Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Drjúg eru morgunverkin ...

PáskamorgunverðurVaknaði við klukkurnar, símann og arg í erfðaprinsinum kl. 6.30 í morgun. Aha, Formúla! Fór í ískalda sturtu, gerði morgunæfingar og skellti mér örstutt niður á Langasand þar sem ég hljóp nokkra kílómetra. Það var reyndar háflóð en sannir morgunhanar láta nú ekki smá sjó á sig fá.

Náði að bjarga lítilli stúlku með eldspýtur á heimleiðinni, hjálpa ungum, elskulegum manni að koma sjónvarpi út um glugga og að finna síðasta orðið sem nágranna minn vantaði til að fullráða sunnudagskrossgátu Moggans. Kom mátulega heim í ræsingu Formúlu 1. Fyrst útbjó ég auðvitað staðgóðan morgunverð; hafragraut, spælegg og beikon, bláberjapönnukökur með sírópi, snittur, hrærð egg og pylsur, múslí, kornflakes, kókópuffs, heitt súkkulaði, vöfflur og ávaxtasalat svo fátt eitt sé talið. Ég var alveg lystarlaus, eins og alltaf þegar ég er nývöknuð, og maulaði bara páskaegg með latte-inu sem ég útbjó mér. Formúlan er athyglisverð, tíðindaminni en í síðustu viku, segi ekki meira, fer nú ekki að eyðileggja spenninginn fyrir fólki sem borgar stórfé fyrir að sjá kappaksturinn í ruglaðri endursýningu í hádeginu. Vonast þó eftir rigningu í brautinni en ... það eru bara átta hringir eftir.

Annars bara góðan dag, elskurnar, og gleðilega páska!


Spurningakeppni fjölmiðlanna

Ævar Örn JósefssonpaskaeggSíðustu árin hefur aðeins verið eitt sem hefur gert páskana þess virði að taka sér frí frá vinnu og þurfa að borða góðan mat og páskaegg. Það er spurningaþáttur fjölmiðlanna sem hefur verið á dagskrá Rásar 2 yfir páskana um margra ára skeið. Ég missti af fyrsta þættinum kl. 13 í gær en get án efa hlustað á hann í tölvunni á ruv.is, læt þáttinn í dag ekki fram hjá mér fara. Þriðji þáttur er svo á páskadag og lokaþáttur annan í páskum. Ég hef lifað eftir stundaskrá þessarra þátta, móðgað páskagestgjafa úti á landi (Hildu) þegar ég hef lokað mig af með útvarpi í heilan klukkutíma, alltaf á milli 13 og 14.


Mikið líst mér vel á Hæðina,
nýja þáttinn sem hófst á Stöð 2 í gærkvöldi. Ólík pör, sem er gott, eiginlega bara alveg frábært, því að ég ruglaði alltaf saman liðunum í ástralska þættinum The Block sem var byggður svipað upp. Gulli er flottur sem verkstjórinn.

 


Blessuð börnin ...

Íslensk börn hafa löngum verið talin ódæl og full virðingarleysis gagnvart öllu. Ekki má þó gleyma því að þau eru líka sjálfstæð, uppfinningasöm og kunna að bjarga sér, ólíkt mörgum útlenskum börnum sem kunna varla á klukku fimm ára. Ég las mér heilmikið til um barnauppeldi þegar erfðaprinsinn var lítill og blandaði saman vitneskju úr bókum á borð við Summerhill-skólann, Samskipti foreldra og barna, Hann var kallaður Þetta, Children of the Corn, The Shining og fleira. Þetta gerði æskuár sonar míns bærilegri en ella fyrir mig.

Í stað þess að flengja ...Það er t.d. algjör óþarfi að kalla barnið sitt „Þetta“ til að ná fram hlýðni þess. Mun sniðugra er að beita rödd og augnaráði á sérstakan máta. Það virkaði vel hjá mér. Engin óvirðing, engar flengingar.

Ég gerði reyndar ein mistök. Í augnabliksveikleika leyfði ég syninum að fara í Heimspekiskólann án þess að hugsa um afleiðingarnar. Á meðan ég hafði frið til að horfa á Santa Barbara síaðist eitthvað inn í kollinn á drengnum sem hefði getað verið skaðlegt. Um tíma tókst honum nefnilega að tala mig inn á ýmislegt, t.d. að fá ís á sunnudögum og slíkt. Í einum sunnudagsbíltúrnum okkar fann ég þó leið til að stöðva þetta væl og við höfðum held ég bæði gaman af.

Ég var alltaf frekar frjálslynd þegar kom að háttatíma, enda vissi ég að syfjupirringurinn bitnuðu á þessum nöldrandi kennurum hans og þegar hann var kominn heim seinnipartinn nægði hvasst augnaráð og rétt raddbeiting.

The ShiningÉg leyfði erfðaprinsinum líka að horfa á allar myndir í sjónvarpinu, ekki síst bannaðar. Slíkt herðir börn og kennir þeim að lífið sé ekki bara leikur. Svo sparaði þetta mér mikið fé. Eftir að hann sá Jaws bað hann aldrei framar um að fara í sund. Löngun hans í ferðalög til útlanda hvarf eftir að ég tók flugslysamynd á leigu, þessa sem gerðist í Anders-fjöllum. Hann borðaði heldur ekki kjöt í langan tíma á eftir. Auðvitað faðmaði ég hann ástúðlega og sagði að þetta væru bara bíómyndir en í huganum heyrði ég hringl í peningum.

Eftir að hann sá The Shining stríddi ég honum góðlátlega þegar ég vildi fá frið með elskhugunum og sagði: „Jæja, á ég að láta Jack Nicholson koma og elta þig?“ Mikið gat ég hlegið þegar þessi elska vaknaði stundum öskrandi og hélt í barnaskap sínum að það væri skrímsli undir rúmi og annað slíkt. Svo krúttlegt.

P.s. Mig grunar að það stefni í fallegar öldur seinnipartinn. Þær lofa þegar góðu. Hlakka til á flóði kl. 18. Ekki nóg með þá gleði, heldur sá ég í dagskrárblaði okkar Skagamanna að Sound of Music verður sýnd á Stöð 2 kl. 14 í dag og er að hefjast. Þetta getur ekki verið tilviljun! Góða sjónvarpsfólkið hefur fyllst ljúfri nostalgíutilfinningu við lestur bloggfærslu minnar um börnin í Sound of Music og hviss, bang, skellt myndinni á dagskrá!


Sunnudagur til snilldar

Himnaríki 1180Himnaríki 1184Dvölin á Hótel Glym var dásamleg. Við komum frekar seint á staðinn í gær og fengum úthlutað herbergi nr. 6. Það er á tveimur hæðum og rosaflott. Það var ekki eftir neinu að bíða fyrir svöngu herbergisfélagana, kvöldmaturinn var næstur!
Forréttur: Tígrisrækjur og humar. Aðalréttur: Önd. Eftirréttur: Límónuís. Allt hvert öðru betra!

Hjásvæfan mín, sem vaknaði mjög snemma í gærmorgun, var hræddust við að sofna ofan í súpuna en sem betur fer var engin súpa á borðum.

Himnaríki 1193Það voru frekar margir í mat og ég kannaðist við fólk af Skaganum í salnum. Hjásvæfan sofnaði næstum strax eftir matinn (í herberginu) og vaknaði svo klukkan sjö í morgun til að fara í göngutúr í góða veðrinu þar sem umhverfið var kannað á meðan himnaríkisfrúin svaf á sínu græna til hálftíu. Glymur krefst þess ekki af gestum að þeir rífi sig upp og borði morgunverð klukkan sjö, heldur er hann ekki fyrr en tíu á sunnudögum sem hentaði svona líka vel fyrir svefnglaðari herbergisfélagann í herbergi 6.

Fjörug FormúlaÞrátt fyrir fjölda sjónvarpsstöðva, ITV, Sky, Omega, SkjáEinn, RÚV ofl. sá ég hvergi stöð sem mögulega sýndi frá Formúlunni. Það var nú í lagi, við tékkuðum okkur út og vorum komnar í hlaðið á himnaríki áður en útsendingin (endursýningin) hófst. Mikið fjör á brautinni og aðeins sjö bílar komust í mark. Það er flott að Formúlan, bæði keppnin og tímatakan, sé sýnd í opinni dagskrá.

Hjásvæfan fór heim (eftir marga kossa fyrir boðið) og við erfðaprins tókum stöðuna á Skrúðgarðinum. Bæði kaffi og kökur reyndust í fullkomnu lagi, María í sama góða skapinu og vanalega og gestirnir sælir. Sjórinn er flottur og öldurnar háværar, kettirnir strá hárum um himnaríki eins og þeir fái borgað fyrir það og góð sjónvarpsdagskrá verður í kvöld. Sunnudagar eru að verða bestu dagarnir ... einu sinni voru þeir leiðinlegustu dagar vikunnar að mínu mati.


Fljótlegur og gómsætur kvöldverður með dassi af boldi

Soft tortillasHjartans erfðaprinsinn stendur á haus (orðatiltæki) í eldhúsinu og býr til uppáhaldið okkar, mexíkóskar pönnukökur, eins og við köllum það. Hann setur milda salsasósu á tortillaköku, síðan smá gráðaost, rjómaost og síðast rifinn ost. Svo setur hann aðra tortillaköku yfir. Skellir „samlokunni“ á heita pönnu og snýr henni svo við eftir smástund. Tilbúið þegar osturinn er bráðnaður. Sker svo í fjóra bita. Þetta er hrikalega gott. Gamli ritstjórinn minn, Elín Alberts, kenndi mér þetta í gamla daga og erfðaprinsinn betrumbætti síðar með smá dassi af gráðaosti og rjómaosti, sem gerir þetta ekki verra. Er bara ekki kvöldmaturinn kominn hjá ykkur, bloggvinir kærir?

Brooke og RidgeBold-þátturinn í gær var eiginlega bara endurtekning á mánudagsþættinum, allt það sama sagt en með öðrum orðum, það var fyrst í dag sem eitthvað nýtt gerðist, en varla þó.
„Hvernig fékkstu Taylor til að selja hlutabréfin?“ spurði Jackie, mamma Nicks daðursfull.
Bobby í Dallas: „....“ (þögn). Hann þorði ekki að viðurkenna að hann hefði sofið hjá Taylor, enda vill hann halda Jackie volgri/hott. Þau þamba kampavín og Bobby daðrar á móti, svínið. "Þú er mjög kynþokkafullur," segir Jackie og Bobby kyssir hana. Sú á eftir að verða sár þegar hún fréttir um hjásofelsi hans og Taylor. Vegna leikaraeklu í Hollywood grunar mig að eitthvert árið komi í ljós að Bobby sé ekki blóðfaðir Brooke og þá geta þau byrjað saman. Í þessum þáttum byrjar fólk að sofa saman þegar það kemst að því að það er ekki blóðskylt. Sparar leikara og auðvitað er spennandi þegar allir sofa hjá öllum ...
Stefanía ræðir rólega en af sannfæringu við Brooke um brottreksturinn og biður hana um að láta kærastann, Nick, og pabbann, Bobby í Dallas, ekki hafa þessi áhrif á ákvarðanir hennar. Hún lætur síðan sprengjuna falla og segir Brooke að pabbi hennar hafi sofið hjá Taylor.
Brooke var reyndar búin að fá þá snilldarhugmynd að stjórna Forrester-fyrirtækinu frá höfuðstöðvum Marone-fjölskyldunnar, eða þar sem Nick og pabbi hans ráða ríkjum. Þá þyrfti hún aldrei að hitta Ridge og Nick yrði rólegri fyrir vikið. „Viltu þá skila mér þessum 2%,“ spyr Stefanía en Brooke þrjóskast við. Bridget er orðin skotin í Nick aftur en hann talar bara endalaust um Brooke sína, mömmu Bridgetar.

Til að gleðja ykkur enn meira kemur hér myndband með áhugaverðri söngkonu. Enginn annar en Breiðholtshatarinn sendi mér það. Hann er fundvís á smart efni af Netinu.
http://www.singsnap.com/snap/watchandlisten/play/b9d92189


einkamál.is ...

Einkamál.isÉg hef áður sagt frá því þegar ég fékk þá áskorun um árið að skrá mig á einkamál.is en ég sleppti þó ákveðnum kafla úr. Forsagan er sú að ég hafði sagt eitthvað neikvætt um „svona fólk á einkamál.is“ sem fékk ákveðna manneskju sem ég þekki til að skamma mig fyrir fordóma. Hún skoraði á mig að prófa þetta og sagðist hafa kynnst skemmtilegum mönnum þarna sem væru góðir vinir hennar. Fordómar mínir minnkuðu helling við þetta þar sem þetta er heilbrigð og yndisleg manneskja og fyrst hún þorði ... Þessi kona hjálpaði mér við að skrá mig inn og ég valdi að sjálfsögðu svæðið vinátta/spjall til að losna við áreitni kynóðra perra. Svo beið ég spennt eftir skemmtilegu, heilbrigðu mönnunum sem langaði að spjalla við frábæru konuna í Vesturbænum. Karlmenn eru nefnilega mjög skemmtilegir, sbr. ástkæran Breiðholtshatarann.

einkamalÉg var bæði hrædd og spennt daginn eftir þegar ég sá að mér höfðu borist tugir bréfa. Hátt í 90% þeirra voru þó af perralegum toga, t.d. tíu Kanar af Vellinum sem vildu fá mig í hópskemmtun með sér, góð greiðsla í boði og svona ... ungir strákar um tvítugt sem vildu prófa „eldri“ konu, kvæntir karlar í leit að tilbreytingu og fleira í þessum dúr. Ég sjokkeraðist en „vandaða og góða“ konan sem hafði manað mig upp í þetta sagði að ég væri allt of viðkvæm, ég ætti bara að fleygja subbulegu bréfunum og gleyma þeim. Hún er reyndar töffari sem ég er ekki.

MannarigningÞarna leyndust samt nokkrir (örfáir) sem gaman var að skrifast á við. Einn bar nokkuð af, hann var miklu yngri en ég og virtist bara vilja vináttu/spjall. Honum fannst gaman að kynnast nýju fólki á öllum aldri og ég gat ekki fundið neitt perralegt við bréfin hans. Ég sagði honum í einu bréfinu frá stærsta vandamáli lífs míns þá stundina ... að það þyrfti nauðsynlega að skipta um loftljósið í ganginum á Hringbrautinni, gamla ljósið var brotið og hafði undanfarin 16 ár eða svo sjokkerað alla hávaxna menn sem heimsóttu mig, m.a. erfðaprinsinn, telexprinsinn og fleiri stóra gaura. Nú, þessi elskulegi maður bauðst til að skipta um ljós fyrir mig sem ég þáði og bauð honum í kaffi. Hann fór létt með að skipta um ljós og var hinn skemmtilegasti. Ég bað hann endilega um að kíkja í heimsókn daginn eftir en þá hélt ég upp á enn eitt stórafmælið mitt, 40 og eitthvað. Hann mætti, þessi elska, og þekkti að sjálfsögðu einn afmælisgestinn sem spurði óhjákvæmilega: „Hvernig þekkist þið?“ Ég man ekki hverju ég laug ... en mér fannst þetta afar óþægilegt. Mjög stuttu síðar afskráði ég mig endanlega af einkamál.is. Mér fannst ákveðið frelsi fólgið í því að gefa ekki hverjum sem var færi á því að hella úr sinni andlegu ruslatunnu yfir mig, svona eins og gamli íslenskukennarinn minn í Vörðuskóla hefði orðað það.

Síðan liðu einhver ár. Ég var flutt á Skagann, vinnan mín í Lynghálsinn og lífið var gott. Ég endurheimti æsku mína, sakleysi og trú á mannkynið og gleymdi smátt og smátt þessum vikum mínum á einkamál.is. Lífið hefur þó alltaf lag á því að klína manni upp úr því sem maður vill gleyma, ekki satt?

ArggggEinn daginn fyrir nokkrum mánuðum var ég á ferðinni um hálfátta, rétt ókomin í vinnuna. Það var rigning og ég hlakkaði mikið til að fá mér gott kaffi og setjast svo við skrifborðið. Bíll staðnæmdist hjá mér í portinu og ökumaðurinn stakk höfðinu út og heilsaði. Ég er einstaklega ómannglögg og spurði kurteislega hvaðan við þekktumst. Hann hrópaði glaðlega svo glumdi um Lynghálsinn: „VIÐ KYNNTUMST Á EINKAMÁL.IS!“.

Þetta reyndist vera ungi, indæli maðurinn sem skipti um ljós fyrir mig. Ég leit flóttalega í kringum mig og held að mér hafi tekist að stynja upp: „Nei, hæ, en gaman að sjá þig,!“ Það var líka gaman að hitta hann, enda góður strákur, það var bara svo hræðilegt að þurfa þarna að horfast í augu við hvað ég er forpokuð, snobbuð og fordómafull. Allar gjörðir virðast hafa ákveðin dómínóáhrif og ég bíð bara spennt eftir því að eitthvað álíka gerist þegar t.d. mamma eða erfðaprinsinn eru með í för.


Draugaskip og dýrðarsónata nr. 11

DraugaskipiðEr enn í losti eftir að hafa horft á byrjunina á mynd á RÚV, Draugaskipið. Þar er fólk köttað í sundur í miðjunni með vír. Algjör hryllingur. Svo er myndin bara bönnuð innan 12 ára. Ætti að vera innan 50 ára svo ég hefði sloppið. Mætti ég þá biðja frekar um sæta tilvistarkreppumynd með t.d. Ben Affleck. Held ég verði að skella mér í bólið með hryllingsbókina mína eftir Dean Koontz og jafnvel klára hana til að sýnir úr Draugaskipinu valdi engum martröðum. Erfðaprinsinn tautaði: “There is a god,” þegar myndin byrjaði, eða það heyrðist mér. Ég ætla a.m.k. ekki að vekja hann ef hann öskrar upp úr svefni í nótt.

Ég leitaði nýlega dauðaleit á youtube að einu uppáhaldspíanóverkinu mínu. Minnti að það væri eftir Mozart og þrjóskaðist sem betur fer við leitina. Var búin að syngja stefið fyrir gæjana í Tólf tónum og þeir sögðu mér hvað það héti en síðan eru liðin mörg ár. Fann svo þessa dýrð mjög aftarlega. Setti inn “piano” og “Mozart” og það borgaði sig. Hér er dýrðin, góða skemmtun: http://www.youtube.com/watch?v=lOfNfa3gcqk&feature=related


Heimsókn, kattadekur og rólegheit

Theodóra, Nói og Óli með AliceFrábær dagur í dag og gestakoman dásamleg. Krakkarnir svo skemmtilegir og Alice litla bræðir hvern sem er. Tíminn líður greinilega mjög hratt, Nói litli er orðinn svo stór að hann fermist núna í vor ... Mikið er gott að vera búin að þessu öllu saman, skíra, ferma og það allt. Ég skipti reyndar árlega um parkett af gömlum vana til að allt sé í góðu standi áður en fermingarnar hefjast. Ný Katrín og Kubbureldhúsinnrétting kemur svo fyrir lokaleikinn á íþróttavellinum við Jaðarsbakka og baðinnrétting er sett upp árlega fyrir síðasta Formúlumót ársins.

 

Katrín og Óli komu færandi hendi með baðbombur, gulrótartertu og ömmusnúða. Gaf þeim unaðslegt kaffi að launum og svo var setið og spjallað. Nói og Theodóra skruppu niður á Langasand og það var ekki fyrr en á flóði sem þau komu loks upp í himnaríki aftur. Mikið er ég ánægð með að þessi frábæra fjölskylda sé flutt heim.

 

Theodóra og NóiHér hefur annars verið tryllingslega rólegt síðan gestirnir fóru. Hvorki útvarp né sjónvarp, bara stöku kattamjálm. Ég er góð við kettina mína en ég dekra þá ekki eins og erfðaprinsinn. Ef Tommi mjálmar á sérstakan máta þá er strax rokið inn í eldhús til að gefa honum eitthvað hrikalega gott; andabringur, gæsalifur, kavíar, demanta, rjóma eða rækjur. Ég stóð Tomma að verki um daginn þar sem hann hámaði í sig þurrmat, sá var skömmustulegur yfir því að borða svona venjulegan kattamat. Kubbur er að vera soldið feit þótt hún líti ekki við þessu sérfæði, ég þarf að fara að finna leisergeislalyklakippuna til að láta hana hoppa og skoppa eftir geislanum, báðir kettirnir elska þetta og hafa sýnt og sannað að þrátt fyrir háan aldur er maður (köttur) aldrei of gamall til að hoppa. Sjálf er ég búin að fá fína hreyfingu í dag. Blessuð sólin glennti sig svo mikið að ég sá fingraför um allt; á hurðakörmum, veggjum og skáphurðum. Held að ég sé búin að útrýma þeim að mestu og losnaði þar að auki við tvö kíló í leiðinni.


Gestir koma til miðdegisverðar

Gestir í himnaríkiSkjótt skipast veður í lofti. Fékk unaðslega upphringingu um hádegisbil og hætti samstundis við bæjarferð, það verður hvort eð er allt fullt af fólki á bókamarkaðnum og örugglega súrar bækur þar ... ég á líka nóg af lyktargóðu efni í bað svo lush má bíða aðeins. Hún Katrín Snæhólm ætlar að kíkja í heimsókn með karlinn og krakkalakkana, líka barnabarnið. Erfðaprinsinn verður bara að fara einn á Mensa-fundinn. Katrín hefur bara einu sinni komið í heimsókn í himnaríki og þá var hún enn búsett í Bretlandi.

Mér þótti leitt að skilja ykkur svona eftir í lausu lofti í gær með BOLDIÐ og þeir sem vilja kíkja á framhaldið geta farið á þessa síðu (hlekkur fyrir neðan) og séð hverjir fara að sofa hjá hverjum, hver keyrir fullur, hver deyr og hverjir giftast og hverjir giftast næstum því. Í gær var þáttur nr. 4820 sýndur. Ég er búin að lesa upp í 4892 og veit því ýmislegt.

http://www.tv.com/the-bold-and-the-beautiful/show/1232/episode_guide.html?season=20&tag=season_nav;next

P.s. Minnir að einhvers staðar í himnaríki leynist bók með sama nafni og fyrirsögnin, gömul glæpasaga í léttum dúr.

Sæt SMS og "stríðsástand" í himnaríki

Sæt SMSLeynivinurinn minn er frábær. Hann hefur dúndrað til mín nokkrum SMS-skilaboðum í dag sem er hvert öðru sætara. Það nýjasta hljóðar svona: Eigðu yndislegt kvöld og njóttu hverrar mínútu. Á morgun bíða þín óvænt ævintýri. Þinn leynivinur. Ég get ekki beðið eftir að komast í vinnuna. Ég lít t.d. á herðanudd (hint) sem stórkostlegt ævintýri.

Erfðaprinsinn (27) sá enga útlitsbreytingu á móður sinni (49) eftir klippinguna þegar hann kom heim í dag. Engin aðdáunarhróp glumdu, ekkert gerviyfirlið sökum hrifningar. Gæti tengst „stríðsástandinu“ sem ríkir í himnaríki ... skoðunum okkar á samskiptum Ísraels og Palestínu. Mér finnst málstaður hans kolrangur og hann gubbar yfir minn.

Minn málstaðurBlessuð bjúgunÉg þykist vera ansi hreint ópólitísk, alla vega vil ég ekki festa mig í neinum sérstökum flokki. Því fannst mér frekar fúlt þegar Árni Sigfússon (22) gaf drengnum pylsu eða tvær eitt árið í kosningabaráttu um borgina og erfðaprinsinn (14) kolféll fyrir Sjálfstæðisflokknum med det samme. Ég sagði Árna frá þessu í beinni útsendingu nokkru síðar á Aðalstöðinni við takmarkaðar vinsældir, bæði hans og tæknimannsins (erfðaprinsins). Held að hjartað slái nú hjá öðrum stjórnmálaflokki. Jæja, best að fara út í búð og kaupa margar, margar pylsur. Nei, bjúgu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 637
  • Frá upphafi: 1505990

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 514
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband