Færsluflokkur: Lífstíll

Lævíslegt plott spákvenna og sjónvarpsfólks

SpákonaA 2nd Chance for 7th Heaven Will be Here on June 26th hjá þér, kæra Gurri, ef þú aðeins kaupir eitthvað dótarí af okkur. Svona hljóðaði pósturinn sem ég opnaði áðan. Þetta minnir mig á spákonuna sem ég heimsótti í New York fyrir rúmum tíu árum. Eins og ég hef áður sagt frá virðist vera hægt að lesa mikla heimsku út úr svip mínum og í gegnum tíðina hefur mikið verið reynt að frelsa mig á allan hátt. New YorkSpákonan í New York las mig þannig að ég væri hentugt fórnarlamb fyrir lævíslegt plott hennar. Ég var á skólaferðalagi og við vorum nokkrar staddar í Greenwich Village þar sem við sáum auglýsingaskilti í glugga. Konan bauð upp á lófalestur og tatorspil. Við ákváðum að skella okkur í spá til hennar í algjöru gríni. Þær sem voru hjá mér fengu eðlilega spá en það dimmdi yfir svip spákonunnar þegar hún las í spilin mín. Ég kann á tarotspil og veit að engan hrylling var þar að finna. Hún bullaði eitthvað sem ég man ekki hvað var og bætti svo áhyggjum sínum inn í lesturinn. Áhyggjum af framtíð minni. Eftir spádóminn rétti hún mér nafnspjaldið sitt og bað mig um að hringja í sig þegar ég væri komin til Íslands aftur. Ég ætlaði ekki að gera það en ein skólasystir mín manaði mig til þess og ég var líka pínu spennt yfir erindinu. Spákonan sagði að ef líf mitt ætti ekki verða táradalur þyrfti ég að senda henni fullt af peningum, í kringum 200.000 krónur að mig minnir. Hún ætlaði að láta nokkrar nornir gala seið yfir kristallssteinum, senda mér þá, ég ætti að hugleiða yfir þeim og síðan senda henni þá til baka þar sem nornirnar myndu ljúka verkinu.
Ég var móðguð yfir því að að konan héldi virkilega að ég félli fyrir þessu en gat svo sem sjálfri mér um kennt. Eins og þegar Guðsbörnin héldu að þau gætu frelsað mig inn í söfnuð sinn, söfnuðinn sem í útlöndum var víst mikið fyrir kynlíf með börnum samkvæmt heimildamynd um Guðsbörnin sem ég skrifaði um nýlega. En hva ... alltaf gaman að komast að því hvað lífið getur verið fjölbreytilegt. Algjör óþarfi þó að falla í allar gildrurnar.

TravelerÍ vinnunni á föstudaginn var verið að tala um sjónvarpsþætti og samstarfsmaður minn ráðlagði okkur að fylgjast ekki með Traveler-spennuþáttunum á Stöð 2 þar sem framleiðslu var hætt á þeim í miðjum klíðum ... af því að ekki nógu margar milljónir fylgdust með honum í Bandaríkjunum. Ef þetta er rétt þá skil ég ekki hvers vegna þættirnir voru keyptir til landsins, þetta lá víst fyrir við kaupin og hefur gert í ár, að sögn samstarfsmannsins. En líklega er aldrei of illa farið með sumar-sjónvarpsáhorfendur. Fólk á að vera í ferðalögum á þessum árstíma eða úti í kvöldsólinni. Svona eins og á gamlárskvöld þegar endursýndar bíómyndir eru á dagskrá eftir miðnætti fyrst hvort eð er ALLIR eru úti á djamminu.


Kröfur til karla á hverju aldursskeiði ...

Boldið rúllar í endursýningu í sjónvarpinu og ég sá loks fangann, konuna sem dæmd var til langrar fangelsisvistar fyrir að keyra full og valda dauða. Hún leit hroðalega illa út, hárið allt ruglað og svona en varirnar voru þó bólgnar og sexí. Frábært að hafa lýtalækna í fangelsum í Bandaríkjunum, vantar bara almennilega hárgreiðslustofu. Þarf flýta mér að slökkva á sjónvarpinu áður en Nick fer að syngja.

Ég ætla að njóta þess að vera í síðasta fríinu mínu áður en ég verð ábyrg og fullorðin núna í ágúst. Ætti kannski að reyna að ná mér í mann á meðan ég hef einhverjar kröfur.

Fann gamlan lista sem skýrir þetta betur. Hann segir til um þær væntingar og vonir sem við stelpurnar höfum til strákanna á mismunandi aldursskeiðum. Kröfurnar minnka eðlilega með árunum. En hér kemur þetta, fyrst kemur upprunalegi listinn og síðan endurskoðaðir listar á tíu ára fresti:

BrúðkaupUpprunalegur listi, 20 ára

Mjög myndarlegur.

Spennandi.

Alltaf klæddur samkvæmt nýjustu tísku.

Þekktur eða á þekkta foreldra.

Á flottan bíl.

Rómantískur.

Fer létt með að segja góða brandara.

Bráðgáfaður.

Er í arðbæru námi eða stefnir á það.

Býður stundum út að borða.

 

Endurskoðaður listi, 30 ára

Myndarlegur.

Heillandi.

Vel stæður

Umhyggjusamur hlustandi.

Fyndinn.

Í góðu líkamlegu formi.

Smekklega klæddur.

Kann gott að meta.

Hugulsamur og kemur á óvart.

Hugmyndaríkur og rómantískur elskhugi.

 

Endurskoðaður listi, 40 ára

Myndarlegur, helst með hár á höfðinu.

Opnar bíldyr.

Á nóg af peningum til að bjóða upp á góðan kvöldverð.

Hlustar meira en hann talar.

Hlær að bröndurunum þínum

Getur auðveldlega haldið á innkaupapokum.

Á að minnsta kosti eitt bindi.

Kann að meta góðan, heimatilbúinn mat.

Man afmælisdaga og brúðkaupsafmæli.

Er rómantískur minnst einu sinni í viku.

 

Endurskoðaður listi, 50 ára

Ekki of ljótur en má vera sköllóttur.

Ekur ekki af stað fyrr en þú ert komin upp í bílinn.

Er í föstu starfi og splæsir stundum í pylsu.

Kinkar kolli þegar þú talar.

Getur yfirleitt sagt brandara án þess að gleyma aðalatriði hans.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulagi til að geta fært til húsgögn.

Gengur í skyrtum sem hylja ístruna.

Veit að það á ekki að kaupa kampavínsflösku með skrúfuðum tappa.

Man eftir að setja klósettsetuna niður.

Rakar sig yfirleitt um helgar.

 

Endurskoðaður listi, 60 ára

Snyrtir nasahárin og hárin í eyrunum á sér.

Ropar hvorki né klórar sér á almannafæri.

Fær ekki of oft lánaða peninga hjá þér.

Sofnar ekki á meðan þú rausar yfir honum.

Segir ekki sama brandarann of oft.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulegi til að komast upp úr sófanum um helgar.

Er yfirleitt í íþróttasokkum og hreinum nærfötum.

Kann að meta góðan örbylgjumat yfir sjónvarpinu.

Man yfirleitt alltaf nafnið þitt.

Rakar sig stundum um helgar.

 

Endurskoðaður listi, 70 ára

Hræðir ekki lítil börn.

Man hvar baðherbergið er.

Þarfnast ekki mikilla peninga til framfærslu.

Hrýtur lágt í vöku en hátt þegar hann sefur.

Man hvers vegna hann er að hlæja.

Er í nógu góðu líkamlegu ásigkomulagi til að geta staðið upp hjálparlaust.

Er venjulega í fötum.

BrúðkaupVill helst mat sem ekki þarf að tyggja.

Man hvar hann skildi tennurnar eftir.

Man að það er helgi.

 

Endurskoðaður listi, 80 ára

Andar.


Tengdamamma frá helvíti, stjórnsamir vinir og morðóðar fyrrverandi!

Hingað til hefur hið mikla álag og þær gífurlegu hremmingar sem ungar konur þurfa að þola, sumar jafnvel fram á áttræðissaldur, legið í þagnargildi. Fyrir eitthvert kraftaverk tekst þeim flestum að komast klakklaust í gegnum þetta víti sem margir kalla bestu ár konunnar. Hahahahaha!!!

Svo grönnÚtlitskúgun
Til að sleppa við samúð og/eða fyrirlitningu samborgara þinna þarftu að vera GRÖNN. Þér ber engin skylda til að vera gáfuð, góð, snjöll eða skemmtileg, bara GRÖNN. Ef þú ert GRÖNN færðu afgreiðslu í tískuvöruverslunum, kemst í betri vinnu og eignast fleiri kærasta.

DrekinnLaunamisrétti
Við kennum þeim starfið og áður en við vitum af eru þeir komnir með helmingi hærri laun en við.

Þeir verða yfirmenn okkar og reka okkur síðan til að rýma til fyrir ungum frænda sínum!

 

Brooke, Bridget og DeaconMamma
Mömmur líta á dætur sínar sem keppinauta um hylli karla og daðra óspart við kærastana þína. Mamma þín er ómeðvitað að hefna sín á þér síðan þú varst þriggja ára og ástfangin af pabba þínum. Snúðu taflinu þér í hag og notaðu mömmu þína sem tæki til að prófa strákana. Þeir sem ekki falla fyrir henni komast áfram á næsta stig. 

TengdamammaTengdamamma
Þessar elskur kunna milljón aðferðir við að niðurlægja þig og gagnrýna án þess að nokkur annar verði var við það, síst af öllu sonurinn!

Þú munt örugglega ekki verða svona slæm tengdamóðir þótt þú vitir fullvel að engin kona verði nokkurn tíma nógu góð fyrir son þinn.

 

VinirnirVinir þínir
Vinir þínir eru tilætlunarsamir, lævísir, eigingjarnir og stjórnsamir. Þeir eru afbrýðisamir út í manninn því að nú þarftu ekki lengur á þeim að halda. Þeir reyna hvað þeir geta til að skemma sambandið, aðallega til að þú haldir áfram með víðfrægu, erótísku Evróvisjónpartíin þín fyrir einhleypa.

Vinir hansVinir hans
Þarna leynist hreinræktað hatur! Þú ert vond kona sem sér til þess að hann hætti karlmannlegum lífsstíl sínum; fótbolta- og formúluglápi, jeppaferðum og bjórdrykkju. Þetta eru soddan fávitar, þeir ættu bara að vita að þú missir ekki af West Ham-leik, ert margfaldur sigurvegari í drykkjukeppni Vitabars, heiðursfélagi í Jeppaklúbbnum 4x4 og hefur veitt lax undanfarin sumur með Michael Schumacher (sem beitu). 

Fyrrverandi hansFyrrverandi hans
Fyrrverandi kærustum finnst nálgunarbann vera ögrandi svo að þú þarft að taka til þinna ráða: 

1. Láttu tékka daglega á bremsunum í bílnum þínum eða skoðaðu ökuskírteini og starfsleyfi strætóbílstjórans þíns kvölds og morgna. 

2. Hafðu alltaf dregið fyrir þegar þú ert heima.

3. Fáðu þér grimman varðhund, ógnvekjandi fuglahræðuvélmenni við alla innganga heimilis þíns eða tengdamömmu í forstofuherbergið.

4. Plantaðu nokkrum jarðsprengjum í bakgarðinn til öryggis ef henni tækist að komast yfir rafmagnsgaddavírsgirðinguna.


Fyrrverandi �innFyrrverandi þinn
Halldór VEIT fullvel að þið eruð EKKI hætt saman, þú ert bara að ganga í gegnum erfitt tímabil. Halldór trúir því staðfastlega að þið giftið ykkur fyrr eða síðar og finnst það ekki skipta máli að þú giftist Gumma þínum fyrir fimmtán árum ... eða fimm árum eftir að þú hættir með honum sjálfum.

 

(Birtist sem grein í Vikunni fyrir nokkrum árum. Á enn fullt erindi til ungra kvenna) 


Kremja, höfnun, ótíðindi + óvænt gleði&frábærar fréttir

Plássleysi fyrir flotta fæturStrætóferðin var svolítið sjokkerandi í morgun, höfnun, kremja, vondar fréttir af sumaráætlun ... Harpa harðneitaði mér um að setjast hjá henni þegar 25 krakkar úr Grundaskóla komu inn við íþrótthúsið. Hún vildi frekar fá vinkonu sína, var búin að veifa henni og vinkonan að koma inn í vagninn, alsæl yfir að hitta Hörpu. Ég gat því miður ekki velt mér upp úr því, Hafði ekki tekið eftir vinkonunni og gerði mig að fífli þegar ég bauð henni félagsskap minn. Ég settist fyrir aftan meinleysislega, svolítið góðlega konu en nú veit ég að útlit segir ekki rassgat! Þessi sakleysislega, næstum góðlega kona gerði sér lítið fyrir og  hallað sætisbakinu aftur. Mér brá svo mikið þegar hnén krömdust að ég öskraði upp yfir mig, kvenlega þó og ekki mjög hátt. Sein í vinnunaSvona er að vera vaxin eins og fyrirsæta, eða með langar lappir. Hnén eru enn í hálfgerðri kássu eftir óhappið 2006 þegar ég datt á ógæfumölinni, sneri mig á vinstra og gataði það hægra (9 spor). Konan leit grimmdarlega á mig og setti sætisbakið upp aftur. Ég reyndi að segja henni að þetta væri allt í lagi, ég gæti setið útglennt alla leiðina í bæinn en hún svaraði mér ekki. Ég var viss um að ég hefði eignast óvin. Á Kjalarnesi kom kona inn í vagninn, settist brosandi hjá "óvinkonu" minni og ég heyrði mér til léttis að þær töluðu útlensku. Ekkert hatur í gangi, bara smá málleysi.

Aðalsjokkið var svo eftir: Nágrannakona mín sagði mér að ferð strætisvagns númer 15 sem við tökum alltaf í Mosó, verði lögð niður í sumar og að við þyrfum að bíða í 20 mínútur eftir þeim næsta! Þá verða allir of seinir í vinnuna sína og ég missti af leið 18 og þyrfti að bíða í 20 mínútur í Ártúni líka. Ef þetta er rétt og óbreytanlegt þá verð ég að leita að einhverjum Skagamanni sem fer í bæinn á bíl, ég nenni þessu ekki. Skrýtið að Strætó bs miði ekki við vinsælustu leiðina sína (27 Akranes) og finnist í lagi að láta 40 manns (eins og í morgun) bíða svona lengi og verða of seina í vinnuna.  

Hermann HreiðarssonÍþróttaþýðandinn hugumstóri svaf í leið 18 þegar ég kom inn. Aðeins tveir Indverjar voru í vagninum að þessu sinni. Ég vakti þýðandann á leiðarenda en syfja hans var vegna nokkurra sænskra stelpna sem höfðu gist heima hjá honum undanfarið og vöktu hann svo fyrir kl. 6 í morgun. Ég kvartaði yfir sumaráætlun strætó við hann og dagurinn byrjaði að skána. Ég lét það ekki ergja mig þótt sölumannskvikindi gærkvöldsins hefði lækkað stólinn minn niður á gólf og gert bakið laust. Nei, þetta verður góður dagur, hughreysti ég sjálfa mig. Ég tala bara við strætó, Gurrí mín, og segi þeim að ef þessi ferð leiðar 15 verði lögð niður þá muni allir Skagamenn verða of seinir í vinnuna sína, þeir hljóta að breyta því. Þeir eru svo góðir. Og fallegir. Já, og líta einstaklega vel út í dag. Þarna var ég komin í gírinn.  

Viggó krúttÞegar ég var að tékka póstinn minn sá ég eitthvað gullfallegt koma inn á sjónarsviðið, eða sjálfan Hermann Hreiðarsson. Ekki nóg með þetta ... Jói dreifingarstjóri fór á Kaffi París með frúnni sinni í gærkvöldi og hún sat næstum því í fanginu á Viggo Mortensen leikara, bara fréttin af þessu gladdi mig, enda fannst mér Viggó ákaflega huggulegur í Lord of the Rings-myndunum.

Samstarfskonur mínar hakka nú í sig harðfisk þannig að viðkvæmt morgunofurlyktnæmi mitt er í hálfgerðu sjokki. Ilmvatn (rakspíri) er stranglega bannað í kirkjukórum en lögin ná ekki yfir harðfiskát á vinnustöðum. Ég ætti kannski að sníkja bita af þeim, þá verður lyktin léttbærari. 

Maður dagins er þó sá sem dúllaði sér á skurðgröfunni í Ártúnsbrekkunni á leið til Reykjavíkur. Löggan stoppaði hann, líklega fyrir of hægan akstur á annatíma. Skyldi hann hafa rifið kjaft við lögguna, eins og ungi maðurinn í 10/11, eða kunni hann mannasiði?

P.s. Viðbót til varnar strætó. Kíkti á sumaráætlunina og sé ekki betur en að við náum leið 15 á sama tíma og venjulega í Mosó. Mikið er ég ánægð með það. Hitt hefði ekki staðist, nema hugsunarhátturinn sé orðinn: Aldrei of illa farið með góða Skagamenn. Nýjasta eineltið: Gurrí, er það rétt að það sé búið að stofna fámenningarhús á Skaganum? Hehehe


Hver skipuleggur eiginlega konunglegt brúðkaup á Evróvisjóndegi?

Royal weddingEf ég væri Jóakim prins væri ég ansi fúl út í dönsku hirðina. Hver skipuleggur eiginlega konunglegt brúðkaup á Evróvisjóndegi? Alveg er ég viss um að brúðarmeyjan unga hefur harðneitað að taka þátt í þessum mistökum. Brúðkaupið hefur algjörlega í skuggann af keppninni þegar fólk um allan heim keppist við að undirbúa hátíðina. Matar- og kökuilmur berst nú frá hverju húsi og yfirgnæfir hreingerningalyktina. Hátíðin gengur í garð kl. 19 og þá hafa prúðbúnir Íslendingar í hátíðarskapi sest fyrir framan sjónvörpin sín, nema þeir sem eru auðvitað á síðustu stundu með allt. Mikið vona ég að áfengisdrykkja setji ekki svip sinn á hátíðina eins og stundum áður. Mér finnst þetta of heilagur dagur til að hafa áfengi um hönd. Við þurfum líka að vera með vel á hreinu hvaða lönd gefa okkur stig upp á að geta ákveðið hvert á að fara í sumarfríinu. Kannski það eina góða við brúðkaupið á þessum degi er að ef Ólafur og Dorrit eru þarna þá geta þau hringt úr veislunni og gefið Íslandi atkvæði sín.

Skrúfjárn örlagannaÞegar ég kom heim í gær lá erfðaprinsinn í svarta sófanum og hélt blíðlega utan um ... skrúfjárn. Ég argaði upp yfir mig, enda langar mig í alvörutengdadóttur. „Þetta er skrúfjárnið sem kom uppþvottavélinni í lag,“ útskýrði hann. „Ég hringdi í Smith og Norland og spurði út í bilunina (ekki hægt að loka vélinni) og þeir sögðu að ég gæti auðveldlega lagað þetta með skrúfjárni,“ sagði hann himinglaður og kossunum rigndi yfir skrúfjárnið. „Eins gott að ég var ekki búinn að vaska allt upp úr þvottavélinni.“ Skipting heimilisverka í himnaríki er einföld. Erfðaprinsinn gerir allt! Ég tilkynnti honum þegar hann var 27 ára að síðustu 2027 árin hefðu konur séð um heimilisverk. Næstu 2027 árin væri komið að körlunum. Það yrði mér sönn ánægja að taka við þeim aftur þá. Hann er í þessum skrifuðum orðum að bóna ... húsþakið.


mbl.is Brúðarmeyjan mætir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nuddbaðbomba, tvöföld heimsókn og eldhúsraunir ...

bathbombsÉg fékk gefins fallegan stauk nýlega sem inniheldur litlar baðbombur. Samkvæmt leiðbeiningum áttu þær að leysast upp með þvílíkum látum að baðþeginn fengi létt nudd í leiðinni. Ég settist í baðið, kom bombunni fyrir undir bakinu og beið rosaspennt. Kannski misskildi ég eitthvað en það eru meiri læti í svona c-vítamín uppleysanlegum pillum en þessum bombum sem ilmuðu þó vel. Mér leið eins og þegar ég reyndi í æsku minni að orsaka öldur í baðvaskinum með salti en án árangurs.

KakaFyrr í dag komu systurnar hugumstóru, Steingerður og Svava, í heimsókn með fullt fangið af tertum, eða tvær gómsætar. Í mínum huga eru þær einu sönnu vorboðarnir, enda duglegar að kíkja í heimsókn á sumrin. Freyja voffi var geymd úti í bíl vegna kattanna en Steingerður fór þó út um miðbik heimsóknar og leyfði henni að hlaupa á sandinum og fara í sjóinn. Aldrei of vel farið með góðan hund. Frábær heimsókn.

Brim � veturNokkrir hraustir Skagakrakkar nota nú hvert tækifæri til sjóbaða, á fjöru jafnt sem flóði. Sjórinn er mjög fallegur núna þótt ég sakni vetrarbrimsins (sjá mynd) ... en í réttri vindátt og smároki gæti nú alveg komið flott sumarbrim. Það var notalegt að hlusta á hlátur þeirra og önnur sumarleg umhverfishljóð þar sem ég sat við tölvuna.

B�flugaEitthvað truflaði mig þó í sælunni og það var ekki fyrr en skugga bar við sólu og almyrkt varð í vinnuherberginu eitt augnablik að ég áttaði mig á því hvað suðið táknaði. Þetta var býflugnadrottning. Í kjánaskap mínum hafði ég talið þetta vera hljóð í sláttuvél! Ósjálfráð viðbrögð voru gæsahúð og hrollur sem þeyttu mér upp úr stólnum og á fimmföldum ljóshraða tókst mér að loka glugganum áður en hlussunni hafði einu sinni dottið sá möguleiki í hug að troða sér inn um gluggann. Eins og Michael Schumacher orðar það: „Einbeitingin skiptir öllu.“ Eða eins og Magnús Geir orðar það: „Það er bara ein drottning í himnaríki.“

Uppvask„Kæra móðir,“ sagði erfðaprinsinn, eftir að hafa hrósað mér fyrir dáðina. „Ég held að uppþvottavélin sé biluð sem er hræðilegt þar sem ég vil ekki missa helsta aðstoðarmann minn í eldhúsinu.“ Ég benti honum hæðnislega á að á ungdómsárum mínum hefðum við nú þurft að þvo allt leirtau úti í læk. Þá hefðu engar fínar sápur verið til og við hefðum notað kúahland til að láta askana gljá. Hann hljóp öskrandi af aðdáun út áður en ég gat sagt honum fleiri sögur úr æsku minni.


Mistök í skóbúð og býfuglar í heimsókn

Vinna vinna vinnaStundum þegar ég er í biluðu vinnustuði heima á þriðjudögum þá langar mig mest til að afpanta tímann í sjúkraþjálfun og halda áfram vinnunni. Sem betur fer hef ég aldrei fallið í þá freistni, það er nefnilega fínt að skera aðeins sundur daginn, ég sit mun meira við hér heima en í vinnunni, þar stendur maður þó upp annað slagið; sækja kaffi, sódavatn, fara í mat, sækja úr prentaranum og svona, en hér heima líða kannski klukkutímar á milli.

skechersÁkvað að fá mér holla og góða súpu á Skrúðgarðinum eftir sjúkró og hitti aðeins Ástu mína, sem ég sé örsjaldan. Gæti breyst með haustinu þegar hún fer að vinna aftur. „Sjáðu fínu, nýju skóna mína!“ sagði ég grobbin. „Nú verður gaman að fara í gönguferðir,“ bætti ég við enn grobbnari. „Keyptir þú þá hjá Nínu?“ spurði Ásta. Ég sagði svo vera og þá sagði Ásta: „Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að þetta eru unglingaskór?“ „Votttt?“ argaði ég upp yfir mig, „loksins þegar ég dríf í að kaupa skó þá gleymi ég að biðja um kerlingaskó, hvað er að mér?“ Við erfðaprins eftir nokkur árÁsta reyndi að hughreysta mig og sagði að ég væri bara svona ung í anda. Ég veit að hún meinti óþroskuð en hún er allt of vel upp alin til að segja slíkt. Þegar ég klagaði í erfðaprinsinn þegar hann sótti mig varð hann sótrauður af bræði og sagði að þetta væru bara venjulegir svartir Skechers- íþróttaskór, meira að segja þrælflottir (sem sannar kannski orð Ástu). Hann passar sko upp á móður sína og er einstaklega langrækinn fyrir hennar hönd. Ásta á von á góðu þegar hún kemur næst í heimsókn ... Nei, djók, hann er ekki alveg svona slæmur og veit að ég var að grínast þegar ég klagaði Ástu. Maður er sko passaður hér í himnaríki. Ef birtist t.d. sölumaður stendur hann við hlið mér, grimmdarlegur á svip, og gætir þess að vonda fólkið plati mig ekki. Ég þarf alltaf að kasta bolta eða súkkulaðistykki inn í stofu til að losna við hann svo ég geti fengið kaupfíkn minni svalað.

Við EllýÁ leið í Skrúðgarðinn kallaði Ellý til mín en hún var að gera fínt á veröndinni hjá sér. Hún býr mitt á milli sjúkraþjálfunarinnar og Skrúðgarðsins. Ég kíkti eitt augnablik inn í húsið hennar, langt síðan ég hef komið, og það er geðveikislega, klikkaðislega flott. Hún kann listina við að búa til mikið úr litlu og getur t.d. látið hræódýra hluti úr Rúmfatalagernum líta út fyrir að hafa verið keyptir í Habitat ...

B�flugaBýfugladrottning sveimar fyrir utan himnaríki núna og reynir að komast inn svo að hún geti gert sér bú hérna og búið til milljón aðra býfugla. Mér finnst þessi kvikindi voða krúttleg ... í teiknimyndum. Erling skordýrafræðingur sagði mér einu sinni að ef ég vildi losna við sambýli með geitungum og býflugum ætti ég að búa við sjóinn. Nú, ég gerði það nokkrum árum síðar, flúði fokkings trén og blómin en allt kemur fyrir ekki. Fengu sumir skordýrafræðingar prófskírteini á kornflakespakka?

Beiskja dagsins var í boði frú Guðríðar ...


Hefnd erfðaprinsins, hlekkjalómar og mögulegt skúbb ...

Hundur og k�tturErfðaprinsinn náði fram góðum hefndum í dag. Hann kommentaði undir mínu nafni, alveg óvart, og gerði mér upp skoðanir sem ég hef sannarlega ekki, langt því frá. Ég fór á ákveðna bloggsíðu og fékk hjartslátt þegar ég sá hvað var þar undir mínu nafni. Erfðaprinsinn flýtti sér reyndar að leiðrétta þessi ósköp en við erum sannarlega ekki á sömu skoðun í öllum málum, því miður. Samt er aldrei rifist í himnaríki. Einu sinni hafði hann verið í tölvunni minni og var enn innskráður þegar ég kommentaði einhverjum krúttlegheitum inn á síðu Jennýjar Önnu ... á nafni hans. Staðan er því 1:1 og ég vona að fleiri mörk verði ekki skoruð. Prinsinn hafði leitað hælis inni í vinnuherberginu mínu í dag, tölvan hans í stofunni, þegar vinkona mín kom í heimsókn með hund í bandi. Það þurfti að bjarga Tomma þangað inn þótt hann langaði svo mikið til að skoða þennan meinlausa voffa sem dillaði skottinu ákaft, afar lítið ógnandi. Kubbur var í klessu með hjartslátt á bak við svarta sófann að vanda.

Sado masoHalldór frændi fann upp nýyrði yfir BDSM-fólk, hann kallar það HLEKKJAlóma, finnst það snilld. Hann talaði um fjálglega um hlekkjalóma í þætti þeirra Sverris Stormskers, Miðjunni, sl. miðvikudag á Útvarpi Sögu. Skemmtilegur þáttur!!!

Ég sá sadó-masó mynd einu sinni en það tilheyrði námskeiði sem ég var á í HÍ en það hét Ofbeldi og klám I. Skemmtilegt og áhugavert námskeið. Ég horfði því miður á aðra klámmynd áður en ég skrifaði ritgerðina, mynd sem ég hafði reddað mér á leigu í Bónusvídeói við Sólvallagötu, rauð í framan og vandræðaleg. Strákurinn í leigunni sá aumur á mér og fann voða meinlausa dónamynd þar sem allir skemmtu sér konunglega í rassaköstum sínum. Held að kennarinn hafi orðið hissa þegar ég komst að þeirri niðurstöðu í ritgerðinni að ég sæi fátt sameiginlegt með klámi og ofbeldi ... ekki það að við ættum að finna það út, nei, allt var lagt upp úr sjálfstæðri hugsun. Var búin að sjá upphafið á sadó-masó myndinni og fannst hún svo hallærisleg, einhver ljótur maður sem sletti letilega svipu á bak ungrar stelpu ... og ég slökkti, nennti ekki að horfa. Svo ákvað ég, eingöngu af nýtni minni, að klára áður en ég skilaði henni til þess sem hafði lánað mér hana, og kræst, þvílíkur hryllingur. Stelpugreyið í henni var greinilega bara að vinna sér inn pening fyrir dópi og áður en ég slökkti var ég komin með tár í augun af samúð með henni. Hún var svo greinilega ekki masó ...

Ég dæmi ekki fólk sem fílar slíkt, það hefur alveg rétt á því, nema kannski það fólk sem neyðir annað fólk út í þetta, eins og sumir menn með hatt á höfði, svipu í annarri og biblíuna í hinni. Ég nefni engin nöfn en frétti að hann hefði verið barinn í gær. Svo frétti ég að einn ráðherrann okkar væri að skilja og fleira og fleira ... Stundum heyri ég ekkert í lengri tíma og svo fæ ég eintóm skúbb beint í æð.


Mæðradagur, pókerfés og elsku bestu sumarbúðirnar

PokerTil hamingju með mæðradaginn,“ sagði erfðaprinsinn og brosti sætt. „Hmrpr... hvar er gjöfin?“ svaraði ég beisk. Þegar erfðaprinsinn fékk að fara á námskeið í Heimspekiskólanum í fornöld lærði hann bæði að rífa kjaft á kurteislegan hátt og svara fyrir sig af lamandi lymsku. „Ég er að spara fyrir rándýrri afmælisgjöf handa þér, móðir góð,“ sagði hann með pókerfés á andlitinu. Og ég lamaðist af lymskunni, hehehehehe.

Talandi um pókerfés. Eitt kvöldið um helgi sat ég við tölvuna og beið eftir þætti á SkjáEinum sem ég ætlaði að horfa á undir svefninn, einhverja kærkomna endursýninguna á uppáhalds-einhverju. Í tækinu mallaði pókerþáttur og þótt sjónvarpið væri lágt stillt heyrði ég hvað var í gangi. Ég hló upphátt þegar annar þulurinn endurtók í sífellu að hann væri að fara út að borða með einum keppandanum og líka þegar keppendur settu upp enn meiri fýlusvip yfir því að einn þeirra, sem vann pottinn, lyfti annarri augnabrúninni í fögnuði sínum ... því að þessir gaurar hafa andstyggð á því þegar einhver hreykir sér yfir sigri. Þetta er jafnvel betra skemmtiefni en á annarri góðri sjónvarpsstöð. Dæmi: Erlendi predikarinn: „Jesus was a scapegoat.“ (blóraböggull). Íslenski þýðandinn: „Jesús var geit.“

Afm�lisbarnFlugdrekagerðTalandi um Jesú ... nú hefur allt verið vitlaust í bloggheimum yfir því að kennari fyrir austan neitaði að eyða dýrmætum kennslutíma í að dreifa bæklingi um kristilegar sumarbúðir. Hildu systur, sem rekur Sumarbúðirnar Ævintýraland, datt þetta einu sinni í hug og fékk leyfi til að senda bæklinga um sumarbúðirnar í skólana. Það skilaði sér ákaflega vel en nokkrir skólastjórar voru þó tregir til og neituðu þessu. Síðan hefur hún bara sent bæklingana með Íslandspósti og borgað fyrir ... og engan smápening. Mér finnst það rétt hjá henni, kennarar eiga ekki að vera í hlutverki bréfbera, hver kennslustund er mikilvæg. Þar fyrir utan fá kristilegar sumarbúðir (veit ekki með þessa fyrir austan) háa styrki frá bæði ríki og borg og einnig Inga Lára og nokkrir krakkarLeikritfjársterkum aðilum sem vilja styrkja barnastarf. Í fyrra fékk t.d. Vatnaskógur 50 milljónir í uppbyggingarstyrk. Vissulega er flott að styrkja barnastarf en mér hefur alltaf þótt ósanngjarnt að styrkja bara KFUM og skátana, þessa tvo af þremur stærstu sem eiga í samkeppni. Tek það fram að dúllurnar okkar í Vatnaskógi eru vinir okkar og það var mjög gaman að fá nokkra starfsmenn þaðan (í fríi) í heimsókn eitt árið. Þeir reyndu mikið að stela Sigurjónu matráðskonu og sundlauginni frá okkur ... og við reyndum að plata þá til að verða eftir og fara að vinna í Ævintýralandi, þeir voru svo yndislegir!!!  Eða þannig, allt í mestu vináttu. Frændi okkar Hildu var um tíma sumarbúðastjóri í Vatnaskógi og leitun er að vandaðri manni en honum.

MálverkasýningSigurjóna og vöfflur m súkkulaði og rjómaSkráning hefur verið mjög góð hjá Hildu minni og stutt í að fyllist. Sumarbúðirnar hennar eru óháðar í trúmálum og eina trúin sem boðið er upp á er að fá börnin til að trúa á sjálf sig í leik og starfi. Námskeiðin eru frábær; grímugerð, leiklist, myndlist, kvikmyndagerð, íþróttir, ævintýranámskeið og söngur/dans. Börnin semja handritin sjálf og skipa í hlutverk, t.d. í leiklist, grímugerð og kvikmyndagerð. Ég held samt að það sem hefur gert starfsemina svona farsæla sé frábært starfsfólk, sami grunnurinn ár eftir ár eftir ár. Sérstakir umsjónarmenn (fullorðnir) halda t.d. utan um c.a. 10 barna hóp hver og geta börnin leitað til hans/hennar allan tímann. Hann borðar t.d. með þeim morgunverð, heldur hádegisfund með þeim og les kvöldsögu fyrir þau. Í sumar koma aftur tveir gamlir umsjónarmenn sem hafa verið í læknisfræði í Ungverjalandi síðustu árin, það verður æðislegt að hitta þær aftur.

úlli í karaókíkeppninniMeiri v�fflurSvo er enginn sendur heim þótt hann fái ælupest (nema foreldrarnir heimti það), heldur fær viðkomandi að jafna sig og það tekur yfirleitt ekki nema hálfan dag. Einn fullorðinn á hver fimm börn er galdurinn, enda vill Barnaverndarstofa hafa það þannig. Þegar sumarbúðirnar voru á Hvanneyri veit ég að fólkið þar kveið fyrir að fá stóra barnahópa eins og engisprettufaraldur yfir svæðið en svo varð fólkið bara ekki vart við neitt. Börnin fá aldrei að valsa ein um, alltaf pössuð, meira að segja eru næturverðir allar nætur til að passa upp á krúttin. Það verður að vera mögnuð gæsla þegar um 100 börn eru samankomin og þótt þau væru miklu færri. 4 starfsmenn skemmtaSvo er gaman að segja frá því að börn með hegðunarerfiðleika hafa alltaf smollið inn í hópinn og skiptir ekki máli hvort er ofvirkni, einhverfa eða hvaðeina, og gengur alltaf rosalega vel með þau. Ég man eftir heyrnardaufum strák sem kom einu sinni og hann var svo glaður þegar hann gat tjáð sig við Þóru starfsmannastjóra og Heiðu umsjónarmann á táknmáli sem þær tala reiprennandi. Maturinn er líka hrikalega góður (ef maður er barn ... urrrr), ég var reyndar orðin ansi leið á grilluðum pylsum á laugardagskvöldum sl. sumar en krakkarnir alsælir.

ÆvintýraleikurSvo semur Hilda alltaf eitt leikrit á ári sem starfsfólkið leikur við mikinn fögnuð krakkanna en þótt það sé fyndið er alltaf mikið forvarnargildi í því. Einu sinni man ég eftir sálfræðingi sem sagði í sjónvarpinu að sama hversu vel börn væru vöruð við að fara aldrei með ókunnugu fólki ... þá þyrftu þau að geta sett sig inn í aðstæðurnar. Það var einmitt sýnt þegar maður, starfsmaður sjónvarpsþáttarins, sagði nokkrum börnum, sem höfðu verið vöruð við ókunnugum, að það væru sætir hvolpar í bílnum hjá honum ... og þau eltu öll. SundÉg sagði Hildu frá þessu og næsta leikrit fjallaði um þetta og voru börnin ótrúlega spennt þegar eitt barnið í leikritinu var næstum farið með hvolpamanninum, þau hrópuðu varnarorð og lifðu sig inn í þetta ... algjör snilld.

Úps, ég ætlaði ekki alveg að missa mig ... ég er bara svo hrifin af starfseminni þarna og allri uppbyggingu. Fer ekki ofan af því að þessar sumarbúðir séu með þeim bestu í heiminum. Þótt þær séu fjársveltar ... en ef allir sætu við sama borð og enginn fengi styrki þá ríkti meira réttlæti. (www.sumarbudir.is)


Að hafa rétt fyrir sér en samt svo rangt ...

SvefnHún var hálfbuguð fallega konan sem staulaðist rammskökk út úr himnaríki í morgun ... Búin að hnussa í tvær vikur yfir frænda sínum sem heimtaði að hún tæki náttúrulyfið melatónín* til reynslu. Og ég sem er svo hrædd við lyf. Frændinn, sem fer ekki ofan af því að frænkan sé að farast úr þunglyndi af því að hún gerir aldrei neitt skemmtilegt, bara lokar sig inni ... gerði þó ekki mikið úr meintu þunglyndi mínu í þetta skiptið, heldur sannfærði mig um að djúpur svefninn sem þetta veitti myndi verða til þess að ég hætti að fá í bakið. Ég leyfði góða frænda að gefa mér poka af melatónínpillum sem hann keypti í Ameríkunni og lofaði að taka þetta inn til reynslu í hálfan mánuð fyrst þetta væri algjörlega skaðlaust. Fyrstu tvær næturnar undir áhrifum dreymdi mig nokkuð mikið sem er sjaldgæft og þegar frændi frétti það þá gargaði hann sigri hrósandi: „Ég vissi það, ég vissi það!“ (að mig vantaði melatónín) ... en reyndar er ein aukaverkun sem ég hef ekki minnst á við hann, eða að ég vakna upp á hverri nóttu (sem ég geri aldrei) og er þá með einkennilega kvíðatilfinningu ... hætt að dreyma en bakið gott. 

Í morgunÍ gærkvöldi var kominn hálfur mánuður á þessum lyfjum ..., ég fór hrikalega seint að sofa, var grútsyfjuð og sofnaði fljótt. Ég hrökk ekkert upp í nótt ... en bakið var í klessu við vakn.

Held að ég sé búin að komast að því hvað er í gangi og frændi ekki jafnruglaður og ég hélt ... þetta er örugglega þunglynt bak! Þannig að frændi hefur haft rétt fyrir sér en samt svo rangt ... Ég hef aldrei átt erfitt með svefn og heldur aldrei verið þunglynd en greinilega hefur „grunnur“ nætursvefninn í nótt magnað upp bakverkina. Þorði ekki að taka íbúfen á fastandi maga en lagaðist helling í strætó á leiðinni, enda góð sæti í Gummabíl. Samt heimtar erfðaprinsinn að skutlast eftir mér í bæinn um miðjan dag, þessi elska. 

Í hádeginu verða grænmetisnúðlur eða lambakarrí í matinn ... vildi bara deila því með ykkur. Annað, íþróttaþáttaþýðandinn var ekki í strætó í morgun, enn einu sinni ... og ég þurfti að fara löngu leiðina því að kortið góða beið mín á skrifborðinu. Megi svo dagurinn ykkar vera tryllingslega, æðislega skemmtilegur.

* http://www.lyfja.is/HeilsaOgVellidan/Natturuvorur/Greinar/Melatonin/ 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 294
  • Sl. viku: 2347
  • Frá upphafi: 1457617

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1942
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Íslendingar í útlöndum
  • Titanic
  • Elsku Tommi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband