30.6.2023 | 00:00
Örlagarík gleymska og sumarkvöldin fjögur
Neyðarástand ríkir í himnaríki, alla vega hjá stráksa því ég steingleymdi að panta Eldum rétt-skammtinn fyrir næstu viku, frestur var til miðnættis í gær. Smáséns var víst að panta ákveðinn pakka (sígilda, vegan, fisklausa osfrv) í dag en mér fannst eitthvað hnetu-, döðlu-, rúsínu- og möndlulegt í þeim öllum. Og nei, við ungi maðurinn munum ekki borða tilbúna örbylgjurétti í staðinn. Við fengum eiginlega nóg af öllu slíku árið 2020 þegar himnaríki var snurfusað í tætlur sem þýddi skort á eldhúsi nokkra óralanga daga ... vikur? (Sjá átakanlega mynd frá 2020)
Hvað heldurðu eiginlega um mig, ungi maður? Að ég geti ekki eldað sjálf, án Eldumrétts? Réttlát reiðin kraumaði í mér en mér tókst að stilla mig um að hækka raustina. Naumlega.
Jú, sko, en, þú veist, já ... stamaði hann og reyndi að láta líta út fyrir að hann væri lafhræddur við mig. Kannski eldar þú Eldum rangt? sagði hann í gjörsamlega misheppnaðri tilraun til að vera fyndinn.
Ertu að segja mér að þessi stjörnukokkur þarna, Snorri eitthvað hjá ER sé betri kokkur en ég? Hvernig dirfistu!
Næsta vika fer í að sanna þetta fyrir honum. Ég þarf að laumast í fiskbúðina á mánudaginn og velja flottasta fiskréttinn hjá Skagafiski og láta líta út fyrir að ég hafi gert hann frá grunni. Ég hef ekki hugsað þetta mikið lengra en spurning um að fá kokk af Galito eða Holtinu ... úff, þetta er flókið.
Ég gerði ákveðna tilraun síðast og pantaði tvo venjulega rétti (annan fisk, hinn með nautahakki) og tvo veganrétti. Fyrri vegan var í kvöld og var nokkuð vel tekið til matar síns en stráksi fór í grunsamlegan göngutúr skömmu eftir mat. Þetta var bara ágætt, takk fyrir mig, hljómaði svolítið falskt og hann hafði fengið sér frekar lítið á diskinn. Hann er svo mikill kjötkarl. Sonur minn, elskan hann Einar, var ekki sérlega hrifinn (kannski 3-4 ára fyrst) þegar ég reyndi að gera hann að grænmetisætu (a.m.k. 1x-2x í viku). Önnur amma hans hafði nefnilega náð að spilla honum og kennt honum að meta og elska rauðmaga, grásleppu, hákarl, hval, siginn fisk, reyktan fisk, nætursaltaðan fisk, súran þorramat og bara allt þetta sem martraðir mínar myndu snúast um ef mig dreymdi einhvern tímann mat. Tilraunir mínar þarna í denn tengdust eiginlega bara linsubaunum, mér fannst þetta voða gott en hann kúgaðist.
Írskir dagar eru ALVEG að hefjast, við tökum alltaf svolítið forskot á sæluna á fimmtudeginum, nema ég sem var að vinna, og morgundagurinn, föstudagur ... allir með götugrill nema mín gata, svo ég held að laugardagur verði okkar stráksa dagur. Mögulega fer ég í brekkusönginn á hlaðinu um kvöldið, veit að drenginn langar mikið, en það yrði þá í fyrsta sinn hjá mér. Ég er svolítið eins og Akranes, sem tapar stundum á því að vera svona nálægt Reykjavík.
Já, og þar sem hungurvikan mikla (án E.R.) verður eiginlega hafin á laugardeginum býst ég við að við kíkjum á matarvagnana á Akratorgi, Silli kokkur (þótt hann sé giftur) verður sennilega fyrir valinu hjá mér. Það verður markaður fyrir utan hjá Kaju, var ansi skemmtilegur í fyrra og ábyggilega ekki síðri í ár. Vona að franski sjampósölumaðurinn (sjampó í sápustykkisformi, sjúklega góð lykt) verði þarna aftur í ár.
Fólk er farið að gantast með veðrið (sumarkvöldin fjögur) og hætt að gráta. Flestir eru sem sagt farnir til heitari landa, eins og hluti af fjölskyldu minni. Ég hef sama og ekkert heyrt eða séð til þeirra í dag svo þau liggja pottþétt fyrir, hálflömuð í þrjátíu gráðunum og hafa leitað skjóls inni þar sem þau eru að lesa / hlusta á hljóðbók og með viftu á hæsta. Jafnvel með kaffi og súkkulaði í grennd. Ætli sé gott kaffið úti í Grikklandi? Þarf alltaf að vera vín? sendi ég þeim reyndar góðlátlega í fyrradag á snappinu (að gefnu tilefni) en þá var þetta víst bara Seven up, rauðrófusafi og pilsner sem þau höfðu verið að drekka með matnum.
Gervigreind komin til starfa hjá heilsugæslunni, var forsíðufrétt greinar á netinu. Ég nennti ekki að lesa greinina þótt mér sé ekki sama um gervigreind og haldi að hún geti verið skaðleg ef ekki verður að gáð, ekki síst upp á falsfréttir og slíkt ... Einn daginn kemur svo að því að þráðlausu sláttuvélmennin taki yfir heiminn.
Alltaf þegar ég segi: Hei, ættum við ekki að hafa plan B líka, í stað þess að hoppa alltaf á eitthvað voðalega sniðugt og henda því sem var fyrir og virkaði mjög vel? þá segir einhver flissandi: Iss, þú ert bara of gömul til að tileinka þér nýjustu tækni. Ég ætlaði t.d. að taka þátt í ákveðnu verkefni ásamt fleirum, eftir vingjarnlegt símtal, en svo allt í einu var það komið í eitthvað samskiptaforrit eða app (sem ég hef aldrei séð eða heyrt um fyrr eða síðar). Ég fékk hlekkinn samt sendan á ógeðslega gamaldags hátt, eða í tölvupósti en næ engu sambandi, sama hvað ég reyni að ýta og pota (allt á tækniensku auðvitað) svo ég dró mig bara í hlé, nennti þessu ekki, hef ekki tíma. Held að ég sé orðin of sein (allir komnir í sumarleyfi) til að láta YouTube kenna mér á appið, var að muna eftir þeim möguleika. Það er ALLT á YouTube. Ekki bara tónlist, heldur alls konar spennandi myndbönd um allt á milli himins og jarðar. Ég held meira að segja, eftir smákíkk þangað, að jörðin sé flöt (sjá stórmerkilega sönnun á mynd 3).
En ... þessi fyrrnefndi einhver mun sko hætta að hlæja þegar Pútín ræðst á innviði okkar, rafmagn, net og bara allt, til að refsa Þórdísi okkar Kolbrúnu fyrir að dirfast. Heimasímar fyrir risaeðlur ganga t.d. bara fyrir rafmagni nú til dags og eru því ekki lengur öryggistæki (Ég er með minn enn bara af því að það fylgir frítt í pakkanum). Ég bloggaði ábyggilega um það þarna þegar ég viðraði þetta við vinkonu mína (tölvuséní með meiru) sem sagði: Þú skalt ekki gera grín að þessu, ég var að koma af alþjóðlegri tölvu- og tækniráðstefnu þar sem akkúrat þetta kom upp, og slík árás er mjög svo gerleg. Ekki alveg orðrétt hjá mér kannski en nálægt því.
Eru transistor-útvörp enn til og myndu þau virka ef ég t.d. tengdi eitt slíkt við app?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2023 | 18:30
Tölvuraunir, hárgreiðslubiðlistar og fögur ferðaplön
Sálumessa Mozaars hljómaði úr tölvunni minni í dag. Vel við hæfi því mér fannst um tíma að ég komin á grafarbakkann. Fékk nefnilega boð um Teams-fund sem var ákveðinn í morgun, og var búin að steingleyma hvernig átti að bregðast við. Í raun átti ég bara að ýta á hlekkinn með boðinu, svo á GESTS-hnappinn og bíða eftir að mér yrði hleypt inn. Af hverju voru þá í boði milljón aðrir möguleikar (á ensku auðvitað); að hlaða niður appi, að skrá sig inn með netfangi og lykilorði (ég var byrjuð á því) og eitthvað fleira sem ruglaði. Vissulega gerði sonur minn mig ansi hreint ósjálfbjarga með því að segja iðulega: Ég skal gera þetta fyrir þig - hann aðstoðaði mig við allt sem viðkom tölvu og gemsa, enda ansi klár á því sviði. Það var þægilegt að geta keypt sér síma og þurfa ekki sjálf troða öllu efninu úr þeim gamla yfir í nýja. Nú er það fólkið í símabúðinni sem fær þann heiður að hjálpa mér - ég reyni að kaupa allt í heimabyggð (Akranesi) og upplifi mikil liðlegheit alls staðar. Svo tengist þetta tölvugetuleysi ekki aldri, vinkonur mínar og jafnaldrar eru sannkallaðir haukar í horni þegar þarf en flestar svo langt í burtu (Reykjavík). Það var reyndar viss frændi í Búdapest sem sagði mér hvernig ég ætti að komast inn á Teams núna. Á hvað á ég að ýta? spurði ég og sendi honum um leið skjáskot af fundarboðinu.
OK, svaraði hann.
Það er ekkert OK þarna, á ég kannski að ýta á YES?
Já, svaraði hann þreytulega.
Teams-fundir síðan á tímum covid voru löngu gleymdir. Ohh, saknið þið ekki grímunnar? (Djók, en ekki djók, besti hrukkubani (-hyljari) sem ég hef prófað).
Mynd: Ég hef aldrei getað tengt mig á svona Teams-fundi í tölvunni, bara gemsanum. Og þetta er ekki svona einfalt eins og myndin gefur í skyn. Það er brjáluð vinna að láta þetta ganga almennilega, ogekki hafa allir vit á því að hafa almenntilegt kaffi í bollanum.
Drengurinn fór í klippingu seinnipartinn í dag, hann er ofsaflottur. Gísli rakari er svo snjall með skærin. Ég pantaði tímann fyrir drenginnn í gær. Sjálf sit ég hérna eins og vélsagarmorðingi með raflost og enn eru vikur þar til kemur að mér í klipp og lit. Jú, ég er á biðlista. Það er gott að vera hulin regnstakki með hettu þessa dagana, líka á heimilinu til að sýna drengnum tillitssemi og mögulega þeim gestum sem enn leggja í að koma. Sendlar eru farnir að skilja sendingar til mín eftir í næstu götum. Ég fæ ágæta hreyfingu út úr þessu, ef ég lít á björtu hliðarnar - sem er samt flókið því ég sé varla út úr augunum. Ahhh, nú skil ég af hverju enginn þorði að mótmæla mér á Teams-fundinum ... samt reyndi ég að greiða mér.
Glasgow-ferð er fyrirhuguð seint í haust og þá er þetta í annað skipti á ævinni sem ég fer tvisvar til útlanda á sama árinu. Í fyrra skiptið var það 2018; París í febrúar og Orlando í desember þar sem við stráksi fórum í vikuferð með skemmtiferðarskipi, í boði vina og vandamanna vegna stórafmælis, vorum sjö alls og þetta var dásamlegt. Í ár eru það sem sagt Liverpool í apríl sl. og Glasgow nú í október. Geri aðrir betur. Svo tek ég mér eflaust nokkurra ára pásu frá ferðalögum. Mér hefur skilist á vinafólki að Glasgow sé hreint og beint æðisleg borg, falleg og skemmtileg. Vonandi keypti Hilda óvart miða fyrir okkur á Saga Class. Hvað heitir aftur visa-kortið þar sem maður getur fengið uppfærslu þangað fyrir ekki svo mikinn pening, ef er pláss? Það tekur því kannski ekki fyrir mig að fá mér kort sem safnar flugpunktum ef ég ætla í ferðapásu. Núna er hluti ættingja minna í Grikklandi og ég hef einlæga samúð með þeim ... þrjátíu stiga hiti og logn. Hryllingur í mínum huga. Þau virtust samt svo ánægð í hitamollunni ... ef eitthvað er að marka Snapchat. Sendi þeim alla vega hugheilar kveðjur með ósk um góð sólgleraugu, sólarvörn og flugnafælur. Fussum svei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2023 | 17:34
Erfið leit að sumarhúsi ...
Á vordögum skruppu vinahjón mín út á land til að skoða hús. Þau langar svooo mikið í sumarhús nálægt hafi* (*bless, lúsmý, hæ, útsýni) og ekki allt of fjarri höfuðborginni. Þau hafa skoðað nokkur en enn ekkert fundið sem þau hentar óskum þeirra. Þarna í vor ríkti mikill spenningur hjá þeim, þau héldu að þau hefðu fundið það rétta, gamalt hús sem stóð kannski ekki alveg við sjóinn en það sást til hafs úr einum glugga (hver pældi í útsýni í gamla daga?) og var staðsett á fínum stað.
Það voru eldri hjón sem sýndu þeim staðinn og konan hafði orðið, hann var þögull, tók varla undir þegar honum var heilsað. Þarna fyrst horfði hún fast á vinkonu mína og sagði: Ég kannast eitthvað við þig, við höfum örugglega hist. Vinkona mín leit á hana, brosti og kvaðst vera sérlega ómannglögg. Síðan hélt hún áfram að horfa í kringum sig, það var nú ekki mjög ljótt umhverfið þarna í sveitinni. Þá gall við í konunni sem var sannarlega ekki búin: HORFÐU Á MIG ÞEGAR ÉG TALA VIÐ ÞIG! Vinkona mín - ef ég þekki hana rétt hefur hún ábyggilega átt erfitt með að stilla sig um að fara að hlæja - svaraði rólega: Ég kannast því miður ekki við þig. Eigum við ekki að drífa í að kíkja á húsið?
Mynd I: Draumasumarhús við hafið eru vandfundin. Það efra er á Íslandi en hitt í útlöndum ... Samsetning: GH sjálf.
Húsið var á tveimur hæðum og hafði sennilega ansi lítið, ef nokkuð, verið gert fyrir það frá því það var byggt fyrir áratugum, hvorki að utan né innan. Gamall, lítill og þröngur sveitabær sem hafði verið notaður sem sumarhús síðan afi konunnar dó fyrir löngu, en nú átti að selja - og það fyrir ansi hreint margar milljónir.
Húsið virkaði ónýtt, eða krafðist gífurlega dýrra og mikilla viðgerða. Ekkert hafði heldur verið gert til að gera það söluvænlegra, ekkert málað, engin blóm í vasa, það var eiginlega allt í drasli og frekar subbulegt. Millurnar áttu mestmegnis að vera fyrir lóðina í kring sem ekki var þó sérlega stór. Konan reyndist gamall kennari, og greinilega ekki búin að gleyma töktunum. Maðurinn hennar stóð þögull hjá henni allan tímann og virkaði meira eins og lífvörður hennar. Kannski veitti ekki af.
Eftir að hafa séð vonbrigðin inni, að það var ekki einu sinni einn gluggi uppi sem sneri að sjó og bara einn, lítill búr- og miðstöðvargluggi á neðri hæðinni með sjávarútsýni - allir gluggar svo sem gjörónýtir - skoðuðu þau sig um úti. Gengu út að sjó, í 5-10 mínútna fjarlægð frá húsinu, konan nennti ekki með þeim og maðurinn hennar var kyrr og gætti lífs hennar þar. Það var sérlega fallegt þarna við sjóinn og á leiðinni mátti sjá gamla skemmu sem þau urðu áhugasöm um. Kannski fylgdi hún í kaupunum ... Skemman stóð uppi á hæð og frá henni var óhindrað sjávarútsýni og sennilega miklu ódýrara að gera sér bústað þar, úr skemmunni eða rífa hana og byggja nýtt. En þegar þau spurðu konuna um skemmuna sagðist hún ætla að halda henni sjálf. Það væri bara gamla íbúðarhúsið sem ætti að selja, og lóðin í kringum það. Annað á landareigninni, stöku sjúskað útihús og nýlegra íbúðarhús, yrði áfram í eigu hennar og ættingja hennar.
Hún talaði látlaust ... um húsið auðvitað á meðan hún sýndi það, hvað það hefði verið gaman að dvelja þarna á sumrin hjá afa og ömmu, ágang ferðamanna, kennsluna, hún var víst frábær kennari, sagði hún, og svo þarna í blálokin sagði hún við vinkonu mína: Ahhhh! Ég man núna hvar við hittumst, það var á fæðingardeildinni þegar ég átti mína yngstu, við lágum á sömu stofu fyrir bráðum fjörutíu árum.
Vinahjón mín þökkuðu fyrir sig og kvöddu. Þau voru orðin magnvana af þreytu eftir þessa tveggja tíma skoðunarferð. Datt þeim í hug að kaupa gamla húsið? Nei.
Talandi um sjávarútsýni. Ég ók í gegnum litla raðhúsabyggð um daginn, hún stendur við hafið í meðalstórum kaupstað. Og nei, stofugluggar húsanna voru ekki glenntir yfir sjóinn, eins og flestir myndu halda, heldur höfðu sumir bílskúrarnir sem fylgdu, enn betra sjávarútsýni en sjálf húsin! Mér hefur skilist að ekki sé við arkitekta að sakast í svona tilfellum, heldur þá sem byggja. Allt þarf að vera hagkvæmt og gróðavænlegt og því er teikningum breytt til að ná því, þá á kostnað útsýnis. Vér landsmenn höfum svo sem ekki kunnað að meta sjávarútsýni lengst af. Grandinn, frá JL-húsi að Seltjarnarnesi, var einu sinni fullur af verksmiðjum, skólphreinsunarhúsum og slíku, og að sjónum sneru nánast bara eldhúsgluggar fjölbýlishúsanna þar. Af hverju þessi þráhyggja um að stofur verði að snúa í suður? Til að fólk skipti oftar um sófasett því sólin upplitar?
Fyrsti laskaði Eldum rétt-rétturinn varð að veruleika nýlega. Ég haga mér orðið eins og þaulvanur, hraðvirkur kokkur við eldamennskuna, gríp kryddin (salt og pipar), krydda matinn og er bara ansi fagmannleg. Hélt ég. Gerði fínan og flottan kjúklingarétt um daginn og með honum áttu að vera sætkartöflubitar eldaðir í ofni. Eitthvað sem við stráksi elskum bæði. Ég átti að salta og pipra en gerði þau mistök að taka chili-staukinn (með malara) í stað pipars, voru hlið við hlið og alveg eins staukar. Pipar er góður og ég ekki vön að spara hann sérstaklega ... og útkoman var ansi hreint bragðsterk. Nú fær chili-staukurinn ekki framar að líta dagsljós og er kominn inn í skáp. Stráksi var áberandi lystarlaus þetta kvöld en ég lét mig hafa það að borða nokkrar ...
Mynd II tengist textanum ekki beint.
Ég færði mig á YouTube-tónlistarveituna um árið í því skyni að dissa Joe Rogan og Spotify. YouTube-veitan er fín og í raun mjög lík Spotify, einföld og meira að segja færri auglýsingar, en henni fylgja líka gallar ... Hún hefur upp á síðkastið reynt að troða upp á mig hroðalegum útgáfum af uppáhaldslögunum mínum. Alltaf þegar ég er búin að hlusta á tónlistina sem ég valdi sjálf (síðast Stabat Mater eftir Pergolesi, þar áður Atom Heart Mother með Pink Floyd) býr veitan til framhaldslagalista eftir tónlistinni sem ég hef hlustað mest á í gegnum tíðina. NEMA HÚN VELUR stundum aðrar útgáfur laganna, ábreiður eða tónleikaútgáfur sem fellur ekki í kramið hjá mér. Það má bara ekki breyta upprunalega Carpet Crawlers með Genesis - en ég myndi að sjálfsögðu lifa það af ef ég væri sjálf stödd á tónleikunum. Ég tel mig búa yfir ágætis aðlögunarhæfni og þoli breytingar nokkuð vel - sumar, ekki allar. Í þessum skrifuðu orðum spilar YouTube fyrir mig lag með Kent ... If you were here. Fínasta rokklag, en ég var í stuði fyrir klassík og valdi þess vegna Stabat Mater. Kannski vill veitan að ég klári að brjóta saman handklæðin sem ég þvoði í gær og þurfi stuðmúsik til þess. Ég er jú margbólusett og því auðvelt að njósna um mig og stjórna mér ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2023 | 15:13
Kirkjukaffi, útgáfa bókar og sum refsiglöð húsfélög
Sautjándi júní fór fram með hefðbundnu sniði hér á Akranesi og að vanda var kirkjukaffið langflottasti viðburðurinn. Guðrún von Kópavogur kom í heimsókn og snæddi gómsætar tertur með okkur þar. Hitti þarna margt frábært fólk að vanda, enda einn helsti viðburður samkvæmislífs sumarsins, ef frá er talið Norðurálsmótið (um komandi helgi) og Írskir dagar (næstu helgi á eftir). Þarna var m.a. hann Þorvaldur, stundum kenndur við Albaníu, sem var með systur sinni og móður. Það urðu fagnaðarfundir, eins og venjulega. Valda hef ég þekkt lengi, hann aðstoðaði mig við að skrifa mikilvæga ræðu snemma á níunda áratug síðustu aldar. Hann leikstýrði Hlaupvídd sex, þar sem ég vann auðvitað leiksigur (afsakið þingeyskuna) sem Áslaug, eina konan sem ekki var í Kananum og fleira og fleira. Ég sá líka fallega barnabarnið hennar Guðfinnu og náði að þakka Ástu Salbjörgu innilega fyrir að hafa komið svörtum örvæntingarfullum ketti til bjargar með því að halda honum hjá sér og kalla til Villiketti á Vesturlandi. Sá svarti reyndist vera frá Hafnarfirði og hafði verið týndur í þrjá mánuði - hvernig hann komst á Skagann er ráðgáta.
Mynd, eða það gerðist ekki, fékk ég að heyra í einni áskoruninni um að birta mynd af nýju viftunni, bestu vinkonu minni þegar úti er heitt. Hún er í gangi núna, óbærilegar tíu, ellefu gráður hérna við suðurgluggann. Ef myndin prentast vel má sjá Reykjavík á milli viftunnar og lampans.
Auðvitað var ég ekkert búin að gleyma öllu sem gerðist frá þarsíðasta bloggi og til bloggsins í gær, eins og ég bullaði þar, mikill stórviðburður átti sér stað í Eymundsson í Smáralind fyrr í þessum mánuði. Þá kom út bók sem við skrifuðum saman, við Margrét Blöndal, sú dásemdarkona sem ég kynntist árið 1986 þegar við unnum báðar á Rás 2. Bókin segir sögu ellefu innflytjenda, virkilega magnaðar sögur. Bókin er á góðri siglingu sem gleður mikið. Síðast þegar ég gáði var hún í sjöunda sæti af öllum bókum og í öðru sæti í sínum flokki. Þarna er m.a. viðtal við konu frá Úkraínu sem hefði eflaust aldrei komið hingað nema vegna stríðsins, kom ólétt með tveggja ára barn, læknir sem vinnur nú við aðhlynningu og líkar það vel, að sögn. Ótrúleg sagan hennar og líka aukasagan í henni, um Úkraínumanninn fyrir norðan sem fær mig til að halda að Akureyringar séu besta fólk í heimi. Dásamlegur dansari frá Kúbu, Grímuverðlaunahafi, sem er alveg jafnheillaður af veðrinu og landslaginu og pólska bankakonan sem ákvað að flytja hingað eftir að hafa komið í stutta heimsókn til Íslands, það eina sem hún gat sett út hér á voru erfiðleikarnir við að finna út hvar og hvernig hún gæti lært íslensku. Og lyfjafræðingurinn frá Makedóníu sem elti ástina hingað, lærði hjúkrun við HA og hefur verið að gera ansi góða hluti í heimabæ sínum. Konan frá Bosníu sem var ellefu ára þegar Júgóslavíustríðið skall á og lífið fór á hvolf ... hámenntuð og dýrmæt fyrir Ísland eins og svo margir nýir Íslendingar sem flytja hingað og leggja svo mikið af mörkum. Það var frábært að vinna með svona skemmtilegu fagfólki sem kom að þessari bók (Magga og Drápufólk taki til sín) og kynnast þeim viðmælendunum sem ég var svo heppin að fá í minn hlut.
Ég sá umræðu á Facebook í gær um sérstaka vinnudaga í fjölbýlishúsum þar sem þess er krafist að ALLIR mæti ... annars eru lagðar sektir á, fimm til tuttugu þúsund kr. á þá sem voga sér að vera veikir, fatlaðir, bakveikir, keyptu sér blokkaríbúð af því að þeir hata garðvinnu, er í útlöndum (eða latir sem ættu það helst skilið) ... og svo framvegis. Við höfum haft svona vinnudag hér í himnaríkishúsinu (ekki árlega þó) en hér ríkja engar öfgar. Held að við höfum langflest mætt, það var svo sem enginn að telja. Þetta var ekki haldið eldsnemma á laugardagsmorgni, heldur klukkan ellefu, minnir mig. Það er sko glaða úthverfa, hressa og garðyrkjuelskandi fólkið sem skipuleggur svona daga, held ég, sem geta verið algjör pína fyrir glaða, innhverfa liðið sem er ekki hrifið af hatar garðyrkju, þar er ég. En hví að refsa? Væri ekki betra upp á móralinn í húsinu að auglýsa svona dag og hvetja fólk til að mæta en það geti sleppt því ef það borgi t.d. fimm þúsund krónur eða útvegi manneskju fyrir sig. Það er auðvitað fúlt að þetta bitni alltaf á sama duglega, hressa fólkinu en það er refsigleðin sem virkar illa á flesta. Mér myndi finnast fínt að hafa val, borga eða mæta, en myndi mæta af því að það er svo gaman - þótt ég hati alla garðvinnu. Ég hótaði því síðast að ef ég væri að drepast í bakinu, eins og kemur fyrir, myndi ég baka vöfflur ofan í liðið í staðinn fyrir að koma út. Sýndist á svipnum á fólkinu þegar ég mætti að það hefði frekar viljað bakverk og vöfflur.
Ef ég flyt einhvern tímann í aðra blokk (as if) mun ég tékka vel á svona siðum áður en ég kaupi. Það eru margar blokkir hér á Akranesi en ein er víst alræmd fyrir boð og bönn, það má bókstaflega ekkert, börn mega ekki einu sinni leika sér úti á lóðinni, skilst mér. Vona samt að þetta sé ýkjusaga. Það skiptir eflaust máli hvernig stjórnin er skipuð, hvort þetta eru herptir handavinnupokar eða venjulegt fólk. Held að næsti vinnudagur hér verði þegar Bjargey man eftir að kalla á mig og við förum saman í að þrífa ruslatunnurnar með háþrýstislöngunni hans Vals ... ef Valur verður þá ekki búinn að því sjálfur ...
Vinkona mín sem missti heilsuna eftir mygluhrylling, bjó í svona reglublokk í Kópavogi og fékk einmitt væna sekt fyrir skróp á útivinnudegi, reikning sem beið hennar þegar hún kom heim eftir dvöl á Reykjalundi eða Heilsuhælinu í Hveragerði. Hún hafði engan til að mæta fyrir sig.
En ... ég get auðvitað ekki lagt dóm á öll húsfélög og veit ekki um alla mislötu íbúana, ég er vissulega heppin með mína blokk og vinkona mín óheppin með sína fyrrum blokk, en sama hvernig íbúar eru innréttaðir held ég að valið sé alltaf betri kostur en refsingin.
Myndin hér að ofan var tekin af mér á síðasta vinnudegi húsfélagsins, þar sem ég var að setja allt í excel, skipta verkum, alveg niður í hver myndi nenna að taka til niðri á Langasandi, hver vildi skúra þyrlupallinn, mála bílastæðið bleikt (það var 19. júní þennan dag). Þetta var algjört púl og þegar ég var við það að klára ... var ofvirka liðið mitt búið með tiltektina á lóðinni og allir komnir inn. Ég fékk sáralítið, nánast ekkert þakklæti fyrir vinnuframlag mitt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2023 | 15:32
Raunir aðstoðarbílstjóra og styttukaupanda með ágætt minni
Eftir umræðuna undanfarið, um það hversu hælisleitendur séu mikil kvöl og pína fyrir efnahagslífið hér fóru að rifjast upp fyrir mér minningar - endurómur úr fjarska sem vildi láta vita af sér. Ég tel mig vera ansi minnuga, held að t.d. Sofie, eiginkona Játvarðs sem er yngsta barn Elísabetar II heitinnar, hugsi mér þegjandi þörfina því ég man enn hneykslið sem hún olli en ALLIR virðast búnir að gleyma (hún trúði hefðarmanni sem var undir dulbúningi sínum blaðamaður með upptökutæki, fyrir því að Tony Blair væri fáviti og Cherie Blair eiginlega verri, og sitthvað fleira hneykslanlegt um sumt fína fólkið í Englandi).
Ég fór að gúgla enduróminn í kollinum og setti inn leitarorð sem hafa verið notuð um innflytjendur, hælisleitendur, útlendinga. Ekki að ég sé sérlega góð í gúgli (sjá neðar) en ég fann nú samt tólf ára gamlar fréttir og greinar um annan hóp fólks sem mátti þola álíka umsagnir um sig, eins og mig minnti. Þarna, fyrir bara tólf árum, var verið að ráðast á öryrkja, sem flestir voru sagðir svindla á kerfinu og væru svo mikill baggi á okkur. Man samt ekki hvaða hópur það var sem ekkert var hægt að gera fyrir vegna allra peninganna sem fóru í öryrkja, kannski sjúklingar, eldri borgarar?
Það kæmi mér ekkert á óvart ef sama fólkið og réðst á öryrkjana þarna fyrir bara tólf árum, segi nú að hælisleitendur, innflytjendur, útlendingar séu ástæða þess að ekki sé hægt að búa betur að öryrkjum.
Mynd: Rammstolin Facebook-færsla síðan í dag.
Við litla systir (Hilda) skruppum nýlega ásamt tveimur ungmennum (jú, stráksi var annar þeirra) og tveimur loðfrændum, austur á land. Fyrst í sumarbústað á Flúðum og þaðan skelltum við okkur til Hafnar í Hornafirði og til baka (á sama degi með örfáum stoppum). Mæli ekki með því fyrir bakveika, þrátt fyrir hita í sæti ... Einhvers staðar á heimleiðinni, þá væntanlega staddar í 785 Öræfum, áður 785 Fagurhólsmýri, áttaði bílstjórinn sig á því að lítið var orðið eftir af Costco-bensíninu, aðeins eitt strik og stutt í aðvörunarljós. Ég sat við hlið bílstjórans sem sagði skjálfraddaður: Geturðu fundið út hvað er langt á næstu bensínstöð.
Ég hugsaði, úff, hvernig geri ég það? En hetjulundin alltaf hreint, víkingablóðið og það allt, olli því að ég hóf gáfulegt gúgl í gemsanum mínum. Sagði svo eftir smástund:
Getur verið að það séu 17 klukkustundir og 23 mínútur í næstu bensínstöð? spurði ég óróleg. Ég tek fram að ég hef aldrei lent í svona taugatrekkjandi aðstæðum sem aðstoðarbílstjóri, bara ýtt á jarðgangnatakkann til að loka fyrir mengun, hækkað eða lækkað í útvarpinu, sagt uppörvandi skemmtisögur til að halda bílstjóra vakandi og slíkt.
Litla systir fór að hlæja og hló svo mikið að hún hafði nærri því ekið út af (hún hlær enn). Ég móðgaðist eðlilega. Hvað ertu að pæla, að biðja mig um að gúgla þetta, ég hef aldrei nokkurn tímann í lífinu þurft að leita að svona upplýsingum.
Úr aftursætinu heyrðist hæglætislega frá ungu stúlkunni sem var með í för: Þetta er reyndar tíminn sem það tekur að ganga að næstu bensínstöð. Það er hálftími þangað ... ef við keyrum. Mér finnst nú samt mjög vel af sér vikið hjá mér að hafa komist þetta nálægt réttu svari, þannig séð, og það í fyrstu tilraun. Eitthvað google-maps-dæmi sem ég hef ALDREI þurft að nota, strætóbílstjórarnir mínir hafa hingað til ekki beðið mig um nokkuð á borð við þetta.
Mynd: Við stoppuðum í smástund við Jökulsárlón.
Ég sá eitt sinn styttu heima hjá vinkonu minni, litla afsteypu af Minnismerki um óþekkta embættismanninn - sem stendur í fullri stærð við Iðnó. Ég fann hana í safnbúð Kjarvalsstaða eftir að hafa spurt vinkonuna en tímdi hreinlega ekki að kaupa hana, hvaða afsökun hefði ég fyrir slíkri eyðslu og án nokkurs tilefnis. Svo loksins þegar ég hafði safnað fé og kjarki og fundið tilefni (afmælið mitt, 12. ágúst) ætlaði ég að láta vaða en þá var hún ekki til. Vinkona mín ráðlagði mér að kíkja annað slagið á netsíðuna - sem ég gerði og nýlega sá ég að dýrðin var komin aftur. Ég pantaði hana. Því miður reyndist styttan vera brotin í kassanum, standurinn hafði brotnað af. Ég hringdi í safnbúðina daginn eftir og fékk sérdeilis góðar viðtökur, loforð um að þetta yrði sett í ferli. Klukkutíma síðar var svo hringt. Kona í símanum ... á leið upp á Skaga síðar sama dag, sem var einskær tilviljun, spurði hvort hún mætti ónáða mig og skiptast á styttum við mig. Þetta var hvorki aprílgabb né falin myndavél. Bara einstaklega frábær þjónusta. Og litli danski apinn minn (Poppi jr sem ég fékk í jólagjöf í fyrra) er kominn með félagsskap (sjá mynd - þetta er ekki framtíðarstaður fyrir djásnin). Ég hef aldrei eignast Omaggio-vasa (hétu þessir þverröndóttu það ekki?) en sá einn pínkupons í búð í fyrra, ekki svo dýran, en keypti hann ekki. Hann hefði passað í hópinn.
Gaf Hildu pínulitla múmínbolla í jólagjöf i fyrra, hún elskar allt svona, hefði kannski átt að ræna einum fyrir mig ... en ég er samt ekki byrjuð að safna einu eða neinu. Er enn hvekkt eftir að Elfa vinkona gaf mér dýrlegan síma sem var önd og næstu árin fékk ég eintómar endur (styttur) í afmælis- og jólagjafir frá mömmu sem var svo fegin að hafa fundið eitthvað sem ég gat farið að safna ... af því ég var svo hrifin af símanum. Hringingin var kvakhljóð, samt svolítið eins og einhver væri að prumpa sem féll aldeilis í kramið hjá öllum sem heyrðu.
Já, að lokum ... Ég er sennilega búin að tryggja okkur Íslendingum svalt og bærilegt sumar ... með því að kaupa mér vandaða og góða viftu á skrifborðið - viftu sem ég hef varla þurft að kveikja á þótt kominn sé tuttugasti júní. Ég sé ekki eftir því (hiti úti er svo ofmetinn) en viðurkenni samt að ég var búin að gleyma sumarsænginni minni (1.800 kr. í Rúmfó) sem ég keypti eitt vorið og kostaði okkur landsmenn kalt, votviðrasamt og óveðurssækið sumar, það versta í manna minnum, sem var alls ekki ætlunin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.5.): 17
- Sl. sólarhring: 38
- Sl. viku: 481
- Frá upphafi: 1526450
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 414
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni