Færsluflokkur: Lífstíll

101 snjór vs svarthol í sumarskapi

Mosó í morgunMikið var undarlegt að renna inn í svævi þakta höfuðborgina í morgun ... úr svölu sumarveðri á Skaganum. Um leið og við komum í Mosfellsborg var eins og við ækjum inn í jólasveinabæ á Norðurpólnum. Snjósleðar burruðu um göturnar, snjótittlingar flugu skrækjandi um í leit að brauðmolum og sjá mátti stöku ísbjörn ösla um bæinn. Öskubíllinn, stóri bíllinn í Mosó, dró strætó í gegnum skaflana og björgunarsveitin studdi okkur farþegana á milli strætisvagna á skiptistöðinni í Háholti. Veðrið var ögn skárra í Rvík, þó hvít jörð og virkilega blaut og hörð rigning. Ég hugsaði til erfðaprinsins á Skaganum. Hann er án efa í stuttermabol núna, topplúgan opin, vinstri handleggur út um bílgluggann og girnilegur ís í hægri ... Svo vorkennir fólk mér að búa í svartholinu umhverfis 101 Reykjavík.

FlutningarÞað standa yfir flutningar í vinnunni, hluti skrifstofunnar frammi fær meira rými hinum megin við mötuneytið og allt hefur riðlast til. Ég hef meira að segja gleymt að stimpla mig inn tvo daga í röð, eins og stimpilklukkan hafi verið færð til ... sem er ekki. Við höfum alltaf fengið sendan matseðil mötuneytisins í tölvupósti á mánudögum en ekkert barst þessa vikuna. Sama spennan og með veðrið í Mosó, hvernig ætli maturinn verði í dag? Kem að vörmu ...

Komin. Djúpsteiktur fiskur, steiktar kartöflur, sós´og salat! 

Jæja, vitlaust að gera. Megi dagurinn ykkar verða dásamlegur!


Laugardagur til leti

MúmínálfarnirHér var vaknað um hádegi ... mér leið eins og sláttuvél hefði ekið yfir mig, slík var þreytan. Föstudagar eru yfirleitt mestu annadagarnir í vinnunni og oft slepp ég ekki fyrr en undir sex heim, stundum seinna. Þá er dormað í strætó og kvöldinu varið í leisígörl við lestur og sjónvarpsgláp. Ummm, föstudagar.

Snillingurinn hann Máni vakti áhuga minn á Múmínálfunum í gærkvöldi og nú langar mig að lesa þessar miklu bókmenntir. Enid Blyton var mín Tove Jansson í æsku. Samt var ég bara 10 ára þegar fyrsta bókin kom út á íslensku. Hvar var ég eiginlega, litli lestrarhesturinn? Líklega farin að lesa fullorðinsbækurnar í Bókasafni Akraness; Theresa Charles, Barbara Cartland ... Óskilabarn 312, Dyggð undir dökkum hárum, þetta allt. Hélt að æsku minni væri lokið en það var sannarlega ekki rétt, henni lauk, ásamt sakleysinu, 30 árum síðar þegar ég sat námskeiðið Ofbeldi og klám í kvikmyndum í HÍ, þegar ég var í hagnýtri fjölmiðlun.

Kartöflur a la Ragnar Freyr bloggvinurVið erfðaprins ætlum í bíltúr, bíllinn þolir ekki langferðir fyrr en eftir verkstæðisyfirferð en er fínn í snatti innanbæjar. Himnaríki vantar m.a. eldhúsrúllur sem erfðaprinsinn gleymdi að kaupa í Einarsbúð, já, og kattasandsplastpoka. Við erum komin í mikinn sparnaðargír og ætlum að borða kartöflur í öll mál, alla vega þangað til kaupmenn fatta að hækka þær í verði. Annar verður þetta líklega bara góður letidagur. Nóg að lesa allavega.

Stundin okkarBoldið rúllaði í endursýningu í dag. Persónunum þar er ansi tamt að nota tilfinningalega kúgun og handritshöfundar er snillingar í að búa til erfiðar aðstæður þar sem fólk getur alls ekki sagt sannleikann. Dæmi: Þegar Dante „lenti í því“ að biðja Feliciu í fráhvörfunum eftir hryggbrot Bridgetar gat hann ekki bakkað út úr því nema verða eitthvert ógeð ... hún er barnsmóðir hans og þar að auki nýrisin upp frá dauðum. Felicia bauð öllu fólkinu hans frá Ítalíu að koma og ætlar að halda brúðkaupið eftir nokkra daga, hvers vegna bíða? Bridget greyið, sem maður sér ekki opna bók eða ganga með hlustunarpípu, en er samt við það að útskrifast sem læknir, sér eftir hryggbrotinu og þau Dante geta ekki sagt sannleikann um ódauðlega ást þeirra. Pabbi Brooke og mamma Nicks gera leit á skrifstofu Brooke af því að Ridge ætlar sér eitthvað ... DÖH og uppgötva af fádæmagreind og innsæi að hann ætli sér að kyssa Brooke á hápunkti sýningarinnar og rústa þannig hjónabandi hennar og Nicks ... Þau koma hlaupandi baksviðs á tískusýningunni og er mikið niðri fyrir: „Ridge ætlar að skemma hjónaband ykkar Nicks og nota tískusýninguna til þess,“ arga þau á Brooke.
Úps, í lok sýningarinnar segir Ridge við Brooke: „Stundin okkar,“ og svo kyssir hann hana, Stundin okkar?
„Brooke, hvernig gastu leyft honum þetta?“ gargar Stephen og Nick er líka brjálaður út í HANA. Held að eina leiðin út úr þessu fyrir Brooke sé að giftast Nick sem fyrst. Birna Dís, Helga Vala og Kikka, þið hafið heilan helling á samviskunni ... að láta mig horfa á þetta ... ef ég bakka út úr þessu sjónvarpsglápi yrði ég bara eitthvert ógeð, eins og Dante! Hehehe ...


Blessuð börnin ...

Íslensk börn hafa löngum verið talin ódæl og full virðingarleysis gagnvart öllu. Ekki má þó gleyma því að þau eru líka sjálfstæð, uppfinningasöm og kunna að bjarga sér, ólíkt mörgum útlenskum börnum sem kunna varla á klukku fimm ára. Ég las mér heilmikið til um barnauppeldi þegar erfðaprinsinn var lítill og blandaði saman vitneskju úr bókum á borð við Summerhill-skólann, Samskipti foreldra og barna, Hann var kallaður Þetta, Children of the Corn, The Shining og fleira. Þetta gerði æskuár sonar míns bærilegri en ella fyrir mig.

Í stað þess að flengja ...Það er t.d. algjör óþarfi að kalla barnið sitt „Þetta“ til að ná fram hlýðni þess. Mun sniðugra er að beita rödd og augnaráði á sérstakan máta. Það virkaði vel hjá mér. Engin óvirðing, engar flengingar.

Ég gerði reyndar ein mistök. Í augnabliksveikleika leyfði ég syninum að fara í Heimspekiskólann án þess að hugsa um afleiðingarnar. Á meðan ég hafði frið til að horfa á Santa Barbara síaðist eitthvað inn í kollinn á drengnum sem hefði getað verið skaðlegt. Um tíma tókst honum nefnilega að tala mig inn á ýmislegt, t.d. að fá ís á sunnudögum og slíkt. Í einum sunnudagsbíltúrnum okkar fann ég þó leið til að stöðva þetta væl og við höfðum held ég bæði gaman af.

Ég var alltaf frekar frjálslynd þegar kom að háttatíma, enda vissi ég að syfjupirringurinn bitnuðu á þessum nöldrandi kennurum hans og þegar hann var kominn heim seinnipartinn nægði hvasst augnaráð og rétt raddbeiting.

The ShiningÉg leyfði erfðaprinsinum líka að horfa á allar myndir í sjónvarpinu, ekki síst bannaðar. Slíkt herðir börn og kennir þeim að lífið sé ekki bara leikur. Svo sparaði þetta mér mikið fé. Eftir að hann sá Jaws bað hann aldrei framar um að fara í sund. Löngun hans í ferðalög til útlanda hvarf eftir að ég tók flugslysamynd á leigu, þessa sem gerðist í Anders-fjöllum. Hann borðaði heldur ekki kjöt í langan tíma á eftir. Auðvitað faðmaði ég hann ástúðlega og sagði að þetta væru bara bíómyndir en í huganum heyrði ég hringl í peningum.

Eftir að hann sá The Shining stríddi ég honum góðlátlega þegar ég vildi fá frið með elskhugunum og sagði: „Jæja, á ég að láta Jack Nicholson koma og elta þig?“ Mikið gat ég hlegið þegar þessi elska vaknaði stundum öskrandi og hélt í barnaskap sínum að það væri skrímsli undir rúmi og annað slíkt. Svo krúttlegt.

P.s. Mig grunar að það stefni í fallegar öldur seinnipartinn. Þær lofa þegar góðu. Hlakka til á flóði kl. 18. Ekki nóg með þá gleði, heldur sá ég í dagskrárblaði okkar Skagamanna að Sound of Music verður sýnd á Stöð 2 kl. 14 í dag og er að hefjast. Þetta getur ekki verið tilviljun! Góða sjónvarpsfólkið hefur fyllst ljúfri nostalgíutilfinningu við lestur bloggfærslu minnar um börnin í Sound of Music og hviss, bang, skellt myndinni á dagskrá!


Kaldranalegheit, björgun og sölumannsstríð vegna stóls ...

StórhríðFremur kaldranalegt var að koma út í morgun en mun kaldranalegra hefur verið að koma út í Kaldrananesi í Kaldrananeshreppi, ég huggaði mig við það. Ekki lagaðist veðrið á leiðinni með Gumma í strætó, heldur versnaði, nú fór þetta hvíta að fjúka um allt, næstum því í skafrenning.

Engin Erla var í strætó svo að ég ákvað að taka 15 alla leið í Ártún hoppa niður (milljóntröppur), upp (lúmsku brekkuna) og taka leið 18 í vinnuna. Bílstjórinn á 18 var mjög laglegur en ekki sérlega gáfaður ... hann ók framhjá stoppistöðinni minni  án nokkurrar miskunnar og samt var ég búin að hringja og alla vega þrír aðrir voru staðnir upp, héldu í stöngina og biðu eftir að komast út. Strætó hélt bara áfram að keyra og keyra ... Þegar hann loksins stoppaði, eftir að við grátbáðum hann um það, vorum við komin svo langt upp í sveit að gangstéttirnar þar eru aldrei mokaðar. Við gengum því nokkur saman, steinþegjandi og kúl, á götunni áleiðis að vinnunni. Bíll sem kom á móti okkur tók stóran sveig, þessi elska, en næsti bíll (jeppi) neitaði að færa sig og nú voru góð ráð dýr. Ekki var sjéns að komast upp á gangstéttina akkúrat þarna en ungi maðurinn sem gekk aðeins fyrir aftan mig hafði haft vit á því að fara upp á hana á betri stað, aðeins fyrr. Hann sá vandræði minn, hættulega jeppann sem nálgaðist skjótt og grimmdarlega, rétti hönd sína út á götuna og ég gat vippað mér upp á gangstétt. Það var svo hált að ég hefði ekki komist upp, líklega bara runnið undir grimma jeppann, þessu nema taka í styrka hönd ... herramannsins unga sem ég tók eftir að er greinilega samstarfsmaður minn þar sem hann gekk inn um sömu dyr og ég. 

TímasprengjaSvo er spáð vitlausu veðri seinnipartinn eða í kvöld. Það er ekkert lát á ævintýrunum! Það var svo ekki allt búið enn, kvöldsölumaðurinn kvikindislegri var búinn að leggja fyrir mig lævíslega gildru og breyta stólnum svo mikið að það hefði orðið mitt síðasta ef ég hefði sest í hann. Mér tókst að laga stólinn og og bjarga þannig lífi mínu og gladdist líka yfir að þurfa ekki að skríða undir borð eftir inniskónum. Tókst að teygja vel á fótunum og smokra þeim nær skónum og það tók ekki nema fimm mínútur. Á morgun þori ég ekki annað en að leita eftir teiknibólum, handsprengjum og slíku. Þetta er stríð, gott fólk!


Nokkrir fleiri úr safninu ... hver er bestur?

Gamalt sjónvarpKarlar ...Fyrir milljónum ára þekktist ekkert á borð við hjólið. Einn dag fylgdust nokkrir fornmenn með konum sínum draga dauðan fíl í átt að eldunarsvæðinu. Þetta var hroðalega erfitt og þreytandi verk og sumir mannanna urðu nærri örmagna við það eitt að horfa á konurnar. Þá komu þeir auga á nokkra stóra, slétta og hringlaga hnullunga og fengu frábæra hugmynd. Nú gátu þeir setið ofan á hnullungunum og fengið betra útsýni yfir konurnar við störf sín.
Þetta var fyrsta atvikið í röð byltingarkenndra breytinga sem að lokum leiddu til sjónvarps ... og síðar fjarstýringar. 

JakkafötÞegar verslunarstjórinn kom úr mat tók hann eftir því að afgreiðslumaðurinn var með sáraumbúðir á annarri hendinni. Áður en hann gat spurt um það sagði afgreiðslumaðurinn: „Veistu hvað gerðist? Mér tókst loksins að selja ljótu jakkafötin sem enginn hefur litið við!“
„Ertu að meina þessi viðbjóðslegu, tvíhnepptu, guldoppóttu og bláu?“
„Já, einmitt!“
„Það er frábært!“ æpti verslunarstjórinn. „Ég hélt að við myndum aldrei losna við þessi ljótustu jakkaföt sem ég hef séð. En segðu mér, hvað kom fyrir höndina á þér?“
„Ó,“ sagði afgreiðslumaðurinn, „sko, þegar ég var búinn að selja gaurnum jakkafötin kom blindrahundurinn hans og beit mig!“

BílstjóriÓskar var að aka upp bugðótta, bratta brekku og kona kom akandi á móti honum. Þegar þau mættust æpti hún: „SVÍN!“ Óskar brást reiður við, renndi í hvelli niður bílrúðunni og öskraði á móti: „TÍK!“ Þegar hann kom að næstu beygju ók hann yfir svín sem stóð á miðjum veginum.

Hjá lækniUnga móðirin var hjá heimilislækninum
„Þú hefur allt of miklar áhyggjur af barninu þínu,“ sagði hann. „Ég ætla að skrifa upp á róandi lyf sem þú þarft að taka tvisvar á dag. Komdu svo til mín aftur í næstu viku.“
Viku seinna kom konan og læknirinn spurði: 
„Hafa lyfin haft einhver áhrif?“
„Já,“ svaraði konan. „Þau hafa gert algjört kraftaverk.“
„Hvernig hefur svo barnið þitt það?“
„Hverjum er ekki sama!“ sagði konan kæruleysislega.

Í búðinniMargrét var úti í búð að kaupa í matinn. Hún setti mjólk, egg, ávaxtasafa og epli í körfuna sína. Þegar hún var að borga vörurnar tók hún eftir fyllirafti sem starði á hana.
„Þú hlýtur að vera einhleyp,“ drafaði í honum.
Margrét horfði á innkaupin sín og sá ekkert sem gæti bent til þess að hún væri einhleyp. „Það er alveg hárrétt hjá þér. Hvernig í ósköpunum fórstu að því að finna það út?“ spurði hún.
„Það var auðvelt,“ svaraði hann. „Þú ert svo ljót!“


Trúaða konanÍri nokkur drakk sem óður væri á barnum og skálaði stöðugt við félaga sína. „Er ekki allt í lagi með þig?“ spurði einn drykkjufélaginn.
„Jú,“ svaraði Írinn. „Ég er bara að skála fyrir konunni minni. Blessuð sé minning hennar. Hún var algjör dýrlingur sem fór í kirkju á hverjum morgni. Hún las Biblíuna frá orði til orðs, söng sálma öll kvöld og skreytti heimili okkar með kristilegum munum og myndum. Hún bauð nunnum og prestum til kvöldverðar heim til okkar minnst þrisvar í viku.“
„Vá, þessi eiginkona þín hefur verið sannkallaður engill. Guð hefur sem sagt kallað hana snemma til sín?“
„Nei,“ svaraði Írinn. „Ég kyrkti hana.“

Maður hjá lækni„Ég held að eitthvað alvarlegt ami að mér,“ sagði Guðmundur við lækninn sinn. „Annað eistað á mér er orðið blátt á litinn.“ Læknirinn skoðaði Guðmund vandlega og komst að þeirri niðurstöðu að það yrði að fjarlægja eistað til að bjarga lífi hans. Læknirinn var þó góða stund að sannfæra Guðmund um nauðsyn þess. Tveimur vikum eftir aðgerðina kom Guðmundur aftur og sagði skelfdur við lækninn að nú væri hitt eistað orðið blátt.
„Við neyðumst til að nema það í burtu líka,“ sagði læknirinn alvarlegur á svip. „Annars geturðu dáið.“
Tvær vikur liðu og enn var Guðmundur mættur til læknisins.
„Nú hlýtur eitthvað hryllilega alvarlegt að ama að mér því lillinn er orðinn kolblár á litinn,“ sagði Guðmundur á barmi taugaáfalls.  
Læknirinn skoðaði hann vandlega og felldi síðan þann dóm að ef Guðmundur ætlaði að halda lífi yrði að skera vininn af.
„Hvernig fer ég að því að pissa ef þú skerð hann af,“ kveinaði Guðmundur.
„Við setjum bara plastslöngu í staðinn,“ sagði læknirinn hughreystandi.
Síðan fór Guðmundur í aðgerðina og allt gekk vel. Innan nokkurra vikna var hann þó, enn og aftur, mættur á skrifstofu læknisins. Nú var hann reiðilegur á svip.
„Læknir, plastslangan er orðin blá! Hvað er eiginlega í gangi?“
Læknirinn fórnaði höndum af undrun og tók til við að rannsaka Guðmund.
„Hmmmm,“ sagði hann eftir smástund. „Getur verið að gallabuxurnar þínar láti svona mikinn lit?“


Hvar varð eiginlega um ljóshærða manninn með ættarnafnið?

DóminískaDóminíska lýðveldiðMikið er nú annars gott þegar reglan tekur yfir óregluna, eins og í morgun þegar farið var á fætur um miðja nótt í himnaríki. Ásta var svo rugluð eftir dásamlegu ferðina sína til Dóminíska lýðveldisins að hún brunaði framhjá afleggjaranum mínum á Garðabrautinni en áttaði sig strax á mistökunum og sneri við. Hún er svo brún, afslöppuð og sæt, eitthvað sem tæplega er hægt að herma eftir nema fara hrikalega snemma að sofa nokkur kvöld í röð og bera á sig brúnkukrem.

----------------        -----------------           -----------------         -----------------------

 

Um 1982Fyrrverandi ástkær eiginmaður átti hálfrar aldar afmæli í gær ... og ég gleymdi að óska honum til hamingju með það, best að senda honum hjartnæmt SMS í dag. "Astkaer fyrrv eiginmadur. til ham m afmaelid. gamli geithafur!" Þótt hann hafi ekki boðið mér í afmælið sitt er ekki ólíklegt að mér verði boðið í nokkur slík í ár. Allir eru alltaf með brennivín, ræður, söng og snittur, það virðist tilheyra. Ég kann ekki að halda svoleiðis afmæli. Kannski er ég voða "lummó" fyrst ég ætla að halda sama sið og síðustu 20 árin og bjóða til dýrlegrar "fermingarveislu" í himnaríki þar sem rjómatertur, brauðtertur, súkkulaðitertur og dúndurgott kaffi verða í aðalhlutverki!

StjörnukortÞegar Gulli stjörnuspekingur las stjörnukortin okkar fyrrverandi fyrir ótrúlega mörgum árum fölnaði hann og sagði að það væri allt of kalt fyrir mig (ljón með tungl og venus í krabba) að vera með manni sem væri ekki bara vatnsberi, heldur líka með tungl, merkúr og venus í vatnsbera og hvað þá mars í steingeit. Arggg! Ég skildi ekki orð en skildi samt auðvitað við hann í hvelli ... annað ... Anna föðursystir mín sat við hliðina á mér í erfidrykkju Guðríðar ömmu og hinum megin við mig sat þessi fyrrverandi vatnsberi minn. Vorum 18 ára. Ég sagði Önnu að þetta væri kærastinn minn en hún sneri upp á sig, sagði að ég ætti eftir að giftast ljóshærðum manni með ættarnafn. Anna kíkti stundum í bolla og var ansi sannspá. Ég er fegin að ég hlustaði ekki á hana, þá ætti ég ekki erfðaprinsinn. Af einskærri þrjósku giftist ég nefnilega manninum sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn, eða um 24 ára aldurinn. Nú hefur aftur á móti langtíma einsemd kennt mér að sætta mig við ýmislegt þannig að nú mega alveg ljóshærðir karlar (gráhærðir eru ljóshærðir, líka sköllóttir) með ættarnafn (líka nöfn eins og Jói Jóns, Siggi Sveins, Gummi Jóns) fara að láta sjá sig. Auðveldast er að ná í mig milli 17.30 og hálfsex virka daga þegar boldið fer að hefjast.

Þessar pælingar komu bara í kjölfarið á afmæli fyrrverandi eiginmanns, sorrí!


Innrás meinatæknanna og olíubornir dillibossar ...

Elvis á rannsóknarstofunniÁ rannsóknarstofunni í morgunÞað reyndist aldeilis engin pynting að fara í blóðprufuna í morgun. Sat á biðstofunni og reyndi að hughreysta kvíðna móður, afar sprautuhrædda, en litla dóttir hennar var að fara í prufu. Pabbinn kom líka með, sjúkkitt. Ég sagði henni eins og var, að þar til ég var rúmlega tvítug hljóp ég öskrandi á brott frá öllum sprautum í sjónmáli. Hugsaði skömmustuleg um það þegar elskan hann Ingjaldur tannlæknir ætlaði að deyfa mig, kannski var ég níu ára, þá stóð ég upp úr tannlæknastólnum, flýtti mér í stígvélin og út! Jamm, "falskar um fermingu" virkaði ekkert á mig, þær eru ekki komnar enn, áratugum síðar. Elskan hún Kristín sjúkraliði, gamla bekkjarsystir mín úr barnaskóla, þaut þarna um í hvítum slopp og heilsaði glaðlega. Ég sendi henni boðskort í afmælið mitt en hún hélt að það væri djók þar sem hún vissi ekki að ég væri flutt á Skagann. Vonandi kemur hún næst ... daginn sem ég hætti að vera rúmlega fertug.
Glaðlegt fólk var á rannsóknarstofunni. Rannsóknarmaðurinn argaði hátt og snjallt fæðingardag minn og ár, eins og væri eitthvað merkilegt að ég væri rúmlega fertug, og ég sagði kuldalega (besta vörnin er sókn): „Já, þú hefur greinilega áttað þig á því að við Madonna erum jafnaldrar!“ Hann glotti og sagðist sjálfur eiga sama afmælisdag og Elvis, það munaði reyndar einhverjum árum á þeim. Konan sem tók úr mér blóðið var fáránlega mjúkhent og ég fór ekkert að gráta. Svo bara hviss, bang, allt búið! Ekki leist þeim vel á líkingu mína við leikritið góða Sláturhúsið hraðar hendur, þrátt fyrir blóð og snögga afgreiðslu ... vissulega er engum slátrað þarna, held ég. Í skaðabætur fyrir innrásina í virðulegt blóðkerfið tók ég bómullarhnoðra og límbandsrönd með mér heim. Kíkti undir bómullarhnoðrann áðan og það er ekki einu sinni að sjá nálarstungu. Mikið er annars allt notalegt hérna á Skaganum, persónuleg þjónusta og elskulegheit hvar sem maður kemur.

KvennakvöldBoratÍ bíl erfðaprinsins í fyrradag heyrði ég útvarpsauglýsingu um kvennakvöld í Reykjavík! Lofað var olíubornum, karlkyns dillibossum, tískusýningu og svona. Frekar hallærislegt, finnst mér. Það þykir ömurlegt að olíubornar konur séu til sýnis á karlakvöldum, þetta er sko ekkert skárra. Kannski tala ég bara út frá sjálfri mér. Villt ímyndunaraflið fær bara notið sín nálægt kappklæddum körlum í vetrargöllum með lambhúshettur og vettlinga. Ekki nálægt hálfnöktum, olíubornum dillibossum, sorrí. Tala nefnilega af mikilli reynslu ... en þegar ég var rúmlega tvítug fengum við nokkrar gellur á skrifstofunni á DV boðskort á sýningu Pan-hópsins í húsnæði við Hlemm (sem síðar breyttist í Keisarann, held ég). Þarna labbaði um ungt, hálfnakið fólk í ögrandi, klámfengnum (út í sadó/masó) klæðnaði, undanrennuhvítt á litinn og ótrúlega vandræðalegt á svipinn. Svona ungt og ólgandi kvendi, eins og ég var (nú er ég bara ólgandi) fannst mér þetta hrikalega hallærislegt. Eftir þessa reynslu, sem eyðilagði bæði æsku mína og sakleysi, hef ég forðast eins og heitan eldinn að koma nálægt öllum svona uppákomum.

Ljóta LetyNý morgunsápuópera er byrjuð á Stöð 2, spænsk og heitir Ljóta Lety. Þetta er víst fyrirmyndin að Ljótu Betty sem er sýnd á RÚV við miklar vinsældir. Ætla samt að láta boldið nægja, vildi bara segja frá þessu. Held að sumir karlkynsbloggvinir myndu hreinlega fara að skæla ef hér yrði bloggað um aðrar sápuóperur. Dettur helst í hug Kjartan og Þröstur ...


Matarboð á ljóshraða ...

GestgjafarnirIndverska matarboðið hófst rétt fyrir sjö og var alveg dásamlegt. Skemmtilegar umræður um allt á milli himins og jarðar og svo var maturinn alveg himneskur. Fyrst voru tveir grænmetisréttir og síðan kjúklingaréttur og fiskréttur. Þetta var frábær en alltof stutt kvöldstund.

NammmmmmmÞetta var hvert öðru betra en ég var hrifnust af þessu sterkasta; kjúklingaréttinum og grænmetinu! Ef til eru önnur líf þá var ég indversk í fyrra lífi ... ég er viss um það. Hrífst mjög af öllu indversku, Bollywood-myndir eru t.d. í miklu uppáhaldi og augun í indversku fólki finnst mér svo rosalega falleg!

Ég var komin heim rúmlega átta, ekki af því að það væri leiðinlegt og mig langaði ekki í eftirrétt, heldur af því að hóstinn var farinn að angra mig aftur. Best að kíkja á lækni á þriðjudaginn, tékka á því hvort komin sé lungnabólga, hef fengið slíkt tvisvar áður með tíu ára millibili. Eins með okkur Kötlu (eldfjall), við gerum hlutina nokkuð reglulega og nú er kominn tími á lungnabólgu, held ég. Hér fyrir ofan eru myndir af gestgjöfum kvöldsins og svo auðvitað kjúklinga- (t.h.) og grænmetisréttinum. Mía o.co. sitja þarna enn þá og halda uppi heiðri fjölskyldunnar á meðan himnaríkisfrúin hóstar!


Annar stormur ... Trade ... Food & Fun á landsbyggðinni

Tommi og KubburGærkvöldið var vissulega ævintýraríkt þótt ég missti algjörlega af eldingunum, því miður. Það slökknaði ekki nema einu sinni á sjónvarpinu í rafmagnsblikki en ég þorði engan veginn að hafa kveikt á tölvunni. Nóg að hún drap einu sinni á sér. Það hvein og brakaði skemmtilega í öllu en ég veit ekki um neinar skemmdir á húsinu sem hýsir himnaríki, kannski gerðist eitthvað því hamarshögg hafa dunið hér aðeins í dag. Kettirnir voru frekar hræddir og náðu ekki sálarró fyrr en þeir lögðust í kuðl í fangið á erfðaprinsinum.
Nú er nýr stormur á leiðinni, suðvestanáttin sú verður mun hagstæðari upp á brim að gera.  

TradeVið erfðaprins horfðum á ansi hreint frábæra mynd (Trade) á DVD. Átakanleg, spennandi og falleg í öllum ljótleikanum. Hún segir frá leit 17 ára mexíkósks stráks að systur sinni sem var rænt í Mexíkóborg. Hann kynnist bandarískum lögreglumanni sem óvænt leggur honum lið. Frábær og vel leikin mynd með Kevin Kline í aðalhlutverki.

Nú er allt komið á fullt í sambandi við Food & Fun á landsbyggðinni sem verður helgina 21. – 24. febrúar. Ellefu aðilar um allt land taka þátt og eru með gestakokka, uppákomur og æðislegheit á allan máta. Ef þetta lífgar ekki upp á skammdegið þá veit ég ekki hvað gerir það. Hér á Vesturlandi munu Hótel Glymur í Hvalfirði, Landnámssetrið og Hótel Hamar í Borgarnesi standa fyrir herlegheitunum. Á Austurlandi: Hótel Höfn og Hótel Hérað. Á Vestfjörðum er það Veitingastaðurinn við Pollinn. Á Suðurlandi: Hótel Rangá við Hellu og Rauða húsið á Eyrarbakka. Fyrir norðan er það Friðrik V. á Akureyri, Sel-Hótel Mývatn á Skútustöðum og Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit.

Hótel Hérað hreindýrasteikHátíðin í Reykjavík er fyrir löngu búin að sprengja öll bönd og okkur landsbyggðartúttum fannst nauðsynlegt að koma henni út á land þar sem allt er til staðar, þar að auki gisting hjá flestum. Ég ætla að bjóða erfðaprinsinum út að borða á einhvern af stöðunum á Vesturlandi, alsæl með að þessi hátíð sé loksins komin út á land. Vinnuheitið á henni hefur verið Fóður og fjör, mér finnst það snilld!!!

Ég sagði Maríu í Skrúðgarðinum frá þessu í gær og henni fannst þetta æði, held samt að hún sé ekki með svokallað “fullkomið” eldhús, eins og t.d. Galito ... sem verður vonandi með í F&F að ári. Annars verður Skrúðgarðurinn ársgamall á morgun! Ég fékk hann í eins árs afmælisgjöf ... eða þannig. Á morgun á himnaríki nefnilega tveggja ára afmæli. Það verður að sjálfsögðu haldið upp á það með heimsókn í Skrúðgarðinn og svo förum við í indverskt matarboð um kvöldið.  


Sofið út og stuð hinna þriggja strætisvagna ...

Leyndarmál opinberuð í strætóKlukkan sex í morgun var ekki séns að fara á fætur, kalt, dimmt og enn mið nótt. Svaf því út ... eða klukkutíma lengur. Gummi strætóbílstjóri var í miklu stuði og kjaftaði á honum hver tuska. Hann átti helgina, Tommi minn veikur, og sagði að það hefði verið viðbjóður að keyra, sérstaklega á sunnudaginn! „Nú, veðrið eða farþegarnir?“ spurði ég forvitin. Hann flissaði og sagði að það hefði verið veðrið! Í leið 15 myndaðist klikkað stuð í miðri Mosfellsborg þegar nokkrir annarsbekkingar úr Varmárskóla fylltu hvern krók og kima. Ákaflega glaðlyndar stelpur sátu og stóðu nálægt mér og ég gat ekki stillt mig um að spyrja þær hvert þær væru að fara. Ferðinni reyndist heitið í Þjóðminjasafnið. Ég bað þær lengstra orða að smakka kaffið þar, það væri algjört æði. Þær flissuðu ákaft, enda bara 7 ára og fóru að tala illa um kaffi. Þetta litla spjall breyttist í könnun því að ég komst að því að pabbar þeirra eru miklu meiri kaffisvelgir en mömmurnar. Eitt barnið hafði reyndar smakkað kaffi og var ekki mjög hrifið! Æsispennandi ættarleyndarmálin voru að fara að opinberast. „Sko, pabbi minn á tvær kaffikönnur og notar bara aðra ... “  ... en því miður vorum við svo bara allt í einu komin í Ártún og sexan beið þar eftir hópnum ...

Partí í vinnunniÉg gekk virðulega út í Ártúni og í hægðum mínum niður milljóntröppurnar, undir brúna og upp lúmsku brekkuna. Fékk smá áfall þegar ég fattaði að milljón tröppurnar eru ekki svo margar, líklega bara 10 ... brekkan fyrir neðan þær hefur villt illilega fyrir mér og þess vegna hefur þetta virkað á mig eins og kirkjutröppurnar á Akureyri. Örstutt bið í Ártúni og svo kom elsku leið 18 og dólaði sér næstum tóm um Árbæinn með mig ... í stað þess að fara Stórhöfðann og upp Súkkulaðibrekkuna eins og áður og nýtast almennilega. Komst þó heilu og höldnu í Hálsaskóg þar sem samstarfsfólkið beið að vanda með opinn faðminn og hressandi kaffi og snittur og faðmlög og knús og konfekt. Þetta er besti vinnustaður í heimi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 695
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 595
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband