Færsluflokkur: Lífstíll

Rómantík en samt ekki ...

BrúðkaupstertaHafði ekki nema um stundarfjórðung til að vakna almennilega, hafa mig til og ná strætó í morgun. Ekkert kaffi var því drukkið í himnaríki í morgun en ég gat hlakkað til góða kaffisins í vinnunni sem ég er að drekka nákvæmlega NÚNA. Mikið er gott að vera svona viðhaldsfrí,  hafa svona góðan efnivið til að vinna úr; ekkert spartl ... bara hviss, bang og ég enn meira sæt en þegar ég vaknaði. Alla vega greindi ég hrifningu bæði hjá körlunum mínum þremur á stoppistöðinni og líka bílstjóranum í morgun. Það er svo sem ekkert nýtt! Ég var vör um mig þegar ég hoppaði út um dyr himnaríkis en enginn silfurlitur jeppi sat fyrir mér. Kannski kunna hundaníðingar ekki að lesa.

Á Langasandinum„Hva, engin umferð,“ sagði bílstjórinn þegar við komum út úr göngunum sunnanmegin. „Neibbs, þeir eru örugglega alveg lamaðir heima eftir gærdaginn,“ stakk ég gáfulega upp á. Hvernig verður næsta helgi, næstmesta eða jafnvel mesta ferðahelgi ársins? Samt fúlt að fara ekki í sumarbúðirnar tvær helgar í röð. Ég fer nefnilega í brúðkaup 07.07.07, eins og hálf þjóðin. Hressa bílstjóranum frá Húsavík er boðið í fjögur brúðkaup (og vonandi enga jarðarför) þennan dag og ætlar ekki að mæta í neitt, heldur fara í mótórhjólasniglaeitthvað .

Myndskreytingar á síðunni tengjast  brúðkaupum, þótt rómantík mín sé í sögulegu lágmarki núna.

Er mjög „ódugleg“ við að kommenta hjá bloggvinum mínum þessa dagana. Það orsakast af því að ég dett alltaf út og þarf að skrá mig inn við næstum hverja hreyfingu. Ég þarf að pikka allt hele klabbet inn jafnvel tvisvar á hverri síðu bloggvinar. Fyrst til að geta byrjað að kommenta, síðan þegar "bloggið" heldur því fram að ég sá óskráð og heimtar aðra skráningu. Arrrgggg!


Mikil seinkun á Skagastrætó ... og sjokk á Garðabrautinni

Nýlögð af stað frá MosóHelga systir sótti mig á BSÍ og skutlaði mér svo á síðustu stundu í Mosó eftir góðan kaffibolla og djúpsteiktan Camenbert í miðbænum. Alltaf svo gaman að hitta Helgu. Sérblogg um hana fljótlega. Við hefðum ekki þurft að flýta okkur. Ég hefði getað skroppið í bað, slegið meðalstóran garð með orfi og ljá, eða mögulega skrifað harmsögu ævi minnar ... það var sko klukkutíma seinkun vegna umferðar. Strætó ók á 10-20 km/klst næstum alla leið frá göngunum.
Háværir unglingar í eldri kantinum, kannski 16-17 ára, lögðu undir sig skýlið svo að sómakæru Skagamennirnir húktu úti í sífellt kólnandi veðrinu. Þeir kveiktu á blysum, hentu rusli um allt, firrtir unglingar sem leiddist. Trúi ekki að ég hafi verið svona slæm í denn, eða fyrir svo fáum árum.

Perlufestin í KollafirðiÉg hringdi í 540 2700 til að tékka á málum eftir svona hálftíma bið og var sagt að það væri a.m.k. hálftíma bið í viðbót. Fólk úr Mosfellsdal þurfti að sjálfsögðu að komast inn á Vesturlandsveginn þannig að löggan stoppaði umferðina í nokkrar mínútur til að hleypa þeim inn á og ekki lagaði það ástandið. Svo kom elsku strætó og þegar hann lenti í Mosó sá ég að farþegarnir af Skaganum klöppuðu allir. Það var sætaferðastemmning á leiðinni á Skagann, bílstjórinn var mjög skemmtilegur, enda ættaður frá Húsavík. Þegar við vorum að nálgast göngin sagði hann með mjög spúkí röddu: „Ég á að vera að mæta sjálfum mér núna ...“ Farþegarnir öskruðu, þetta var eins og að vera staddur í miðri hryllingsmynd. Aðalsjokkið var þó eftir.

SjefferhundurÞegar við ókum inn Garðabrautina og ég var að fara að standa upp til að fara út úr vagninum sá ég gullfallegan sjefferhund og tvo menn sem virtust vera að hvetja hann til að hoppa inn í bíl að aftan. Okkur í strætó til mikils hryllings fór annar maðurinn að lúberja hundinn þegar hann var kominn upp í bílinn. Hann notaði hnefana og barði hann í hausinn. Ég gat ekki stillt mig um að kalla upp yfir mig og bílstjórinn sá þetta líka. Hann sagði alveg í rusli: „Ég vona að ég eigi aldrei eftir að sjá svona lagað aftur!“ Ég var svo æst að ég ætlaði að ná gaurunum, adrenalínið gefur manni aukið hugrekki ... kannski voru þetta handrukkarar og þá væri ég núna með brotnar hnéskeljar ... en þeir voru lagðir af stað á bílnum. 

Ég er enn í rosalegu uppnámi, hvað getur maður gert? Kært þetta fyrir lögreglunni? Þegar almenningur skammast yfir grimmum hundum ætti frekar að tékka á eigendunum. Sama hvað hundurinn hefur gert af sér þá gerir maður ekki svona. Ef hann hefur verið þrjóskur að hoppa upp í bílinn og fær svona refsingu þá verður þetta illa grimmur hundur.
Ég man hvað mér fannst hræðilegt að sjá amerísku móðurina berja barnið sitt inni í bíl og fréttir af því komu í sjónvarpi um allan heim ... mér leið eins núna. Maður gengur ekki í skrokk á minni máttar ... ég gæti reyndar sjálf hugsanlega myrt með köldu blóði barnaníðing sem ég stæði að verki en ég get ekki setið hjá þegar fólk fer illa með börn eða dýr.


mbl.is Þung umferð í átt að höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótur munntóbakssvipur, pastasalat, skrifstofupúl og glannar

Ferðin austur á Hellu gekk mjög vel en umferð var frekar þung. Alveg merkilegt að sjá þessa framúraksturgaura/-píur sem tóku óþarfasénsa sem flýtti svo sama og ekkert fyrir þeim. Glannar!!! Magga kom með þá hugmynd að allir þeir sem tækju bílpróf færu fyrst í sálfræðipróf. Ekki galið! Annars breytast sumir dagfarsprúðir borgarar í hin mestu skrímsli bara við það að setjast undir stýri.

Þegar ég sat í leið 15 í Ártúni á leið til Möggu komu nokkrir unglingsstrákar inn í vagninn. Bílstjórinn bannaði þeim að taka hálffullar kókflöskur með sér inn. Þeir hentu þeim þá bara á götuna, ruslafata var samt í nokkurra skrefa fjarlægð. Það er svo auðvelt að kenna krökkum að nota ruslafötur ... bílstjórinn starði gribbulega á þá en sagði ekkert. Ég sat svo aftarlega að mér fannst ég ekki geta skipt mér af þessu.
Þessir strákar taka greinilega munntóbak og setja í efri vörina. Þeir litu allir út eins og tannlausir hálfvitar þegar þeir voru búnir að skella því í sig ... synd að þeir skuli ekki fatta hvað þeir eru hallærislegir og ljótir svona. Einn ættingi minn notar svona og mér finnst það skelfilegt Hehhehe, er búin að reyna allt til að hann hætti því. Segja að hann nái sér ekki í stelpu ... missi tennurnar ... missi tunguna ... lykti ógeðslega ... það vaxi rabarbari út úr eyrunum á honum ... en hann hlustar ekki á mig. Þetta er tískufyrirbrigði hjá unglingum núna, held ég.

Sigurjóna matráðskona sá tár sprautast fram á hvarma mína þegar ég fattaði að það voru pylsur í matinn (eins og ég hafi ekki vitað það, múahahahaha). Hún fór inn í kæli og sótti þetta líka dýrlega pastasalat og gleðin tók yfir. Sjúkkittt! Svo verða bakaðar vöfflur aðeins fyrr en vanalega á morgun svo að ég nái að fá mér eina áður en rútu-rassgatið kemur á Hellu um þrjúleytið.

Í kvöld höfum við Magga svo verið að vinna á skrifstofunni og haft nóg að gera. Hún er nýfarin í bæinn. Finnst gott að keyra í lítilli umferð á nóttinni ... gaf henni Pipp til að hún héldist vakandi.
Börnin hérna eru meiri krúttin, alveg dásamlega skemmtilegur hópur! Segi þetta kannski alltaf ... Finnst alveg synd að geta svona lítið spjallað við þau, þetta er svo stuttur tími sem ég hef ... allt tímaáætlun Þingvallaleiðar að kenna!


Ósléttar baðfarir, góð gestakoma og norðangarri

FylkirMikið var gott að sofa til hádegis þótt ýmislegt hafi verið gert til að koma í veg fyrir það. (Sinadráttur og slíkt, best að kaupa banana)

Heimsóknin í gærkvöldi var gjörsamlega brilljant, orkugefandi og góð, mikið þekki ég skemmtilegt fólk! Þessar konur eru miklar Fylkiskonur og að sjálfsögu held ég með Fylki núna, fyrir utan ÍA og smáveikleika fyrir Val, Fram og KR. Svana frænka vinnur í Fylkishöllinni og dætur Hildar hafa verið í Fylki. Sú yngri er stödd hérna á Skaganum til að taka þátt í fótboltamótinu.
 

Svana æpti auðvitaðÁfram ÍA! upp fyrir sig þegar hún kom inn í eldhús og sagði: „Skotastúka!“ Hún sá íþróttavöllinn blasa við út um gluggann. Ég fattaði auðvitað ekkert að segja henni að stúkan sú hefði kostað margar milljónir og það tæki u.þ.b. 300 ár fyrir íbúðina að borga sig upp með sparnaði á miðakaupum inn á völlinn. Ég var nafnilega svo þreytt í gær eftir sérverkefnið mitt sem kemur væntanlega í ljós í næstu viku hvað er, veit ekki hvort ég megi blaðra því strax.

 

Bombur from heavenNú er hvöss norðanátt, virðist mér þegar ég fer inn á bað og kannski ráð að loka glugganum áður en ég skelli mér ofan í baðið. Já, og ég segi baðfarir mínar eigi sléttar síðustu dagana. Spurning hvort Orkuveitan er að stríða mér og þá hvort Anna viti af þessu. Tvisvar í síðustu viku bjó ég mér til ilmandi, guðdómlegt, vellyktandi, freyði- og ilmbaðbombubað og þegar ég ætlaði að stíga ofan í var baðvatnið ískalt! Í fyrrakvöld gerðist þetta í seinna skiptið og ég tímdi ekki að láta allt renna úr baðinu, heldur geymdi smá og ætlaði að bæta heitu við eldsnemma í gærmorgun. Hmm, það var enn heitavatnslaust en ég VARÐ ... svo að ég stóð skjálfandi með fæturna ofan í og þvoði mér með þvottapoka upp úr ilmandi ísköldu vatni. Hressandi, fljótlegt en djöfullegt! Arggg!

Ætla að taka kl. 15.41 strætó í bæinn á eftir og vera síðan samferða Möggu í sumarbúðirnar. Taka svo rútuna heim frá Hellu um miðjan dag á morgun. Stutt stopp en það veitir ekki af smáhjálp á skrifstofunni við að skrá börnin á næstu tímabil, gera lista og svona, verst að ég kann svo lítið á excelinn í Makkanum. Það er nokkur skráning í gangi á hverjum degi. Ég veit um nokkur börn sem ætla að koma aftur í sumar, í annað sinn. Það er mikið hrós.


Fingralangur ferðamaður, stuð í strætó og bissí dagur

sunny-morningEinn samstoppistöðvarmaður minn á Skaganum er voða skemmtilegur. Við erum farin að spjalla um hin ýmsu mál á meðan við bíðum eftir strætó. Hann vinnur á hóteli á Laugaveginum og sagði mér í gærmorgun frá mjög ósvífnum útlendingi sem hreinlega stal bæði sæng og kodda og þetta fattaðist ekki fyrr en hann var búinn að tékka sig út og horfinn út í morgunsólina.

Áður en þið farið að gera ykkur vonir um einhverja rómantík langar mig að giska á að það séu um 150 ár á milli okkar og þar að auki engir straumar í gangi. Algjör misskilningur að karl og kona (veit ekki einu sinni hvort þessi er á lausu) fallist í faðma, kyssist og jafnvel giftist bara við það að spjalla saman á strætóstoppistöð. Karlar eru ekki hlutir til að notast við, þeir eru manneskjur með tilfinningar og það getur meira að segja verið reglulega gaman  að tala við þá. Þeir geta alveg verið vinir manns ... a.m.k. þeir ljótu.

Bylgjan var á í strætó og allt önnur stemmning, enda enginn Tommi undir stýri. Morgunfólkið á Bylgjunni er mjög skemmtilegt, Heimir og Kolla, en það eru meiri læti!!! Ég fíla ekki hávaðann og hressileikann í auglýsingatreilerunum á öllum tímum sólarhringsins ... Rás 2 er einhvern veginn hlustendavænni fyrir dormandi farþega sem tíma samt ekki að sofna og vilja hlusta. Ekkert sem meiðir eyrun. Þannig að ekkert var vangað í morgun í strætó ...

Dagurinn verður mjög bissí ... fer ég nokkuð fram á mikið ef ég bið um styrkjandi stuðnings- og orkukveðjur frá bloggvinunum?


Annir, Sigþóra og Boldfréttir

Sigþóra og Gurrí á leið til vinnuÞetta var ansi annasamur dagur, vikan hefur eiginlega verið alveg svakaleg. Ritstjórinn veikur, ég í öðrum verkefnum (kemur bráðum í ljós ... úúúúú) og í ansi mörg horn að líta. Skil ekki hvernig blaðakonur Vikunnar fara að því að klæða sig á morgnana fyrir vængjunum, þessar frábæru hjálparhellur.

Hitti Sigþóru í “réttfyrirsex” strætó og plataði hana til að setjast hjá mér. Hef ekki séð hana í margar vikur, enda vinnur hún þannig að sumar vikur tekur hún fyrsta strætó á morgnana og aðrar vikur næsta vagn og ég auðvitað verið í fríi. Sagði henni að hún væri komin með göngufélaga upp brekkuna þar sem leið 18 kýs frekar að aka Árbæinn en Stórhöfðann! Við hlökkum ofboðslega til að labba þetta í trylltum veðrum í vetur og nú verð ég bara að festa kaup á góðum útigalla. Þvílíkar hetjudáðir sem við munum drýgja, bjarga fólki á leiðinni, ýta bílum úr sköflum, grafa okkur í fönn og svona. 

Nick virðist vera grautfúll út í gang mála, hann er allt í einu fastur við dóttur konunnar sem hann elskar, hina barnshafandi (eftir hann) Bridget! Hann snapar rifrildi við hana og hún er sífellt sakbitin. Bridget, ef þú ert að lesa þetta, hættu með Nick strax ... í framtíðinni á hann hvort eð er eftir að fara að deita geðlækninn geðþekka, hana Taylor inni í framtíðinni, ég njósnaði.
Brooke grætur Nick en ætlar greinilega að fórna sér fyrir hamingju (!) Bridget.
Mér sýnist að Jackie, mamma Nicks, og Eric, pabbi (en ekki blóðfaðir) Ridge, séu farin að draga sig saman. Já, þau eru að kyssast! Kræst, hvað segir Stefanía nú?


Rómantík í morgunsárið ...

Morgunhanarnir mínirElskan hann Tommi sat undir stýri í morgun og var með Rás 2 á. "Góða ferð, góða ferð, góða ferð," söng einhver annar en Ingibjörg í BG, við Tommi héldum jafnvel að þetta væri Eyvi. Rómantíkin hélt áfram því næsta lag var Söknuður með Roof Tops og svo hélt ég að ég yrði ekki eldri þegar Zeppelin fóru að syngja ómþýtt Babe I´m gonna leave you ... Fólkið í strætó var farið að vanga aftur í, ég lygndi bara aftur augunum en á rómantískan hátt. Ef ég geng einhvern tíma út þá gerist það í strætisvagni og verður Rás 2 að kenna.   

Í millitíðinni, eða skömmu fyrir Zeppelin, gerðist reyndar sá æsispennandi atburður að farþegarnir í Skagastrætó þurftu að skipta um rútu á Kjalarnesinu. Ég klökknaði þegar ég sá endurfundi Tomma og rútunnar sem beið okkar, enda er hann oftast á þeim bíl. Tommi klappaði á mælaborðið, tautaði falleg ástarorð og svei mér ef allir farþegarnir fengu ekki eitthvað í augað ...

Mig grunar að Magga mágkona (systir Tomma) píni Gest Einar til að spila rómantíska tónlist í útvarpinu til að við Tommi verðum skotin hvort í öðru og hún fái loks alvörumágkonu. Held að hún verði að sætta sig við rútu sem mágkonu ... ansi flotta og þægilega rútu sem kann þó ekki að búa til gott kaffi!

Engin Karítas var í brekkunni í Mosó og Tommi ákvað að hún hefði sofið yfir sig, ég giskaði á að skólarnir væru bara búnir, en Karítas er yfirmaður í grunnskóla í 112 Rvík. Tommi sagði að dóttir hennar væri algjör eftirmynd hennar, hann hefði haldið einu sinni þegar hann kom á stoppistöðina í Háholti að Karítas væri þar á hnjánum ... en sá svo að þetta var barnið hennar.

Mikil hátíð ásatrúarmanna verður á morgun, enda sólstöður, og hef ég rökstuddan grun um að mannfórnir verði færðar, að vænum höfðingja verði slátrað eða eitthvað ... ef marka má það sem Tommi hefur gefið í skyn.

 


Yngingarmaskína Betu og Framsókn hrósað!

Við sandinn 19. júní 2007Mikill er nú munurinn á því að búa hér á Skaganum varðandi heilsugæslu. Engin bið eftir saumaskap á hné þegar mikið lá við er bara eitt dæmi. Unga konan sem ég valdi sem lækninn minn í morgun sagði að ég yrði að fara í sjúkraþjálfun. Hún áttaði sig strax á því að það er óeðlilegt þegar liðug skvísa er farin að hreyfa sig eins og gamalmenni á tíræðisaldri, slitið af þrældómi og vosbúð. Hún skammaði mig samt ekki fyrir þessa óhóflegu þolinmæði í eitt og hálft ár.

Ég fékk tíma í sjúkraþjálfun í hádeginu og Beta, systir hennar Gauju sem var í mínum bekk í barnaskóla, er sjúkraþjálfarinn minn. Gauja er reyndar vinkona mín og ég fæ alltaf fallegt og yndislegt jólakort frá henni í desember ár hvert. Gaua gaf mér einmitt Cartman-jakkann minn, þennan hlýja og góða og þykka og silfurlita og stutta ... og sem breytir mér í Cartman úr South Park. Sama þótt mjóar lappir standi niður úr honum ...

Kubbur á svölunumTommi í sólinniÞurfti að bíða í klukkutíma eftir sjúkraþjálfuninni og settist út í sjálfan skrúðgarðinn, garðinn fyrir aftan kaffihúsið. Fletti blöðum og spjallaði við fólk. Elskan hún Ingibjörg Pálmadóttir, fv. heilbrigðisráðherra, var í göngutúr með barnabarnið og settist niður ásamt fleirum. Ég man vel eftir árinu sem allir á Skaganum kusu Framsókn, það var þegar Steinunn og Ingibjörg voru í öðru og þriðja sætinu á lista, vinsælar konur sem rifu til sín fylgi. Að sjálfsögðu kaus ég Framsókn. Held reyndar að það sé fullt af góðu fólki í þeim flokki ef út í það er farið. Þekki alla vega tvær dásamlegar manneskjur þar sjálf. Ahhh, mikið er gott að vera svona ópólitísk og geta talað vel um fólk í öllum flokkum. Tók einu sinni símaviðtal við Geir H. Haarde og hann var frábær; kurteis og skemmtilegur ... það þarf ekki meira til að heilla mig. Nákvæmlega sama gerðist í sambandi við Steingrím J., Ingibjörgu Sólrúnu og fleiri. Svo tek ég ákvörðun í kjörklefanum eftir að hafa lesið bæklinga, spjallað við vini og vandamenn og kýs alltaf hárrétt! Heitir þetta kannski skortur á pólitískum þroska? Hehehhehe, það verður þá bara að hafa það. 

Fjöldi barna er á sandinum núna, enda fínasta fjara, sólin skín eins og hún fái borgað fyrir það og kettirnir liggja makindalega í sólinni, Kubbur úti á litlu svölum og Tommi undir öðrum stofuglugganum. Mikið er lífið nú gott! Best að fara að vinna. Verst að eiga ekki fartölvu til að geta setið úti.


Góður mánudagur

ErnaFyrsti vinnudagurinn eftir sumarfrí gekk frábærlega, gott að vera komin aftur í röð og reglu þótt hitt sé auðvitað notalegt.

Inga sótti mig um hálffimm, dauðþreytt eftir daginn. Henni hafði dottið í hug að steypa eina tröppu við húsið sitt og hélt að það væri ekki mikið mál. Annað kom á daginn. Hún dreif sig í Húsasmiðjuna til að kaupa sement og tilheyrandi. Karlarnir þar gátu ekkert hjálpað henni með aðferðirnar við steypun, enda vanir iðnaðarmönnum sem vita allt.

IngaInga bjóst eðlilega við að uppskrift að steypu væri aftan á sementspokunum, 300 g sement, 200 g vatn, dass af möl ... eitthvað svoleiðis en svo gott var það ekki. Hún gerði sér þá lítið fyrir og hringdi í framleiðandann, Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi, og fékk að tala við framkvæmdastjórann. Sá skemmti sér vel yfir símtalinu og bjargaði henni um uppskrift verkfræðings nokkurs að góðri steypu, hann fræddi hana líka um þriggja ára háskólanám í steypun en það bíður betri tíma. Inga keypti sér líka slípirokk í dag og er að springa úr stolti. Svo á hún svo margar tegundir af verkfærum að ég kann ekki að nefna þau.

Mexíkóskur kjúlliFylltur kjúklingurSá næsti sem talar um konur sem sleppa sér í fatabúðum ætti að hitta hina fögru Ingu sem stundar steypuverslanir af ástríðu. Karlarnir seldu henni reyndar allt of mikið af sementi, ranga möl og hvaðeina en hún gat reddað því.  

Gat ekki stillt mig um að biðja hennar, enda stutt í framkvæmdir hjá mér og elsku smiðurinn er búinn að gleyma mér. Held reyndar að hann sé í sumarfríi.

Við sóttum Ernu og héldum á Skagann, náðum í Einarsbúð kl. 17.59, eða rétt fyrir lokun, og keyptum kjúklingabringur á útsölu. (Ég elska Einarsbúð) Inga kenndi okkur að gera mexíkóskan kjúklingarétt og kjúkling fylltan með gráðaosti og skinku. Algjört nammi. Skvísurnar eru farnar í bæinn og ég sit pakksödd með hellings afgang sem dugir í nokkrar máltíðir. Býst við að við gerum þetta að vana, í haust mun ég kenna þeim að búa til góðu súpuna mína  með chilipiparnum.


Jibbí, komin í vinnuna!

AkranesstrætóÉg gleymdi ekki að fara í vinnuna í morgun, sjúkkitt. Krúttið hann Tommi bílstjóri kom okkur klakklaust í bæinn á fínum tíma, enda lítil umferð og fáar stoppistöðvar á leiðinni. Mikið var notalegt að hlusta á Rás 2, góð lög og fínar útvarpskonur. Það eru aðeins meiri læti á Bylgjunni og viðkvæmt taugakerfi okkar Skagamanna á erfiðara með mikið stuð, viljum frekar dorma (nessum dorma) í þægilegri rútu.

Maður sem vinnur hjá Prentmet hoppaði út á Vesturlandsveginum og ég hafði þrjár sekúndur til að ákveða mig hvort ég færi út með honum. Strætó númer 18 er hættur að stoppa þarna fyrir neðan, heldur fer í Árbæinn fyrst (arggg) svo að ég þarf  að fara í Ártún ef ég ætla að ná honum ... EN  gönguferðahatarinn moi ákvað að tölta bara uppeftir. Þeir sem þekkja mig vita að þetta er mjög ólíkt mér. Þótt þetta sé frekar há brekka sem liggur þarna uppeftir þá er hún ekki næstum því jafnviðurstyggilega hræðileg og lúmska brekkan í Ártúni (sunnan megin við Ártúnsbrekkuna).

Vinnustaðurinn minnÉg blés ekki úr nös, enda labbaði ég löturhægt. Ástæða: helvítis verkurinn í vinstri fæti, verkurinn sem læknirinn sagði að myndi lagast (fyrir einu og hálfi ári), hann sagði reyndar ekki að þetta væri vírus, eins og algengt er á heilsugæslustöðvum. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og komst ekkert áfram af viti fyrr en ég  fattaði að bora með fokkfingrinum þéttingsfast í vinstra lærið framanvert, þá fór þetta eitthvað að ganga. Upp brekkuna komst ég þótt ég liti eflaust út eins og hálfviti. Þetta er svolítið fúlt ... ég flyt á Skagann þar sem dásamlegar gönguleiðir eru um allt og ætla að fara að hreyfa mig meira en mér er of illt í fætinum til að geta gengið ... og myndi eflaust lagast ef ég hreyfði mig meira. Vítahringur dauðans! Mun heimta sjúkraþjálfun, nenni þessu ekki lengur.

Ég mætti langfyrst allra, rúmlega hálf átta, og hef m.a. afrekað að taka til á skrifborðinu mínu, fara í gegnum tölvupóstinn, panta espressóbaunir frá Kaffitári og hlusta á Króa á Rás 2 (Kristin R. Ólafsson) en við unnum saman úti í Vestmannaeyjum í gamla daga þegar þótti fínt að vinna í fiski. Hann man alveg örugglega ekki eftir mér en er sjálfur mjög minnisstæður og skemmtilegur.

Mikki bauð glaðlega góðan dag þegar hann kom loksins og ég kunni ekki við bjóða honum gott kvöld á móti þótt hann kæmi seinna en ég ... Doddi, aftur á móti sagði græðgislega: "Ný klipping?" Mikið er gott að vera komin aftur í vinnuna þar sem ég fæ sanna aðdáun! Held að Skagamenn og samfarþegar mínir í strætó gangi að mér vísri ... að vísu sagði samstrætóstoppistöðvarmaður minn: "Hvar hefur þú verið?" þegar ég birtist á stoppistöðinni kl. 6.43 í morgun. Smá sakn greinilega.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 9
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 403
  • Frá upphafi: 1532255

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 335
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ruggustóll og sjal
  • Við Keli
  • Ruggustóll og sjal

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband