Tölvuraunir, hárgreiðslubiðlistar og fögur ferðaplön

Teams-fundirSálumessa Mozaars hljómaði úr tölvunni minni í dag. Vel við hæfi því mér fannst um tíma að ég komin á grafarbakkann. Fékk nefnilega boð um Teams-fund sem var ákveðinn í morgun, og var búin að steingleyma hvernig átti að bregðast við. Í raun átti ég bara að ýta á hlekkinn með boðinu, svo á GESTS-hnappinn og bíða eftir að mér yrði hleypt inn. Af hverju voru þá í boði milljón aðrir möguleikar (á ensku auðvitað); að hlaða niður appi, að skrá sig inn með netfangi og lykilorði (ég var byrjuð á því) og eitthvað fleira sem ruglaði. Vissulega gerði sonur minn mig ansi hreint ósjálfbjarga með því að segja iðulega: „Ég skal gera þetta fyrir þig“ - hann aðstoðaði mig við allt sem viðkom tölvu og gemsa, enda ansi klár á því sviði. Það var þægilegt að geta keypt sér síma og þurfa ekki sjálf troða öllu efninu úr þeim gamla yfir í nýja. Nú er það fólkið í símabúðinni sem fær þann heiður að hjálpa mér - ég reyni að kaupa allt í heimabyggð (Akranesi) og upplifi mikil liðlegheit alls staðar. Svo tengist þetta tölvugetuleysi ekki aldri, vinkonur mínar og jafnaldrar eru sannkallaðir haukar í horni þegar þarf en flestar svo langt í burtu (Reykjavík). Það var reyndar viss frændi í Búdapest sem sagði mér hvernig ég ætti að komast inn á Teams núna. „Á hvað á ég að ýta?“ spurði ég og sendi honum um leið skjáskot af fundarboðinu.

OK,“ svaraði hann.

„Það er ekkert OK þarna, á ég kannski að ýta á YES?“

„Já, svaraði hann þreytulega.

Teams-fundir síðan á tímum covid voru löngu gleymdir. Ohh, saknið þið ekki grímunnar? (Djók, en ekki djók, besti hrukkubani (-hyljari) sem ég hef prófað).

 

Mynd: Ég hef aldrei getað tengt mig á svona Teams-fundi í tölvunni, bara gemsanum. Og þetta er ekki svona einfalt eins og myndin gefur í skyn. Það er brjáluð vinna að láta þetta ganga almennilega, ogekki hafa allir vit á því að hafa almenntilegt kaffi í bollanum.   

 

Slæmt hárDrengurinn fór í klippingu seinnipartinn í dag, hann er ofsaflottur. Gísli rakari er svo snjall með skærin. Ég pantaði tímann fyrir drenginnn í gær. Sjálf sit ég hérna eins og vélsagarmorðingi með raflost og enn eru vikur þar til kemur að mér í klipp og lit. Jú, ég er á biðlista. Það er gott að vera hulin regnstakki með hettu þessa dagana, líka á heimilinu til að sýna drengnum tillitssemi og mögulega þeim gestum sem enn leggja í að koma. Sendlar eru farnir að skilja sendingar til mín eftir í næstu götum. Ég fæ ágæta hreyfingu út úr þessu, ef ég lít á björtu hliðarnar - sem er samt flókið því ég sé varla út úr augunum. Ahhh, nú skil ég af hverju enginn þorði að mótmæla mér á Teams-fundinum ... samt reyndi ég að greiða mér.

 

Glasgow-ferð er fyrirhuguð seint í haust og þá er þetta í annað skipti á ævinni sem ég fer tvisvar til útlanda á sama árinu. Í fyrra skiptið var það 2018; París í febrúar og Orlando í desember þar sem við stráksi fórum í vikuferð með skemmtiferðarskipi, í boði vina og vandamanna vegna stórafmælis, vorum sjö alls og þetta var dásamlegt. Í ár eru það sem sagt Liverpool í apríl sl. og Glasgow nú í október. Geri aðrir betur. Svo tek ég mér eflaust nokkurra ára pásu frá ferðalögum. Mér hefur skilist á vinafólki að Glasgow sé hreint og beint æðisleg borg, falleg og skemmtileg. Vonandi keypti Hilda óvart miða fyrir okkur á Saga Class. Hvað heitir aftur visa-kortið þar sem maður getur fengið uppfærslu þangað fyrir ekki svo mikinn pening, ef er pláss? Það tekur því kannski ekki fyrir mig að fá mér kort sem safnar flugpunktum ef ég ætla í ferðapásu. Núna er hluti ættingja minna í Grikklandi og ég hef einlæga samúð með þeim ... þrjátíu stiga hiti og logn. Hryllingur í mínum huga. Þau virtust samt svo ánægð í hitamollunni ... ef eitthvað er að marka Snapchat. Sendi þeim alla vega hugheilar kveðjur með ósk um góð sólgleraugu, sólarvörn og flugnafælur. Fussum svei.  


Bloggfærslur 27. júní 2023

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 251
  • Sl. sólarhring: 305
  • Sl. viku: 1918
  • Frá upphafi: 1455120

Annað

  • Innlit í dag: 213
  • Innlit sl. viku: 1546
  • Gestir í dag: 206
  • IP-tölur í dag: 203

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Fíni sjórinn
  • Mosi og Keli 29.4
  • IMG_8477 (1)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband