Raunir aðstoðarbílstjóra og styttukaupanda með ágætt minni

ÚtlendingarEftir umræðuna undanfarið, um það hversu hælisleitendur séu mikil kvöl og pína fyrir efnahagslífið hér fóru að rifjast upp fyrir mér minningar - endurómur úr fjarska sem vildi láta vita af sér. Ég tel mig vera ansi minnuga, held að t.d. Sofie, eiginkona Játvarðs sem er yngsta barn Elísabetar II heitinnar, hugsi mér þegjandi þörfina því ég man enn hneykslið sem hún olli en ALLIR virðast búnir að gleyma (hún trúði hefðarmanni sem var undir dulbúningi sínum blaðamaður með upptökutæki, fyrir því að Tony Blair væri fáviti og Cherie Blair eiginlega verri, og sitthvað fleira hneykslanlegt um sumt fína fólkið í Englandi).

Ég fór að gúgla enduróminn í kollinum og setti inn leitarorð sem hafa verið notuð um innflytjendur, hælisleitendur, útlendinga. Ekki að ég sé sérlega góð í gúgli (sjá neðar) en ég fann nú samt tólf ára gamlar fréttir og greinar um annan hóp fólks sem mátti þola álíka umsagnir um sig, eins og mig minnti. Þarna, fyrir bara tólf árum, var verið að ráðast á öryrkja, sem flestir voru sagðir svindla á kerfinu og væru svo mikill baggi á okkur. Man samt ekki hvaða hópur það var sem ekkert var hægt að gera fyrir vegna allra peninganna sem fóru í öryrkja, kannski sjúklingar, eldri borgarar?

Það kæmi mér ekkert á óvart ef sama fólkið og réðst á öryrkjana þarna fyrir bara tólf árum, segi nú að hælisleitendur, innflytjendur, útlendingar séu ástæða þess að ekki sé hægt að búa betur að öryrkjum.  

Mynd: Rammstolin Facebook-færsla síðan í dag.

 

Á leið til HafnarVið litla systir (Hilda) skruppum nýlega ásamt tveimur ungmennum (jú, stráksi var annar þeirra) og tveimur loðfrændum, austur á land. Fyrst í sumarbústað á Flúðum og þaðan skelltum við okkur til Hafnar í Hornafirði og til baka (á sama degi með örfáum stoppum). Mæli ekki með því fyrir bakveika, þrátt fyrir hita í sæti ... Einhvers staðar á heimleiðinni, þá væntanlega staddar í 785 Öræfum, áður 785 Fagurhólsmýri, áttaði bílstjórinn sig á því að lítið var orðið eftir af Costco-bensíninu, aðeins eitt strik og stutt í aðvörunarljós. Ég sat við hlið bílstjórans sem sagði skjálfraddaður: „Geturðu fundið út hvað er langt á næstu bensínstöð.“

Ég hugsaði, úff, hvernig geri ég það? En hetjulundin alltaf hreint, víkingablóðið og það allt, olli því að ég hóf gáfulegt gúgl í gemsanum mínum. Sagði svo eftir smástund:

„Getur verið að það séu 17 klukkustundir og 23 mínútur í næstu bensínstöð?“ spurði ég óróleg. Ég tek fram að ég hef aldrei lent í svona taugatrekkjandi aðstæðum sem aðstoðarbílstjóri, bara ýtt á jarðgangnatakkann til að loka fyrir mengun, hækkað eða lækkað í útvarpinu, sagt uppörvandi skemmtisögur til að halda bílstjóra vakandi og slíkt.

Litla systir fór að hlæja og hló svo mikið að hún hafði nærri því ekið út af (hún hlær enn). Ég móðgaðist eðlilega. „Hvað ertu að pæla, að biðja mig um að gúgla þetta, ég hef aldrei nokkurn tímann í lífinu þurft að leita að svona upplýsingum.“ 

Úr aftursætinu heyrðist hæglætislega frá ungu stúlkunni sem var með í för: „Þetta er reyndar tíminn sem það tekur að ganga að næstu bensínstöð. Það er hálftími þangað ... ef við keyrum.“ Mér finnst nú samt mjög vel af sér vikið hjá mér að hafa komist þetta nálægt réttu svari, þannig séð, og það í fyrstu tilraun. Eitthvað google-maps-dæmi sem ég hef ALDREI þurft að nota, strætóbílstjórarnir mínir hafa hingað til ekki beðið mig um nokkuð á borð við þetta.

Mynd: Við stoppuðum í smástund við Jökulsárlón.

 

Míní, míníÉg sá eitt sinn styttu heima hjá vinkonu minni, litla afsteypu af Minnismerki um óþekkta embættismanninn - sem stendur í fullri stærð við Iðnó. Ég fann hana í safnbúð Kjarvalsstaða eftir að hafa spurt vinkonuna en tímdi hreinlega ekki að kaupa hana, hvaða afsökun hefði ég fyrir slíkri eyðslu og án nokkurs tilefnis. Svo loksins þegar ég hafði safnað fé og kjarki og fundið tilefni (afmælið mitt, 12. ágúst) ætlaði ég að láta vaða en þá var hún ekki til. Vinkona mín ráðlagði mér að kíkja annað slagið á netsíðuna - sem ég gerði og nýlega sá ég að dýrðin var komin aftur. Ég pantaði hana. Því miður reyndist styttan vera brotin í kassanum, standurinn hafði brotnað af. Ég hringdi í safnbúðina daginn eftir og fékk sérdeilis góðar viðtökur, loforð um að þetta yrði sett í ferli. Klukkutíma síðar var svo hringt. Kona í símanum ... á leið upp á Skaga síðar sama dag, sem var einskær tilviljun, spurði hvort hún mætti ónáða mig og skiptast á styttum við mig. Þetta var hvorki aprílgabb né falin myndavél. Bara einstaklega frábær þjónusta. Og litli danski apinn minn (Poppi jr sem ég fékk í jólagjöf í fyrra) er kominn með félagsskap (sjá mynd - þetta er ekki framtíðarstaður fyrir djásnin). Ég hef aldrei eignast Omaggio-vasa (hétu þessir þverröndóttu það ekki?) en sá einn pínkupons í búð í fyrra, ekki svo dýran, en keypti hann ekki. Hann hefði passað í hópinn.

Gaf Hildu pínulitla múmínbolla í jólagjöf i fyrra, hún elskar allt svona, hefði kannski átt að ræna einum fyrir mig ... en ég er samt ekki byrjuð að safna einu eða neinu. Er enn hvekkt eftir að Elfa vinkona gaf mér dýrlegan síma sem var önd og næstu árin fékk ég eintómar endur (styttur) í afmælis- og jólagjafir frá mömmu sem var svo fegin að hafa fundið eitthvað sem ég gat farið að safna ... af því ég var svo hrifin af símanum. Hringingin var kvakhljóð, samt svolítið eins og einhver væri að prumpa sem féll aldeilis í kramið hjá öllum sem heyrðu. 

 

Já, að lokum ... Ég er sennilega búin að tryggja okkur Íslendingum svalt og bærilegt sumar ... með því að kaupa mér vandaða og góða viftu á skrifborðið - viftu sem ég hef varla þurft að kveikja á þótt kominn sé tuttugasti júní. Ég sé ekki eftir því (hiti úti er svo ofmetinn) en viðurkenni samt að ég var búin að gleyma sumarsænginni minni (1.800 kr. í Rúmfó) sem ég keypti eitt vorið og kostaði okkur landsmenn kalt, votviðrasamt og óveðurssækið sumar, það versta í manna minnum, sem var alls ekki ætlunin.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 439
  • Sl. viku: 1885
  • Frá upphafi: 1454759

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1539
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband