Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hásleipa - lífshætta

Í SkrúðgarðinumSveppasúpan guðdómlega var í boði í Skrúðgarðinum í dag en fyrir viku var hún búin þegar ég mætti í hádegisverð, reyndar ansi seint. Þjónarnir síðan síðast voru aftur í starfskynningu og sinntu gestum af mikilli alúð, þessar elskur. Freyr tók þessi líka fínu dansspor þegar hann var búinn að færa mér súpuna. Ég vakti gífurlega aðdáun í Skrúðgarðinum, enda nýklippt, öll útlits-samúð á bak og burt eins og ég hefði aldrei verið lufsuleg og ótótleg. Við Anna Júlía völdum aftur Coffee-eitthvað lit á hárið á mér með þeim árangri að ég er ægifögur og var algjörlega í stíl við kaffið sem María bjó til handa mér.

HálkaÞvílík hryllileg færð fyrir gangandi vegfarendur, ég varð ekki bara rennvot í fæturna á leiðinni, heldur munaði nokkrum sinnum minnstu að ég dytti kylliflöt með tilheyrandi mögulegri sjúkrahúslegu. Ef ég kynni mig ekki svona vel hefði ég farið á puttanum þótt ég vissi að það myndi hræða sómakæra Skagamenn. Eini leigubíllinn hér er víst sjaldan í akstri, annars hefði það verið fínt.

Sjá má hvernig Skaginn er útlítandi núna í gegnum vefmyndavél sjúkrahússins. http://mail.sha.is/myndavel/ Gamli spítalinn, (t.h.) skyggir á Skrúðgarðinn sem er aðeins lengra en gula og rauða húsið sem hýsir m.a. Ozone, tískubúðina góðu. Fyrir miðju er Kaupþingshúsið en á þriðju hæð er sjúkraþjálfunin!

Kurteisir bílstjórar reyndu eftir bestu getu að skvetta ekki á mig á leiðinni en stórfljót streyma hér um allar götur. Það var því engin spurning um að taka strætó heim. Nú er orðið frítt í innanbæjarstrætó og vagninn var troðfullur af börnum. Ég er ekki að kvarta, börn eru skemmtileg. Mér finnst þau líka vel upp alin hér á Skaganum, þau eru t.d. afar kurteis þegar þau koma í himnaríki til að safna í ýmiskonar áheit, tombólur og slíkt að ég gef þeim iðulega helming eigna minna. Þvílíkur munur fyrir blessuð börnin, líka mig og einhvern karl, að þurfa ekki að ganga heim í svona hálku og bleytu. Svo á að frysta ofan í þetta í kvöld! Arggggg! Það tók mig ekki þessa vanalegu mínútu að ganga heim frá stoppistöðinni á Garðabrautinni, heldur ábyggilega fimm mínútur, ég gat alveg samsamað mig með Vestmannaeyingum sem hafa verið fjóra tíma að komast leið sem tekur þá vanalega 20 mínútur. Þannig séð ...

Tommi og JónasÞótt ég sé að vinna ákvað ég að gamni að kasta teningi til að athuga hvað ég ætti að gera í dag. Möguleikarnir sem gefnir eru á teningnum eru: Lesa, Elska, Spila, Ryksuga, Elda og Þvo. Ótrúlega spennandi.

Nú ... upp kom Ryksuga, líklega það besta sem völ var á. Nú ryksugar elsku Jónas minn af fullum krafti og ég get haldið áfram að vinna.


Kaldranalegheit, björgun og sölumannsstríð vegna stóls ...

StórhríðFremur kaldranalegt var að koma út í morgun en mun kaldranalegra hefur verið að koma út í Kaldrananesi í Kaldrananeshreppi, ég huggaði mig við það. Ekki lagaðist veðrið á leiðinni með Gumma í strætó, heldur versnaði, nú fór þetta hvíta að fjúka um allt, næstum því í skafrenning.

Engin Erla var í strætó svo að ég ákvað að taka 15 alla leið í Ártún hoppa niður (milljóntröppur), upp (lúmsku brekkuna) og taka leið 18 í vinnuna. Bílstjórinn á 18 var mjög laglegur en ekki sérlega gáfaður ... hann ók framhjá stoppistöðinni minni  án nokkurrar miskunnar og samt var ég búin að hringja og alla vega þrír aðrir voru staðnir upp, héldu í stöngina og biðu eftir að komast út. Strætó hélt bara áfram að keyra og keyra ... Þegar hann loksins stoppaði, eftir að við grátbáðum hann um það, vorum við komin svo langt upp í sveit að gangstéttirnar þar eru aldrei mokaðar. Við gengum því nokkur saman, steinþegjandi og kúl, á götunni áleiðis að vinnunni. Bíll sem kom á móti okkur tók stóran sveig, þessi elska, en næsti bíll (jeppi) neitaði að færa sig og nú voru góð ráð dýr. Ekki var sjéns að komast upp á gangstéttina akkúrat þarna en ungi maðurinn sem gekk aðeins fyrir aftan mig hafði haft vit á því að fara upp á hana á betri stað, aðeins fyrr. Hann sá vandræði minn, hættulega jeppann sem nálgaðist skjótt og grimmdarlega, rétti hönd sína út á götuna og ég gat vippað mér upp á gangstétt. Það var svo hált að ég hefði ekki komist upp, líklega bara runnið undir grimma jeppann, þessu nema taka í styrka hönd ... herramannsins unga sem ég tók eftir að er greinilega samstarfsmaður minn þar sem hann gekk inn um sömu dyr og ég. 

TímasprengjaSvo er spáð vitlausu veðri seinnipartinn eða í kvöld. Það er ekkert lát á ævintýrunum! Það var svo ekki allt búið enn, kvöldsölumaðurinn kvikindislegri var búinn að leggja fyrir mig lævíslega gildru og breyta stólnum svo mikið að það hefði orðið mitt síðasta ef ég hefði sest í hann. Mér tókst að laga stólinn og og bjarga þannig lífi mínu og gladdist líka yfir að þurfa ekki að skríða undir borð eftir inniskónum. Tókst að teygja vel á fótunum og smokra þeim nær skónum og það tók ekki nema fimm mínútur. Á morgun þori ég ekki annað en að leita eftir teiknibólum, handsprengjum og slíku. Þetta er stríð, gott fólk!


Af hryllingsbók og kynfræðslu ...

MunkurÞað gengur bara vel að lesa hryllingsbókina eftir Dean Koontz.  Sagan gerist í klaustri og  þegar fjórðungur er búinn af henni er aðeins búið að myrða einn munk. Ekkert annað í sögunni minnir þó á Nafn rósarinnar. Finnst mjög líklegt að tala fallinna eigi eftir að hækka nokkuð ef ég þekki minn mann rétt. Það er orðið svo bjart að hægt er að lesa í strætó á leiðinni heim og það notfærði ég mér óspart í gær á heimleið. Kann ekki við, svona eftir að Spölur lækkaði gangnagjaldið um heilar 100 krónur, að fara fram á meiri lýsingu þar, svona hliðarlýsingu í göngunum. Það væri samt snjöll hugmynd. Svo gæti ég slökkt á þeim með hugarorkunni ef ég vildi dorma ... Odd Thomas er skemmtileg sögupersóna, ungur maður sem býr yfir hæfileikum/náðargáfu sem örfáir í klaustrinu vita um. Hann sér meira en aðrir og veit alltaf þegar hætta er á ferðum. Hann sér "dedd pípúl" og einn af þeim sem hann sér reglulega er Elvis, kóngurinn sjálfur. Jamm, hljómar undarlega. Eftir að Stephen King gerði trúverðugt í einni bóka sinna þegar gosdrykkjasjálfsali tókst á loft og myrti fólk er ég opin fyrir ýmsu. Það tengdist að vísu geimverum og þeim er fátt ómögulegt ...

-   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -   -  

 

Þrír ungir piltar fengu lélegar einkunnir í kynfræðslu. Jói fékk D+, Gummi D- og Nonni fékk F.
„Einn daginn fær tíkin sko að finna fyrir því,“ sagði Jói bálreiður og var að tala um Guðríði kennara.
„Já, við náum henni og klæðum hana úr öllum fötunum,“ sagði Nonni.
„Já, og svo skulum við sparka í punginn á henni,“ sagði Gummi.


Brandarapróf!

Hér koma nokkrir uppáhaldsbrandarar sem hafa verið í Vikunni í gegnum tíðina. Hver finnst þér bestur?

Þrír kettirGuðmundur var að spjalla við Tom, kunningja sinn í Kaliforníu.
„Ég er að fara til La Jolla í næstu viku,“ sagði Guðmundur.
„Þú átt að segja La ‘Hoj-a’!“ greip Tom fram í.
„Ó, ég skil. Við hjónin ætlum að dvelja á El Cajón hótelinu.“
„Þú meinar El Ca ‘Hóne’ hótelinu!“ leiðrétti Tom aftur.
„Úps, ég skil.“
„Hvenær ferðu svo aftur til Íslands?“ spurði Tom.
Guðmundur hugsaði sig um í smástund og sagði svo varfærnislega:
„Veit ekki, annaðhvort í húní eða húlí.“
 

KettirTveir ljóshærðir menn leigðu saman litla íbúð. Eldur braust út í íbúðinni eina nóttina og þeir hlupu út á svalir.
„HJÁLP, HJÁLP,“ kallaði annar þeirra.
„Kannski hjálpaði það ef við kölluðum saman!“ sagði hinn.
„Góð hugmynd,“ sagði sá fyrsti og þeir kölluðu í kór:
„SAMAN, SAMAN ...“

 

Í hverjum krók og kimaGunna gamla dó og Jón, maðurinn hennar, hringdi í lögregluna.
„Hvar býrðu í bænum?“ spurði lögreglumaðurinn.
„Við syðri endann á Kalkofnsgötu,“ sagði Jón.
„Kakkoffs ..., úps, gætirðu stafað þetta fyrir mig.“
Eftir langa þögn sagði Jón: „Hvernig líst þér á að ég dragi Gunnu bara niður á Sæbraut og þið sækið hana þangað?“

Sigfús og Geirþrúður bjuggu í huggulegri íbúðarblokk eldri borgara í Hafnarfirði. Þau urðu hissa þegar drepið var á dyr hjá þeim skömmu fyrir miðnætti eitt mánudagskvöldið. Sigfús fór til dyra og við dyrnar var stór og grimmdarlegur maður sem starði á hann. „Ó, þetta er hræðilegt. Nú verð ég rændur og missi alla peningana mína,“ hrópaði Sigfús og reif í hárið á sér.
„Ég er enginn ræningi,“ urraði maðurinn hneykslaður. „Ég er nauðgari!“
„Guði sé lof,“ sagði Sigfús og andaði léttar. „Þrúða mín, þetta er til þín!“

Kýr og kötturHelga var að spjalla við mann sem beið ásamt henni eftir strætó.
„Segðu mér,“ sagði hún. „Áttu þér áhugamál?“
„Auðvitað á ég mér áhugamál,“ sagði maðurinn. „Ég er með býflugur.“
„Þá hlýtur þú að búa uppi í sveit!“ sagði Helga.
„Nei, ég bý í miðbænum.“
„Í alvöru? Þú hlýtur þá að vera í stórri íbúð.“
„Nei, ég er í tveggja herbergja íbúð.“
„Vá, hvar ertu með býflugurnar þínar?“
„Í skókassa í fataskápnum mínum!“
„Í skókassa? Hve margar býflugur ertu með?“
„Nokkur þúsund, hver nennir svo sem að telja?“
„Þú getur ekki haft nokkur þúsund býflugur í skókassa. Þær deyja!“
„Sama er mér, ég hata þessi kvikindi!“

„Þú kemur seint,“ sagði dökkhærði barþjónninn við ljóshærða barþjóninn.
„Já, ekkert skrýtið, ég varð vitni að hræðilegu slysi á leiðinni. Það var eins gott að ég var búinn að fara á skyndihjálparnámskeið!“
„Hvað gerðir þú?“ spurði sá dökkhærði.
„Ég settist á gangstéttina og beygði höfuðið niður á milli hnjánna til að það liði ekki yfir mig.“

Nýlega sendu Sameinuðu þjóðirnar eftirfarandi beiðni til þjóða heims: „Viljið þið vinsamlegast gefa okkur heiðarlega skoðun ykkar á því hvaða lausn kæmi helst til greina til að koma í veg fyrir matarskort um allan heim.“
Svörin komu mjög á óvart. Afríkubúar vissu ekki hvað orðið „matur“ þýddi. Austur-Evrópumenn skildu ekki orðið „heiðarlega“ og Vesturlandabúar ekki orðið „skortur“. Í Kína vandræðuðust menn með orðið „skoðun“. Í Miðausturlöndum ríkti óvissa með orðið „lausn“ og í Suður-Afríku klóruðu menn sér í kollinum yfir orðinu „vinsamlegast“. Í Bandaríkjunum vissi enginn hvað „um allan heim“ þýddi.

 Nonni litli gat ekki sofið fyrir þrumum og eldingum. Mamma hans reyndi að koma honum niður og var að slökkva ljósið þegar hann hvíslaði:
„Mamma mín, viltu sofa í rúminu mínu í nótt?“
Mamman brosti og faðmaði hann að sér.
„Ég get það ekki elskan,“ sagði hún. „Ég verð að sofa hjá pabba.“
Löng þögn. Síðan tautaði Nonni titrandi röddu: „Gamla veimiltítan!“

Jóna stoppaði á rauðu ljósi. Á afturstuðara bílsins fyrir framan mátti lesa: „Flautaðu ef þú elskar Jesúm.“
Jóna flautaði en bílstjóri fremri bílsins brást ókvæða við, sendi henni dónalegt merki með löngutöng vinstri handar og kallaði: „Sérðu ekki að ljósið er enn þá rautt, kerlingarbeygla?“


Konudagur í skugga kattahára ...

KattahárGóan hófst í dag og strax á miðnætti byrjuðu kettir himnaríkis að fara úr hárum. Sólin hefur skinið grimmdarlega í dag og lýst upp hvern krók og kima þar sem kattahárin hafa smám saman mýkt ásýnd gólfa, breytt lit húsgagna og komið sér þægilega fyrir inni í skápum og skúffum. Konudagurinn hefur algjörlega fallið í skuggann fyrir þessu og ég hef ekki náð að fyllast þeirri eðlilegu beiskju einhleypra kvenna sem fylgir gjafaleysi dagsins.

Heppni annarra kvennaÁ meðan aðrar konur horfa glaðar á glæsilega blómvendi sína, úða í sig vínarbrauðum og kaffi og njóta herðanudds (kynlífs) bíður mín mikið verk, eða að biðja erfðaprinsinn um að ryksuga. Jónas ryksuguróbót er meira en til í að hjálpa honum hvenær sem er en afbrýðisemin sem ríkir á milli þessarra ástkæru drengja minna hefur síst minnkað. Erfðaprinsinum finnst hann of hávær ... sem ég myndi skilja ef hann ynni við efnafræðitilraunir inni í stofu og hver minnsta truflun eða hreyfing myndi orsaka útrýmingu mannkyns.


Hafið, heilbrigðiskerfið, matur og bókmenntir ...

Sjórinn í stuði feb 2008Sjórinn hefur verið afar fallegur í gær og í dag. Sæmilega voldugar öldur sem þó hafa ekki lokkað olíuborna, vöðvastælta brimbrettamenn hingað á Langasandinn. Skrýtið!
Fuglarnir stríða Kubbi og Tomma út í eitt, flögra í stórum hópum, stefna kannski beint á glugga himnaríkis en beygja á síðustu stundu og setjast á þakið. Borga þeim í brauði fyrir skemmtunina.

Röntgenmyndatakan gekk vel í morgun og ég fór ekkert að gráta ... þegar ég fékk reikninginn. Eftir hryllingssögur af sjálfstæðum læknastofum þar sem fólk borgar 20.000 fyrir aðgerð og er fleygt út um leið og það getur staulast á fætur býst maður við öllu illu. Ekki hér á Skaga. Tók innanbæjarstrætó báðar leiðir og fer ekki ofan af því að fólk er farið að nýta sér hann miklu meira núna en það gerði fyrir tveimur árum þegar ég flutti hingað.  

Fóður og fjörNú er elsku „Fóður og fjör“ farið á fullt og hafa undanfarnar helgar, seinnipartar og kvöld verið frekar undirlögð af þessu skemmtilega verkefni (að gera Fóður og fjör sýnilegt). Ég hef verið í sambandi við nokkra af þessum elskum, hótelum og veitingastöðum á landsbyggðinni, og get ekki beðið eftir því að bíll erfðaprinsins komist í lag til að rjúka út á land, hitta þá og borða eitthvað ... hollt, að sjálfsögðu! Ég hvet alla bloggvini mína á landsbyggðinni til að nýta þetta frábæra tækifæri til að lífga upp á skammdegið. Food & Fun í Reykjavík er æðisleg hátíð en alls staðar þar er allt upppantað með löngum fyrirvara og þannig hefur það verið síðustu árin. Ég var búin að lofa erfðaprinsinum að bjóða honum í mat um helgina á Hótel Hamar eða Landnámssetrið í Borgarnesi eða Hótel Glym í Hvalfirði en það verður að bíða. Vonandi tekur Galito hér á Skaganum þátt á næsta ári! Vér Skagamenn kunnum að meta svonalagað!!!

Brother Odd bókinByrjaði á Brother Odd-bókinni á meðan ég beið eftir að komast í myndatökuna og hún virkar bæði ógnvekjandi og hryllileg ... eins og hún á að gera. Svona hryllingsbækur nenni ég að lesa á ensku, annað vil ég helst hafa á ástkæra, ylhýra móðurmálinu. Held að ég sé búin að lesa flestar bækur Dean Koontz og dáist innilega að hugmyndaflugi hans, sama segi ég um Stephen King. Var kannski frekar óheppin með fyrstu Stephen King-bókina, Gæludýrakirkjugarðinn, hún var soldið ógeðsleg.  Lánaði einu sinni Kollu Bergþórs bókina The Dark Half eftir hann, bók sem ég var reyndar ekki búin að lesa sjálf, og henni fannst hún svo ógeðsleg að hún fleygði henni, búin að gleyma að hún átti hana ekki sjálf. Tók mark á Kollu og hef ekki reynt að nálgast þessa bók, harðneitaði að taka við skaðabótum frá henni, fannst eins og hún hefði unnið hálfgert skítverk fyrir mig með því að lesa hana


Frábærir Skagamenn ...

Sama hvert farið er á Skaganum er ekki talað um annað en slysið í gær. Samhugur Skagamanna er einstakur og fólk hugsar greinilega með mikilli samúð mikið til aðstandenda strákanna. Þótt Akranes sé ekki lengur lítill staður þá finnst mér hann samt hafa ákveðna kosti smábæjar, sérstaklega þegar kemur að einhverju á borð við þetta.

Kínversk súpaElskan hann Tommi kom á Skrúðgarðinn þar sem ég sat og úðaði í mig kínverskri súpu eftir átökin í sjúkraþjálfuninni þar sem Beta barðist við gömul stríðsmeiðsl mín. Það urðu fagnaðarfundir, alla vega mín megin, honum finnst ég svikari við strætó að fara svona oft með Ástu í drossíunni og kallar okkur alltaf glyðrur. Ég sagðist reyndar hafa blikkað hann á föstudaginn á Kjalarnesi og hann mig á móti með bílljósunum en Tommi hnussaði og sagðist hafa verið að blikka Gumma. Það er sem ég segi, ekki séns að reyna að binda trúss sitt við strætóbílstjóra, þeir blikka bara hver annan.  

María var með tvo yndislega unglinga í „starfsþjálfun“, man bara að strákurinn heitir Freyr og hann tók dansspor þegar hann færði mér kaffið, algjör sjarmör. Svo kom unga stúlkan eftir smástund til að spyrja mig hvernig mér hefði líkað veitingarnar. Besta þjónusta sem ég hef fengið lengi.

Tandoori-kjúklingurÍ gærkvöldi ætlaði ég að vera rosagóð við okkur erfðaprins og bjóða okkur upp á eitthvað gott að borða. Við hringdum á Galito og pöntuðum okkur mat. Ég gat ekki hugsað mér pítsu, bara gamla, góða Tandoori-kjúklinginn. Sömu fyrirskipanir og áður ... krydda kjúklinginn betur (meira tandoori-bragð) og engar furuhnetur í salatið, takk. Nú ... maturinn var meira kryddaður eins og ég bað um en bara saltari og ég hata mikið saltbragð. Engar furuhnetur voru í salatinu, bara kasjúhnetur (arggg) og ég hata hnetur! Hvílík vonbrigði. Svona getur misskilningur orðið, maturinn hjá Galito er alltaf frábær en þegar ég panta næst ætla ég að vera skýrari í máli. Hvernig átti ég að vita, enda langt síðan ég pantaði síðast, að þeir væru farnir að setja fleiri hnetutegundir (ókei, furuhnetur eru fræ) í salatið? Ég hringdi voða sár og fékk svo ljúft viðmót í símanum að pirringurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu. Kisurnar voru hrifnar af kjúklingnum, alla vega Tommi. Kubbur vill bara þurrmat.

Felicia og Bridget við sjúkrabeð RidgeBrooke er komin að sjúkrabeði Ridge eftir að Stefanía grátbað hana um það, faðmaði hana og lofaði að vera alltaf góð við hana. Nick er frekar óhress, enda búinn að fá hana alla leið til Mexíkó í dekur og daður. Dante er farinn að reyna við Feliciu eftir að Bridget hryggbraut hann. Mér sýndist þau kyssast þegar mér var litið á skjáinn áðan. Jamms, Ridge er að vakna og kominn með lífsviljann aftur. Stefanía grætur. Var ég búin að minnast á að pabbi Brooke, Bobby í Dallas, er farinn að deita Jackie, mömmu Nicks, hún gafst upp á Eric sem giftist alltaf Stefaníu þegar eitthvað bjátar á.


Hvar varð eiginlega um ljóshærða manninn með ættarnafnið?

DóminískaDóminíska lýðveldiðMikið er nú annars gott þegar reglan tekur yfir óregluna, eins og í morgun þegar farið var á fætur um miðja nótt í himnaríki. Ásta var svo rugluð eftir dásamlegu ferðina sína til Dóminíska lýðveldisins að hún brunaði framhjá afleggjaranum mínum á Garðabrautinni en áttaði sig strax á mistökunum og sneri við. Hún er svo brún, afslöppuð og sæt, eitthvað sem tæplega er hægt að herma eftir nema fara hrikalega snemma að sofa nokkur kvöld í röð og bera á sig brúnkukrem.

----------------        -----------------           -----------------         -----------------------

 

Um 1982Fyrrverandi ástkær eiginmaður átti hálfrar aldar afmæli í gær ... og ég gleymdi að óska honum til hamingju með það, best að senda honum hjartnæmt SMS í dag. "Astkaer fyrrv eiginmadur. til ham m afmaelid. gamli geithafur!" Þótt hann hafi ekki boðið mér í afmælið sitt er ekki ólíklegt að mér verði boðið í nokkur slík í ár. Allir eru alltaf með brennivín, ræður, söng og snittur, það virðist tilheyra. Ég kann ekki að halda svoleiðis afmæli. Kannski er ég voða "lummó" fyrst ég ætla að halda sama sið og síðustu 20 árin og bjóða til dýrlegrar "fermingarveislu" í himnaríki þar sem rjómatertur, brauðtertur, súkkulaðitertur og dúndurgott kaffi verða í aðalhlutverki!

StjörnukortÞegar Gulli stjörnuspekingur las stjörnukortin okkar fyrrverandi fyrir ótrúlega mörgum árum fölnaði hann og sagði að það væri allt of kalt fyrir mig (ljón með tungl og venus í krabba) að vera með manni sem væri ekki bara vatnsberi, heldur líka með tungl, merkúr og venus í vatnsbera og hvað þá mars í steingeit. Arggg! Ég skildi ekki orð en skildi samt auðvitað við hann í hvelli ... annað ... Anna föðursystir mín sat við hliðina á mér í erfidrykkju Guðríðar ömmu og hinum megin við mig sat þessi fyrrverandi vatnsberi minn. Vorum 18 ára. Ég sagði Önnu að þetta væri kærastinn minn en hún sneri upp á sig, sagði að ég ætti eftir að giftast ljóshærðum manni með ættarnafn. Anna kíkti stundum í bolla og var ansi sannspá. Ég er fegin að ég hlustaði ekki á hana, þá ætti ég ekki erfðaprinsinn. Af einskærri þrjósku giftist ég nefnilega manninum sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn, eða um 24 ára aldurinn. Nú hefur aftur á móti langtíma einsemd kennt mér að sætta mig við ýmislegt þannig að nú mega alveg ljóshærðir karlar (gráhærðir eru ljóshærðir, líka sköllóttir) með ættarnafn (líka nöfn eins og Jói Jóns, Siggi Sveins, Gummi Jóns) fara að láta sjá sig. Auðveldast er að ná í mig milli 17.30 og hálfsex virka daga þegar boldið fer að hefjast.

Þessar pælingar komu bara í kjölfarið á afmæli fyrrverandi eiginmanns, sorrí!


Afmæli og rapparar í strætó ...

Dobba afmælisbarnBolvíkingar og VagnsbörnÍ afmælinu hennar Dobbu í gærkvöldi var allt fullt af Bolvíkingum og sálfræðingum. Ansi góð blanda. Ef Bolvíkingur sjokkeraði gesti kom sálfræðingur í kjölfarið og útskýrði hvað lá að baki og greindi viðbrögð okkar. Við þurftum reyndar engan sála þegar Vagnsbörnin fluttu tónlist.


 -------------------

----------------------

-------------------------

Erpur rappariHilda skutlaði mér í Mosó þar sem elskan hann Kiddi beið eftir að flytja okkur á Skagann. Eitthvað var um sellebrittís-gæa á stoppistöðinni og þegar Skagavagninn renndi upp að henni lagðist einn þeirra á gangstéttina og kvikmyndaði dekkin og aðkomu vagnsins. Eins gott að Kiddi er klár ökumaður og lagði flott. Síðan hrúguðust þeir inn í vagninn og ... úúúú ... sjálfur Erpur rappari spurði bílstjórann hvort þetta væri ekki örugglega vagninn á Skagann og allt var kvikmyndað. Held að ég hafi verið sú eina sem þekkti þá því ég sá engan heimta eiginhandaráritun, kossa og svona. Þetta voru svo sem bara ég, unglingsstúlka og karl og svo strákarnir. Ef Rottweiler er enn starfandi, sem mig grunar, gæti Skagavagninn orðið víðfrægur í tónlistarmyndbandi.

Akranesi í gærkvöldLeið strákanna lá í Breiðina, skemmtistað þar sem áður var til húsa Hótel Akranes. Ef ég þekki Skagamenn rétt þá hefur verið mikið fjör í gærkvöldi. Jamms, flottasta fólkið ferðast með strætó ...


Útlitsgallaðir aukaleikarar og nauðsynlegar njósnamyndavélar

Stefanía tengdóHorfði með öðru á boldið í hátíðarlaugardagsendursýningu í dag. Nú er allt vitlaust (eins og alltaf). Ridge fékk hjartaáfall, rifu á ósæðina, og kallar stöðugt á Brooke sína sem er í lúxusferð í Mexíkó með Nick sínum. Merkilegt hvað persónurnar hafa notað hjartaáföll til að stjórna fólkinu í kringum sig. Áður en Ridge hneig niður sagði hann við móður sína að hún hefði eyðilagt líf hans. Stefanía hóf leit að Brooke og þegar ég kom upp úr baðinu sá ég að hún var komin til Mexíkó og grátbændi Brooke um að koma að sjúkrabeði Ridge. Nick varð ekki hress á svip, ber að ofan og svona. Enda var þetta þannig ferð.

Á Bold-háskólaspítalanum er þess vandlega gætt að hafa aukaleikarana örlítið útlitsgallaða og ég hef aldrei áður séð í þessum þáttum eins mikið samansafn af feitum rössum. Það undirstrikar líklega glæsilegheit og gallaskort aðalleikaranna. Varir Taylor nutu sín a.m.k. ósegjanlega vel á sjúkrahúsganginum.

Hilda systir er á leiðinni með fullan bíl af börnum og við ætlum að hittast í Skrúðgarðinum. Fattaði ekki að segja henni að hún gæti ekki viðrað börnin á sandinum, það er enginn sandur. Háflóð nú um miðjan dag. Líklega dríf ég mig síðan með henni í fimmtugsafmæli vinkonu okkar kl. 18 í höfuðborginni. Heilsan skánar með hverjum klukkutímanum. Get þá tekið elsku hjartans strætó til baka kl. 20.45. Í fjölskyldufréttum er annað helst að Mía systir ætlar á Ladda-skemmtunina í kvöld. Meira útstáelsið á þessari fjölskyldu.

invis-straumur-reykjavk-axis233d-2008-02-16-142814Nú þjáist ég af valkvíða. Eyjan er komin með vefmyndavél í miðbænum;  http://eyjan.is/webcam Þar get ég fylgst með nýjustu tískustraumum landans og slagsmálum, staðsett flotta menn með einmana blik í augum og séð hverjir eru kaffisjúkir, sjá rauða, lága húsið fyrir miðri mynd sem hýsir Kaffitár í Bankastrætinu.

Hvenær á ég nú að hafa tíma til að vakta Kötlu? http://ruv.is/katla/   Hvað gerist svo þegar þeir druslast loks til að hleypa almenningi að Eldeyjarvefmyndavélinni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 637
  • Frá upphafi: 1505990

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 514
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband