Færsluflokkur: Dægurmál

Eric strax orðinn leiður á Brooke?

Við heimkomuJæja, tveggja daga stress-lotan virðist vera að baki og ég gæli við þá hugmynd að komast með 17.45-strætó heim. Búið er að lesa allt blaðið yfir, setja upp forsíðuna og varla eftir nokkru að bíða. Ætla þó aðeins að njóta rólegheitanna og ekki rjúka heim, enda þyrfti ég þá að taka leigubíl NÚNA  í Mosó og það liggur ekki lífið á, nema kannski til að ná boldinu. Mér sýndist í gær að Eric sé orðinn leiður á Brooke þrátt fyrir aðeins nokkurra daga hjónaband þeirra og þótt hún reyndi að tæla hann ýtti hann henni frá sér. Hann veit samt að Ridge var bara að faðma hana á vinalegu nótunum. Líklega er Stefanía, fyrrum kona hans, búin að ná til hans, enda hatar hún Brooke sem gerir ekki annað en að giftast manni hennar (tvisvar) og sonum hennar til skiptis, eins og oft hefur komið fram. Samt buðu Ridge og Brooke honum að vera með í nýja tískuhúsinu sem stofnað verður á eftir. Ég næ þessu á Stöð 2 plús!

Aðstoðarritstýran rasar út ...

Best að blogga núna í morgunsárið en að ætla að gera það síðar í dag, í matartímanum eða eitthvað. Það er bara bjartsýni að halda að það sé hægt ... á föstudegi. Vinnudagurinn skellur á með fullum þunga um níuleytið, þá opnar síminn og friður verður lítill. Dagurinn var ansi erfiður í gær, enda dreif ég mig snemma í rúmið. Fékk svo far í morgun með unga manninum á Prentmets-bílnum frá Mosó og hingað - það var ansi notalegt. Aukarútan er byrjuð að ganga frá Akranesi og Haffi bílstjóri elti okkur alla leið í bæinn. Hann tók farþegana á Kjalarnesi upp í og kannski Karítas í Mosó-brekkunni. Búist er við metfjölda farþegar frá og með mánudegi og þá geri ég ráð fyrir að fá ekki framar að sjá yndislegu karlana mína á sætukarlastoppistöðinni, Haffi tekur þá mögulega í allan vetur! Til að leiðrétta misskilning um að Strætó bs standi straum af kostnaði við ferðirnar frá Skaganum vil ég benda á að elsku bæjarstjórnin okkar á Skaganum pungar út milljónum á milljónir ofan til að við fáum þessa þjónustu. Skilst að Strætó bs. borgi okkur síðan fyrir að þjónustu t.d. 116 Reykjavík ... eða Kjalarnesið, í leiðinni.

Tók út það sem ég skrifaði um nýjustu Vikuna. Það misskildist sem grín en var alls ekki meint þannig.

Jæja, hafið það tryllingslega gott í dag. Ég er farin að vinnnnnnnna.


Kári í jötunmóð

Í bomsunumMikið sé ég eftir að hafa fleygt öllum vetrarfötunum mínum í vor. Nú neyðist ég til að kaupa mér lopapeysu, föðurland, kuldabuxur, ullarsokka og lambhúshettu ... að ógleymdum bomsum með göddum neðan á sem henta vel á svelllagðri súkkulaðibrekkunni. Það er ískalt í himnaríki, ég var orðin frosin inn að beini áður en ég fattaði að loka gluggum.

Fór beint í að pakka niður öllum flegnu sumarbolunum, flugfreyjujökkunum, hvítu og bleiku pínupilsunum, strigaskónum, sandölunum, ökklaböndum og tánaglalakki og fleygði beint í tunnuna, enda orðið ónothæft síðan seinnipartinn í dag þegar veturinn kom. Hver ætli verði sigri hrósandi í snjósköflunum í fyrramálið?


Fínasta menning hér á Skaga

Sigga með Ísak og Ellý með ÚlfHér í himnaríki hefur allt verið ágætlega menningarlegt í kvöld, nema ég hef ekkert komist í að lesa Potter og kemst eflaust ekki til fyrr en um miðnætti eða svo. Ellý ætlar að kíkja og menningast með mér kl. 23 og horfa á flugeldana hinum megin við hafið. Mikið skemma nú nýju, flottu, stóru svalirnar fyrir mér gleðina (útsýnið) yfir því að njósna um Reykvíkinga með stjörnukíkinum. Ég næ ekki að sjá t.d. 116 Reykjavík, eða Kjalarnesið, en næ þó miðbænum og Seltjarnarnesinu. Veðrið er gjörsamlega guðdómlegt, sjórinn sléttur og útsýnið gott.

 

Sigga með Ísak, Ellý með Úlf. Mynd úr afmæli 2007. 

Heyrði í mömmu áðan en þær Hilda komu úr sumarbústaðavikudvöl í gær. Tvíburarnir knáu, Ísak og Úlfur, gistu eina nótt hjá þeim og mamma á ekki orð yfir hvað þeir voru góðir, þeir dunduðu sér víst tímunum saman. Þeir eru víst alltaf jafnglaðir þegar þeir sjá hvor annan og eru farnir að þróa með sér tvíburamál, heyrðist mér á mömmu sem heldur því fram að þeir séu undrabörn. Tek undir það, enda er ótrúlega gáfað og líka fallegt fólkið í þessari fjölskyldu ... jamm, rétt ályktað, hluti hennar er úr Þingeyjarsýslu.


Tommablogg

MormónarTommi bílstjóri ók nokkrum kurteisum, ljúfum og snyrtilega klæddum mormónum frá Akranesi í dag og auðvitað spurði ég ásatrúarmanninn sjálfan hvort hann hefði ekki reynt að snúa þeim. „Fórna þeim, meinar þú?“ spurði hann kvikindislega. Svo hélt hann áfram með mormónana: „Einu sinni keyrði ég nokkra mormóna frá Keflavík og þeir fóru nötrandi út við Grindavíkurafleggjarann, ég lýsti fyrir þeim mannfórnum og þeir trúðu mér. Svo vann ég með manni sem ætlaði að gerast mormóni til að geta átt nokkrar eiginkonur. Ég benti honum á að hann myndi eignast jafnmargar tengdamæður og þá hætti hann við. Svo datt honum í hug að verða múslimi til að geta bannað konu sinni að aka bíl, hann var orðinn svo þreyttur á því að fá aldrei bílinn.“ Tommi dæsti. Ekki skrýtið, afar undarlegur fyrrum samstarfsmaður.

Tengdamömmur„Verðbréfamiðlararnir hrynja niður eins og flugur núna, bókstaflega,“ hélt Tommi áfram. „Þeir eru skrapaðir upp úr gangstéttunum eftir hrunið á verðbréfamörkuðunum. Það er öðruvísi í Brasilíu, þar fjúka sjónvörp og tengdamæður út um gluggana ef fótboltaleikur tapast.“ Ég sá þetta alveg fyrir mér, enda kann Tommi að segja myndrænt frá hlutunum. TengdóÉg áttaði mig líka á því hvers vegna hann á ekki konu. Hann er svo hræddur við tengdamæður!

Rétt áður en við komum að Hvalfjarðargöngunum mættum við hinum strætó, en allir vita að Skagamenn þurfa tvo vagna á milli. Tommi horfði sorgmæddur á hinn bílinn og sagði: „Þetta er bíllinn minn!“ Skagabílstjórarnir elska flestir „bílinn hans Tomma“ sem er nýrri árgerð og ögn kraftmeiri en þessi sem við vorum á. „Ég fer í hungurverkfall ef ég fer ekki að fá hann,“ muldraði hann. Útlenska konan settist fyrir aftan mig í Mosó með dóttur sína og mér fannst alveg frábært þegar ég heyrði smellina í bílbeltunum þeirra. Stelpan skrafaði, alsæl með tilveruna. Mikið skemmti ég mér betur yfir henni núna seinnipartinn þegar ég var ekki að leka niður af syfju. Held að ég fari snemma að sofa í kvöld til að geta tekið lagið með henni í fyrramálið og kennt henni að telja upp á 100 ... og svo aftur á bak.


Yfirsof og kossar í morgunsárið!

Svona var þetta í morgunMikið er gaman að vera komin í elsku vinnuna. Næstum allir karlmennirnir sem vinna með mér hafa kysst mig á kinnina í morgun og tautað eitthvað. Ég hlusta ekki á það sem þeir segja, nýt bara kossanna. Vona að þetta tengist útlitinu eða persónunni, ekki afmælinu! Er þó ekki í kynþokkabolnum frá mömmu. Maður mætir helst ekki gærulegur í vinnuna, enda er ekki alltaf snjallt að blanda saman starfi sínu og ánægju. Ansi tímafrekt! 

Svaf yfir mig um klukkutíma í morgun og var svo heppin að  næsti strætó (kl. 7.41) fór líka alla leið í bæinn, eins og fyrsta ferð, í stað þess að fleygja farþegunum út í Mosó. Hoppaði út við Vesturlandsveg og nú var engin Sigþóra til að halda aftur af mér upp Súkkulaðibrekkuna ... (DJÓK!).


Uppgötvun!

Pamela Móður mína langar í tengdason. Ég komst að því, mér til mikillar kátínu, þegar ég mátaði afmælisgjöfina frá henni. Bolurinn leit nógu sakleysislega út en þegar ég var komin í hann blasti við mikil dýrðarsjón eða dýrindisbrjóstaskora ... sem er eitthvað sem siðprúð rúllukragapeysukona sér sjaldan nema á öðrum konum. Ég þarf að hagræða honum vandlega til að sjáist ekki í naflann á mér. Mamma ætti að vita að karlmenn láta ekki veiða sig á svona ódýran hátt. Þeir falla fyrir persónunni sjálfri ... 

Það er svo rólegt í himnaríki núna. Ekkert sjónvarp, útvarp eða tónlist, bara lætin í öldunum sem heyrist í þrátt fyrir lokaðan glugga. Finnst líklegt að fluguófétið liggi í leyni og bíði þess að ég gleymi mér og opni. Það er ekki á dagskrá strax. Líklega ætti ég að hlaupa snöggvast niður og sækja Moggann og kíkja á greinina hennar Guðrúnar Völu. Hver skyldi fyrirsögnin vera: Sæt á Skaganum? Alvöruþrungið afmælisbarn? Stórkostleg strætóterta? Sprækar mæðgur? Kökusjúkir kettir? Best að gá.  


49 ára í fyrsta sinn

Alveg að verða 49 áraMikið er gaman að vera bara 48 ára. Ætla að njóta þess í tætlur í allt kvöld og til kl. 19.54 annað kvöld. Eftir morgundaginn trúir mér enginn þegar ég segist vera 49 ára. „Úúúú,“ segir fólk, „sumsé 53 ára!“ Þetta er gallinn við að skrökva til aldurs á karlaveiðum eins og sumar konur gera og karlmenn trúa orðið engu, sérstaklega ekki ef kona segist vera 49 ára.
Þetta er 20. árið sem ég held upp á afmælið með pomp og pragt. Á 29 ára afmælistertunni stóð: 29 ára í fyrsta sinn. Ég sá eftir því og næsta ár horfðist ég í augu við raunveruleikann og lét setja Þrítug en þokkafull. Síðan kom 30 og eins og tvítug ... o.s.frv.  

Himnaríki fer alveg að standa undir nafni. Bókaherbergið er tilbúið. Þar verða flottir öskubakkar sem gleypa stubbana. Stofan er eiginlega alveg tilbúin, baðherbergið í smámessi en það tekur svona korter að gera það fínt. Eldhúsið er í lagi en verður í brauðtertumessi eftir smástund. Næstum allt er ryksugað. Ég skúra bara á morgun. Held svo að heitt bað og íbúfen undir svefninn muni gera kraftaverk.

TvíburaturnarnirLeiðrétting: Ég uppfærði myndlykilinn minn aftur áðan, ég gat ekki trúað þessum svínshætti upp á 365 og þá datt SkjárEinn inn! Ég hlýt að hafa uppfært þegar verið var að fikta í kerfinu vegna Sýnar 2 eða eitthvað í stað þess að gera það bara í gærkvöldi eins og aðrir Íslendingar. Þetta leiðréttist hér með og ef ég segi Sýn 1 upp mun ég líklega fá mér fjölvarpið ... eða Sýn 2.

Ætlaði að nota peninginn sem sparaðist til að heimsækja Katrínu í okt/nóv en var svo heppin að tveir flugmiðar með Iceland Express komu upp í hendurnar á mér ... þannig að ég get réttlætt kaup á Sýn 2 eða fjölvarpinu fyrir sjálfri mér ...

Sakna reyndar Sky-frétta alveg ógurlega. Já, ég er óheppna manneskjan sem sagði fjölvarpinu upp 1. september 2001.


Bæjarleyfi

HúsfélagsformaðurinnÞá er það æsispennandi ferð til borgarinnar eftir 10 mínútur! Ég tími varla að fara frá öldunum, þær eru svo fallegar. Ekki kannski stórar en háværar, svona mini Miðjarðarhafslegar. Húsfélagsformaðurinn er að búa til grindverk sjávarmegin, gaman að vita hvernig verkinu mun miða í dag. Alltaf gaman að horfa á menn í Smáralindarstellingunni.

Jæja, hlaupin í strætó. Lifið heil.  


Flottur leynivinur

Inga LáraKomst að því í dag að ástkær leynivinur minn í sumarbúðunum var engin önnur en Inga Lára snillingur. Mig grunaði það vegna sætu, sniðugu bréfanna sem fylgdu gjöfunum ... en lymskan í starfsfólkinu þarna var svo mikil að Inga Lára gat alveg eins hafa verið fengin til að skrifa bréfin og blekkja mig þannig. Gluggarnir í himnaríki verða þrifnir með góða, umhverfisvæna trefjaklútnum og allar snilldarhugmyndir skrifaðar í litlu, sætu vasabókina svo að þær gleymist ekki. Ég er löngu búin að smjatta á namminu sem hún gaf mér líka og fiðrildasólgleraugun koma sér vel ef lífið verður flókið. Snilldargjafir. Held að Þóra starfsmannastjóri hafi bara verið ánægð með sínar gjafir sem ég laumaði til hennar með hjálp Hildu. Fótanuddkrem, blómadropar sem auka orku kennaraháskólanema, kerti og servíettur, sérlega hollt en gott súkkulaði, lítil ilmsprittkerti og eitthvað fleira. Ég missi mig alltaf gjörsamlega í svona leynivinaleikjum þótt fólk sé beðið um að hemja sig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 97
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 2047
  • Frá upphafi: 1456800

Annað

  • Innlit í dag: 94
  • Innlit sl. viku: 1749
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Gardínukettir
  • Ostapítsa með sultu
  • Náttborð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband