Færsluflokkur: Vefurinn

Stolin snilld

Gat ekki stillt mig um að ræna þessu af síðunni hennar Mögnu sem vinnur með mér, þetta er þrælfyndið og enginn má missa af þessu. 

Þetta byrjar þannig að kona á barnalandi biður um hjálp við að skrifa orðið virðingarfyllst á ensku en hún er sem sagt að skrifa bréf. Hún er hjálparþurfi og skrifar: „Hvernig segir maður „kær kveðja“ á ensku, sorrý er ekki klár í henni, er að senda út til UK vegna gallaða dótsins“
Hún fær svör, þakkar fyrir sig og skrifar:

„Ókei, takk æðislega, ég er geggjað slöpp í ensku, sérstaklega að skrifa hana, getiði sagt mér án þess að drulla yfir mig hvort að það sé hægt að skilja eitthvað af þessu bréfi hehe“

Hún lætur bréfið fylgja með:

Hello
Dóra landkönnuðurI am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray
I by a toy in Iceland from fisher price ,, little people.. and dora explorer and this toy ar maid in China 2002-2007.
One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but i am not sure made 2003.
Are something wrong this toy or?????
What can I do??
Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????
I hope you can anther stand what I am writing
And thank you

Respectfully
XXXXX

Einum notenda á barnalandi.is finnst þetta greinilega jafnfyndið og okkur öllum og ákvað að þýða bréfið hennar beint yfir á íslensku!

Halló.
Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka. Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.
Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.
Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????
Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo að ég geti anther staðið þetta betur????

Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa. Virðingarfyllst 

http://magna1.blog.is  Takk Magna!


Þroski og sálarró

Frænkurnar Freyja og MargrétÞað tilheyrir hreinlega að sofa til hádegis eftir afmælisdaginn sinn. Myndirnar eru komnar inn í myndaalbúmið á bloggsíðunni.
Mig langar enn og aftur að þakka fyrir fallegar kveðjur ... ég veit að maður verður ekki 49 ára á hverjum degi ... en samt! Hehehe!

Munaði víst minnstu að ég fengi litla frænku í afmælisgjöf í gær ... en hríðarverkirnir duttu niður. Þá hefðu foreldrarnir ekki getað annað en látið skíra hana Guðríði. Þau segja reyndar að eldri dóttirin heitií raun Gurrí þótt hún sé alltaf kölluð Freyja.

Stóran, ógnvekjandi skugga bar á skrifborðið nú í þessum skrifuðum orðum og ég leit til hægri til að sjá hvað það væri sem skyggði á sólina. Það var geitungur sem stefndi beint inn um gluggann. Með leifturhraða stóð ég upp, samt full æðruleysis og rósemi, lokaði glugganum og horfði kuldalega á fluguna, grútspælda yfir því að geta ekki terroriserað himnaríki. Ég hef fundið fyrir einstakri sálarró síðan ég varð 49 ára, þetta er ekki fyrsta tilfellið. Kannski fer ég að taka terlínbuxur í sátt en þær voru ímynd hins illa í mínum huga á eiginlega-of-seint-hippaárunum mínum á áttunda áratugnum.


Nördaskapur og sjúklegheit

Veður og sjólagÉg held að ég elski Siglingastofnun Íslands! Mér finnst svo gott að geta kíkt á síðuna þeirra af og til og sjá allt um tímasetningar flóðs og fjöru á Skaganum: http://vs.sigling.is/pages/84  Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar um tíma en ég sá á síðunni að hægt var að senda þeim bréf. Gerði það og fékk mjög kurteislegt og yndislegt bréf til baka þar sem mér var sagt að þetta yrði lagfært, bilun hefði verið í tölvukerfi og unnið í málinu ... og nú er allt komið í lag! Það þarf ekki að gera meira fyrir mig til að vekja ást og aðdáun!
Held stundum að ég sé nörd. Mér finnst nauðsynlegt að kíkja af og til á Kötluvaktina á ruv.is, fylgjast með veðurfréttum og vonast svo alltaf eftir góðu brimi við Langasandinn.

Jæja, nú dugar þessi leti ekki lengur. Best að setja allt á fullt. Nú er sterkur latte kominn inn í blóðrásina og dugnaðargenin blása ákaft til sóknar. Mestu áhyggjur mínar þessa stundina eru þær að sumir hafi skipt um gemsanúmer síðan í fyrra og fái því ekki afmælisboð frá mér. Þótt ég segi við fólk í hverju afmæli: „Sjáumst að ári!“ þarf samt að ýta á eftir og minna á.

Elskan hann Baldvin Jónsson á sextugsafmæli á sunnudaginn. Hann hringdi í mig í gær og bauð mér að koma í bröns á Hótel Sögu og fagna með sér. Við unnum lengi saman á Aðalstöðinni sem hann átti og rak. Þar sem við vitum bæði að besta fólkið á afmæli 12. ágúst urðum við perluvinir. Leitt að komast ekki en ég myndi sannarlega kíkja ef ég ætti þyrlu og hvetja hann við lambakjötssöluna.

Hér koma smá sjúklegheit sem ég hló að sl. nótt þegar ég átti að vera sofandi:
http://www.youtube.com/watch?v=g01Oa31onxw&mode=related&search=
http://www.youtube.com/watch?v=JOaL8_ztmpM&NR=1


Tekjur bloggara, dagskráin og Eiríkur með prik

Fékk áskorun um að birta nokkrar stórmerkar tölur sem ég hef við hendina en fást reyndar í næstu sjoppu eða skattstofu. Nú er hægt að sjá hverjir vinna allan daginn eða hálfan daginn, hverjir eru í skóla, í vaktavinnu og hverjir eru mögulega atvinnubloggarar! Sex af þessum bloggurum eru bloggvinir mínir!

Ríka fólkiðTekjur bloggara
Sóley Tómasdóttir 579.908
Anna K. Kristjánsdóttir 498.579
Kolbrún Baldursdóttir 476.116
Ármann Jakobsson 463.165
Stefán Pálsson 441.574
Þrymur Sveinsson 273.600
Gunnar Hjálmarsson 242.252
Jenný Anna Baldursdóttir 170.318
Óli Gneisti Sóleyjarson 108.723
Jón Valur Jensson 97.986
Katrín Anna Guðmundsdóttir 75.001
Helga Vala Helgadóttir 18.045
Stefán Friðrik Stefánsson 7.292

Aðrir merkir Íslendingar:
Svanhildur N. Vigf.    5.588.898
Gunnar Smári            3.623.430
Júlíus Valsson læknir 2.600.361
Geiri í Goldfinger       1.014.250

 --------- o O o --------

„Reykir þú?“ spurði vellaunaði samstarfsmaður minn, Eiríkur Jónsson, um hádegisbil.
„Já, með hléum frá 13 ára aldri,“ svaraði ég kotroskin, „en aldrei fyrir hádegi!“
„Þú ert ekkert reykingaleg, ég hélt að þú værir fullkomin!“ sagði Eiki karlinn og vann sér inn nokkra punkta.

Er að vinna dagskrána fyrir Vikuna. Ef einhver veit um spennandi uppákomur sem eiga sér stað frá 9. ágúst til 15. ágúst væri gott að fá tillögur. Gay Pride er náttúrlega 11. ágúst og ég mun gera gleðigöngunni skil.

Hlakka rosalega til að fara út í óveðrið í fyrramálið. Vona bara að hviðurnar verði ekki það miklar, yfir 34 m/sek, að strætó fari ekki í bæinn. Þá er ég í ljótum málum. Alltaf mest að gera í vinnunni á föstudögum.


Verslunarmannahelgarsögur og bíórytmi

Verslunarmannahelgin á næsta leiti og þótt best sé að vera heima ætla ég að kíkja í sumarbúðirnar til Hildu. Slepp vonandi við mestu umferðina ef ég fer austur á laugardegi og fer til baka á sunnudegi.

HerjólfurÉg heyrði nokkrar góðar verslunarmannahelgarsögur einu sinni ... m.a. um stelpuna sem sást reika um Eyrarbakka eldsnemma á mánudagsmorgninum. Konan sem var fyrst á fætur á Eyrarbakka mætti henni og stúlkan spurði hana hræðslulega: „Hvar er ég?“
Konan: „Þú ert á Eyrarbakka!“
Stúlkan: „Á Eyrarbakka? En ég bað strákana að skutla mér í Eyjabakkann í Breiðholtinu.“

Eða blindfullu stelpurnar sem seinnipart föstudags stigu út úr rútunni á Siglufirði, litu í kringum sig á allt síldarævintýrið og spurðu: „Hvar er Herjólfur?“

Besta verslunarmannahelgarsaga sem ég hef heyrt er reyndar í nýjustu Vikunni sem lífsreynslusaga. Hún er bráðfyndin og auðvitað dagsönn. Blaðið kemur út á morgun. :) 

Sit heima og vinn í dag, engin strætóævintýri fyrr en í fyrramálið. Ásta ætlaði að kíkja á mig í gær og ég ákvað að leggja mig, var eitthvað svo kalt og sá rúmið mitt í hillingum, mjög, mjög sjaldgæft að degi til. Það slökknaði á mér í nokkra klukkutíma. Svo hringdi klukkan í morgun kl. rúmlega sex en það var ekki séns að hreyfa sig. Skrýtið að grípa allar pestir þessa dagana, er ekki sátt við það. Samkvæmt bíórythmanum mínum getur þetta passað ... líkamlega heilsufarslínan er næstum í botni, fékk nefnilega ímeil frá uppáhalds-netstalkernum mínum, spákonunni henni Rochelle, sem lofar mér stöðugt gulli og grænum skógum, eða bjartri framtíð ef ég bara kaupi einn töfrastein af henni eða eitthvað slíkt. Prófaði að setja afmælisdaginn minn inn og þá verð ég víst í fullu fjöri. Þegar kemur fyrir að allar línurnar eru í botni þykir það slæmt og ég sá einu sinni í Mogganum að leigubílastöð í Japan gefur bílstjórunum sínum frí þessa botndaga þeirra. Margt skrýtið í kýrhausnum.

Hér er hlekkur á bíórythmasíðu: http://www.bio-chart.com/ Skellið bara inn fæðingardegi og ári til að sjá hvort dagurinn ykkar er góður eða slæmur ... eða þannig.

Einkamal.is - framhald

Var beðin um að birta afar kvenfjandsamlegan lista yfir blekkingar kvenna sem stunda veiðar á einkamal.is. Til að jafna leikinn gerðist ég líka karlfjandsamleg. Góða veiði ...

Konur sem auglýsa eftir mönnum

einkamal.is 1Mjúk: Akfeit.

Stór: Mjög, mjög feit.

Ljóshærð: Með litað hár.

Rauðhærð: Notar Henna sjampó.

Há og grönn: Þjáist af lystarstoli.

Glæsileg: Hrokafull snobbhæna.

Listunnandi: Brjáluð snobbhæna.

Hefur góðan húmor: Kjaftaskur.

Rómantísk: Aðeins fögur við kertaljós.

Rúmlega þrítug: 39 ára.

Rúmlega fertug: 49 ára.

Opin: Yfirþyrmandi, á enga vini.

Falleg: Í afneitun.

Ber aldurinn vel: Um sjötugt.

Hlýleg: Eigingjörn, kaffærir menn í ást.

Hagsýn: Ógeðslega nísk.

Umhyggjusöm: Móðurleg ... „vertu með trefil elskan!“.

Sjálfstæð: Einfari.

Vill engin höft: Er stelsjúk með vott af íkveikjuæði.

Dýravinur: Klikkuð kerling sem safnar köttum.

Jarðbundin: Hundleiðinleg.

Börn ekki fyrirstaða: Er á nippinu með að fara í sæðisbanka.

Andlega sinnuð: Er í sértrúarsöfnuði.

Nýaldarsinnuð: Snarbiluð.

Einlæg: Algjör lygalaupur.

Þroskuð: Hrukkótt skrukka.

Ungleg: Þegar þú horfir á hana í gegnum dökk sólgleraugu.

Leið húsmóðir: Vill að maðurinn hennar fái að horfa á.

Er á milli sambanda: Búin að gera hina gæjana gjaldþrota, leitar að fyrirvinnu.

Leitar að föstu sambandi: Pantaðu prestinn strax!

 

Karlar sem auglýsa eftir konum

einkamal.is 2Hress: Vill gera það fyrir framan sjónvarpið yfir fótboltanum.

Fagmaður: Hreykinn eigandi Wolksvagen bjöllu. Gyrðir skyrtuna ofan í nærbuxurnar.

Efnaður: Ég á nóg til að bjóða þér í glas ... en þú verður að endurgjalda það.

Rómantískur: Les kvennablöð og segir við þig hluti sem hann heldur að þú viljir heyra.

Vel gefinn: Segir stað konunnar vera á heimilinu.

Myndarlegur: Monthani

Aðlaðandi: Eyðir löngum stundum á baðherberginu við snyrtingu. Notar rakspíra í óhófi.

Vel á sig kominn: Ekki búast við meiru en sjortara frá honum því hann er alltaf á leið í ræktina.

Frambærilegur: Þolanlegur við kertaljós.

Ævintýramaður: Finnst í lagi að sofa hjá vinkonu þinni líka.

Leitar að hlýjum, vitsmunalegum félagsskap: Vill eftirmiðdagskynlíf án nokkurra skuldbindinga.

Þroskaður: Í útliti, en er þriggja ára inn við beinið.

Samræðugóður: Hefur engar skoðanir.

Heiðarlegur: Algjör lygari.

Virðulegur: Gráhærður, líklega samt sköllóttur.

Ljóðrænn: Semur rímur sem hann sendir konum sem hann er skotinn í.

Hugsunarsamur: Muldrar TAKK þegar þú tekur illa þefjandi sokka af honum upp úr gólfinu og setur í óhreina tauið.

Víðsýnn: Gengur í kloflausum nærbuxum. Spenntur fyrir sadó/masó.

Vill samband án skuldbindinga: Kvæntur.

Blíður: Óöruggur og ósjálfstæður og leitar að staðgengli móður sinnar.

Bangsalegur: Feitur, sköllóttur og loðinn á skrokkinn.

Aldur skiptir ekki máli: Örvæntingarfullur, eltist við allt sem gengur í pilsi.

Óheftur: Brjálaður flagari.

Vill yngri konur: Saurlífisseggur.

Ungur í anda: Að verða sjötugur.

Bisnessmaður: Er með bás í Kolaportinu um helgar.

Svolítið þybbinn: Ógeðslega feitur.

Rekur eigið fyrirtæki: Atvinnulaus.

Menntaður: Með barnaskólapróf.

Fjármálaráðgjafi: Varhugaverður tryggingasali.

Grannur: Horaður, vannærður aumingi með innfallna bringu.

Snyrtilegur: Er ekki kominn út úr skápnum.


Ofurhetujuraunir í morgunsárið og ... Will og Grace!

StrætóVaknaði nokkurn veginn alheil og mun minna kvefuð eftir 12 tíma sæmilega ótruflaðan svefn. Er samt YFIR-útsofin því að mér fannst bílstjórinn eitthvað svo skrýtinn í morgun. Kórónan sem hann er vanur að bera reyndist vera hárið á honum og farþegarnir voru fremur hversdagslegir. Held að það sé ekki sniðugt að fara svona vel vakandi í strætó aftur. Þá þarf ég pottþétt að finna nýtt nafn á sætukarlastoppistöðina. Las Leyndarmálið á leiðinni í bæinn fyrst ég var svona upptjúnuð. Miðað við það ógeð sem ég hef á sjálfsræktarbókum gengur mér ágætlega að lesa þessa! Öfundaði sessunaut minn þó af spennubók í kilju en ég áttaði mig á því að ég á þá bók sjálf ... innbundna og ólesna ... arggggggggg! Sumarfríin mín eru ekki nógu löng, hvað þá jólafríin! Held líka að ég sé duglegri að lesa kiljur!

Dáist innilega að sjálfri mér og eiginlega bara finnst ekki ólíklegt að bloggvinir mínir geri það líka! Ekki kannski svona almennt, heldur fyrir að hafa farið í 36 gráða kalt bað í morgun! Hvers konar ofurhetju er ég að breytast í? Vona bara að gæsahúðin fari þegar líður á daginn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem morgundraumabað breytist í ískrapsmartröð.

Will og GraceTókst ekki að lesa nema 30-40 blaðsíður í Potter í gær og gat ekki unnið neitt, var bara lasin og lömuð. Sá aftur á móti hluta af Will og Grace-þætti í fyrsta sinn í marga mánuði og var ekki hrifin. Held að húmor minn hafi ekki breyst, heldur hljóti að vera kominn nýr handritshöfundur sem er ansi mikið groddalegri en sá fyrri. Þetta voru einu sinni drepfyndnir þættir ... nú er t.d. Karen snillingur orðin hálfaumkunarverð og ... hundleiðinleg. Hún var eitthvað að tala um Stanley, manninn sinn, sem hún var að reka að heiman, sýndist mér. Hann er SVO feitur að hluti hans verður kominn út á eftir og restin á morgun. Stökk ekki bros, þetta hefði kannski verið fyndnara ef brottför Stanleys alls hefði verið sama daginn, jafnvel sama klukkutímann. Mér sýndist meira að segja að leikurunum sjálfum leiddist! 

--------               --------     o   - O -   o   ----------           ----------       

Þessi annar skemmtilegast bloggari landsins er kominn með tilgang í lífinu ... sem tengist Moggablogginu: http://hnakkus.blogspot.com/  (muna að ýta á alla hlekkina í tilgangsfærslunni)


Litrík fortíð ...

MennnnnnNú mun ég aldrei þora að skrá mig á stefnumótavefinn einkamal.is aftur (já, ég á mér litríka fortíð). Segjum svo að ég hætti við frelsaða manninn í KFUM og ákveði að freista gæfunnar á Netinu. Þá get ég nú átt von á ýmsu. Fékk þetta sent í morgun til viðvörunar:

Menn á einkamal.is  
Rúmlega fertugur: 52 ára og leitar að 25 ára gellu.
Íþróttamannslegur: Horfir mikið á akstursíþróttir.
Frjálslyndur: Myndi sofa hjá systur þinni.
Myndarlegur: Hrokafullur.
Mjög myndarlegur: Heimskur.
Heiðarlegur: Sjúklegur lygari.
Kelinn: Óöruggur mömmustrákur.
Þroskaður: Eldri en pabbi þinn.
Mjög tilfinningaríkur: Hommi.
Andlegur: Gerði það einu sinni í kirkjugarði.
Tillitssamur: Afsakar sig þegar hann rekur við.

Litríka fortíðin - fréttaskýring
Fyrir nokkrum árum lét ég eitthvað hæðnislegt út úr mér um fólk sem fer á „svona stefnumótavefi“ eins og einkamal.is. Var skömmuð fyrir hroka og ráðlagt að prófa þetta áður en ég dæmdi. Ég tók vinkonu mína á orðinu og hún hjálpaði mér að skrá mig á Vinátta/Spjall. Ekki átti ég von á því að fá mörg bréf en fyrsta daginn kom heill hellingur. Ungir strákar, jafnaldrar erfðaprinsins, sendu mér beiðni um kynlíf með „eldri konu“, sadómasókistar lýstu í smáatriðum hvað væri áhugavert að gera með mér og ungir hermenn á Vellinum buðu mér gull og græna skóga fyrir að „taka“ svona tíu í einu. Það komu líka bréf frá ágætlega heilbrigðum mönnum ... reyndar flestum kvæntum í leit að tilbreytingu ... Ég spurði einn þeirra hvort honum fyndist ekki vera trúnaðarbrestur að skrifast á við aðrar konur á Netinu. Hann hélt nú ekki en móðgaðist greinilega og hætti að senda mér bréf. Æ, æ.
Eftir að hafa bitið á jaxlinn um tíma gafst ég upp og skráði mig út. Hugsa að margir karlarnir á einkamal.is hafi velt fyrir sér hvað varð um „Hot sexy-lips“ ... DJÓK!!!! Man ekki einu sinni hvaða dulnefni ég valdi mér. Þarna lauk æsku minni og sakleysi endanlega. Já, ég veit ... er ekki töffari, gat ekki einu sinni hlegið að þessu, fylltist bara hryllingi yfir sumum bréfunum. Núna fyrst finnst mér þetta að verða fyndið og tel mig vera nokkuð lífsreyndari.
Frétti seinna af konum sem stunda einkamal.is til þess að kvelja kvænta menn sem eru í leit að alvörutilbreytingu. Þær þykjast vera til í tuskið og samþykkja stefnumót. Þegar hann síðan mætir á staðinn hittir hann fyrir nokkrar illskeyttar konur sem skamma hann og segja honum að hunskast heim til konunnar og barnanna. Skyldi þetta vera satt?

Í stað þess að grúfa mig ofan í Potter í gærkvöldi horfði ég á myndina Ghost Rider og hafði gaman af. Hver nýtur þess ekki að horfa á Nicholas Cage sem logandi sendiboða skrattans en góðmenni inn við beinið? Mun segja strætóbílstjóranum undan og ofan af söguþræði GR til að hann fyrirgefi mér Potter-svikin. Nú verður unnið heima í dag, eins og iðulega á þriðjudögum, enda næg verkefnin. Er gapandi hissa ... Brooke og Eric hafa greinilega gift sig, Stefaníu til hrellingar. Þau hefja brúðkaupsnæturkeliríið þrátt fyrir að Stefanía sé á staðnum til að vara fyrrum eiginmann sinn við kvendinu. Eric hefur verið kvæntur Brooke áður og veit ... Samt er Stefanía búin að ryðja brautina fyrir Brooke og Nick með því að segja hinni óléttu Bridget, dóttur Brooke að Nick sé skotnari í mömmu hennar. Tókst ekki að njósna meira um nágranna mína í næsta stigagangi.


Sætari fyrir eða eftir brottnámið ... og tillaga um breytingar á Írskum dögum

Indverskur kjúklingarétturMamma og erfðaprinsinnFékk notalegt símtal um kvöldmatarleytið. Stóra systir bauð mér í kjúkling. Mágur minn sótti mig á nýja, flotta, svarta bílnum og haldið var til veislunnar. Við ókum fram hjá tjaldstæðinu á leiðinni ... og þar var nú hálfgerð rúst, sumir höfðu bara skilið tjöldin eftir. Finnst ekki ólíklegt að dagskrá Írsku daganna verði eitthvað breytt í kjölfarið. Kannski verða bara þjóðdansasýningar, reiptog og aflraunir, og allt endar svo í spennandi bingóorgíu í Bíóhöllinni. Það ætti að fæla drykkju- og ofbeldisboltana frá. Þeir hafa kannski verið 1% af gestum en settu ljótan svip á. Aðkomumenn, auðvitað. Eflaust Reykvíkingar úr Breiðholti, sagði Mía systir og mamma þóttist ætla að berja hana. Mamma er nefnilega hamingjusamur Breiðhyltingur. Já, mamma var í heimsókn hjá Míu og ég var hálfkvíðin að hitta hana ... eftir að Morgunblaðið birti játningu mína um fyrsta kossinn. Bjóst við skömmum: „Hvað varstu að gera á balli svona ung? Hvernig datt þér í hug að kyssa ókunnugan strák?“ Komst að því að mamma hefur orðið frjálslyndari með árunum og fannst þetta allt í lagi. Hún viðurkenndi þó að hún hefði ekki verið ánægð 1972 með þetta ef hún hefði vitað ... þess vegna segi ég: Höfum unglingana okkar í hlekkjum til þrítugs! Við vitum ekkert hvað þau eru að gera!
Myndin t.v. hér að ofan er af háttvirtri móður minni með erfðaprinsinn, c.a. tveggja ára. 

Lítil vinkona í brúðkaupsveislunniFéll kylliflöt fyrir enn einni Önnunni í brúðkaupsveislunni. Þetta var nokkurra mánaða stelpa sem ég fékk að halda á og við smullum svona líka vel saman. Komst að því að virðuleg móðirin er vinkona Rúnar sem bjó í íbúðinni á móti minni á Hringbrautinni. Rún bjó við það harðræði að hafa bara RÚV á heimilinu og kíkti stundum í heimsókn og fékk að horfa með mér á MTV. Stundum kíktu vinkonur hennar með og þá var fjör. Man vel eftir einu skiptinu þar sem við sátum þarna nokkrar 12 ára og skemmtum okkur yfir Space Man með Babylon Zoo. Það kom í minn hlut að útskýra fyrir þeim að myndbandið fjallaði um venjulegan mann sem geimverur rændu og breyttu ... úúúúúú ... og ein þeirra varð hálfhrædd við myndbandið á eftir. Sorrí.

Óttalegt súkkulaðikvikindi ...Man hvað við Guðrún vinkona vorum algjörlega á öndverðum meiði um hvort hann væri sætari fyrir eða eftir. Hún sagði fyrir, þar sem hann var ósköp venjulegur jakkafatagæi, en mér fannst hann miklu flottari eftir brottnámið ... kominn í blátt pils og allt. Hann er nú óttalegt súkkulaði samt ...
Jamm, svona getur nú komið fyrir góðar konur þegar þær eru tónlistarsveltar í næstum 20 ár og fá svo MTV, sem var skrambi gott í kringum 1995. Hætti að hlusta á nýja tónlist þegar diskóið hélt innreið sína, fannst það skelfilegt (fyrirgefðu Palli). Vaknaði svo upp úr tónlistarkómanu 95. Hér fyrir neðan er lagið Space Man. Hvort finnst ykkur gaurinn sætari sem hallærislegur hagfræðingur eða rosasæt geimvera? Svör óskast!
http://www.youtube.com/watch?v=uE8G-sJ2f4s


Að missa alltaf af öllu ...

Tommi hugumstóriSkrýtið hvað mér gengur illa að vera á réttum stað á réttum tíma. Þegar Skagastrætó hlekktist á í brjálaða veðrinu sl. vetur fékk Sigþóra alla spennuna, lögguna og allt, en ég var í vagninum klukkutíma fyrr með Tomma hinum trausta sem lætur ekki smárok koma sér úr stuði. Stundum hefur eitthvað spennandi gerst, eins og bilun í miðjum Hvalfjarðargöngum, en virðist bara gerast á þriðjudögum þegar ég er heima við skriftir.

Var þó svo heppin einn sunnudaginn að þurfa að bíða í heilan klukkutíma eftir strætó í Mosó en vagninn af Skaganum komst lítið áfram í tjaldvagnaumferðinni. Að sjálfsögðu myndaðist góð stemmning á stoppistöðinni, enginn nöldraði, heldur litum við á þetta sem tækifæri til að þroska okkur og efla þolinmæðina.

Nú er ég t.d. illa fjarri góðu gamni þegar mikið er um að vera uppi á Höfða, glugginn fyrir aftan mig í vinnunni er nefnilega frábær útsýnisgluggi þar sem sést m.a. alla leið upp á Skaga, og haldið að væri gaman að geta fylgst með slökkviliðinu á milljón núna í stað þess að horfa bara út á sjóinn sem varla bærist? Mikið skil ég manninn hennar Elfu vinkonu að vilja frekar vera í slökkviliðinu í Seattle en vinna sem arkitekt. Fann mynd af Tom í gær og ætla að deila með ykkur nokkrum sögum sem hann sagði mér þegar ég heimsótti þau hjón 2002.

Nú rennur moðvolgt vatn í baðkerið en stríðna blöndunartækið með gervigreindina er stillt á hæsta hitastig. Ef ég tek pollíönnu á þetta ... þá er ég þakklát fyrir að vatnið skuli ekki vera kalt, eins og stundum. Ketillinn fær líklega frí í dag. Þetta ætlar ekki að lagast af sjálfu sér. Best að tala við húsfélagsformanninn ef hann er í landi núna!

Fann ógurlega fallegt lag á Youtube og sá söngvarann í fyrsta skiptið á meðfylgjandi myndbandi. Fannst hann svolítið Richard Clyderman-legur en röddin klikkar ekki. Góða skemmtun!

http://www.youtube.com/watch?v=gehERn5QiSQ


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 832
  • Frá upphafi: 1515927

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 705
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband