúsir (til í tuskið) ... Þetta síðasta er nú bara grín. Ég held að ég sé alvarlega smituð af þessu geni sem er eignað karlmönnum (Pétri pan) og fer hátt í fréttum núna. Hitti Þröst Unnar bloggvin og gat aðdáunarlega stillt mig um að biðja hans þrátt fyrir að hann brosti ógurlega sætt til mín.

FlóttamannabúðirVinnufundur verður hjá Rauða krossinum í kvöld. Við Inga Ó., kona úr Rvík og hjón af Skaganum sem ég hitti í kvöld, verðum stuðningsfjölskylda þriggja barna móður sem á 10 ára og 8 ára stráka og 3ja ára stelpu. Við Inga fórum í íbúð „okkar konu“ á laugardaginn og gerðum hana ógurlega kósí með lömpum og ýmsu punti sem Skagamenn og fleiri hafa gefið. Eldhúsklukka komin upp á vegg, nokkrar tupperware-dollur inn í skáp, punt í hillusamstæðuna, gardínur fyrir rimlagardínulausa gluggann og fleira. Ég fann líka nýlegar og gamlar barnabækur í himnaríki, m.a. myndskreyttar orðabækur, eina síðan erfðaprinsinn var lítill, og slíkar bækur eru víst algjör fjársjóður þegar læra á íslensku eða til að hafa samskipti.

Þetta verður bara gaman en stuðningurinn á að vera fólginn í því að vera til staðar, kíkja í heimsókn, hjálpa til við innkaup, kenna á staðinn og slíkt. Mikið verður frábært fyrir konurnar að sleppa úr þessum lífshættulegu flóttamannabúðum en Ísland er fyrsta landið sem býðst til að taka fólk þaðan. Fólkið í búðunum er alls ekki velkomið til heimalandsins Palestínu eða nágrannalandana. Vonandi fylgja fleiri lönd fordæmi Íslendinga og bjóða fólkinu heimili.

Vitlaust veðurVerst að konurnar fluttu ekki hingað í vor og upplifðu yndislega sumarið okkar svona áður en skammdegið skellur á af fullum þunga. Þótt ég elski skammdegið og líka vond veður er ekki þar með sagt að aðrir geri það.

Vinkona mín í Reykjavík, sem hefur fúnkerað sem „eiginmaðurinn“ í lífi mínu síðan 1983, er afar handlagin og er búin að bjóðast til að skipta um klær á rafmagnstækjum (lömpum o.fl.) þar sem svokallað ammrískt rafmagn er í íbúðinni. Það er alla vega ódýrara en kaupa mörg millistykki.

Ætlaði að hlusta á Miðjuna, þátt Sverris Stormsker, í dag en annað hvort er hann hættur á Útvarpi Sögu eða á tónleikaferð um heiminn. Þurfti að afplána óhljóðin í Halldóri frænda í staðinn. Hann sér líka stundum um símatíma stöðvarinnar kl. 11-12 ... við óvinsældir einhverra í morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://hlf.blog.is/blog/hlf/entry/632683/

Þessi hlustaði á frænda þinn í dag greinilega. En hann er kannski ekkert voðalega greindur. Halldór var ekki kátur með mann sem fannst í lagi að músliminn í næsta húsi berði konuna sína útá bílaplani og horfði bara uppá það án þess að tilkynna það. Hann sagðist ekki þola svona fólk (sem sagt fólk sem horfir á konur barðar og hreyfir hvorki legg né lið" Heim(sk)i þessum finnst það skrítið að Halldór er ekki sáttur við fólk sem poppar og horfir á ofbeldi á konum.

En hvað varð um Sverri? Er þitt fólk að taka yfir stöðina?

Viðar (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 19:53

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hef nú frekar trú á Gurrí, að þetta svokallaða ameríska rafmagn sem þú talar um séu ítalskir tenglar. Þeir kölluðust Tichino  að mig minnir og voru settir í allar íbúðir í byrjun áttunda áratugarins. Þeir eru mjög öruggir til dæmis ef börn stinga einhverju járni inn í þá er engin hætta á að fá straum eins og var með þessa gömlu "venjulegu". Nú er komið raflagnaefni sem passar í þessar ferköntuðu dósir og tekur á mót venjulegum tenglum. Svo er líka hægt að leysa þetta með fjöltengjum. Það eru til í Byko og víðar fjöltengi með ítalskri kló og venjulegu á hinum endanum. Gangi ykkur vel í þessu frábæra verkefni á Skaganum. Er kominn norður aftur eftir tæpa þrjá mánuði á Skaganum og þetta var frábær tími.

Haraldur Bjarnason, 3.9.2008 kl. 20:40

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Flott hjá þér að verða svona stuðnings"aðili", set aðili í gæsalappir þar sem það er eitt leiðinlegasta orð sem ég þekki fyrir utan Stór-Reykjavíkursvæðið, líftími og staðsettur. Fyrirgefðu að ég skuli nöldra á blogginu þínu. En ég veit að þessari fjölskyldu er ekki í kot vísað að hafa þig á sínu bandi.

Helga Magnúsdóttir, 3.9.2008 kl. 20:43

4 Smámynd: Þröstur Unnar

Já, tók einmitt eftir aðdáunarverðri stillingu þinni og fjarlægðar sem myndaðist á milli okkar þegar þú horfðir á ennið á mér.

Þessu er nánar lýst á mínu einkabloggi.

Var prinsinn að missa af hljómleikum með Queen, eða hvað?

Þröstur Unnar, 3.9.2008 kl. 20:57

5 identicon

Viðar, Heimir þessi kýs að misskilja. Hann getur ekki verið þetta heimskur maðurinn, hann er greinilega bara fylgjandi ofbeldi gagnvart konum. Mikið er ég fegin að hafa ekki fundð mér svona mann eins og Heimi þennnan.

Hallveig (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 21:11

6 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Sammála þér Helga þetta eru hortittir í íslensku máli eins og Árni Böðvarsson sagði við mig einu sinni: Aðili, aðstaða, magn, staðsetning...og einhver fleiri orð sem Árni nefndi en hann var þá málfarsráðunautur útvarpsins og sagði við mig nýgræðingin á RÚV fyrir um 20 árum að svona lagað vildi hann ekki heyra í útvarpi. Öll þessi orð eru óþörf og það þarf ekki annað en strika þau út og lesa svo setninguna. hún hefur sömu merkingu á eftir. Ekki svo að ég sé að pirrast eitthvað út í Gurrí fyrir að slá þessu fram. Það er margt annað sem líka er athugavertí fjölmiðlum í dag: td. nafnorðamyndun og þar með færri sagnorð notuð og líka endalaus notkun á nafnhætti, eins og hjá íþróttafréttamönnum "Þeir eru ekki að standa sig í vörninni" í stað: "Vörnin stendur sig ekki". Svo væri endalaust hægt að tala um stofnanamálið, t.d. fleirtölumyndun: "Verðin," "Álög," "Flug" í stað flugferða. Svo fara menn að beygja þetta og lenda í álögum og mörgum flugum. - Fyrirgefðu Gurrí, en málfræðitíma er lokið.   

Haraldur Bjarnason, 3.9.2008 kl. 21:29

7 Smámynd: Jens Guð

  Haraldur,  hvaða orð er hægt að nota í staðinn fyrir stuðningsaðili?

Jens Guð, 3.9.2008 kl. 21:51

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Haraldur og Helga...  haldið endilega áfram! Það er aldrei ofrætt um góða íslensku og vitleysan aldrei ofleiðrétt. Ég er viss um að Gurrí er sammála.

Annars virðist stefnumótamynstur Gurríar og Þrastar vera að taka á sig mynd. Fyrst var það mjólkurkælirinn í stórmarkaðnum en nú eru þau komin í rómantískara og líklega minna umhverfi, þ.e. Einarsbúð.

Endar þetta með því að Gurrí kaupir bláa myndavél?

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.9.2008 kl. 21:53

9 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Jens, til dæmis: Þessir veittu stuðning. Eða stuðning veittu. Eða stuðningsfólk eða stuðningsmenn, þetta er jú allt fólk sem stendur að þessu, engir aðilar. Fleiri dæmi eru til - Takk fyrir Lára Hanna en ég vil taka fram að þótt við Helga höfum ráðist með þessu málfarsofforsi inn á síðu Gurríar þá á hún allt gott skilið. Málfarið er hjá henni er til fyrirmyndar. Þetta með stefnumót Þrastar og Gurríar í Einarsbúð er merkilegt. Ég fór daglega í Einarsbúð í þessa þrjá mánuði sem ég var á Akranesi í sumar og rakst aldrei á Gurrí.

Haraldur Bjarnason, 3.9.2008 kl. 22:17

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þrír mánuðir nægja ekki, Haraldur! Biddu fyrir þér. Gurrí er engin glyðra sem stekkur til og hittir hvern sem er sem drepur niður fæti á Skaganum. Ekki aldeilis!

Hún var búin að búa á Akranesi í tvö ár eða svo þegar hún loksins sló til og átti stefnumót við Þröst við mjólkurkælinn í stórmarkaðnum (Krónunni?). Svo er Gurrí þjóðkunn kona og tekur ekki áhættuna á að ljósmyndarar Séð(s) og heyr(t)ðs (hvernig í fjáranum beygist þetta?) liggi í leyni og komi upp um stefnumótin hennar. Þess vegna fara þau fram í dagvöruverslunum.

Ég efast um að Gurrí taki málfarsumræðuna til sín - enda nákvæmlega engin ástæða til þess. Eins og þú segir réttilega er málfarið hjá henni til mikillar fyrirmyndar.

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.9.2008 kl. 22:25

11 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Lára Hanna ........Hún var auðvitað alltaf í strætó þegar ég fór á morgnana að versla morgun næringuna hjá henni Ernu frænku minni ( sem er á myndinni).

Haraldur Bjarnason, 3.9.2008 kl. 22:32

12 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Er alsæl með alla málfarsumræðu, segi bara bestu þakkir!

Og takk fyrir ábendinguna með rafmagnstenglana, þetta er örugglega hárrétt hjá þér, Haraldur, og rugl hjá mér að þetta sé amerískt dæmi. 

Lára Hanna, held að samband okkar Þrastar sé að færast á annað stig. Ég sagði ekki frá tveimur stefnumótum í fatahreinsuninni á innan við viku núna í kringum afmælið mitt ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.9.2008 kl. 23:17

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hamingjan góða, Gurrí! Þetta er að verða alvarlegt... Næst kyssirðu á meiddið (sá að þú lofaðir því) og hvað gerist þá? Eru margar fleiri verslanir og/eða hreinsanir á Akranesi eða færist leikurinn inn í Skrúðgarð og síðan á veitingahúsin?

Þetta er að verða næstum eins spennandi og Boldið... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.9.2008 kl. 23:23

14 Smámynd: Haraldur Bjarnason

.....en Gurrí hvernig eru svo myndirnar úr bleiku myndavélinni?  Heldurðu að þú hefðir átt að kaupa bláa?  ....veit ekki!!!

Haraldur Bjarnason, 4.9.2008 kl. 00:09

15 Smámynd: Anna Ragna Alexandersdóttir

Mundu bara að myndirnar verða ekki bleikar né bláar

Anna Ragna Alexandersdóttir, 4.9.2008 kl. 00:38

16 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mér virðist sem að hún Gurrí  sé að meyrna með nýháaldrinum.  Hún er hætt að vera í biðilzbuxum við mjólkurkælinn, segir bara hæ við bloggvininn, & tekur undir það að fólk af öðrum trúarbrögðum eigi að berja konuna sína utan sameiginlegra bílastæða.

Haraldur mælir líklega rétt, með ítölzku klærnar, en 'ammerízkt' var líka í gangi áratuginn fyrir & þá er (í)dráttur í augzýn hjá minni.

Málfar Zmálfar ...

Steingrímur Helgason, 4.9.2008 kl. 00:43

17 Smámynd: Sigurjón

Haraldur: Þú ferð ekki og verzlar eitt eða neitt.  Þú einfaldlega ferð og verzlar.  Þú aftur á móti kaupir morgunnæringuna (sem er eitt orð).

Sigurjón, 4.9.2008 kl. 01:04

18 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hárrétt Sigurjón..féll í slæma gryfju..en hins vegar getur orðið versla átt við okkur Ernu frænku mína því oft í gegnum tíðina höfum við skipst á einhverju og það er að versla (Z var lögð niður um árið....)... ég held samt að ég hafi alltaf greitt fyrir vörurnar núna. Vöruskipti (verslun) voru algeng í mínu ungdæmi. - Skoðaðu aðeins söguna Sigurjón!

Haraldur Bjarnason, 4.9.2008 kl. 01:29

19 Smámynd: Sigurjón

Jú, mikið rétt Haraldur.  Þið hafið þá verzlað með hluti, eins og þú réttilega bentir á.

Afnám zetunnar var slíkt hryðjuverk á ritmálinu að ég get ekki viðurkennt tilvist þess.  Blæbrigði málsins hafa beðið hnekki eftir að það spellvirki var unnið og mótmæli ég því, einkum með því að nota blessaða zetuna.

Sigurjón, 4.9.2008 kl. 05:17

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er innilega sammála Sigurjóni hvað zetuna varðar! Það var mikið hryðjuverk að afnema hana úr ritmálinu og varð það mun fátækara fyrir vikið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.9.2008 kl. 10:52

21 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Já, það er þetta með setuna. Maður lagði þvílíkt á sig við að læra zetureglurnar og var ekki fyrr komin með zetuna á hreint en hún var aflögð. Svekkelsi aldarinnar.

Helga Magnúsdóttir, 4.9.2008 kl. 11:35

22 identicon

sponsor....

alva (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 11:54

23 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Sá þig í dag með stórt umslag ganga inn til Einars - fór á eftir þér en þú hvarfst eða gufaðir upp! Það er nú meira hvað þessi verslun er farin að hafa mikil áhrif á þig!

Edda Agnarsdóttir, 4.9.2008 kl. 18:38

24 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ljómandi skemmtileg lesning, hérna líka gott og skemmtilegt fólk að tjá sig greinilega!

Og hví í dauðanum ætti nú ekki einhver snjall grínistin að henda þessa hugmynd sem Lára Hanna elskuleg var eiginlega búin að koma með, að skrifa bara eina lauflétta "Sápu" um Þröst og Gurrí!? Alveg gráupplagt efni sýnist mér á öllu!

Og svo þetta sem Edda kom með síðast, er bara gott innlegg til að sveipa sápuna dulúð!

En vhað varðar hina ýmsu "aðila" og það orð, þá er annað sem´merkir hið sama líka til og öllu skemmtilegra, hið samsetta HLUTAÐEIGANDI!

Magnús Geir Guðmundsson, 4.9.2008 kl. 21:19

25 Smámynd: Þröstur Unnar

Edda, þessi verslun hefur mikil áhrif alla Skagamenn, sem og aðra "aðila" með sumarheimilin aftaní slyddujeppunum.

Magnús Geir, það er raunveruleikaþáttur í gangi en það hefur ekki enn fundist hlutaðeigandi skrásetjari.

Þröstur Unnar, 4.9.2008 kl. 22:13

26 Smámynd: www.zordis.com

Grillir í brúðkaup?  Ætlar Þröstur að kaupa Gurrí í Einarsbúð eða mun hann hafa vöruskipti

www.zordis.com, 5.9.2008 kl. 10:39

27 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hehe, Zordis fyndin og Þrösturinn syngjandi líka! En raunveruleikaþættirnir eru svo fjári leiðinlegir nema kannski Ozzy, sápan myndi henta betur.

Magnús Geir Guðmundsson, 5.9.2008 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 177
  • Sl. sólarhring: 344
  • Sl. viku: 869
  • Frá upphafi: 1505876

Annað

  • Innlit í dag: 143
  • Innlit sl. viku: 709
  • Gestir í dag: 137
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband