Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
2.2.2008 | 13:56
Reykjavík - Egilsstaðir, vöknun og pökkun
Það styttist í brottför út á flugvöll. Einu áhyggjur mínar eru að bíll erfðaprinsins fari ekki í gang í kuldanum. Þá fer ég bara á puttanum. Svo er prinsinn sjálfur eitthvað slappur sem er kannski öllu verra. Sólin skín miskunnarlaust inn um gluggana og eiginlega engin leið að geta sér þess til að úti ríki fimbulkuldi ... nema fara inn á bað himnaríkis. Einfalda glerið í baðglugganum skartar nefnilega þykkum frostrósum. Gufan sem myndast við baðfarir veldur því. Hinir tveir alvegeinsgluggarnir eru lausir við slíkt og tekst ágætlega til við að halda kuldanum frá.
Mikið hlakka ég til að fara til Egilsstaða, allt of langt síðan ég hef komið þangað. Veit ekkert hvort ég næ að blogga þar, kemur bara í ljós.
Ég lenti í því sama og Jenný í morgun. Hringt var fyrir allar aldir, eða fyrir ellefu (vekjaraklukkan stillt á 11.55), en það gerði ekkert til. Held að mér hafi alfarið tekist að leyna viðkomandi því að ég hafi verið að vakna. Held meira að segja að ég hafi virkað sem ég hafi verið vakandi frá klukkan átta, eldhress. Það er svona þegar maður pínir sig til að halda sér vakandi fram eftir öllu bara af því að það er fösturdagur og maður getur sofið út ... Hélt ég væri orðin nógu þroskuð (rúmlega fertug) að fatta að svona óþekkt bitnar bara á sjálfri mér!
Jæja, best að fara að pakka einhverju niður. Ég geri mér sérstakt far um að ferðast létt eftir að ég fór í kórferðalag til Finnlands og var með þrjár fullar ferðatöskur, ( án hjóla) ... og bara tvær hendur. Aldrei framar, aldrei framar, lofaði ég mér og hef staðið við það. Jæja, nú er það sloppurinn, nei, tveir sloppar til skiptanna, uuu, fimm pör af skóm til öryggis, kvöldklæðnaður, morgunverðarklæðnaður, nokkrar bækur, stjörnukíkirinn, leslampi, litla sjónvarpið, heimilistölvan, fartölvan, espressóvélin, nokkrir pakkar af kaffi til skiptanna ... jamm, ég hef í nægu að snúast, ekkert hægt að blogga úr sér allt vit þegar pakka skal niður.
Hér til hægri má sjá mynd af hluta farangurs míns á flugvellinum í Tampere því auðvitað keypti ég jólagjafir handa öllum vinum og ættingjum og þurfti því að kaupa fleiri töskur. Ég keypti meira að segja antík-straujárn í antíkbúð, ódýrt en níðþungt og mikil prýði er að því í þvottahúsglugganum mínum. En mikið bölvaði ég því þegar ég braust áfram með allan farangurinn, öll fötin ... eins og ekki væri hægt að þvo neins staðar.
1.2.2008 | 23:09
Dregið til tíðinda ...
Mikið er dásamlegt í þessum fimbulkulda að hún Erla skuli vinna í sama húsi og ég í Hálsaskóginum, ekki er heldur amalegt að hún búi í sama sveitarfélagi og sérdeilis ekki slæmt að hún skuli eiga bíl og fara akandi heim kl. 17. Akkúrat kl. 17.00 í dag var hið fullkomna tilvonandi tímarit fulllesið og tilbúið í prentsmiðju.
Ég fékk það þakkláta hlutverk að skafa framrúðuna að innan og má segja að við Erla höfum lent í ör-stórhríð eitt augnablik sem var bara hressandi. Erla spurði mig á leiðinni af hverju brekkan héti Súkkulaðibrekkan. Ég horfði þolinmóð á hana og útskýrði fyrir henni að Nói Síríus væri neðst í brekkunni. Þá skildi hún allt.
Gaman að sjá náfrændur mína, Skagfirðinga, næstum rústa Fljótdalshéraði í Útsvari í kvöld en skemmtunin stóð ekki lengi ... sjokkið kom í lok þáttarins þegar dregið var til tíðinda ... eða í átta liða úrslit.
Við Skagamenn fengum Kópavog of oll pleisis þann 28. mars nk., sem væri í góðu lagi ef Hilda systir byggi ekki í Kópavogi og Davíð frændi yrði ekki 19 ára þennan sama dag.
30.1.2008 | 18:15
Sjúkrapróf á lyftara og boldí bold ...
Rúllaði upp á Skaga með erfðaprinsinum í flotta kagganum hans. Fór í Harðarbakarí og keypti smá sjúklingafæði handa Ástu og færði henni líka smá lesefni. Hún er að mygla úr leiðindum og veikindum. Þarf að klára grein og gat því ekki leyft mér það ábyrgðarleysi að setjast inn í kaffi hjá henni. Hún sagðist vera hætt að smita þegar ég rétti henni dótið með gaffallyftara sem ég rændi úr Sementsverksmiðjunni. Sjúr!
VARÚÐ - BOLD:
Ridge setti drengjamet í lúðahætti í boldi gærdagsins þegar hann laumaði sér upp í rúmið hjá Brooke. Hún var uppdópuð af kvíðastillandi og hafði ekki kraft eða rænu til að fleygja honum fram úr. Á meðan var ástmaður hennar upptekinn við að bjarga móður sinni, Jackie úr fangelsi, sem tókst en á meðan notaði stóri hálfbróðir hans tækifærið, allt að undirlagi Massimo föður þeirra.
Hálfsysturnar Felicia og Bridget rífast um Dominick litla en Dante, pabbinn, ætlaði nú bara í skreppitúr með Bridget sína og barnið til Ítalíu og leyfa fjölskyldunni að sjá óvænta nýja barnið sem allir héldu áður að Nick ætti. Stefanía, mamma Feliciu, stendur með Feliciu og er hætt að vera næs við Bridget, enda tókst henni ætlunarverk sitt að stía Nick og Bridget í sundur ... svo að Nick og mamma Bridget, Brooke, gætu verið saman og þá er engin hætta á því að Ridge, sonur hennar, sé með erkióvininum Brooke. Verst að gamli ástmaður hennar og blóðfaðir Ridge, hann Massimo, vinnur gegn henni þar sem hann reynir svo ákaft að sameina Ridge og Brooke sem eiga nú barn saman. Annar barnsfaðir Brooke, Deacon, hélt einu sinni við konu Massimo, hana Jackie (fv. fanga) ,og þá var Massimo bjargarlaus í hjólastól, enn kvæntur Jackie, og gat ekki tjáð sig þótt hann skildi allt. Þetta fyrirgefur Massimo aldrei. Deacon var áður ástfanginn af Amber, þessari sem er horfin úr þáttunum.
Bridget ÆTLAR til Ítalíu með barnið og segir að Dante hafi lagalegan rétt. Þetta er bara vika. Felicia lítur á hvern dag sem sinn síðasta og það orsakar tregðuna. Stefanía lofar Feliciu því að barnið fari ekki utan annað kvöld. Þær Bridget ræða þó saman aftur án Stefaníu og verða eitthvað sáttari.
Ridge virðist hafa einhvern sómastreng í brjósti því að hann er næstum hugstola yfir því að hafa laumað sér upp í rúm til Brooke, ekki líður Brooke mikið skár! Hún viðurkennir fyrir Nick að hafa byrjað að taka pillurnar vegna komu föður hennar, hver þarf ekki róandi nálægt Bobby í Dallas?
Brooke er svo sjokkeruð eftir nóttina að hún getur ekki sagt Nick frá lymskubrögðum Ridge ... sem hélt í alvöru að hún hefði skyndilega fallið fyrir honum.
Jamm. Sjúr.
30.1.2008 | 11:07
Sofið út og stuð hinna þriggja strætisvagna ...
Klukkan sex í morgun var ekki séns að fara á fætur, kalt, dimmt og enn mið nótt. Svaf því út ... eða klukkutíma lengur. Gummi strætóbílstjóri var í miklu stuði og kjaftaði á honum hver tuska. Hann átti helgina, Tommi minn veikur, og sagði að það hefði verið viðbjóður að keyra, sérstaklega á sunnudaginn! Nú, veðrið eða farþegarnir? spurði ég forvitin. Hann flissaði og sagði að það hefði verið veðrið! Í leið 15 myndaðist klikkað stuð í miðri Mosfellsborg þegar nokkrir annarsbekkingar úr Varmárskóla fylltu hvern krók og kima. Ákaflega glaðlyndar stelpur sátu og stóðu nálægt mér og ég gat ekki stillt mig um að spyrja þær hvert þær væru að fara. Ferðinni reyndist heitið í Þjóðminjasafnið. Ég bað þær lengstra orða að smakka kaffið þar, það væri algjört æði. Þær flissuðu ákaft, enda bara 7 ára og fóru að tala illa um kaffi. Þetta litla spjall breyttist í könnun því að ég komst að því að pabbar þeirra eru miklu meiri kaffisvelgir en mömmurnar. Eitt barnið hafði reyndar smakkað kaffi og var ekki mjög hrifið! Æsispennandi ættarleyndarmálin voru að fara að opinberast. Sko, pabbi minn á tvær kaffikönnur og notar bara aðra ... ... en því miður vorum við svo bara allt í einu komin í Ártún og sexan beið þar eftir hópnum ...
Ég gekk virðulega út í Ártúni og í hægðum mínum niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna. Fékk smá áfall þegar ég fattaði að milljón tröppurnar eru ekki svo margar, líklega bara 10 ... brekkan fyrir neðan þær hefur villt illilega fyrir mér og þess vegna hefur þetta virkað á mig eins og kirkjutröppurnar á Akureyri. Örstutt bið í Ártúni og svo kom elsku leið 18 og dólaði sér næstum tóm um Árbæinn með mig ... í stað þess að fara Stórhöfðann og upp Súkkulaðibrekkuna eins og áður og nýtast almennilega. Komst þó heilu og höldnu í Hálsaskóg þar sem samstarfsfólkið beið að vanda með opinn faðminn og hressandi kaffi og snittur og faðmlög og knús og konfekt. Þetta er besti vinnustaður í heimi!
29.1.2008 | 12:36
Krassandi lífsreynslusögur ...
Það gengur á með dásamlegum éljum fyrir utan. Þess á milli skín sólin. Ekta íslenskt vetrarveður. Þetta veðurlag gerði lífsreynslusöguna sem ég var að skrifa í Vikuna bara enn dramatískari en í henni gengur á með skini og skúrum. Minni á að ef þið lumið á góðri sögu fyrir Vikuna þá má alveg hafa samband í gurri@birtingur.is ... afar vel þegið. Tek það fram að sögunum er undantekningalítið breytt þannig að erfitt er að þekkja fólk af þeim, sem er sjálfsögð tillitssemi. Sagan sjálf skilar sér hvort sem fólk býr í Reykjavík, á Vesturlandi eða fyrir norðan, á þrjú börn eða fimm.
Ég held að uppáhaldssagan mín sé sú sem vinkona mín sagði mér en þar hafði bróðir hennar kynnst góðri stúlku sem hann kynnti fyrir fjölskyldunni. Sama kvöldið og vinkona mín sá stúlkuna í fyrsta sinn fór hún niður í bæ ... á djammið. Í skotinu hjá Glitni í Lækjargötu sá hún góðu stúlkuna í keliríi við svarthærðan, ókunnan mann. Hún þagði yfir þessu og þjáðist fyrir hönd bróður síns sem alltaf varð meira og meira ástfanginn af þessari ... glyðru. Vinkona mín forðaðist að hitta hana og sat frekar inni í herberginu sínu eða fór út ef von var á henni í mat. Það var ekki fyrr en um vorið, í fermingarveislu litla bróður, sem hún áttaði sig á því að glyðran var til í tveimur eintökum, eða eineggja tvíburi, og sú sem kelaði í bænum er enn gift svarthærða manninum (40 árum seinna) og bróðir vinkonu minnar er líka afar hamingjusamur með glyðrunni sinni líka.
Jónas fær loks að leika lausum hala í dag. Erfðaprinsinn nennir ekki að láta hann trufla sig yfir sjónvarpinu á kvöldin og ég er eitthvað stressuð að láta hann ryksuga þegar enginn er heima, ef þessi elska myndi festa sig, sem er frekar ólíklegt en samt ... Annars hef ég heyrt um fólk sem hefur hækkað húsgögnin sín til að róbótinn geti ryksugað undir þeim. Það er helst að ofnarnir mínir séu af rangri hæð frá gólfi. Hann er bara svo klár að losa sig úr öllum klípum. Ég á svo erfitt með að fleygja ungunum mínum úr hreiðrinu, þannig að þeir verði sjálfstæðir og bjargi sér sjálfir, spyrjið bara rígfullorðinn erfðaprinsinn ...
28.1.2008 | 09:56
Kjalarnesheiðin og pestargemlingar ...
Ákvað að snúa þessu upp í algjört kæruleysi og sofa til 7.45 í morgun ... fá svo far með Erlu alla leið í vinnuna. Okkur dauðbrá þegar við komum út úr göngunum, það var nefnilega stórhríð á Kjalarnesi! Kannski er slíkt veður komið á Skagann núna en það var ljómandi gott veður þegar við lögðum af stað. Getur verið að það sé heiði þarna á Kjalarnesinu, dulbúin sem beinn, breiður og brekkulaus vegur, meira að segja nálægt sjó? Þetta var ekta Holtavörðu-Hellisheiðar-veður.
Það eru bara allir veikir núna. Ásta mín liggur í hryllilegri pest, svakalegt að heyra í henni í gær og svo er ritstýran mín orðin veik og það var líka svakalegt að heyra í henni í gær ... nema þær hafi notað sömu leikkonuna.
Eigið ljúfan en þó æsispennandi dag í dag!
26.1.2008 | 17:22
Selebes, selebs og bið eftir stormi
Það er byrjað að hvessa og mun án efa hvína mikið í himnaríki þegar líður á kvöldið og nóttina, verst að það verður myrkur og ekki hægt að horfa á hvítfyssandi sjóinn nema bæjarstjórinn komi upp ljóskastara hér. Ég er með hugmynd. Það er ljóskastari við sundlaugina hér á Jaðarsbökkum sem skín miskunnarlaust í augun á öllum þeim sem eiga glugga sem snúa út að kvikindinu og voga sér nálægt þeim. Meira að segja um jólin! Hvernig væri að færa kastaraviðbjóðinn og koma honum fyrir framan við himnaríki svo horfa megi á hafið, jafnvel alla leið yfir til Ameríku?
Mikið grjót er á Langasandi núna og eitthvað hefur gengið á þessa daga þegar ég var í sakleysi mínu í vinnunni. Faxabrautin, gatan sem liggur á milli sjávar og sements, hefur greinilega breyst í götu undirdjúpanna á tímabili og auðsjáanlegt að sjórinn hefur leikið þar lausum hala ... Ég hefði haldið að bæjarstjórinn hefði aðeins betri stjórn á náttúruöflunum þar sem dóttir hans er soddan engill ... Gísli, ég mana þig, komdu með þrumur og eldingar í kvöld! Stormur, suðvestan, það hlýnar hratt ... eru þetta ekki kjöraðstæður?26.1.2008 | 14:11
Undarleg B-atvik í lok árs Svínsins plús Bold-bútar
Þetta er nú meiri mánuðurinn. Ár Svínsins kveður með miklum stæl, myndu eflaust Kínverjar segja, en ár Rottunnar (árið 4705) hefst 7. febrúar nk.. Brjálaða-veðrið, Bobby Fisher, Björn Ingi og borgarstjórnarlætin ... og eflaust margt fleira sem byrjar á B-i sem ég man ekki eftir í augnablikinu.
Það er meira að segja allt vitlaust í boldinu. Sjálfur Bobby Ewing úr Dallas er kominn í leikarahópinn í hlutverki föður Brooke sem Ridge lét fljúga inn á einkaþotu blóðföður síns, Massimo. Faðirinn gekk út frá fjölskyldu Brooke þegar hún var lítil og það hefur haft slæm áhrif á hana í gegnum tíðina. Ridge heldur því alla vega fram að fyrst hann sjálfur yfirgaf hana nokkrum sinnum fyrir Taylor hljóti hún að vera hvekkt og vill sýna henni enn verri gæa. Veit ekki hvað Ridge borgaði pabbanum en hann grátbænir hana um að taka Ridge aftur. Gerðu hann ekki ábyrgan synda minna, segir hann með tilþrifum. Massimo hefur náð athygli Nicks með því að koma Jackie, mömmu Nicks, í fangelsi og nú er tækifærið hans Ridge. Hjartnæm sena: Ég er afi þinn, sagði Bobby við Hope litlu þegar hann hitti hana í fyrsta sinn.
I´m sorry for everything, segir Bobby síðar við Brooke og þau gráta í faðmlögum. Ridge horfir hreykinn á árangur sinn. Þetta (?) ætlar greinilega að virka.
Í ljós hefur komið að Darla, starfsmaður Forrester-tískuhúss og góð vinkona Brooke, hefur falsað bókhaldsgögnin í tölvu Jackie að beiðni Massimo. Hún fær bakþanka en Massimo tekst að telja henni hughvarf með sjúklega flottu hálsmeni. Við áhorfendur engjumst þegar Stefanía reynir að hækka hana í tign og launum af því að vitum að hún er svikari.
Allt vafstrið í Massimo hefur gert Brooke og Nick enn ákveðnari í að vera saman áfram. Ég spái því svo að Jackie, mamma Ridge, slíti trúlofuninni við Eric, fv. mann Stefaníu og pabba Ridge, ekki blóðskyldan þó, og taki saman við pabba Brooke. Menn eru margnýttir þarna í boldinu. Hér á Íslandi er ekki litið slíkum augum á karlmenn. Þeir eru virtir og við spyrjum þá leyfis áður en við ráðstöfum þeim til annarra kvenna í fjölskyldunni.
Þessir bútar úr boldinu voru í boði himnaríkis.
25.1.2008 | 20:31
Slátur, ófærð, ævintýri og "bóndar" ...
Við Erla (borgarstjóraakranessdóttir) vorum svo heppnar að elsku vélstýran okkar skutlaði okkur í Mosó eftir vinnu þar sem bíll Erlu beið, pikkfastur á bílastæðinu. Við reyndum að ýta spólandi tryllitækinu án árangurs, ég hljóp meira að segja í Bónus og keypti kattasand sem dugði þó ekki til. Mosóstjórnvöld mættu hugsa meira um mokstur á bílastæðum ... segir Skagamærin ... hummmm , og kastar stórgrýti úr gróðurhúsi þar sem meira mætti vera um mokstur hér líka ...
Gummi strætóbílstjóri gargaði hæðnislega á okkur út strætó og sagði að við ættum ekki að fara á þessari smádollu upp á Skaga, það væri bæði hvasst og hált á leiðinni. Við hlustuðum sem betur fer á hann, settumst upp í heitan og þægilegan strætóinn og ákváðum að láta Gumma sjá um stressið við aksturinn. Honum fórst það líka vel úr hendi og bjargaði okkur á snilldarhátt þegar lítill fólksbíll stoppaði snögglega á miðjum vegi fyrir framan okkur, skömmu fyrir göng. Sá bjó sig undir að beygja til vinstri og munaði minnstu að hann fengi heilan strætó aftan á sig. Svona er að spara stefnuljósin. Við horfðum líka hrelld á nokkra JEPPA utanvegar, ég sem hélt að jeppar kæmust allt. Fólksbílaliðið á vanbúnu bílunum hefur greinilega haldið sig fjarri Vesturlandsvegi. Gummi sagði okkur að annar Skagastrætóinn (alltaf tveir í fyrstu ferð, hinn fór aðalleiðina út úr bænum í morgun) hefði fest sig á Innnesveginum í morgun og þess vegna var löggan á staðnum til að hrekja okkur til baka. Gummi tók svo farþegana með í bæinn í 7.41 ferðinni klukkutíma seinna.
Veðrið var mun verra norðanmegin rörs í kvöld og sást varla á milli stika, klikkuð hálka og mikið rok og skafrenningur. Hoppaði tindilfætt en þreytt eftir að hafa hjálpað Gumma að halda sér á veginum með því að gera mig stífa, út á Garðabrautinni.
Svarti bíllinn fyrir aftan strætó flautaði á mig ... þetta var elskan hún Ellý, bráðum amma, að koma úr gufu og skutlaði mér þessa tuttugu metra heim. Eftir góðan latte er ég að komast til meðvitundar. Vona að ég nái að halda mér vakandi fram yfir Útsvar ...
Elsku strákar, nær og fjær til sjávar og sveita. Hugheilar hamingjuóskir með bóndadaginn! (Í DV í dag er auglýsing sem segir: Bóndar, til hamingju með daginn ...)
25.1.2008 | 09:04
Akranesi-Rvk ... hetjudáð Ástu í klikkaðri ófærð
Sko, ég veit að ég hef ýmist kallað Ástu kaldlynt karlrembusvín eða góðlynt geðprýðikvendi , svona rétt eftir skapinu sem ég er í og hvernig það passar inn í pistlana. Ég hef held ég aldrei kallað hana hetju, þótt hún eigi það vissulega skilið, sérstaklega eftir ævintýri morgunsins. Við vorum "seint" á ferð frá Akranesi, eða lögðum í hann 6.50 skv. áætlun.
Á Innnesvegi, rétt áður en við komum að samkomuhúsinu Miðgarði (ekki í Skagafirði) sáum við blá lögguljós ... æ, æ, ætli hafi orðið óhapp? Afspyrnusætur lögreglumaður kom að bílnum, horfði með aðdáun á okkur, alla vega Ástu, hún er svo grönn, og sagði okkur að það væri lokað, bílar festust bara í sköflum og svona. Nú, við snerum við og ákváðum að fara aðalleiðina út úr bænum, ekkert heim að sofa aftur kjaftæði. Það var ansi blint á leiðinni og brjálæðingurinn sem fór fram úr okkur áttaði sig of seint á mistökunum því að nú gat hann ekki lengur notað okkur sem þrautakóng, heldur við hann.
Sem betur fer var ákaflega veðursælt í Hvalfjarðargöngunum og ögn minna óveður virtist vera sunnanmegin rörs. Við sáum nokkra bíla sem höfðu ekið út af á leiðinni og svo urðu útvarpsmenn Bylgjunnar alltaf ákveðnari í því að fólk ætti hreinlega að halda sig heima. "Of seint," hvæsti Ásta milli samanbitinna tannanna og munnurinn varð eins og herptur handavinnupoki, þétt reyrður. Ekki var Gurrí, samferðakona hennar, mikið skárri á svip, varirnar hugsanlega ögn kyssilegri, og hringdi í örvæntingu sinni í Björk samstarfskonu sína. Samdi um að verða hirt upp á Miklubrautinni á strætóstoppistöðinni við Kringluna. Guðríður vissi sem var að Ásta væri hetja en grunaði engan veginn að hún þyrði upp í Árbæ of oll pleisis í svona veðri, þar verður alltaf ófært í hvelli ... (spæling dagsins var ætluð vélstýrunni) en hetjulundin efldist í hjarta hennar eftir að hún heyrði að ég gerði ráð fyrir að hún kæmist ekki nema Vesturlandsvegur-Miklubraut-Hringbraut-Landspítali. Ég fékk far upp að dyrum. Af því að ég er ekki kvikindi þá lét ég Björk vita ... annars myndi þessi góðlynda og samviskusama samstarfskona mín láta hefja leit að mér í kringum stoppistöðina við Kringluna, eins og það sé ekki nóg að gera hjá löggum og björgunarsveitum núna.
"Vá, en falleg glitrandi perlufesti," sagði ég dreymin á svip og horfði ofan af brúnni sem liggur upp í Árbæ. "Þetta er ekki perlufesti," sagði Ásta greindarlega, "þetta er óendanleg röð bíla. Það eru bílljósin sem rugla þig í ríminu," bætti hún samúðarfull við. Vá, eins gott að við vorum svona snemma á ferð. Ásta bjóst við hálftíma ferð frá Hálsaskógi niður á Landspítala.
Prófarkalesararnir buðu mér kaldhæðnislega góða kvöldið, þegar ég mætti rúmlega átta, þær "löngu" komnar. Ég hef alveg gleymt að hæða þær undanfarið þegar þær mæta á eftir mér en ég mun ekki klikka á því í framtíðinni ... Gulla var um 45 mínútur á leiðinni úr Hafnarfirði en náði samt að verða á undan mér. Nú er það bara stóra spurningin ... Hvernig kemst ég heim á Skagann í kvöld? Best að tékka á annarri hetju, Erlu minni sem vinnur í sama húsi ... skyldi hún hafa lagt í hann í morgun, sko? Annars tek ég við tilboðum frá einlægum aðdáendum sem vilja appelsínusúkkulaði úr mötuneytinu og eru á leið á Skagann eftir kl. 17 í dag og langar í fallegan og vitsmunalega örvandi félagsskap. Ásta verður löngu komin heim, vonandi, hún ætlar að halda upp á afmælið sitt með öðru afmælisbarni og skemmtilegum vinkonum til áratuga.
Mér hefur verið fagnað eins og hetju í vinnunni í morgun, samstarfsfólkið heldur líklega að ég búi á Sauðárkróki eða Hafnarfirði eða þekki ekki fólk með hetjulund og bílpróf ...
Fólk haldi sig heima | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 19
- Sl. sólarhring: 36
- Sl. viku: 653
- Frá upphafi: 1506006
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 529
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni