Færsluflokkur: Menning og listir

Gul blússa, blátt örlagaarmband og lögguljós í stíl ...

Himnaríki 785Ég vil þakka móður minni og bláa armbandinu mínu sem týndist sigurinn í kvöld. Mamma ákvað nefnilega að mæta aftur í sjónvarpssal í gulu blússunni sem færði okkur sigur yfir Hafnfirðingum í lok nóvember sl.. Bláa, flotta armbandið mitt úr Nínu, sem ég ætlaði að vera með í fyrri þættinum, varð eftir í vinnunni þá og fannst í fyrradag ... ofan í ofninum fyrir aftan skrifborðið mitt. BaksviðsTók það með í dag á Pítuna þar sem ég borðaði fisk til að efla gáfurnar og ætlaði að biðja Ingu að festa það á mig. Það gleymdist og þegar þrjár mínútur voru í útsendingu minnti ég Ingu á það en hún hélt á töskunni minni úti í sal. Hún gramsaði eftir armbandinu í 40 mínútur (Mary Poppins-taska með lampa, hóstasaft o.fl.) án árangurs. Það fannst eftir þáttinn í kápuvasa mínum, þetta er sannkallað armband örlaganna, veldur sigri ef það er ekki notað. BaksviðsÉg ætla því ekki að bera það í næsta þætti, bara á Bessastöðum, og mamma mun mæta í gulu blússunni.

Þegar við erfðaprinsinn þeystum út úr Hvalfjarðargöngunum mættum við lögreglubíl sem var að koma eins og frá Borgarnesi ... og svo sáum við annan löggubíl í hringtorginu. „Verðum við böstuð núna?“ hugsaði ég og æsispennandi ævi mín rifjaðist upp fyrir mér í nokkrum skipulögðum leiftrum sem gerðu ekkert nema auka á spennuna. MJÖG svo huggulegur lögreglumaður lýsti á okkur með vasaljósinu, skoðaði ökuskírteini ökumannsins og lét hann blása í áfengis- eða dópmæli. Ég gat ekki annað en óttast að íbúfenið kæmi fram ... sem hann tók við tannverk fyrr í kvöld, eða adrenalínið í mér smitaðist út í mælinn, en sjúkkitt, við sluppum. Ég hélt alltaf að löggur væru valdar inn í Lögguskólann eftir útlitinu og nú veit ég það! Loksins lenti ég í alvöruævintýri á þjóðveginum.

ÍsafjarðarliðiðSkagaliðiðMikið var þetta skemmtilegt kvöld. Vér Skagamenn vissum sem var að það væru fiftí-fiftí möguleikar á sigri og auðvitað hjálpaði heilan helling að Ísfirðingar fengu svínslegar spurningar, elsku dúllurnar. Bjarni Ármanns „ÓliverTwistaði“ Hekluspurningarnar á snilldarmáta og Máni var líka með ansi margt á hreinu. Einhver þarf að vera til skrauts í hverju liði og þar brilleraði ég gjörsamlega. Ísfirska liðið var einstaklega skemmtilegt ... það veltust allir úr hlátri yfir Ragnhildi þegar hún tók beiskjuna á ræðaraspurninguna viðurstyggilegu. Mikið var gaman að hitta loks dætur hennar eftir að hafa kynnst þeim í gegnum blogg Ragnhildar. Jamm, þetta var góður dagur. Svo er það bara Taggart á RÚV plús eftir augnablik. Leyfi að vanda nokkrum stórkostlegum myndum af vettvangi að fljóta með!

P.s. Var að rekast á færslu í gestabókinni minni. Hundi stolið ... endilega kíkið á færsluna hjá Kolgrími, hlekkur hér að neðan með myndum og upplýsingum, og hjálpið honum og stráknum hans við að finna elsku hundinn. Það er skelfilegt að týna gæludýrunum sínum.

http://kolgrimur.blog.is/blog/kolgrimur/entry/411238/#comments


Ævintýri á Bessastöðum

BessastaðirKyssilegir kórfélagar, axlir borgarstjóraÞegar við Inga komum inn á Bessastaði var þar fyrir nokkur fjöldi fólks, mestmegnis karlmenn sem gladdi mig heilmikið. Dagur borgarstjóri Eggertsson heilsaði okkur innilega með handabandi og ég er hér með orðin enn meiri aðdáandi hans ef það er hægt! Hann er greinilega mannglöggur því að það eru komin ansi mörg ár síðan ég tók viðtal við hann á Kaffibarnum, unga borgarfulltrúann.

Síðast þegar ég fór í móttöku á Bessastöðum var hún tengd Mæðrastyrksnefnd og sætasti karlmaðurinn á staðnum var Jóhannes í Bónus, fyrir utan forsetann. Restin var: kjéddlíngar. Í dag var ekki bara fjöldi karlmanna, heldur heill karlakór í þokkabót og það frá Skagafirði. Eftir að kom í ljós að safnið tilnefnda og karlakórinn tilnefndi höfðu ekki hlotið Eyrarrósina, heldur Aldrei fór ég suður, var boðið upp á drykki. Í kjölfarið réðst ég á Karlakórinn Heimi og spurði hvort svo skemmtilega vildi til að hann væri skyldur mér. Úr Hegranesi en óskyldirAllir kórfélagar nema einn sóru það áfergjulega af sér og þessi eini viðurkenndi að vera framhjáhaldsbarn langafabróður míns. Það er frekar skylt, er það ekki? Þeir könnuðust þó við Höllu frænku á Grettisgötunni og Heiðu, systur hennar, sem býr í Hegranesinu.

Eyrarrósin afhentEftir fimm mínútna spjall og daður fórum við Inga að fikra okkur að útgöngudyrunum. Frammi hittum við M&M-Árna í góðu stuði og svo hýrnaði enn meira yfir okkur þegar ráðsmaðurinn kom brosandi með bakka fullan af pínuoggulitlum snittum. Eins og allir vita þá eru þunnar brauðsneiðar smartari en þykkar svo að pínulitlar snittur eru sérlega flottar. Þetta segir manni að t.d. matarmikið brauðið á Jómfrúnni sé plebbalegt. Ég fékk mér eina dúllu með drögum að laxasneið og sá mér svo til mikillar skelfingar að maðurinn með bakkann gerði sig líklegan til að leyfa öðrum gestum að smakka því að hann hvarf inn í salinn sem við vorum nýkomnar úr. Skrifstofan á BessastöðumEf ég hefði ekki verið búin að lesa nýju mannasiðabókina hennar Unnar Arngríms hefði ég elt hann, ég var svo svöng. Auðvitað á ekkert að mæta á svona samkomur með tóman maga, veitingarnar eru aldrei þannig að hægt sé að borða sig saddan. Svo var þarna heill karlakór, kommon, menn sársvangir eftir allan sönginn. Þeir tóku meira að segja Undir bláhimni! Eins gott að Lísa Páls var ekki á staðnum, hún neitaði fyrir rest að spila þetta lag (með Labba) á Rás 2, enda var það mögulega, hugsanlega ofspilað á þeim tíma ...  

Áslaug DóraJú, og hverjir voru hvar? Þarna var fyrrnefndur Árni, kenndur við Tímarit Máls og menningar, Össur sjálfur, Erla á Bændablaðinu, Þorgerður Katrín, Dagur borgarstjóri, Sigrún Stefánsdóttir dagskrárstjóri RÚV, elskan hún Áslaug Dóra hjá menntamálaráðuneytinu, nýi ferðamálastjórinn, pabbi hans Mugisons, Guðrún Kristjáns fjölmiðlafulltrúi Listahátíðar ... og restin var svo eiginlega bara sætir menn. Á BessastöðumÉg frétti að Karlakórinn Heimir heldur tónleika í Langholtskirkju núna seinnipartinn í janúar!

Þetta var fyrirmyndarboð og Dorrit stóð sig eins og hetja, hún var eini gestgjafinn þar sem Ólafur liggur í flensu.

Ég tók nokkrar snilldarmyndir að vanda sem munu skreyta þessa færslu. Þær stækka ef smellt er á þær, enn meira ef smellt er aftur ...

Nú er bara spurning hvort maður tími að rústa Ísafjarðarliðinu annað kvöld og skemma þannig gleði þeirra yfir Aldrei fór ég suður-verðlaununum.


Annáll árins 2007 - allt afhjúpað

Baðfarir með TommaJanúar: Bloggaði í sakleysi mínu og barnaskap á blog.central.is þegar vélstýran hugumstóra hringdi í mig og sagði að sér fyndist að Lúrt við Langasandinn-bloggið ætti að færast á Moggablogg. Því hlýddi ég þann 14. janúar fyrir tæpu ári og hef ekki verið söm síðan. Fór oft í bað.

Febrúar: Skrifaði bloggsápu sem verið er að kvikmynda nú með Tom Hanks í hlutverki Guðmundar bloggvinar. Fór rosalega oft í bað.

Mars: Davíð frændi alltaf á spítala, barðist við sama lungnasjúkdóm og Björn Bjarnason. Náði góðum bata, eins og Björn. Fór sjaldan í bað.

Apríl: Fann giftingarsögu Brooke á Netinu: Eric 1991, Ridge 1994, Ridge 1997, Thorne 2001, Whip 2002, Ridge 2003, Ridge 2004.

SönnuninMaí: Sumarið hófst formlega 16. maí og ég komst loks út án sokkabuxna. Hitti óvænt Sverri Stomsker sem kyssti mig. Það leið þó ekki yfir mig, eins og gerðist hjá Evu frænku og varð blaðamál.

Júní: Tók greindarpróf á Netinu og skorið var ... 87! Shocking

Júlí: Komst upp á lagið með að freyða mjólk í espressókönnunni minni, hætti að kaupa kaffirjóma.

Afmæli 2007 Ágúst: Afmælið! Fór í bað.

September: Keypti ryksuguróbótinn Jónas. Tókst að lokka erfðaprinsinn til að flytja upp á Skaga. Nú koma vinirnir í kjölfarið.

Október: Óvenjulítið að gera hjá Jónasi.

Nóvember: Afbrýðisemi erfðaprinsins út í Jónas veldur stríðsástandi, sá fyrrnefndi dustar rykið af venjulegu ryksugunni. Jónas rykfellur. Fór í jólabaðið.

Desember: Jólin og áramótin. Jónas fékk að ryksuga þrisvar.    


Jólabold - varúð

Nick í jólabúningiBest að jólabolda svolítið. Mikið hefur gengið á að undanförnu hjá feita og fallega fólkinu (er að reyna að breyta þessu Svo grönn og sæt-dæmi), hef misst af einhverju en getað lesið á milli línanna samt. „Mamma, eyddir þú nóttinni með Ridge eða Nick?“ spurði Bridget, óeigingjarnasta og besta dóttir sem Brooke gæti hugsað sér, enda var Bridget gift Nick, eins og allir muna. Hvorugum, var svarið.

Ridge og NickFelicia lifnaði við í sjúkrabílnum og Stefanía stjórnunarfíkill leynir því og er búin að redda lifrarskiptum fyrir hana. Enginn skilur í því hvers vegna hún syrgir ekki dóttur sína, heldur talar um hana eins og um lifandi manneskju væri að ræða. Felicia veit heldur ekki af því að hún er á lífi, hún er í kóma, var búin að kveðja alla og svona. Eftir næstum því ástaleik Taylor og Nicks sem næstum því gift Ridge hún Brooke gengur inn á hafa Taylor og Nick orðið perluvinir. Nick elskar þó Brooke sína ofurheitt en hún tekur þá ákvörðun að ekkert verði á milli þeirra fyrr en að sex mánuðum liðnum, þegar skilnaður Nicks og Bridget, dóttur hennar, verður löglegur. Mér sýnist á öllu að það séu mikil mistök hjá henni. Ég spái því að Taylor, í ástarsorg eftir Ridge (sem var næstum búinn að plata Brooke upp að altarinu í fimmta skiptið eða svo) næli sér í Nick á þessu tímabili. Bridget fórnfúsa segir að Brooke þurfi ekki að fórna sér svo mikið en Brooke má ekki heyra á annað minnst.

RiddddsBridget skælir um leið og hún afhendir Nick eigur hans, Nick virðist fatta að hún hefur gengið of langt í fórnfýsinni, maður gefur ekki mömmu sinni manninn sinn þótt mamman sé ástfangin af honum.

Ridge segir við Brooke að hann sé að flytja inn á hana. Brooke mótmælir harkalega, greinilega ekki búin að fyrirgefa honum, heldur hann. Það er mikill munur á því að hafa gifst og næstum því gifst. Hún viðurkennir fyrir Ridge að hún elski Nick. Samt ræðst hann ástríðufullt á hana og kyssir í klessu. Hún hlýtur að láta segjast.

Minningarathöfnin um Feliciu er bæði falleg og átakanleg, það vottar meira að segja fyrir leikhæfileikum hjá sumum þarna en laukur er vissulega áhrifaríkur, ég tala af reynslu. Stefanía engist af samviskubiti en læknirinn ráðlagði henni að halda þessu með dauða hennar til streitu, svo litla von hefur hann um að henni batni. Annars sýnist mér hann vera orðinn skotinn í henni. Hann hringir aðeins seinna í Stefaníu og segir henni að hún þurfi að koma strax. Þá er minningarathöfninni lokið. Stefanía segir að það sé ekki of seint að bjarga Feliciu en allir horfa samúðarfullir á hana og trúa henni ekki. Læknirinn segir að Felicia hafi sýnt ótvíræð batamerki!


Einnar konu kór

Kór Guðríðar af himnaríkiSmá kvef og slappleiki í gangi og aukaverkun af því er hreint ævintýraleg. Þegar ég tala er eins og fullt af Gurríum sé að tala. Segja má að tal mitt sé raddað og vel má greina sópran, alt, tenór og bassa með smá róbótahljóðum ef vel er hlustað. Ég hef ekkert bloggað síðan í gær af því að ég var að stofna einnar konu kór og hef verið upptekin við að æfa Jólaóratóríu Bachs í allan dag. Alveg satt. Erfðaprinsinn virðist skíthræddur þegar ég kalla á hann og kemur strax með inniskó í munninum og kaffi og teppi og handklæði og fleira til öryggis því að hann veit ekki hvaða raddir þetta eru sem hann heyrir í höfðinu á sér. Mér dettur ekki í hug að róa hann.

Hélt sjúklega flotta tónleika fyrr í kvöld, tek það fram að allir sem sjást í mynd bærðu eingöngu varirnar. Ég stóð fyrir aftan og á allan heiðurinn af söngnum. Þakka Sinfóníuhljómsveitinni fyrir  aðstoðina. http://youtube.com/watch?v=ggm0SZCWKZo&feature=related

P.s. Hlekkja með færslu frá Jens Guði sem ég hvet alla til að lesa: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/391858/


Bold and the brúðkaupsraunir

Taylor, geðlæknirinn geðþekkiBrooke með svefnherbergisröddinaHeld að það sé kominn tími á að bolda svolítið. Brooke hætti við að giftast Ridge af því að ástsjúkur tengdasonur hennar, Nick, truflaði brúðkaupið, eins og komið hefur fram. Felicia dó og Bridget huggaði Ridge vegna systurmissisins og notaði svefnherbergisröddina á hann meðan hún strauk honum „huggandi“ og léttklædd uppi í rúmi. Nick hljóp upp til að athuga hvað væri í gangi, opnaði dyrnar hljóðlaust og kíkti og gat ekki séð betur en ástaleikur stæði sem hæst. Fólkið í boldinu læsir aldrei að sér. Hann hljóp út í hvelli og á barinn, hitti þar blindfullan og snöktandi geðlækninn, hana Taylor sem vonaðist til að fá vonandi kannski mögulega að hirða upp leifarnar af Ridge. „Ekkert stolt kemur í veg fyrir hamingju mína,“ drafaði hún. Hún elti samt harmþrunginn Nick í bátinn hans. Á svipuðum tíma, þegar Brooke var búin að hugga Ridge, hitti hún Jackie, mömmu Nicks, sem sagði henni að Nick hafi greinilega séð til Brooke og Ridge því hann hafi hlaupið út í sjokki. Brooke fær líka sjokk, ákveður að finna Nick og segja honum að hún elski hann, ekki Ridge. Af einskærum drykkjuskap og klaufagangi datt léttklædd Taylor ofan á enn minna klæddan Nick sem var allt í einu kominn í koju og um leið gekk Brooke í salinn (káetuna). Tjaldið fellur.

Það er þrennt í stöðunni:

Tom á góðri stund1. Brooke fleygir Taylor útbyrðis sem missir minnið og giftist svo Tómasi, syni sínum, þegar kemur í ljós að ruglingur hafði átt sér stað á fæðingardeildinni fyrir 18 árum. Brooke fellur fyrir fangaverði í kvennafangelsinu og tekst með hennar hjálp að flýja. Hún litar hár sitt dökkt og fer að ganga í lágbotna skóm.  
2. Taylor stofnar bleikan trúarhóp þar sem fjölveri er leyft og gengur að eiga Nick, Ridge, Thorne og brunakarlinn. Hún verður MJÖG hamingjusöm. Oprah fjallar um málið í þætti sínum.
3. Taylor giftist Eric, tengdaföður sínum. Stefanía, mamma Ridge, fer að vera með Nick sem er genginn í Vísindakirkjuna. Tom Cruise fer að bregða fyrir í þáttunum.


Móðgandi póstforrit og ævintýri helgarinnar

JólahlaðborðBílferðin í morgun var ósköp notaleg. Gat reyndar bara búið til lítið af latte handa okkur þar sem mjólkin var næstum búin. Við Ásta ræddum ævintýri helgarinnar á leiðinni og hún toppaði mig algjörlega. Ég fór í virðulegan, háæruverðugan Lions-jólamat á föstudag með Míu systur á meðan Ásta fór í afmæli og síðan á jólahlaðborð kvöldið eftir, hvorttveggja í bænum. Rúta ók fólkinu heim á Skaga af jólahlaðborðinu og einn úr hópnum gerði sér lítið fyrir og ... gubbaði á leiðinni. Þegar Ásta sagði mér þetta mundi ég algjörlega hvers vegna ég er hætt að nenna að djamma og fór t.d. ekki í Skíðaskálann um árið þegar jólahlaðborð Fróða fór þar fram, bjó þó í borginni á þeim tíma. Rútur áttu t.d. að fara í bæinn kl. 1 um nóttina og næsta kl. 2. Ég er greinilega svo næm ... eða lífsreynd að ég vissi innra með mér að fyrri tímasetningin stæðist ekki ... og það var rétt! Báðar rúturnar fóru heim upp úr 2. Í svona tilfellum, eins og þessu, þarf maður að eiga bíl. Einu sinni var árshátíðin okkar haldið á Hótel Örk í Hveragerði, rétt fyrir jólin. Ég var í sérherbergi og þegar ég nennti ekki að djamma lengur laumaðist ég inn í herbergið mitt ofsaspennt af því að Arnaldur Indriðason beið mín á koddanum, spennandi og djúsí. Nú verðið þið bara að giska á hvort þetta hafi verið huggulegur maður með þessu nafni ... eða bók.

Efnið sem ég vann heima í gær skilaði sér ekki til mín hingað í vinnuna með tölvupósti. Nýlega var skipt um póstforrit og fjöldi bréfa tapast í leiðinni. Ef einhver þarna úti hefur sent mér ímeil í vinnuna og ég ekki svarað því þá vil ég að það komi fram að það er það nýja póstforritinu að kenna.


Loksins kjaftasaga, tími til kominn

SimpsonsSimpsons-myndin var stórskemmtileg, enda ekki við öðru að búast. Erfðaprinsinn ætlaði að slökkva á henni um leið og stafirnir komu en móðir hans hafði vit fyrir honum og þar af leiðandi náðum við nokkrum atriðum í viðbót.

Ertu skotin í Tomma?Útvarpi Akraness var um það bil að ljúka í hliðarsalnum þegar við komum í köku og kaffi í Skrúðgarðinn fyrr í dag. Óli Palli var eitthvað að flækjast frammi, heilsaði og ... beygði sig síðan yfir mig og ... kys ... djók, og sagði lágt: „Hér er það mál manna að þú sért skotin í Tomma.“ Þarna átti hann við Tomma strætóbílstjóra. Ég gat auðvitað ekki neitað því og sagði honum að við kvenkynsfarþegar værum hrifnar af Tomma en hann liti við okkur öllum, sem sagt engri okkar. Ég veit að hann saknar skrautsins í brekkunni, eins og hann kallar Karítas í Lopabrekkunni. Karítas hefur mikið á samviskunni að vera flutt norður á land, hún er samt harðgift, held ég. Svo hugsar Tommi líka svipað og ég, við erum of ung til að vera skotin og binda okkur og svona ... Ég talaði um Tomma í útvarpsþættinum mínum og þá aðallega matarsmekk hans, þar var kannski kveikjan að sögunum og minntist auðvitað líka á hina bílstjórana. Næsta ár tala ég um mest um Heimi, eða Kidda ... eða kannski Gumma, jafnvel Ella, og þá verður gaman að vita hvort það komi ekki líka flottarsögur út úr því. Ég sagði Óla Palla reyndar að ég væri líklega kalin á hjarta, fyndist gaman að horfa á sætu strákana (ókei, karlana) en lengra næði það ekki. Mögulega á vinnustaður minn stóra sök á því með því að halda mér svona önnum kafinni og í frístundum kenni ég sjónvarpi og bókum alfarið um. Svo getur auðvitað verið að heimakærð, ballfælni, kaffidrykkir fram yfir aðra drykki, aðdáun á köttum, búeta á Akranesi, háralitur, skófæð, feimni, mannorð eða eitthvað slíkt hafi einhver áhrif.


Konan í brekkunni ...

Var soldið ógreinileg í morgun ...Fólkið í vinnunni starði á mig í morgun, eins og ég væri draugur. „Þú hefur komist yfir Kjalarnesið?“ spurði ein kjörkuð, þó með smá Reynistaðabræðrabeyg í augnaráðinu. Já, ég komst svo sannarlega og það var voða gaman, enda Tommi undir stýri. Hann verður útvarpsstjarna í kvöld og spilar rokklög á Útvarpi Akranes FM 95.0. Mér skilst að aðeins hjartahreint, rauðhært og vestfirskt fólk nái stöðinni á höfuðborgarsvæðinu.

-----      ----------     ------

Strætó í morgunSat fremst við hlið Sigþóru í strætó og klappaði henni reglulega á róandi hátt, hún er svo veðurhrædd að eigin sögn, elsku kerlingin. Það komu vissulega nokkrar hressilegar hviður, enda 30 m/sek í hviðum, en Tommi hafði fulla stjórn á öllu, m.a. með því að aka hægt á köflum. Tommi, þessi lauslætisdaðurbósi, sagði okkur Sigþóru, smiðnum og Hlina (fólki í fremstu röð) að ekkert prýddi nú lengur Lopabrekkuna, engin Karítas biði og gleddi augu bílstjóranna, hún væri víst flutt til Akureyrar. Við komumst að þeirri niðurstöðu að henni hefði ekki bara boðist gott starf, heldur hafi hún fallið fyrir því að það er FRÍTT í strætó á Akureyri. Ég flutti upp á Akranes af því að strætó byrjaði að ganga á milli ... hvað ætli margir myndu flytja ef það væri þar að auki frítt ... kannski hefðum við ekki misst Karítas norður yfir heiðar!

"Viltu vera algjört krútt og stoppa fyrir okkur Sigþóru," sagði ég þegar við nálguðumst Hálsahverfi. "Ég þarf ekki að stoppa til þess," svaraði sár bílstjórinn og Sigþóra hló, enda skepna. Það er ekki bjalla í rútunni og ég reyni að nota mismunandi setningar í staðinn, til að bílstjórarnir fái ekki leið á mér, m.a.: „Ef ég lauma að þér 50 kalli væri þú þá til í að stoppa næst?“ eða „Þetta er rán, ef þér stöðvið eigi langferðabifreiðina mun ég syngja fyrsta kaflann í Ármanni og Vildísi eftir Kristmann Guðmundsson.“ ja, þetta síðasta hef ég reyndar ekki prófað en það verður brátt. Langur dagur fram undan, ég er með Pál Óskar í eyrunum og finnst nýja platan hans gjörsamlega æðisleg, tónlist sem gerir mann hamingjusaman, alveg í stíl við söngvarann.


Tæknitröll, bold og allt um Útvarp Akranes

Inga í stuðiGott var að fá far heim með Ingu en þegar hún var að fara út úr dyrunum eftir latte og spjall bað ég hana að tengja snöggvast vídeótækið sem hún lánaði mér. Það hefur alltaf gleymst. Hér á þessu heimili leikum við okkur að kjarneðlisfræði og töfrateningum en kunnum ekki á svona hversdagslega hluti. Dæmi: Hér er ekki ryksugað, heldur sér vélmenni um að halda gólfum himnaríkis hreinum! Jæja, annað hvort er tækið bilað eða scart-tengi eru uppfinning andskotans! Þetta tafði Ingu um næstum klukkutíma og heima í Reykjavík beið hennar sársvangur drengur (20 ára). Tek það fram að Inga leikur á fjarstýringar og tengingar eins og Mía systir á píanó og ég á karlmenn, eða gerði ef ég virkilega legði mig fram um það! Kannski.

BoldiðHef horft með öðru, eiginlega hálfu, auganu á síðustu bold og skil ekki alveg allt sem er í gangi. Mér sýnist þó að Bridget tali um barnið, Nichole, sem dó við fæðingu, sem límið sem hélt hjónabandi hennar og Nicks saman. Nú er ekkert lím. Svo kom í ljós að Nick á ekkert í Dominic litla, heldur Dante, bjargvættur Taylor (bjargaði henni frá Ómari soldáni sem hafði rænt henni og allir héldu að hún væri dáin en þá var hún bara í dásvefni). Dante kemur sterkur inn, deitaði meira að segja Brooke á tímabili. Nú þráir hann heitast af öllu að Briget komi til sín og gangi barninu í móðurstað, eins og hún ætlaði að gera með Nick.

Það gengur löturhægt hjá Ridge að reyna við Brooke, hún sér bara tengdason sinn, Nick, sem verður væntanlega brátt á lausu. Eflaust verða þó einhverjar flækjur til að skemma það, kannski að Brooke játist bara Ridge til að spæla Stefaníu, mömmu hans. Svo er dóttir Lou horfin, eftir að Barnavernd kíkti í heimsókn út af marblettinum á öxlinni á henni, sem hún reynir að kenna hinni hressu dóttur Steiger lögregluforingja um. Svo kom eitthvað um að stýrimaður eða vélstjóri hefði klikkast og reynt að sökkva skipi þótt hann hefði ekki stímt á ísjaka og ... jamm, það var alltaf fjör í boldinu.

Himnaríki 578Miðvikudagar eru ekki lengur viðbjóðslegir kellingasjónvarpsdagar á Stöð 2, ekki eingöngu. Nú eru bæði Closer, spennuþáttur (reyndar kona sem yfirlögga) og Grey´s Anatomy (kona sem læknir en líka fullt af körlum) á dagskránni og hægt að fara að lesa þegar Oprah byrjar ... og horfa á Kiljuna í leiðinni. Er komin frekar langt í Ösku, bókinni hennar Yrsu og finnst hún alveg stórskemmtileg. Í dag fékk ég Guðna sjálfan og kíki á hana um helgina. Harry Potter er þó ofar í bunkanum en erfðaprinsinn, sem átti þá næstsíðustu eftir, spændi hana í sig og er nú langt kominn í þessarri nýju, rosalega spenntur.

Kubbur og JónatanÚtvarp Akranes verður sent út frá Skrúðgarðinum um næstu helgi (FM 95.0). Það er sniðug hugmynd að senda út þaðan. Tommi strætóbílstjóri og Jón Allansson (gamall bekkjarbróðir úr barnaskóla og safnstjóri hér í bæ) sjá um rokkþátt frá kl. 21 á föstudagskvöldinu. Það verður án efa góð skemmtun! Svo ætlar sjálf Anna Kristine að vera með viðtal við hjónin Ingibjörgu Pálmadóttur og Harald Sturlaugsson á sunnudeginum um miðjan dag. Þess á milli bara glimrandi fjör og skemmtun. Erfðaprinsinn ætlar að skutla mér undir hádegi á laugardeginum og fara svo að kaupa jólagjafir. Hef ekki hugmynd hvað ég á að pína hann til að gefa mér! Getur hann toppað afmælisgjöfina? Efast um það. Kannski að ég tali meira um hvað nýja safnplatan með Led Zeppelin sé örugglega góð ... Mér sýnist hann vera sofnaður með Potter á bringunni og kettina til fóta. Hvað er annað hægt að gera en sofa þegar Jónatan hefur alveg yfirgefið fjölskylduna?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 363
  • Sl. viku: 2158
  • Frá upphafi: 1451894

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1760
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Grimm
  • Í kringum ljósastaurinn
  • Baldursbrár

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband