Færsluflokkur: Lífstíll

Ónýtt mannorð ... konu á mínum aldri

S�� og heyrt„Ég sá mynd af þér í Séð og heyrt,“ sagði mamma í afmælinu í gær og horfði undarlega á mig. „Nú, var það?“ spurði dóttirin. „Ég vissi ekki að þú hefðir farið á klámráðstefnu!“ hélt hún áfram og þögn sló á mannskapinn. Þarna stal hún sannarlega athygli minni frá tvíburunum krúttlegu. Ég rifjaði hratt upp atburði síðustu 49 ára sem mögulega hefðu ratað í vinsælasta slúðurtímarit landsins og datt ýmislegt krassandi í hug ... en klámráðstefna? „Var þetta nýlegt blað?“ spurði ég. „Já, ég sá það á hárgreiðslustofunni í gær.“ Augu mömmu skutu gneistum, enda hafa börn hennar verið alin upp við mikla siðprýði „Sátum við nokkrar skvísur saman í sófa með ungan mann í fanginu?“ spurði ég. „Já, einmitt þarna á klámráðstefnunni,“ sagði mamma. Loks rann upp ljós fyrir mér. „Æ, þetta var lítil smáfrétt um að Haffi Haff væri farinn að vinna með okkur á Vikunni,“ útskýrði ég, „þetta hefur eflaust verið á sömu blaðsíðu og myndir frá einhverri klámráðstefnu.“ „Ahhh, mikið er ég fegin, hana fáðu þér aðra snittu,“ sagði mamma himinsæl með dótturtepruna sem lenti óvart á rangri síðu í Séð og heyrt og uppskar ónýtt mannorð í augum móðurinnar.

AugaEkki var raunum mínum alveg lokið. Í dag skrapp ég til læknis með gjörsamlega fáránlega lítilvægt erindi, eða bólgið auga, og þurfti að bíða nokkuð lengi eftir að komast að, enda mikið að gera. Ég skildi ekki hvers vegna fólkið á biðstofunni var svona gott við mig. Ung kona færði mér vatn, eldri maður með tárvot augu klappaði mér á bakið og stórhuggulegur maður faðmaði mig. Það var ekki fyrr en mér var litið á bókina sem ég hafði verið að lesa áfergjulega sem ég skildi hvað var í gangi. Hún heitir Áður en ég dey. Pólska konan, frábæri læknirinn minn skrifaði lyfseðil og sagði að það væri eitthvað svona augndæmi að ganga.

Svona litum við útFyrr í dag var krabbameinsskoðun í gangi á Skaganum og er þessa dagana. Hef aldrei áður upplifað svona stuð og fjör af þessu tilefni sem yfirleitt er kvíðvænlegt hjá flestum konum. Sú sem lét okkur fylla út spurningablað (aðgerðir, barneignir, uppáhaldsliturinn og svona) var frábærlega skemmtileg og hin konan við hlið mér sem fyllti út eyðublaðið var hrikalega fyndin. Við sátum síðan þrjár ókunnugar á biðstofunni í hryllilegustu múnderíngu sem til er, voru í síðu, nokkurs konar pilsi með teygju og átti að staðsetja mitti pilsins undir höndunum. Við vorum eins og beibíbleikir/eiturgrænir boltar í útliti. Hugsa að eiginkona sæta læknisins hafi hannað þetta ... Það vinnur einstakt fólk á spítalanum hérna á Akranesi, þótt það þekki ekkert allir alla þá er Mulningsv�l � hv�ld ...andrúmsloftið svo kósí og allt virðist vera gert til að láta fólki líða vel. Annað en í risastóru Reykjavíkinni sem mér þykir nú samt svo vænt um. Ég segi ekki að ég hlakki til að fara aftur eftir tvö ár ... en ég verð örugglega ekki jafnkvíðin og ég var í dag. Þegar ég var síðan í kremjaranum ... eða brjóstamulningsvélinni hugsaði ég illilega til frænda míns sem gaf Krabbameinsfélaginu andvirði einnar slíkrar vélar þegar hann seldi húsið sitt og minnkaði við sig húsnæði. Nei, nei, djók, þetta var flott hjá honum og annað, það er ekki nein martröð að fara í svona vél, tekur stuttan tíma og í þessi þrjú eða fjögur skipti sem ég hef farið hafa konurnar verið alveg frábærar. Og fyrst ég er orðin „kona á mínum aldri“ að mati Krabbameinsfélagsins þá þarf ég að fara í svona myndatöku annað hvert ár.

Hressar skvísurAf hverju getur Krabbameinsfélagið ekki sagt: Konur yfir fertugt eru hvattar til að fara í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti ...í opnum póstkortum sínum til mín, í stað þess að kalla okkur Kona á þínum aldri? Þetta hefur pirrað mig síðan ég fékk fyrsta kortið, fertug að aldri, enda finnst mér Kona á mínum aldri, verða prúðbúin kona á áttræðis- eða níræðisaldri með hatt að drekka kaffi á kaffihúsi með skríkjandi vinkonum, ja, eða í sundi með litríka sundhettu. Þegar svona opið póstkort kom fyrst heim til vinkonu minnar bilaðist maðurinn hennar úr hlátri og sagði við hana: „Elskan, hér hafa orðið tímamót í lífi þínu, þú ert orðin Kona á þínum aldri.“ Auðvitað á maður ekki að láta svona smáatriði pirra sig, ég veit það vel ... en ég get ekki alltaf verið fullkomin!


Prestar í kröppum dansi

Eftir sjokkerandi tvo fréttatíma í röð ákvað ég að gefa sjónvarpinu frí í kvöld, kannski bjóða erfðaprinsinum út að borða og síðan á Bónusvídeó. Samskipti okkar mæðgina hafa of lengi einskorðast við kommentakerfi bloggsíðna okkar (fylgifiskur tækninnar) og nú verður gerð bragarbót á.

Til að gera ástkærum bloggvinum mínum laugardagskvöldið léttbærara skellti ég inn hressilegu vídjói þar sem prestar koma oftar en ekki við sögu. Góða skemmtun.


Kattauppeldi, konukvöld og heimakynningar frá helvíti

Tommi á gluggaveiðumHér er unnið af túrbókrafti og lítill tími til annars. Búin með djúsí lífsreynslusögu sem mér tókst að redda í gegnum ýmsar krókaleiðir í gærkvöldi. Það eiga sér allir sögu, jafnvel margar sögur; góðar, fyndnar, sorglegar, erfiðar og skemmtilegar. Nokkrar hef ég fengið í gegnum bloggvini, enda er ég óþolandi í leitinni og með allar klær úti, alltaf. Múahahha!

Kettirnir elska að hafa mig heima, sérstaklega núna þegar erfðaprinsinn er að heiman. Þeir væla af og til, enda fá þeir ekki sömu dekurmeðferðina hjá mér í sambandi við mat. Það hefur líka heilmikið gengið á þurrmatinn síðan í gær. Tommi situr í glugganum við hlið mér og vælir ámátlega á fiskiflugu sem er hinum megin gluggarúðunnar, hann langar í sushi ...

Vinkona mín sagði mér um daginn að hún fengi stundum boð um að koma á konukvöld. Dagskrá slíkra konukvölda væri í mörgum tilfellum móðgandi, sagði hún. Nýjasti pósturinn: Kæru XXkonur. Eigum við ekki að gera lífið skemmtilegra og mæta á konukvöld hjá XXXX í XXXXX? Kaffi og kökur. Tískusýning og snyrtivörur á tilboði. Innifalið í miðaverði er grenningarkrem frá XXX. Hversu leiðinlegt er lífið ef maður fer á svona uppákomur til að gera það skemmtilegra, kveinaði hún. Mér finnst reyndar gaman að hitta konur og borða kökur og drekka kaffi en hef forðast konukvöld, heimakynningar og slíkt af alefli. Þoli ekki einu sinni danssýningar, að undanskildum ballett.

 

KvennakvöldÞegar ég vann á Aðalstöðinni í denn voru svona konukvöld árlegur viðburður. Það sem fældi mig helst frá því að fara á þau var stripparinn! Ég fæ alltaf vægan aulahroll yfir slíku, hvort sem um er að ræða kvenkyns- eða karlkynsstrippara. Samt er ég vitlaus í stráka ..

Hefði getað kálað einni vinkonu minni fyrir mörgum árum þegar hún bauð mér í mat, sótti mig heim á Hringbraut og gaf mér gott að borða. Þegar máltíðinni var að ljúka sagði hún: „Já, bæ ðe vei, það verður Tupperware-kynning hjá mér á eftir og það koma nokkrar konur eftir hálftíma.“ Hún hélt að hún væri að gleðja mig með þessu, allar konur elska jú heimakynningar ... sjúr. Þetta reyndist þó ágæt afplánun, skemmtilegar konur og svona, en ég spurði þessa vinkonu mína alltaf eftir þetta, þegar hún bauð mér í mat, hvort það yrði nokkuð kynning hjá henni.


Góð okursíðan hans Dr. Gunna

Dr. GunniÉg hef verið að lesa okursíðuna hans Doktors Gunna, http://eyjan.is/goto/drgunni/, og finnst alveg frábært að almenningur sé loks að vakna upp úr okurdásvefninum langa. Við höfum látið okra ógeðslega mikið á okkur í gegnum tíðina af því að við höfum ekkert gert, enda alltaf þótt flott að vera/þykjast „ríkur“ hér á landi. Hér lætur maður sko helst ekki sjá sig með Bónuspoka ... og hér þegir maður yfir því að maður sé svona „Íbúðalánssjóðsfólk“ ... hehehhe. Eina leiðin er greinilega sú að halda vöku sinni og hætta alfarið að skipta við okrarana. Ég hélt t.d. í alvöru að BT væri lágvöruverslun í raftækjum en það var áður en ég las síðu Dr. Gunna. Hef reyndar keypt fína hluti þar ... en á tilboðsverði. Eftir lesturinn veit ég að við eigum ekki að trúa blint á hilluverð, heldur bera það saman við kassaverð og verja tíma í að gera verðsamanburð milli verslana. Þannig sést hverjir okra minnst.


Ritskoðun á boldinu

Taylor, Ridge,Tómas og tvíburarnirVegna síðustu atburða sem skekja boldheima hef ég ákveðið að skrifa mun varlegar en áður um þá atburði sem eiga sér stað í þáttunum. Ég tel þó alls ekki að skrif mín hafi einkennst af hatri gagnvart Forrester-liðinu, síður en svo, ég hef þó mögulega verið ögn dómhörð vegna þeirrar viðleitni boldarana til að stunda sígiftingar ... skipta reglulega út börnunum og láta mun eldri leikara í þeirra stað svo hægt væri að láta þá elstu hafa eitthvað nýtt til að sofa hjá og svo auðvitað til að giftast. Dæmi: Tómas og tvíburarnir, sem þroskuðust óhugnanlega hratt, Tómas var meira að segja farinn að sofa hjá Amber, áður en hún hvarf. Tvíburarnir, sem bara í fyrra eða hittiðfyrra voru dúllulegar þriggja ára dömur, eru nú unglingar og stutt er í að Rick, föðurbróðir þeirra en þó ekki blóðskyldur, fari að deita aðra þeirra inni í framtíðinni.

TaylorHinn nýi Rick (Kyle Lowder)Handritshöfundar mega eiga það að þeir hafa verið afar passasamir við að rjúfa blóðtengsl þegar það á við. Aldur skiptir heldur engu máli, það er ekki einu sinni ósmekklegt þótt Rick, sonur Brooke, áður kvæntur Amber, barnapíunni sinni, sé farinn að vera með Taylor, sem áður var gift Ridge og á með honum Tómas og tvíburanna, síðar Nick og átti með honum barn sem var í raun ekki hennar, heldur flæktust egg Brooke óvart í Taylor með þeim afleiðingum að Taylor gekk með barn erkióvinkonu sinnar. Bíddu, hvar var ég, já, Taylor og Rick eru farin að vera saman og það finnst Brooke, mömmu Ricks, alveg hræðilegt, því hún og Taylor bitust árum saman um Ridge og giftust honum til skiptis. Skrif mín hafa kannski verið dómhörð gagnvart afskiptasemi Stefaníu, vælinu í Ridge, botoxinu í Taylor og aumingjaskapnum í Bridgeti og fleira, en því mun ég breyta héðan í frá. Mögulega endurskoða ég gamlar færslur, kannski fjarlægi ég þær bara til að vera örugg.

Héðan í frá verður boldið að mestu skammstafað. Dæmi: F=framhjáhald. M=misskilningur. B=blóðskyldleiki. EB=Ekki blóðskyldleiki. S=sólbrennsla. BK=brúðkaup.


Kreppuótti í mötuneytinu

FaLAfel arabískur skyndibitiEitthvað sem heitir Falafel var í matinn í hádeginu, alveg ágætis hollustubollur með hvítlaukssósu og salati. Við matarborðið rifumst við um framburðinn á faLAfel, sem á víst að vera með áherslu í miðju orði, á LA, eins og í útlensku. Vá, hvað ég vinn með æðislegu fólki sem kann að bera fram hin flóknustu útlensku orð. Smile Hmmmmm. Tryggi fór að tala um andúð sína á hinu guðdómlega kryddi kóríander og síðan fórum við, einhverra hluta vegna, að tala um mannakjötsát.

MannætaTryggi myndi frekar borða mannakjöt en kóríander, tjáði hann okkur. Hrund myndi frekar borða mannakjöt en kóngulær. (Mamma líka, hugsa ég.) Tryggvi sagði að það væri sko alveg hægt að fá mannakjöt ... það væru svona exclusive-matsölustaðir í New York og ef maður vissi leyniorðið gæti maður alveg pantað sér.

Þetta var í annað skipti í vikunni sem Hrund kom inn í samræður um mannakjötsát í mötuneytinu.

Mig grunar að ótti okkar Íslendinga við kreppu og mögulega hungursneyð sé djúpstæðari en Seðlabankinn gerir sér grein fyrir. Ef þeir/þær/þau hætta að hringla svona með blessaða stýrivextina mun ótti vaknandi almennings breytast í dásvefn á nýjan leik. Hmmm


Morgunhugvekja og hugleiðingar um CSI-Miami

SumarkötturMikið var unaðslegt að vakna í sumarstemmningu í morgun. Alla vega vorstemmningu. Ég vissi að þetta yrði góður dagur þar sem spegillinn sýndi yndisfagra mynd, enda sofnaði ég ekki með blautt hárið í gærkvöldi, smá sinaskeiðabólga hrjáir mig en það eru eflaust 20 ár síðan ég fann fyrir henni síðast. Kettirnir möluðu og kaffibaunirnar möluðust, allir í stuði. Ekki versnaði hugarástandið þegar síminn hringdi og Guðbjörg strætósamferðakona bauð mér far í bæinn á bíl og alla leið í Hálsaskóg. Svo kemst ég til baka með erfðaprinsi sem á erindi í bæinn í dag. Tek þó fram að strætó er líka frábær þótt hann sé ekki jafnfljótur á leiðinni og einkabíll sem getur farið beina leið og þarf ekki að stoppa neins staðar.

Ofurtöffarinn HoratioÉg sofnaði út frá fallega fólkinu í CSI-Miami í gærkvöldi (nótt). Hvernig það fólk getur opnað munninn og talað fyrir þykkum varalit eða blakað augunum fyrir augnskuggum og almennt fúnkerað fyrir töffaraskap á ég erfitt með að skilja. Þarf að muna að vera aldrei drepin í Miami. Dánarorsök "myrt með gloss" gæti fyrir slysni verið ákveðin. Annars finnst mér hrikalega gaman að fylgjast með Horatio. Í þættinum í gær hafði ungur drengur (6-7 ára) komið að móður sinni myrtri og vildi ekki tala við neinn eftir áfallið. Horatio sagði svipbrigðalaus af öryggi við undirmann sinn: "Hann talar við MIG." (myndi maður vilja hafa svona yfirmann?) Svo settist hann á bryggjuna, horfði á drenginn með sama svipleysi og hann sýnir öllum (vændiskonum, ástkonum, samstarfsmönnum, glæpónum, dýralæknum, strætóbílstjórum), kynnti sig og fór að spjalla góðlátlega en af virðingu. Barnið leit á þennan ófrýnilega, sviplausa og rauðhærða mann og opnaði sig algjörlega fyrir honum, gerði betur en það, tók glaðlega upp úr skólatösku sinni hnífinn sem hann hafði tekið úr hjarta móður sinnar og rétti Horatíusi. Í þessum þáttum eru ALLIR sætir nema Horatio, sem er svona hálfgerður Chuck Norris réttarrannsóknaþáttanna, meira að segja glæpónarnir eru með fullkomnar tennur, flottar strípur og hugsa vel um útlitið eins og starfsfólkið. Já, staffið ... djöfull dáist ég að ljóshærðu konunni þarna sem lætur sig hafa það að mæta í níðþröngum fötum og hælaháum skóm í vinnuna þótt hún þeytist um morðvettvanga á milli þess sem hún sinnir smásjárrannsóknum. Svo er hún varla talandi fyrir kynþokka sem drýpur af henni. Já, Horatio ekur um á lögguHummer!!! Himinn og haf skilja að t.d. CSI og CSI-Miami. Í fyrrnefnda þættinum er venjulegt fólk ... í hinum svífur andi Strandvarða yfir vötnum. Skemmtanagildi þáttanna er alveg tvöfalt, stundum margfalt. Kannski ágætis morðgáta í þættinum ... og svo getur maður flissað yfir öllu hinu þótt þetta eigi alls ekki að heita gamanþættir!

Viðbót frá bloggvini um Hóras: http://www.weebls-stuff.com/wab/CSI/

Girnist hana varla nokkur fýr ...

 

B�ll erf�aprinsinsErfðaprinsinn er í hálfgerðu losti. Hann fór með bílinn sinn í viðgerð og spurði nokkrum sinnum í verkferlinu um hugsanlegt verð á þessu. Einhverjar tölur í kringum tugþúsundir voru tautaðar og var prinsinn farinn að búast við hátt í 50 þúsund kr. reikningi. Okkur fannst það skelfilegt. Þegar hann náði sambandi við verkstæðið í dag fékk hann þau svör að varahlutir hefðu kostað 50 þúsund ... og vinnan 50 þúsund. Allir í sjokki í himnaríki. Meira að segja Jónas slökkti á sér í samúðarskyni. Ég fann hvernig hörkupúlið hennar Betu sjúkraþjálfara í dag rann úr mér og verkurinn í peningabeininu varð svo sterkur að sjaldan hef ég fundið fyrir öðru eins. Ég nefnilega lofaði erfðaprinsinum að hjálpa honum ... skólastráknum mínum hugumstóra frá og með næsta hausti. Þeir á verkstæðinu eru þó engir fautar og hægt var að semja við þá um að greiða þetta á næstu 300 árum. Vildi að prinsinn tæki bara strætó eins og annað almennilegt fólk (mamma hans).

Kaþólskur aðdáandiEinn af „skemmtilegri“ Moggabloggurum þessa lands er Már Högnason. Í stað þess að láta fólk hlaupa apríl um síðustu mánaðamót samdi hann níðvísur um þá sem þess óskuðu. Með kvíða í hjarta en spenning í hnjám masókistaðist ég inn á listann hans og hér er vísan sem hann orti til að spæla mig. Hann virðist vita að það eru eiginlega bara hommar, kaþólskir prestar, drengir undir 5 ára og yfir 70 sem sýna mér einhvern áhuga.

Guðríður með geldum köttum býr
girnist hana varla nokkur fýr
hef þó grun um einn
hann er myndarsveinn
en helvítið er örugglega hýr. 

 

Chuck-Norris-Shazam-SupermaAð lokum:

Hönd Chuck Norris er eina höndin sem getur sigrað litaröð í póker.

Chuck Norris fer aldrei í sturtu, hann fer í blóðbað.

Hvað fer í gegnum huga fórnarlamba Chuck Norris áður en þeir deyja? Skórinn hans.

Chuck Norris er eini maðurinn hefur hefur sigrað múrvegg í tennisleik.





Söfnuður hinna tíu þúsund engla

Svona mennLangar að vekja athygli á því að ég hef stofnað Söfnuð hinna tíu þúsund engla. Hann er til húsa hér í himnaríki. Skilyrði fyrir inngöngu er safnaðarmeðlimir gefi mér eigur sínar, tíund launanna og tilbiðji mig að auki. Þetta er söfnuður sem samanstendur af huggulegum karlmönnum sem ég hef óheftan aðgang að. Æskilegt er að a.m.k. einn sé laghentur, eigi verkfærasett og borvél og kunni að setja upp rúllugardínur. Allir vita hvað erfitt er að ná í iðnaðarmann ... sem kemur aftur.

Í himnaríki er pláss fyrir heilmörg eintök af einhleypum mönnum, lengi má stafla í kojur. Ég geri engar kröfur um greind, undirgefni nægir. Ég áskil mér líka allan rétt til að ráðstafa mönnunum til ógiftra vinkvenna, mömmu eða annarra skyldkvenna á öllum aldri. 

Hlýðnipróf verða haldin á Langasandi á morgun kl. 14-16. Mætið í sundskýlu, það verður flóð. 


mbl.is 52 stúlkur fluttar af búgarði sértrúarsöfnuðar í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei of illa farið með góðan dýrling ...

DýrlingurinnÉg hef alltaf verið svolítið veik fyrir sögum af dýrlingum. Einu sinni sendi Nanna vinkona mér hlekk á kaþólska vefsíðu þar sem mátti finna ALLT um dýrlinga. Á þessum tíma vann ég á Útvarpi Sögu, sem á þeim tíma var í eigu Fíns miðils og þar var bara leikin íslensk tónlist. Ég hóf hvern þátt á því að fjalla aðeins um verndardýrling dagsins. Allir eiga sér nefnilega verndardýrling, þjóðir, starfsstéttir og meira að segja piparsveinar sem eiga sér heila átján verndardýrlinga. Brúðir eiga fjórtán, slátrarar sjö, leigubílstjórar fjóra en strætóbílstjórar aðeins einn ... svo dæmi séu tekin.

Margir dýrlingar þurftu að ganga í gegnum hroðalegar pyntingar og voru líflátnir fyrir trú sína en aðrir komust í helgra manna tölu vegna mannkosta sinna, góðverka og trúrækni svo fátt eitt sé nefnt. Ýmis kraftaverk hafa átt sér stað á helgum stöðum, t.d. við grafir dýrlinganna og nokkur slík gerðust í Skálholtskirkju við gröf Þorláks helga, verndardýrlings Íslands. Veikt fólk fékk bót meina sinna þar sem það stóð við gröf hans en Þorlákur helgi lést þann 23. desember og hefur sá dagur verið kenndur við hann síðan á 12. öld og kallast Þorláksmessa.

Saint ColumbaDagur heilags Lawrence er 10. ágúst. Hann lét lífið vegna trúar sinnar eins og svo margir dýrlingar. Hann var bundinn við tein og steiktur yfir eldi en lét sem ekkert væri. Hann sagði við ofsækjendur sína: „Þið getið snúið mér við núna, ég er orðinn gegnsteiktur á annarri hliðinni.“

Þeir sem eru t.d. að drepast undan tannhvassri tengdamömmu eða tengdapabba geta heitið á eftirtalda dýrlinga til að ástandið batni: Adelaide, Elísabetu af Ungverjalandi, Elísabetu Ann Seton, Godelieve, Helenu af Skofde, Jeanne de Chantal, Jeanne Marie de Mille, Ludmilu, Marguerite d´Youville, Michelinu og Pulcheriu.

Hægt er að heita á sex verndardýrlinga ef maður týnir hlutum. Þeir eru: Anne, Antoníus af Padua, Antoníus af Pavoni, Arnold, Phanurius og Vincent de Paul. Kaþólsk vinkona mín segir að það bregðist sjaldan, hluturinn kemur fljótlega í leitirnar.

Þrír verndardýrlingar vernda fólk sem þjáist af gallsteinum: Benedict, Drogo og Florentius af Strassburg.

stvalentineicon333Valentínusardagurinn, dagur elskenda, er kenndur við heilagan Valentínus. Engum ætti því að koma á óvart að finna Valentínus á þessum lista. Færri vita kannski um Dwynwen og Rafael, erkiengilinn sjálfan, sem eru einnig verndardýrlingar elskenda og ástarinnar.

Verndardýrlingar sem hægt er að ákalla gegn jarðskjálftum eru fjórir; Agatha, Emidius, Francis Borgia og Gregory Thaumatugus.

Heilög Apollonía er verndardýrlingur tannlækna. Hún var pyntuð af hópi Egypta sem drógu úr henni allar tennurnar, eina af annarri, því hún neitaði að skipta um trú.

Marteinn frá Tours er verndardýrlingur Frakklands, bindindismanna, drykkjumanna, betlara, fanga, vefara, klæðskera, hanska- og hattagerðarmanna, smala, klæðskera, fátæklinga, betlara, holdsveikisjúklinga, þeirra sem fá útbrot á líkamann og höggormsbit, skeifnasmiða, ferðamanna, hestamanna og riddara, hermanna, vopnasmiða, húsdýra, hesta og gæsa.

Heilagur Kristófer í húðflúriEligius er verndardýrlingur járnsmiða, leigubílstjóra, klukkugerðarmanna, gullsmiða, hesta, bensínafgreiðslumanna, veikra hesta, dýralækna, handverksmanna, skeifnasmiða, landbúnaðarverkamanna, logsuðumanna, myntsláttumanna,  námuverkamanna, úrsmiða, söðlasmiða og myntsafnara.

Kristófer (einnig kallaður Kitts eða Offero) er verndardýrlingur bogaskyttna, bílstjóra, piparsveina, strætisvagnabílstjóra, leigubílstjóra og annarra sem vinna við að flytja fólk, ávaxtakaupmanna, vörubílstjóra, sjóliða, burðarkarla, tannpínusjúklinga, heilags dauða, skyndilegs dauða og þeirra sem vinna við að flytja fólk.

Zita er verndardýrlingur gegn því að týna lyklum, ráðsmanna, ráðskvenna, vinnuhjúa, þerna, fórnarlamba nauðgana, þjóna og þjónustustúlkna, týndra lykla og fólks sem er gert grín að vegna trúar sinnar. Gæti verið að sumir Moggabloggarar tauti nafnið Zita fyrir munni sér stundum.

Patrik er verndardýrlingur þeirra sem óttast snáka og Fiard passar okkur sem erum hrædd við geitunga.

Varð bara að deila þessu með ykkur þótt ég sé ekki kaþólsk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 274
  • Sl. sólarhring: 435
  • Sl. viku: 2067
  • Frá upphafi: 1461050

Annað

  • Innlit í dag: 244
  • Innlit sl. viku: 1701
  • Gestir í dag: 242
  • IP-tölur í dag: 239

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Jörgen Klopp
  • Opið hús kl. 17
  • Dýrheimar kaffihús

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband