Færsluflokkur: Bloggar

Loksins almennilegt partí en ... furðufréttir af kóngi

Með flottum konumSamkvæmislíf mitt hefur dregist nokkuð saman (verið afar sorglegt) síðustu árin (áratugina) og í raun aðeins eigin afmælisveisla í ágúst sem munar um. Þangað til í dag upp úr klukkan fimm. Þá fórum við stráksi og Inga vinkona í almennilegt partí í Iðnó í Reykjavík.

Drengurinn hitti stjörnurnar sínar, vissi fyrir fram bara af Katrínu, en varð mjög glaður þegar hann sá Áslaugu Örnu. Ég hef vitað lengi að honum fyndist hún æði og sagði stundum til að kæta hann: „Hei, kærastan þín er í sjónvarpinu,“ og uppskar mikinn hlátur. Ég sagði Höllu frænku frá þessu, hún var á sama boðslista og ég, og hún hvatti mig til að kynna þau tvö. Áslaug reyndist vera algjört yndi og ekkert mál að ég fengi að taka mynd af þeim tveimur saman. Glaðasti drengur í heimi trúði því varla að þetta væri að gerast ... Hugrekki okkar jókst við svona fallegar móttökur svo næsta fórnarlamb var sjálf(ur) forsætisráðherra sem var heldur betur til í að vera með á mynd með svona sætum Skagamanni.

RitöfundurNú fer að verða komið ansi flott myndasafn og mál til komið að láta prenta myndirnar út, ramma inn og hengja upp á vegg. Hann á myndir af sér með flottasta fólki í heimi: Páli Óskari, Herra Hnetusmjöri, Lalla töframanni og jólasveininum og nú bættust tveir ráðherrar í hópinn. Bjarni Ben var vissulega á staðnum en fékk að vera í friði þar sem drengurinn kannaðist ekkert við hann en ég var til öryggis tilbúin að hóta öllu illu: „Veistu að ég þekki tengdaföður þinn? Hann á afmæli 12. ágúst eins og ég (og Sveinn Andri og Ásdís Rán og Halldóra Geirharðs) og fyndist sjálfsagt að drengurinn fengi ...!“ Verst samt hvað Baldvin er indæll og sennilega ómögulegt að hræða nokkurn með honum. Nei, ég var að pæla í leiðinni í því að biðja BB um að hætta með uppgreiðslugjald á lánum Íbúðalánasjóðs, skipta sumum Jónum út hið snarasta og fleira mikilvægt - en þetta var partí og í partíum er stranglega bannað að tala um stjórnmál, trúmál, fjármál og sjúkdóma.

 

Og nei, þetta var ekki ríkisstjórnarpartí og ég sérstakur ráðgjafi og hirðbloggari þar, eins og auðvelt væri að giska á, heldur fínasta útgáfuboð. Sem betur fer fann ég ekki kampavínið (nennti svo sem ekki að leita) því kampavín hefur stundum of hressandi áhrif ... Slúður: Ónefndur eldri rithöfundur ætlaði að fremja hinn fullkomna glæp þarna í Iðnó og ræna sögu um glæp. Ung kona stöðvaði gjörninginn og las honum pistilinn. Tek undir með frænku (hún var vitni að þessu) sem leggur til að skáldið fái sent eintak af bókinni með skilaboðunum: Þú gleymdir þýfinu

 

Larry forsætiskötturÉg hef reynt að vera ótrúlega jákvæð (hann hefur breyst-jákvæð) í garð Karls III (sjá færsluna: Ég vissi það, ég vissi það). Hann var að missa mömmu sína, karlgreyið, og taka við veldissprotanum ... mun síðar en hann vonaði, held ég, væri pottþétt á verktakalaunum sem þjóðhöfðingi byggi hann á Íslandi (sbr. Boga).

En ... ég fékk þær fúlu fréttir nýlega að Karl væri kattahatari (má það bara?) og er virkilega þakklát fyrir að hann sé ekki forsætisráðherra Bretlands, hvað yrði þá um Larry? Það er auðvelt að elska bæði hunda og ketti, yðar hátign.

Búseta mín á 3. hæð er líklega eina ástæðan fyrir því að ég er ekki með hund líka. Ég náði að klappa dýrlegum hundi í Grundarfirði um helgina, eigendur: kaffismekkkonur frá Stykkishólmi. Og í kvöld Husky-hvolpum við Iðnó, mjög kátum og til í klapp á milli þess sem þeir reyndu að veiða gæsir og svani við Tjörnina.

 

Það kom upp viss söknuður í kvöld eftir elsku höfuðborginni, þar sem ég bjó svo lengi. Lyktin, hávaðinn, ljósin, stemningin ... en ég held samt að það yrði ekki auðvelt að rífa sig frá Himnaríki, sjónum mínum, öldunum, fólkinu, Skagahundunum, Einarsbúð og svona ... Halla frænka stakk upp á því að ég fengi mér sumarhús/sumarbústað í Reykjavík. Ég yrði þá að vinna feitt í lottói eða gifta mig til stórfjár, hugsaði ég döpur því það eru komin hátt í 20 ár síðan líkurnar á því að ég lenti í hryðjuverkaárás jukust til muna ... og ég man ekki líkurnar í svona happdrættum og lottóum, þær eru eiginlega engar. Mig dreymdi samt nýlega fyrir peningum. Draumnum verður ekki lýst hér, ekki á þessu pjattaða bloggi.


Gleðilegt kaffi og hamingjurík álfaleit ...

Drengur með spilSamferðakonan okkar góða mætti eldsnemma í gærmorgun til að sækja okkur. Mæður á Snæfellsnesi, læsið miðaldra syni ykkar inni ... hugsaði ég af gömlum vana, en mundi svo eftir einbeittum kaffitilgangi ferðarinnar. Við stráksi drifum okkur niður og klukkan sló einmitt tíu þegar við lögðum í´ann. Vissulega ætluðum við á álfaslóðir líka en helmingur íbúa Himnaríkis (að frátöldum köttum) hefur mikinn áhuga á þeim um þessar mundir.

Samkvæmt gúgli virðist allt á Snæfellsnesi heita nöfnum með bergmáli, endurtekningum ... Hólahólar (álfabyggð), Staðastaður, Vegamótamótamót og fleira sem kætir alls ekki Jón Gnarr, skilst, hann kvartar hástöfum yfir asnalegum íslenskum orðum á borð við bílaleigubíll, borðstofuborð og fleira. Ég stórefast um að hann fari nokkurn tíma á Snæfellsnes.

MYND I: Á einum staðnum þar sem við stoppuðum notaði stráksi tækifærið til að æfa sig með spilastokkinn - blindandi ... hann er fyrir löngu orðinn jafnoki bestu töframanna á þessu sviði og eflaust langbestu gjafara í stærstu spilavítum landsins.

 

KAFFFFFFIVið byrjuðum á Rjúkandaanda og snæddum þar hádegisverð. Alltaf gott kaffið þar og ég varð sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með Gvatemalakaffið, mjúkt og sætt (ekki með sykri samt) og keypti mér að sjálfsögðu pakka af því og annan latte í götumáli. Við fórum áleiðis til Stykkishólms en þorðum ekki að koma við þar eftir ævintýri síðasta hausts þar sem ég hafði keypt (fengið gefins) af díler (gamalli vinkonu) lyf (við bbólgu) í hjólhýsagarðinum (tjaldstæðinu) þar. Við fórum beinustu leið í Grundarfjörð og leituðum um hríð að Valeria-kaffibrennslunni en húsið stendur lágt og það sást illa í það fyrir bílum sem lagt var fyrir framan það.

 

Það var einstök hamingja að drekka tvöfaldan latte þarna. Ótrúlega margvíslegt bragð, meira að segja örlítil sýrni og smá ávaxtabragð líka sem kaffiplebbinn ég kýs vanalega að láta brenna á brott (ekki samt Starbucks-misþyrmingar) ... en sannarlega ekki í þessu tilfelli - þetta var bragðupplifun og heit ást við fyrsta smakk. Mér til gleði komst ég að því að þau hjónin sem reka brennsluna og kaffihúsið stefna að því að selja kaffi í gegnum netið og senda um allt land. Kaffivélar eru mismunandi og ég þrái heitt að bæði Valeria-baunirnar og þær hjá Rjúkanda (frá Sonju Grant) komi vel út í vélinni minni.

 

Á álfaslóðum HólahólarÓlafsvík var mjög skemmtileg líka, flott hönnunarbúðin sem Guðrún dró mig inn í og skemmtileg sjoppan sem drengurinn dró mig inn í ... hann sá eitthvað flott þar sem hann langaði í en tímdi ekki að borga sjálfur. Snjall. Og sem viðskiptavinur þurfti ég ekki að borga 100 kall fyrir að pissa í sjoppunni. Mér skildist að það kæmu oft heilu rúturnar af fólki og allir í spreng. Með því að láta borga fá þau upp í pappír, sápu og þrif.

 

Þá voru það álfarnir næst og um að gera að drífa sig í Hólahóla í Beruvíkurberi (ef ég man það rétt) og skoða dýrlegar álfaborgir sem þar standa. Við fundum vissulega ýmsa flotta kletta en gott hefði verið að hafa einhvern staðkunnugan með. Held samt að giskið okkar hafi verið nokkuð gott í sjálfu sér.

 

Þetta var ekki bara skemmtileg ferð, heldur líka lærdómsrík. Nú veit ég að maður segir Í Grundarfirði, ekki Á. Og á heimleiðinni fengum við okkur kökur og meira kaffi. Ég fékk sjálf að velja magnið af mjólkinni út í latte-inn núna og kaffið varð ekki bara gott, heldur dásamlegt. Sumum finnst mjólk skemma. Of lítil eða of mikil skemmir fyrir mér - en mátulegt magn gerir þetta að besta drykk í heimi, að mínu mati.

 

Nettó í Borgarnesi sá okkur fyrir nauðþurftum (eins og mjólk og sokkum á drenginn (með hamborgaramynstri)) en matarupplifunin var sannarlega ekki búin. Í hádeginu var sem sagt fiskur og franskar á Rjúkanda en nú ætluðum við að prófa Lemon á Akranesi (útibú á bensínstöð OB) í kvöldverð. Ég er enn í skýjunum. Þvílík samloka (avókadó gerir allt betra) og þvílíkur dásemdar hollustuþeytingur (líka með avókadói). Ég mæli hástöfum með!

 

Snæfellsnes var frábært og líka gott að koma heim á elsku Akranes. Þetta var fimm kaffibolla dagur sem er algjört met og verður sennilega ekki jafnað fyrr en í næstu ferð á Snæfellsnes. Sem verður vonandi fyrr en síðar.    


Óvæntur stirðleiki og spennandi helgarplön

Íslenska I á AkranesiÞessa dagana er ég leiðbeinandi hjá Símenntun Vesturlands og finnst alveg rosalega skemmtilegt og gefandi að upplýsa áhugasama útlendinga um dýrleg- og dásamlegheit íslenskrar tungu ... Átta mig svo sjálf á ýmsu skrítnu, eins og því hvaða furðuhljóð kemur þegar tvö L koma saman, eins og í fjall, bolli eða Eyjafjallajökull, og hvað þýðir eiginlega orðið „SVONA“? Þannig að hér í Himnaríki verður rokið út kl. 8 á morgnana næstu vikurnar eins og undanfarið. Fyrsti tíminn var síðasta miðvikudag. Ég þarf að skrifa á töflu, leyfa fólkinu að heyra upplestur, sýni því líka 20 mínútna þætti sem hafa kannski ekki elst sérlega vel ... Í dag lærðu þau til dæmis hvernig ætti að kaupa strætómiða og græna mánaðarkortið ... úreltar upplýsingar, og fara í banka til að taka út peninga, og þar var 2000-kallinn nokkuð áberandi. En íslenskan hefur auðvitað ekkert breyst og ég útskýri bara hvað er ekki við lýði lengur. Fólkinu finnst þetta skemmtilegt og fræðandi - og þetta er líka slakandi hvíld frá hinu. Í dag leyfði ég þeim að hlusta á Bubba Morthens syngja lagið Fallegur dagur. Tvö L í fallegur ... Þau þurfa að kynnast íslensku tónlistarlífi. Á mánudag Björk Guðmundsdóttir, þriðjudag Ásgeir Trausti, Dýrð í dauðaþögn ... miðvikudag sama lag en með Bríeti ... Ein frá Úkraínu þekkti sko alveg Kaleo en hafði ekki hugmynd um íslenskan upprunann fyrr en hún flutti hingað. Ég sagði henni að ég hefði heyrt lag með Ásgeiri Trausta í græjunum í vítamínverslun úti í Flórída fyrir bráðum fjórum árum. Hún fékk þó ekki að vita hvað ég var montin af því.     

 

Strætó í morgunÞegar ég kom heim á miðvikudaginn eftir fyrsta „skóladaginn“ var ég með verki um allan skrokk, dauðþreytt og hreinlega búin að vera eftir tveggja tíma hopp og skopp og þurfti að leggja mig ... meira að segja á hitapoka, á meðan ég planaði komandi elliár, að ég þyrfti að panta mér sokkaífæru og slíkt ... svona er þetta sem sagt, hugsaði ég svolítið bitur, eintómur stirðleiki og sárir verkir. En ... eftir gærdaginn fann ég varla fyrir þreytuögn og eftir þriðja skóladaginn, þennan í morgun, var ég hressari og orkumeiri en ég hef verið lengi, eins og klippt út úr kornflexauglýsingu.

Ég hafði greinilega leyft mér þann munað að leggjast í kör (covid-leti er til) með þessum asnalegu afleiðingum. Með ræktina nánast á hlaðinu ætlaði ég alltaf á morgun, í næstu viku ... bráðum bara. Ég var að detta í ótímabæran stirðleika vegna hreyfingarleysis - án þess að átta mig á því og ekkert skrítið þótt góða konan hafi boðið mér sætið sitt í fullum innanbæjarstrætó á miðvikudaginn - samt finnst mér líklegra að hún sé miðill sem sá hvað ég hafði þurft að þola um morguninn, eða að hreyfa mig rösklega í fyrsta sinn í ábyggilega tvö ár. Þetta er á þriðju hæð og mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að taka lyftuna. Stiginn var nákvæmlega ekkert mál í morgun.

Mikið var gott að átta sig á þessu í tíma. Ég verð kannski að endurskoða hatur mitt á gönguferðum, sundi - eða fara að hoppa upp og niður stigana heima nokkrum sinnum á dag þegar námskeiðinu lýkur - eða ... fá mér krítartöflu til að skrifa á heima og hamast fyrir framan hana í tvo tíma daglega. Og svo er ég ekki nema rúmlega korter að tölta þetta en það er svo notalegt að taka lesbrettið með og ná að lesa í strætó. Við stráksi getum þá verið samferða á morgnana sem er mjög gaman. En hann situr ekki hjá mér - alveg nóg að hangsa með kerlingu á stoppistöðinni svo hann þurfi ekki að afplána hitt líka. 

Ég hreyfi mig þúsund sinnum meira en áður því nota þarf líka leikræna þjáningu nokkuð oft til að skýra mál sitt. Sýna hlutina, núna veit fólkið til dæmis hvað og hvernig lúði er. Við töluðum um ýmsar fisktegundir í morgun, meðal annars kom lúða við sögu - og sem bónus í fiskumræðuna lét ég vita hvað lúði væri og þurfti svo sem ekki að leika mikið, nei, áhugakonan um vefmyndavélar, eldgos og jarðskjálfta þarf bara að líta í spegil. Sennilega bjargar kaffiáhuginn mannorði mínu og gerir mig ögn minni lúða. Sú er tilfinning mín. Mér leið eins og kennara, ekki leiðbeinanda, í morgun því ein á námskeiðinu gaf mér heimaræktað epli - alls ekki mútur til að verða uppáhaldið í bekknum, heldur gjöf til mín fyrir að sýna henni (eftir námskeið) hvar fiskbúðin á Akranesi væri staðsett. Ef Bjarni segir að eitthvað í kringum fimmþúsundkallinn sé ekki mútur er það rétt hjá Bjarna. Úff, hvað ég er ennþá spennt fyrir að fá vinnu hjá Bankasýslunni. „Special price for you, my friend ... en sorrí, drekk ekki hvítvín, bara gott rauðvín. Nei, frekar íbúð í miðborginni - með sjávarútsýni.“

 

Við stráksi ætlum með Guðrúnu vinkonu á Snæfellsnes á morgun - þau tvö ætla að njóta félagsskaparins, fegurðar Snæfellsness, kannski skreppa á jökulinn og athuga hvort helvíti sé enn á sínum stað þarna undir - en ég fer eingöngu á Nesið til að prufukeyra kaffið í kólumbísku kaffibrennslunni á Grundarfirði. Þar verður opið, ég tékkaði auðvitað á því. Svo þarf að smakka kaffið á Rjúkanda, athuga hvort tryllingslega góða kaffið frá 2018 eða 2019 sé komið aftur.    


Sjokk í strætó og ýmis átakanlegheit ...

AkranesstrætóEndirinn nálgast hraðar en ég átti von á ... Í hádeginu í dag var mér boðið sæti í innanbæjarstrætó - í fyrsta skipti á ævinni sem einhver stendur upp fyrir mér. Ég móðgaðist ekki út í minnst 20 árum yngri uppistandarann, en mótmælti harðlega, benti á að ég væri nánast upp á dag jafngömul Madonnu sem væri örugglega enn að hlaða niður börnum og halda tónleika en ljúfa konan af leikskólanum Garðaseli, gaf sig ekki. Kannski sá hún að mér var illt í bakinu og vont að standa, ég hugga mig við það. Á meðan ég spjallaði við leikskólabörnin sem fylltu vagninn (um kisur aðallega) leiddi ég eðlilega hugann að útför minni, og þá helst tónlistinni. Til að viðstaddir springi úr harmi og tárapollar myndist um allt, held ég að þessi tónlist sé bara sérdeilis fín:

 

-Is it true?

-For Heavens Sake (Wu-Tang Clan)

-Ertu þá farin

-Wish you were here

-Uprising 

-Tears in Heaven  

-Nothing compares 2 you 

-Final Countdown

-Það brennur

-Gangstas Paradise

Til vara: Sálumessa Mozarts í heild sinni. 

Svo getur þetta allt breyst ...

- - - - - - - - -

En áfram í þessu harmþrungna ... hér er átakanlegt æviágrip sem ég sá á Facebook, mikið sem sumt fólk þarf að þola:

Þegar ég var lítill drengur hélt pabbi fram hjá mömmu og sýndi fjölskyldunni litla væntumþykju. Seinna skildu þau og ekki löngu eftir það lenti mamma í bílslysi og dó. Við bróðir minn urðum að flytja til ömmu, í gamla húsið hennar. Öll fjölskyldan lifði á ömmu. Síðar giftist bróðir minn leikkonu og kom sér á brott. Nokkrum árum seinna dó amma. Nú þarf pabbi, 73 ára gamall, að vinna í fyrsta skipti á ævinni til að sjá fyrir fjölskyldunni. Ógæfan virðist elta okkur.“ :( Vilhjálmur prins 

 

Akranes, frá 1. jan.Talandi um ógæfu en allur þessi harmur rifjaði upp fyrir mér að um áramót fjölgar endurvinnslutunnum við hvert hús á Akranesi og þá fara pappír og plast ekki lengur í sömu tunnuna, eins og var og eitthvað fleira bætist við líka. Vona bara að hægt verði að senda drenginn, ruslamálaráðherra Himnaríkis, í þjálfunarbúðir um jólin. Og ég gæti þurft að endurhugsa eldhúsið ... Flotta karfan sem ég keypti undir plast/pappír í eldhúsinu endaði sem töff karfa undir dagblöð og það er enn sorglega óleyst hvernig hægt er að gera geggjað flokkunarkerfi sem verður eins og fyrirferðarlítið punt á eldhúsgólfinu - fyrir neðan bakaraofninn og fyrir skúffunni sem geymir bökunarformin. Mér hefur loks tekist að fá drenginn til að hætta að fleygja sumu plasti og sumum pappa í ruslið en nú flækist þetta til muna. Allt / flest lífrænt hefur alltaf farið í fuglana og heldur því áfram, mest krumma núna, en í máva á sumrin, ég kaupi líka oft eitthvað kúlulaga dæmi fyrir smáfuglana sem ég festi á svalirnar. Gaman að sjá ofsaspennta kettina raða sér fyrir framan stóra „sjónvarpið“ (svalagluggann) og fylgjast með litlu krúttunum. Hér gildir: Ekki snerta (veiða), bara horfa.

Eins gott að komi svo góðar leiðbeiningar með. Það er of stutt síðan ég komst að því að ekki mætti fleygja gleri í venjulega ruslið, í alvöru. Hilda systir hefur stundum tekið fyrir mig krukkur í poka og farið með í Sorpu en ég held að það þurfi eitthvað að gera fyrir bíllausa hér, nema strætó fari að ganga upp á hauga? eða setja upp móttökustöð (með fatagámum) á góðum stað í Akranesborg.


Ævintýri í strætóför

Mosi og KeliBorgarferð í dag því kattamaturinn var á síðustu gufunum ... þeir fá sérfæði, hjartans álagaprinsarnir, af því að Keli, sá hugumstóri pokaköttur da Kattholt, fær annars þvagsteina og það er bæði sársaukafullt og lífshættulegt. Þeir yngri njóta góðs af og ekki síst Mosi sem var ósköp venjulegur mattur húsköttur þegar hann flutti til mín um árið - en nú sérlega mjúkur og fagurgljáandi. En dýrt er það ...

 

Bílstjórarnir sem komu mér fram og til baka í dag voru ögn eldri og þroskaðri en stundum áður og rukkuðu mig báðir um fullt gjald sem ég lít á sem hrós eftir hremmingar sumarsins. Annað en 14 ára kvikindin sem gáfu mér tvisvar elliafslátt, eða einu sinni.

(Myndin er af Mosa og Kela og sýnir hvað ljósmyndir geta bætt á mann, kött í þessu tilfelli, en Keli virkar ansi þykkur hér sem hann er ekki. Við erum svo lík.)

 

Í strætóBílstjórinn sem skutlaði mér heim í kvöld er frá Rúmeníu og virkaði fyrst eðlilegur, þrátt fyrir heimalandið (Íslendingar alltaf á tásunum á Tene, þið vitið, Færeyingar drepandi grindhvali, Danir sjúklega nískir en ligeglad, Finnar þunglyndir og sífullir en ... hvað stendur Rúmenía fyrir?). Oft eru þessar lýsingar á þjóðlöndum bull og vitleysa, ýkjur og kolrangar staðalímyndir, aldrei hef ég t.d. komið til Tenerife ... en ég prófaði upp á grín að athuga hvort hvort bílstjórinn kannaðist við nafnið Drakúla, þetta voru sennilega leifar úr blaðamennskunni þegar ég var í sífelldri leit að góðum viðtölum og lífsreynslusögum og hikaði ekki við að spyrja og spjalla. Nú er ég meiri mannafæla.

Bílstjórinn leit upp frá seinvirku strætóborgunarvélinni og brosti, hann hélt nú það. Hann sagði án nokkurrar miskunnar að hann ætti heima í 40 kílómetra fjarlægð frá kastalanum! Kastala Drakúla! Þegar ég sá augntennur bílstjórans glampa græðgislega fylltist ég þakklæti í garð Hildu systur fyrir hvítlaukskartöflurnar sem hún bauð upp á með kjúklingnum í kvöld. Með hvítlauk í blóðinu var ég ábyggilega ögn minna girnileg. Hilda af ætt Ísfólksins norður í Flatey er næm og hefur sennilega fundið á sér að stóra systir myndi lenda í einhverjum hryllingi og kartöflur koma sér alltaf vel.

 

Ég þóttist lesa alla leiðina (í Storytel-lesbrettinu) en löng og greindarleg augnhárin huldu rannsakandi augu mín sem fylgdust grannt með bílstjóranum en við vorum óvenjulega fljót á Skagann. Vissulega fremur fáir farþegar miðað við næstum fullan vagn fyrr í dag, og hvergi stoppað nema í Ártúni, en mér finnst vel koma til greina að við höfum flogið einhvern hluta af leiðinni. Ekki spyrja mig af hverju mér finnst það - bara einhver sterk tilfinning sem ég fékk og gæsahúð á Kjalarnesi.

 

AndlitsrúllaNæstum komin á Garðabraut stóð ég hægt upp og fálmaði óstyrk eftir bjöllunni. Það var ekki myrkur í vagninum en samt ríkti algjört myrkur hjá tökkunum sem buðu upp á blástur, nudd, fríhafnarbjöllu og ... bjölluna sem ég leitaði að, þessa til að fá vagninn til að stöðva áður en illa færi. Þessi bílstjóri myndi ekki stoppa ef ég bæði hann um það, bjallan eða út á Akratorgi-endastöð þar sem ekkert hefði bjargað mér nema ef Frystihúsið-ísbúð væri enn opin.

 

Nokkur afar grunsamleg atriði: 

-Hann vissi aldur minn, rukkaði mig um fullt gjald án þess að spyrja (nema nýja hrukkustraujárnið sé byrjað að virka). 

-Hann býr nálægt meintum blóðsugukastala í heimalandinu.

-Það var ekki sólarglæta í vagninum.

-Hann þorði ekki að vera með Útvarp Sögu á í vagninum. Það abbast nefnilega ENGINN upp á Arnþrúði frænku.

-Það var engin leið að giska á aldur hans ...  


Síðasta bakarísferðin

MarsipanbrosMikilvægur fundur kl. 13 í dag, frábær kona sem gætir hagsmuna fóstursonarins og heimsækir okkur annað slagið. Síðast lofaði ég að eiga eitthvað með kaffinu núna. Ég ætlaði að stórgleðja drenginn og baka súkkulaðiköku (BettyCr-snilld) en sá að bæði kremið og kökuduftið var útrunnið. Mun að sjálfsögðu baka samt úr þessu en ekki handa gestum. Eina leiðin til að halda andlitinu var að fara út í bakarí í tíu mínútna göngufjarlægð. Kallabakarí er að gera mig brjálaða með allt of girnilegum Instagram-myndböndum en sem betur fer fyrir holdafarið eru hnetur í svo mörgu, sjúkkkk.

Ég fór í sæmilega regnheldum jakka, skildi regnkápuna úr Lindex eftir heima án þess að detta í hug að það væru fyrstu mistök dagsins. Þau næstu voru að taka ekki vatnsheldan margnota poka með. Kommon, þetta var bara rigning ...

 

 

Ég keypti Langa-Jón, 2 kanilsnúða með súkkulaði, ostasalat, rækjusalat, hafrakex og 2 marsipanbros sem eru í gífurlega miklu uppáhaldi á heimlinu. „Og poka, takk,“ sagði ég við elskulegu afgreiðslustúlkuna og hélt svo hugrökk út í óveðrið með veisluföng í sæmilega sterklegum brúnum bréfpoka með haldi.

Svaðilför

 

Það rigndi ekki eins og hellt væri úr fötu, heldur sprautað úr garðslöngu, stórri. Ég reyndi að hlífa brúna bréfpokanum eftir bestu getu með líkama mínum. Vatnsþétti jakkinn þoldi illa álagið og ég fann að peysan mín var farin að blotna.

 

Á Garðabraut, þá vel rúmlega hálfnuð heim, rifnaði pokinn og salatdósirnar tvær duttu á gangstéttina, alveg beint niður og án þess að opnast eða laskast. Lipur en sjokkeruð konan (ég) tók þetta upp, krumpaði bréfpokanum þétt utan um restina og hélt á veisluföngunum í fanginu. Í anddyrinu niðri hrundi annað marsipanbrosið í gólfið, hitt virtist orðið hálfvatnssósa þegar ég kíkti í pokann. Í stað þess að fara að skæla myndaði ég hryllinginn eftir bestu getu til að festa mér í minni að fara aldrei framar gangandi út í bakarí, alla vega ekki í roki og rigningu.

Ég var enn eldrauð í framan hálftíma seinna þegar fundargesturinn kom, hárið rennandi blautt og buxurnar mínar talsvert rakar. En kaffibrauðið bragðaðist sérlega vel og fundurinn eða gestakoman var alveg upp á tíu. 

Myndirnar sýna eyðileggingarmátt rigningar. Sjáið pokann ... sjáið útlit mitt, ekki ketti bjóðandi, hvað þá gesti og fóstursyni, marsipanbrosin svo löskuð að ég bar þau ekki fram ... en drengurinn borðaði þó brosið sem ekki lenti í gólfinu. Með bestu lyst.

 

HmmmNýjustu fréttir af hinum breska armi fjölskyldunnar:

Karl III. verður krýndur í Westminster Abbey laugardaginn 6. maí nk., samkvæmt breskum fjölmiðlum. Á meðan það skarast ekki við Eurovision-söngvakeppnina í Liverpool ... sem mig minnir að verði nákvæmlega viku seinna. Notuð verður heilög olía á bæði hann og Kamillu sem minnir mig óneitanlega á þegar ég fór á mína fyrstu og einu samkomu hjá Krossinum 1982 í boði nágranna og var eina manneskjan sem þáði ekki olíu á ennið uppi á sviði til að fyllast heilögum anda. Mun horfa ofsaspennt á krýningu Karls sem kannski mun tala tungum ef olían virkar almennilega. Ég kunni ekki að segja nei á þessum tíma sem var agalegt og sá þess vegna ekki allra síðasta þáttinn af Löðri - á tímum engra endursýninga og vídjótæki kostuðu milljón, minnir mig.

Harry prins sem var skírður Henry, Hinrik skv. íslenskri hefð, situr víst sveittur við skriftir, segist vera að bæta andláti og útför ömmu sinnar inn í mjög svo opinskáu og leyndarmálauppljóstrandi bókina sem hann á víst að hafa þegar fengið fúlgur fyrir. Aðrir segja að hann sé að breyta ýmsu, draga úr frekar en hitt, til að eiga einhvern tíma eftir að komast aftur í fjölskylduna - well, ef Meghan giftist nú Elon Musk sem var víst brandari ... EN ÖLLU GAMNI FYLGIR EINHVER ALVARA ... getur það orðið fyrr en síðar. Ég var mjög fúl út í völvuspána í Vikunni eitt árið, líklega árið sem þau tvö giftu sig, því hún hélt því fram að hjónabandið héldi ekki. Ef ungu hjónin hafa nú lesið þessa spá og eru áhrifagjörn þá vitum við öll hvernig þetta endar.    


Álfar og menn og ... orðræðan

Álfar og mennDásamleg helgi liðin og góð heimsókn frá einni af ótal mörgum systrum mínum. Þeirri einu sem hefur séð álf, þá á barnsaldri. Unglingurinn á þessu heimili er sérlega áhugasamur einmitt um álfa svo ég hefði getað látið mig hverfa án þess að þau áttuðu sig, svo upptekin voru þau af álfasögum. Hún hefur líka farið í gegnum leiðsögunám svo hún kann enn fleiri sögur en ella, hugsa ég, ferðamenn elska allt svona og hreinlega ætlast til að heyra allt um þjóðtrúna, landnámsmenn, gömul eldgos og hraun og svo auðvitað álfa og tröll. Systir mín var svo ljúf að fara með drenginn í skógræktina hér á Skaga og sýna honum nákvæmlega hvar hún sá álfinn - fyrir nokkrum áratugum. Og taka mynd af honum þar. Skemmtilegt áhugamál, en nær samt aldrei spennunni sem felst í mínum áhugamálum, vefmyndavélafíkn og eldgosafýsn. Get ekki lýst tilfinningunni þegar þetta skarast eins og hefur gerst nokkrum sinnum ... hægt að horfa á eldgos í gegnum vefmyndavél, tala nú ekki um í sjónvarpinu.

 

Sláandi fréttir af öfgamönnunum sem eru grunaðir um að hafa ætlað að drepa m.a. lögreglufólk, Gunnar Smára og Sólveigu Önnu, eflaust fleiri sem við fáum kannski að vita af síðar. Ég hef alltaf sagt að viss Trump hafi gefið svona vitleysingum fólki rödd og nú getur það ekki þagnað og spúir sínu eitri. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um þessa meintu hryðjuverkamenn sem sitja enn í gæsluvarðhaldi, veit að þeir myndu ekki hika við að mæta heim til mín ef ég dirfðist að skrifa ljótt um þá - alveg alla leiðina hingað í rólegheitin austur í Grjóteyrarfjarðatangaskaga nyrðri þar sem ég bý með tólf sjefferhundum og átta manna júdókarlakórnum mínum sem heitir fullu nafni: Sjálfsvarnar- og árásatenóra-og-bassalingar Grjóteyrarhrepps og nærsveita. Af borgarbúum hér á þessum víggirta rafmagnsgirðingaflottheitastað, kallaðir almennt te-rónar sökum sjúklega mikillar tedrykkju.

 

Mútta veiðirOrðræðan hefur líka verið ömurleg, ég hef eytt fólki af Facebook-síðunni minni af því að það talar svo ógeðslega um þá sem gegna áberandi starfi, eins og ráðherra og þingmenn. Ég er ekki að tala um eðlilega og sjálfsagða holla og góða gagnrýni. Og það má ekki myndast hola á götu í Reykjavík eða ljótt hús vera byggt eða ekki byggt án þess að sumt fólk missi sig á ógeðfelldan hátt yfir Degi ... skaut ekki einmitt einhver á bílinn hans? Nánast með „leyfi“ frá orðræðunni ... Kannski er ég að fleygja stórgrýti úr gróðurhúsi eftir að hafa gert grín að ýmiskonar klikkun sem viðgengst en kannski ekki svona hatrammt og með hótunum.

 

Systir mín sagði mér góða álfasögu á laugardaginn á meðan hún snæddi gómsætar vöfflur sem ég hafði bakað með aðstoð elsku Vilkó og drakk besta kaffið í bænum. Hún er mikill sagnameistari, eins og flestir afkomendur hennar og hefur gott minni - sem er mikilvægt (ég get varla komið góðri kjaftasögu áfram, gleymi iðulega aðalatriðinu). Mamma fór eitt sinn að veiða með þáverandi eiginmanni sínum og þegar þau komu á veiðistaðinn um kvöldið, sagði mamma hrifin: „Sjáðu fínu klettana, hér er örugglega álfabyggð!“

 

Um nóttina dreymdi hana álf sem kom til hennar og tjáði henni að hann myndi sjá til þess að hún veiddi vel. Það rættist heldur betur næsta dag. Hún veiddi endalaust af fiski ... en maðurinn hennar fékk ekki bröndu, hann hefði alveg eins getað reynt að veiða í vaskafati. Hann reyndi ýmislegt í vantrú sinni, fékk að prófa hennar stöng og vera á hennar stað, en aðeins mamma veiddi þennan dag, og það líka með hans stöng og á staðnum þar sem hann hafði staðið skömmu áður og ekki orðið var við nokkuð.


Risaeðlum til varnar

Klapp fær ekkert klappStrætóbílstjórinn minn lét mig vita síðast þegar ég ferðaðist með honum að nú væri komið fínasta greiðslukerfi í gegnum gamla Strætó-appið - fyrir okkur landsbyggðarfólkið. Ég opnaði það í gær og þar beið tilkynning um Klappið og hlekkur að því.

Þegar ég ferðast um nýjar lendur Internetsins er ég mjög varkár og tek öllu bókstaflega. Af þeim sökum stoppaði ég við spurninguna: Nafn á greiðslukorti? Átti það við eiganda kortsins eða hvort þetta væri Visa/Euro eða eitthvað annað?

Ég ákvað að spyrja Facebook-vinina mína kláru og skynsömu og það vafðist ekki fyrir þeim. „Þetta hlýtur að eiga að vera nafn þitt, er það ekki?“ „Örugglega þitt nafn“ ... osfrv. En þegar ég ætlaði að fara að rita nafn mitt í reitinn komu í ljós leiðbeiningar um að nefna kortið einhverju nafni svo ég fyndi það í frumskóginum, eða eitthvað. Mér tókst í næsta skrefi að tengja Visa-kortið við og bingó, mikið yrði Guðjón bílstjóri ánægður með mig, því hann sagði að þetta munaði miklu fyrir bílstjórana, oft væri bras með greiðslukort ... Í ferlinu fann ég upp orðið: Netdraslviðbjóðsógeðsflækjur sem ég hefði auðvitað átt að nota sem nafn á Klapp-kortið. Lýsir sumu ferli afar vel.

Svo kommentaði Guðjón bílstjóri hjá mér: „Þú veist að Klappið virkar bara sem skiptimiði á landsbyggðinni, er það ekki?“ 

Það var þá sem ég uppgötvaði að ég hafði sett upp Klapp fyrir höfuðborgarbúa og tengt það Visa-kortinu mínu.

 

MYND: Þarna hægra megin lá vel lögð gildra fljótfæra fólksins ... sem ýtti á hlekkinn og þarf líklega að flytja til Reykjavíkur fyrir bragðið. 

 

Misskilningur og fljótfærni kom mér svo sem í þetta. Ég las ekki alla leið, upplýsingarnar um Klappið voru ekki fyrir landsbyggðina og ég skil ekki hvað þær voru að troða sér í gamla appið sem átti að nota fyrir okkur. Sennilega þarf ég að eyða Klappinu og þar með tengingu við Visa, henda svo gamla appinu sem er í gemsanum mínum og sækja það aftur til að geta tengt það Visa ... eða bara halda mig heima.

 

Enginn afhendingarmátiMér gekk ekki sérlega vel að læra á pöntunarkerfi hjá Eldum rétt - af því að það var ekkert endilega sýnilegt hvar ég ætti að panta. Um hríð fékk ég að panta símleiðis þar til ég lenti á dónalegri konu, en það er önnur saga. Eitt af því sem stoppaði mig var: ... enginn afhendingarmáti fyrir þetta póstnúmer - sem birtist snemma í ferlinu. Það var ekki fyrr en ég hringdi loks og spurði, og var sagt að ég ætti að horfa fram hjá þessu og „ýta á Eldum rétt fyrst vinstra megin og svo aftur þarna hægra megin“, „ekki á Matseðlar vinstra megin“, sem þetta small saman. Mjög einfalt kerfi nú þegar ég kann á það. Ég hef fiktað og farið illa út úr því. 

 

Þegar ég þurfti að fara að nota Heilsuveru í bólusetningarferli okkar stráksa 2020-2022 fannst mér það ekkert sérlega gegnsætt eins og einhver hafði fullyrt, hvar var Innskrá-ið ... ó, þessi mynd af lykli var ekki upp á punt ... úps. (Talandi um covid: Viss sóknarnefndarformaður sagði við konu sem hún bolaði í burtu, að konan hefði rofið tengsl sín við guð vegna notkunar á sýnatökupinnum! Ég bara VISSI að þessir Satanspinnar kæmu beinustu leið frá víti) 

 

Sönn ástJá, allt er svo afgreitt með risaeðlugangi (aldri) ... meira að segja fyrrum hjálparmaður minn kallaði mig risaeðlu og hló af því að ég kunni ekki á Makka, ég sem er hreykin PC-manneskja. Ég er vissulega fórnarlamb of mikillar hjálpsemi. Sonur minn sagði iðulega við mig: Ég skal gera þetta fyrir þig. Það var voða þægilegt að kaupa síma og láta hann taka innihald þess gamla og færa yfir ... en ekkert alls fyrir löngu hringdi öskufúl vinkona mín í son sinn eftir að hún gat ekki kveikt á sjónvarpinu heima hjá sér - hún hafði fengið aðstoð en enga kennslu.

Það eru þrjár sjónvarpsfjarstýringar heima hjá Hildu systur sem kann vissulega allt þar. tvær hjá mér. Ein fyrir sjónvarpið, önnur afruglarann og sú þriðja Apple-TV, held ég, sem ég er fús til að læra á EF ég fæ mér það heima. Ætti maður að fylla heilann á sér af upplýsingum sem gagnast manni kannski aldrei?  

 

Vinkona mín til 35 ára, sagði reyndar við Fb-umræðuna um Klappið í gær að þetta app sem um var rætt (eða spurningin) fengi falleinkunn í hönnun hugbúnaðar ... sem jók sjálfstraust mitt til muna.

 

Ef Rússar ráðast nú á okkur á föstudaginn, í tilefni af sjötugsafmæli Pútíns, og taka rafmagnið af landinu? Þá hrynur allt því við þurfum alltaf að geyma öll eggin okkar í sömu körfunni. Aldrei neitt varaplan. Ég sá frétt um að fólk hefði ekki getað sótt lyfin sín heilan dag vegna bilunar í rafræna kerfinu ...

 

 

Ekki misskilja mig samt, ég vil ekki afturhvarf til fornaldar, síður en svo - en við þurfum B-plan í öllu eða vanda okkur betur. Ég er enn undrandi eftir að hafa farið með ungan vin minn á Vinnumálastofnun til að sækja um sumarvinnu fyrir hann á vernduðum vinnustað og þrátt fyrir að vera með vegabréf hans, gátum við eingöngu sótt um það rafrænt með rafrænum skilríkjum sem hann átti ekki til. Persónuvernd hefur án efa ýmislegt að athuga við persónuvernd margra fatlaðra einstaklinga sem eru neyddir til að fá sér t.d. Íslykil en þurfa alfarið aðstoð annarra við að nota hann.

 

Og að láta mig þurfa að læra á fokkings sportabler árlega út af sumarbúðum stráksa - appið hentar reglulegri íþróttaiðkun mjög vel og þá ekkert annað en frábært að hafa allt á sama stað. Sl. vor fór ég inn í appið í tölvunni minni til að reyna að rifja þetta tæki satans upp og fann þá nokkurra mánaða gamalt bréf frá sumarbúðunum, um covid-smit eftir að hann var þar í vetrardvöl yfir helgi. Ég varð eins og herptur handavinnupoki í framan. Hefði sannarlega ekki viljað hafa á samviskunni að smita viðkvæmt fólk í kringum mig en þetta slapp, sem betur fer.

 

Þessi varnarræða „risaeðlunnar í Himnaríki“ var í boði seigfljótandi og langvarandi pirrings. Fólk má auðvitað taka þessum skrifum eins og það vill ... ég harðneita þó að vera talin síðmiðaldra kerling sem þolir engar breytingar en mér finnst þær stundum vera gerðar breytinganna vegna, stundum hugarfóstur einhvers sem ætlar að vera sniðugur og koma fyrirtækinu í nútímann ... en gerir það ekki nógu vel eða notendavænt.

 

Kannski finn ég bara sanna ást á árinu sem gerir allt þetta rafræna fyrir mig ... djók!


Fitufordómar véfréttar

JL-húsiðVegagerðin hefur örlög mín í hendi sér. Ef ákveðið verður að fara til fornaldar og hafa eina stoppistöð í útjaðri Akraness er sjálfhætt búsetu hér í raun. Ég flutti hingað af því að strætó fór að ganga hér. Vegagerðin getur ekki stjórnað því að Skagamenn komi á innanbæjarstrætókerfi hér sem snýst í kringum leið 57. Mér skilst að uppi séu raddir um þetta hjá Vegagerðinni, greinilega einhver sem notar ekki strætó. Ég sendi Vegagerðinni bréf en fékk ekkert svar, sama plan af kurteisi og hjá Strætó sem virðist helst ekkert vilja af kúnnunum vita, ég tala af reynslu. Hvorugt fyrirtækið hefur samráð við farþegana, hvað þá bílstjórana sem hefði þurft að gera þegar nýir vagnar okkar voru síðast pantaðir, þeir eru ekki nógu góðir í öllum veðrum, er mér sagt, og það sem snýr að mér ... fúlt að geta ekki lengur hlaðið símann minn þar.

Ég fann til öryggis stað til að búa á í bænum ... ef íbúðirnar sem þar munu koma, verða ekki á uppsprengdu verði. Í JL-húsinu, í íbúð sem snýr að sjónum. Þá get ég veifað vinum mínum á Akranesi og hef sjóinn enn til að dást að. Sumir tala um rokrassgat þarna, aðrir tala um dólgslega granna einhvers staðar fyrir aftan (mjög sennilega einhver eldriborgarablokkin, ég finn vel hvernig óþekktin eykst hjá sjálfri mér). Alveg er mér sama - ef ég bara hef sjóinn minn, og óhrædd með hnúajárnin, sjefferinn og piparúðann. 

 

Móðgandi véfréttVið systur skruppum á Barion í Mosó á föstudaginn, áður en ég tók strætó heim. Það var hellingsvinna að finna kvikindið, ekki síst af því að sá sem svaraði í símann talaði við mig eins og heimamann. Ég hélt alltaf að þessi staður væri hjá Hótel Laxnesi, fyrir neðan KFC en svo var aldeilis ekki, heldur rétt hjá einhverju allt öðru. Við fengum ljómandi góðan mat og þjónustu þótt mér hafi fundist lélegt að fólk þyrfti sjálft að sækja sér drykki - því það var þjónað til borðs að öllu öðru leyti. Þarna var maturinn dýrari en á Galito á Akranesi, sem býður upp á fullkomna þjónustu og frábæran mat. 

 

Covid-keppurinn minnkar hægt og rólega. Þótt kunningjakona mín hnussi fyrirlitlega yfir "svelti" eins og hún kallar það, frá kl. 20 til kl. 12 næsta dag, finn ég talsverðan mun á mér, eða fötunum og ekki síst magni af sturtusápu sem þarf að nota. Mér hefur gengið verr að halda mig við hreina morgna, eins og í morgun var mikið að gera hjá mér og ég fékk mér kaffi með kaffirjóma um tíuleytið til að vera í sem bestu formi. Kvöldin eru ekkert erfið, enda er ég svo sem nánast hætt að horfa á sjónvarp. Samt er ég með Netflix, Disney, Prime Video (Amason), Stöð 2, RÚV og Símann Premium með milljón stöðvum. Prime fékk ég mér til að horfa á Jack Reacher-þættina sem voru æði. Disney fyrir drenginn en hvorugt okkar horfir, ég ætla alltaf að klára The Queen á Netflix og stráksi horfir oft á þætti í sínu herbergi.

Þetta með covid-keppinn sem bættist á mig í pestinni og við það að hætta að reykja ... Kvöldátið er ekkert og það munar um það, ekki kaffi, ekki gos, bara vatn eða ekkert. Stundum líður mér eins og hálft kíló fari á mánuði, sem sagt eitt og hálft farið ... en það hlýtur að vera meira samt. Fyrrum völvan mín og sjáandi sem var svo forspá gerir ekki annað en gera grín að mér ... af sem áður var, þegar hún dýrkaði mig. Ég ákvað að prófa  í allra síðasta sinn að fá spádóm hjá henni, hvað ég fengi í skóinn í ár, mig langaði virkilega að vita það.        


Til skammar í skóbúð

SkóbúðinÁkaflega glaður drengur var skilinn eftir í Reykjadal í gær til helgardvalar en þar, eins og á Grensásdeild þar sem mamma dvaldi í skamman tíma einu sinni á síðustu öld, kemst starfsfólkið ekki í peysur fyrir vængjum. Þvílík starfsemi þarna í Reykjadal og stórkostlegt val á starfsfólki, og nú er hinn frábæri Haraldur búinn að láta rampa allt upp þar sem mun án efa skipta sköpum fyrir marga.

 

Við stráksi fórum í bæinn seinnipartinn á fimmtudag, áttum matarboð í Kópavogi um kvöldið. Á leiðinni út á stoppistöð sýndi drengurinn mér að stórt gat var komið framan á strigaskóna hans, alls ekki gamla, svo við þurftum að nota ferðina til skókaupa. Ég versla vanalega í heimabyggð en neyðin kom í veg fyrir það að þessu sinni. 

Við kíktum í skóbúð við Smáratorg í gær, á móti RL Magasín (Rúmfó) en þar er alltaf góð aðstoð (eins og í Nínu hér á Skaga og víðast hvar á Akranesi) og svo var frekar góð útsala líka, 40% afsláttur. Skórnir sem við fundum eru mitt á milli þess að vera vetrarskór og strigaskór og drengurinn svo hrifinn af þeim að hann tímdi ekki að fara í þeim í Reykjadal, heldur vildi frekar frumsýna þá í skólanum á mánudaginn.

 

Hilda varð mér til skammar og ekki í fyrsta sinn, þarna í skóbúðinni. Ég sagði eitthvað á þann veg: „Og fari það í rass og rófu.“ Eflaust verið að tala um fjársvelt heilbrigðiskerfið eða klíkukennt kvótakerfið ... Stráksi benti mér strax á að maður segði ekki rass en Hilda, í mótþróaþrjóskuskapi tjáði honum að allir væru með rass, og endurtók: „Rass, rass, rass, rass ...“ Ég ávítaði litlu systur mína blíðlega en af ákveðni og stráksi flissaði. Enginn skemmti sér þó betur en bráðmyndarlegur, ókunnugur karl sem stóð nálægt okkur og horfði græðgislega á systur mína, fannst hún greinilega algjört æði og brjálæðislega fyndin. Þessir karlar hafa engan áhuga á hefðarteprum eins og mér. Þess má geta að Hilda tók ekkert eftir aðdáuninni þannig að þarna fór góður biti í hundskjaft.

 

Ríki okkar HilduHegðun Hildu passar alls ekki við þá prinsessu sem hún er, eins og ég fann nýlega út, sjá færsluna: Ég vissi það ... ég vissi það, en sú færsla hafði gríðarlegar afleiðingar víða um heim. Og margar alveg óvæntar, fyrirgefðu, elsku Jóakim „frændi“. Mundu bara að við Hilda (sennilega Mía líka, hún ber nafn móður þinnar sem millinafn) höfum aldrei borið titla.

 

Mia gæti svo innilega tengst dönsku konungsfjölskyldunni blóðböndum, hún talar fína dönsku og meira að segja menntaði sig árum saman í Danmörku, einhver sterk bláblóðbönd þar? Kannski er Margrét að hreinsa til og losa um prinsa- og prinsessutitla svo Mía verði loks viðurkennd. Þar sem hefðardúllur eru meira og minna skyldar er alveg séns á því að við Hilda (sem erum skyldar henni) fáum að fylgja með ... Fyrirfram: Takk skal du ha, Deres Majestæt!

 

Hér er nýjasta sagan af svartasta sauðinum í hinum breska armi fjölskyldu okkar Hildu, hirðin er í losti, var mér sagt:

Meghan Markle lét nefna son sinn Archie en eitt sinn var til hljómsveit með þessu nafni sem sló í gegn með laginu Sugar, sugar, eða sykur, sykur, en sykur er eitt innihaldsefna í sítrónuköku. Sítrónur eru súrar, bitrar ... eða bitter upp á ensku og BITTER (bjór) er bruggaður af Samuel Smith (elsta brugghús í Yorkshire). The Smiths gerði garðinn frægan með laginu The Queen is Dead, eða Drottingin er látin. Meghan er svo fyrirsjáanleg.

 

Vestmannaeyjar vefmyndavélAhhh ... Nú man ég hvað það var sem gat farið í  rass og rófu, að mínu mati ... ég var að tala um vefmyndavélarnar á Seyðisfirði - sem eru óvirkar! Og hafa verið allt of lengi. Þar gat ég fylgst með Norrænu koma og fara. 

 

Eftir eldgos nr. 2 á Reykjanesskaga horfði ég oft á gosið í gegnum livefromiceland.is-vefmyndavéladæmið og þar uppgötvaði ég ótrúlega flottar vefmyndavélar - frá Vestmannaeyjum (og víðar). Ég get horft á Herjólf koma og fara og það oft á dag. Norræna sést bara vikulega. Þvílík dýrð! Ég verð að drífa mig fljótlega aftur til Eyja, það var svo gaman þar í sumar. Að sjá Eyjar æsir bara upp löngunina og ekkert vesen að komast til Eyja - strætó alla leið í Landeyjahöfn. 

 

Ég gleymi því samt aldrei þegar ég skrifaði til Seyðisfjarðar og spurði af hverju vélin þeirra lægi niðri sem hún gerði eitt árið fyrir löngu, og fékk ekki bara kurteislegt svar, heldur einstaklega ljúft bréf frá sjálfum bæjarstjóranum um að þetta yrði lagað, og það var lagað. Eflaust nýr kominn síðan þá - og mér finnst bara allt of nördalegt að skrifa aftur.

Ég er samt alls ekki óvinur Seyðisfjarðar, finnst bara að vefmyndavélarnar þar geti farið í rass og rófu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 35
  • Sl. sólarhring: 40
  • Sl. viku: 508
  • Frá upphafi: 1526941

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 431
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband