Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
24.1.2008 | 08:59
Strætóbílstjóri í stuði, elding og kvikindisleg kaffimóðgun
Við Ásta lögðum af stað nokkru fyrr en vanalega í morgun, eða kl. 6.40 um miðja nótt, og kipptum Sigþóru með okkur við íþróttahúsið. Það var lærdómsríkt að lenda fyrir aftan aukabílinn sem við náðum í skottið á skömmu fyrir göng. Hann hleypti sem betur fer engum fram úr sér þegar úr göngunum var komið, eins og stærri bílar gera gjarnan, heldur hélt sig á báðum akreinum alveg þar til mjókkaði í eina. Enda ók hann alveg nógu hratt fyrir þá sem fyrir aftan komu. Það var frábært að hafa svona stóran og traustan bíl fyrir framan okkur sem stjórnaði hraðanum á Vesturlandsvegi. Hélt að aukabílstjórinn hefði samt nóg með að ala upp farþegadruslurnar sem geta aldrei að þeir eigi að fara út að aftan, líka þeir sem sitja fremst, og að hann stoppi ekki fyrir neinum nema viðkomandi hringi bjöllunni. Við Grundahverfið á Kjalarnesi neyddumst við til að halda áfram þjóðveginn þótt aukabíllinn tæki krók eftir farþegum og beygði inn. Í kveðjuskyni æfði bílstjórinn Ástu í viðbragðsflýti með því að hægja hratt á sér þarna á þjóðveginum og gefa ekki stefnuljós. Ásta var að drepast úr þakklæti, svona bílstjórar eru ekki á hverju strái.
Þegar við vorum alveg að verða komnar inn í Reykjavík lýstist himinhvolfið upp. Við urðum óvænt aðnjótandi þess mikla heiðurs að upplifa sjaldgæfa eldingu! Loksins! Eldingin veit eflaust á að þetta verður dagur hinna miklu dugnaðar- og afkasta!
Á heimleið í gær, nálægt kl. 17, stakk hin kaffiþyrsta Ásta upp á því að við kæmum við í Mosfellsbakaríi og keyptum kaffi í götumáli. Ekki óraði okkur fyrir því að skömmu síðar myndum við stynja af gleði og ánægju yfir velheppnuðum latte. Ásta ofurkurteisa lýsti því yfir í næstu klukkutíma samfleytt að þetta væri sko miklu, miklu betra kaffi en það sem ég færði henni á morgnana úr vélinni minni og það var ekki fyrr en í Kollafirði sem henni datt í hug að spyrja hvort ég væri nokkuð móðguð. Ég sagði mjög, mjög kuldalega að smekkur fólks væri misjafn, hún hefði verið afar kaffiþyrst skömmu áður, kaffið hefði verið vel heitt og hlýjað henni á ísköldum höndum og svona, hún væri líka vön bráðdrepandi viðbjóðslegu sjúkrahúskaffi á Landspítalanum o.s.frv.. Nei, ég væri ekkert móðguð. Kannski bara óvön því að fólk segði svona beint við í mig að ég væri feit ...
21.1.2008 | 20:46
Þrautgóð á raunastund, hviður, farsar og hvaðeina ...
Það var heilmikil sætaferðastemmning í strætó á heimleiðinni. Tommi talaði um Þorratunglið sem verður fullt á morgun (góður dagur til að fórna ...), aðrir ræddu nýjustu tíðindin og bloggvinkona mín, ung og dásamleg Skagamær, vildi að gerður yrði sjónvarpsþátturinn Ráðhúsið, glæpsamlega fyndinn farsi í nokkrum þáttum. Annars er ég sammála Tomma með að það er meira sjokk fyrir okkur Skagamenn að svona mörgum HB-Granda starfsmönnum hafi verið sagt upp.
--- -------- ------- -------- ------
Tommi hleypti okkur út við staurinn góða á Garðabrautinni sem lá á hliðinni einhverra hluta vegna. Það tók mig hátt í fimm mínútur að komast þennan stutta spöl heim og þurfti ég að finna skafla til að ganga í og þeir dýpstu voru um 3 cm djúpir ... ef ég hefði gengið troðnar slóðir hefði ég fokið út Höfðabrautina og það hefði verið ófögur sjón. Ég mat veðrið í morgun sem tveggja trefla veður og fjólubláa sjalið fauk af mér við Höfðabrautarhornið. Það var mikil gleði þegar ég endurheimti það nokkrum kílómetrum vestar, ókei, nokkrum skrefum. Vindurinn hafði rúllað því smekklega upp. Ég komst sem sagt við illan leik í himnaríki og leið eins og sögupersónu í Þrautgóðum á raunastund. Samt sendi ég án nokkurrar miskunnar erfðaprinsinn út í mjólkurbúð (Skaganesti) rétt áðan. Hviður eru bara 25 m/sek á Kjalarnesi núna en þær voru ábyggilega hátt í 105 við himnaríki áðan. Æ lovvv ittt!
Að lokum langar mig til að sýna ykkur stórfenglegt UEFA-myndband um það magnaða íþróttalíf sem viðgengst hér á Skaganum. Þegar nákvæmlega 4 mínútur eru liðnar af myndbandinu sést himnaríki í nokkrar sekúndur fyrir miðri mynd. Skrímslasvalirnar miklu voru ekki komnar á húsið þegar myndin var gerð.http://www.uefa.com/trainingground/index.html#34005/16384/646791
21.1.2008 | 10:48
Strætó í æð ...
Svo langt er síðan ég tók strætó síðast að ég gat ekki hætt eftir eina ferð, heldur ók með fjórum vögnum í morgun um ég veit ekki hvað mörg póstnúmer. Heimir var að keyra leið 27, þessi elska (Tommi er á seinni vakt) og Ásta sat fremst og gætti sætis míns eins og sjáaldurs augna sinna. Mjög margir ágirntust víst sætið á leiðinni Skrúðgarður - Garðabraut sem telur bara fjórar stoppistöðvar með endastöðinni. Ég hélt að þú værir bara hætt að taka strætó, sagði Heimir vonleysislega, enda hinir farþegarnir örugglega óbærilega leiðinlegir, vanalega steinsofandi alla leið. Ég er ekkert hætt að taka strætó, krúttið mitt, svaraði ég og hugsaði um vetrarfríið sem Ásta fer í í byrjun febrúar. Vonandi verður gott veður, sól og blíða á meðan. Held að Heimir sakni þess að gaf bílstjórunum alltaf Séð og heyrtið mitt á miðvikudögum þegar ég var búin með það. Eftir að Ásta fór að bjóða mér far hafa þeir þurft að horfa sorgmæddir út í buskann í hléunum sínum.
Fór alla leið í Ártún með Heimi á leið 27 og þar beið aukabíll leiðar 6 sem fór með mig niður á Lækjartorg. Ég var í mjög áríðandi erindagjörðum, þetta var ekkert rúntkjaftæði. Líkamsrækt dagsins kom þegar ég næstum hljóp upp Bankastrætið og náði að verða kúnni númer 2 í biðröðinni hjá Kaffitári. Tveir latte út, mjólkin 150°F, engin froða, takk, sagði ég á starbökksku kaffimáli. Tek fram að hitamælar á kaffihúsum eru vanalega á Farenheit, ekki Celsius. Þetta er heitt kaffi en ekki sjóðandi viðbjóður! Ég horfði nokkuð stressuð á klukkuna ... sem vantaði 13 mínútur í átta ... hljóp niður Bankastrætið með límt fyrir drekkugötin á bollunum og nýbökuðu múffuna á milli þeirra í plastpokanum. Leið 1 var búin að koma við á stoppistöðinni á Lækjargötu og var stopp við ljósin. Ég horfði hundslegum bænaraugum á bílstjórann sem opnaði fyrir mér, þessi elska. Hans verður minnst í bænum mínum, Akranesi ...
Auðvitað náðum við upp á Hlemm á mettíma, en kl. 7.59 átti leið 18 að vera þar. Hann er aðeins á hálftímafresti núna og þessi áður kúffulli strætó var tómur næstum alla leið, enda hættur að fara Höfðana, næstum að Vogi, og svo upp Súkkulaðibrekkuna á leið sinni í Grafarholt ... hann dúllar bara mannlaus um Árbæinn, þar sem alla vega tveir strætisvagnar á annarri leið eru fyrir! Vona að við Skagamenn lendum á móti Reykjavík í átta liða úrslitum Útsvars þá get ég beðið Gísla Martein að redda þessu ... annars hætti ég að vera aðdáandi hans.
Bílstjórinn á leið 18 er fyrrum bóndi úr Landeyjunum. Sonur hans tók við búskapnum og karlinn dreif sig bara í strætóakstur í bænum! Nú, hvernig veit ég þetta? Ég og bílstjórinn bonduðum þegar ég rétti honum appelsínugulan og gamaldags skiptimiða ... mjög afsakandi á svip. Sagði honum að við værum bara með svona skiptimiða í Skagavagninum. Hann fylltist áhuga á mér, held ég örugglega, og spurði mikið hvernig Skagastrætó gengi og hve lengi við værum á leiðinni, hversu margir farþegar og fleira. Á Snorrabrautinni vorum við orðin mestu mátar. Þrátt fyrir spjall horfði ég vel í kringum mig, enda langt síðan ég hef rúntað um Reykjavík í strætó.
Við töluðum eins og verstu utanbæjarmenn, hneyksluðumst á akstursmáta borgarbúanna, máttum nefnilega horfa upp á árekstur á Bústaðavegi rétt fyrir ofan kirkjugarðinn og sáum líka lögguna stoppa gamlan mann á rauðum bíl, mögulega fyrir of hægan akstur ... hver veit, en það var nú bara í nösunum á okkur. Sjálf hef ég búið lengur í Rvík en annars staðar og fædd þar og bílstjórinn talaði mikið um að ökumenn væru eiginlega allir afar liðlegir við strætóbílstjóra.
Þessi aukahringur minn í morgun tók u.þ.b. klukkutíma en mikill og langur annadagur er fram undan í dag, þurfti að hefja hann vel með sjúklega góðu latte-i og nýbökuðu súkkulaðimöffins ... enda er ég full af orku núna. Held að strætó í æð hafi líka gert mér gott.
Veit einhver hvernig maður finnur slóðina að nýju vefmyndavélinni í Eldey? Er orðin þreytt á að vera á Kötluvaktinni í öllum frístundum mínum, langar til að fylgjast með bí-bí núna, vonandi líka brimi ef vefmyndavélin er skemmtilega staðsett! Afar misheppnað að segja fréttir af vefmyndavél en ekki hver slóðin að henni er! Mistök, mistök ...
19.1.2008 | 17:09
Njósnað um njósnara ...
Mig vantar sárlega batterí í gamla símann minn. Sem er næstum því eldgamall Nokia og drepur reglulega á sér fullhlaðinn án nokkurrar miskunnar. Ég nota hann sem SMS-símann minn, en flotti síminn sem erfðaprinsinn gaf mér í afmælisgjöf er svo fullkominn að ég hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega á kvikindið, batteríið í honum dugir þó lengi!
Blikkaði erfðaprinsinn til að viðra móður sína og freistaði hans með gómsætum kræsingum í Skrúðgarðinum. Aðalerindi bíltúrsins: að finna og kaupa nýtt símabatterí.
Í sárasakleysi okkar byrjuðum við á kaffihúsinu og fórum svo út að vita svo að ég gæti myndað ... grunlaus um lokunartíma sumra búða. Ég mæli með nýjung í Skrúðgarðinum, skyrdesert í glasi!
Hjá vitanum var fjöldi manns, sem er einstakt, við erfðaprins höfum hann yfirleitt út af fyrir okkur. Fyrst hélt ég að þetta væru útlendingar og beið spennt eftir hnífabardaga en svo reyndust þetta Íslendingar, a.m.k. maðurinn sem svaraði alþjóðlegu Hi frá mér með Góðan dag, hreimlaust. Kurteislega fylgdist ég með þeim á meðan ég þóttist vera að mynda og uppgötvaði að þetta voru mjög líklega, eiginlega alveg örugglega ... Samtök íslenskra njósnara, eflaust í æfingabúðum. Ég nötraði af spennu og líka ótta þar sem njósnarar eru ekki hættulausir og bakkaði varlega út úr þessum mögulega hættulegu aðstæðum. Erfðaprinsinn vildi meina að þetta hefðu verið áhugaljósmyndarar að fanga samspil birtu og brims í ægifögru landslagi Akraness en ég hló kuldalega og trúi ekki lengur að greind erfist frá móður. Bað hann að koma við hjá Olís/Ellingsen við höfnina og þar fann ég það sem ég hef lengi leitað að, almennilegar sokkabuxur, öllu heldur gammósíur. Nú mun kuldinn halda sig frá lokkandi lærum mínum og fögrum fótleggjum í allan vetur og ég verð ekki lengur eins og undanrenna á litinn; bláhvít.
Himnaríki vantaði kattagras og kattasandsplastpoka og við héldum í Krónuna næst. Við hliðina er batterísbúðin Síminn/Eymundsson en þar var allt lok, lok og læs.
Dagurinn sem sagt frekar spennandi og sæmilega árangursríkur en batteríið verður að bíða.
18.1.2008 | 19:18
Tilraunir, vídjó, annir, heimför og bold ...
Skelfilegt að rúmur sólarhringur hafi liðið án bloggs um m.a. það hvað maturinn í mötuneytinu í hádeginu í gær var vondur! Ó, er þetta buff? spurði maðurinn fyrir framan mig í biðröðinni. Nei, þetta er ýsa, svaraði Anna glaðlega. Þetta reyndist rétt, en ýsan var marineruð í indverskum kryddlegi og var dökkblágræn á litinn ... í gegn. Hefði alveg getað verið frumlegt buff. Ég fann ekkert indverskt kryddbragð þegar ég reyndi að borða brimsaltan fiskinn. Fólk hneig niður í hrönnum í matsalnum, eða hefði gert ef það byggi ekki yfir svona mikilli sjálfsstjórn eftir ýmsar tilraunir í mötuneytinu. Það var því gaman að sjá afsakandi svipinn á kokkunum í dag þegar þeir reyndu að öðlast fyrirgefningu okkar með því að vera með lambalæri og ísblóm í eftirrétt.
Gærkvöldið var annasamt en þá var þrennt á listanum við heimkomu: 1. klára tvær greinar, 2. fara í snöggt bað, 3. horfa á eina til tvær spólur til að skrifa um (DVD). Fyrir valinu varð 1. ágætis Medion-tölva með flatskjá, 2. blá freyðibaðsbomba frá lush, 3. I now pronounce you Chuck and Larry. Til öryggis var ég með aðra mynd því að ég bjóst ekki við miklu af grínmynd um gagnkynhneigða menn sem leika hommapar. Mér til mikillar undrunar grenjaði ég nokkrum sinnum úr hlátri og hefði jafnvel þurft að stoppa myndina stöku sinnum til að missa ekki af neinu. Ekki misskilja mig samt, þetta er hálfgerð bullmynd en á köflum komu ansi góðir brandarar sem kitluðu hláturtaugar okkar erfðaprinsins alveg hrikalega mikið. Vinkona hommanna spurði annan þeirra hvernig hann lokkaði hinn (þann feitlagna) í rúmið. Það er ekki mikið mál, sagði Adam Sandler, ég legg bara pítsu á rúmið og þá kemur hann hlaupandi! (já, feitabollubrandarar líka).
Á mínútunni fimm í dag gekk ég virðulega út úr fyrirtækinu, fór yfir bílaplanið og gekk inn hjá Sko. Þar var elskan hún Erla (bæjarstjóradóttir) að slökkva á tölvunni sinni og gera sig tilbúna í heimferð á Skagann. Ég færði henni smáræði úr ávaxtadeild mötuneytisins, eða appelsínusúkkulaði, við mikinn fögnuð hennar. Þetta mauluðum við á leiðinni og nutum hverrar mínútu. Svo var það latte í himnaríki, boldið og bloggið ... og verðskuldað helgarfrí.
Hingað og ekki lengra, sumir bloggvinir. Sá aðeins boldið í gær og þar grét Bridget af söknuði þar sem hún má horfa upp á barnið sitt í fangi réttu móðurinnar sem lifnaði við í sjúkrabílnum. Felicia er á einhverju flippi og er með stífan hanakamb, missti af því hvernig henni datt það í hug, sá síðast að hún bað móður sína að klippa af sér hárið þar sem hún var að missa það vegna lyfjanna. Hún vill helst láta barnið sofa í sjúkrarúminu hjá sér en dokksi bannar það. Jackie er enn í fangelsinu og Massimo gerði henni ljóst að ef hún reyndi ekki að hafa áhrif á Nick, son þeirra, svo hann hætti við Brooke sem á að vera gift Ridge, syni hans, þá mun hún sitja inni í 25 ár. Nick og Brooke ætla ekki að láta kúga sig til að hætta saman. Í dag: Ég hélt að þú ætlaðir að gera eitthvað í þessu, sagði Ridge beiskur við pabba sinn. Þeir sjá Nick og Brooke í faðmlögum í dómshúsinu. Það ríkir stríð í fjölskyldunni vegna konu sem tilheyrir Ridge, sagði Massimo við Jackie sem var að koma út úr lyftunni í handjárnum, ótrúlega vel útlítandi eftir nótt í fangaklefa.
Bridget talar eitthvað um sleepover Dinos litla en blóðmóðir hans, Felicia, ekki lengur með kamb, kallar hann Dominic og segir að nú búi barnið hjá sér ... á sjúkrastofunni! Læknirinn ungi og huggulegi, bróðir Hectors slökkviliðsmanns, daðrar á fullu við Feliciu og talar líka skynsamlega um þá ást sem Bridget ber eflaust til barnsins. Er búin að fatta þetta. Hann langar í Feliciu en ekki krakkagrisling í kaupbæti! Svona er boldið í dag!
17.1.2008 | 08:59
Femínismi, töffaðir tvífarar og frosið grill ...
Fínasta veður á Skaganum í morgun, hafði reyndar snjóað meira niðri í miðbæ, þar sem Ásta býr, en hjá himnaríki. Ansi dimmt var svo á leiðinni og koldimmt á Kjalarnesinu, hvasst og svolítil snjókoma ... smá dimmviðri líka í hjörtum okkar, líklega vegna umræðuefnisins. Við vorum nefnilega að tala um femínisma. Ásta sagðist í fyrstu ekkert vit hafa á þessu en ég komst að því að hún heldur sko með körlunum. Hún vinnur sem skrifstofukona á Landspítalanum og er með afar lág konulaun, eins gott að hún á mann.
Ef hún ætti ekki mann með eðlileg laun hefði hún ekki getað grillað í snjónum í gær, þessa líka fínu steik. Dýrleg hugmynd að grilla í janúar! Maturinn hlýtur að bragðast betur. Jamm, ég er vitlaus í grillmat en fæ hann voða sjaldan, enda á ég ekki grill.
Alexandra, prinsessa af Lúxemborg (16), getur ekki erft krúnuna, þar sem hún er bara kona, benti ég Ástu á sem dæmi um viðurstyggðilega ósvífni og karlrembu!Það er ekkert hægt að breyta slíku, andmælti Ásta, alveg búin að steingleyma Svíþjóð og svona ... Hún sagði spámannslega að ekkert myndi breytast fyrr en KARLMENN vildu að konur fengju jafnrétti og berðust fyrir því líka, konur væru líka konum verstar (döhhh) ... og eini almennilegi femínistinn væri Jóhanna Sigurðardóttir! Svo vorum við bara komnar upp í Hálsaskóg ... Ég fékk mér róandi te og opnaði gluggann til að ná andanum. Það verður ekki jafnrétti fyrr en barnabarnabarnabörnin mín verða komin á legg, hugsaði ég spámannslega ... og þessir afkomendur verða orðnir svo fjarskyldir mér, ég löngu dauð hvort eð er ...
Það verður vitlaust að gera í dag, ég gerði langan verkefnalista í gærkvöldi og ætla að hafa hann við hliðina á mér og krossa jafnóðum við það sem ég er búin með. Eigið góðan dag! P.s. Birti mynd til gleðiauka í dagsins önn og til að minna á hvað maður getur farið að líkjast hlutum með tímanum. Ég verð t.d. eins og kartöflupoki í laginu ef ég hleyp ekki reglulega upp stiga himnaríkis ...
16.1.2008 | 17:05
Skuldbindingafælni vs giftingasýki
Þegar Ásta sótti mig í Hálsaskóginn í dag hafði ég beðið í fimm mínútur fyrir neðan húsið og leit út eins og glæsileg snjókerling. Raulaði bara jólasálma í þessari guðdómlegu hundslappadrífu í höfuðborginni. Það var frekar blint á köflum á heimleiðinni þótt vindstigin væru ekki nema fimm í Kollafirðinum (sjá mynd til vinstri). Hér á Skaga var heldur annað veður en í Reykjavík, eða sól og sumar að vanda (sjá myndina til hægri).
----------- ooo 000 - O - 000ooo ------------
Í matartímanum hittist svo á að við, nokkrar gellur á lausu, sátum við sama borð og spjölluðum. Ein talaði um að hún ætlaði að vera ein í herbergi á hótelinu þegar fyrirtækið heldur til Svíþjóðar í árshátíðarferð í mars. Þá á hún auðveldara með að næla sér í sætan Svía, bætti hún glottandi við. Ó, ertu á lausu? Síðast þegar við vissum átti hún kærasta. Já, þetta var orðið svo þrúgandi, ég var að kafna! sagði hún og dæsti. Þarna komumst við að því að við erum haldnar skuldbindingafælni, alveg öfugt við kynsystur okkar sem eiga allar að vera giftingarsjúkar ... samkvæmt bæði bröndurum og staðalímyndum. Aumingja ungi karlkynsblaðamaðurinn sem sat á næsta borði og þóttist ekki heyra neitt, ég sá hann samt roðna af spenningi. Nú er hann örugglega orðinn sjúkur í okkur, þetta virkar víst þannig, sagði ein lágt. Við flýttum okkur fram og rétt sluppum við að eignast kærasta.
16.1.2008 | 08:39
Morðfýsn í morgunsárið ... eða bara geðillska?
Ferðin í bæinn gekk bara ansi vel í morgun ... Við bjuggumst við hálku en henni var ekki fyrir að fara nema í Árbænum og ... reyndar smá á Akranesi þar sem aldrei er saltborið. Ásta hafði miklar sögur að segja frá ófærðinni í gær, skafrenningnum, hægfara umferð, ísmanninum ógurlega og fleira og ég var dauðspæld yfir því að hafa ekki verið með. Í gær var frábært veður á Skaganum á meðan björgunarsveitarmenn voru kallaðar út á Suðurnesjum og skaflar mynduðust í Árbæ sem segir að best sé að búa á Akranesi.
Varúð - geðillskubloggbútur: Annað hvort situr nýr sölumaður í sætinu mínu á kvöldin hér í vinnunni eða þessi gamli hatar mig. Ég fann fyrir sjaldgæfri geðillsku, eða mögulega morðfýsn, þegar ég settist við skrifborðið mitt áðan. Sölumannskvikindisdruslufíflsauminginn var búinn að snúa upp á símasnúruna (þessa frá tóli að tæki) þannig að ekki var hægt að lyfta tólinu nema allt færi í klessu, hafði greinilega varið heillöngum tíma í að gera símann minn ónothæfan ... þar til ég lagaði hann, og hann var líka búinn að festa stólinn minn í ömurlegri stellingu, sjá bæði efri og neðri myndir til hægri. Svoleiðis stellingu. Ég þarf að skrifa honum aftur og biðja hann um að skilja við skrifborðið og stólinn eins og hann kom að því! Annars ...
Ný Vika var að koma í hús, fer líklega í sjoppur á morgun, aðallega hinn ... óxla flott blað. Vona að þið hamist við að kaupa blaðið áfram ... þar sem ykkar einlæg ritstýrir næstu tvær vikurnar, ritstjórinn minn gerðist svo ósvífinn að fara í vetrarfrí til útlandos. Rennir sér eflaust á skíðum eins og einhver prinsessa á meðan ég þræla og púla .... tíhíhíhí ... Vona að hún skemmti sér konunglega og fari lika rosalega varlega. Getur það ekki alveg farið saman?
15.1.2008 | 21:14
Aftur?
Málverkið sem sumir kalla Mona Lisa hefur alltaf gengið undir nafninu La Gioconda, eða alveg síðan Da Vinci sagði um árið: Sæl, tylltu þér hérna á kollinn og láttu fara vel um þig. Ég heitir Leonardo, hvað heitir þú?
Mikið vona ég að vísindamenn uppgötvi árið 2893 að húsráðandi himnaríkis hafi verið frú Guðríður sem bjó þar með eingetnum syni sínum í eldgamla daga.
Þeir munu án nokkurs efa nota þá aðferð að fara í gegnum fornt tölvuforrit Kaupþings til að finna út úr því ... en allir aðrir í heiminum vissu allt um málið þar sem nöfn hennar og erfðaprins voru allan tímann á dyrabjöllunni ...
Upplýst hver Mona Lisa var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2008 | 14:16
Á vængjum hversdagsleikans ...
Áttaði mig á því í morgun að líf mitt er orðið afskaplega vanafast og hreinlega fyrirsjáanlegt. T.d. á þriðjudögum er alltaf sjúkraþjálfun, súpa í Skrúðgarðinum og heim að vinna. Í morgun var ég að hugsa um að gera byltingarkenndar breytingar á þessu, fara jafnvel yfir götuna hjá KB-banka, ganga framhjá húsinu hennar Ellýjar og fara svo aftur yfir á móts við Skrúðgarðinn. Eða jafnvel ganga afturábak þessi skref, kannski valhoppa ... svo bjóða gott kvöld á kaffihúsinu. Engar af þessum hugmyndum hlutu þó náð fyrir augum mínum svo að ég hélt mínu hversdagslega striki. Samt er ég byltingarkennd á ýmsan máta, eins og í Einarsbúð skömmu fyrir kl. 18 í gær. Hvað er þetta? spurði erfðaprinsinn furðu lostinn og benti á mjúkan, dúandi poka. Þetta er súrkál, svaraði ég, meinhollur fjandi, hef ég heyrt! Einar kaupmaður sagðist verða með þetta á boðstólum fyrir akurnesku Pólverjana sem eru sólgnir í þessa hollustu. Verst að ég veit ekki hvernig á að bera þetta fram, líklega bara óeldað beint úr pokanum, sagði ég hugsandi og hrukkaði gáfulegt og fagurskapað ennið. (Þarf að spyrja pólsku nágrannana mína nánar um aðferðir og vinnubrögð.)
Ég er að verða skrambi kvöldsvæf. Samtal um kvöldmatarleytið: Gurrí: Aha, Crossing Jordan er í sjónvarpinu í kvöld. Erfðaprins: There is a God. Södd og sæl eftir steikta fiskinn, þótt gleymst hafi að kaupa lauk, lokaði ég augunum aðeins yfir fréttunum. Opnaði þau næst um tvöleytið í nótt, enn í leisígörl með teppi yfir mér og kött í fanginu!
Horfði svo glaðbeitt á boldið í forsýningu í morgun og það er sko margt að gerast núna. Jackie er komin í fangelsi!!! Jackie, mamma Nicks! Ja, forsagan er sú að Massimo (blóðfaðir Ridge) er búinn að ákveða að Ridge, eldri sonur hans, eigi að vera kvæntur Brooke, en ekki yngri sonur hans, Nick. Konur ráða víst litlu um eigin örlög þarna í Ameríkunni, ætli allir kristnir séu svona? Jackie er ákærð fyrir peningaþvætti og skattsvik, handjárnuð og ákærð en fékk að hringja í Nick sinn sem birtist innan tíðar með Brooke. Hann dreif sig til pabba sem getur bjargað öllu og komst að því að Massimo stendur á bak við þetta. Hann er líka búinn að gera Nick arflausan og það kom sérstakt blik í augun á Brooke þegar Nick spurði hana hvort hún treysti sér til að lifa án allra milljónanna ... bjóst við að það nægði til að stía þeim í sundur ... en ástríðan er bara svo mikil!
Um bloggið
Sögur úr himnaríki
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 25
- Sl. sólarhring: 37
- Sl. viku: 659
- Frá upphafi: 1506012
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 533
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni