Færsluflokkur: Bloggar
28.12.2022 | 16:08
Jólastemning og önnur dásamlegheit
Hátíðarstemning ríkir enn í Himnaríki, að vissu leyti. Nú hljómar rokk og ról - við vinnuna. Akkúrat núna Jethro Tull, strax á eftir Skálmöld ... núna Radiohead ... Er tónlist ekki dásamleg?
Í öðru afmælinu sem ég fór í skömmu fyrir jól, sat ég lengst af hjá erlendum hjónum, mig grunar að hann sé tónleikahaldari (hann var alla vega í stuttbuxum og já, það var trylltur snjór) sem sennilega hefur hitt stærstu nöfnin, því hann var svo þögull um starf sitt. -Have you heard of Skalmöld? langaði mig svo að spyrja hann en hélt mig við þetta erlenda og við höfum ansi líkan tónlistarsmekk. Hann sýndi mér virkilega samúð yfir því að hafa misst af King Crimson 2018 í París, ég gæti hafa ýkt afmisselsið um nokkra mánuði. Ég var þar í febrúar og tónleikarnir áttu að vera í október, skv. plakötum sem héngu um alla borg, en ég missti samt af þeim, ekki naumlega samt. En það á helst aldrei að eyðileggja sumar sögur með of mikilli nákvæmni.
Jólagjafirnar í ár voru fremur margar í ár og stórfenglegar. Mér datt ekki í hug að skipta einni einustu en ég sá mikið uppnnám á netinu yfir ósvífinni fréttakonu. Hvaða jólagjöf varstu að skila? Aha, heyrnartólum frá ömmu? Ráð mín til fólks er að segjast hafa fengið tvennt af einhverju - til að særa ekki gefendur í beinni útsendingu.
Mikil (mest) var hrifning viðstaddra þegar ég opnaði pakka með skærbleikri styttu af hönd sem sendir manni fingurinn. Sjá mynd. Viðkvæmir hugsi sér baugfingur sem lyftist þarna. Það verður þrautin þyngri að finna henni stað við hæfi. Áberandi. Svo fannst mér tryllt hugmynd hjá systrum mínum að slá saman í ... þyrluferð, spurning um að skreppa á Esjuna aftur eða bíða eftir eldgosi? Hún gildir á virkum dögum en ekkert kom fram um að hún veitti ekki aðgang að eldgosi ... Ég fékk nokkrar óhemjuljótar jólakúlur á skrítnukúlujólatréð mitt og líka eina fallega þótt gefandinn reyndi að segja hana ljóta.
Allt of lítið var lesið en allt of mikið horft á sjónvarp í næstum því veik-ástandinu á mér. Myndin um Árna stóð upp úr (Velkominn, Árni). Svo var Facebook líka nokkuð fyndin í dag. Upp úr stóð statusinn:
Það er landlægur misskilningur að Labbi í Mánum heiti fullu nafni Göngutúr Þórarinsson. Hann heitir Ólafur. Jón Ólafsson tónlistarmaður.
Það var virkilega gaman að horfa á fyrsta þáttinn af þremur af Why didn´t they ask Evans? (Því spurði enginn Evans?) eftir bók Agöthu Christie á RÚV í gærkvöldi. Þýðingin á heitinu er samt ekki alveg rétt ... Fólk verður að lesa bókina til að vita að það hefði þurft að BIÐJA Evans um að gera ákveðinn hlut, ekki spyrja. Bókin sem ég las í eldgamla daga hét Hver er Evans? sem var góð lausn því leitin að Evans stendur yfir nánast alla bókina. Því báðu þau ekki Evans?
Æ, kannski algjör smámunasemi hjá mér. Þetta er miklu betra efni en þættirnir um leitina að Evans sem voru sýndir fyrir nokkrum árum, þar voru þau tvö (Bobby og Frankie) svo innilega yfirborðskennd og leiðinleg. Kannski misminnir mig og þetta voru þau Tuppence og Tommy í Fjórir stórir ... alls ekki persónurnar sem ég sá fyrir mér þegar ég las bækurnar. Miklu frekar núna í þessum þáttum þótt bílavinur hans Bobbys heiti ekki Badger þar eins og í bókinni sem ég á enn og les mér til skemmtunar og gleði á fimm til tíu ára fresti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2022 | 18:56
Annir við djamm og hjálpsamur Portúgali
Annasöm helgi í samkvæmislífinu að baki og nú tekur alvaran við. Að gera extra-fínt í Himnaríki og fara að skreyta. Ég fór í fyrsta jólastuðið þegar ég sá gamla kórinn minn syngja í sjónvarpinu ... og viti menn, ég var með þarna, þetta var 1984. Þarna fannst mér ég alveg rosalega feit og rosalega glyðruleg með þennan rauða varalit. Nú er ég nokkuð þykkari og aldrei glyðruleg, samt miklu ánægðari með sjálfa mig ... að hugsa sér. Ég er efst til vinstri, elskan hún Herdís í miðið. Konan sem segir m.a. hástöfum í strætó 57: Næsta stopp er ... Klébergsskóli. Þetta gæti líka verið mynd frá hljómsveitaræfingu með Grýlunum ...
Þegar snjónum var spáð þarna á föstudagskvöldið gerði heppnin fátt annað en að eltast við mig. Ein af fjölmörgum systrum mínum (Mía) átti erindi upp á Skaga og bauðst til að leyfa okkur stráksa að sitja í til Reykjavíkur ásamt kommóðunni flottu sem hún var að kaupa. Ég bjó til Eldum rétt-Mac&Cheeserétt handa okkur og á meðan við snæddum kræsingarnar gerði Mía játningu. Hún hafði orðið að setja bakið niður á aftursætinu (2 bök, bæði niður) til að koma kommóðunni fyrir, munaði millimetrum. Tvennt í stöðunni, geyma kommóðuna í Himnaríki í nokkra daga eða við stráksi sitja saman í farþegasætinu frammi í. Hmmm. Þau sóttu létta kommóðuna í bílinn og báru hana upp á meðan ég undirbjó heimilið fyrir brottför og afhenti kisupassaranum lyklavöld. Örlítið fjúk var byrjað, svona til að minna á komandi óveður sem norska veðurstofan sagði að hæfist klukkan tíu um kvöldið. Við vorum á ferðinni upp úr átta og á Kjalarnesi var mikill skafrenningur, ansi blint, sást varla á milli stika fyrir ofankomu en af því að veðrið átti ekki að hefjast fyrr en klukkan 22 bitum við á jaxlinn og vorum sallaróleg í bílnum, enda Mía afbragðsgóður bílstjóri. Nánast allar jólagjafir frá okkur drengnum voru meðferðis og átti að afhenda þær í seinni veislu helgarinnar.
Daginn eftir var ansi hreint mikill snjór og það tók okkur Hildu hátt í 40 mínútur að komast út úr stæðinu í Kópavogi. Duglegu snjóruðningstækin höfðu búið til nokkuð háan og harðan kant sem, þrátt fyrir mokstur okkar, var ansi hreint erfitt að komast yfir. Muna að kaupa hærri bíl næst, hugsaði systir mín örugglega en þegar við loksins komumst út á götuna fórum við allra okkar ferða án nokkurs vesens enda er litla systir einnig afbragðsgóð bílstýra. Í Smáralind hittum við sjálfan Trölla sem gaf okkur kókómjólk í stað þess að ræna af okkur gjöfum. Sjá mynd. Við lentum svo í öðrum festingi við heimkomu á stóra og fína bílastæðinu hennar Hildu. Bíllinn hennar blýfestist ofan á snjóhrygg og neitaði að hreyfa sig. Hálfur úti á götu. Portúgalskur bráðhuggulegur en of ungur maður vippaði sér út úr bíl og hóf að hjálpa okkur, þá aðallega við að moka burt þessum klakahrygg. Allir aðrir bílstjórar óku fram hjá og einn flautaði og sendi okkur fokkmerki, sennilega til að sýna okkur stuðning eða spældur yfir að þurfa að hægja ferðina og sveigja fyrir fastan Hildubíl. Þessi portúgalski sagðist hafa orðið aðnjótandi mikillar ýt- og mok-aðstoðar kvöldinu áður og fannst dásamlegt að geta endurgoldið það svona. Við Hilda slitum payitforward-keðjuna, við sáum engan sem þurfti aðstoð okkar.
Ef við værum á Akureyri, væru sennilega um tíu manns komnir til að ýta okkur og moka, sagði systir mín hugsandi á meðan sá portúgalski mokaði, en hún bjó fyrir norðan árum saman og sagði hjálpsemi Norðlendinga mjög mikla í svona aðstæðum. Tengdasonur hennar, einmitt frá Akureyri, hjálpaði granna sínum í gær. Sá er útlenskur og var að sjá snjó-ófærð í fyrsta sinn. Þú keyra, sagði hann feginn við tengdason okkar Hildu, sem hoppaði upp í bílinn hans og losaði hann á innan við mínútu, vanur maður á réttum stað á réttum tíma, já, og með hjartað á réttum stað.
Veislan, sú fyrri, um kvöldið var algjör dýrð og dásemd, haldin á Hæðinni við Síðumúla og þar var fjöldinn allur af skemmtilegu fólki. Ég var svo mikill plebbi að ég tók með mér inniskóna (gleymdi gelluskónum á Akranesi) sem varð til þess að enginn bauð mér upp. Geggjuð veisla, skemmtilegt fólk, æðislegur veislustjóri, góður matur og ein uppáhalds-Instagramstjarnan mín vann þarna sem þjónn, hversu gaman. Svo fékk ég far báðar leiðir með svo skemmtilegum bíl að það nægði að ýta á SNOW-system-eitthvað og þá komumst við allt. Ögn hægar en við óðum inn í ógurlegustu skafla án þess að festast. Man því miður ekki nafnið á bílnum, bara að hann er 2006-árgerð, og er einn af tveimur eða þremur sinnar tegundar hér á landi.
Í afmælisveislu gærdagsins voru ekki mikil afföll, og mögulega komust ekki allir til að hitta skemmtilega jólasveininn sem mætti klukkan tvö. Síðan hvenær eru tvö erindi í Í skóginum stóð kofi einn? Stráksi er kominn með svo margar ljósmyndir af sér og fræga fólkinu (Páll Óskar, Hr. Hnetusmjör, Lalli töframaður, Áslaug Arna og Katrín Jakobsd.), nú bættust við jólasveinninn og Trölli, að nú þarf ég að fara að láta prenta þær út og ramma inn ... og bara upp á vegg með þær.
Já, fótboltinn? Ég náði ekki að horfa á bronsleikinn og heldur ekki leikinn um gullið, að hugsa sér. Jú, við Mía lögðum af stað í björtu í gær, hún að skutlast eftir kommóðunni og skutla okkur stráksa heim. Í þakklætisskyni bauð ég henni á Lemon, á bensínstöð, ekki jafnplebbalegt og það hljómar. Það er frekar snjólétt á Skaganum miðað við höfuðborgarsvæðið, ekki í fyrsta sinn sem það gerist, en sennilega hefur tvisvar verið hér meiri snjór en í bænum síðan 2006.
Við heimkomu, Mía rokin með kommóðuna í bæinn til að sleppa við gulu viðvörunar-veðrið, kveikti ég á sjónvarpinu, íhugaði að setja á leikinn sjálfan og hunsa þjóðfélagið á meðan. Það þurfti ekki - vítaspyrnukeppnin var að byrja - ég hlustaði á hana með öðru á meðan ég japlaði á Lemon-inu, þóttist ekki hafa áhuga (til að fá ekki hjartaáfall) en stökk fagnandi á fætur þegar í ljós var komið hverjir hrepptu gullið. Hef oft haldið með Frökkum í ýmsum keppnum en í þetta sinn voru það Messi og co.
Í dag hef ég þjáðst af næstum því veik-heitum (það er til), en skammaðist mín upp úr skónum þegar kappklæddur Eldum rétt-bílstjórinn birtist hér eftir sannkallaða svaðilför, sanna hetjudáð, að komast hingað úr Kópavogi með ferskan og góðan mat handa okkur drengnum. En drög að hálsbólgu, stífluðu nefi og höfuðverk tek ég nú samt það alvarlega að hér verður bara algjör slökun, ég mun elda það fljótlegasta af þremur réttum (pasta), og vona svo að morgundagurinn beri með sér meiri orku og kraft. Ég á enn smávegis eftir af amerískum flensupillum, eins og ég hef gefið mikið magn af þeim, og gat sofið rótt í nótt með einn skammt í kerfinu. Þær eru vissulega útrunnar en virka samt. Þyrfti að komast til USA innan tíðar, landsins þar sem 300 milljón manneskjum er treyst til að innbyrða flensulyf, en ekki 300 þúsund manns á Íslandi ... Dæs.
Ég er að byrja að lesa æsispennandi bækur, komin með þrjár í hús; Kaldaslóð, Meinsemd og Kyrkjari (eftir Kim Faber og Janni Pedersen). Þær eru sjálfstæðar en mér finnst alltaf gott að byrja frá byrjun á bókaflokkum (með rétta röð á þeim hér) en ég féll fyrir þeim á jólamarkaðnum Akratorgi fyrir rúmri viku. Komst ekki á markaðinn um helgina, enda í eilífum afmælum, og kemst heldur ekki á Þorláksmessu, bömmer, en þessar bækur verða þar, og miklu fleiri. Mæli með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2022 | 00:14
Fyrsta barferðin og fyrsta matarstellið, á sama degi
Sunnudagurinn var æði. Þegar ég tók strætó um hádegisbil í gær vissi ég strax að dagurinn yrði góður því bílstjórinn rukkaði mig um fullt gjald. Ferðinni var heitið í aðventuboð þar sem sexkvenningarnir svakalegu og Snatína hittust í fyrsta sinn síðan við störfuðum saman hjá LÍ við ýmis spennandi og háleynileg verkefni á árum áður. Geggjað að sjá stelpurnar, hvað þær hafa haldið sér vel. Sumir halda kannski að ég sé elst af hópnum, ég hef ætíð viðurkennt að vera jafngömul Madonnu, og Steingerður ... hún var kölluð Barbie, enda 59-módel. Hinar notuðu nöfn eins og Tító, Maó, Frankó og Florence N. sem ruglaði mig, kannski voru þær ekki að miða við jafnaldra í vali á þessum leyninöfnum - en hvað veit maður? Tækninni fleygir fram og meik þekur sífellt betur en kannski var ég elst, en hver telur svo sem? Verst að sokkarnir mínir fínu úr Stefánsbúð hverfa alveg á bak við voffa en á þeim myndum þar sem þeir sjást er ég sjálf agaleg útlits sem kemur fyrir.
Laugardagurinn var líka æði. Jólamarkaðurinn Akratorg hófst kl. 13 og það verður opið alla næstu helgi líka og á Þorláksmessu. Guðrún vinkona kom alla leið úr Kópavogi til að slást í för með okkur Ingu þangað. Ég keypti heilan helling í jólagjafir og ætlaði að kaupa meira í fleiri búðum, en mér til undrunar var ekki mikil aðventustemning, flestar búðir skelltu í lás ótrúlega snemma, eða eins og á venjulegum laugardegi og misstu viðskipti fyrir vikið. Ekki bara mín. Ég fórnaði fyrri fótboltaleik dagsins í þetta búðaráp en nokkuð margar jólagjafir eru komnar í hús sem er mikill plús.
Ég keypti mér líka matarstell, mitt fyrsta í raun. Eða ókei, vísi að stelli; sex grunna diska og sex djúpa. Fékk þessi fínheit á bílskúrsmarkaðnum fyrir aftan sjúkrahúsið á Akranesi, þar er alltaf opið til fimm um helgar.
Er þetta ekki eitthvað fansí stell? Af hverju kostar diskurinn bara 800 krónur? spurði ég Kristbjörgu.
Jú, að sjálfsögðu er þetta voða fínt, svaraði hún. Sko þetta sem þú ert að kaupa er frá Þýskalandi. Svo fóru ýmsir að stæla það, eins og Royal Copenhagen, diskurinn á 20 þúsund ... en hugsaðu ekki um það. Þú ert með það upprunalega. Þetta er orginallinn.
Svo nú get ég boðið mínum hefðbundnu fjórum gestum í hangikjöt á jóladag án þess að vera með litlu hversdagsdiskana og ef við erum fleiri í mat get ég notað hina tvo sæmilega fínu diskana, fer svo í hversdagsdiskana og slepp jafnvel alveg við að nota tertudiska ... Svo er ekkert mál að bæta við stellið, sagði Kristbjörg, ég væri til í kannski skál undir kartöflur og uppstúf, fat undir hangikjötið - bara alls ekki of mikið. Held nánast aldrei matarboð en gaman að eiga loks svona fína og fallega diska, nú líður yfir jóladagsgestina.
Seinni áttaliðaleikurinn var svo agalegur að ég slökkti (Áfram England nefnilega) og fór á barinn, í alvöru. Reyndar átti ég stefnumót á Útgerðinni (rétt hjá Galito) þar sem fór fram pöbbkviss. Ættingi annarrar konunnar sem ég átti stefnumót við þar hafði varað hana við að mæta, þetta væri ekki fyrir gamlingja, hann sjálfur (20 plús) væri nánast of gamall ... Ég spurðist fyrir, og var sagt að allir væru velkomnir, þetta væri fyrir alla, nema börn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á djammið á Akranesi (fyrir utan árgangsmót) síðan ég flutti hingað 2006. Ég gerði ýmsar ráðstafanir, farðaði mig, var frekar fín í tauinu ... og skipti á rúminu.
Okkur gekk ljómandi vel, hefðum jafnvel unnið ef ekki hefði verið fyrir flumbrugang og fávitahátt minn ... spurt var til dæmis: Hvað þarf Karl konungur að ná háum aldri til að ríkja jafnlengi og mamma hans gerði. Auðvelt, hugsaði ég. Lagði saman 73 og 61 ... 134 ára! Sem var einn möguleikinn af fjórum. Nema móðir hans ríkti í rúm 70 ár og ég átti að vita það, hún tók við hálfþrítug og náði næstum 100 ára aldri. Ég vissi aftur á móti að Marel var verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands, ekki spyrja mig af hverju ég vissi það. Þetta voru 25 ótrúlega skemmtilegar og fjölbreyttar spurningar - og við græddum á því að vera gamlar. Inga (MIKLU eldri en ég, 2 árum) þekkti til dæmis lagið sem er einkennislag Landans. Ég hefði þekkt lag með Skálmöld eða Radiohead, eitthvað frá tíunda áratugnum hefði líka verið fínt, og sú sem var með okkur, allt með Kim Larsen ... og dönsku drottninguna, grunar mig. Útgerðin bar fær tíu fyrir skemmtilegar móttökur fyrir aldraða og frábært pöbbkviss. Við vorum nú ekki meiri bógar en það að þegar þessu var lokið á miðnætti drifum við okkur heim og sluppum við að breytast í grasker. Það var skrambi lítið um jafnaldra, kannski allir í losti eftir seinni leikinn. Spurning um að halda með Argentínu núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2022 | 01:44
Tær illska ... blogg um fótbolta og grimmd
Fótbolti hefur lengi leikið stórt hlutverk í lífi mínu. Auðvitað hélt ég alltaf með ÍA í gamla daga og geri enn, enda alin upp á Skaganum þar sem eru bestu kartöflurnar, fallegasta kvenfólkið og flottasti fótboltinn. Það var sjálf Kolbrún Bergþórsdóttir, gagnrífandinn minn í bókmenntaþætti á Aðalstöðinni snemma á tíunda áratug síðustu eða þarsíðustu aldar, áður en henni var rænt af mér og hún gerð fræg, sem vakti áhuga minn fyrir alvöru á þessari dýrð og dásemd sem HM og EM eru ... Kolla dró mig eitt sinn á Glaumbar þar sem við fylgdumst með Brasilíu og Ítalíu slást um gullið - þetta var leikurinn (1994) þar sem hinn ítalski Baggio brenndi af í vítaspyrnukeppni og tryggði með því Brasilíu sigurinn. Óhugnanlega spennandi vítaspyrnukeppni, svo hræðileg að ég fór að halda með Þýskalandi lengi á eftir. Aumingja ítalska parið, ferðafólkið, sem sat þarna innan um eintóma Brassafylgjendur. Kolla sagðist fylgjast með fótbolta út af lærunum á fótboltamönnunum (hún hefur sagt það opinberlega en ég held enn og vona að hún sé að grínast).
Ég fylgist alltaf það spennt með leiknum sjálfum að ég hef engan tíma til að horfa á lærin á þeim - ég trúi bara ekki að einhver horfi útlitsins vegna. Svo var HM-mót nokkru áður (1990?) þar sem ég og gamli klúbburinn minn komst á forsíðu virts dagblaðs (Alþýðublaðsins) því við héldum svo grimmt með Kamerún. Sem betur fer var netið ekki komið til sögunnar, því gat enginn eyðilagt stemninguna með því að skrifa: Er þetta frétt? En ég hef síðan verið kölluð forsíðustúlkan af vinum mínum og ættingjum úr Þingeyjarsýslu.
Frekar mörgum árum seinna fór ég að verða vör við aðeins of margar tilviljanir í kringum mig, jafnvel samsæri eða ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla svona illsku þegar ég áttaði mig á því hvað var í gangi. Ég fór sífellt oftar að segja eitthvað á borð við:
Bíddu nú við, Hilda, hjartans kæra litla systir, HM hefst á eftir og við á leiðinni til Stykkishólms í orlofshús! Er ekki örugglega sjónvarp þar? Jú, sjónvarp var þar og reyndist í lagi en grillið ónýtt sem mér var nú nokk sama um fyrst sjónv-
Ég sé sjaldnast framan í systur mína þegar ég rek upp öll þessi ramakvein yfir að hafa planað ferðalögin okkar með svo löngum fyrirvara að ég gleymi að gera ráð fyrir HM en nú eftir að grunsemdir mínar kviknuðu finnst mér líklegt að hún hafi ætíð glott grimmdarlega um leið og hún sagði: Æ, æ.
Ferðalögin okkar næstu árin innihéldu nánast öll eitthvað svipað. Ofboðslega mikilvægir leikir sem ég neyddist kannski til að horfa á í gegnum litla gemsann minn (jafnvel hljóðlaust) á meðan við vorum kannski úti að borða í einhverju krummaskuðinu eða ég þurfti að gera mér upp skyndileg veikindi sem kröfðust þess að ég yrði í friði einhvers staðar í sumarbústað eða káetu eða aftursæti. Ég á ótal margar átakanlegar sögur af því þegar reynt var að hafa af mér fótboltaleik. Fólkið sem þekkir mig best veit að ég keypti ekki Himnaríki eingöngu vegna sjávarútsýnis og Einarsbúðar, heldur vegna þess að fótboltavöllurinn á Akranesi sést svo vel út um eldhúsgluggann hjá mér.
Núna á HM 2022 hef ég reynt að gæta mín afskaplega vel og takmarkið er að missa ekki úr leik.
Ég hef kvartað, aðallega í hljóði, nöldrað og verið undrandi yfir því að sjá hvergi dagskrána yfir leiki, ekki einu sinni þarna fyrst þegar vel var vitað hvaða lið spiluðu saman ... en ég kveikti á sjónvarpinu og sá með aðstoð fjarstýringarinnar hvað dagurinn bauð upp á í fótbolta. Ég fann hvergi dagskrá, í alvöru.
En loksins nú í kvöld hugkvæmdist mér að gúgla HM á ensku, world cup 2022, og komst nánast samstundis inn á almennilega síðu sem sýnir það sem ég vildi allan tímann sjá, ekki bara fréttir af leikjum dagsins, úrslitin, skandala, fýluköst Ronaldos og slíkt, sem ég hef eingöngu fundið á íslenskum miðlum þegar ég slæ inn HM 2022 dagskrá. Það finnst vissulega betra fólk en ég í að gúgla en samt ...
Mynd frá Akureyri: Hversu mörg ferðalög þurfti eiginlega áður en ég áttaði mig á samsærinu?
Gleði mín yfir að hafa loks fundið dagskrá keppninnar (sjá efstu mynd) stóð ekki lengi því sannleikurinn opinberaðist fyrir mér þegar ég horfði vantrúuð á dagsetningarnar sem íslenskir fjölmiðlar hafa haldið leyndum fyrir mér. Nánast komin jól, er það næsta sem komst réttri dagsetningu á úrslitaleiknum sem verður 18. desember. Þið sáuð það fyrst hér. Það verða vissulega átta liða úrslit föstudag og laugardag sem mér sýnist að ekki verði hægt að eyðileggja fyrir mér. Og þó, sumir eru óhugnanlega ráðsnjallir ...
Já, og með því að hafa sýnt þá snilli að gúgla á ensku næ ég mögulega að bregðast við illskunni í sinni verstu mynd eða lymskulegri tilraun til að hafa af mér úrslitaleikinn, þar sem England berst sennilega við Portúgal eða Argentínu, mögulega Marokkó, um gullið. Systir mín ætlar nefnilega að halda stórt boð þennan dag og þegar leikurinn hefst verður jólasveinninn sennilega rétt ófarinn. Þótt hún eigi afmæli þennan dag er þetta samt sérlega ómanneskjuleg framkoma við stóru systur sína! Ég þarf mögulega að gera mér upp hægðatregðu og læsa mig inni á baði til að ná að horfa á leikinn. Ég gæti líka þóst vera með höfuðverk rétt fyrir þrjú og fengið að leggja mig fjarri gleði og glaum, en með snittur og kaffi og símann í vasanum, það er dömulegra.
Systir mín er sérlega indæl ... nema þegar kemur að fótbolta og mér, þá er eins og færist yfir hana biksvart miskunnarleysi sem sést einna helst í mjög hryllilegum hryllingsmyndum. Ég leyfi ykkur að fylgjast með framvindunni, ekki fara langt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2022 | 19:30
Röddin í ruglinu ...
Sundfélagið okkar hér á Akranesi hefur í nokkra áratugi boðið upp á Útvarp Akranes í byrjun aðventunnar. Hittist mjög oft á að kveikt er á jólatrénu á Akratorgi sama dag. Áður en ég flutti aftur upp á Skaga kom ég einu sinni eða tvisvar og sá um þátt í gamla ástkæra heimabænum mínum. Annað slagið eftir að ég flutti hingað hef ég séð um bókaþátt, ekki í ár því Lestrarklefinn sá um þáttinn í dag og ég skemmti mér vel við að hlusta. Óli Palli og Sigrún Ósk sáu um þátt eftir hádegi í dag og buðu mér að kom í viðtal um tvöleytið, aðallega um íslenskukennsluna hjá Símenntun, vettvangsferðirnar sem við fórum á fimmtudögum til að skoða Skagann, Love Island-Akranes-stikluna sem ég sýndi nemendum og hvað allir voru sammála því að Steindi hefði EKKI verið lúði (hann lék lúða í LA-Akranes).
Þetta gekk bara ágætlega en áðan heyrðist í hausnum í rödd sem getur verið ótrúlega miskunnarlaus og iðulega mjög grimm:
Hausinn: Af hverju varstu að name-droppa svona í þættinum?
Gurrí: Ha, hvað áttu við?
Hausinn: Þarna þegar Óli Palli talaði um lífverðina sem alvöru-Love Island-fólkið hafði þegar það kom til Íslands og þú fórst að segja hvað allt svonalagað væri ólíkt Íslandi og nefndir eins og algjör fáráðlingur þegar þú fórst á stefnumót um árið, vandlega förðuð af Haffa Haff og með góð ráð í farteskinu frá Tobbu Marinós (Ekki sofa hjá á fyrsta deiti, Gurrí!) sem þá sá um Djúpu laugina á SkjáEinum.
Gurrí: Já, en skilurðu ekki ...? Fólk af þessu kaliberi eins og þau, poppstjarna og sjónvarpsstjarna ... í útlöndum hefðu þau aldrei þurft að vinna fulla vinnu annars staðar fyrir salti í grautinn og hvað þá gera eitthvað svona fyrir óbreytta samstarfskonu (mig), þau hefðu pottþétt verið með lífverði.
Hausinn: Nei, ég skildi ekki, þetta kom bara út eins og veistu hverja ég þekki?-mont sem er svoooo hallærislegt.
Gurrí: Æ, hættu, þú veist hvað ég get verið léleg í að útskýra alla leið, það verður bara að hafa það, ég get engu breytt núna.
Hausinn: Svo varstu með bláa trefilinn uppi í andlitinu á þér nánast allan tímann, hvað var það?
Gurrí: Hmm, já, það var asnalegt, kannski tilraun til að fela fyrstu frunsuna í bráðum fimm ár ... sem enginn sá nema ég, en þetta var nú fallegur trefill og hættu þessu satans niðurrifi alltaf hreint.
Hausinn: Ókei, ókei ... þú ert svaka sæt og voða fín, frunsan töff og trefillinn flottur, en ferðu samt ekki bráðum í klippingu og litun? Það er ekki sjón að sj-
Næsti lausi tími í klipp og lit er 20. desember og ég er skráð þá! Ég held í vonina að Anna Júlía hafi séð útvarpsþáttinn sem sést á heimasíðunni líka (iasund.is) og opni stofuna á morgun, þetta er algjört neyðartilfelli, myndi ég segja. Þrjú partí fram undan fyrir 20. desember.
Ég lét ruglið í hausnum ekki eyðileggja fyrir mér annars fínan dag, skrapp með elskunni henni Ingu í antíkskúrinn og festi kaup á saumakassa, mamma átti svipaðan. Hann var fullur af alls konar dóti; mismunandi tölum, teygju og ... hárneti eins og gömlu konurnar notuðu í gamla daga. Kannski nýtist það mér en mér finnst samt svo óþægilegt að tikka ekki í miðaldraboxin, svo ég fer kannski beint í að verða gömul kerling. Sá á einum stað skilgreiningu á miðaldra: Að kjósa frekar gönguferð á sunnudagsmorgni en að sofa út ... NEI, sannarlega ekki. Að þekkja ekki tónlistina sem er spiluð í útvarpinu ... EKKI RÉTT. Og svo framvegis, og svo framvegis.
Mynd: Síðar sama dag á Akratorgi, ástríkur jólasveinn ... og ég missti af öllu saman.
Mig hefur alltaf langað í svona saumakassa til að hafa allt saumadót á einum stað ... og sleppa við: Æ, hvar finn ég nál og tvinna, var það ekki í þessari skúffu, nei, bíddu nú við, eða þessum skáp? Við Inga fórum líka í Kallabakarí og fengum okkur sætmeti þar og skoluðum niður með þessu líka fína Illy-kaffi. Klukkan varð fjögur og farið að dimma, sem gerist ansi hratt og mikið þessa dagana en innan við mánuður er þar til fer að birta aftur, svo þetta er ekkert mál. Hvar skyldi nú aðventukransinn minn vera? Æ, á ég ekki aðventukrans? Jú, það hlýtur að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2022 | 12:45
Ævintýri á Álfhólsvegi og hávaðakeppni í húsinu
Nágrannaslagur í vændum? Þegar ég hjúfraði mig ofan í koddann rétt um áttaleytið í morgun með þann staðfasta ásetning að sofa rótt til 9.30 fór að heyrast hávært hljóð og miðað við lætin var verið að bora eftir olíu í grennd. Ó, hugsaði ég spyrjandi en hafði nú samt áttað mig, einhver sem hatar Skálmöld, hvernig sem það er nú hægt, og ákvað að hefna sín fyrir óumbeðna tónleika í húsinu? Ætti ég kannski að gefa þeim frí um hríð (klukkutíma, hálfan dag)?
Svo ég setti aðallagalistann minn á (youtube-veitan) og gaf í botn til að yfirgnæfa olíuborinn en ég veit svo sem ekki hversu betur lögin fara í þau sem bora. Jú, BG og Ingibjörg, Mánar (Þú horfin ert), Trúbrot, Bubbi og fleiri yndislegheit er að finna þar en líka meiri læti. Nú kemur bara í ljós hvort/hvert okkar verður sneggra til að setja á sölu, eða sættast heilum sáttum eftir að ég fæ heyrnartól eða hann/þeir eyrnatappa ...
Mynd af lagalista: Alls konar nýtt uppáhalds, gamalt uppáhalds og eldgamalt uppáhalds ... fjölbreytni góð við vinnuna. Ekki samt segja Davíð frænda frá efsta laginu ...
Við stráksi fórum í bæinn um helgina og lentum í ævintýri ... þar sem álfar og franskt kvikmyndatökulið kom við sögu ... Drengurinn hefur mikinn áhuga á álfum og sögum um þá og nýlega hittum við konu sem sagði honum að þeir væru svo sannarlega til, þá hafði einnig ein af systrum mínum viðurkennt fyrir honum að hafa hitt álf og við sama tækifæri sagt okkur veiðisögu af mömmu þar sem hún mokveiddi með aðstoð álfa ... Allavega langaði hann að kíkja á Álfhólsveg, rétt hjá skólanum, en þar er sögð vera álfabyggð. Við Hilda báðum hann að fara aðra leið til að trufla ekki sjónvarpsviðtal sem var í gangi þarna hjá álfasteinunum. Svo sátum vér systur í bílnum og ræddum heimsmálin. Viðtalinu lauk og parið sem verið var að spjalla við hvarf sjónum. Kom svo aftur og sagði eitthvað við sjónvarpsparið sem rauk á ofsahraða fyrir hornið.
Nú eru þau farin til að mynda drenginn í álfaleit, sagði litla systir spámannslega en ég fussaði vantrúuð. Svo fór mig að lengja eftir honum og plataði Hildu til að keyra nær og viti menn, það var verið að mynda drenginn sem var eins og draumur hvers sjónvarpsmanns sem ætlar að gera mynd um skrítnu Íslendingana sem trúa á stokka og steina og borða úldinn mat, svo fátt eitt sé talið.
Myndatöku lauk og ég kallaði á drenginn. Sjónvarpsfólkið leit græðgislega á okkur til skiptis og spurði hvort við værum kannski til í stutt spjall. Ég hef kennt drengnum kurteisi svo hann sagði bara, yes, of course, og fannst þetta hálfgerð upphefð. Þau vissu ekki hvað þau voru að biðja um. Ekki er nefnilega allt sem sýnist, eins og biblíusölumenn hafa komist að raun um þegar þeim tekst að brjótast inn í stigaganginn hér og halda að þeir geti selt mér eitthvað af því að það stendur HIMNARÍKI á hurðinni, það látúnsskilti var gjöf frá Önnu minni tenerísku. Og ég harðneita alltaf að kaupa af þeim, svo ég er sýnd veiði en ekki gefin, eins og hjúskaparmálum, og nú sem góð auglýsing fyrir Ísland.
Mynd: Ef vel er gáð má sjá mig lengst til vinstri á myndinni, ég klippti hana þannig til að álfarnir fengju að njóta sín.
Trúið þið á álfa? spurði fallega franska, granna konan á meðan sæti kvikmyndatökumaðurinn beindi vélinn þannig að mér að ég virtist grönn, eins og hann lofaði að gera. Ég fór beinustu leið í mótvægisaðgerðir og tjáði þeim að ég gerði það bara alls ekki, þetta væri eitthvað sem notað væri á túrista til að laða þá að. Svo hélt ég áfram á minni hræðilegu ensku (ég les samt Stephen King): Og við borðum fæst þennan hræðilega þjóðlega mat (t.d. hræring og súrsaða selshreifa) sem ferðamönnum er talin trú um að við gerum í torfkofunum okkar (og deilum með ísbjörnunum sem við höfum sem gæludýr), við borðum til dæmis alveg pasta og crossant ... Þau flissuðu, enda reyndi ég að setja franskan framburð á seinna orðið.
En þarna, eins og ég áttaði mig á um kvöldið, þá komin í Himnaríki, tókst mér í tveimur setningum að eyðileggja íslenskan ferðamannaiðnað. Bjarnheiður á eftir að drepa mig! Það gæti bjargað mér að ég sagði söguna af veiðiferð mömmu þar sem álfur sagði henni í draumi að hún myndi veiða vel (sem rættist) og að ein systir mín hefði séð álf þegar hún var barn. Eftir að ég sagði þetta fannst þeim skrítið að ég tryði ekki á álfa. Þau hafa greinilega aldrei heyrt talað um mótvægisaðgerðir og björgun á mannorði heillar þjóðar.
Ég veit ekkert hvaða franska sjónvarpsstöð þetta var, en þetta verður sýnt í Frakklandi í janúar. Mig grunar að ég verði klippt út því mér skildist á þeim að 66°N styrkti þáttinn, svo er líka hægt að klippa hann þannig til að ég komi út sem villtur álfatrúari (nýyrði).
Þú slærð í gegn um allan heim, sagði Hilda hughreystandi eins og litlu systur gera þegar stóru systur líta ekki nógu vel út.
Já, er það? Einmitt! Ég leit út eins og vélsagarmorðingi. Fór síðast í klipp og lit í júlí og var ekki einu sinni með flotta trefilinn minn um hálsinn.
Þetta eykur alla vega möguleika þína á að ganga út, jarðarbúar eru átta milljarðar - það hreinlega hlýtur að vera einhver þarna úti sem fellur fyrir þér og heimsækir Ísland í leiðinni. Sumum mönnum finnst bara krúttlegt að deita konu sem getur ekki sofnað af því að hún man ekki póstnúmerið á Fagurhólsmýri.
Kommon, Hilda ... 785 Öræfum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2022 | 15:09
Óútskýranleg höfnun og símtal ársins
Thom: Já, sæl, þetta er Thom.
Gurrí: Tom í Conway, Tom hennar Elfu?
Thom: Nei, ég heiti Thom Yorke. Mér bárust af því fregnir að þú hefðir fundið þér nýja uppáhaldshljómsveit, einhverja öskrara, Age of Terror-eitthvað, svona Thursaflokkurinn á sterum, ef heimilidir mínar eru réttar.
Gurrí:Ég held alveg mikið upp á ykkur en ég bara-
Thom: Er það út af því að við notuðum orðið fokk í Creep? greip hann fram í.
Gurrí: Nei, alls ekki, só fokking special passaði bara ágætlega, sagði ég og bætti ákveðin við: Ekki gleyma því að ég skrifaði heilsíðugrein í eldgamla Mannlíf um Radiohead án þess að vita nokkuð meira en nafnið á þér og að þið væruð frá Oxford, ég mærði virkilega guðdómlega millikaflann í Paranoid Android ...
Thom: Viltu kannski að við förum að öskra meira og mögulega við undirleik Sinfó? Myndir þú þá mæta á tónl-
Þarna vaknaði ég og með nístandi samviskubit, maður gleymir ekki gamla uppáhalds þótt nýtt fáist, ég skellti Street Spirit á fóninn og líðanin lagaðist. Hel er vissulega nýjasta uppáhaldslagið mitt í öllum heiminum og ég er að hlusta á það núna, ætla að hlusta á það aftur og aftur þangað til ég hætti að fara að skæla á einum hrærandi hápunktinum sem hefst á 5.01 og nær algjörum toppi á 5.24 og til enda. Bið hér með eigendur verslana að spila þetta lag alls ekki búðum sínum í aðdraganda jólanna, það yrði nú laglegur fjandi að bresta í grát í miðjum jólainnkaupum kannski stödd í fallegri gjafavöruverslun.
Síðustu árin hef ég þjáðst af óútskýranlegri hálfgerðri höfnunartilfinningu. Þetta er sennilega ekkert persónulegt þótt ég taki það til mín. En ég man svo greinilega eftir því hvað ég var alltaf velkomin í bankann minn í bænum, líka í útibúið hér á Akranesi eftir að ég flutti hingað. Einn daginn var bankinn bara farinn, hættur og fluttur, og mér sagt að stunda bara bankaviðskiptin heima í tölvunni minni, eða fara í útibúið í Mosó, sem strætókerlingin ég gerði nú aldrei en svo hætti það líka. Svo fór að kosta mig peninga að hringja til að spyrja um eitthvað sem ég fékk ekki einu sinni svar við svo ég hætti að hringja. Og ef ég fer í ókunnuga banka mætir mér sums staðar kuldalegt viðmót af því að ég er hjá óvinabanka, og þarf að borga háar fjárhæðir fyrir að fá að borga með óhreinu korti mínu, sennilega fyrir alþrif á tæknibúnaði bankans. Svo ég fer helst ekki í banka lengur. Banki 1, Gurrí 0. Já, og hvar eru borðdagatölin? Ef ég dirfist að láta sjá mig í bankanum þá ... Þú hlýtur að geta sett þessi rafrænu skilríki sjálf í símann þinn-viðmótið og ... ertu ekki með aðeins of aldraða kennitölu til að vera með gemsa?-svipurinn.
Svo fór strætó að vera með stæla, ekki bílstjórarnir, þeir bjarga þessu fyrirtæki, nema viss pólskur c.a. 14 ára bílstjóri sem sér ekki muninn á 64 ára konu og 67 ára konu.
Ég hefði átt að sjá hættumerkin þegar biðstöðin við Ártún hætti að vera upphitað hús fyrir neðan veginn, og varð að fráhrindandi ísköldum biðskýlum sem hafði verið safnað saman víða að og sýna vissulega sögu biðskýla síðustu ára en það er vont fyrir smekklega konu eins og mig að standa þarna þar sem ekkert er í stíl. Og það við Vesturlandsveg þar sem allir sjá mann. Tapað-fundið er komið í höfuðstöðvarnar og einfaldast að komast þangað á leigubíl ... Svo átti að bjarga öllu með Klappinu ... sem ég halaði óvart niður af hvatvísi þegar ég reyndi að virkja út á land-greiðsluappið. Hef ekki enn náð að koma því í gang svo ég þarf að flytja í bæinn ef ég á að geta notið ferða strætisvagna. Ég má sem betur fer borga bílstjóranum mínum á leið 57 beint með debitkorti eða peningaseðlum / klinki en ef eigandi Pfaff fær einhverju ráðið verða peningar aflagðir (af því að allir sem borga með peningum vinna svart og stunda peningaþvætti) og ef Rússar eyðileggja innviði okkar, t.d. internetið, get ég ekki borgað með debitkorti og þá kæmu seðlar sér vel. Hugsa samt að við höfum fengið marga plúsa frá Pútín fyrir að henda rússneskju hjónunum úr landi í fyrradag, meira að segja þótt þau hefðu haft loforð um vinnu hér og ekkert vesen á þaim. Ótrúlega smart líka að útvega þeim lögmann sem sagan (fjölmiðlar) segir að hafi opinberað útlendingaandúð sína. Við erum flottust.
Matvörubúðirnar margar eru nú orðnar heldur betur fjandsamlegar í garð viðskiptavina sinna (nema Einarsbúð, sjá mynd af Ernu kaupmanni ásamt Ellý og Halldóru, ljósmyndari: ykkar einlæg) og Kjötborg) og nú eigum við að afgreiða okkur sjálf. Kaffihúsin tíma mörg ekki að hafa opið lengur en til fjögur (takk, covid, halló, vínbarir), sáu hvað sparaðist í launakostnaði og vilja halda því þannig, nema Bókasamlagið við Skipholt og Te og kaffi í Garðabæ (sturlað gott tíramísú þar) sem er með opið lengur og ég veit af. Ég hef ekki fylgst nógu vel með eftir að ég flutti á Skagann.
Svo langar mig að benda Bankasýslu ríkisins á að ráða prófarkalesara, einn sæmilegur slíkur hefði komið auga á kommu-punkta misræmið sem kostaði okkur rúman milljarð sem heilbrigðiskerfið hefði alveg getað notað. Skil ekkert í BB að verja þetta klúður en Þjóðhagsstofnun Ríkisendurskoðun er víst sökudólgurinn í þessu öllu saman. Ekki hefði mér dottið það í hug og ég er spennt að vita hvert Sigurður Ingi vill svo flytja stofnunina, þarf ekki að fjölga störfum á Laugarbakka (heimabæ Ásgeirs Trausta) eða færa hana kannski alla leið til Akureyrar eins og Fiskistofu? Eldgos koma því miður ekki eftir pöntun fyrir ráðafólk en það hefði nú samt ýmislegt mátt gera með speglum, grilláhöldum, gömlum upptökum og aðstoð Veðurstofu Íslands til að dreifa athygli lýðsins. Af hverju er ég ekki ráðgjafi hjá ríkisstjórninni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2022 | 16:02
Spennandi uppgötvun ... átta árum of seint
Síðasti skóladagurinn var í dag en þá lauk fjögurra vikna námskeiði í Íslensku I þar sem ég var leiðbeinandi. Við vorum auðvitað með partí í frímínútunum, eða úkraínska eplaköku og bland (malt og appelsín sem þeim fannst mjög gott) og smávegis sælgæti líka, íslenskt og pólskt. Frábær hópur frá þremur þjóðlöndum.
Ég sýndi þeim Love Island-Akranes, fyndna sketsinn úr Stóra sviðinu á Stöð 2, og sama morgun gátu þær líka skemmt sér við að sjá leiðbeinandann sinn snúa í þær baki á meðan hún skrifaði á töfluna - með jakkalafið gyrt ofan í nærbuxurnar. Ein úr hópnum (nú uppáhaldsnemandinn) setti stúlknamet í spretthlaupi án atrennu þegar hún þaut til mín og bjargaði heiðri mínum, svo þetta tók ekki nema sekúndur og enginn hlátur náði að brjótast út. Ef þær hefðu hlegið hefði ég hefnt mín lymskulega með því t.d. að kenna þeim dönsku með, bara til að rugla þær í ríminu. Sko, þið segið þrjátíu og fimm við konur en við karla femogtredive ... Það hefði samt komið í hausinn á mér því ég er eiginlega alveg búin að gleyma þessu sérstaka talnakerfi Dananna. Leiðbeinandinn gætti þess að fara aldrei framar að pissa í miðri kennslustund, salernið er pínulítið og bara oggulítill spegill sem sýnir ekkert nema fagurt andlitiðá manni.
Við fórum í nokkrar skemmtilegar vettvangsferðir um Akranes þessar vetrarvikur í góða veðrinu, aðallega í búðir, ja, eiginlega eingöngu. Heimsóttum úra- og skartgripabúðina á Akratorgi, Ramma og myndir, Gallerí Bjarna Þórs og gleraugnabúðina, fórum svo ögn seinna í Nínu. Við kíktum í Einarsbúð og At Home-búðina í gamla Skagavers- og Harðarbakaríshúsinu. Í síðustu viku fórum við í verslanaklasann nálægt mér, heimsóttum bókasafnið, bókabúðina og Lindex. Móttökurnar í bókasafninu voru tryllingslega góðar að við stoppuðum lengur þar en við ætluðum, heimsóttum því færri. En reyndar er sá íslenski siður að opna allt klukkan ellefu eitthvað sem hefði þýtt ansi hraða yfirferð og talsverð hlaup því skóladeginum lýkur kl. 11.15. Hefði viljað fara líka með þær í Omnis, í Kaju, Dýraland, Hans og Grétu og Model - en það bíður bara næsta námskeiðs. Svo er alveg eftir klasinn þar sem t.d. apótekið, Bónus, Dótarí, Dominos og Classic hárstofa eru. Það ríkti ánægja með þessar ferðir því sumir nemendurnir uppgötvuðu þarna í fyrsta sinn hvað var að finna í búðunum. Held að búðirnar hafi frekar grætt en hitt á komu okkar. Rammar og myndir leystu þær út með ljósmyndabók og ein konan er í skýjunum eftir að hún uppgötvaði að hún gæti látið taka af sér passamynd þar. Hélt að hún þyrfti að fara til Reykjavíkur til þess.
Ein úr hópnum spilaði á gítar í frímínútunum í dag og söng tregablandin úkraínsk lög svo bekkurinn táraðist. Nema ég, auðvitað, því eftir árin mín í leyniþjónustunni hef ég náð algjörri stjórn á tilfinningum mínum. En ég hágrét auðvitað innra með mér.
Myndin að ofan sýnir nokkra gesti sem ég fékk alla leið úr bænum á laugardaginn. Snæddur var hádegisverður á Galito og síðan haldið í gönguferð þar sem Golíat og Herkúles þeystu ofsaglaðir um sandinn. Hilda og allt hennar lið naut bara strandlífsins á meðan ég púlaði í tölvunni í Himnaríki.
Ég var að hlusta/horfa á eitthvað algjörlega meinlaust áðan í tölvunni, man ekki einu sinni hvað það var - í gegnum YouTube - þegar næsta lag (að vali YouTube) hófst skyndilega og svo annað með sömu hljómsveit og enn annað og annað ... Nú er Skálmöld orðin nýjasta uppáhaldshljómsveitin mín - þó fyrr hefði verið. Þetta var spennandi uppgötvun og ég hefði viljað vera á Skálmaldar/Sinfó-tónleikunum. Það er bara orðið svolítið erfitt fyrir konu á mínum aldri að fara á alvörutónleika, ég rétt slapp á Rammstein í Höllinni um árið, kannski af því að ég fór þangað með nokkuð yngri manni. Þegar við Anna fórum á Megadeth-tónleikana á NASA einhverju seinna vorum við spurðar kurteislega af síðhærðu flottu tattú-mótorhjólagaurunum (alltaf veik fyrir þeim) hvort við værum þarna með börnunum okkar. Onei, við héldum nú ekki, þau væru heima að hlusta á Celine Dion. Ég fékk risastórt samúðarfaðmlag fyrir þessa lygi. Hann sonur minn heitinn hefði seint hlustað á tónlist C.D. (maður gerir allt til að fá knús) ... og svo sem heldur ekki Megadeth, held ég. Frekar Guns´s n Roses sem ég náði aldrei almennilega tengslum við, en hann kenndi mér að meta bæði Pixies og Cypress Hill, svo fátt eitt sé talið. Skálmöld er ágæt hvíld frá H-moll messunni og fleira í þeim dúr sem ég hef hlustað á upp á síðkastið. Tónlist er svo dásamleg og alltaf gaman að detta inn á eitthvað sem er nýtt fyrir manni. Skammast mín ögn fyrir að viðurkenna að Skálmöld hafi ekki verið í græjunum hjá mér fram að þessu en sannleikurinn drífur þetta blogg áfram ... eins og fólk hefur vonandi áttað sig á. Ég eiginlega skældi af hrifingu. Svona getur maður nú tapað hrottalega á því að vera lokaður fyrir möguleikum á rokkbandi og sinfóníuhljómsveit saman - sem ég var. Harðlokuð. Þetta átti bara ekki saman, að mínu mati svo ég er átta árum of sein til að komast á þessa flottu tónleika. Ég myndi vaða eld og vatn, standa af mér verstu hviður á Kjalarnesi og hvaðeina sem þarf til að komast á svona tónleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2022 | 16:50
Fjandsamlegur teflonheili og véfrétt tekin í sátt
Virkilega? sagði þrítugsafmælisbarn helgarinnar hlessa þegar ég sagði honum að ég, ólíkt flestum ættingjum okkar, hefði ekki fengið COVID. Ert þú sem sagt ein af þessum ... uuu ... hélt hann áfram hikandi.
Velheppnuðu, teflonhúðuðu, magnþrungnu, meiriháttar, fallegu? spurði ég hjálpleg.
Nei, þarna ... aftur skorti frænda orð.
Ókei, ... komin af öpum-eitthvað, bíddu? Ég reyndi að hugsa, rifja upp. Davíð, frændi og hkhhh (hipp og kúl hjálparhella himnaríkis), hafði lesið sér til um að sumir ættu hreinlega erfitt með að næla sér í COVID vegna einhvers, ekki kannski beint tengt öpum, meira svona DNA-snilldarsamsetningu og tengist eitthvað Neanderthal-forföður mínum ... æ, þið vitið. Sem þýðir sennilega að við Davíð séum sérlega velheppnuð eintök.
Afmælisfrændinn samþykkti þetta. Stundum held ég að heilinn í mér sé úr fjandsamlegu tefloni að hluta, það sem ég vil að festist þar samþykkir hann ekki en ef mér t.d. verður hugsað til Grundarfjarðar poppar upp talan 350. Sendi út reikninga á níunda áratug síðustu aldar og póstnúmer sitja föst í kollinum. Tæp fjörutíu ár síðan ég hætti að senda jólakort svo þetta nýtist ekki neitt, nema í einhvers konar montskyni og þá innan mjög þröngs hóps sem einnig man númer. Hver þarf svo ekki nauðsynlega að vita að Gjaldheimtan í Reykjavík hafi verið með síma 17920 (ef ég man það rétt, gat ekki sannreynt með gúgli) ... ég þurfti kannski einu sinni eða tvisvar að hringja þangað á níunda áratugnum en númerið kom sér fyrir í slímhúð heilans eins og DV 27022 ... en ég get alls ekki slegið um mig með gáfulegum rannsóknum um the vírus! Hnuss.
Bæjarferð helgarinnar var skrambi góð. Á föstudagskvöldinu ætluðum við systur að slaka á fyrir framan sjónvarpið en það varð ekki mikið úr þeirri slökun. Hilda var með stillt á skemmtiþátt (Stöð 2) sem heitir Stóra sviðið og ég vissi ekki af. Reykingalyfin árið 2020 ollu ekki bara sígarettuógeði heldur einnig hálfgerðum sjónvarpsviðbjóði. Þessi þáttur var svo fyndinn og ég hló svo hátt og mikið að ég var með hálfgerða þynnku daginn eftir, alla vega hausverk sem ég fæ nánast aldrei. Eina sem var öðruvísi þetta kvöld var öskurhlátur yfir þættinum (Hilda hefur svo sem smitandi hlátur), það var ekkert vín, bara kjötsúpa í kvöldmat og svo vatnsdrykkja. Horfi yfirleitt á Gísla Martein og Leitina að upprunanum. Gulli byggir er líka æði og allt svona gera upp íbúðir/hús-dæmi. Og auðvitað fréttir og veður.
Mig langar oft að fara í mál við reykingalyfsfyrirtækið fyrir að hafa tekið tvennt úr lífi mínu, ekki bara reykingar sem ég vildi auðvitað losna við, heldur líka sjónvarpsgleðistundir ... Þegar heyrist í sjónvarpinu t.d.: Nú verður sýndur fyrsti þáttur af mest spennandi og skemmtilegustu þáttaröð sem nokkurn tímann hefur verið sýnd í heiminum. Leikarar: Bruce Willis, Jason Statham, Angelina Jolie og Ólafur Darri. Handritshöfundar: Jo Nesbö, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Stephen King og Lilja Sigurðardóttir ... horfi ég tómlátlega á sjónvarpið og slekk.
MYNDIR: Það styttist VERULEGA í að ég taki véfrétt Himnaríkis í sátt aftur. Ég tek aftur það sem ég sagði um hana nýlega eftir fjas hennar um megrunarpillur í skóinn. Hún er virkilega góð og sannspá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2022 | 18:14
Nýir refsitollar bankanna og auðveld ákvörðun
Vökudagar hafnir á Akranesi og við Inga og stráksi kíktum aðeins á sýningar á milli kl. 18 og 20 í gær. Í dag dró ég svo nemendur mína fyrr út en vanalega og við fórum á samsýningu 32 listamanna héðan af Skaganum, alveg rosalega flott og skemmtileg sýning á Kirkjubraut, í Grjótinu ... þar sem áður var kaffihús og í gamla daga bókasafn og löggustöð. Svo dró ég hópinn í Nínu tískuverslun og var áður búin að kenna þeim: Nei, takk, ég er bara að skoða. Eða: Já, ég er að leita að jakka ... má ég máta? Klukkan sló skólalok þegar við vorum enn niðri, þarna í útsölumarkaðnum og ég sá ekki betur en þær ætluðu einhverjar að gera góð kaup. Eitthvað svipað gerðist í annarri verslun nýlega svo líklega erum við frekar eftirsóknarverðir gestir í búðum bæjarins.
Mynd: Stráksi nýtur menningar á Vökudögum.
Í gær þurfti ég að borga reikning sem var vesen með, mér sagt að ég yrði að fara í bankann með hann, hann var ekki á mínu nafni en ég borgaði hann samt með mínu korti.
Sko, þannig vill til að ég gerðist viðskiptavinur Búnaðarbankans við Hlemm árið 1982 eftir að ég flutti í íbúð á Hlemmi (Lau 132) og fór að vinna hjá DV við Hlemm (Þverholti). Þar hef ég verið síðan. Ætlaði að skipta um banka þegar Arion, eins og hann heitir núna, lokaði útibúi sínu hér á Akranesi fyrir mörgum árum og benti á Mosfellsbæ en lokaði því útibúi líka seinna og benti á netbankann eða eitthvað ...
Mynd: Svona dagur í gær.
Annar bankinn sem eftir varð á Akranesi við brotthvarf bankans míns er með lokað í hádeginu svo ég fór í hinn ... og þar kom í ljós að það kostaði 1.200 kr. að fá að borga reikninginn með korti frá öðrum banka (óvinabanka). Kannski eru þetta nýjar reglur hjá öllum bönkunum, einhvern veginn verða þessar elskur að borga eigendum sínum almennilegan arð. Hvað kemur aftur á eftir milljarði? Skrilljón?
Svo er sennilega úti draumur minn um að verða forrík eldri kerling (ég á eftir að finna út úr því hvernig) sem geymir milljónir í bankahólfi, svo ef/þegar naumlega verður skammtað af eftirlaunum verði samt hægt að standa í skilum með reikninga og kaupa eitthvað annað í matinn en haframjöl með því að skreppa í bankahólfið. Ég frétti í gær að hætta ætti með bankahólfaþjónustu (af ótta við seðlasöfnun þeirra eldri) og tala um þjónustuna sem barn síns tíma, allir hættir hvort eð er að nota peninga! Hvað með annað sem öruggt er að geyma í bankahólfi, eins og demantana mína, Fabergé-eggið mitt, afmælisskartgripina, jóladýrgripina?
Til að sleppa við innbrot glæpóna í ellinni verður vonandi hægt að fá límmiða á glugga og hurðir; Engar milljónir hér - varúð, grimmur eldri borgari.
Guðríður, hvað ætlar þú að taka út mikið fé?
Ég var að hugsa um 30 þúsund.
Hvað ætlar þú að gera við svo mikla peninga?
Ja, eitthvað fer í vasapening fyrir drenginn næstu vikur, svo ef ég skrepp á markað um helgina, stundum fljótlegast að geta borgað með peningum í strætó. Ég lofa því að borga ekki neinum í svörtu með þeim.
Hmmm. Þú færð að taka út 20 þúsund.
Æ, í guðanna bænum, þetta eru mí-
Allt í lagi, 25 þúsund en ekki krónu meira. Þú tókst út 15 þúsund í ágúst, sé ég í tölvukerfi bankans, svo þetta er að verða gott á ársgrundvelli. Ertu nokkuð með felustað undir dýnunni? Hvernig eiga yfirvöld að geta skattlagt sömu peningana þína aftur og aftur ef þú liggur á þeim heima?
Ég hef tekið þá ákvörðun að banna alfarið myndatökur af mér að viðlögðu einhverju rosalega hræðilegu. Undanfarið hef ég séð myndir sem sýna mig alls ekki í réttu ljósi, ég virðist á einhvern undarlegan hátt bosmameiri, aldraðri og nánast krumpaðri á þeim en ég er í alvörunni, og ljósmyndararnir sýna engan lit til að klippa þær til eða reyna að laga lélegheitin, ég þurfti t.d. að gera það sjálf við meðfylgjandi mynd.
Þarna um daginn þegar ég fór á skemmtilegu bókarkynninguna hjá Ragnari og Katrínu og stráksi baðaði sig, munið, í aðdáun flottra kvenkynsráðherra, var tekin af mér þessi mynd með öðrum rithöfundinum, manni sem reyndar steig sín fyrstu frægðarspor í barnaþætti hjá mér á Rás 2, þá tíu ára gamall, ekkert rosalega mörg ár síðan. Eftir smávegis breytingar (að sjálfsögðu ekki fótósjopp) get ég sætt mig við myndina svona.
Vissulega gæti ég þurft meik og augnskugga, kannski varalit, ég geri mér fyllilega grein fyrir því, það er vitað mál að það þarf að þjást til að vera fallegur, og ég hef ekki þjáðst alveg rosalega lengi. Þetta náttúru-, hippa- og covid-útlit klæðir vissulega ekki alla og kannski er ég bara of mikil gella fyrir það. En heimurinn þarf að búa sig undir ljósmyndaforðun mína um einhverja hríð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.5.): 25
- Sl. sólarhring: 35
- Sl. viku: 498
- Frá upphafi: 1526931
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 425
- Gestir í dag: 22
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni