Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
15.2.2008 | 20:11
Blikkandi bílstjórar og þessi einka í fríi ...
Það liggur við að ég bjóði sjálfri mér gott kvöld þessa síðustu morgna þegar ég horfi á fagra ásýnd mína í speglinum, útsofna og bara ansi hrukkulausa, undir hálfátta. Önnur strætóferð dagsins frá Akranesi (kl. 7.41) fer að verða vani hjá mér. Ég blikkaði Tomma á Kjalarnesinu þegar hann var að koma frá því að flytja 6.41-hetjurnar til höfuðborgarinnar. Held að hann hafi ekki séð það, líklega blikkaði hann ljósunum á strætó á móti til heiðurs Gumma bílstjóra. Við vorum ekki nema 10-15 hræður að þessu sinni, afar óvenjulegt ... líklega er föstudagur í fólki og einhverjum (mörgum) hefur tekist að lengja helgina. Yfirleitt er rútan full í þessari ferð, eins og þeirri fyrstu.
Föstudagarnir eru yfirleitt ansi annasamir í vinnunni og ekki kom fimm mínútna pása til að blogga. Þegar ég tek fyrsta strætó dagsins er ég komin svo snemma í vinnuna, eða um miðja nótt, og byrja á að henda inn bloggi og svo er ég bara glaðvöknuð og helli mér í vinnu á eftir með kaffi í annarri og fjaðurpennann í hinni. Maður er ekkert nema vaninn.
Dagurinn í dag gekk mjög vel og á sekúndunni 17.03 fór ég yfir til Sko, hinum megin við bílaplanið, þar sem elsku Erla perla beið, hún var á leið á Skagann og leyfði mér að sitja í. Það var unaðslegt að keyra þessa leið í birtu, það er svo stutt síðan allt var dimmt á þessum tíma.
Ásta fór í afmælisferð til útlanda, eflaust heimsreisu, hún er búin að vera svo lengi, kannski eins gott, afmælisgjöfin sem ég ætlaði að kaupa handa henni er uppseld í bili. Annars finnst mér mjög dularfullt að ég var ekki fyrr búin að kaupa smábensín á bílinn hennar þegar hún lagðist í flensu og í kjölfarið hvarf hún til útlanda. Mér finnst líklegt að hún flytji af Skaganum til að hún þurfi ekki að afplána að verða samferða á bílnum, kannski er hún horfin úr þjóðskrá ... sumir sem ég þekki fara offari í því að láta sig hverfa. Ég komst nýlega að því að gamall, náinn vinur minn, Símon Arngrímur Sigurhjartarson, heitir nú John Smith og er skáður í útlöndum. Eins og nálgunarbannið hefði ekki dugað.
Í gærkvöldi byrjaði ég að lesa nýja, íslenska, blóðuga fjöldamorðingjaspennusögu. Mér tekst líklega að klára hana í kvöld ... man ekki hve margir liggja nú þegar í valnum en ég trúi ekki öðru en að enn fleiri morð verði framin fyrir bókarlok.
13.2.2008 | 10:15
Innrás meinatæknanna og olíubornir dillibossar ...
Það reyndist aldeilis engin pynting að fara í blóðprufuna í morgun. Sat á biðstofunni og reyndi að hughreysta kvíðna móður, afar sprautuhrædda, en litla dóttir hennar var að fara í prufu. Pabbinn kom líka með, sjúkkitt. Ég sagði henni eins og var, að þar til ég var rúmlega tvítug hljóp ég öskrandi á brott frá öllum sprautum í sjónmáli. Hugsaði skömmustuleg um það þegar elskan hann Ingjaldur tannlæknir ætlaði að deyfa mig, kannski var ég níu ára, þá stóð ég upp úr tannlæknastólnum, flýtti mér í stígvélin og út! Jamm, "falskar um fermingu" virkaði ekkert á mig, þær eru ekki komnar enn, áratugum síðar. Elskan hún Kristín sjúkraliði, gamla bekkjarsystir mín úr barnaskóla, þaut þarna um í hvítum slopp og heilsaði glaðlega. Ég sendi henni boðskort í afmælið mitt en hún hélt að það væri djók þar sem hún vissi ekki að ég væri flutt á Skagann. Vonandi kemur hún næst ... daginn sem ég hætti að vera rúmlega fertug.
Glaðlegt fólk var á rannsóknarstofunni. Rannsóknarmaðurinn argaði hátt og snjallt fæðingardag minn og ár, eins og væri eitthvað merkilegt að ég væri rúmlega fertug, og ég sagði kuldalega (besta vörnin er sókn): Já, þú hefur greinilega áttað þig á því að við Madonna erum jafnaldrar! Hann glotti og sagðist sjálfur eiga sama afmælisdag og Elvis, það munaði reyndar einhverjum árum á þeim. Konan sem tók úr mér blóðið var fáránlega mjúkhent og ég fór ekkert að gráta. Svo bara hviss, bang, allt búið! Ekki leist þeim vel á líkingu mína við leikritið góða Sláturhúsið hraðar hendur, þrátt fyrir blóð og snögga afgreiðslu ... vissulega er engum slátrað þarna, held ég. Í skaðabætur fyrir innrásina í virðulegt blóðkerfið tók ég bómullarhnoðra og límbandsrönd með mér heim. Kíkti undir bómullarhnoðrann áðan og það er ekki einu sinni að sjá nálarstungu. Mikið er annars allt notalegt hérna á Skaganum, persónuleg þjónusta og elskulegheit hvar sem maður kemur.
Í bíl erfðaprinsins í fyrradag heyrði ég útvarpsauglýsingu um kvennakvöld í Reykjavík! Lofað var olíubornum, karlkyns dillibossum, tískusýningu og svona. Frekar hallærislegt, finnst mér. Það þykir ömurlegt að olíubornar konur séu til sýnis á karlakvöldum, þetta er sko ekkert skárra. Kannski tala ég bara út frá sjálfri mér. Villt ímyndunaraflið fær bara notið sín nálægt kappklæddum körlum í vetrargöllum með lambhúshettur og vettlinga. Ekki nálægt hálfnöktum, olíubornum dillibossum, sorrí. Tala nefnilega af mikilli reynslu ... en þegar ég var rúmlega tvítug fengum við nokkrar gellur á skrifstofunni á DV boðskort á sýningu Pan-hópsins í húsnæði við Hlemm (sem síðar breyttist í Keisarann, held ég). Þarna labbaði um ungt, hálfnakið fólk í ögrandi, klámfengnum (út í sadó/masó) klæðnaði, undanrennuhvítt á litinn og ótrúlega vandræðalegt á svipinn. Svona ungt og ólgandi kvendi, eins og ég var (nú er ég bara ólgandi) fannst mér þetta hrikalega hallærislegt. Eftir þessa reynslu, sem eyðilagði bæði æsku mína og sakleysi, hef ég forðast eins og heitan eldinn að koma nálægt öllum svona uppákomum.
Ný morgunsápuópera er byrjuð á Stöð 2, spænsk og heitir Ljóta Lety. Þetta er víst fyrirmyndin að Ljótu Betty sem er sýnd á RÚV við miklar vinsældir. Ætla samt að láta boldið nægja, vildi bara segja frá þessu. Held að sumir karlkynsbloggvinir myndu hreinlega fara að skæla ef hér yrði bloggað um aðrar sápuóperur. Dettur helst í hug Kjartan og Þröstur ...
10.2.2008 | 20:45
Matarboð á ljóshraða ...
Indverska matarboðið hófst rétt fyrir sjö og var alveg dásamlegt. Skemmtilegar umræður um allt á milli himins og jarðar og svo var maturinn alveg himneskur. Fyrst voru tveir grænmetisréttir og síðan kjúklingaréttur og fiskréttur. Þetta var frábær en alltof stutt kvöldstund.
Þetta var hvert öðru betra en ég var hrifnust af þessu sterkasta; kjúklingaréttinum og grænmetinu! Ef til eru önnur líf þá var ég indversk í fyrra lífi ... ég er viss um það. Hrífst mjög af öllu indversku, Bollywood-myndir eru t.d. í miklu uppáhaldi og augun í indversku fólki finnst mér svo rosalega falleg!
Ég var komin heim rúmlega átta, ekki af því að það væri leiðinlegt og mig langaði ekki í eftirrétt, heldur af því að hóstinn var farinn að angra mig aftur. Best að kíkja á lækni á þriðjudaginn, tékka á því hvort komin sé lungnabólga, hef fengið slíkt tvisvar áður með tíu ára millibili. Eins með okkur Kötlu (eldfjall), við gerum hlutina nokkuð reglulega og nú er kominn tími á lungnabólgu, held ég. Hér fyrir ofan eru myndir af gestgjöfum kvöldsins og svo auðvitað kjúklinga- (t.h.) og grænmetisréttinum. Mía o.co. sitja þarna enn þá og halda uppi heiðri fjölskyldunnar á meðan himnaríkisfrúin hóstar!
10.2.2008 | 14:31
Afmæli og sjokkerandi stjörnuspá ...
Til hamingju, himnaríki, með tveggja ára afmælið!!! Jeiiiii! Held að best verði haldið upp á það í faðmi Skrúðgarðsins sem er ársgamall í dag.
Auður á Hótel Héraði, sú sem ég heimsótti dekurhelgina góðu, á tvíburasysturina Önnu sem býr í Kanada. Þær eru mjög líkar og ekki bara í útliti. Þegar þær voru unglingar veiktist t.d. önnur þeirra hastarlega af botnlangabólgu, fór með sjúkrabíl á spítala og var skorin upp. Þegar mamma þeirra fór heim af sjúkrahúsinu sagði hún að líklega kæmi hún fljótlega aftur með hinn tvíburann og það stóð heima. Sú var orðin fárveik, var líka flutt á spítala í snarhasti og beint í uppskurð. Mörg álíka dæmi eru til um þessar systur.
Anna hefur búið í Kanda með kanadíska manninum sínum og tveimur sonum síðan hún var rúmlega tvítug. Einn daginn (13. júlí 2005) kom yfir hana mikil löngun til að heimsækja hjartkæran Klakann. Hún sat þá við eldhúsborðið og fletti Calgary Herald. Eins og margir gera þá kíkti hún á stjörnuspána sína og brá heldur betur í brún. Í sviga fyrir aftan stjörnuspá Fisksins stóð að hún ætti að cancel the reserations for Reykjavik ... Henni fannst furðuleg tilviljun að einmitt þegar hún ætlaði að fara að panta sér ferð til Reykjavíkur væri henni ráðið frá því af stjörnuspekingi. Það fylgdi ekki sögunni hvort hún pantaði sér ferð þennan sama dag eða beið aðeins með það.
9.2.2008 | 16:38
Annar stormur ... Trade ... Food & Fun á landsbyggðinni
Gærkvöldið var vissulega ævintýraríkt þótt ég missti algjörlega af eldingunum, því miður. Það slökknaði ekki nema einu sinni á sjónvarpinu í rafmagnsblikki en ég þorði engan veginn að hafa kveikt á tölvunni. Nóg að hún drap einu sinni á sér. Það hvein og brakaði skemmtilega í öllu en ég veit ekki um neinar skemmdir á húsinu sem hýsir himnaríki, kannski gerðist eitthvað því hamarshögg hafa dunið hér aðeins í dag. Kettirnir voru frekar hræddir og náðu ekki sálarró fyrr en þeir lögðust í kuðl í fangið á erfðaprinsinum.
Nú er nýr stormur á leiðinni, suðvestanáttin sú verður mun hagstæðari upp á brim að gera.
Við erfðaprins horfðum á ansi hreint frábæra mynd (Trade) á DVD. Átakanleg, spennandi og falleg í öllum ljótleikanum. Hún segir frá leit 17 ára mexíkósks stráks að systur sinni sem var rænt í Mexíkóborg. Hann kynnist bandarískum lögreglumanni sem óvænt leggur honum lið. Frábær og vel leikin mynd með Kevin Kline í aðalhlutverki.
Nú er allt komið á fullt í sambandi við Food & Fun á landsbyggðinni sem verður helgina 21. 24. febrúar. Ellefu aðilar um allt land taka þátt og eru með gestakokka, uppákomur og æðislegheit á allan máta. Ef þetta lífgar ekki upp á skammdegið þá veit ég ekki hvað gerir það. Hér á Vesturlandi munu Hótel Glymur í Hvalfirði, Landnámssetrið og Hótel Hamar í Borgarnesi standa fyrir herlegheitunum. Á Austurlandi: Hótel Höfn og Hótel Hérað. Á Vestfjörðum er það Veitingastaðurinn við Pollinn. Á Suðurlandi: Hótel Rangá við Hellu og Rauða húsið á Eyrarbakka. Fyrir norðan er það Friðrik V. á Akureyri, Sel-Hótel Mývatn á Skútustöðum og Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit.
Hátíðin í Reykjavík er fyrir löngu búin að sprengja öll bönd og okkur landsbyggðartúttum fannst nauðsynlegt að koma henni út á land þar sem allt er til staðar, þar að auki gisting hjá flestum. Ég ætla að bjóða erfðaprinsinum út að borða á einhvern af stöðunum á Vesturlandi, alsæl með að þessi hátíð sé loksins komin út á land. Vinnuheitið á henni hefur verið Fóður og fjör, mér finnst það snilld!!!
Ég sagði Maríu í Skrúðgarðinum frá þessu í gær og henni fannst þetta æði, held samt að hún sé ekki með svokallað fullkomið eldhús, eins og t.d. Galito ... sem verður vonandi með í F&F að ári. Annars verður Skrúðgarðurinn ársgamall á morgun! Ég fékk hann í eins árs afmælisgjöf ... eða þannig. Á morgun á himnaríki nefnilega tveggja ára afmæli. Það verður að sjálfsögðu haldið upp á það með heimsókn í Skrúðgarðinn og svo förum við í indverskt matarboð um kvöldið.
7.2.2008 | 10:43
Jamms, glórulaus hríð
Veðrið á Skaganum var ansi gott í morgun milli sjö og átta en þegar ég tölti út á stoppistöð tók ég eftir að snjóað hafði um ansi marga millimetra síðan í gær. Gummi bílstjóri ók Innnesveginn út úr bænum og sagði að Tommi og aukabíllinn hefðu farið aðalleiðina (sem strætó gerir aldrei) þarna klukkutímanum áður og verið kannski eitthvað seinni fyrir bragðið. Gummi kvartaði í talstöðinni yfir skafskorti á leiðinni að göngum en í göngunum var dásamlegt veður. Á Kjalarnesi var vel skafið ... en þar var kolvitlaust veður. Eiginlega bara rosaspennandi að keyra þessa leið í blindbyl. Rétt áður en við komum í Kollafjörðinn lentum við í langri röð bíla. Fremsti bíll hafði stoppað og það var ekki fyrr en þessi fyrir aftan þorði að fara fram úr sem allt fór að mjakast aftur. Farþegarnir misstu af leið 15 í Mosó en við vorum svo seint á ferð að aðeins fimm mínútur voru í næsta vagn ... og ég er að tala um marga klukkutíma á milli ferða, alla vega korter eða hálftíma.
Erla heilsaði mér með virktum á útleið í Mosó, ég hafði ekki séð hana fyrir öðrum farþegum. Eigum við að leggja í hann? spurði hún og benti á bílinn sinn. Hann var á sama bílastæði og á dögunum þegar okkur tókst ekki að bifa honum. Ég var ögn bjartsýnni en Erla. Ég hefði átt að muna eftir því að ungar stelpur eru ekki jafnmikið fyrir að fara út að leika sér í snjónum á bílnum sínum og strákar. Ég mæli hér með innilega með því að stelpur geri slíkt hið sama, bara upp á æfinguna. Nú, ég ýtti og svo kom yndisleg útlensk kona sem var líka á smábíl nema henni tókst auðveldlega að aka þarna í sköflunum á planinu. Henni tókst þó ekki að bifa bíl Erlu og það var ekki fyrr en myndarlegur karlmaður kom þarna að sem eitthvað fór að ganga. Hann notaði bara sjarmann og kynþokkann á bílinn sem ákvað að drífa sig upp úr snjónum fyrir hann. Við Erla urðum ástfangnar af honum á staðnum og spurðum: Bæjarstjóradótturina eða blaðamanninn? Hann horfði á okkur til skiptis og tók á rás, þaut með örskotshraða yfir skafla og hindranir. Við höldum að það hafi verið þegar hann komst að því að við vorum frá óvinasveitarfélaginu Akranesi! Erla er reyndar rétt rúmlega tvítug (24) og ég rétt rúmlega fertug (49). Líklega hefur maðurinn bara verið rétt rúmlega þrítugur (37) og upplifað valkvíða. Ung kona eða enn yngri kona? hefur hann eflaust tautað fyrir munni sér áður en hann flúði af hólmi, enda sennilega að verða of seinn til vinnu, blessaður engillinn.
Erla ætlar að tjöruhreinsa dekkin á bílnum, jafnvel fá sér betri dekk, þetta eiga að heita nagladekk ... og svo ætlar hún á bílnum alla leið á Skagann í kvöld og ég get fengið far með henni í fyrramálið, efast um að strætó gangi miðað við veðurspána.
Ég viðurkenni alveg að ég hlakka til vorsins, við Erla töluðum um að það mætti alveg fara að rigna bráðum ... en samt er gaman að hafa svona algjöran vetur. Ég hef raulað jólalög fyrir munni mér í morgun, enda algjör jólasnjór, ja, páskasnjór eða jafnvel bolludagssnjór! Sú þriggja daga hátíð fór eiginlega fram hjá mér þetta árið. Missti mig ekkert í bollum, saltkjöti eða ösku. Tek bara páskana grand að þessu sinni.
Á sunnudaginn á himnaríki tveggja ára afmæli! Þá verða komin tvö ár síðan ég flutti úr Vesturbænum og alla leið á Skagann. Hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun. Sakna að vísu vinanna, samskiptin hafa eðlilega minnkað ögn, og svo sakna ég miðbæjarins mjög mikið. Sérstök sælutilfinning kemur yfir mig þegar ég skrepp niður á Laugaveg/Bankastræti ... sem ég fann sjaldan fyrir þegar ég bjó í bænum. Skaginn tók rosalega vel á móti mér, íbúðin er yndisleg og fólkið alveg frábært. Einarsbúð jafnast á við Kjötborg, er reyndar stærri en þjónustan er jafnpersónuleg og yndisleg. Jamms, ég er að missa mig hérna, best að fara að vinna, það er meira en nóg að gera.
Ófærð víða um land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2008 | 23:42
Hvíta kaffið, vélkonan og boldí bold
Birti hérna mynd af hvíta kaffinu á Reykholti til að bloggvinirnir haldi ekki að ég sé ýkin. Þessi vökvi gekk undir nafninu latte, ekki kakó úr hvítu súkkulaði. Svona latte getur maður jafnvel fengið á fínustu veitingastöðum, jafnvel kaffihúsum, sumir leggja heldur minni áherslu á kaffið en æskilegt væri. Hnusss! Súkkulaðibomban bætti þó fyrir allt saman. Aðalrétturinn (spínatlasagna) var svo rosalega hollur að við þurftum að sætindajafna. Minni líka á að við litum út eins og pönkarar og þeir eru aldeilis óþekkir þegar þeir taka sig til.
Ætla að horfa á Bionic Woman núna fyrir svefninn. Man vel eftir þessum þáttum á BBC eða ITV þegar ég var au pair í London fyrir einhverjum árum. Minnir að þeir hafi verið spennandi.
Horfði lauslega á boldið og svei mér þá ef Bobby í Dallas (Stephen Logan), pabbi Brooke, er ekki orðinn skotinn í Jackie, mömmu Nicks. Bræður börðust greinilega, Ridge og Nick slógust um Brooke á mánudagskvöldið (og ég missti af því) og svo reynir Stefanía djöfull að reka fleyg á milli ömmubarns síns, Dominicks litla og föður hans (og auðvitað Bridget sem lofaði að ganga honum í móðurstað ef Felicia dæi en hún lifnaði við). Steffí hótar að reka Dante úr vinnunni en atvinnuleyfi hans í USA er bundið við Forrester-tískuhúsið. Hún er nú meira kvendið. Taylor, geðlæknirinn geðþekki, blaðrar í alla sem hún hittir að Ridge hafi sofið hjá Brooke, og hún hafi verið hálfmeðvitundarlaus vegna lyfjaneyslu og ekkert fattað. Mér sýndist Brooke reyna að telja Nick á að hálfdrepa ekki Ridge. Jamms, það er fjör.
6.2.2008 | 12:14
Grímubúningurinn sem gleymdist, reykingar, drykkja og svona ...
Hóst, hóst, hóst, hóst ... þetta hljóð hefur heyrst í himnaríki undanfarið á svona klukkutíma fresti eða svo ... í miklum köstum. Erfðaprinsinn er kominn með bauga niður á herðar en fegurð hóstarans hefur haldist óskert. Mætti ekki fyrr en um ellefuleytið í vinnuna að þessum sökum.
Hluti samstarfsfólks míns er í grímubúningi í dag, ég var búin að steingleyma öskudeginum ... Brynja Björk er t.d. Súpermann og Óskar er kónguló. Sjitt að hafa gleymt þessu, er bara í BDSMS-búningnum mínum, eins og svo oft.
Þetta er nú meiri pestartíminn. Margir veikir í vinnunni minni ... og mér er skapi næst að nota þetta hósttímabil til að hætta að reykja. Mig langar til þess núna. Reykinga-fasisminn síðustu árin hefur haft þau barnalegu áhrif á mig að ég fyllist þrjósku og læt ekki eitthvað fólk út í bæ segja mér hvað ég eigi að gera. Það að þurfa að reykja úti hefur engin áhrif á mig og virkar ekki hvetjandi til að hætta, enda er ég engin stórreykingamanneskja. Ég fylltist máttvana reiði þegar ég sá hrokafulla konu í sjónvarpinu í fyrra segja að reykingabannið á veitingahúsum og þessi meðferð á reykingamönnum væri til þess að þeir gæfust upp og hættu. "Aldrei," tautaði ég milli samanbitinna varanna og kveikti mér í í mótmælaskyni.
Einu sinni hætti ég að reykja í rúm tvö ár en á þeim tíma mátti ég reykja við skrifborðið mitt í vinnunni. Auglýsingar frá Tóbaksvarnaráði voru krúttlegar þá, ekki hatursfullar út í reykingamenn eins og nú. Þær fóru á nokkuð skömmum tíma frá: "Veistu hvað þú ert að gera heilsunni þinni, elskan?" yfir í "Hættu að menga, þarna helvítis ógeðið þitt!" Ég hlusta helst ekki á Bylgjuna á morgnana af því að Heimir (sá krúttmoli) hatast svo mjög við reykingamenn, efast um að hann fatti það sjálfur. Hann má auðvitað hafa sínar skoðanir og ég get hlustað á aðra stöð.
Ég á erfitt með að þola mikla drykkju í kringum mig en uppsker bara aðhlátur þegar ég forðast fylliríssamkomur. Held samt að áfengi hafi orsakað meiri sorg og vandræði en tóbak. Segi nú svona. Farin í mat. Hóst jú leiter!!!
4.2.2008 | 22:38
Ævintýri í hótelför ...
Elskan hún Hilda sótti mig í vinnuna undir hálffimm og við ókum beint upp í Borgarfjörð þangað sem hún hafði unnið kvöldverð og hótelgistingu, ekki á "plús", eins og ég sagði, heldur á Núinu, held ég. Þá ýtir maður á kassa, einn til fimm, og þarf að sjá auglýsingu/tilboð til að ath hvort vinningur hafi fallið manni í skaut. Hún er þrælheppin í þessu, hefur unnið bensín á bílinn, snyrtistofuyfirhalningu ... og ekki amalegt að vera hérna á hóteli í Reykholti í boði hennar og núsins. Indversk nuddkona tók okkur í gegn við komu, baðaði okkur upp úr heitri olíu og nuddaði, líka hárið sem nú er er eins og á fínasta pönkara. Hún vildi að við svæfum á því olíubornu og þvæðum það ekki fyrr en í fyrramálið. Við samþykktum það þótt það þýði að við séum aðhlátursefni allra sem sjá okkur. Þjónarnir veina ... eða myndu gera ef þeir væru ekki svona kurteisir!!!
Ég hringdi í erfðaprinsinn á leiðinni upp eftir. Boldið var á í sjónvarpinu. "Hvað er að gerast?" spurði ég. "Bobby í Dallas vill ekki að Rdge komi nálægt Brooke," sagði hann samviskusamlega og neitaði svo að segja meira, ekki mjög karlmannlegt að horfa á svona þætti. Bobby sagði þetta nú á fimmtudaginn líka. Hlustirnir gerast ekki mjög hratt þarna.
Nú sit ég frammi á stigapalli á annarri hæð og blogga, furðulegt lyklaborð með hólum og hæðum, svona nýtísku eitthvað ... ætla svo bara að fara að sofa. Við systur erum vel saddar eftir grænmetislasagna og steinhættum við að fara í kapphlaup á göngunum hérna þótt það sé freistandi.
Mér tókst að láta Hildu fá hláturskast rétt eftir Göng og næstum missa stjórn á bílnum, það er nú svo sem ekkert hrikalega erfitt að koma henni til að hlæja. Konan sem tók við gangamiðanum, bauð okkur góðan dag og sagði svo eitthvað óskiljanlegt. "Heyrðir þú hvað hún sagði?" spurði Hilda þegar við ókum frá gjaldskýlinu. "Já, hún bauð góðan daginn og svo sagði hún eitthvað um að þú litir eitthvað svo herfilega illa út í dag," sagði ég einlæglega. Bara svona systradjók, Hilda lítur mjög vel ú, alltaf ... Þetta dugði, hún gat ekki hætt að hlæja fyrr en ég skipti um umræðuefni. Skrýtinn húmor í ættinni, alla vega hjá sumum. Ég er ekki eins, ef einhver segir eitthvað annað en ég sé greind, fögur og frískleg verð ég öskureið. Bara svo það sé á hreinu. Hvort sem það er satt eður ei. (það er satt).
Í fyrsta sinn í sögu Vikunnar var mér falið að sjá um tískuopnuna. Það kom ekki til af góðu (veikindi) ... en svakalega hlakka ég til að finna flott skjört, kot, bomsur og eitthvað svona sem mér finnst svo smart ...
Jæja, við þurfum að vera snemma á ferðinni í fyrramálið, þetta er bara örferð og vitlaust að gera á morgun hjá okkur báðum. Ég mæli innilega með hótelgistingu úti á landi yfir vetrartímann, það er ótrúlega, ótrúlega afslappandi og yndislegt og frábært. Svona útlandadæmi soldið, alla vega mikil tilbreyting. Vona að það líði ekki of langur tími þar til ég fer næst, þetta er unaðslegt.
2.2.2008 | 23:09
Vinsælt sæti 8A ...
Það er gjörsamlega frábært hérna fyrir austan. Mæli með Egilsstöðum. Mikill ævintýradagur í dag. Við erfðaprins, þrælslappur en góður við móður sína sem þurfti að komast á Rvíkurflugvöll, ókum sem leið lá frá 300 í 101 og fyrsti áfangastður var í Bankastrætinu, í Kaffitári, eftir hrikalegt rok á Kjalarnesi. Í Kaffitári var löng biðröð sem samanstóð m.a. af Snorra, fv. forsetaframbjóðanda og aflátsbréfaútgefanda , Lay Low var þarna líka og Siv Friðleifsdóttir (fyrir utan), meira að segja held ég að tannsan mín, Ósk Þórðar, hafi verið fyrir framan mig í röðinni ... ekki viss og kunni ekki við að arga ... Á flugvellinum voru Steinn Ármann leikari og Danni, sonur hennar Ástu sem var með mér í Austurbæjarskóla, og nú hljómsveitargæi (Danni). Þeir létu ekki vel af veðrinu fyrir austan en það var bara væl. Þetta var hverjirvoruhvar-blogg dagsins.
Þegar skráning hófst í flugvélina steingleymdi ég að biðja um að fá að sitja ein og vera framarlega, sætti mig bara algjörlega við að vera á 8A. Það er svo gaman að fljúga og þetta var fyrir c.a. miðri vél og ég vissi að ég myndi sjá hjól vélarinnar mjög vel og horfa á það ná yfir 300 km/klst áður en vélin færi í loftið, skemmtilegasta stundin í allri flugferðinni ... Já, ég viðurkenni að mér finnst fáránlega gaman að fljúga.
Í flugvélinni gerðist skrýtinn atburður ... áður en vélin fór á loft. Kona nokkur hlammaði sér hjá mér, pínkufúl, og sagði þegar hún sá mig: Ja, ég á nú að sitja í 8A en ég skal ekkert vera fúl þótt þú sért í sætinu mínu. Ég náttúrlega sturlaðist en sagði samt kurteislega: Fyrirgefðu, en ég er skráð í sæti 8A ... sko sjáðu til, ertu örugglega á leið til Egilsstaða? Konan náfölnaði og hljóp með örskotshraða út úr vélinni, hún var víst á leið til Eyja í sæti 8A í Vestmanneyjavélinni og það var ekki einu sinni búið að kalla út í þá vél .... Hhehehehe, eins gott að hún fékk ekki t.d. 13A, þar sat enginn, þá væri hún skælandi í lobbíinu hérna á Hótel Héraði og fólkið hennar í Eyjum í losti. Múahahahhaah!
Á flugvellinum hitti ég sætu og yndislegu mennina sem voru í liði Fljótdalshéraðs í Útsvari í gær (var kynnt formlega fyrir þeim) og spjallaði í smástund við þá, þeir voru ekki síður sætir í eigin persónu og ekki verra að annar þeirra er bróðir Hildigunnar minnar tónskálds. Þeir voru voða almennilegir þótt ég hafi eiginlega haldið með Skagafirði, frændfólki mínu, en næst á eftir Akranesi mun ég héðan í frá halda með Fljótsdalshéraði.
Maturinn í kvöld á Hótel Héraði var mjög góður. Humar í forrétt, hreindýr í aðalrétt og súkkulaðisúfflé, (súkkulaðibomba, hörð skorpa og mjúkt lekandi súkkulaði innan í) í eftirrétt. Það er búið að spilla mér til lífstíðar. Mikið á ég eftir að vera leiðinleg í mötuneytinu næstu vikurnar. (Tók myndir, birtast síðar (t.d. á morgun)).
Jæja, stend hérna í lobbíinu og pikka á tölvuna, uppi í herbergi 321 bíður hlýtt rúm, spennandi bók, jafnvel eitthvað í sjónvarpinu, ... best að njóta munaðarins. Ég veit eiginlega ekkert betra í lífinu en flugferð (eða bílferð) og yndislegt hótelherbergi með öllum sínum lúxus ...
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 10
- Sl. sólarhring: 38
- Sl. viku: 644
- Frá upphafi: 1505997
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 521
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni