Færsluflokkur: Bloggar

Varla-covid, betra kaffi og vinsælar bakarísbækur

KaffivélinUndanfarnar vikur hef ég velt fyrir mér, svona annað slagið alla vega, hvernig í ósköpunum ég hafi nælt mér í covid sem hafði aðeins haft áhrif á bragðskyn mitt og skert það eingöngu þegar kom að kaffi. Þar sem bara örfáir komu í afmælið mitt í ár, dugði baunavélin vel en ég fékk vægt sjokk þegar ég sá einn gestanna snúa takka sem hafði ekkert með fá-sér-kaffi að gera - en var sennilega ekki upp á punt. Ég hafði ekki fengið leiðbeiningar á íslensku með vélinni 2017, bara á úrdú, hollensku og serbókróatísku, eins og komu með þvottavélinni, þurrkaranum, bakaraofninum, helluborðinu og ísskápnum fyrir tveimur árum. Við þetta atvik var eins og góð greind mín sneri til baka og sameinaðist þokkanum, því ég dreif mig á YouTube nokkru síðar og horfði á myndband af því hvernig vélin mín á að fúnkera. Þrátt fyrir sérdeilis flott heilabú nær enskukunnáttan aðeins að kurteislegu spjalli við enskumælandi (ekki um t.d. kjarneðliskafbáta), áhorfi á myndir og þætti, með enskum texta helst, og lestri á Stephen King-bókum. En ég fiktaði samt aðeins í kaffivélinni, sneri takka hjá baununum og öðrum framan á og uppskar svo miklu, miklu betra kaffi að héðan í frá leyfist engum að snerta vélina, hvað þá horfa á hana. Það má ekki vanmeta hugarorku þegar kemur að kaffivélum. Dásamlegt að hafa endurheimt „bragðskynið“. Skyldi vera hægt að fá meira kaffi og minna vatn? Sem sagt alvöruespressó. Vélin var ágætlega stillt þegar ég fékk hana, hef ekki hugmynd um hver gæti hafa fiktað í stillingunni og gert kaffið enn daufara, kannski sá hinn sami og setti tóma uppþvottavélina mína í gang (á langt prógramm) á afmælinu í fyrra - með rassinum á sér! Það var reyndar mjög fyndið en þegar kemur að kaffi má ekkert út af bregða ...

 

bookshelf-1Ágúst hefur verið mánuður sumarorlofs, eins og oft áður, en verkefnin fóru ekki að hrúgast inn fyrr en núna fyrir nokkrum dögum. Ég notaði fríið til að lesa og lesa og lesa og mikið var það geggjað. Mest sumaryndis-léttmetislestur sem er auðvitað algjör nauðsyn með Tolstoy, Kjarval, Tchaíkovskí og svona. Hér eru einhverjar, ekki í réttri lestrarröð, ekki kannski allar lesnar í ágúst og ég gleymi eflaust einhverjum. Útgefendur, endilega skellið fleiri rafbókum á Storytel.

 

Ríki óttans - Louise Penny og Hilary Rodham Clinton: Kom skemmtilega á óvart, fínasta afþreying. Nú veit maður nákvæmlega hvað gerist á bak við tjöldin í Hvíta húsinu þegar ógn steðjar að ... ;)

Nornadrengurinn - Lone Theils, flott spennusaga

Inngangur að efnafræði - Bonnie Garmus - í einu orði sagt, æðisleg!

Hin óhæfu - Hjorth og Rosenfeldt ... þessi fékk mig til að efast um öryggi mitt sem bloggara þar sem áhrifavaldar á borð við mig voru myrtir (í bókinni) ef þeir náðu ekki prófi (um lágmarkskunnáttu) sem morðinginn lagði fyrir þá - í þeirri von að uppræta fákunnáttu, yfirborðsmennsku og heimsku sem gert var of hátt undir höfði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, að hans mati ... sem róaði mig auðvitað helling. Ég hef reyndar verið sökuð um yfirborðsmennsku en það var að kvöldi til á Austurvelli, seint á níunda áratugnum, þegar ég var að fara á Borgina eftir velheppnað partí og hafði ekki tíma til að opna hjarta mitt og tala um áhyggjur og blankheit þegar ég var úti að skemmta mér - við gamlan vin sem leit á „Allt ágætt, en þú?“ sem alvarlega yfirborðsmennsku þegar hann spurði hvað ég segði gott. Auðvitað hefði ég átt að skæla í fanginu á honum og segja honum hversu lífsbaráttan var stundum erfið, eða það sem hann vildi heyra á djamminu ... 

500 mílur frá mér til þín - Jenny Colgan, ágæt afþreying.

Gjöf hjúskaparmiðlarans - Lynda Cohen Loigman, ferlega skemmtileg, eiginlega dásamleg, nánast of krúttleg í lokin.

Ég var auðvitað búin að lesa hina frábæru Óvissu eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson, og bók 2 um FBI-manninn John sem fer í felur, vitnavernd, en fyrri bókin Að leikslokum, endaði óbærilega spennandi. Hin systirin heitir framhaldið. Og svo tvær bækur í nýjum flokki um dularfullan brunasérfræðing. 

 

Á Storytel núna:

Beachfront Bakery: A Killer Cupcake, var byrjuð á henni þegar vinnan hóf innreið sína, hún er lesin uppi í rúmi af gleði á Storytel-lesbrettinu sem ég fékk í afmælisgjöf. En hvað er þetta annars með bakarí og metsölubækur? 

Brennandi ást í Bernhöfts

Ástir í Álfheimabakaríi

Kallabakarí tilfinninganna eða

Ástapungar í Kallabakaríi

... ef einhvern vantar hugmyndir (og peninga).

 

Afmælisgjafir í bókaformi 2022:

The Unhoneymooners - Christina Lauren (greinilega ástarsaga, virkar skemmtileg)

Naomi´s Room - Jonathan Aygliffe ... (spennusaga) The Spine Chilling classic, segir um hana ... 

Rembember me this way - Sabine Durrant (Spennusaga, án efa, The dead have no secrets. They only have lies ... úúú)

Þessar tvær síðustu voru innpakkaðar og merktar sem spennusögur en kaupandinn hafði ekki hugmynd um hvað hann (frænka mín) keypti í sniðugu bókabúðinni í London.

Ég var nóttin - Einar Örn Gunnarsson - er á náttborðinu, ég er aðeins byrjuð á henni og hlakka brjálæðislega til að klára, Einar er frábær penni.

 

Stundum alveg spurning um að hætta að vinna og leggjast í ómennsku og bækur. Ég á heilu bunkana af ólesinni snilld inni í skáp. Það var hræðilegt að lenda í því um daginn að byrja á bók á Storytel, reyndar mjög girnilegri, og finnast hún í upphafi örlítið kunnugleg, hrista það af sér og svo átta sig á í miðjum fyrsta kafla að ég hafði lesið hana - og Storytel alltaf: Ætlarðu ekki að klára hana?


Friðhelg tónlist og kramdir bílar: ævintýraferð til Eyja

AfmælistertanVestmannaeyjar tóku ansi hreint vel á móti okkur Hildu systur, dóttur hennar, tengdasyni og tveimur unglingsstrákum. Það var ljómandi snjallt að halda örafmæli fyrir jólakúlufólkið sitt, en samt áskorun að fara strax daginn eftir til Eyja.

Ég gat ekki stillt mig um að vera með tertu þrátt fyrir óeðlilegheitin (eða að bjóða ekki sjötíu allra nánustu). Ég bað konditorimeistarann að laga alls ekki villurnar á tertunni og sendi henni textann með undirskriftinni BITRINGUR (ekki Birtingur)en hún leiðrétti undirskriftina en leyfði öðru að halda sér. 

Og ég hætti ekki í neinum leiðindum, alls ekki, það voru skipulagsbreytingar fram undan sem hefði þýtt meiri vinnu og þar af leiðandi meira álag (sem ég hef forðast undanfarin ár). Þau munu svo sannarlega pluma sig vel án mín, frábært fólk þarna sem ég er strax farin að sakna. Og ég mun líka hafa nóg að gera.

 

SprangEins og flest (öll) ferðalög snerist þetta til Eyja um að finna sem fyrst besta kaffið og það tókst í hvelli. Ég hefði sennilega aldrei hætt í Ísfélaginu 1974 ef það hefði þá verið komið á næsta horn, sjávarmegin - en þá var svo sem enginn að pæla í góðu kaffi. Það heitir Vigtin - bakhús og er einnig bakarí. Við "stunduðum það" þessa tvo daga okkar. Við kíktum í búðir og ein þeirra, Flamingo, var ansi flott. Ég beið úti í bíl meðan mæðgurnar fóru inn, ég missi oft lífsviljann í búðum og fer bara ef nauðsyn kallar. Hilda kom út með tvær fínar flíkur og bað um álit mitt, ég benti á aðra þeirra, hugsa að þessi klæði þig betur, sagði ég, og svo urðu mæðgurnar að játa að þarna væri elsku Ellen frænka að reyna laumulega að kaupa afmælisgjöf handa mér ... Svo ég fór inn og hreifst af allri litadýrðinni þar. Valdi mér dásamlega peysu, í afar fallegum bláum lit, hef varla farið úr henni síðan. Mig vantaði bók (Gjöf hjúskaparmiðlarans) svo ég fór í bókabúðina þar sem áður var sjoppan sem ég verslaði við þegar ég starfaði í Ísfélaginu. Stelpunum þar fannst ekkert merkilegt að ég hefði keypt sælgæti þar eitt sinn (fyrir rúmum 48 árum) í sjoppuferð fyrir sjálfa Shady Owens. „Hvaða Shady?“ sagði önnur þeirra alveg áhugalaus. Ég er viss um að hún hefur aldrei heyrt um Hljóma eða Trúbrot, Uriah Heep eða Led Zeppelin, hvað þá Slade, Pink Floyd eða Jethro Tull. Greinilegt að menningin náði aldrei til Eyja þótt þær séu svona skammt frá Íslandi (eins og stráksi orðaði það.) Getur verið Eyjar séu friðhelgar á einhvern hátt? Ekki spilla hreinleika þeirra-dæmið, eins og á við um t.d. Surtsey, en samt mega ferðamenn koma þangað. Það gæti útskýrt af hverju ég heyrði bara tónlist Loga; í búðum, á veitingastöðum, á götum úti, lítil leikskólabörn rauluðu Minningu um mann á Vestmannabrautinni þannig að ég táraðist. Vá, hvað Logar hljóta að vera þreyttir eftir Þjóðhátíð ... 

Mynd: Stráksi að spranga.

 

Áður ÍsfélagiðHúsið sem við gistum í var á tveimur hæðum, við vorum sex og herbergin fimm sem passaði ljómandi vel. Hilda pantaði húsið í maí og það var ekki sérlega dýr en þegar hún kíkti á verðið nú nýlega kostuðu tvær nætur í september næstum helmingi meira en við borguðum um miðjan ágúst. Framboð og eftirspurn-lögmálið ... dæs. En þetta var notalegt hús og mjög vel staðsett. Stutt að fara út að borða ... hjá Gott fyrra kvöldið og Einsa kalda það seinna. Svakalega góður matur hjá báðum, veit ekki hvaða kaffi er hjá fyrrnefnda staðnum en heyrði að það væri ekkert sérstakt hjá Einsa kalda svo ég sleppti því. 

MYNDIN er af gamla Ísfélagshúsinu en ég fann út eftir þrotlausa rannsóknarvinnu að nú væri þar banki, einnig íbúðir. Lengst til vinstri sést í húsið sem hýsir Vigtina kaffihús. Nú er Ísfélagið flutt lengra til vinstri við þessa sömu götu, sýndist mér á bíltúrum okkar, og með aðsetur í kassalaga húsi sem hentar sennilega betur en það gamla.  

 

Kattahvíslari HimnaríkisVið heimsóttum hið flotta safn um eldgosið í Heimaey 1973, leyfðum strákunum að fara í sund og að spranga sem tókst bara vel hjá þeim. Á sunnudeginum skruppum við í búð og ég varð stjörnustjörf þegar sonur einnar af eftirlætis-Instagramstjörnum mínum afgreiddi mig. Ég tók Dustin Hoffman á hann (New York, 1991) eða lét sem ég þekkti hann ekki og nöldraði með dassi af kærleika yfir því að innkaupapokar væru ekki við kassann ... eins og hann réði því. Það er alltaf verið að reyna að stjórna okkur, takið poka ÁÐUR en þið farið á kassann, en sem gestur í Eyjum og búin að tæma töskuna mína af margnota pokum vegna ferðalagsins, var fúlt að þurfa að klofa yfir manneskjuna fyrir aftan  sig í biðröðinni við kassann (Hildu systur) til að ná sér í poka. En börn samfélagsstjarna eru friðhelg, finnst mér, og maður lætur þau í friði, eins og stjörnurnar sjálfar auðvitað líka.

Um kvöldið, það síðasta, jöpluðum við á sælgæti yfir Eurovision-myndinni um m.a. álfa Húsavíkur, alltaf jafnskemmtileg. Eina svindlið mitt frá 16:8-dæminu þar sem ég borða bara milli 12 á hádegi og 20. Og eftir að hafa náð okkur í almennilegt kaffi, enn einu sinni, frá Vigtinni, fórum við í biðröðina að Herjólfi. Við bryggjuna mætti okkur hroðaleg sjón, eða sundurkraminn bíll eftir bílalyftu Herjólfs svo við ókum skjálfandi inn í skipið. Ég hugsaði um hundana sem fá hvergi að vera nema á bílaþilfarinu þar. Það lifðu allir það af þegar ég og fyrrverandi eiginmaður minn (einn af þeim fyrstu) fórum reglulega með Akraborginni með hundana okkar. Við héldum okkur bara úti og hundarnir voru ekki lausir. Enginn amaðist við okkur. Mikið vona ég að dýrahatur sumra sem fara með völd fari minnkandi og við getum öll, menn og dýr (líka mávar), farið að lifa í sátt og samlyndi. Þó hvika ég ekki frá kröfum mínum um að vissir býflugnabændur hafi stinguflugur sínar alltaf í ól.

Myndin er af sérstökum kattahvíslara Himnaríkis sem ásamt móður sinni gætti kattanna á meðan þessi dásamlega kaffi-sprang og fleira-djammferð til Eyja var farin.


Mávagrátur og Eyjaferð

einsi-kaldiVirkilega annasamur aðfangadagur tólfta í gær, og fyrir röð tilviljana fékk ég meira að segja fjórðu bólusetninguna þótt ég sé bæði ung og frísk. Og drengurinn líka, enn yngri og enn frískari. Mér fannst rétt að tryggja að ég yrði örugglega og mögulega slöpp þriðju sumarferðina í röð með Hildu systur, ef ég fæ aukaverkanir af sprautunni. Í hittiðfyrra á Akureyri voru það kristallar í eyrum og endalaus svimi, í fyrra demantar í þvagblöðru og vanlíðan þar til ég fann pensillín-díler á tjaldstæðinu í Stykkishólmi tveimur vikum seinna, munið. Í ár sennilega aumur handleggur en ég gæti borið mig sérlega illa. Maður á að halda í hefðir, ekki bara um jól! En systir mín sá við mér og tilkynnti mér í dag að eitt af ótal mörgum börnum hennar og maki þess muni koma með, svona til öryggis ef ég verð ömurleg enn einu sinni og hugsa ekki um annað en að finna almennilegt kaffi. Við eigum pantað borð hjá Einsa kalda (sjá mynd) um helgina sem er virkilega spennandi. Mig langar líka að skoða eldgosasafnið og margt fleira.

 

Mál málanna - mávar og fleiri óvinsæl óféti:

Mér fannst mávar frekar ömurlegir lengst af - því að ég var alin upp við að þeir væru fljúgandi rottur, dúfur kallaðar það reyndar líka sem ruglaði mig, og sjálfsagt að vera illa við þá. Það hefur reynst okkur ansi erfitt að lifa með náttúrunni. Eldgos fá vissulega að standa en varla þó, einhver afskipti hafa verið af hraunrennsli (Heimaey 1973, Fagradalsfjall 2021). En ég er kannski meira að tala um dýrin, við þurfum að banna allt. Hundar mega helst hvergi vera, kettir eru sagðir vera skaðræði og nýjasta nýtt; mávar hafa ekki tilverurétt af því að þeir pirra. Fólk gæti auðvitað verið með bráðaofnæmi fyrir þeim.

 

MávastelliðEftir að ég flutti til Akraness 2006 fékk ég sjávarnið í stað umferðarhávaða og máva í staðinn fyrir geitunga - fín skipti. Svo tekur krummi við yfir vetrartímann þegar Jónatan fer á hlýrri slóðir. Nú vilja Íslendingar (sumir) drepa máva, eins og mávana sem tóku því illa að byggt var íbúðahverfi á varpstaðnum þeirra í Garðabæ. Hvernig dirfast þeir? Mávar snæða vissulega unga (eins og t.d. kettir, mannfólk og svanir sem ráðast líka á fólk og kindur - en svanir eru bara svo sætir að þeir komast upp með allt, ljóð eru ort um þá og ævintýri samin. Reyndar er til fræg bók um Jónatan máv - og rándýrt matar- og bollastell sem hlýtur að hrapa í verði þessa dagana). Ekki viljum við myrða sætu þrestina sem vekja okkur af værum blundi á morgnana með háværum söng? Nei, maður brosir og finnst það voða rómantískt. Mávasöngur þykir ekki jafnfagur en er hann háværari? Þá drepum við það sem pirrar okkur!!!

 

Það sem pirrar mig er t.d.: leiðinleg tónlist (fönk), sól og hiti (allt yfir 13-14°C), geitungar, þegar kemur dagskrá á RÚV 2 þegar ég ætla að horfa á eldgosið í sjónvarpinu, kökur og sælgæti með hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum, þegar fréttafólk segir ungabarn (talmál, eigi svo fagurt) og ýmislegt fleira.

 

Reyni ég að drepa þetta? Nei, ég reyni að lifa með því. Eyrnatappar duga á sumt, þakklæti á annað (fyrir t.d. að búa ekki í Ástralíu þar sem geitungar eru svipað stórir og mávar) og smekklegheit er einnig sterkt vopn gegn t.d. hnetum og rúsínum, og æðruleysi gagnvart ungAbarnasundi, nei, úps, það segir enginn það.

 

Jæja, ef ég ætla að vera sæt á ör-afmælinu mínu er best að sofna snemma - fæðingarstundin sjálf er ekki fyrr en kl. 19.54. Merkúr í meyju, mars í nauti, rísandi bogmaður og bókaormur í Síríus ... svona til að opna mig enn meira á þessum fallega degi.


Smekklausir sjónvarpsþættir

Mosi og Keli og aukavinnan mínAlþjóðlegur dagur katta í dag og alþjóðlegur dagur unga fólksins á föstudaginn. Allir dagar eru kattadagar hjá mér og ... mér er líka endalaust vel við unga fólkið, flesta daga.

Þótt afmælið í ár verði pínkulítið jólakúluafmæli miðað við afmælin árin 1987-2019, pantaði ég nú samt afmælistertu með áletrun. Jessss.

Annars fer ég til Vestmannaeyja á laugardaginn sem getur tafið bestu áætlanir um myndir úr afmælum og svona. Ég fékk dásamlega pössun fyrir kettina á meðan. Viðkomandi nánast flytur inn á þá. Á morgun hefst svo undirbúningurinn og kennslan fyrir kattapössunina: ... og ef rafmagnið fer af þarftu að hlaupa niður og ... já, hafa alltaf fullan vatnsdall í eldhúsvaskinum, ekki á gólfinu því þá fer Krummi að skvetta á gólfið ... ekki hægt að treysta á nýjustu tækni í vatnsbrunnum sem ganga fyrir nýtísku-rafmagni. Leyfa þeim að hlusta á Mozart á nóttunni til að róa þá, Pink Floyd á daginn ... nudd um þrjúleytið ... rjómi ... rækjur ... vökva kattagras ... feluleikur ...  

 

mwtrumpÁttunda ágúst árið 2009 hef ég greinilega verið ansi hneyksluð á Donald Trump sem þá var eflaust ekki farinn að íhuga framboð til forseta, aðeins véfréttin í Simpsons-fjölskyldunni hafði hugleitt það og skrifað inn í þáttinn níu árum áður, í gríni samt. Trump var með sjónvarpsþátt sem hét Lærlingurinn og sýndi þátttakendum fádæma frekju, dónaskap og virðingarleysi. Kannski þjáðist ég af einhvers konar masókisma á þessum tíma fyrst ég horfði en dæmi úr þættinum vakti þó undrun mína:

 

„Donald Trump var með í verðlaun fyrir sigurlið þáttarins heimsókn á Playboy-setrið „þar sem margar af fallegustu konum heims ganga um hálfberar,“ sagði hann. Konurnar í sigurliðinu urðu örugglega rosaglaðar enda stórkostlegur heiður að hitta Hugh Hefner og kærusturnar hans; Bridget, Holly og Kendru. Jamm.“

 

Þarna voru tæp ellefu ár í að ég tæki inn lyfið sem lét mig hætta að reykja OG að mestu leyti hætta að horfa á sjónvarp þótt ekkert kæmi fram um slíkar aukaverkanir á fylgiseðli. Ef kenning mín er rétt, að lyfið drepi fíknir manns hefði það þá ekki átt að myrða meinta sykurfíkn? Svo er þetta kannski allt saman hreyfingarleysi - ja, eða hreinlega samsæri?


Ung-ish, hærri, feig og grennri

Há og grönn í aðhaldsStráksi ekki heima um helgina svo þá gátum við kettirnir aldeilis farið á kreik. Uppþvottavélin brilleraði í gær og þvottavélin í dag svo það er sérdeilis stuð á bæ. Helgin hefur eiginlega farið í að máta aðhaldsflík sem ég freistaðist til að kaupa um daginn. Hún tekur af manni 20 kílóin sem ljósmyndir bæta á mann, og sælgæti og kökur.

 

Það var þrautin þyngri að koma sér í kvikindið. Saumurinn sem átti að vera aftan á var allt of langt til vinstri eftir fyrsta troð svo ég þurfti að gera aftur. Konan í búðinni (Sassy) vildi meina að þetta ætti að verða eins og hluti af mér, þægilegt og ... eggjandi, ef ég heyrði rétt. Hmmm. En ég kvarta ekki, nema það væri frábært ef fylgdi manneskja með sem hjálpaði til við að tosa upp. En ég bæði grenntist og lengdist talsvert við þetta og það eru engar ýkjur að segja að ég sé bæði há og rennileg í þessum skrifuðum orðum. Meðfylgjandi mynd, sú efri, sýnir aðhaldið í aksjón.

 

Svona letihelgar ... þá liggur voða lítið á að fara á fætur, eða rífa sig upp fyrir allar aldir (hádegi). Svo margt betra hægt að gera, eins og að sofa eða bara nenna ekki fram úr. Í dag var það jarðskjálfti upp á 4,1 sem kom mér ljúflega á fætur, hann vaggaði rúminu þannig að hugurinn fór rakleitt aftur til haustsins 1958, en mér skilst að skjálftinn hafi verið talsvert hundleiðinlegur á höfuðborgarsvæðinu. Skjálftar þurfa að fara upp í og yfir fjóra til að finnast hér á Akranesi. Svo hef ég eftir hrinuna 2022 fundið nokkra ímyndunarskjálfta sem er verðugt rannsóknarefni fyrir sálfræðingana í fjölskyldunni. Fín umræðuefni í komandi jólaboðum.

 

Mamma og Einar - jól 1982Þriðja covid-afmæliskaffið er í bígerð, aðeins „jólakúlunni“ boðið eins og síðast og þarsíðast. Það er að sjálfsögðu ekki sniðugt að setja lífið á HOLD þótt ríki smitandi drepsótt í heiminum, enda geri ég það alls ekki, þríbólusett skvísan, en heldur ekki sérlega snjallt að láta sem allt sé löngu búið þegar sú er ekki raunin. Bara fámennt og góðmennt. Tíu manns eða svo, sem ég hitti reglulega, bara til að ég fái tilfinningu fyrir því að enn eitt árið hafi bæst við ... og hafi afsökun til að borða kökur.

 

Eftir útför mömmu í júlí og öll faðmlögin í kringum hana, datt mér helst í hug að ég væri hreinlega ónæm fyrir covid, en svo frétti ég að nú væri akkúrat ónæma fólkið að smitast í hrönnum. Ég fæ þetta eflaust einhvern daginn en vil helst ekki að Himnaríki á afmælinu mínu verði smitbæli. Hetja eða heigull?Gáfuð eða galin? Klár eða klikkuð? 

Búin að lofa mér að halda venjulegt stórafmæli að ári, nema verði komin froskaflensa eða eitthvað, þá harðneita ég að eldast fyrr en Bill Gates hættir þessu bulli og Soros líka ... 

 

Neðri myndin var tekin á Akranesi jólin 1981 og sýnir mömmu og Einar. Ég gleymi ekki veseninu við að finna jólaföt á drenginn en þá fengust aðeins flottir jólakjólar í búðunum, strákafötin frekar ljót. Svo rambaði ég á fínustu föt í síðustu búðinni sem mér hugkvæmdist að fara í (í Rvík). Gömul vinkona saumaði og málaði gardínurnar í bakgrunni og gettóblasterinn til hægri var bara forsmekkurinn að þeirri miklu hrifningu á rappi sem sonur minn fylltist síðar og móðir hans reyndar líka - ögn seinna. Mér finnst trúlegt að jólamessan hafi hljómað úr tækinu, svona upp á stemninguna.


Að sjá fram í tímann - náðargáfa í ættinni

skagatraffikÆtt mín er samansett af fjölbreytilegum og skemmtilegum einstaklingum, eins og ég hef oft montað mig af. Dásamlegt fólk bæði í móður- og föðurætt og stöku sérkennilegir einstaklingar líka auðvitað sem krydda bara tilveruna. Systir pabba sá lengra en nef hennar náði og það kom meira að segja fram í útfararræðunni yfir mömmu núna 20. júlí sl. að hún hafi fengið bréf frá þessari fyrrum mágkonu sinni þegar við vorum eiginlega nýflutt til borgarinnar (1971) þar sem sagði að mamma myndi kynnast góðum manni. Nafn hans byrjaði á S-i og einnig nafnið á bílnum hans. Og viti menn, mamma og Siggi kynntust einhverjum mánuðum seinna, og hann ók um á Saab. Þriðja S-ið var þarna líka, því þau kynntust á Hótel Sögu. Kæmi mér ekkert á óvart þótt þetta hafi gerst í september, alla vega á seventís-tímabilinu.

 

Langafasystir mín í móðurætt var þekkt fyrir að lesa í garnir og spá fyrir um veður og slíkt með því að skoða þær. Ég hitti hana meira að segja einu sinni, var þá í landsprófsbekk á Sauðarkróki með einni frænkunni sem bauð mér í helgardvöl í Hegranesið og í félagsvist í sveitinni. Sigurlaug leit á þessa nýju frænku sína og sagði: „Jú, þú ert með ættar-ennið.“ 

 

En nú held ég að þessi gáfa sé farin að færast yfir á mig upp á að sjá framtíðina. Síðastliðna nótt dreymdi mig að ég hefði farið 90 ár fram í tímann. Sundabraut var komin og lá yfir stóru bryggjuna á Akranesi og hafði verið byggð af Kínverjum sem litu á Akranes sem góðan fjárfestingarkost, enda orðin höfuðborg eftir að svo margir færðu sig yfir flótann vegna pirrandi eldgosa í grennd. Það var ekki enn búið að finna upp flugbíla! Sem betur fer hafði ég vit á að spyrja nokkurra mikilvægra spurninga, um hluti sem alla langar að vita.

 

Hvað stóð í erfðaskrá Filippusar prins sem þurfti að frysta í 90 ár til að vernda bresku konungsfjölskylduna? Sko, sagði sagnfræðingurinn sem ég hitti fyrir tilviljun, kjaftasögurnar voru sannar varðandi fleiri börn sem hann vildi að nytu auðæfa hans, það voru þó barnsmæðurnar sem komu á óvart; Mary Hopkins, Lulu og Twiggy, konur sem voru þekktar á sjöunda áratug síðustu aldar. Afabarn hans, Vilhjálmur sigursæli, ríkti þó ekki lengi því hann setti kórónuna á hilluna til að geta helgað sig bogfimi og talaði í kjölfarið af sér um kórónuveiruna sem hann kvaðst vera loks laus við, enginn skildi almennilega hvað hann átti við fyrr en hálfri öld síðar. Öllum til furðu tók Harry bróðir hans við veldissprotanum en Lillibeth, dóttir hans, er nú ríkjandi drottning Litla-Bretlands. Archie, ögn eldri, kom ekki til greina - miðbörn höfðu náð völdum í heiminum og bönnuðu að farið yrði eftir aldri. Erfingjar t.d. krúnu þurfa að draga spil, sagði sagnfræðingurinn sáttur, enda ekki elsta barn.

 

Hver verður ritstjóri Morgunblaðsins 2112? Davíð Oddsson.

 

Hvað með Covid? Loksins eftir að Covid-99 gerði sig líklegt til að vaða yfir heimsbyggðina náðist í skottið á kvikindinu sem hefur stökkbreyst endalaust í áratugi og strítt ófáum Þórólfum. Það tafði líka þróun bóluefnis í takt við það hve margir sáu ofsjónum yfir gróða lyfjafyrirtækjanna (Ég drepst frekar en að láta þessa aumingja græða á mér-fólkið). Um svipað leyti misstu prófarkalesarar allan tilverurétt því það þótti ekki við hæfi að þeir stórgræddu á stafsetningarvillum annarra. Bill Gates IV. tók af skarið og fjármagnaði sigurinn yfir covid. En svo kom í ljós árið 2100 að þetta var allt saman eitt risastórt samsæri. Ekki til nafnið Bill í heiminum og kórónuveiran tengd bresku konungsfjölskyldunni og vissum markaði í Lundúnum. Portobello-markaðurinn þótti líklegur, enda hippalegur og beit ekki hinn enski hippalegi Ozzy Osborne hausinn af leðurblöku í denn? Ekkert hefur sannast enn, þrátt fyrir að Ireland Yard (Írland yfirtók Skotland 2058) hafi rannsakað málið í áratugi.

 

Hvað með hamfarahlýnun, einhver lönd sem hafa sokkið í sæ? NASA fann upp risaryksugu sem náði að sjúga upp fullt af sjó og fara með upp í geim. Dældu honum inn í fínasta svarthol sem fannst 2039 - af íslensku geimvísindafólki - á Akranesi. Ýmsir sjónaukar hafa síðan þá numið eitthvað sem gætu sýnt sístækkandi fiskalíf þar. Samherji fór á fjárlög sem þurfti því kvótaerfingjum fjölgaði þótt fiskunum fækkaði. Allir sáttir við það.

 

MYND: Ég er alltaf með gemsann á mér sem kom sér aldeilis vel í nótt.


Lofuð myndbirting og covid-gleymskupúkar

Fótur og fitSannarlega engar ýkjur að segja að það hafi ríkt óvissuástand, næstum hættustig fyrir framan Classic-hárstofu í dag, svo margir spenntir að sjá nýju klippinguna. Ég fór út bakdyramegin dulbúin eins og löggan lagði til og svo brjálæðislega heppilega vildi til að gamall og góður fyrrum strætóbílstjóri sá aumur á mér og bauð mér far á jeppanum sínum. Hann þekkti mig þrátt fyrir hauspokann enda séð mig í gegnum árin í alls konar ástandi í strætó. Huggulega, óhuggulega og allt þar á milli. What happens í myrkrinu in Hvalfjarðargöng stays there ...

Hann er sestur í helgan stein og sagði mér í óspurðum fréttum að hann hefði fjárfest í framtíðinni. Æði, hugsaði ég, í Apple eða Samherja? en svo var nú ekki. Hann fór í magaermi eða hjáveituaðgerð fyrir mánuði og hefur þegar lést um 16 kíló. Það er samt ekkert miðað við vin hans sem missti 100 kíló ... sem eru 200 smjörlíkisstykki eftir svipaða aðgerð - en ég gleymdi að spyrja á hvað löngum tíma. Þetta lengir án efa lífið.

 

Mynd I: Mynd, eða það gerðist ekki, lofaði ég nýlega. Hér má sjá lætin á Þjóðbraut upp úr kl. 16 í dag.

 

Fyrir klippHann var svo sætur að skutla mér til Gísla rakara þar sem drengurinn var í klippingu. Ég sagði honum að síðast þegar mér hefði verið boðið far þegar ég var á hraðferð, hefði það verið af elsku Tomma, líka fyrrum bílstjóra. Ég klökknaði hreinlega við að minnast á hann, Tommi fór allt of snemma, hans er sárt saknað, við vorum sammála um það.

 

Elsku hárgreiðslukonan mín notaði sumarfríið sitt í covid-veikindi. Hún sagðist meðal annars vera mjög gleymin eftir veikindin sem sannaðist heldur betur þegar hún ætlaði að rukka mig og ég sagðist vera búin að borga. Maður getur greinilega stórgrætt á þessum covid-gleymskupúkum. (En auðvitað borgaði ég.)

 

Kona sem var í klippingu um leið og ég talaði líka um covidið sem hún fékk, líka í sumar, og að hún sé ekki enn farin að fá sér kaffi sér til gleði og hressingar á morgnana, bragðskynið hafi raskast og hana langi ekkert í kaffi. Hljómar ekki vel. 

 

Við stráksi fórum svo í bókabúðina á leiðinni heim. Hann er vitlaus í litlu bækurnar eftir Ævar vísindamann, greinilega alinn upp af brjáluðum bókaormi. Ég keypti mér bók eftir gamlan kunningja, Einar Örn Gunnarsson, Ég var nóttin, heitir hún og kápumyndin af manneskju spila á píanó.

Það var svo eins og við manninn mælt; um leið og við stráksi vorum búin að borða ER-hamborgarann og ofnsteiktu kartöflurnar, hringdi bjallan. Þetta var Pósturinn að koma með sendingu; bókina Ég var nóttin, áritaða af Einari sjálfum. Ekki átti ég nú von á því en varð voða glöð. Einhver heppin/n fær hitt eintakið af bók hans í afmælis- eða jólagjöf. Mikið hlakka ég til að lesa hana, hef alltaf verið hrifin af bókum Einars. Læt ykkur vita hvort hún er algjör snilld eða einfaldlega bara stórkostleg.

 


Hraunverulegt samsæri prjónafólks

2. þáttaröð hafinNæsta þáttaröð hafinGosið á Reykjanesskaga, II. hluti, Merardalir, 2 mánuðir eða 200 ár? Hraunveruleikasjónvarp, eins og það gerist best, eins og sumir orða það, eða hin árlega peysusýning, eins og ég kalla það. Svo virðist sem flestir jarðeðlisfræðingar eigi maka sem bæði hannar og prjónar flottar peysur sem hannyrðafólk á Facebook heldur ekki vatni yfir og vill fá uppskriftina. Fylgikvilli eldgosa, hnussar öfundsjúki heklarinn í Himnaríki sem kann bara að hekla sjöl, trefla og gardínur og dauðlangar í flotta lopapeysu fyrir veturinn. Jú, jú, með jarðeðlisfræðingamynstri, alveg eins. Sennilega eru veðurfræðingar frekar illa giftir því þeir eru yfirleitt ekki í útprjónuðum peysum. 

 

Ég er með eins konar móðurauga fyrir útsýninu mínu yfir hafið og milli klukkan eitt og tvö í dag varð mér litið út um gluggann og fannst eitthvað skrítið í gangi fyrir ofan staðinn þar sem gaus í fyrra, ögn til vinstri þó, nær Keili. Þá var bara að opna gluggann með mbl-vefmyndavélinni og sjá, komið þetta fína gos. Sem vonandi þýðir að jörð hætti alfarið að skjálfa. Missti af þeim síðasta (4,2) sem kom kl. 12 á hádegi í dag, akkúrat þegar ég stóð við kaffivélina og mátti fara að nærast, eða eitthvað að atast. Mæli með þessari aðferð fyrir jarðskjálftahrædda, eða að vera á hreyfingu þegar stórir skjálftar ríða yfir ...

Beðið um súpu Oliver Twist-syndrome

Eitt er mjög, mjög skrítið, eiginlega ógnvekjandi þótt ég eigi að heita öllu vön. Þegar Hilda systir var í sumarbústað með tveimur vinkonum sínum, ónefndum systrum sem voru með okkur í Austurbæjarskóla, fór að gjósa á Reykjanesskaga eftir 800 ára hlé. Sá atburður átti sér stað á síðasta ári, eins og einhverjir muna. 

 

Í dag hófst annað eldgos þegar þessar þrjár konur eru staddar úti á Tenerife, SAMAN á nýjan leik, rétt rúmu ÁRI SEINNA og ... nákvæmlega níu dögum fyrir afmælið mitt. Þessi tilviljun, ef tilviljun skyldi kalla, vekur mér óhug. Ég reyndi að segja sjálfri mér að gosið væri mögulega falsfrétt, runnin undan rifjum Þórólfs sem ætlar að bólusetja okkur með fjórða skammtinum í haust án þess að við verðum vör við það. Ekki viss samt um að ég hafi trúað mér. Mér finnst þó trúlegt að falsgosið tengist prjónakonum á einhvern hátt. Follow the money, á kannski vel við í þessu samhengi?!?

 

 

MYND: SAMSKOT Á TENERIFE: Heimildarkona mín ytra náði mynd af systur minni þar sem hún var að safna fé til að komast fyrr heim til Íslands og þannig koma í veg fyrir að fari að gjósa í Kötlu, Heklu og Bárðarbungu. Hún bar sig vel að öðru leyti og var komin í mikið jólaskap.


Blekkingar á Bastilludegi ...

MisskilningurEins og margir vita flutti viss frændi minn (Halldór fjandi) til Frakklands fyrir nokkrum árum. Rúmlega níræð móðir hans kom sér upp því sem henni fannst vera hæfilegar áhyggjur af syni sínum. Þær jukust svo til muna eftir að Pútín réðst inn í Úkraínu. Á Bastilludaginn, 14. júlí síðastliðinn, var að vanda mikið um flugelda og læti í Frakklandi sem varð til þess að fjandi fékk eina af sínum ömurlegu hugmyndum um að hrekkja (flýta fyrir arfi kannski?). Hann slökkti ljósin, hringdi myndsímtal í móður sína mitt í öllum látunum, talaði lágt, nánast hvíslaði og lést vera lafhræddur því nú hefði Pútín ráðist á Frakkland.  Sprengjuhávaðinn í bakgrunni gerði auðvitað ekkert nema staðfesta orð hans.

 

Mynd: „Þegar ég sagði ykkur að eyða Högurði meinti ég ekki af Facebook!!!“

 

Fjandi hefur hrekkt mig mikið, pínt og kvalið í gegnum tíðina. Oft í gegnum Facebook ... sem hataði húmorinn hans, munið, og notaði tækifærið þegar hann óskaði landsþekktum matargúrú gleðilegra jóla og kallaði hana heillina sem er dauðasök samkvæmt Zuckerberg. Hann hafði áður fengið viðvörun eftir að hann gerði grín að nýnasistum, illilega misskilið af fb-gervigreindinni, og þegar fjandi sýndi sitt rétta eðli og skrifaði HEIL-lin í jólakveðjuna, þurfti ekki frekar vitnanna við. Hann er á Twitter (hogurdur) og ég íhuga alvarlega nú eftir „starfslokin“ að bæta tístinu við annað sem ég er með; Facebook, Bloggið, OnlyFansSnapchat og Instagram. Kannski hef ég tíma fyrir Pinterest líka og kemst þá loksins í samband við Strætó bs. Tapað-fundið hjá Strætó á Pinterest og tilkynningar um vegaframkvæmdir einmitt á Twitter. Fjölmörgum flugum kálað. 


Vísvitandi blekkingar í sjónvarpi

Fyrr á þessu ári lagði maður nokkur spurningu fyrir lesendur Reddit-síðunnar og vildi vita hvort einhver þarna úti hefði tekið þátt í raunveruleikaþætti á borð við Supernanny eða Wife Swap og þá hversu mikið hefði verið í alvöru og hvað verið sett á svið, hafði þetta einhver áhrif á líf fólksins? Svörin létu ekki á sér standa:

 

Jonathan og ScottKunningi minn var í þættinum Property Brothers (tvíburarnir á Stöð 2 stundum - sjá mynd, og já, ég þekki þá í sundur).

Samkvæmt honum sáust bræðurnir aðeins þegar kvikmyndavélarnar voru í gangi. Öllum húsgögnunum var fleygt út og í staðinn komu önnur, vissulega falleg húsgögn en óhentug og ekki í góðum gæðum. Fjölskyldan þurfti að endurnýja margt eftir árið og fékk ekkert af gömlu húsgögnunum til baka.“

 

Ég var barn að aldri þegar fjölskylda mín tók þátt í Wife Swap.* Við áttum að skipta við sveitafjölskyldu og láta sem við værum ekta borgarfjölskylda þótt við byggjum í úthverfi. Fjölmargt var tekið algjörlega úr samhengi og mikið drama búið til úr engu. Mér var gefið að sök að vera leikjasjúkur svo ég missti Xbox og Gameboy þessa viku. Nokkrum dögum eftir að myndatakan hófst kom starfsmaður þáttarins til mín og rétti mér Game Boy sem hann sagðist hafa fundið. Það hefði svo sem ekki átt að koma mér á óvart að konan sem kom í stað móður minnar „stóð mig að verki“ við að spila.“

* Wife Swap. Eiginkonur skipta um heimili í viku, þessir þættir voru sýndir hér, á Stöð 2, minnir mig.

 

„Ættingjar mínir tóku þátt í Nanny 911. Þau Þau eiga tíu börn og sannarlega hægt að stjórna ýmsu og breyta. Þegar þátturinn var svo sýndur sáum við hversu miklu er hægt að breyta og þar með blekkja áhorfandann. Frændi minn var gerður að ömurlegum föður og honum bárust verulega andstyggilegar hótanir frá ókunnugu fólki sem trúði bullinu.“

 

Ég þekki konu sem tók þátt í Wife Swap. Það kom ekki fram í þáttunum en maðurinn hennar hélt fram hjá henni með hinni konunni og úr varð erfiður skilnaður.“

 

HeilsubæliðÉg get aldeilis bætt við þetta þar sem ég tók sjálf þátt í íslenska raunveruleikaþættinum Heilsubælið í Gervahverfi fyrir allmörgum árum. Ég get fullyrt að allt var sett á svið, allavega langflest.

Ég var dubbuð upp sem sjúklingur (blár sloppur) á kvöldvöku án þess að vera veik og þetta var drepleiðinleg og mjög endaslepp kvöldvaka, aðeins það besta úr henni sýnt í sjónvarpinu. Ég var „gestur“ í brúðkaupi sem var sennilega ekki alvörubrúðkaup og við máttum ekki einu sinni hlæja sem var mjög erfitt þegar tengdapabbinn hélt ræðu og líkti brúðgumanum við ryksugu.

Þetta var ekki gott heilsuhæli, þori að segja það núna, og það er ekki lengur starfrækt, sem betur fer. Það hafði þau hroðalegu áhrif á mitt líf að ég er brjáluð í hvítlauk sem hefur haft ömurlegar afleiðingar á félagslíf mitt, ekki síst hraðstefnumótin.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 473
  • Frá upphafi: 1526950

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 403
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband