Færsluflokkur: Menning og listir

Kökublað, mjónuminningar og vaknað við titring

SúkkulaðitertaKökublað Vikunnar var að koma í hús og það er KLIKKAÐ!!! Flott sko. Heilar 112 síður og 80 uppskriftir. Inga Jóna Þórðardóttir skreytir forsíðuna, ásamt girnilegri jarðarberjatertu, þessarri sígildu góðu. Jæja, þetta var mont dagsins!!! Myndin fannst á google.is og er voða girnileg, svona eru allar terturnar í kökublaðinu ...

-------------         --------------             --------------- 

ICY dúllurnarHelga Möller söngkona kom hingað áðan með nýja plötu sína sem var að koma út. Ég hoppaði samstundis 21 ár aftur í tímann þegar ég var grönn og sá um barnaþátt á Rás 2 inni í morgunþættinum sem m.a. Kolbrún Halldórsdóttir alþingiskona sá um. Þarna í denn heimsótti ICY-tríóið okkur, Helga, Pálmi og Eiríkur Hauksson. Ég man að ég spáði þeim 1. sætinu, algjörlega pottþétt. Gleðibankinn var svo flott lag. Við rifjuðum þetta upp og hún sagðist muna eftir þessarri heimsókn sem var rétt áður en tríóið sigurvissa flaug út í keppnina. Ósmekklegheit Evrópubúa sýndu sig strax á úrslitakvöldinu og hefur yfirleitt verið áberandi þarna í maí þegar frábærum lögum okkar hefur verið hafnað sí og æ. Helga er enn grönn ...

Vaknaði ekki við BDSMS-ið hennar Ástu í morgun, heldur við titringshljóðið sem kemur eftir eina hringingu. Ásta hringdi og bjargaði mér. Við keyrðum svo eins og andskotinn alla leiðina (hver segir að hann aki hratt?) í bæinn og það var rosalega mikil umferð á leiðinni!!! Við lögðum líka af stað 2 mín í 7, ekki 10 mín í, eins og oftast. Það munar greinilega heilan helling um nokkrar mínútur upp á umferðina að gera.


Dularfullt leyninúmer í morgunsárið

Rok á KjalarnesinuSá tvö ný "missed calles" á gemsanum mínum þegar ég ætlaði að rjúka út á stoppistöð. Hmmm ... Ásta vön að senda gleðirík BDSMS, ekki hringja. Síminn minn er stilltur þannig að aðeins ein hringing heyrist, síðan bara hristingur og suð. Afar heimskulegt, þessu verður breytt í dag. Hringt var úr leyninúmeri svo að ég gat ekki hringt til baka. Vakti þess í stað með SMS-i tvær veikar vinkonur mínar. Það voru ekki Ásta eða Inga sem hringdu í morgun, komnar með leyninúmer. Prófaði ekki Sigþóru morgunhænu þar sem hún á ekki bíl ... Í strætó barðist ég við samviskubit yfir því að hafa valdið Ástu og Ingu auknum kvölum; höfuðverk, nefrennsli og geðvonsku, svona eins og gerist iðulega ef veikt fólk fær ekki að sofa. Það blandaðist kvíðakenndum hugsunum um erfiða Súkkulaðibrekkuna í roki og rigningu. 

Stephanie-ChagallVið lúsuðumst í gegnum  Kjalarnesið (frá göngum og fram hjá Grundahverfinu) á c.a. 30 km/klst þar sem vindhviðurnar voru viðbjóðslega sterkar, hélt að hurðin fyki af á köflum og við með ... þAÐ VANTAR ANNAN HVIÐUMÆLI ÞARNA áður en fleiri óhöpp verða (sl. vetur fauk strætó út af). Hjá mælinum, sem er staðsettur við Kollafjörð, var næstum logn, miðað við hitt helvítið! (Mælirinn sýndi 25 m/sek. sem er allt í lagi) Svakalega þurfti ég að gera mig stífa í morgun til að við fykjum ekki út af. Skil ekki hvernig smiðurinn og sessunautur hennar gátu masað og hlegið á leiðinni. Eftir að sessunauturinn var farinn út í Mosó spjölluðum við smiða um símatímann á Bylgjunni þar sem kvenhatarar af báðum kynjum gerðu grín að hugmynd Steinunnar um að breyta orðinu ráðherra. Ég heyrði engan hlæja þegar flugfreyjunafninu var breytt, það þótti sjálfsögð virðing við nýtilkomna karlmenn í faginu að kvengera þá ekki!

Einhver algjör töffari kom inn í strætó við íþróttahúsið á Akranesi og spurði hátt og snjallt hvort þessi vagn færi ekki í Hálsahverfið. (I wish, hugsaði ég). „Ég stoppa við Vesturlandsveginn, fyrir neðan Hálsahverfið,“ sagði bílstjórinn ósveigjanlegur. Ég hef margoft reynt að múta þessum greinilega forríku bílstjórum með 50 krónum eða svo til að fara Hálsahverfið en það hefur ekki gengið. Brekkan getur verið ansi brött og vindasöm og sleip og löng ...

Blái engillinnHefði svo sem getað farið alla leið í Ártún og beðið þar í korter eftir leið 18 sem gengur Hálsana, eftir að hafa farið í gegnum allan Árbæinn. Sá fyrrum troðfulli strætisvagn sem gekk áður Stórhöfðann og upp Súkkulaðibrekkuna og stoppaði fyrir neðan húsið mitt skröltir nú hálftómur í Árbænum og ég er steinhætt að hitta sætu Pólverjana mína, einu karlana sem sendu mér áfergjulegt augnaráð svo snemma dags. Fer ekki ofan af því, þau hjá Strætó bs hefðu átt að fá mig til leiðsagnar, ekki einhvern Dana sem hefur aldrei upp í íslenskan strætó komið og fyrirlítur Ísland og þolir ekki þjóðina þar sem við erum búin að kaupa allt í Köben nema Tívolí. 

Gerði ráð fyrir því/vonaði að við töffarinn myndum ganga samstiga upp Súkkulaðibrekkuna, kynnast og verða fínir vinir, eins og við skólastrákurinn minn í fyrra/hittiðfyrra, nei, þetta snobbhænsn, sem vinnur annað hvort í kaffiverksmiðju eða er í Kvikmyndaskólanum, lét eins og það sæi mig ekki ... og við sem tókum sama strætó! Svört sem syndin læddist ég alein og veðurbarin uppeftir í áttina að Lynghálsinum. Ég á tvö endurskinsmerki, Tuma tígurs-merki, sem ég keypti nýlega í Skaganesti, held að það sé alveg orðið tímabært að setja þau á kápuna mína kolsvörtu.


Jólaboðinn ljúfi ... tekin í baði ...

Jólaboðinn ljúfiSat með kaffibolla við stofugluggann og beið eftir að baðkerið fylltist. Á meðan ég lá í baði og las Hroka og hleypidóma í kilju notaði einhver tækifærið ... og nú er alhvít jörð, Langisandur er meira að segja gráhvítur. Vissi ekki að eitt stykki sunnudagsmorgunbað hefði svona mikil áhrif. Alltaf gaman að láta koma sér á óvart. Mikið ætla ég út á svalir á eftir og fara í snjókast, jafnvel búa til snjókarl.

Lestur og kósíheitLítið fór fyrir menningarlífinu í gærkvöldi. Fór greinilega of snemma á fætur (til að vernda bakið), kom mér vel fyrir í leisígörl sem ég var búin að koma vel fyrir við glugga, og með kaffibolla í annarri og góða bók í hinni sá ég fram á notalegan laugardag. Því miður sofnaði ég fljótlega og svaf eiginlega meira og minna allan daginn. Hvernig er þetta hægt? Fann fyrir gífurlegri leti erfðaprinsins í gærkvöldi við að hreyfa sig spönn frá rassi og því sleppti ég því að klæða mig og fara að hlusta á Megas. Held meira að segja að það hafi verið pönnukökur í Skrúðgarðinum. Ef ég þekki Skagamenn rétt þá hefur verið vel mætt.

Sú sætasta í ÚtsvariSigrún Ósk, meðreiðarmær mín í Útsvari, hafði samband og ég held að það væri snjallt að hittast, eins og hún stakk upp á. Stilla saman strengi, æfa svindl og svona.

Það næst illa í þriðja aðilann ... enda bissí maður. Annað en við (broskarl). Sigrún er líka blaðamaður, vinnur í Rvík og býr í næsta nágrenni við himnaríki. Já, heimurinn er lítill.

Hún ber það harkalega af sér að vera gáfnaljósið í hópnum. Hún dirfist þó ekki að þykjast vera sæta manneskjan, það sæti er frátekið ...

Say no more ... 


Mikil menning

SólonFór í skyndimenningarreisu um miðbæ Reykjavíkur eftir vinnu og er endurnærð á eftir. Ef ég ynni ekki í Reykjavík þyrfti ég ekki að fara þangað næstu mánuðina. Fyrst var það Sólon, efri hæðin, en þar var Pétur Blöndal með útgáfupartí. Eva frænka er í bókinni hans og ég vonaðist til að hitta hana og knúsa svolítið. Hitti í staðinn Nönnu Rögnvaldar og gladdist mjög, alltaf gaman að hitta hana. Pétur sjálfur kom til okkar og gerði sér lítið fyrir og kyssti hana. Ég heimtaði koss og fékk, enda dagur íslenskrar tung ... æ, úps, svona dónaskapur á ekki heima á virðulegri bloggsíðu. Þess vegna hef ég ekki sagt frá því á þessum vettvangi hvernig ég plataði strákana í vinnunni nýlega. Sagði Nönnu að ég myndi mæta í annað svona menningarpartí eftir viku en þá mundi ég ekki eftir Útsvari.

LaugavegurinnSjö og hálfri mínútu síðar labbaði ég upp í Menn og málningu en þar voru Guðni Ágústsson og Sigmundur Ernir að kynna nýútkomna ævisögu Guðna. Þar var margt um manninn. Hverjir voru þar? Nú, Adda Steina, Þórir Guðmundsson, Guðni, Sigmundur Ernir, Guðrún og Þorgerður frá Bjarti og við Inga, svo ég telji nú upp þá merkilegustu. Missti því miður af því að koma í fréttum Stöðvar 2 í kvöld frá atburðinum en það munaði aftur á móti mjög litlu að mér tækist að lauma mér inn á ráðherra- og alþingismannamynd á Sólon. Þar voru Þorgerður Katrín, Össur, Sigurður Kári og fleira gott fólk. Össur nikkaði ekki til mín eins og hann hefur alltaf gert síðan við spjölluðum saman fyrir löngu um Evrópusambandið. Þetta var á þáverandi vinnustað mínum og Össur að hitta vin sinn sem vann með mér. Hann ætlaði alltaf að sannfæra mig um nauðsyn þess að við gengjum í Evrópusambandið en sá tími hefur ekki komið og ég verð sífellt meira á móti því ... sem er eins og gefur að skilja alfarið sök Össurar. Ætlaði að brosa sætt til Sigurðar Kára en mundi eftir því á síðustu stundu að litla viðtalið sem ég tók við hann um árið var í gegnum síma.

MegasHvítur kötturÁ Skaganum verður líka mikil menning á næstunni. Megas mætir í Skrúðgarðinn annað kvöld og Páll Óskar verður með tónleika 1. des. í Bíóhöllinni. Mig langar að mæta á báða atburðina.

Sá þetta í Póstinum, innanbæjarblaði okkar Skagamanna, sem er alltaf lesið í tætlur af öllum. Sjónvarpsdagskráin er þarna en auglýsingarnar eru líka mjög spennandi, í alvöru. Ég gæti fengið gefins hillusamstæðu ef mig vantaði eða hvítan fresskött, 5 mánaða. Þarna eru líka vetrardekk af öllum stærðum og gerðum.


Hverjir voru hvar ...

Sigurjón til vinstri og Óskar til hægriHingað til hef ég haldið því fram að Akranes væri nafli alheimsins. Stundum verður mötuneytið mitt þó vettvangur stórviðburða og oftar en ekki má sjá frægafólkspersónur spranga þar um. Ja, tveir stórfrægir landsmenn borðuðu plokkfisk með mér í dag og stóðu meira að segja fyrir aftan mig í þriggja manna biðröðinni. Þetta voru engir aðrir en snillingarnir Sigurjón Kjartansson og Óskar Jónasson.

The WeddingEkki nóg með það, heldur sá ég í Fréttablaðinu að Jón Óskar, sem ég hef hingað til umgengist á jafnréttisgrundvelli, var gestur í brúðkaupi aldarinnar á laugardaginn. Hann var líka í mötuneytinu í dag. Ekki nóg með það, heldur skilst mér að kokkurinn sjálfur í mötuneytinu hafi líka verið  þar. Ég, gestur í brúðkaupi aldarinnar 1988 eða svo, verð bara að bíta í það súra epli að vera orðin svo mikið síðustu aldar eitthvað ...  Það sem ég hugga mig við er að mér er alltaf boðið í Þorláksmessuboðið hennar Nönnu.


Tónlistarveisla eða piparsveinauppboð?

Karlakór ReykjavíkurKomst óvænt á leynilegt piparsveinauppboð sem haldið var í sal hér á Akranesi. Mía systir hefur greinilega tekið við af pabba sem sérlegur „tengdasonarveiðari“ og lét mig vita af þessu.

Alltaf er nú gaman að horfa á sæta stráka dilla sér og sýna hæfileika sína. Þegar einn ansi myndarlegur, sem ég komst að síðar að væri stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur, kom á sviðið öskraði ég: „Býð hundraðþúsund í þennan mann!“ Allir urðu voða hneykslaðir og Mía þaggaði harkalega niður í mér. Hún játaði þarna fyrst að hafa bara verið að plata mig með sér á tónleika, tónlistarveislu í Tónbergi, sal nýja tónlistarskólans á Akranesi. Verið var að kynna eiginleika LARES-kerfisins og fengum við að heyra mismunandi hljómburð, m.a. eins og er í Hallgrímskirkju, Langholtskirkju og víðar.

 

Jónas og einsöngvararnirFékk nostalíukast þegar Karlakór Reykjavíkur söng ítalska madrígalann Alta Trinita en það guðdómlega lag söng ég oft með Kór Langholtskirkju í denn.
http://youtube.com/watch?v=y3FjLAOYXA8
(Sjálft Alta Trinita hefst eftir 2.16 mínútur á myndbandinu, verður síðan slappara í flutningi eftir því sem fleiri kórfélagar hverfa út úr kirkjunni, enda er þetta notað sem útgöngulag).
Ekki var nóg með að ég færi að skæla þar (sýndi samt mikla sjálfstjórn, hélt aftur af flóði og snökti ekkert), heldur líka þegar Jónas Ingimundarson spilaði Tungskinssónötuna eftir Beethoven. Þar var erfðaprinsinn fjarri góðu gamni en það verk er í miklu uppáhaldi hjá honum. Þau Gunnar Guðbjörnsson og Auður Gunnarsdóttir sungu líka af hjartans lyst/list við undirleik Jónasar.

CameracticaTónlistarhópurinn Cameractica flutti síðan algjöra Mozart-snilld og aðra finnska 1800-snilld. Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness kom skemmtilega á óvart, þarna var rúm tylft ungra stúlkna sem spilaði þjóðlög (írsk, skosk?) og svo sungu þær líka eins og englar. Bassi, trommur og píanó skemmdi sannarlega ekki fyrir. Ragnar Skúlason stjórnar þessum elskum öllum og við Ragnar mætumst víst alla morgna á Kjalarnesinu ístrætó, hann á leið á Skagann til að kenna.


Guitar IslancioGuitar Islancio steig á sviðið og djassaði af mikilli gleði. Björn Thoroddsen, jafnaldri okkar Madonnu, kynnti hina í tríóinu og sagði m.a. þegar hann kynnti gítarleikarann knáa, Tómas Árnason, að þegar hann var tveggja ára hefði hann notið þess mikið að hlusta á Stuðmenn og þá sér í lagi Tómas. Svona ætla ég að hafa þetta, tala um jafnaldra mína í poppinu  og hvað ég hafði gaman af þeim þegar ég var lítil. Þegar ég var lítil hélt ég mikið upp á Röggu Gísla í Lummunum ... (eitthvað svona)

Þjóðlagasveit Tónlistarskóla AkranessSvo sturlaðist ég úr gleði eftir tónleikana því að léttar veitingar í boði VGK-Hönnunar, sem sá um geggjaðan hljómburðinn, fylltu öll borð frammi.

Piparsveinauppboðið fór fram ...Ég hitti Palla, gamlan vin, arkitekt en samt ágætan, en hann teiknar víst íþróttamannvirkin við Jaðarsbakka og er enn eitt á leiðinni. Ég bað hann vinsamlegast um að byggja ekkert sem skyggði á Akrafjallið frá himnaríki séð. Palli lofaði því. Hann var í fylgd lögmanns síns. Mér fannst það mjög undarlegt, ég hef alltaf lífvörð með mér ... en næ aldrei að brjóta nógu mikið af mér til að lögfræðings sé þörf. Arkitektar eru greinilega algjörir krimmar!
Þegar ég var nýbyrjuð að úða í mig gómsætum kræsingum kom erfðaprinsinn: „Ertu ekki að koma?“ Hafði sent honum SMS í lok tónleikanna og áttaði mig ekki á því að hann hefur ekkert gaman af því að vera í fjölmenni þar sem hann þekkir engan. Hann dró mig nauðuga út.


Tennis eða keila ...

Ég veit ekkert hvað þetta þýðir en myndin er flottFékk nýlega frábærar bakveikiráðleggingar í kommentakerfinu, eða þær að kaupa tvær tenniskúlur, leggjast á bakið á tenniskúlurnar og rúlla mér á þeim um gólf himnaríkis. Þetta er víst allra bakmeina bót. Nú, erfðaprinsinn uppveðraðist þegar hann heyrði af þessu, brást skjótt við og fór í íþróttabúð í Reykjavík í dag. Hann, þessi stórhuga einkasonur sem nennir engu kjaftæði, afhenti móður sinni tvær KEILUkúlur og sagði: „Náðu þessu úr þér í eitt skipti fyrir öll, hjartkær móðir mín.“

Til að gera langa sögu stutta þá skrifa ég þetta blogg frá bakveikideild Sjúkrahúss Akraness, 6. hæð, vesturálmu, í íbúfenvímu, drekk malt og maula snittur með gulldufti til skrauts, á milli þess sem ég hlæ daðursfullt framan í læknana sem hafa aldrei séð flottara brjósklos á ævinni.

 --------                  --------               -----------

Við Tommi að rúllaNei, djók, hann keypti auðvitað tenniskúlur sem ég horfi kvíðin á og legg varla í að fara að rúlla mér á þeim. Held þó að um leið og ég er búin að blogga og ýta á "Vista og birta" geri ég heiðarlega rúll-tilraun og stefni samt að því að halda virðingu minni!

Sú hætta er nefnilega alltaf fyrir hendi að Tommi feitabolla reyni að hoppa upp í fangið á mér til að kúra hjá „mömmusín“ þegar hún liggur ósjálfbjarga á gólfinu og þá er líklegt að þetta endi á bráðamóttöku og jafnvel með íbúfen í æð. Erfðaprinsinum væri svo sem trúandi til að setja Jónas í gang og taka svo myndir

Hvað á ég að láta þáttinn minn á Útvarpi Akraness heita? Hann verður á dagskrá 1. des, held ég, í svona tvo til þrjá tíma (vonandi eftir hádegi), hef ekki séð dagskrána. Langar að tala um jólin, nýútkomnar bækur ... Tillögur vel þegnar, mjög, mjög vel!!! Allt þetta andans fólk sem heimsækir bloggið ætti nú að skutla fram eins og einu góðu nafni um helgina!


Mannasiðir, Mosósjokk og Harry Potter

Marc-Chagall-The-Bride-15351Þetta var nú meiri strætódrossían sem við ferðuðumst með í morgun. Fullkomin rúta með sjónvarpi og alles. Reyndar slökkt á imbanum en Bylgjan var á hæsta, mér til ógleði, þoli illa útvarp á hæsta á morgnana og líkist Hildu systur sífellt meir í sambandi við það. Ég hlammaði mér niður hjá smiðnum.  Þessa dagana er hún í verkefni í Grafarvogi og var svo heppin í grenjandi rigningunni að samstarfsmaður hennar bauðst til að sækja hana í Mosó. Annars hefði hún þurft að skipta um vagn í Ártúni og labba langa vegalengd. Smásjokk þegar við nálguðumst Mosó, ég gat ekki losað mig úr öryggisbeltinu og allt leit út fyrir að smiðurinn þyrfti að hringja sig veika í dag. Svo á síðustu stundu prófaði ég að athuga hvort beltinu væri kannski smellt vinstra megin við mig og þannig reyndist það vera. Sjúkkittt! Annars hefðum við smiðsa þurft að rúnta hring eftir hring - Akranes-Mosó-Akranes-Mosó í allan dag eða þar til einhver með hníf hefði komið og skorið mig úr beltinu. Hugsa ég.

 

ChagallLaBaieVið Sigþóra fengum far upp súkkulaðibrekkuna með elsku Ingu og þegar Sigþóra var komin heilu í vinnuna fórum við Inga í Kaffitár. Svona af því að það er föstudagur þá var keyptur latte og heitt krossant með súkkulaði. Allgjör snilldarbyrjun á degi. Ég vaknaði reyndar hress og næstum því bein í baki, enda svaf ég í leisígörl í næstum allt gærkvöld með hitapoka við bakið. Þetta hlýtur að virka á endanum.

Elskan hann Harry Potter kemur út á íslensku í dag. Það fór aldrei svo að ég lyki við bókina á ensku og er það í fyrsta sinn. Ætla að kenna uuuuu .... erfðaprinsinum um þetta. Er reyndar helmingi fljótari að lesa á íslensku þannig að elsku Jenný mín fær endinn sendan á meili fljótlega. Er að verða búin með Þráin og er bara ansi hrifin. Hann kann þá list að láta persónurnar heita nöfnum sem festast í minni, Víkingur og svona ... það þreytir mann stundum að lesa spennusögur með svo mörgum Jónum, Gunnum, Möggum og Siggum að allt er komið í hrærigraut. Þá er um að gera að hafa persónurnar færri, eins og t.d. Arnaldur gerir. Las bókina hennar Unnar Arngríms í gær en í henni eru leiðbeiningar í mannlegum samskiptum og fleira. Þótt bókin sé kannski gamaldags á margan hátt (ekki galli) þá eru mannasiðir auðvitað sígildir. Ég er greinilega vel uppalin af móður minni og kennurum í Barnaskóla Akraness því að það var ekki margt sem kom mér á óvart en samt svona sitt af hverju sem gott var að vita um kokkteilboð og svona sem ég hef aldrei haldið, það er annað hvort fermingarveisla þegar ég á afmæli eða ekkert. Held að fólk vilji miklu frekar brauðtertur en brennivín!

Myndskreytingar: Marc Chagall - Förðun: Make Up School - Fatnaður: Nína - Gáfur: Úr Skagafirði - Húmor: Þingeyjarsýsla - Útlit: Genaþjónustan hf. - Innræti: Bloggsamfélagið sf - Innræti æskunnar: Skapgóðir Skagamenn gpl.


Engin leið að hætta ...

BaklækningarEin íbúfen og hitapoki með sjóðheitu vatni við bakið í leisígörl klikkar ekki, tala nú ekki um þegar góð bók fylgir með. Bókin um Bíbí miðil eftir Vigdísi Grímsdóttur. Mikið er það  góð bók! Ætlaði rétt að kíkja í hana því að Ávítarastríðið, Himnaríki og helvíti og spennubókin eftir Þráin Bertelsson biðu rosaspenntar en ég gat ekki hætt og er búin með hana! Ég tímdi ekki einu sinni að fara snemma að sofa.

Bakið er orðið mun betra, kannski dulræn áhrif frá bókinni ...! Þetta er mikil örlagasaga, óhemjuvel skrifuð sem kemur ekki á óvart þar sem Vigdís á í hlut. En nú er ég farin að sofa!


Ofsótt af kjötsúpu

UppbyggingMikil ánægja ríkir með Þjóðahátíðina í Skrúðgarðinum sl. sunnudag. María sagði mér yfir súpunni í dag að það hefði komið skemmtilega á óvart hversu vel var mætt, það var fullt út úr dyrum og eins daginn áður þegar Ármann Reynisson kynnti vinjetturnar sínar.

Við erfðaprins ókum einn brimhring um Skagann þótt það verði ekki háflæði fyrr en kl. 16. Tók mynd á leið upp Faxabrautina sem sýnir örlítið þá uppbyggingu sem er í gangi. Verið er að byggja stórt hús, risastórt, stærra en Turninn í Kópavogi. Húsið hægra megin er gamla mjólkurstöðin, einu sinni Veitingahúsið Langisandur, og nú eru þar íbúðir.  Skagamenn voru 6.000 fyrir nokkrum mánuðum, nú nálgumst við 60.000, styttist í 6 milljónir með þessu áframhaldi.

Afmælisbörn dagsins eru Katrín Fjeldsted læknir og Margrét Blöndal útvarpskona. Þær fá náttúrlega klikkaðar afmæliskveðjur úr himnaríki. Litla systir og systursonur eiga svo afmæli á morgun.  Mía systir hringdi og sagði að okkur erfðaprinsi væri boðið í kjötsúpu á laugardaginn í tilefni af 15 ára afmæli sonarins. Er farin að halda að kjötsúpa ofsæki mig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 43
  • Sl. sólarhring: 326
  • Sl. viku: 1836
  • Frá upphafi: 1460819

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1499
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17
  • Dýrheimar kaffihús

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband