Færsluflokkur: Lífstíll
29.1.2008 | 12:36
Krassandi lífsreynslusögur ...
Það gengur á með dásamlegum éljum fyrir utan. Þess á milli skín sólin. Ekta íslenskt vetrarveður. Þetta veðurlag gerði lífsreynslusöguna sem ég var að skrifa í Vikuna bara enn dramatískari en í henni gengur á með skini og skúrum. Minni á að ef þið lumið á góðri sögu fyrir Vikuna þá má alveg hafa samband í gurri@birtingur.is ... afar vel þegið. Tek það fram að sögunum er undantekningalítið breytt þannig að erfitt er að þekkja fólk af þeim, sem er sjálfsögð tillitssemi. Sagan sjálf skilar sér hvort sem fólk býr í Reykjavík, á Vesturlandi eða fyrir norðan, á þrjú börn eða fimm.
Ég held að uppáhaldssagan mín sé sú sem vinkona mín sagði mér en þar hafði bróðir hennar kynnst góðri stúlku sem hann kynnti fyrir fjölskyldunni. Sama kvöldið og vinkona mín sá stúlkuna í fyrsta sinn fór hún niður í bæ ... á djammið. Í skotinu hjá Glitni í Lækjargötu sá hún góðu stúlkuna í keliríi við svarthærðan, ókunnan mann. Hún þagði yfir þessu og þjáðist fyrir hönd bróður síns sem alltaf varð meira og meira ástfanginn af þessari ... glyðru. Vinkona mín forðaðist að hitta hana og sat frekar inni í herberginu sínu eða fór út ef von var á henni í mat. Það var ekki fyrr en um vorið, í fermingarveislu litla bróður, sem hún áttaði sig á því að glyðran var til í tveimur eintökum, eða eineggja tvíburi, og sú sem kelaði í bænum er enn gift svarthærða manninum (40 árum seinna) og bróðir vinkonu minnar er líka afar hamingjusamur með glyðrunni sinni líka.
Jónas fær loks að leika lausum hala í dag. Erfðaprinsinn nennir ekki að láta hann trufla sig yfir sjónvarpinu á kvöldin og ég er eitthvað stressuð að láta hann ryksuga þegar enginn er heima, ef þessi elska myndi festa sig, sem er frekar ólíklegt en samt ... Annars hef ég heyrt um fólk sem hefur hækkað húsgögnin sín til að róbótinn geti ryksugað undir þeim. Það er helst að ofnarnir mínir séu af rangri hæð frá gólfi. Hann er bara svo klár að losa sig úr öllum klípum. Ég á svo erfitt með að fleygja ungunum mínum úr hreiðrinu, þannig að þeir verði sjálfstæðir og bjargi sér sjálfir, spyrjið bara rígfullorðinn erfðaprinsinn ...
19.1.2008 | 17:09
Njósnað um njósnara ...
Mig vantar sárlega batterí í gamla símann minn. Sem er næstum því eldgamall Nokia og drepur reglulega á sér fullhlaðinn án nokkurrar miskunnar. Ég nota hann sem SMS-símann minn, en flotti síminn sem erfðaprinsinn gaf mér í afmælisgjöf er svo fullkominn að ég hef ekki gefið mér tíma til að læra almennilega á kvikindið, batteríið í honum dugir þó lengi!
Blikkaði erfðaprinsinn til að viðra móður sína og freistaði hans með gómsætum kræsingum í Skrúðgarðinum. Aðalerindi bíltúrsins: að finna og kaupa nýtt símabatterí.
Í sárasakleysi okkar byrjuðum við á kaffihúsinu og fórum svo út að vita svo að ég gæti myndað ... grunlaus um lokunartíma sumra búða. Ég mæli með nýjung í Skrúðgarðinum, skyrdesert í glasi!
Hjá vitanum var fjöldi manns, sem er einstakt, við erfðaprins höfum hann yfirleitt út af fyrir okkur. Fyrst hélt ég að þetta væru útlendingar og beið spennt eftir hnífabardaga en svo reyndust þetta Íslendingar, a.m.k. maðurinn sem svaraði alþjóðlegu Hi frá mér með Góðan dag, hreimlaust. Kurteislega fylgdist ég með þeim á meðan ég þóttist vera að mynda og uppgötvaði að þetta voru mjög líklega, eiginlega alveg örugglega ... Samtök íslenskra njósnara, eflaust í æfingabúðum. Ég nötraði af spennu og líka ótta þar sem njósnarar eru ekki hættulausir og bakkaði varlega út úr þessum mögulega hættulegu aðstæðum. Erfðaprinsinn vildi meina að þetta hefðu verið áhugaljósmyndarar að fanga samspil birtu og brims í ægifögru landslagi Akraness en ég hló kuldalega og trúi ekki lengur að greind erfist frá móður.
Bað hann að koma við hjá Olís/Ellingsen við höfnina og þar fann ég það sem ég hef lengi leitað að, almennilegar sokkabuxur, öllu heldur gammósíur. Nú mun kuldinn halda sig frá lokkandi lærum mínum og fögrum fótleggjum í allan vetur og ég verð ekki lengur eins og undanrenna á litinn; bláhvít.
Himnaríki vantaði kattagras og kattasandsplastpoka og við héldum í Krónuna næst. Við hliðina er batterísbúðin Síminn/Eymundsson en þar var allt lok, lok og læs.
Dagurinn sem sagt frekar spennandi og sæmilega árangursríkur en batteríið verður að bíða.
16.1.2008 | 17:05
Skuldbindingafælni vs giftingasýki
Þegar Ásta sótti mig í Hálsaskóginn í dag hafði ég beðið í fimm mínútur fyrir neðan húsið og leit út eins og glæsileg snjókerling. Raulaði bara jólasálma í þessari guðdómlegu hundslappadrífu í höfuðborginni. Það var frekar blint á köflum á heimleiðinni þótt vindstigin væru ekki nema fimm í Kollafirðinum (sjá mynd til vinstri). Hér á Skaga var heldur annað veður en í Reykjavík, eða sól og sumar að vanda (sjá myndina til hægri).
----------- ooo 000 - O - 000ooo ------------
Í matartímanum hittist svo á að við, nokkrar gellur á lausu, sátum við sama borð og spjölluðum. Ein talaði um að hún ætlaði að vera ein í herbergi á hótelinu þegar fyrirtækið heldur til Svíþjóðar í árshátíðarferð í mars. Þá á hún auðveldara með að næla sér í sætan Svía, bætti hún glottandi við. Ó, ertu á lausu? Síðast þegar við vissum átti hún kærasta. Já, þetta var orðið svo þrúgandi, ég var að kafna! sagði hún og dæsti. Þarna komumst við að því að við erum haldnar skuldbindingafælni, alveg öfugt við kynsystur okkar sem eiga allar að vera giftingarsjúkar ... samkvæmt bæði bröndurum og staðalímyndum. Aumingja ungi karlkynsblaðamaðurinn sem sat á næsta borði og þóttist ekki heyra neitt, ég sá hann samt roðna af spenningi. Nú er hann örugglega orðinn sjúkur í okkur, þetta virkar víst þannig, sagði ein lágt. Við flýttum okkur fram og rétt sluppum við að eignast kærasta.
16.1.2008 | 08:39
Morðfýsn í morgunsárið ... eða bara geðillska?
Ferðin í bæinn gekk bara ansi vel í morgun ... Við bjuggumst við hálku en henni var ekki fyrir að fara nema í Árbænum og ... reyndar smá á Akranesi þar sem aldrei er saltborið. Ásta hafði miklar sögur að segja frá ófærðinni í gær, skafrenningnum, hægfara umferð, ísmanninum ógurlega og fleira og ég var dauðspæld yfir því að hafa ekki verið með. Í gær var frábært veður á Skaganum á meðan björgunarsveitarmenn voru kallaðar út á Suðurnesjum og skaflar mynduðust í Árbæ sem segir að best sé að búa á Akranesi.
Varúð - geðillskubloggbútur: Annað hvort situr nýr sölumaður í sætinu mínu á kvöldin hér í vinnunni eða þessi gamli hatar mig. Ég fann fyrir sjaldgæfri geðillsku, eða mögulega morðfýsn, þegar ég settist við skrifborðið mitt áðan. Sölumannskvikindisdruslufíflsauminginn var búinn að snúa upp á símasnúruna (þessa frá tóli að tæki) þannig að ekki var hægt að lyfta tólinu nema allt færi í klessu, hafði greinilega varið heillöngum tíma í að gera símann minn ónothæfan ... þar til ég lagaði hann, og hann var líka búinn að festa stólinn minn í ömurlegri stellingu, sjá bæði efri og neðri myndir til hægri. Svoleiðis stellingu.
Ég þarf að skrifa honum aftur og biðja hann um að skilja við skrifborðið og stólinn eins og hann kom að því! Annars ...
Ný Vika var að koma í hús, fer líklega í sjoppur á morgun, aðallega hinn ... óxla flott blað. Vona að þið hamist við að kaupa blaðið áfram ... þar sem ykkar einlæg ritstýrir næstu tvær vikurnar, ritstjórinn minn gerðist svo ósvífinn að fara í vetrarfrí til útlandos. Rennir sér eflaust á skíðum eins og einhver prinsessa á meðan ég þræla og púla .... tíhíhíhí ... Vona að hún skemmti sér konunglega og fari lika rosalega varlega. Getur það ekki alveg farið saman?
13.1.2008 | 17:11
Sjónvarp, spákonur og sjóferðir ...
Senn rennur upp skemmtilegasta sjónvarpskvöld vikunnar ... Glæpurinn, Pressa og lokaþáttur lögfræðidramans. Möguleikar seinkaðrar dagskrár verða nýttir til fullnustu þar sem um tvær stöðvar er að ræða. Þori ekki einu sinni að athuga hvað er á SkjáEinum. Í gærkvöldi hlógum við erfðaprins yfir 50 First Dates í örugglega 50. skiptið en þetta er voða sæt og skemmtileg mynd. Langaði líka að horfa á Draumagildru Stephens King í þriðja sinn en syfjan bara mig ofurliði, well, það er reyndar ekkert voða langt síðan ég sá hana og bókina las ég líka þegar hún kom út. RÚV hafði algjörlega vinninginn þetta laugardagskvöldið í kvikmyndavalinu.
Maturinn hjá Míu bragðaðist stórkostlega í gærkvöldi og ég dó ekki þótt sonur hennar, björgunarsveitarmaðurinn, hafi sett dass af hnetuolíu yfir salatið. Ég hata hnetur. Hann hefur kannski vonast til þess að geta bjargað frænku sem heldur því fram að hún hafi ofnæmi.
Ekki finnst mér töframannaþátturinn á Stöð 2 skemmtilegur, finnst lítið til alls slíks koma síðan ég heillaðist af Skara skrípó-sjóinu í Loftkastalanum um árið. Þátturinn rúllar í endursýningu núna og ýmsir falla í trans á dramatískan hátt til að sanna mál sitt ... sem minnir mig á ....
Í kaffiboðinu í gær spjölluðum við kerlur aðeins um spákonur, höfðum bæði blekkinga- og furðusögur að segja. Ein fór til spákonu fyrir mörgum, mörgum árum og kunningjakona hennar líka. Dætur þeirra voru þá í menntaskóla. Well, spákonan sagði báðum mæðrunum að þær ættu að ráðleggja stelpunum að hætta í skóla, þær fyndu svo miklu meiri hamingju á almennum vinnumarkaði! Ekki datt mæðrunum í hug að taka mark á þessu, sem betur fer. Báðar eru stúlkurnar langskólagengnar í dag og víst alveg ágætlega hamingjusamar þrátt fyrir það. Önnur þeirra þjáðist reyndar af tímabundnum námsleiða akkúrat á þessum tíma ... og hefði kannski hætt í skóla ef mamma hennar hefði farið að ráðum spákonunnar og hvatt hana til þess. Urrrrrr! Það er mikill ábyrgðarhluti að gefa sig út fyrir að spá fyrir fólki!
Mér fannst voða gaman að fara til spákvenna í gamla daga en minnist þess nú ekki að þær hafi ráðlagt mér svona afgerandi hluti. Þær töluðu frekar um hávaxna, dökkhærða menn og sjóferðir, eitthvað slíkt sem rómantískt ungmeyjarhjartað þráði að heyra. Með hækkandi aldri og minnkandi séns finnst mér ekki taka því að fara til spákonu ... bara til að heyra að að ég rugli saman reytunum við indælan mann, sem var einu sinni hávaxinn og dökkhærður og að við förum í siglingu á skemmtiferðarskipi um Karíbahafið. Eins og lífið sé bara karlar og sjóferðir.
9.1.2008 | 10:54
Frægasta spákona Íslands ...
Á sunnudaginn kvaddi ein frægasta spákona Íslands þetta jarðlíf, sjálf Amý Engilsberts. Konan sem lærði stjörnuspeki í Svartaskóla í París og heilmiklar sögur spunnust um. Ég heyrði af ungum manni sem fór í lestur til hennar og fékk að heyra hvaða dag hann myndi deyja. Maðurinn tók sig til og lagðist í tryllt djamm og djúserí og dó svo "saddur lífdaga" á tilsettum degi. Þessi saga er eflaust bull en hún og fleiri svona fengu fólk til að bera óttablandna virðingu fyrir Amý.
Mamma fór til hennar fyrir örugglega hálfri öld og ég fór alla vega tvisvar, síðast fyrir svona 15 árum. Amý sagði við mömmu að eitt barna hennar yrði frægt (fullyrðir mamma) .... well, alla vega varð þetta til þess að við börn hennar fjögur kepptust við að ná frægð og frama í hinum ýmsu greinum. Held í alvöru að Amý hafi ekki sagt neitt, mamma bara haldið að það væri kúl að eiga frægt barn og æsti okkur upp í þetta. Sumum er hreinlega ekki vel við börn. Okkur tókst öllum að verða skrambi fræg ... á Akranesi.
Mía systir er þekktur tónlistarkennari með meiru á Skaganum og margir á stór-Akranessvæðinu vita að hún er sígaunamamman hennar Guðrúnar Evu skáldkonu. Sjálf trana ég mér fram við öll tækifæri í von um frægð, síðast tróð ég mér í Útsvar (RÚV) í nóvember sl., mæti næst núna á föstudaginn. Fólk klappar sífellt fyrir mér og biður um eiginhandaráritun mína, t.d. í Skrúðgarðinum, en ég slepp þó við að dyljast undir sólgleraugum annars staðar. Hilda systir er þekkt um allt land fyrir að reka bestu og æðislegustu sumarbúðir á Íslandi, jafnvel í öllum heiminum, Sumarbúðirnar Ævintýraland, þar sem börnin eru ræktuð á allan hátt andlega og líkamlega, fjölmenningarlegar sumarbúðir og hlutlausar í trúmálum. Gummi bróðir er leikari sem t.d. sjálfur Jón Viðar hefur hrósað í sjónvarpinu (Djöflaeyjan á Akureyri um árið) og svo lék Gummi auðvitað pabba Benjamíns dúfu í samnefndri bíómynd. Strákurinn sem lék Benjamín er ansi líkur Eyjó Braga, eldri syni Gumma, sem er bara brilljant. Rosalega er ég í raun fegin að ekkert okkar systkinanna skyldi verða t.d. þekktur vélsagarmorðingi ... það hefði verið einum of kúl.
Eina sem ég man af því sem Amý sagði við mig var að ég myndi skrifa bók/bækur, líklega barnabók/-bækur. Af þrjósku minni hef ég að sjálfsögðu ekki látið þetta eftir Amý, enda á maður ekki að trúa á spákonur eða láta þær stjórna lífi sínu! Sjáum til þegar ég fer á eftirlaun, ég er bara rúmlega fertug núna og nægur tími til stefnu.
Amý sagði mér frá því að eitt sinn hefði hún verið í gönguferð. Allt í einu hefði komið yfir hana löngun til að fleygja tarotspilunum sínum sem hún var búin að fá nóg af. Spilin voru í handtöskunni hennar. Hún ákvað að láta eftir þessarri löngun sinni og fleygði spilunum ofan í húsgrunn og fuku þau um byggingarsvæðið. Þarna reis Kringlan í öllu sínu veldi og hvílir sem sagt á tarotspilunum hennar Amýar Engilberts.
P.s. Allt var netlaust í morgun þegar ég mætti kl. 7.30 og skelfilegt að geta ekkert gert að gagni í einn og hálfan tíma. Ég lagðist bara fram á skrifborðið og grét, enda vinnualki. Um níuleytið hafði fjölgað til muna í húsi og við Vikukonur sáum að samstarfsmenn annars staðar í salnum unnu sem óðir og þótti okkur ótrúlegt að allir væru að taka til á desktop, eins og við dúlluðum okkur við ... Hrund metsöluhöfundur (Loforðið) áttaði sig fyrst á þessu ... kíkti undir borð hjá Björk og spurði: Hvaða snúra er þetta sem er ekki í sambandi?Jamm, til að gera langa sögu stutta þá datt allt í gang skömmu síðar ... nákvæmlega þremur mínútum áður en klikkaðislegabissí tölvumaðurinn kom hlaupandi utan úr bæ til að redda okkur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
8.1.2008 | 13:41
One of these days ...
Þetta er greinilega einn af þessum dögum ... Byrjar vel og heldur áfram að vera góður. Sjúkraþjálfunin var stórkostleg að vanda og nú svíf ég um í stað þess að hökta. Vöðvabólgan er a.m.k. mun betri. Súpan í Skrúðgarðinum var ekki bara góð, hún var æðisleg. Ég hvet alla Skagamenn til að smakka hana og það er líka alveg þess virði að koma alla leið frá Vopnafirði fyrir hana. Í póstkassanum beið geisladiskur, fullur af myndum af afa, ömmu, frændfólki, okkur Míu systur þegar við vorum litlar. Mikið er hann Þorgeir frændi minn frábær. Nú verður hringt í kappann og honum færðar miklar þakkir. Skelli inn frekar nýlegri mynd af okkur Míu systur þar sem sést hvað hún var góð stórasystir.
Áramótabjúgurinn er að hverfa og útlit fyrir að ég verði huggulegri í sjónvarpinu á föstudaginn en ég er núna, ekki það að það sé ekki sætt að vera bólginn og búttaður en kröfur þjóðfélagsins kalla á annað. Á meðan ég er horuð miðað við Keikó þá er ég sjálf ánægð. Ég prófaði að fara að taka inn Aloa Vera-safa og hann virðist hafa rosalega góð áhrif á mig. Hilda systir hefur hrósað honum mikið og á meðan Davíð, sonur hennar, lá í veikindunum (sama og hrjáði Björn Bjarnason) var henni bent á safann og segir að hann hafi hjálpað Davíð mikið. Ég hélt alltaf að þetta væri svo bragðvont en svo er alls ekki.
Ég tók einu sinni viðtal við Jónínu ljósmóður hér á Akranesi. Hún var orðin mikill sjúklingur og var flutt í þægilega íbúð sem hentaði veikburða manneskju betur. Hún fór að taka inn Aloa Vera og bera á sig hitakrem og slíkt og hviss bang, allt gjörbreyttist. Mér skilst að hún þjóti um allt núna og selji þessar vörur og það er eiginlega henni og viðtalinu að þakka að mér datt í hug að prófa. Það er líka að hluta til Jónínu að þakka að ég flutti á Skagann fyrir tveimur árum. Hún bjó í þægilegu íbúðinni sinni við Langasandinn og ég hékk úti í glugga hjá henni á milli þess sem ég tók viðtalið við hana. Þarna var einu fræinu sáð sem endaði með að ég keypti himnaríki. Hjónin sem eiga Ozone-tískuverslun búa líka á Jaðarsbrautinni og sama má segja um fræ ... fór í innlit í flotta raðhúsið þeirra og þráin í sjóinn bærði harkalega á sér. Maðurinn seldi mér einmitt svo flottar buxur í dag en búðin er akkúrat mitt á milli Betu sjúkraþjálfara og Skrúðgarðsins. Í nýlegri færslu um staðalímyndir var ég búin að komast að því að ég væri kynóður búðahatari en þegar buxnaeignin er komin niður í einar buxur þá þarf að gera eitthvað í því ... það var ekkert kvalafullt, enda fékk ég fína þjónustu og flottar buxur. Vildi bara að ég hefði farið fyrr, útsalan er komin langt á veg og margt hreinlega búið.
5.1.2008 | 17:33
Vegið úr launsátri
Fimmtudagurinn var ekki auðveldur dagur. Hann var eiginlega alveg hræðilegur. Gefin var út sú fyrirskipun á Akranesi að bæjarbúar ættu að vera vatnslausir lungann úr deginum. Yfirvöld gera stundum svona hluti til að kúga alþýðuna. Þetta var náttúrlega grimm aðför að persónufrelsi mínu og miðaðist að því að halda mér frá baðkerinu, athvarfi mínu í lífinu. Ónotaðar baðbombur lágu í hrúgum inni á baði og rykféllu.
Ekki nóg með það, heldur var ráðist á annan grunnþátt lífs míns, jafnvel á enn grimmdarlegri hátt, sjálft Moggabloggið. Það var óendanlega sárt að vita til þess að ástkærir bloggvinir, þ.a.m. sjálfur erfðaprinsinn, gætu ekki bloggað eða fengið komment á skrif sín. Ég sá fyrir mér skælandi bloggara í þúsundatali og ekki bara það, heldur færslan sem ég skrifaði eldsnemma þennan morgun gat ekki breytt lífi eins eða neins allan heila daginn.
Vatnið var tekið af Akranesi frá klukkan 9 til 18. Það hefði getað reynst örlagaríkt ... Rúmum tveimur tímum áður var ég reyndar flutt með strætisvagni til Reykjavíkur, ásamt nokkrum örvæntingafullum Skagamönnum. Nægilegt heitt var að finna í heittelskaðri höfuðborginni. Ég kom heim kl. 17.30 og þurfti því að verja heilum hálftíma án heita vatnsins og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ekki gat ég huggað mig við blessað bloggið því að það var lamað langt fram á kvöld. Að vísu kíki ég örsjaldan á það í vinnutímanum vegna annríkis en þeim mun meira á kvöldin og um helgar. Samt sem áður upplifði ég þennan dag að vegið hefði verið að tveimur stærstu grunnþörfum lífs míns og það úr launsátri.
3.1.2008 | 08:13
Í örmum vetrarnætur ... eða bara Sigþóru í strætó
Strætóferðir heyra til undantekninga núorðið ... svo oft hef ég fengið far upp á síðkastið. Ég sá ekki betur í morgun en að Heimir væri grátbólginn og hálffölur af söknuði eftir okkur. Hann tók líka gleði sína þegar sjálf drottningin úr himnaríki sveif inn í vagninn. Hann hamaðist á útvarpstökkunum til að gera mér til hæfis, held ég, og stillti á Bylgjuna eða Rás 2 til skiptis. Hefur hann aldrei heyrt minnst á X-ið? Rosa væri gaman að heyra í Kent (If you were here) eða Rammstein (Sonne) eða Wu Tan Clang (For Heaven Sake) eða Eminem (The Way I am) og hækka allt í botn í rútunni. Kúrði með elskunni henni Sigþóru sem hafði það rosalega gott um áramótin að sögn. Hún skrapp í Mörkina (Sódóma/Gómorra Akurnesinga) með systur sinni á gamlárskvöld eftir að hún hafði sannfærst um að leigubílstjórinn (jamm, bara einn á Skaganum) væri að vinna. Mér skilst að hann sé ekkert allt of vinnusamur, enda gengur svo sem innanbæjarstrætó til kl. 18 alla virka daga og maður er vissulega ekkert svo marga klukkutíma að ganga Skagann þveran og endilangan.
Við Sigþóra slitum okkur treglega úr faðmlögunum og hlunkuðumst út við Vesturlandsveginn undir hálfátta. Með hendurnar fullar af veski og plastpoka láðist mér að skella einhverju hlýlegu, t.d. horni af einum af þremur treflunum, yfir eyrun. Þegar ég kom í vinnuna var ég ekki bara með blóðbragð í munni eftir áreynsluna (langt síðan mar hefur tekið Súkkulaðibrekkuna svona hratt), harðsperruverki í aftanverðum lærunum ... heldur geðveikan hlustaverk. Eftir að háls-, nef- og eyrnalæknirinn sagði við mig um árið að ég hlyti að vera með viðkvæm eyru (sem var ekki) urðu það áhrínsorð og það má ekki hvessa með éljum á hálendinu án þess að ég fengi gigtarverk í eyrun. Smáýkt, þoli samt illa vindblástur í eyrun, sérstaklega yfir vetrartímann. Græna, prjónaða eyrnaskjólið verður sko sett ofan í tösku í kvöld.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.12.2007 | 20:33
Eru karlmenn veikgeðja?
Karlmenn eru veikgeðja ... þegar kemur að vælandi gæludýrum. Bara í virðulegri fjölskyldu minni má finna tvö dæmi; erfðaprinsinn og mág minn. Í himnaríki má Tommi ekki væla á sérstakan máta, í frekjulegum vælutón eins og hann sé að deyja úr hungri, þá hleypur erfðaprinsinn upp til handa og fóta og gefur honum uppáhaldsmatinn (blautfæði frá Whiskas úr litlum poka) þótt báðir matardallarnir séu blindfullir af þurrmat. Það eru sko farnar sérferðir út í Einarsbúð til að kaupa nammið fyrir Tómas. Kubbur vill bara alvörukattamat, þurrmat, og hleypur í burtu ef reynt er að gefa henni eitthvað annað, túnfiskur í vatni freistar þó stundum!
Erfðaprinsinn er þó ekkert á við mág minn sem þrammar daglega út í fiskbúð, að sögn systur minnar, og kaupir ferskan fisk fyrir Bjart sinn. Yfirleitt er þríréttað hjá Bjarti. Þurrmatur, blautmatur og nýsoðinn fiskur. Rækjur og rjómi þegar systir mín sér ekki til?
Getur þetta verið rétt? Leika kettir sér að tilfinningum karla? Fresskettir í þokkabót! Já, þessi hávísindalega rannsókn mín sýnir svo ekki verður um villst að grábrúnbröndóttir og hvítir fresskettir opinbera veikleika karlmanna. Þann eina sem ég hef rekist á hingað til. Að öðru leyti eru karlmenn fullkomnir.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 19
- Sl. sólarhring: 53
- Sl. viku: 714
- Frá upphafi: 1524912
Annað
- Innlit í dag: 16
- Innlit sl. viku: 611
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni