Færsluflokkur: Dægurmál

Svefnlækningar og dramatík

LavenderAllt afskaplega rólegt að frétta úr himnaríki. Hálsbólga og slappleiki herjaði á 1/3 heimilismanna sem sváfu þennan óskapnað úr sér í dag milli símtala. Hinir tveir möluðu bara sáttir og tóku heilmikinn þátt í svefnlækningunni.
Síminn í bakaríinu er kominn í lag og stór terta, eins og sú sem ég pantaði í morgun, hefur hækkað um 1.500 krónur síðan í fyrra. Samt er hún ódýrari en víða annars staðar.
Ég er heilmikið að hugsa um að láta veisluna hefjast kl. 15, klukkutíma fyrr en venjulega. Þar sem þetta er opið hús getur fólk vissulega mætt þegar það vill eftir opnun. Síðustu árin finnst mér flestir vilja koma snemma og það er frekar rólegt á kvöldin.

Sá boldið í morgun og það er allt við það sama, svona nokkurn veginn. Nick grátbiður Brooke endalaust um að láta vaða, hætta með Eric og hefja nýtt líf með honum. Bridget fór í sónar og sá ítalski (bjargvættur Taylor) bankaði upp á og var hjá henni á meðan. Bridget vill ekki Nick en hugsar samt stundum til hans. Stefanía segir Eric, fyrrverandi sínum, að hún viti nú að allar eignabreytingar sem gerðar hafi verið á Forrester-tískuhúsinu séu ólöglegar og að hún eigi það ein. Hún segir honum að hún sé nú nýr framkvæmdastjóri og sýnir honum það í verki með því að fleygja nýrri brúðkaupsljósmynd af Brooke og Eric niður af skrifborði Brooke.  Drama!


Leisígörl-taka 2 og vandræðalegt Neyðarlínusímtal

Leisígörl nr. 2Leisígörl, stóll 2, er mættur í hús. Mér tókst með hjálp skæra og fótatramps að ná honum úr kassanum og reyndi síðan árangurslaust að koma bakinu ofan í stólinn. Það heyrðist klikk öðrum megin en ekkert gengur hinum megin. Af hverju þarf Inga að búa í Reykjavík þegar ég þarf á henni að halda? Henni gekk þetta svo vel þrátt fyrir að stóll 1 væri gallaður, ja, það tók svona korter og blóð, svita og tár. Er ekki alveg komin að B,S og T en korterið er líklega komið. Svo verður það þrautin þyngri að losna við pappadraslið utan af stólnum.

Draslið utan af leisígörlAllt svona stórt er ekki mjög velkomið til mín, nema fólk sé eða húsgögn. Einu sinni fékk ég dásamlega afmælisgjöf í risastórum trékassa; litla mynd og lítinn hamar. Það tók mig svo marga mánuði að losna við kassadjöfulinn að ég var að tryllast. Gladdist ógurlega þegar erfðaprinsinn, átta ára, ákvað að byggja trékofa með Vésteini, vini sínum, og rúllaði kassaandskotanum niður í Hólatorg, þar sem Vésteinn bjó en við erfðaprins bjuggum þá á Hávallagötunni. Nú, eitthvað sinnaðist vinunum og erfðaprinsinn rúllaði kassahelvítinu aftur heim áður en trékofinn varð að veruleika. Man ekki hvort ég svaf hjá öskukörlunum eða hvað ég gerði fyrir rest til að losna við kvikindið.  
Mamma sagði rétt eftir flutningana í himnaríki, þegar hatur mitt á kössum var í hámarki, að snjallt væri að bleyta þá í baðkerinu og þá yrðu þetta bara þægilegar kúlur sem hægt væri að fleygja. Mjög stutt er í að húsfélagið mitt kaupi græna tunnu, plís, tunna, komdu á morgun!

Gafst upp á því að bíða eftir Stöð 2, enda urðu lögin slakari eftir því sem leið á, beið í rúmt korter í símanum. Horfi nú á fréttirnar í gegnum tölvuna og veit að vélstýran er alsaklaus af rafmagnsleysinu. Enda var ég bara að grínast. Komst líka að því að bilun er í afruglarakerfinu og því sést ekkert sjónvarp.  

Verið var að skammast út í Neyðarlínuna í fréttunum fyrir að koma ekki manni til hjálpar. Ég veit til þess að þau hjá 112 „neyddust“ einu sinni til að hlusta á ástaleik pars. Í æsingnum höfðu líklega einhverjar rasskinnar hringt óvart í númerið. Þegar daman spurði með vonbrigðatón: „Ertu búinn?“ þá gerði Neyðarlínufólk ráð fyrir að hér væri engin neyð á ferð. Ég er ekki sammála.


Matarblogg með meiru

ÞorskurinnRabarbarapæ með ísNú er komið að langþráðu matarbloggi ... Hulda, gömul vinkona af Skaganum, hringdi í mig með kortersfyrirvara og bauð mér í mat, afar góðan þorskrétt. Ég rauk af stað og á móts við Einarsbúð mættumst við en hún hafði þá ákveðið að fara á bílnum á móti mér, enda maturinn tilbúinn.

Minnir að Hulda hafi sagst hafa sett soðin hrísgrjón (einn poka) neðst í eldfast mót, saltað vel, raðað þorskflökum ofan á, kryddað með aromat og hvítlaukssalti. Hún skar niður sveppi og 2-3 litlar paprikur og stráði yfir. Bræddi saman einn sveppaost og hálfan piparost í rjóma og hellti yfir. Bakaði svo í ofni. Hljómar vel en bragðaðist enn betur. Ferskt salat og hvítlauksbrauð með. Í eftirmat var síðan þetta líka góða rabarbarapæ með ís.

Gamla húsið mittTók myndir af matnum og líka út um eldhúsgluggann hjá henni en gamla, ástkæra húsið mitt sést vel þaðan, húsið sem ég bjó í þegar ég sat inni saklaus ... í hjónabandi, 1978-1982. Gamla græna Grundin mín er orðin blá ... og appelsínugul, sýndist mér.  Mér finnst að þetta hús eigi að vera rautt!

Tveimur árum eftir að ég flutti frá Skaganum í annað sinn gerði vitlaust veður. Suðvestanátt og stórstreymt ... ávísun á stórslys, spyrjið bara BYKO-fólk í Vesturbænum! Nú, öldurnar gengu á land og yfir gamla húsið mitt og kjallarinn fylltist af sjó! Þá voru settir varnargarðar úr stórgrýti. Það kom mikið grjót og þari upp á lóð til Huldu líka ... hrikalega spennandi!!! Hulda lofaði að hringja í mig og bjóða mér í heimsókn næst þegar svona nokkuð gerist! Þá er að tíma að fara frá sjónum fyrir neðan hjá mér. Hulda býr norðanmegin á Skaganum og hefur Snæfellsjökul fyrir augunum á meðan ég sé "bara" höfuðborgarsvæðið, Suðurnesin, Leifsstöð og stundum Ameríku í góðu skyggni ...

Sigþóra með TommaHulda kíkti í smáheimsókn í himnaríki á eftir og Sigþóra kom nokkrum mínútum seinna. Ég hafði keypt götumál (pappamál undir kaffi) sem hún var að færa mér en hún vinnur hjá Rekstrarvörum þar sem þessi glös fást.

Nú get ég tekið latte með mér í strætó á morgnana! Tommi réðst á Sigþóru í miklum knúshug og tældi hana til að klappa sér.  Sá verður kelinn í afmælinu, búið ykkur bara undir það, þið sem gerið mér þann heiður að mæta á sunnudaginn!


Af lykt og Lúkasar-tuðspjalli í strætóskýli

Ráð við lyktEinhver undarlegur fnykur hefur truflað mig síðan í gærkvöld og ég er loksins búin að átta mig á því að þetta hefur eitthvað með vindáttina að gera. Ég fór um allt himnaríki og leitaði að upptökunum; kattasandurinn var hreinn, ekkert „óhent“ rusl að mygla og sjálf er ég hrein eins og kettirnir. Ég trúi því varla að verið sé að bræða fiskimjöl hér á Skaganum ... Ef svo er þá vil ég banna þessa vindátt eða verksmiðjuna.

Herbergið sem hún gisti íEinu sinni á Hringbrautarárunum leyfði ég erlendri konu að gista hjá mér eina nótt, jú, það tengist líka lykt. Ég byrjaði að sjóða fisk fyrir kisurnar næsta morgun en sá að ég var að missa af strætó í vinnuna og suðan ekki enn komin upp, skrýtið hvað það tekur alltaf langan tíma þegar maður er að flýta sér. Næturgesturinn bauðst til að klára verkið og ég bað hana að lækka niður í einn þegar suðan væri komin upp. Hún varð móðguð í framan og spurði hvort ég héldi að hún kynni ekki að sjóða fisk.
Ég rauk í vinnuna og kom heim upp úr kl. 5. Þá mætti mér ein sú viðurstyggilegasta lykt sem ég hef fundið. Upptökin var að finna á eldavélinni. Fiskurinn hafði mallað í rúma átta klukkutíma, eldavélin var enn stillt á einn, konan löngu farin út og kom ekkert aftur, enda átti hún bara að gista eina nótt. Sú kunni að sjóða fisk! Mig minnir að ég hafi orðið að fleygja pottinum ... og íbúðinni.

Lúkas í strætóskýliÉg var tiltölulega nýbúin að kaupa á Hringbrautinni og ekkert byrjuð að gera íbúðina upp. Teppi voru á öllum gólfum og ég hafði ekki einu sinni haft efni á því að mála. Herbergið var hreint, rúmfötin hrein og eflaust straujuð líka ... en kerlingin kvartaði yfir ömurlegri aðstöðu við fólkið sem bað mig um að hýsa hana. Hún rumskaði samt ekkert þegar ókunnugur maður komst inn í íbúðina um nóttina og settist á rúmstokkinn hjá mér, svipað og gerðist í Buckingham-höll ekki svo löngu áður. Þessi meinlausi maður hafði bara farið útidyravillt, enda ekki erfitt í gömlu Verkó. Útihurðin var biluð og ég gleymdi að skella í lás uppi og því komst gaurinn svona langt.  

Lúkasar-tuðspjallið. Talandi um spjöll ... á strætóskýlum. Þessa mynd tók ég í skýli í Mosfellsbæ á laugardaginn.

 



X-Factor-þátturinn blásinn af!

X-FactorAllt lítur út fyrir að það verði ekki X-Factor nú í vetur, eiginlega er það víst alveg öruggt. Frétti að svo margir þátttakendur hefðu hætt við. Þetta átti að vera öðruvísi keppni en sl. vetur, eða söngvakeppni fræga fólksins, Sveppi, Auddi o.fl. skildist mér, en nú er búið að blása allt af. 

Hvernig væri að sýna Britain´s Got Talent í staðinn? Það virðast vera snilldarþættir ef marka má sýnishorn á youtube.com. Ameríska útgáfan er eitthvað svo ... amerísk!


Loksins litlufrændablogg

Sætastir Langt síðan ég hef rænt mynd af litlu frændum mínum af heimasíðunni þeirra. Ísak og Úlfur stækka ört og dafna vel, eins og sést á myndinni.

Fjögurra mánaða í apríl sl.Eldri mynd af þeim síðan í apríl er til samanburðar hér til hægri, mikil breyting. Að auki fóru þeir í aðra aðgerðina sína í millitíðinni.

Börn þroskast svo hratt á fyrsta árinu sínu. Erfðaprinsinn fæddist t.d. með slétt, svart hár og leit út eins og Ella frænka en ársgamall var hann kominn með ljósar krullur og líktist pabba sínum!


Tertuáletrun, horfinn leisígörlstóll og eldrauður ástareldur

Terta SigurjónuFáránlega mikil umferð á leiðinni frá Hellu í dag, hélt að morgundagurinn ætti að vera martröðin mikla á vegunum. Kom við í Eden og keypti Ástareld, minn guli er orðinn frekar druslulegur, og vinunum hefur fækkað í takt við það. Nú ákvað ég að breyta til og fá mér eldrauðan Ástareld þótt hættulegt sé upp á piparmeydóminn.

Held að Katrín Snæhólm hafi haft rétt fyrir sér í sambandi við leisígörl ... enginn nýr stóll er kominn í stað þess gallaða, það er mjög dularfullt. Nú situr einhver lesandi bloggsins ofsaglaður og svolítið skakkur í stólnum mínum, alveg eins og Katrín spáði.

HvalfjörðurVið Inga ókum Hvalfjörðinn á leið á Skagann og það var skemmtileg tilbreyting, myndi samt ekki nenna að gera það á hverjum degi. Tíkin Fjara sat vælandi aftur í. Henni finnst sveitin æði og dýr svo spennandi, af og til sá hún nefnilega hesta og kindur. Hún vælir líka svona þegar hún sér konur með töskur. Hún kom upp í himnaríki í smástund og Tommi finnur á sér hvað hún er meinlaus og óttast hana ekki en Kubbur sat titrandi uppi á fataskáp í herberginu mínu.

Get nú svo sem ekki klagað Hildu fyrir mikið þrælahald ... ég hjálpaði til seinnipartinn í gær og í allt gærkvöld og þess á milli tróð Sigurjóna, matráðskona og gömul skólasystir úr Austurbæjarskóla, í mig klikkaðislega góðum mat. Hún kallaði meira að segja þegar við Hilda vorum að fara í dag: „Viljið þið ekki tertusneið áður en þið leggið af stað?“ Ekki séns að neita svo góðu boði.

Þarf að panta marsipantertuna fyrir afmælið á morgun. Vantar góða áletrun á hana, hefur einhver hugmynd? Búin að nota t.d.:

  DOFRI HVANNBERG – 10. ÁGÚST
TIL HAMINGJU MEÐ FYRSTA FALLHLÍFARSTÖKKIÐ

Man að ég fékk hana mjög ódýrt í bakaríinu ...


Leynivinavika

Hér í sumarbúðunum er leynivinavika hjá starfsfólkinu. Ég fríkaði út í Heilsuhúsinu á Selfossi í gær á meðan ég beið eftir því að verða sótt og keypti dýrindisgjafir handa leynivinkonu minni. Hef sjálf fengið minnisbók, afþurrkunarklút og gló-stiku! Klúturinn er víst algjör dásemd, þrífur af sjálfu sér, skilst mér. Litla sæta minnisbókin er flott í strætó, gló-stikan ef ég týnist uppi á fjalli og þarf að láta björgunarsveitina finna mig og klúturinn, jamm, kemur sér alltaf vel að eiga svona örtrefjaklút.
Við Hilda leggjum í hann héðan upp úr tvö og stefnan er að fara heim á Skaga með Ingu og keyra Hvalfjörðinn svona einu sinni, annars bara strætó. Hef þó ekki náð í Ingu, hún er kannski búin að gleyma þessu og er á rassgatinu úti í Eyjum, það væri nú eftir öllu. Það er nóg að gera hér, þori ei að blogga meira, þrælahaldarinn hefur hvesst á mig augum. Klaga síðar.

Ofsóknir talna

Number 23Einhverra hluta hvarf ónotatilfinningin við góðan svefn ... í stofusófanum yfir myndinni The Number 23. Ég sem er nörd í sambandi við tölur, eiginlega alveg vitlaus í tölur og rústaði bekkjarbræðrum mínum í algebru í landsprófi um árið, eins og ég hef oft montað mig af. Ég geng næstum því svo langt að leggja saman bílnúmer til að fá þversummuna. Þar sem ég á mér líf, sit ekki oft föst í umferð og er líka með lesefni á mér þarf ég yfirleitt ekki að taka til svona ráðstafana til að létta mér lund. Spurning hvort maður nenni að horfa á myndina aftur. Meiri vitleysingurinn að fá eina tölu á heilann, eins og Jim Carrey.

Þegar talan 6 elti mig þá lét ég ekki svona. Það kom 6 út úr símanúmerinu mínu (áður en 55 bættist fyrir framan það), það gerðist bókstaflega ALLT árið 1986, ný vinna, fullt af nýjum vinum, stóra ástin (só far) kom til sögunnar, ég átti líka heima á ýmsum stöðum þar sem talan 6 kom við sögu (þversumman), Rauðalæk 33, Æsufell 6, Asparfell 6, Skeljanes 6, Laugavegi 132, Hringbraut 78 o.fl. Sumir vinnustaðir með húsnúmer í stíl við þetta, Suðurlandsbraut 24, Hávallagata 24 o.fl. Fattaði þetta þegar það kom mér einhvern veginn ekkert á óvart að fá skáp númer 6 á Rás 2. Þá fór ég að kíkja betur á þetta! Bankinn minn er nr. 0303 ... þversumma bankareikningsins er líka 6 ...

ÉArggggggg tók viðtal við spákonu fyrir tveimur árum og hún talaði mikið um tölur. Ég sagði henni að sexan hefði elt mig í mörg ár en það væri eitthvað að breytast, nú kæmi t.d. 5 út úr húsnúmeri mínu á nýja staðnum sem ég færi að flytja inn í (himnaríki). „Sjúkk,“ sagði spákonan, „gott að þú ert að losna við þessa tölu, fimman er betri!“ Svo fór ég að hugsa í morgun, ókei, 41 gefur útkomuna fimm  ... en líka talan 23! The Number 23! NEEEEEIIIIIIIII!

Hmmm, þessi hryllingsgæsahúðarfærsla var í boði Guðríðar sem ætlar í strætó í bæinn kl. 9.41, fara í Kaffitár á Bankastræti í sjúklegan latte og taka síðan rútuna til Selfoss kl. 12.30 frá BSÍ. Hilda sækir mig þangað. Fínasta áætlun. Út úr 9.41 og 12.30 kemur talan 20, styttist í 2. Sjúkk! 

Bið ykkur vel að lifa og fara varlega á meðan ég bregð mér af bæ.


Ósýnileg morgunhjálp og afmælistilhlökkun hafin

VindurinnAð mörgu leyti er betra að sitja aftar en í fremsta sæti í strætó, sérstaklega þegar það eru hviður á Kjalarnesinu. Eftir nokkra afslappandi, dormandi morgna aftarlega undanfarið stóð ég mig að því að fylgjast grannt með úr fremsta sætinu að ljósin við Hvalfjarðargöngin breyttust örugglega úr rauðu yfir í grænt. Ég hjálpaði líka bílstjóranum heilmikið við að halda strætó á veginum í verstu vindhviðunum með því að gera mig stífa þegar þær skullu á okkur. Ég segi ekki að ég sé mjög þreytt eftir ferðina í bæinn, kannski frekar svolítið uppgefin.

------------------ o O o -----------------

Mamma, Atli og TinnaByrjaði að lesa ansi áhugaverða bók í gær og kíkti aðeins á hana í strætó í morgun áður en hjálpsemin við bílstjórann náði yfirhöndinni. Bókin heitir Móðurlaus Brooklyn og er eftir Jonathan Lethem. Leynilögreglusaga ... en ekki hefðbundin. Sú á eftir að stytta mér stundir, ásamt Potter-restinni, nú um helgina og svo er ég komin í frí fram að afmæli. Ég er farin að undirbúa afmælið í huganum. Ég vona að sem flestir "nánir" bloggvinir mínir mæti, alla vega þeir sem geta keypt almennilega afmælisgjöf handa mér. (djók) Þetta er nú hálfgert stórafmæli ... eða 49 ára. Mér skilst að Jenný Anna ætli örugglega að koma og þá hittumst við í fyrsta skiptið, gaman, gaman. Já, og þetta er ekki konupartí, það kemur alltaf hellingur af sætum körlum, nema Þröstur, hann verður í Danmörku! Þeir sem reykja fá heilt, stórt og flott herbergi fyrir sig, eins og í fyrra, eða bókaherbergið (sjá mynd), og þar sat t.d. Auður Haralds á milli þess sem hún sótti sér tertur og kaffi. Mikið fjör þar, eins og í öllum herbergjum. Jamm, ég er sko farin að hlakka til. Er þó ekki byrjuð á afmælisboðskortinu, ætli ég hringi ekki bara þetta árið og sendi tölvupóst og sms ... geri bara geggjað stórafmælislöglegamiðaldrakort næsta ár.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 167
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1709
  • Frá upphafi: 1460642

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 1378
  • Gestir í dag: 151
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ken
  • Krummi heitur
  • Galdraskjóða-Gurríar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband