Færsluflokkur: Vefurinn

Af ruslpósti ... eða hvað

Í tilefni bóndadagsÉg fékk þessa mynd senda í tölvupósti en veit ekkert hvernig hún virkar, hef aldrei verið sterk í að sjá í gegnum sjónhverfingarmyndir. Ef maður starir nógu lengi á hana á maður að sjá hafið. Ég, sem er vön, sé hafið á hverjum degi, get engan veginn komið auga á það á þessari mynd.

Á glerborðiJamms ... sum ruslpóstbréf geta verið fyndin. Mér fannst kisumyndin mjög fyndin þegar ég fékk hana í pósti í dag. Gerður í vinnunni spurði mig auðmjúklegast um leyfi, hún veit að ég HATA ruslpóst. Sérstaklega sæta kettlinga eða ungbörn með texta sem segir að ég detti í lukkupottinn ef ég sendi tíu vinum mínum þetta keðjubréf. Arggggg!


Af gabb-bloggi og kommentakiller

Enginn HrólfurKommentaði í dag hjá manninum sem er núna í sjötta sæti yfir vinsælustu bloggarana á mbl.is. Hann eyddi kommenti mínu út, eins og það var saklaust.
Gat bara ómögulega skilið hvers vegna fólk fellur í gryfjurnar hans og tryllist yfir skoðunum hans. Hann talar illa um allt, vinstri pólitík, geðfatlaða, herra Ísland, einkamál.is og Ómar Ragnarsson, las ekki lengra. Ég vildi að hann næði því að vera eins og Hrólfur. Ó, ég sakna Hrólfs. Hrólfur bloggaði um fylleríin sín, mömmu sína sem tók til í íbúðinni hans, lánaði honum peninga og keypti hamborgara handa honum þegar hann var þunnur. Hrólfur var hræðilegur og brjálæðislega fyndinn en reyndist vera plat sem tókst svona líka frábærlega vel. Sumir misstu sig á síðunni hans og virtust vorkenna mömmu hans mikið. Svo opinberaði hann sig, án nafns þó, og sagðist bara hafa verið að djóka. Þessi er það líka, nema því miður of nastí í tilraun sinni til að vekja athygli. Ekki leyfa honum að hækka í ykkur blóðþrýstinginn, kæru bloggvinir. Honum tekst líklega ekki að eyða þessarri færslu minni nema hann sé í klíkunni hjá tölvufólki mbl.is. Hér er hann:  http://hrodmar.blog.is/blog/hrodmar/

Einu sinni hélt ég að Jenný megakrútt hefði eytt út kommenti hjá mér. Ég ætlaði að vera rosalega fyndin hjá henni og spurði í kommenti hvort það væri kominn vírus í bloggið hennar þar sem einn alræmdur ofsatrúarbloggari hafði kommentað hjá henni, líklega skammast eitthvað. Þarna hafði ég greinilega gleymt að ýta aftur á send eftir að hafa tengt mig á nýjan leik. Sama bilun og er í gangi núna. Það er svona þegar maður ætlar að vera rosalega fyndinn!

Jamm, annars hefur dagurinn verið ágætur. Ég dett þó sífellt úr tengingu við bloggið mitt og því er ákaflega erfitt að kommenta, ja, bara almennt að blogga. Ég gafst upp eftir Hróðar Véstein. Í kjölfarið datt ég niður í vinnu svona í rólegheitunum á sunnudegi, sem þýðir að ég get slakað á í jólaklippingunni á þriðjudaginn.


Ókristilegar bíómyndir og sýnishorn úr Gyllta áttavitanum

Fann ansi áhugaverðan lista yfir tíu ókristilegustu bíómyndir allra tíma, myndir sem væntanlega geta gert saklaust fólk trúlaust ... Hér er listinn:

Carrie1.         The Canterbury Tales (1972)
2.         The Meaning of Life (1983)
3.         The Boys of St. Vincent (1993)
4.         The Magdalene Sisters (2002)
5.         The Name of the Rose (1986)
6.         Jesus Camp (2006)
7.         Dogma (1999)
8.         Footloose
9.         Priest (1995)
10.       Carrie (1976)

Veit ekki alveg hvenær á að frumsýna Gyllta áttavitann á Íslandi, fyrstu myndina af þremur, gerðar eftir ævintýrabókum Philips Pullman sem eru mjög skemmtilegar að mínu mati. 

Fann fyrstu fimm mínúturnar af myndinni á youtube.com, eins og svo margt gott annað. http://youtube.com/watch?v=uxt72D9E-X4


Veðurleynd á Íslandi?

Veðurblogg eru bestu bloggin, með fullri virðingu fyrir öðrum bloggum. Samkvæmt uppáhaldsveðursíðunni minni, erlendri að sjálfsögðu, verður veðrið svona á Akranesi á næstunni:

VeðurFöstudagur 7. des: Hálfskýjað, SSA 5,4 m/sek, 1°C,

Laugardagur 8. des: Léttskýjað, A 5,1 m/sek, 0°C.

Sunnudagur 9. des: Sól, ANA 3,3 m/sek, -2°C.

Mánudagur 10. des: Skýjað, ASA 8,1 m/sek, -2°C.

Þriðjudagur 11. des: Rigning, SA 6,8 m/sek, 4°C.

Miðvikudagur 12. des: Rigning, ASA 6,6 m/sek, 1°C.

Fimmtudagur 13. des: Grenjandi rigning, VSV 15,2 m/sek, 3°C,

Föstudagur 14. des: Rigning, ASA 16,2 m/sek, 5°C.

Laugardagur 15. des: Léttskýjað, S 9,9 m/sek, 4°C.

Svona eiga veðurspár að vera. Það segir mér lítið ef talað er um að lægð sé á leiðinni. Ég vil vita upp á hár hversu sterkur vindurinn verður og hvaðan hann blæs. Það er upp á öldurnar að gera. Undir næstu helgi kemur afar spennandi veður, rok og rigning. Mikið er ég glöð yfir því að búa á Íslandi þar sem veðrið er svo fjölbreytilegt. Nú verður gaman að sjá hvort þetta rætist. Skil ekki hvers vegna ekki eru til almennilegar veðursíður á Íslandi. Hvort sem spár rætast fullkomnlega eða ekki er samt mjög gaman að sjá hvaða líkur eru á hvernig veðri eftir t.d. viku. Ég er þegar búin að panta mér hótelherbergi í Reykjavík á fimmtudaginn og afboða eitt blint stefnumót á Skrúðgarðinum hér á Skaganum. 


Ævintýrahöfuðborgin

HH á ísskápnumHvað er Hermann Hreiðarsson að gera á ísskápnum mínum?“ spurði ég erfðaprinsinn skömmu eftir heimkomu í dag. Ég tók allt í einu eftir því að einn flottasti íþróttamaður landsins glápti illilega á mig þegar ég var að búa mér til kaffi. Fátt varð um svör en ég kvarta ekki. Hann er orðinn ósköp skrautlegur ísskápurinn, m.a. nokkrar myndir af sjálfum erfðaprinsinum frá því hann var lítill og sætur. Nú er hann bara sætur. Hilda er þarna líka og Elvis Presley.

Stærsta hús í heimiVið Inga byrjuðum í Rúmfatalagernum í Smáratorgi og ég gekk út með fjögur teppi. Tvö svo hroðalega ódýr að það hefði verið bjánalegt að kippa þeim ekki með. Við fórum með fenginn út í bíl og svo var gengið yfir bílastæðið til að kíkja á nýju leikfangabúðina í stærsta húsi í heimi sem verið er að byggja í Kópavogi. Við vorum  báðar svo fátækar þegar börnin okkar voru lítil að okkur datt í hug að bæta þeim upp æskuna núna þegar við erum orðnar svona ríkar ...  Hvorug okkar er orðin nógu gömul til að verða amma þannig að við höfðum eiginlega enga afsökun fyrir því að ganga í gegnum búðina. Þarna var eitthvað um tómar hillur og heilmikið um börn með blik í auga.
 

Kommóðan guðdómlegaÁður höfðum við kíkt inn í Pier, nýja búð við hliðina á Toys-búðinni, sem opnaði í gær. Hún er óhugnanlega flott, eiginlega bara sjúklega æðisleg! Verðið á sumu þarna var líka ansi gott og þá er ég ekki að tala um hátt. Án þess að hafa ætlað að kaupa nokkuð féll ég kylliflöt fyrir míní-kommóðu án þess að vera mikið fyrir mínídót. Litirnir á skúffunum heilluðu mig algjörlega. Það kemst ansi lítið í skúffurnar, verð að viðurkenna það, varla eldspýtustokkur ... en erfðaprinsinn, stórhrifinn, sagði að hlytum að finna not fyrir þetta með tímanum. Hann fékk stórt og þykkt og grátt flísteppi úr RL, mitt teppi var svart og hvítt og fínrósótt, hrikalega mjúkt. Ódýru teppin voru ekki svo slæm heldur.

Það var alltaf eitthvað í gangi alla bæjarferðina. Ég sá t.d. lögguna í slag við skátaflokk, virtust vera mótmæli, og allt voða spennandi, blikkandi ljós og íslenski fáninn á fleygiferð, en Inga vildi meina að skátarnir væru bara í skrúðgöngu og löggan að liðka fyrir umferðinni. Mér finnst mín saga betri. Svo var haldið í Taco Bell sem er til húsa í KFC í Hafnarfirði, það vissi ég ekki. Inga valdi, enda vön, pantaði og borgaði sem var voða kósí. Virkilega góður matur og við drukkum fjalladrykk með.

Enn eitt ævintýriðÞað var ekkert lát á ævintýrunum. Á leiðinni í Taco Bell létum við þvo bílinn og fórum í gegnum nokkur æsispennandi stig á bílaþvottastöðinni. Skvettustigið, árásarstigið, bládraugaganginn, gardínustigið og í lokin Kjalarnes í hviðum-stigið.

Tók með mér Mary Higgins Clark-bókina til að lesa í strætó á heimleiðinni sem reyndist vera algjör óþarfi. Inga ákvað bara að skutlast á Skagann með teppin og kommóðuna og ég fékk að fylgja með, heilir tveir tímar í strætó frá Mosó ... sem hún vissi ekki, þannig að þetta voru bara helber almennilegheit hjá henni.


Stormur í sókn og leyndarmál þulunnar ...

StormurStormStormurinn sem veðurstofan spáði er farinn að láta bæra á sér. Svalahurð á neðri hæðinni skelltist harkalega og í sama mund byrjaði að hvína draugalega í húsinu. Fyrstu regndroparnir féllu. Þetta er ekki byrjun á spennusögu, heldur bara líf mitt í himnaríki sem verður meira spennandi með hverri mínútunni.
Norska veðursíðan spáði rigningu á Akranesi í allan dag en aðeins nokkrir dropar hafa fallið. Ég sé ekki þetta 1,1 mm regn sem hún skrökvar til um ... Hér rignir bara ekki neitt, enn sem komið er. Það lítur þó út fyrir spennandi kvöld. Handklæðin eru tilbúin, þvegin, þurrkuð og straujuð eftir síðustu nótt hinna þúsund handklæða. Versti glugginn lagaðist eftir heimsókn nágranna míns. Þá greip ég hann, bræddi og kíttaði svo í gluggann með honum. Hann hefur ekki lekið síðan.

brotherjustincroweSofie og BenMan einhver eftir þáttunum Karnival sem voru á RÚV á mánudagskvöldum? Ég er orðin langeyg eftir framhaldinu. Í lokaþættinum kom í ljós að Faðir Justin (djöfullinn sjálfur) var pabbi Sofie og mig minnir að Ben hafi tekist að drepa hann. Sofie hvarf á braut og var orðin eitthvað djöfulleg, eins og hún var indæl ... hmmm. Já, mér finnst gaman af svona þáttum.

Björgvin Halldórsson sjónvarpsþulur sagði rétt áðan að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á Stöð 2 í kvöld. Ekki er ég sammála því og ætla bara að leggjast í lestur góðra bóka, eins og sönn fegurðardrottning. Vissuð þið að Björgvin var eitt sinn söngvari, og bara nokkuð frægur, áður en hann sló í gegn sem dimma, töffaða röddin á Stöð 2?


Veður og vandamenn

StormurNú stendur yfir landsleikur á hlaðinu við himnaríki. Sjórinn á þó vinninginn, enda er hann skrambi flottur núna. Núna klukkan 19 er háflæði, 3.91 m, skv. sjávarfalla- og áhlaðandaupplýsingum uppáhaldssíðunnar minar: http://vs.sigling.is/pages/84
(Áhugamál: Lestur góðra bóka, áhlaðandaupplýsingar og heimsfriður.)

Sjálfstjórn mín er aðdáunarverð. Hringt var frá Spron áðan, þótt ég sé með rautt X í símaskránni, og mér boðið kreditkort með alls kyns fríðindum og hárri heimild. Ég hefði ekki hikað við að stökkva á þetta fyrir tíu árum en núna hugsaði ég hratt. Á meðan ungi maðurinn í símanum lét dæluna ganga komst ég að þeirri niðurstöðu að ég hefði nákvæmlega ekkert við það að gera og gæti ómögulega réttlætt það fyrir sjálfri mér. Viska ellinnar að laumast að mér eða hrein og klár skynsemi með dassi af yndisþokka? 

Það eru komin sex ár upp á dag síðan ég nagaði mig harkalega í handarbökin yfir því að hafa sagt upp Fjölvarpinu. Heimurinn getur andað léttar þar sem ég er orðin áskrifandi aftur.

Vont veðurÞað verður brjáluð rigning á morgun og klikkað rok á fimmtudaginn. Haustið heilsar með látum. Er ég rosalega klikkuð að hafa gaman af þessu?

Sól og blíða er eitthvað svo leiðigjarnt veður, ég held að ég gæti ekki blómstrað í slíku veðri þótt reynt hafi verið að telja mér trú um alla ævi að það sé besta veðrið.


Hreinskilni dagsins var í boði Veðuráhugakonustofu himnaríkis ...


Samsærið gegn Moggabloggurum ... og álitsgjafarnir sjö

BloggariFínar athugasemdir hafa komið við síðustu færslu um eineltið gegn Moggabloggurum, takk fyrir þær. Það fer vissulega í taugarnar á mörgum þegar fólk tengir við frétt hér á Moggabloggi og hefur engu við hana að bæta nema „fyndinni“ setningu á borð við: „Vá, maður!“Þau blogg gera verið verulega vond ... Fréttabloggarar eru þó ekki jafnfjölmennir og óvinurinn vill láta vera. Fjöldinn allur af frábærum og vel skrifandi bloggurum er hérna, leitið og þér munuð finna. Hvernig geta líka álit sjö persóna verið marktækt?

Á vonda lista Mannlífs eru Moggabloggarar í miklum meirihluta en enginn Moggabloggari kemst á góða listann. Hmmmm! Held að það sé bara heiður. Það er orðið grunsamlegt hvað Moggabloggið fer fyrir brjóstið á sumum, kannski af því að það er svo vinsælt. Ég kaus það sem eigið bloggumhverfi vegna þess að það er svo notendavænt og tölvubjánar á borð við mig geta sett inn myndir þar. Vélstýran hvatti mig líka óspart til að færa mig af blogcentral.is og ég sé ekki eftir því. (Það hefði þurft kjarneðlisfræðingsmenntun til að skella inn mynd.) Margt sem nýtur almannahylli fer fyrir brjósið á þeim sem þykjast vita best. Bókin Á hverfanda hveli naut t.d. svo mikilla vinsælda hjá almenningi að hún hlaut litla sem enga náð fyrir augum gagnrýnenda fyrir vikið, heyrði ég einhvers staðar.

Álitsgjafar Mannlífs voru: Andrés Jónsson framkvæmdastjóri, Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður, Júlía Margrét Alexandersdóttir blaðamaður, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir rithöfundur, Bolli Thoroddsen verkfræðinemi, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir forseti Skáksamb. Ísl., Helga Vala Helgadóttir lögfræðinemi.  

Ég var einn fjölmargra álitsgjafa fyrir Fréttablaðið á dögunum (þegar Hnakkus lenti í öðru sætinu) og sendi að sjálfsögðu vel ígrunduð, greindarleg, vel skrifuð, fyndin en kurteisleg komment með kjöri mínu á besta og versta bloggaranum. Þau voru auðvitað ekki birt, heldur bara þau sem sjokkera en það virðist vera það sem fólkið vill lesa. Finnst ekki ólíklegt að sama hafi verið í gangi hjá Mannlífi, mest krassandi kommentin birt. Það eru kannski ekki nema örfá atkvæði á bak við þann besta og þann "versta". Fjarri því marktækt. Æ, ég skil þetta ekki alveg. Aðsóknartölurnar hjá Stebba Fr. benda til þess að fólk kunni að meta það sem hann segir og hann hefur engan meitt með orðum sínum, það vinnur kannski gegn honum? Held að margir séu orðnir þreyttir á þessum árásum á Stebba. Ég hef t.d. ógurlega gaman af því að lesa "femínistabeljurnar" (sorrí, uppáhaldsorðið mitt) og get ekki verið meira ósammála álitsgjöfum um Katrínu Önnu og Sóleyju ... og fleira og fleira!

Jæja, þetta átti að vera fréttaskýringarblogg. Vona að mér hafi tekist vel upp, þið hakkið mig annars í ykkur í kommentakerfinu. Ég held að ég kunni að eyða kommentum. Hnegg, hnegg!

Góðan daginn, annars!


Matarboð ... og listinn sjálfur

AðalrétturMatarboðið í kvöld var hjá sjöunda besta bloggara landsins, skv. nýjasta Mannlífi. Nú hugsa eflaust margir, úps, var hún hjá Stefáni Pálssyni, Jónasi Kristjánssyni, Agli Helga eða kannski Mengellu? Onei, það var hjá Nönnu, einu sönnu Nönnu Rögnvaldardóttur, þeirri sem gerði þriðja hvern dönskustíl fyrir mig í landsprófi á Króknum í gamla daga og ég má teljast heppin að hafa ekki verið sett í sálfræðimat fyrir bragðið. Alltaf gaman að rugla góða dönskukennara í ríminu.  

Himnaríki 261Það var þríréttað sem telst ekki til tíðinda á Grettisgötunni, ég hef heyrt af sjörétta veislum þar á bæ, svo ekki sé minnst á Þorláksmessuboðin landsfrægu. Hilda systir segir margt um jólin, enda mikil jólastelpa, og eitt af því er að það komi engin jól nema hafa farið í boðið til Nönnu á Þorláksmessu. Lagt var fínt á borð og ekkert verið að spara silfrið. Fyrst kom einstaklega góður forréttur sem var í hráskinka, grænmeti, furuhnetur og sósa. Aðalréttur var skötuselur og bleikja, steikt með portobellosveppum og borið fram með sætkartöflumús. Í eftirrétt var heimalagaður ís með saftsósu. Maturinn var æðislegur og kvöldstundin mjög skemmtileg kvöldstund. Nanna hló að mér þegar ég fór út á svalir í smók því að ég sogaði að mér í leiðinni andrúmsloftinu í miðbænum. Er komin á þá skoðun að annað hvort vilji ég búa niðri í bæ eða á Akranesi. Sama hamingjan. Nanna tók undir það. Hentugt hvað Nanna býr nálægt Hlemmi svo að ég náði Mosóstrætó (15) á réttum tíma og fannst ekki mjög leiðinlegt þegar ég sá Tomma undir stýri á Skagastrætó, enda varð ferðin heim bara skemmtileg.

Jæja, hér kemur listinn yfir bloggarana, skv. Mannlífi og birt handa þeim sem búa í útlöndum, hinir mega helst ekki lesa.

Bestu bloggararnir:
1. Mengella
2. Stefán Pálsson
3. Jónas Kristjánsson
4. Henry Birgir Gunnarsson (Bolur djöfull)
5. Ármann Jakobsson
6. Eiríkur Örn Norðdal
7. Nanna Rögnvaldardóttir
8. Pétur Gunnarsson
9. Hnakkus
10. Arna Schram

Verstu bloggararnir:
1. Stefán Friðrik Stefánsson
2. Ellý Ármanns
3 Jón Axel Ólafsson
4. Egill Helgason
5. Steingrímur S. Ólafsson
6. Jónína Ben.
7. Björn Ingi Hrafnsson
8. Sóley Tómasdóttir
9. Katrín Anna Guðmundsdóttir
10. Jón Valur Jensson

Þetta er bara hrár listinn, greinin sjálf er upp á fjórar síður.

Ég er ekki sammála öllu þarna, það vantar marga góða bloggara inn á efri listann og nokkrum er ofaukið á hinum.  Vona að ég hafi svalað forvitni útlendinganna minna. Þeir verða að fá að vera með.


Blessuð börnin

Fyrir þá sem vilja hlæja svolítið fyrir svefninn er hér hið fínasta myndband sem sýnir svo ekki verður um villst hvað börn geta verið miklar skepnur:
http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=born&offset=0&id=2519

„Verð á bíl, sæki þig rétt fyrir sjö.“ Þetta hljómar kannski óskiljanlega en í mínum eyrum (augum) hljómaði þetta eins og áttundi kaflinn úr Stabat Mater eftir Pergolesi. Þetta þýðir fulla þjónustu í fyrramálið, verð sótt af Ástu og keyrð upp að dyrum í vinnunni. Unaðslegt SMS í fyrstu haustlægðinni. Mun að sjálfsögðu færa Ástu heitan og hressandi latte út í bíl í fyrramálið sem þakklætisvott.

Óska ykkur svo góðrar nætur og ljúfra drauma.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 34
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1515923

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 701
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband