Færsluflokkur: Bloggar

Enn ein björgunartilraunin ...

hengistoll1Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um svefn og fannst svolítið sniðug ein aðferðin sem ég fann um hvernig gott væri að sofna hratt og vel, aðferð sem kennd er hermönnum sem hafa eiginlega ekki efni á því að liggja andvaka, eins og sagði í þeirri grein. Hún er fólgin í því að liggja á bakinu tilbúin til að fara að sofa, sem sagt, og byrja á því að slaka á í höfðinu, finna slökuna færast yfir, síðan hálsinn, þá aðra höndina, síðan hina, líkamann og að síðustu fæturna. Síðan á maður að finna í hugskoti sínu dásamlegan stað, ímyndaðan eða alvöru (ég enda alltaf hálfsofandi í kósí hengistól í hálftómri stofunni í Himnaríki - ímyndaðri). Mjög oft næ ég að sofna fljótlega upp úr því. Majór Gurrí ...

 

Að ná að slaka á er auðvitað algjör snilld en ég hef oft ætlað mér að læra alvöruslökun sem var vissulega í boði þegar hér á Akranesi var hægt að fara í rope-jóga (sakn). Hnén á mér þola ekki venjulegt jóga eftir slysið um árið (2008?) En um daginn, fyrir kannski viku, sá ég á netinu auglýstar ókeypis íslenskar hugleiðsluæfingar og setti inn netfangið mitt til að fá þær sendar í pósti. Vissulega hef ég ekki gefið mér tíma til að prófa þær frekar en visst námskeið á netinu sem krefst bara korters á dag og ég er búin að borga fyrir, nei, ég safna bara póstunum og ætla að gera seinna.

Svo fóru hugleiðslu-ekki-kaupin að vinda upp á sig. Fínasta tilboð um að kaupa lengri hugleiðslur, allt mjög eðlilegt, en svo í gær fékk ég póst: Guðríður, ertu tilbúin til að fyrirgefa? Fyrirgefa hvað? hugsaði ég sjokkeruð, móðgaði hugleiðslukonan mig kannski í hugleiðslunum sem hún hélt ranglega að ég væri búin að hlusta á og var að biðja mig afsökunar á því? Eða les hún bloggið mitt og upplifði að ég væri enn brjáluð út í Íslenska hollustu fyrir að taka Fasta af markaði, safann sem hélt í mér lífinu? Ég fékk þó á tilfinninguna að þetta væri fjöldapóstur til allra sem hefðu látið freistast af ókeypis hugleiðslum, og nú ætti aldeilis að taka okkur í gegn. Allir lúrðu á einhverju sem þeir væru fúlir yfir og nýi gúrúinn okkar ætlaði svo sannarlega að hjálpa okkur við að fyrirgefa og eflaust að takast á við margt fleira. Hentar örugglega einhverjum en ég upplifði þetta bara sem ónæði. Svo ég las ekki lengra, heldur fjarlægði mig af póstlistanum, hef engan tíma í svona eða áhuga og mun heldur ekki prófa þessar ókeypis hugleiðslur fyrst þær voru bara tæki til að komast að mér og „bjarga sál minni“. Ég var búin að gleyma því að fæst er ókeypis í veröldinni og þessi kona bara að búa sér til atvinnu - og svo óheppin að lenda á grömpí kerlingu eins og mér.

Ég hef áður lent í líkamlegri björgunartilraun og svaraði könnun á Facebook um hvað ég fengi mér í morgunverð en það reyndist vera dulbúin Herbalife-auglýsing og nokkuð ónæði sem fylgdi í kjölfarið. 

Ég mun seint fyrirgefa þennan fyrirgefningarpóst, hann fer beint í minnisbankann með morgunverðarvenju-blekkingunni og Fasta-skortinum ...

 

GalitoferðVið skruppum saman nágrannakonurnar á Galito á föstudaginn. Stráksi kom auðvitað með og átta ára sonur hennar.

Við skiptumst alveg í tvennt; stráksi og hún fengu sér steikarsamloku (með salati) og við sonur hennar völdum okkur sushi, hann með frönskum! Ég var yfir mig hrifin af þessu vali drengsins, þekki ungt fólk yfir þrítugt sem er enn of ungt til að gefa sushi séns, en ungi smekkmaðurinn hafði þó, að sögn móður hans, engan áhuga á sushi á meðan hann bjó úti í Úkraínu þar sem það kostaði svo miklu minna, þrefalt minna.

Á leiðinni út í Galito mættum við strák með ís og ég lofaði að bjóða strákunum upp á slíkt eftir matinn, enda í leiðinni.

 

Má bjóða ykkur eftirréttaseðil? spurði yndislega stúlkan á Galito eftir matinn. „Nei, takk, við ætlum að kaupa ís í sjoppunni,“ sagði stráksi, alltaf hreinskilinn. Um leið sagði ég eitthvað á þá leið: „Nei, takk, við erum pakksödd eftir þennan góða mat.“ Svitlana er orðin svo góð í íslensku að hún skildi þetta og flissaði. Nú hafa sumir fengið kennslustund í því að særa ekki starfsfólk á veitingahúsum með óþörfum upplýsingum.

 

Myndin/sjálfan hér ofan sýnir okkur fjórmenningana og Snata á Galito. Með flottari sjálfum sem ég hef tekið. Ef myndin prentast vel má sjá Krónuna, Pennann, bókasafnið, Subway, Íslandsbanka, Lindex, Omnis og tónlistarskólann í baksýn. Og fullt af bílastæðum ...


Ég vissi það ... ég vissi það

Ellen prinsessa af ÍslandiÞegar ég sá rúmlega tuttugu ára gamla mynd af Elísabetu drottningu ásamt meintu barnabarni (sem er í raun barnabarnabarn, sjá mynd) sem konungsfjölskyldan leyfði greinilega óvart birtingu á, var eins og ljós rynni upp fyrir mér. Ég tel mig sjá mögulegustu myndina af því sem hefur greinilega gerst og fyrst engir dularfullir Bretar hafa sést hér á hlaðinu hlýtur að vera óhætt að koma fram með sannleikann. Nema leyndin hafi verið svo gríðarleg að ekki þótti möguleiki á því að eldklár kona á Akranesi áttaði sig?

Aðalatriðið er sem sagt að grunur minn úr æsku um að ég væri prinsessa en „í felum“ á Íslandi var allan tímann réttur en allt gert til að koma ekki upp um svokallaðar „veiðiferðir“ Karls í Hofsá í Vopnafirði á þessum tíma - sem hættu skyndilega þegar Díana kom til sögunnar ...  Við andlát drottningar fyrr í þessum mánuði voru ýmsar ljósmyndir gerðar opinberar og á einni þeirra má sjá Ellen systurdóttur mína, en Hilda er greinilega hitt launbarn Karls III. enda kom hann minnst árlega hingað um tíma. Við vorum án efa gerðar nokkrum árum eldri í Þjóðskrá, eins og mig hefur alltaf grunað, ellifjarsýni ekki byrjuð hjá mér, til að ósennilegt þætti að prinsinn ætti okkur. En það sem ég fékk ekki að vita og áttaði mig á í gær, var að Windsor-fjölskyldan hefur valið Ellen frænku úr til að umgangast, virðist vera. Útlenska nafn Ellenar er Eugene, E í báðum nöfnum sem nánast sannar mál mitt enn frekar, og til að blekkingin yrði fullkomin þóttust Andrés prins, föðurbróðir okkar Hildu, og Sarah Ferguson eiga hana, hlýtur að vera. Allir vita nú vesenið á þeim og því auðvelt að þvinga þau til þess.

Mamma var ótrúlega fögur kona, vissulega ögn eldri en meintur barnsfaðir hennar en ekki svo. Mig grunaði aldrei að hin systkini mín gætu verið royal og eftir að ég fór í blóðprufu með einu þeirra og sá bara rautt, áttaði ég mig á að svo gæti ekki verið.

 

Ellen í LondonVið systur (og líka Ellen og Davíð, stundum kallaður Beatrice) eigum auðvitað rétt á því að fara í erfðaröðina að bresku krúnunni og uppskera þá virðingu sem við eigum skilið. Ég er ekkert endilega að tala um peninga en ég hef sterkt á tilfinningunni að ég hafi stundum fengið aðstoð. Það var grunsamlega auðvelt fyrir mig að kaupa Himnaríki (99 fm) á sínum tíma (2006) og ekkert endilega af því að sú íbúð var ódýrari en litla íbúðin mín við Hringbraut (56 fm) ... og alltaf annað slagið berast mér óvæntar góðar gjafir, eins og nýlega þegar ég fékk frosinn þorsk í stykkjum og frosið hreindýrahakk frá góðum Skagamanni sem er veiðimaður eins og Karl III. Ég hélt að þetta væru gjafir til mín sem áhrifavalds á Moggabloggi en nú hafa runnið á mig tvær grímur.

 

Nokkur atriði gera þetta kýrskýrt í mínum huga, ekki bara neðri ljósmyndin sem sýnir Ellen í London þegar allir héldu að hún væri á Akureyri. En aðallega þetta tvennt:

1) Laugarbakki í V-Hún. er ranglega talinn vera krummaskuð en er afar góður staður ef þarf að láta lítið fyrir sér fara um hríð. Ásgeir Trausti tónlistarmaður er einmitt þaðan og er alveg ábyggilega með blátt blóð í æðum. Danskt, grunar mig. Maður er fljótur að verða sérfræðingur í svona málum ... Hildu hefur einhvern veginn verið stýrt á Laugarbakka án þess að hún áttaði sig á því að hún þyrfti að fara í felur með börnin og ég var um hríð hér á Akranesi, vissulega einnig í felum, sé ég núna. Ég skil ekki hvernig Hilda uppgötvaði ekki að barnið hennar var statt úti í London (sjá mynd úr Buckinghamhöll) nema þetta sé allt risastórt samsæri til að halda mér frá og Hilda viti allt. Nje ... 

2) Athugasemd Hildu um Kamillu, að hún væri ekki nógu drottningarleg (Kamilla var tábrotin) var eflaust undirmeðvitundin að hatast við vondu stjúpuna sem við vitum öll að hefur verið til frá tímum bæði Mjallhvítar og Öskubusku.

3) Mér finnst réttara að segja fólki að snæða óhreinindi en að éta skít. Mig langar líka rosalega mikið í matarstell (hef aldrei átt slíkt), það má alveg vera úr gulli eða með gullrönd. Ég er fædd í þetta.

 

Þegar ég gekk á Ellen frænku varðandi þetta og sýndi henni sönnun þess að hún væri prinsessa hló hún bara og sagði: „Ja, hérna, við erum bara svolítið líkar.“ Þetta svar hennar kom mér ekkert á óvart, heldur fullvissaði mig um að mínar kenningar væru réttar. Fólk í þessari stöðu hefur lært að neita fram í rauðan dauðann. Vá, hvað þessi helgi á eftir að fara í frekari rannsóknarvinnu og sannanaleit.

 


Falsspákonan og undarlega þenkjandi leikjahönnuðir

GervispákonanÍ fyrrakvöld borðaði ég með hópi skemmtilegs fólks, allra þjóða kvikindum. Einhverjir voru með símana á lofti, ofsaglaðir eins og við erum á haustin eftir að samkvæmislíf vetrarins er farið af stað. Ég var bláklædd og mjög fín og sæt, að ég hélt, en þegar ég sá myndina á sameiginlegri fb-síðu hópsins áttaði ég mig á því að ekki bara ljósmyndir bæta á mann kílóum, heldur líka litir, blár er greinilega mjög skæður. „Ég kála þér ef þú merkir mig á þessa mynd!“ sagði ég blíðlega en ákveðið við myndasmiðinn. Ef merkt, þá myndu myndirnar ógurlegu sjást á minni eigin síðu og ég missa allan séns. Héðan í frá verð ég svartklædd á mannamótum, eða fæ að taka myndirnar þar sem fegurð mín festist hreinlega ekki almennilega á filmu. 

Ég var enn hissa við heimkomu og ákvað að leita til net-völvunnar minnar, hirðspákonunnar, véfréttarinnar, eða hvað hægt er að kalla hana. Og spurði nánast harmþrungin: „Véfrétt, véfrétt, tjáðu mér, hver á landi grennst er hér.“ Véfréttin sem ég er eiginlega hætt að treysta, maður á líka ekki að trúa á svona, spýtti út úr sér svarinu á núll einni: Guðríður, þú þarft að léttast (sjá mynd). Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ekkert: Þú lítur mjög vel út og ert mjög grönn miðað við marga, og svakalega ertu sæt í ljósbláu en nei, engin góðvild (sem vonda fólkið kallar meðvirkni). Bíði spábjáninn bara þar til ég leita næst ráða hjá henni. Eins og hún hún hefur oft verið sannspá ... Ég jafnaði mig nú fljótlega, minn eigin spegill segir að ég sé æðisleg og ég trúi því betur en ljósmyndum og falsspákonum.

 

Leikur...Fyrir kemur, meira að segja nokkuð reglulega að ég dett í að gera kapal í gemsanum mínum. Ekki síst í strætó á leið í bæinn, en oft líka heima. Nánast alltaf, þarf að afplána misleiðinlegar auglýsingar á undan hverjum leik sem er svo sem skiljanlegt því ekkert fæst ókeypis. Ég verð að hrósa íslensku auglýsingunum sem eru hógværar og fæstar æstar eða fáránlegar. Einna leiðinlegust er auglýsingin (útlensk) um leik sem fjallar um kóng sem þarf að bjarga frá því að deyja á hroðalegan hátt eða í einu borðinu; pissa í buxurnar. Honum mæta iðulega heilmiklar áskoranir og hindranir á leið á klósettið eða á ferð yfir brýr og slíkt sem við eigum að bjarga honum frá. Þessi auglýsing hefur reynt á þolinmæði mína árum saman og mér hefur dottið í hug að hlaða honum niður bara til að fá frið ... en þá heldur liðið að auglýsingarnar virki og það vil ég ekki. Nýjasta auglýsingin er líka um leik þar sem við eigum að bjarga einstæðri móður með unga dóttur. Þær líta báðar hræðilega illa út og eru alltaf grátandi og skjálfandi úr kulda og fátækt, betlandi peninga eða þurfa hjálp við að fá eldivið svo þeim hlýni og hávaðinn í tannaglamri þeirra hætti. Ég hélt að allir vissu hvað einstæðar mæður hafa það gott á öllum þessum bótum!!! Það var mér oft tilkynnt í gamla daga þegar ég lifði í þeirri blekkingu að ég hefði það frekar skítt. Þarna efst á myndinni er einhver sem fleygir í mæðgurnar smáaurum en sá sem stjórnar leiknum á að sjá til þess að stýra peningunum rétta leið, eða til þeirra. Brauðmolakenningin með millilið?

 

Eldum réttEldum rétt-máltíðin í gær leit ansi stórkostlega út, en sósan var ofboðslega sterk. Stráksi fór í sund og ég borðaði á undan honum (12-20 glugginn) svo ég gat varað hann við. Hann kallaði annað slagið: „Er eðlilegt að svitna af mat?“ Vá, þetta er hræðilegt, ég get ekki klárað.“

 

Og hann gat ekki klárað. Ég elska sterkan mat en úðaði í mig hrísgrjónum, brauði og melónum með til að deyfa bragðið en þar fyrir utan var þetta gott eins og allt sem ég hef eldað frá ER.

 

 

Í lægðinni nú um helgina hlakka ég til að bretta upp ermar í eldhúsinu og vinna t.d. með pestóið frá Önnu Mörtu (fæst í Hagkaup (og Krónunni sums staðar)) og er það besta sem ég hef smakkað, eða í raun eina búðarpestóið sem ég get borðað.

Í raun þarf bara að sjóða pasta og gera salat, svo sér pestóið um rest. Ég segi drengnum að ég hafi verið allan daginn að elda - of stutt eldamennska tengist því í hans huga að maturinn sé ekki góður.

Svo verður farið með vinum á Galito í kvöld en allar myndatökur verða stranglega bannaðar.

 

Myndin var tekin á hinni daglegu sigurstund í gærkvöldi - áður en kom í ljós hversu sterk sósan var.


Tábrotin Kamilla og mögulega upplognar matarhefðir

Harry og MeghanNýliðin vika fór ekki bara í spekulasjónir um furðulegt veðurfar á Íslandi miðað við árstíma, samanburð á milli ára í gegnum Facebook-myndir mínar, heldur fór athyglin að miklu leyti á Elísabetu II. drottningu og hinstu ferð hennar, nánast hvert skref afkomenda hennar og tengdabarna og tengdabarnabarna-barnabarna. Klökknaði eins og fleiri þegar kistan fór fram hjá uppáhaldshesti hennar, hundunum, og þegar sekkjapípuleikarinn hennar blés sína kveðju.

 

Mér finnst Kamilla ekkert drottningarleg,“ sagði Hilda um síðustu helgi bara til að eyðileggja stemninguna. Ég móðgaðist ekki beint en sagði kannski óþarflega hvasst: „Hún er tábrotin, slasaði sig rétt fyrir lát drottningar. Það hlýtur að vera erfitt að bera sig tignarlega með brotna tá.“ Ef systir mín skammaðist sín duldi hún það vel.

 

Daginn eftir útförina var nákvæmlega ekkert um drottninguna á Sky News svo ég fór að hlusta á tónlist við vinnuna og pirrast enn og aftur út í YouTube-tónlistarveituna fyrir að stoppa alltaf eftir nokkur lög og spyrja Viltu halda áfram? Ef ég borga mánaðargjald slepp ég kannski við það en veit það samt ekki. Já, mig langaði nú bara að vita hvernig afkomendum liði eftir þessa ótrúlegu daga, hvort Karl III. myndi flytja í höllina og leyfa pasta og hvítlauk sem mamma hans bannaði ... en þetta kemur allt í ljós með tímanum. Annars rakst ég á sitt af hverju skrítið þegar ég las ýmsar fréttir um Windsor-fjölskylduna sem allt var morandi af á Facebook. Því hefur verið haldið blákalt fram að allur skelfiskur sé harðbannaður innan veggja halla og kastala bresku hefðardúllanna. Svo renndi ég hratt yfir viðtal við fyrrum hirðkokk sem var spurður hvað fjölskyldan snæddi nú á aðfangadag (mig langaði bara að fá hugmyndir). Ég man ekki allt en get ekki gleymt því að eitt af fíniríinu var salat sem er ýmist með humri eða rækjum! Hmmm. Kannski er einhverju logið upp á þetta fólk. Hver veit nema Meghan sé ekki sá djöfull í mannsmynd sem Piers Morgan vill meina ... bara dæmi. Mér finnst matseðillinn hjá Hildu systur reyndar áhugaverðari þótt gott salat hljómi alltaf vel en hún er með ofnæmi fyrir skelfiski ... það er t.d. lamb og önd, tvær tegundir af kartöflum (hvítlauks og brúnaðar), hrísgrjónasalat a la London, tvær sósusortir og svo eitthvað vegangómsæti.

 

ÚtförEftir þessa royal-rússibanareið síðustu daga hef ég ákveðið að útgöngulagið í útför minni verði Útfararmarsinn (nr. eitt?) eftir Beethoven og eins gott að allir þrammi í takt. Og ef útför mín fer einhverra hluta vegna fram frá Westminster Abbey langar mig að biðja fréttafólk að hætta að segja: West-MINI-ster, (vestur-ráðherra) en að sjálfsögðu gera þetta alls ekki allir. Sá eða heyrði auglýsingu frá íslenskri húsgagnaverslun um WestminIster-stóla til sölu svo sennilega hefur þetta fengið að grassera óáreitt um hríð hér á landi, eins og orðið ungAbarn. Í gær eða fyrradag mátti heyra eitthvað á þessa leið í sjónvarpinu: „Næst á dagskrá er þátturinn Líf ungbarna þar sem fjallað verður um líf ungabarna ...“

 

BrúðkaupstertaSá húsgagnasmið kvarta sáran á netinu yfir því að kista drottningar hefði verið hulin með fána, en hún var smíðuð úr enskri eik (sjaldgæft) og eflaust mikil völundarsmíð. Ég er ekki sú besta í að gúgla svo ég gat ekki bjargað þessu, eins og um árið þegar bárust fréttir af eldgamalli tertusneið úr brúðkaupi Karls og Díönu, einhver hafði geymt hana og fréttafólkið nennti ekki að gúgla mynd af múmíu-tertusneiðinni, það gerði ég og birti hér á þessu bloggi og var sú eina. Lata fólkið birti nú bara mynd af Díönu og Karli.

Kakan seldist á 1.850 pund sem gerir tæplega 300 þúsund kr. íslenskar. Kakan sem ég fann á sínum tíma, eða mynd af henni, var ekki sú sem myndin er af hér (ávaxtakaka greinilega), svo mögulega voru fleiri svona tertusöludæmi í gangi. Jæks.

 

Samt, þetta veður ... Sumir vilja meina að þrá mín eftir almennilegu haustveðri hafi á einhvern hátt lækkað hitastig á landinu nú þegar september á bara viku eftir! og valdið roki og rigningu. Anna vinkona gleðst yfir því að það verði vorveður til jóla, skv. Einari veðurfræðingi. Hvar er Siggi stormur núna? Annars kvarta ég ekki, þetta er ljómandi fínt og mig langar sannarlega ekki í snjó og hálku.

 

Ef vinir mínir og vandamenn sætta sig við góðan storm annað slagið (og tilheyrandi brim) er ég alveg sátt við milt vorveður til jóla, eða bara langt fram yfir áramót - jafnvel enn lengur. Mæli svo um og legg á.


Gjöfult eða djöfult

HaustveðurHaustið lætur enn á sér standa og nánast með tár í augum hef ég með aðstoð Facebook rifjað upp æðislegt veður í september, skoðað spennandi myndir af veðurkortum og rifjað upp í huganum gæsahúðina sem oft brýst fram í sérdeilis góðu veðri, eins og ég túlka gott veður. Mig minnir að haustið 2013 hafi verið sérlega gjöfult upp á spennandi veður, eða djöfult eftir því hvernig á það er litið (hæ, Hilda og eiginlega allir sem ég þekki). En sumarið ríkir enn og viftur Himnaríkis við það að bræða úr sér.

 

Þetta svokallaða GÓÐviðri hefur nú samt haft margt skemmtilegt í för með sér ... eins og nánast fullt Himnaríki af gestum alla helgina. Á laugardeginum dró ég gestina með mér í bröns í Kallabakaríi, einfaldara en að vesenast í Himnaríki. Keypti eitthvað smávegis í leiðinni til að taka með heim sem kom sér sérdeilis vel þegar sunnudagsgestirnir komu. En, ef á að svíkja þetta með veggjöld og Hvalfjarðargöng, veit ég að gestakomum mun fækka, nema gjaldið verði þeim mun lægra. Fólkið mitt hugsar: Gómsætar kökur og geggjað kaffi hjá Gurrí, hægt að horfa á sjó og klappa sætum kisum og allt ... nei, það kostar þúsundkall í göngin, kaupi frekar salt í grautinn.

 

Karl drottningNú skil ég af hverju gjaldskýlið var ekki fjarlægt, það stóð sennilega aldrei til að fella niður þessa peningavél þrátt fyrir loforð um það þegar lánið væri uppgreitt eftir 20 ár (sumar 1997 - hausts 2017). Ef ég verð sérlega einmana eftir að gjaldtaka hefst og fæ leiða á öldugangi (sjúr) get ég svo sem alltaf flutt í bæinn aftur, eins og viss kona í vinahópnum sem sér lengra en nef hennar nær, vill meina að ég geri eitthvert árið. Þannig að maðurinn með fallegu röddina dettur sennilega út af þingi næst, nema komi eldgos og við gleymum öllu. Þegar ég fer að kunna sæmilega vel við hann (fyrir gjaldtöku-umræðu) rifja ég alltaf upp þegar hann þvingaði stofu tengda fiski til höfuðborgar Norðurlands ... Svona er ég nú langrækin en svona gera menn ekki ... Ég held að pólitískt gullfiskaminni mitt hafi horfið í Hruninu.

 

Vinkona mín leigði sumarbústað eina helgina ekki alls fyrir löngu til að halda upp á afmæli sitt, bauð vinafólki í mat og gistingu. Hún fékk áfall þegar henni barst bréf nokkru eftir heimkomu um að illa hefði verið þrifið, hún þyrfi að borga 20 þúsund krónur fyrir, stórhugguleg lögfræðihótun fylgdi að auki. Hún svaraði um hæl: Það getur ekki verið, ég starfa við að þrífa og skildi mjög vel við bústaðinn, endilega sendið mér myndir sem sanna að illa hafi verið þrifið - sem getur ekki verið! Hún fékk afsökunarbréf, auðvitað þyrfti hún ekki að borga aukagjaldið, þetta hefði verið misskilningur ... Kannski er viðkomandi verkalýðsfélag (ekki Akraness) almennt þreytt á slæmum þrifum og sendir sjálfkrafa reikning, ég vil ekki trúa því að þetta hafi verið gert af því að hún er útlensk.

 

Royal SabbathÉg horfði á alþingismenn og fleiri ganga frá Dómkirkju að Alþingishúsinu og skil ekki hvers vegna liðið stoppaði ekki til að taka í hendur á fólkinu sem beið hinum megin víggirðingar og jafnvel þiggja gjafir. Hefðardúllurnar bresku kunna þetta og hafa stórgrætt á því undanfarið, m.a. Paddington-bangsa, sultusamlokur og blómvendi - höllin hefur sent út neyðarkall, ekki meira, ekki meira, til að verði ekki rottufaraldur við höllina eða í henni. Hér á landi yrðu það mögulega flatkökur með hangikjöti eða kleinur, og lukkutröll í stað bangsa. Við erum svo aftarlega á merinni í öllu svona - nema mér skilst að þetta nálgist nú samt; að einhverjir fréttamenn í sjónvarpi hafi klæðst svörtu vegna andláts Elísabetar drottningar en ég sá það ekki og harðneita að trúa því. NEMA: Kannski erum við nýjasta nýlenda Stóra-Bretlands, maður veit ekkert hvað þessir þingmenn og ráðherrar gera í vinnunni. Það þurfti ekki nema tvo káta ráðherra um árið til að samþykkja að Ísland færi viljugt í stríð, svo það er aldrei að vita. Kemur svo sem á sama stað niður hvort Bretar eða Samherji græði sturlað á fiskimiðum okkar.

Við myndum án efa læra meiri kurteisi (hendum fyrst Piers Morgan westur um haf), við fengjum Harrods (súkkulaðið þar er of gott, prófið að fara niður í kjallara á Heathrow-flugvelli og í Harrods-búðina þar) og Shepherds Pie gæti leyst þverskorna ýsu af sem þjóðarréttur sem myndi gleðja mig mjög. En Christmas Pudding ... hann hefur fælingarmátt. Kerlingar á mínum aldri sem eiga allt ... hvað ætli ég fengi marga dunka af jólabúðingi löðrandi í brennivíni (til að íslenska kvikindið aðeins) í jólagjöf þegar ný menning héldi innreið sína? Samt ...


Drottningin öll

ElísabetSíðustu klukkutímana hefur Sky News mallað í Himnaríki, fyrst til að bíða fregna af heilsu drottningar og svo til að sjá hvernig hennar hefur verið minnst - alveg eins og ágústnótt eina árið 1997 þegar Díana prinsessa lést eftir bílslysið. Alveg sama hvað mér finnst almennt um konungdæmi hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir Elísabetu drottningu sem varð drottning 25 ára gömul og til dauðadags. Ég skrifaði einhvern tíma grein um hana fyrir Vikuna og gat ekki annað en fyllst aðdáun á henni þegar ég las mér til um hana á meðan greinin var í vinnslu.

Þegar ég bjó í London árið 1976 datt mér einhvern veginn aldrei í hug að fara að skoða höllina, kannski var það ekki í boði þá en ég man mest eftir fréttum af landhelgisdeilunni og kurteisi Breta við þessa íslensku au pair-stúlku þrátt fyrir vafasamt þjóðernið. Breska konungsfjölskyldan var ekki sérlega mikið í fréttum og ég fann ekki fyrir mikilli dýrkun á henni en þá var Díana prinsessa svo sem ekki komin til sögunnar - þau voru samt virt og vinsæl. Breskur kunningi tjáði mér að það þætti mjög fínt að vinna í Buckingham-höll og eldhússtúlkur þar töluðu ekki við hvern sem væri ... konungsfjölskyldan þætti þó nokkuð alþýðleg en vissulega háð ströngum reglum og aldagömlum siðum. Elísabet þótti nánast of alþýðleg að mati háaðalsins fyrir að borða morgunverð sinn upp úr Tupperware-dollum, í stað þess að nota almennileg hnífapör og gulldiska ...

 

buckingham-palaceHöllin er gjörsamlega rosaleg ... í henni eru 775 herbergi. Nítján salir, 52 herbergi fyrir hefðardúllurnar og gesti þeirra, 188 starfsmannaherbergi og 78 baðherbergi. Um þúsund starfsmenn sjá um að elda, þvo, þrífa, kemba hesta, þrífa eftir hundana, strauja rúmföt, fægja silfur, reyta arfa og allt þar á milli. Margir fara í langa og stranga þjálfun fyrir starf og allir skrifa undir þagnareið.

Það þykir fyrst og fremst fínt að vinna í Buckinghamhöll og launin eru lág eftir því hjá flestum. Ég skrifaði ábyggilega um hryllingsjólagjafir sem starfsmenn fá, en það er jólabúðingur, fullur af hnetum, döðlum, möndlum og rúsínum löðrandi í víni. Vinnudagur getur verið mjög langur, frá morgni til næstum miðnættis en aðrir rólegri á milli. Það eru skýrar reglur um hvenær dags hvert verk er unnið og hversu langan tíma það tekur. Það fór klukkustund í að strauja rúmföt drottningar og um tuttugu mínútur að búa um rúm hennar dag hvern. Það eru notaðar reglustikur til að leggja á borð.

Þriggja ára þjálfun þarf til að verða hallarþjónn. Einn slíkur lét hafa eftir sér að þjálfunin hafi verið líklega það næsta sem hann komst því að vera í herþjálfun án þess að bera byssu. Hann lærði að bursta skó, strauja einkennisbúninga og margt fleira.

 

Nú er Karl orðinn konungur og spurning hvort hann velji sér að heita t.d. Georg eða Vilhjálmur (algeng nöfn á kóngum) eða verði bara Karl áfram. Hvort hann leyfi hvítlauk í höllinni eða hann verið áfram á bannlista.

Merkileg kona Elísabet og hennar verður sárt saknað af mörgum. Ég vonaði að hún yrði alla vega jafnlanglíf og móðir hennar var, rúmlega 100 ára, en að ná 96 ára aldri er ansi vel af sér vikið.


Fjör í samkvæmislífinu og góðar veðurfréttir

kaffihús nammVerulega skemmtileg Reykjavíkurferð eftir hádegi í dag til að hitta gamla vinkonu sem ég hef ekki séð í mörg ár. Hún er orðin borgarbúi síðan þá og ég landsbyggðargella, var öfugt áður. Ég hef reyndar alltaf verið snjöll við að velja mér vinkonur ... ein var erfðaprinsessa í gosdrykkjafyrirtæki, önnur í sælgætisverksmiðju, enn önnur átti frystihús - og þetta þýddi auðvitað allar hirslur mínar fullar af frystum fiski, konfekti og gosdrykkjum ... en þessi vinkona slær öll met; hún á heilt KAFFIhús, Bókasamlagið í Skipholti! Það stendur þar sem skemmtistaðurinn Röðull var eitt sinn en fólk eins og ég, 78-kynslóðin, var notað til að passa börn þeirra sem djömmuðu þar eða í Þórskaffi á næsta horni fyrir neðan. Einhvern tíma nær í tíma var þarna Ruby Tuesday-matsölustaður en núna sem sagt komið ótrúlega flott og gott kaffihús. Verð samt að viðurkenna ákveðna fordóma hjá mér sem ríktu FYRIR heimsóknina. Ég var að hugsa um að taka með mér fernu af kaffirjóma til að geta drukkið kaffið því haframjólk var ábyggilega einhver hroðalegur hryllingur, var ég viss um.

 

 

Hún sótti mig sem sagt í Mjódd og saman fórum við á Bókakaffihúsið hennar sem er vegan. Ég sýndi algjöra hetjulund og fékkst til að smakka vöfflur með súkkulaði (flórsykur, kakó, kaffi) og veganrjóma, smakkaði líka kleinu og nýbakað crossant með suðusúkkulaði (ekki nutella) og fannst þetta allt mjög gott. Kaffið algjör dásemd og sóttur var hafra-RJÓMI út í kaffið fyrir hefðarfrúna af Skaganum sem var himinsæl með þetta allt saman. Kaffið sjálft ekki amalegt, heldur frá Kaffibrugghúsinu sem eru verulega góð meðmæli. (Sama og á Rjúkanda á Snæfellsnesi sem varð til þess að mig langaði að flytja þangað). Við sátum í sófa á efri hæðinni og horfðum niður í kaffihúsið (sjá mynd af vinkonunni að koma upp stigann, skjáskot af Snapchat) en fyrir aftan okkur voru básar og þar sat fólk sem vildi meiri rólegheit, þarna var m.a. þýskur þýðandi við vinnu sína.

 

Elsku voffiVið lögðum svo af stað til baka rétt rúmlega fjögur frá Skipholtinu að Mjódd, ákváðum að keyra Lönguhlíð og svo Miklubraut í austur alla leið að Ártúni. Enn í Lönguhlíð kl. 16.24, brottför strætó kl. 16.29, og við engar stresskerlur svo það ríkti bara æðruleysið eitt. Svo á Miklubrautinni rétt hjá gamla Tónabæ kl. 16.35 ákvað elsku hjartans vinkonan að skutla mér alla leið á Skagann á fína rafmagnsbílnum sem er svo fullkominn og flottur að ég náði ekki að opna hann í Mjódd, enginn hurðarhúnn ... bara ósýnilegur takki til að ýta á - ég veit það núna. Við ókum sem leið lá alla leið að Himnaríki þar sem allt var kæfandi heitt innandyra, óþolandi þegar haustlægðirnar komast ekki rétta leið vegna skrambans hæðanna sem ríghalda sér yfir landinu. Síminn minn sýndi 10 stiga hita um eittleytið úti á stoppistöð en ég held að það hafi verið fölsun, samsæri veðurfræðinga til að ég flytji ekki til Grænlands eða Alaska (látum Gurrí halda að það sé kaldara-samsærið), ég er eiginlega handviss um að það hafi verið 13-14 stig raunverulega. Kettirnir eru líka lamaðir af hita og sækjast í að vera fyrir framan viftuna, helst ofan á lyklaborðinu svo ég noti nú hendurnar frekar í að klappa þeim. Ef það væri nú bara einhver vindur en það verða víst 9 m/sek á morgun sem er skárra en ekkert og rigning, sagði sæti veðurfræðingurinn áðan. (jesss)

 

Ekkert lát er á dásemdum þegar kemur að samkvæmislífi Himnaríkis. Í ágúst var lágstemmt en hávært og fámennt afmæli haldið, í dag hittingurinn á Röðli og nú á laugardaginn verður hér bröns ... þrjú fullorðin (með mér og drengnum, þar af ein lystarlítil) og tvö börn. Hvar finn ég góðar hugmyndir að flottu en litlu brönsboði? Vöfflur eða kannski frekar litlar ammrískar pönnsur? Á ég hlynsíróp? Rennur hlynsíróp út? Ætli sé erfitt að gera Egg Benedict? Er sniðugt að fara bara í bakaríið og kaupa rúnnstykki og álegg? Eða í sturluð flottheitin sem mig langar mest; fá sent bland á bakka (enn heitt) með þyrlu frá einhverjum fínum stað í bænum (Galito er ekki lengur með bröns) ... en eru ekki allar þyrlur í viðgerð og þrifum eftir eldgosið? Kallabakarí er líklega málið ... Ég á freyðivín inni í ísskáp síðan Oddfellow-konurnar heimsóttu mig í vor ... stráksi er undir aldri, eins og börnin sem koma og systir mín á bíl ... alveg spurning samt.

 

Neðri myndin var tekin á Selfossi um árið (fékk hana senda í dag) og minnti mig enn og aftur á þá furðulegu staðreynd að manneskja (ég) sem elskar hunda svona heitt hefur ekki átt hund síðan 1981. Búseta á þriðju hæð er sennilega innikattavænni. 

 

Facebook var að rifja upp minningar síðan 7. sept. 2014: 

Samtal í bíl.

Hann: Hvernig finnst þér þetta lag?

Ég: Allt í lagi.

Hann (2 sek síðar): En núna?

Ég: Bara fínt.

Hann: Gallinn við þig er að þú getur ekki skipt um skoðun.


Hannyrðahefnd og hrekkur

Svona einmittStundum á maður ekkert endilega að reyna að bæta heiminn með því að uppræta hannyrðaglæpi. Ég hef nánast rökstuddan grun um að ég hafi gert vissum hópi skráveifu með afskiptum mínum undanfarið. Ég hef í dag X-að þessar heklsíður - sem gefur mér mánaðarhvíld frá þeim (þær birtast hjá mér þótt ég sé ekki „vinur“) en sá eina færslu, um 12 tíma gamla, með aðeins örfáum lækum og hjörtum þrátt fyrir átakanlegan textann. Kannski áttaði fólk sig eftir að hafa séð 50-100 svona færslur á einni viku ...

 

 

Eldsnemma í morgun, kl. 9.23 nákvæmlega, hringdi gemsinn og dularfullt óíslenskt númer kom á skjáinn á símanum mínum sem lét mig vita að þetta væri frá greinilega víðsjárverða útlandinu Marokkó. Þangað hef ég aldrei komið og þekki engan þaðan en þykist vita nú að gæti tengst hekli. Ég reiknaði í hvelli þversummuna af númerinu og útkoman var 3 sem er meinlaus tala en tengist einhverju skapandi, skilst mér, og hvað er meira skapandi en að hekla og prjóna? Að sjálfsögðu svaraði ég ekki. Ég er ekki fáviti.

 

Svo um þrjúleytið þar sem ég sat við tölvuna og vann heyrði ég þrusk og sá útundan mér hreyfingu, leit upp og sá að einhver í úlpu og með hvíta grímu fyrir andlitinu stóð í dyragættinni og starði illúðlega á mig. Dagar mínir taldir, hugsaði ég eitt sekúndubrot og fann fyrir þakklæti ... að hafa þó náð að upplifa hljómsveitina Trúbrot, Harry Potter og Pixies áður en ég kannaðist við grímuna. Með taugarnar þandar en engan skjálfta í rödd, sagði ég við drenginn sem hafði fengið þessa arfaslæmu hugmynd akkúrat í dag: „Ertu að reyna að drepa mig?“ Stráksi flissaði en óttaðist samt greinilega að mér hefði ekki orðið nægilega bilt við - miðað við að ég öskraði ekkert og datt ekki úr skrifborðsstólnum. Vissulega gaf ég honum þessa grímu í jólagjöf eitt árið sem gæti hafa bjargað mér frá öskrum og falli. Auðvitað er ég líka þónokkuð lífsreynd. Ég kippi mér ekki upp við neitt núorðið - nema ef vera skyldi vont kaffi, þverskorin ýsa, hræringur, sund, dauðadrukkið fólk og fleira. En nú er ég að fara að búa til plokkfisk - frá Eldum rétt. Nammi-namm. Fiskbúðinni var nær að taka ekki betur í frábæra hugmynd mína um heimsendingar. 


Hekl-svindlarar, veggmálverk og skortur á kaffihúsum

Really„Hvað hefur þú eiginlega verið að gera upp á síðkastið, risastóra og eldgamla stórasystir?“ spurði litlasystir áhyggjufull í hádeginu. Ekkert heyrst í mér, hvorki í síma né bloggi í marga daga. Þegar átök standa yfir líður tíminn ansi hratt og þá getur verið erfitt að svara í símann.

„Ja, ég hef verið mjög önnum kafin á Facebook,“ svaraði ég ögn pirruð yfir trufluninni. „Þessir heklsvindlarar opinbera sig ekki sjálfir.“

Bíddu nú við! Viðgengst svindl í heklbransanum? Ég hélt að það væri bara kvótakerfið, eftirlaun og slíkt sem tengdist svindli á fólki.“

„Heklbransanum? Ef þú bara vissir,“ tautaði ég. „Sko, fólk birtir myndir af misfallegu hekli og skrifar átakanlegan texta með (á ensku), nánast alltaf sama textann (hráþýtt): Mér var sagt að heklið mitt væri ljótt og ég varð svo sár. Ég sem geri allt af svo mikilli ást! Mig langar að vita hvað grúppunni finnst um þetta gullfallega mynstur. Ég hef safnað saman nokkrum ólíkum myndum með sama textanum og smelli þeim inn á milli kærleiksfullra huggunarorða þeirra sem hafa fallið í gildruna.“

Og hvað, er það ekki allt í lagi?“ spurði Hilda.

„Finnst þér allt í lagi þótt verið sé að hafa læk og hjörtu af saklausu fólki, jafnvel koma því í uppnám að óþörfu?“

Já, ef fólk áttar sig ekki sjálft ættir þú ekki að eyða dýrmætum tíma þínum í að vera Facebook-lögga - eða er kannski svona lítið að gera hjá þér núna?“

„Nei, eiginlega ansi mikið að gera svo ég reyni að laga til á alheimsnetinu þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin.“

Dæs,“ sagði systir mín ekki alveg nógu skilningsrík ... hún getur nú virkilega þakkað fyrir að kunna ekki að hekla og vita ekki hversu mikið hjartans mál það getur verið að horfa upp á hekl-glæpi. Þessu er nú samt sennilega sjálfhætt hjá mér því að heklsvíðingarnir hafa nýlega (sl. nótt) tekið af þann möguleika að heiðarlegt fólk upp á Íslandi sem þolir ekki svindl, geti sett inn myndir sem sýna svívirðuna sem þúsundir hafa fallið fyrir á undanförnum vikum og sýnt samúð með fólki sem á það ekki skilið, fólki sem hefur stolið heklmyndum og sett texta sem á að fá allra hörðustu jaxla til að hágráta.

Segðu mér eitt. Fylgir hlekkur með, t.d. að ókeypis uppskrift?“ spurði hin klára og lífsreynda systir mín. 

„Já, reyndar,“ svaraði ég eftir að hafa kíkt.

Ekki ýta á hann,“ sagði hún og þá áttaði ég mig á því að fólkið á bak við þetta var ekki í leit að óverðskuldaðri ást, samúð og kærleika.

Svona er lífið í Himnaríki stundum æsispennandi.

 

Bjarni Þór og BaskiÉg vaknaði kl. 7.48 við hávært bling í símanum. Istagram að láta mig vita að einhver hefði sett inn sögu. Takk, Instagram. Vaknaði næst kl. 9.30 við að Keli mjálmaði og gekk á andlitinu á mér. Of þreytt til að fara fram úr og gefa honum mat, bað um smáfrest sem Keli samþykkti. Þegar klukkan hringdi kl. 12 til marks um að ég mætti fá mér fyrsta kaffibolla dagsins fannst mér þess virði að fara fram úr. Drengurinn gistir annars staðar um helgina svo ég hef nægan tíma til að VINNA ... Ég veit samt alveg að nú gæti síðasti sumardagurinn verið að líða í dag en ég hlakka meira til hríðarbylja, útsynningshryðja, ofsabrims og austanrosa ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var getin um hávetur, foreldrar mínir mjög sennilega í ullarsokkum, eða ég fékk sérstakt gen frá forfeðrum sem neituðu að vera veður-aumingjar en það er orðið frekar þunnt því það er gluggaveðrið sem ég dái og dýrka, engin löngun til að berjast í hrakningum uppi á heiði með Snata gamla og Sóta til að hlýja mér þegar ég gref okkur þrjú í fönn.

 

Akranes verður sífellt fallegri bær og nú er verið að mála myndir á hina ýmsu veggi og þvílík prýði sem verður að þessu. Efri myndin er eftir Bjarna Þór og sú neðri eftir Baska. Verk í vinnslu, hlakka til að sjá þau fullbúin. Tinna Royal gerði geggjaða mynd á hús á Breiðinni, hjá vitanum - og það eru fleiri verk sem ég þarf að skoða næst þegar ég kemst í bíltúr með einhverjum.

Nú vantar bara kaffihús hér á Skaga. Kaja - hollustuverslunin frábæra hefur virkað ansi vel sem kaffihúsið með búðinni en nú er vetrartíminn skollinn á þar og lokað allar helgar. Ég benti gamalli vinkonu úr Reykjavík á að fara þangað á dögunum og hún var hæstánægð með allt þar. Svo er hægt að setjast niður í Kallabakaríi og fá sér kaffi og meðlæti. Það þýðir ekki að benda ó-bílandi á golfskálann, hann er ekki í göngufæri nema fyrir þaulvant fjallgöngufólk, ofurhetjur og fuglinn fljúgandi, strætó gengur ekki um helgar, svo er hann kannski lokaður yfir veturinn. Við erum með fína matsölustaði hér á Akranesi en kaffihúsin hafa ekki gengið sem skyldi. Ekki einu sinni þau sem buðu upp á almennilegt kaffi ... eins og Vitakaffi og það sem var á Akratorgi áður en Frystihúsið kom.

 

Ég mæli svo um og legg á að einhver (sem drekkur kaffi) opni kaffihús á Akranesi á góðum stað, með geggjað kaffi (ekki trúa sumum kaffisölumönnum sem hafa farið eins og engisprettuplága um landið) og fínt meðlæti. Veit að Gunna vinkona myndi vilja marensbombur og er ekki ein um það - mér finnst kaffið mikilvægast.  


Bjargvætturinn í rútunni

BjargvætturinnLöngum hef ég hrósað strætóbílstjórum, sagt  með réttu að þeir séu upp til hópa með allra besta fólki sem fyrirfinnst. Ég bæti hér með rútubílstjórum í þann hóp eftir ævintýri helgarinnar.

 

Vér systur, ásamt unglingunum okkar, ákváðum á laugardaginn að leggja land undir fót, fara í skemmtiferð með endastöð í Reynisfjöru. Þangað kom ég fyrir nokkrum árum í fyrsta eða annað sinn - að vetri til. Mér hreinlega brá þegar ég sá fjöldann af bílum á bílastæðinu en okkur tókst þó að fá stæði nokkuð langt frá ströndinni á milli tveggja vígalegra bíla og alls ekki úti á enda.

 

Þeir Herkúles og Golíat, uppáhaldsfrændur mínir og -voffar, voru með í för og slógu gjörsamlega í gegn hvar sem við stoppuðum. Þeir réðust með mestum kærleika á ensk hjón í fjörunni og ég heyrði ekki betur en Golíat gelti: Hvar hafið þið verið allt mitt líf, dásamlegu hjón? Sennilega eru Englendingar besta fólkið, ef frá eru taldir strætó- og rútubílstjórar og Litháar, hundarnir hrifust einnig mjög af hópi frá Litháen, fólki búsettu hér á landi og við hittum hjá Dyrhólaey. Þau þekkja Daivu, vinkonu mína frá Litháen.

BílsbjörgunEftir um það bil klukkutímalangt fjörustopp eða lengra, var ég komin með vott af súrefniseitrun ofan í bakverkinn og fékk bíllyklana hjá Hildu, var með Storytel-lesbrettið svo ég gat lesið morðgátu tengda bakaríi í friði í heilar átta mínútur, eða þar til hópurinn kom. Hilda setti í gang og ætlaði að bakka en bíllinn var á öðru máli, virtist þrá að vera lengur svo hann sökkti sér niður í sandinn og hélt sér fast með framdekkjunum. Hilda vildi ekki spóla og sökkva enn dýpra svo við horfðum ráðþrota hvor á aðra. Kínverskur maður á bíl við hliðina, nýgiftur miðað við klæðnað hans og konu hans, sagðist því miður ekki hafa skóflu eða nokkuð til að hjálpa okkur en vildi meina að rútubílstjórar væru frekar snjallir, með ráð undir rifi hverju og við ættum að prófa að finna einn slíkan. Fyrsta rútan sem við komum að hafði skilti með framandi samsettum bókstöfum ... eitthvað sem virtist enn flóknara en hollenska og þá er nú mikið sagt. Ég spurði góðlegan bílstjórann og ferðafrömuðinn hvað tvær kerlingar með pikkfastan bíl gætu gert. Mér datt helst í hug að fá einhvern í Vík á dráttarbíl til að draga okkur upp úr holunni en þarna var ansi þröngt og endalaus umferð á stæðinu sem flækti allt. Hilda mundi ekki einu sinni (í sjokkinu) af hvaða Toyota-tegund bíll hennar væri sem manninum fannst greinilega svo sætt (eða fyndið) að hann þeyttist upp úr sæti sínu, kvaddi dýrmætan hvíldartímann meðan túristarnir hans gengu heillaðir í fjörunni, og hætti ekki fyrr en hann var búinn að losa Hildubíl. Það þurfti tjakk, hendur til að moka sandinum aftur ofan í dýpri holuna, aðra kínverska fjölskyldu (fjögurra manna) og tvo huggulega menn sem ýttu með Hildu og unglingunum okkar ... Ég stóð í þeim stórræðum að hvetja, „plís, ýt the car faster, faster ...“ Þetta eru einu skiptin sem ég græði á því að vera bakveik. Við systur þökkuðum Sigurði, rútubílstjóra, hetju, golfara og ferðakarli, kærlega fyrir. Hilda er hófstilltari en ég, hún tók í höndina á honum, svo ég hermdi bara eftir henni, mest langaði mig að faðma bjargvættinn. En það hefði mögulega bara verið refsing.

 

FerðafélagarnirVið höfðum lofað drengjunum að þeir fengju næst að sjá og fara á bak við Seljalandsfoss en á leiðinni þaðan beygðum við aðeins of fljótt til hægri inn á veg sem ekki var þjóðvegurinn en grunsamlega líkur honum til að byrja með.

Okkur fannst samt bílaumferðin of lítil og snerum við eftir tíu mínútur sem þýddi nú samt það miklar tafir að við myndum aldrei ná tímanlega í Eldstó á Hvolsvelli (besta lasagne í heimi) en drengjunum til trylltrar gleði var ekkert annað í stöðunni en snæða kvöldverð á KFC á Selfossi og við náðum þangað fyrir tíu - lokun.

 

Að festa sig og villast hafði sem sagt svaðalegar matartengdar afleiðingar - en ég kvarta þó ekkert yfir sallafínum kjúklingaborgara sem ég fékk, held að KFC ætti bara að drífa sig á Skagann, og Rúmfatalagerinn líka. Við stækkum og stækkum og hér er byggt á fullu.

Mikið var þetta skemmtileg ferð.

 

Drengirnir hoppuðu svo og skoppuðu í tvo tíma í Rush á sunnudeginum og draumur stráksa rættist skömmu eftir hoppið þegar hann fékk að smakka Metro-borgara - einhver hafði sagt honum að sá kæmist nokkuð nálægt McDonalds sem er víst besti matur sem hann hefur smakkað. Hann langar mjög til Bandaríkjanna aftur, McDonalds er aðalástæðan fyrir því, grunar mig.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 470
  • Frá upphafi: 1526947

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 400
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband