Annir við djamm og hjálpsamur Portúgali

Kór LangholtsAnnasöm helgi í samkvæmislífinu að baki og nú tekur alvaran við. Að gera extra-fínt í Himnaríki og fara að skreyta. Ég fór í fyrsta jólastuðið þegar ég sá gamla kórinn minn syngja í sjónvarpinu ... og viti menn, ég var með þarna, þetta var 1984. Þarna fannst mér ég alveg rosalega feit og rosalega glyðruleg með þennan rauða varalit. Nú er ég nokkuð þykkari og aldrei glyðruleg, samt miklu ánægðari með sjálfa mig ... að hugsa sér. Ég er efst til vinstri, elskan hún Herdís í miðið. Konan sem segir m.a. hástöfum í strætó 57: „Næsta stopp er ... Klébergsskóli.“ Þetta gæti líka verið mynd frá hljómsveitaræfingu með Grýlunum ... 

Þegar snjónum var spáð þarna á föstudagskvöldið gerði heppnin fátt annað en að eltast við mig. Ein af fjölmörgum systrum mínum (Mía) átti erindi upp á Skaga og bauðst til að leyfa okkur stráksa að sitja í til Reykjavíkur ásamt kommóðunni flottu sem hún var að kaupa. Ég bjó til Eldum rétt-Mac&Cheeserétt handa okkur og á meðan við snæddum kræsingarnar gerði Mía játningu. Hún hafði orðið að setja bakið niður á aftursætinu (2 bök, bæði niður) til að koma kommóðunni fyrir, munaði millimetrum. Tvennt í stöðunni, geyma kommóðuna í Himnaríki í nokkra daga eða við stráksi sitja saman í farþegasætinu frammi í. Hmmm. Þau sóttu létta kommóðuna í bílinn og báru hana upp á meðan ég undirbjó heimilið fyrir brottför og afhenti kisupassaranum lyklavöld. Örlítið fjúk var byrjað, svona til að minna á komandi óveður sem norska veðurstofan sagði að hæfist klukkan tíu um kvöldið. Við vorum á ferðinni upp úr átta og á Kjalarnesi var mikill skafrenningur, ansi blint, sást varla á milli stika fyrir ofankomu en af því að veðrið átti ekki að hefjast fyrr en klukkan 22 bitum við á jaxlinn og vorum sallaróleg í bílnum, enda Mía afbragðsgóður bílstjóri. Nánast allar jólagjafir frá okkur drengnum voru meðferðis og átti að afhenda þær í seinni veislu helgarinnar.

 

Jóli og TrölliDaginn eftir var ansi hreint mikill snjór og það tók okkur Hildu hátt í 40 mínútur að komast út úr stæðinu í Kópavogi. Duglegu snjóruðningstækin höfðu búið til nokkuð háan og harðan kant sem, þrátt fyrir mokstur okkar, var ansi hreint erfitt að komast yfir. Muna að kaupa hærri bíl næst, hugsaði systir mín örugglega en þegar við loksins komumst út á götuna fórum við allra okkar ferða án nokkurs vesens enda er litla systir einnig afbragðsgóð bílstýra. Í Smáralind hittum við sjálfan Trölla sem gaf okkur kókómjólk í stað þess að ræna af okkur gjöfum. Sjá mynd. Við lentum svo í öðrum festingi við heimkomu á stóra og fína bílastæðinu hennar Hildu. Bíllinn hennar blýfestist ofan á snjóhrygg og neitaði að hreyfa sig. Hálfur úti á götu. Portúgalskur bráðhuggulegur en of ungur maður vippaði sér út úr bíl og hóf að hjálpa okkur, þá aðallega við að moka burt þessum klakahrygg. Allir aðrir bílstjórar óku fram hjá og einn flautaði og sendi okkur fokkmerki, sennilega til að sýna okkur stuðning eða spældur yfir að þurfa að hægja ferðina og sveigja fyrir fastan Hildubíl. Þessi portúgalski sagðist hafa orðið aðnjótandi mikillar ýt- og mok-aðstoðar kvöldinu áður og fannst dásamlegt að geta endurgoldið það svona. Við Hilda slitum payitforward-keðjuna, við sáum engan sem þurfti aðstoð okkar.

„Ef við værum á Akureyri, væru sennilega um tíu manns komnir til að ýta okkur og moka,“ sagði systir mín hugsandi á meðan sá portúgalski mokaði, en hún bjó fyrir norðan árum saman og sagði hjálpsemi Norðlendinga mjög mikla í svona aðstæðum. Tengdasonur hennar, einmitt frá Akureyri, hjálpaði granna sínum í gær. Sá er útlenskur og var að sjá snjó-ófærð í fyrsta sinn. „Þú keyra,“ sagði hann feginn við tengdason okkar Hildu, sem hoppaði upp í bílinn hans og losaði hann á innan við mínútu, vanur maður á réttum stað á réttum tíma, já, og með hjartað á réttum stað.

Veislan, sú fyrri, um kvöldið var algjör dýrð og dásemd, haldin á Hæðinni við Síðumúla og þar var fjöldinn allur af skemmtilegu fólki. Ég var svo mikill plebbi að ég tók með mér inniskóna (gleymdi gelluskónum á Akranesi) sem varð til þess að enginn bauð mér upp. Geggjuð veisla, skemmtilegt fólk, æðislegur veislustjóri, góður matur og ein uppáhalds-Instagramstjarnan mín vann þarna sem þjónn, hversu gaman. Svo fékk ég far báðar leiðir með svo skemmtilegum bíl að það nægði að ýta á SNOW-system-eitthvað og þá komumst við allt. Ögn hægar en við óðum inn í ógurlegustu skafla án þess að festast. Man því miður ekki nafnið á bílnum, bara að hann er 2006-árgerð, og er einn af tveimur eða þremur sinnar tegundar hér á landi.   

 

FótboltiÍ afmælisveislu gærdagsins voru ekki mikil afföll, og mögulega komust ekki allir til að hitta skemmtilega jólasveininn sem mætti klukkan tvö. Síðan hvenær eru tvö erindi í Í skóginum stóð kofi einn? Stráksi er kominn með svo margar ljósmyndir af sér og fræga fólkinu (Páll Óskar, Hr. Hnetusmjör, Lalli töframaður, Áslaug Arna og Katrín Jakobsd.), nú bættust við jólasveinninn og Trölli, að nú þarf ég að fara að láta prenta þær út og ramma inn ... og bara upp á vegg með þær.

 

Já, fótboltinn? Ég náði ekki að horfa á bronsleikinn og heldur ekki leikinn um gullið, að hugsa sér. Jú, við Mía lögðum af stað í björtu í gær, hún að skutlast eftir kommóðunni og skutla okkur stráksa heim. Í þakklætisskyni bauð ég henni á Lemon, á bensínstöð, ekki jafnplebbalegt og það hljómar. Það er frekar snjólétt á Skaganum miðað við höfuðborgarsvæðið, ekki í fyrsta sinn sem það gerist, en sennilega hefur tvisvar verið hér meiri snjór en í bænum síðan 2006.

 

Spennandi jólamarkaðsbásVið heimkomu, Mía rokin með kommóðuna í bæinn til að sleppa við gulu viðvörunar-veðrið, kveikti ég á sjónvarpinu, íhugaði að setja á leikinn sjálfan og hunsa þjóðfélagið á meðan. Það þurfti ekki - vítaspyrnukeppnin var að byrja - ég hlustaði á hana með öðru á meðan ég japlaði á Lemon-inu, þóttist ekki hafa áhuga (til að fá ekki hjartaáfall) en stökk fagnandi á fætur þegar í ljós var komið hverjir hrepptu gullið. Hef oft haldið með Frökkum í ýmsum keppnum en í þetta sinn voru það Messi og co.

 

Í dag hef ég þjáðst af næstum því veik-heitum (það er til), en skammaðist mín upp úr skónum þegar kappklæddur Eldum rétt-bílstjórinn birtist hér eftir sannkallaða svaðilför, sanna hetjudáð, að komast hingað úr Kópavogi með ferskan og góðan mat handa okkur drengnum. En drög að hálsbólgu, stífluðu nefi og höfuðverk tek ég nú samt það alvarlega að hér verður bara algjör slökun, ég mun elda það fljótlegasta af þremur réttum (pasta), og vona svo að morgundagurinn beri með sér meiri orku og kraft. Ég á enn smávegis eftir af amerískum flensupillum, eins og ég hef gefið mikið magn af þeim, og gat sofið rótt í nótt með einn skammt í kerfinu. Þær eru vissulega útrunnar en virka samt. Þyrfti að komast til USA innan tíðar, landsins þar sem 300 milljón manneskjum er treyst til að innbyrða flensulyf, en ekki 300 þúsund manns á Íslandi ... Dæs.

 

 

Ég er að byrja að lesa æsispennandi bækur, komin með þrjár í hús; Kaldaslóð, Meinsemd og Kyrkjari (eftir Kim Faber og Janni Pedersen). Þær eru sjálfstæðar en mér finnst alltaf gott að byrja frá byrjun á bókaflokkum (með rétta röð á þeim hér) en ég féll fyrir þeim á jólamarkaðnum Akratorgi fyrir rúmri viku. Komst ekki á markaðinn um helgina, enda í eilífum afmælum, og kemst heldur ekki á Þorláksmessu, bömmer, en þessar bækur verða þar, og miklu fleiri. Mæli með.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 318
  • Sl. viku: 1565
  • Frá upphafi: 1453724

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1305
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband