Færsluflokkur: Lífstíll

Talandi um frost ... og afmælið sem verður stranglega bannað börnum ...

Þeir hjá strætó (Akranesmegin) vita sannarlega hvað þeir eiga að gera til að vér farþegar fáum ekki leið á að ferðast með þeim. Vagnarnir eru kannski allir gulir á litinn en innréttingarnar eru fjölbreytilegar. Flottasta drossían kom og sótti okkur farþegana í morgun, vagninn með þriggja punkta öryggisbeltunum fremst, DVD, glæstum speglum og háum sætum sem bjarga manni frá sólinni.

SnjókarlBílstjórinn er alltaf í smá rabbstuði á meðan við dólum rólega út úr bænum (Akranesi) og hirðum upp síðustu hræðurnar. Hann spurði mig hvort það hefði ekki verið bongóblíða á svölunum mínum í gær. Ég sagðist forðast sólina eins og heitan eldinn eftir brunaævintýrið á dögunum ... og þá mundi hann eftir manni sem vann með honum í denn úti í Nígeríu, þar sem þeir sigldu með skreið, og voru allir hálfberir nema þessi maður, sem var hvekktur eftir sólbruna. Hann var víst ansi vel dúðaður .. vægast sagt, svona miðað við hitann sem var um 50 gráður ... bílstjórinn minn sagðist hafa verið að kafna. Næst voru þeir (áhöfnin?) sendir til Rússlands þar sem frostið var 36 gráður. Ansi mikill hitamunur og þessi skelfilega Rússlandsferð gerði bílstjórann minn að kuldaskræfu. Mér fannst hann bara fínn í lopapeysunni í morgun og sætur litur á flíspeysunni sem hann var í utanyfir. Loðhúfan var líka kúl.

Afmælistertan í fyrraNú er ágúst að skella á og ég ekki einu sinni búin að skrifa afmælisboðskort ... hvað þá ákveða það sem á að standa á tertunni. Síðustu árin hef ég sent SMS til fólks, eða jafnvel hringt og minnt það á ammlið. Halldór frændi hefur átt nokkrar góðar hugmyndir í sambandi við áritun á tertuna en hann vill helst að ég geri grín að háum aldri mínum (ég er ekki gömul) og jafnvel nísku (og ég er ekki nísk).

Fyrsta nískutertan misheppnaðist hrapallega og enginn skildi neitt í áletruninni, allt bakaranum að kenna. Það átti að standa HAPPY BIRTHDAY - QUEEN MOM, svo átti bakarinn að strika yfir Queen Mom og setja klaufalega Gurrí til hliðar.  Drottningarmóðir Bretlands átti nefnilega afmæli nokkrum dögum á undan mér). Ég átti síðan að segja við forvitna gestina að ég hafi fengið tertuna mjög ódýrt ... Bakarinn skrifaði á tertuna: Happy Birthday Queen .... og svo fyrir neðan happy kom Mom og strik yfir það og Gurrí. Mjög hallærislegt Enginn fattaði út á hvað þetta gekk, samt var ég búin að teikna upp fyrir bakarann hvernig þetta átti að líta út.

Hluti veislufangaHugmynd Halldórs að skipta kökunni með súkkulaðistrikum. Áletrað á 90% kökunnar ÞEIR SEM FÆRÐU GJAFIR og á 10% HINIR var líka ferlega fyndin. Tertan í fyrra vakti lukku en á henni stóð: Elsku Þrúða, láttu þér batna. Þeim í bakaríinu fannst þetta hrikalega fyndið, alla vega hressu stelpunni sem kemur alltaf með kökuna.

Nú er þriðja afmælið í himnaríki að fara að renna upp. Gott væri ef fólk færi að melda sig hvort það ætli að koma. Ég gerði ráð fyrir 50-70 manns í fyrra og það komu 60. Ef miða á við fertugsafmælið þá koma a.m.k. 100 manns núna ... það bætist við fólkið sem er ekki gráðugt í fermingarveislutertur um mitt sumar, heldur finnst það vera skylda sín að koma þar sem þetta er stórafmæli.. Svo koma yfirleitt fleiri þegar amlið er á virkum degi og það er á þriðjudegi núna.

Afmælið í fyrraÞað kom nokkur barnaskari í fyrra sem var bara gaman en eftir spjall við ráðgjafa mín, fasta afmælisgesti, foreldra, börn og kettina mína þá verður veislan í ár stranglega bönnuð börnum, eins og hún hefur í raun alltaf verið, foreldrum til mikillar gleði, alltaf gott að losna við þessa óþekktarorma og geta verið í friði og spjallað og daðrað um leið og brauðtertur, súkkulaðikökur og annað hnossgæti er innbyrt. Sumir foreldrar hafa svo sem verið lúmskir í gegnum tíðina, komið með börn sín, sagt þau rosalega stillt og látið síðan sem þeir hafi ekki heyrt öskrin í þeim: „SKERA SÚKKULAÐITERTU!“ „SKEINA“ „ÞETTA BROTNAÐI ALVEG ÓVART“ ÉG HENTI TOMMA ÚT UM GLUGGANN“ og svo framvegis.

Fyndnasta áletrunin hjá frænda var samt:                            Til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið,                  

Dofri Hvannberg - 10. ágúst 2002.

Vá, hvað fólkið hló eða öskraði upp yfir sig af viðbjóði þegar ég sagðist hafa fengið tertuna á tombóluverði, tveggja daga gamla. Sumir héldu að fallhlíf Dofra hefði ekki opnast, aðrir héldu að hann hefði hætt við ... mismunandi hræðilega þenkjandi fólk sem ég þekki. Jamm, best að hringja í Halldór og ræna nýjum hugmyndum frá honum!


mbl.is 29 gráður og sólskin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurbeltið í Háholti, gamalkunnur geitungur og smá bold

Í HáholtiNýi bílstjórinn mætti á vaktina í morgun, úthvíldur eftir gott frí. Hann kom okkur heilu og höldnu í Háholt í Mosó þar sem ríkti óvenjugott veður miðað við staðsetninguna. Háholtsveðurbeltið er öðruvísi en öll önnur veðurbelti og sækir kvikindisskap sinn alla leið til útlanda. Fárviðri og fellibyljir hamast í Ameríku, ná í sig enn meira afli í ítölsku Ölpunum, smeygja sér þaðan út á Atlantshaf, lauma sér inn í Faxaflóann og upp í Háholt í Mosó þar sem það deyr út eftir að hafa farið illa með Skagamenn sem þurfa að húka þar í fjórar mínútur í bið eftir leið 15. Vísindalega útreiknað!

Í Mosó sá ég ekki betur en litli geitungurinn, sem laumaði sér með okkur frá Kjalarnesi fyrir nokkrum vikum, hafi verið þar á sveimi. Hann hefur stækkað einhver ósköp og lagði karlmennina, kuldaskræfurnar í skýlinu, í einelti.

Við Vesturlandsveginn í morgunGuðný í vinnunni náði að grípa mig í Ártúni, rétt á undan leið 18, sem spældi örugglega DV-blaðamanninn sem hélt að hann yrði á undan mér í vinnuna. Hann fór út á Vesturlandsveginum og gekk upp Súkkulaðibrekkuna. Það var samt sárt að horfa á eftir unga fólkinu feta sig niður mjög háan kantinn og niður í hyldýpið út frá Vesturlandsveginum. Stelpan í hælaháu skónum fékk þó góðan stuðning frá vini/kærasta, annars hefði hún rúllað alla leið, eins og ég í fyrra. Ég mótmæli þessarri stoppistöð með því að nota hana ekki og mun ekki gera fyrr en það eru komnar tröppur þarna eða við fáum afhentar fallhlífar eða sigbúnað. Ungu krakkarnir halda þau að þau séu eilíf, ég þekki lífið betur og byltur þess ...

Dark KnightUm tíuleytið mætti viðtalsefnið mitt í hús, fékk förðun hjá Haffa og svo lögðum við öll í hann í Kópavoginn og hafði ljósmyndari bæst í hópinn. Ég ætla að fara að skrifa viðtalið, svona á meðan það er í fersku minni. Hætti frekar aðeins fyrr á morgun og fer á fjögursýningu á Dark Knight! Það er uppselt á allar seinni sýningar út árið, held ég. Alla vega næstu daga.

Talyor, Ridge, Nick og BrookeBrooke er í miklu uppnámi vegna svika Nicks (sem svaf hjá dóttur hennar, Bridgeti, sem er reyndar fyrri kona Nicks). Donna, systir Brooke, var næstum því búin að forfæra Ridge en þá kom Brooke grátandi þangað og fór beint í fangið á Ridge. Hann var ekki einu sinni búinn að þurrka varalit Donnu af vörum sér þegar hann kyssti Brooke ástríðufullt. Bridget bað mömmu sína um að sýna Nick miskunn og halda áfram að vera gifta honum, en Ridge mun án efa ekki sleppa Brooke svo auðveldlega. Stefanía er alsæl, enda vill hún að Ridge og Brooke verði saman. Ef hún bara vissi ... Donna beinir spjótum sínum nefnilega næst að eiginmanni Stefnaníu, Eric, sem hún hefði ekki gert ef hún hefði fengið Ridge.

Rick, sonur Brooke, og TaylorNú fer unga kynslóðin að koma inn. Það er t.d. ekki mjög langt í að Rick, bróðir Bridgetar og sonur Brooke, fari að deita Taylor, fyrri konu Ridge og mömmu Tómasar og tvíburanna. Held meira að segja að Taylor stingi undan öðrum tvíburanum sínum með Rick. Taylor hefur í mörg ár keppt við Brooke um ástir Ridge sem er í raun hálfbróðir Ricks nema þeir eru ekki blóðskyldir. Ridge er Massimo í raun og því hálfbróðir Nicks.


Rafmagnsleysi, bold og fyrri fegurðarþrá ...

Stuð í rafmagnslausu himnaríkiRafmagnið fór af hér á Skaganum í hálftíma í gærkvöldi. Þetta gerist ekki oft og kenni ég Önnu minni alfarið um þetta en hún hefði stýrt tölvunum í Orkuveitunni af öryggi í gær ef hún væri ekki í sumarfríi núna. Hvað gerir maður ekki í ofboði sínu þegar allt er hrifsað frá manni? Jú, ég fór að þvo spjarir á þvottabretti, strokka smjör, súrsa slátur og þess háttar og ég var ekki fyrr búin að búa mér til kaffi með hlóðabragði þegar rafmagnið kom á aftur. Erfðaprinsinn hafði þá handskorið ýmsa hluti og var að útbúa brúðuleikhús inni í sjónvarpstækinu. Hann er enn að reyna að púsla sjónvarpsinnvolsinu saman.

Fyrri fegurðHér í himnaríki hefur illa gengið að sofa út, hryllingsandlitið vekur eldsnemma og heimtar sitt krem! Lítið lát er á bólgu og kláða og langar mig mest að leggjast inn á spítala með íbúfen í æð ... Jamm, þetta var væl dagsins. Verst að við Mette-Marit erum ekki í sambandi, þá gæti ég spurt hana hvað bataferli hennar tók langan tíma þarna 2002. Ég veit auðvitað að hún myndi fara að væla um hornhimnubrunann sem hún fékk líka og gera lítið úr hinu. Doktor Sigríður sagði að það tæki fimmtudaginn og helgina að ná fyrri fegurð og nú er langt liðið á sunnudag, a.m.k. miðað við A-manneskju-fótaferðatímann þessa dagana.

Boldið er alltaf jafnspennandi. Thorne vill fara með samband þeirra Taylor yfir á næsta stig (fara að sofa hjá henni) og hún virðist bera tilfinningar til hans líka. Eric, pabbi Thornes, segir við Stefaníu, konu sína og mömmu Thornes, að hann sé eitthvað stressaður yfir samdrætti þeirra, enda svo stutt síðan BoldiðThorne varð ekkill, en Stefanía róar hann niður. Í þann mund kemur Thorne sjálfur og virðist vera að springa úr hamingju eftir rómantískt matarboðið með Taylor. „Mamma,“ segir hann, „ég er þér þakklátur fyrir að hafa látið mig hætta að leita að morðingja Dörlu og horfa fram á veginn.“ Morðinginn Taylor hefur það ekki jafnkósí því að garðyrkjumaðurinn er búinn að opna sig fyrir henni og líka Phoebe, dóttur hennar, Hectori slökkviliðsmanni og öðrum ungum manni og segist hafa orðið vitni að slysinu sem kostaði konu Thornes lífið. Taylor geðlæknir fær kast og ætlar enn einu sinni að viðurkenna allt fyrir Thorne þótt nú hafi bæst nýr einstaklingur við sem gæti endað í fangelsi fyrir samsekt, eða garðyrkjumaðurinn sjálfur. Hann lofar að steinþegja og vill ekki krónu fyrir það þótt ætlun hans hafi reyndar verið sú í upphafi að fá milljón dollara. Hector hneggjar af hneykslan og trúir engu sem kvikindið segir þeim.

Nick, Brooke og Hope DeaconsdóttirEftir að Brooke og Nick giftu sig aftur, eða endurnýjuðu heitin, eru þau að springa úr hamingju. Nick hefur þó áhyggjur af því að vera búinn að barna fyrrum eiginkonu sína og núverandi stjúpdóttur, hana Bridget. Brooke fær örugglega að vita fljótlega að hún er að verða amma stjúpsbarns síns. Verst að hún var búin að lofa Donnu, systur sinni, að Ridge væri endanlega horfinn úr hjarta hennar og gaf systu veiðileyfi á Ridge, með trega þó. Brooke sagðist vera svo örugg með Nick, hann myndi aldrei svíkja hana eins og Ridge gerði ... hahaha. Hún veit auðvitað ekki að þegar hún kyssti Ridge oggulítið á dögunum og það fréttist með ljóshraða innan fjölskyldunnar þá fór Nick og svaf hjá Bridget ... og barnaði hana.


Táp og fjör ...

Beðið eftir öldumHaustlegt er nú hérna við Langasandinn. Það hvín í öllu í himnaríki sem gerir notalega stemmningu. Ef vindáttin væri vestlæg mætti nú sjá glæstar öldur skvettast á steinana en það bíður bara næsta roks.

Heimsótti pólska lækninn minn undir hádegi til að fá áframhaldandi sjúkraþjálfun og hélt árangursríka ræðu yfir henni um nauðsyn þess að hafa Betu sem fastan lið í lífi mínu á þriðjudögum. Beta hefur unnið algjört kraftaverk og gert mig miklu sprækari. Ég var við það að leggjast í kör eftir óhapp og ekki skánaði ástandið eftir blóðuga slysið á ógæfumölinni um árið. Níu saumför á hægra hné eru til lettfaett_i_straeto.jpgmerkis um það. Stríðsáverkar eða íþróttameiðsli kallast þetta núna, fer eftir því hver sér örið.

Nú nánast stekk ég upp í og út úr strætisvögnunum eins og léttfætt hind kvölds og morgna og get eiginlega ekki neytt erfðaprinsinn lengur til að gera öll heimilisverkin. Mér hefur enn um sinn verið forðað frá ótímabærum hrumleika, enda bara fjörutíu plús ... fram í ágúst þegar við Madonna höldum upp á 100 árin.

Leið 27

 Nýi bílstjórinn var í Skrúðgarðinum sem minnti mig á að kaupa græna kortið. Hann er voða hress og verður vonandi áfram í vetur ef Gummi kemur ekki aftur. Ég lagði mitt af mörkum til að halda honum með því að segja honum að hann gæti ómögulega fundið betri og yndislegri og skemmtilegri og fallegri farþega en okkur Skagamenn! Þegar hann er orðinn fastur á önglinum getur maður farið að hreyta í hann ónotum, heimta að hann setji X-ið á hæsta í stað rólegheitanna á Rás 1, bannað honum hörkulega að taka geitunga upp í bílinn, neytt hann til að halda með ÍA og svo til að vera með rauða hárkollu á föstudaginn en þá hefjast Írskir dagar.


Fimm ógæfudagsetningar og frábært talnaspekidagatal ...

Búin að sitja á svölunum í klukkutíma, vel varin af sólvörn en tók smá pásu af virkilega eðlilegum ástæðum. Hávær sláttuvél frá bænum er í gangi fyrir neðan og að auki er „súkkulaðibíllinn“ mættur með slöngur og dælur til að hreinsa kamrana við Langasand, á hlaðinu hjá mér. Jæks!

Þetta er síðasti virki dagurinn í sumarfríi og mér finnst honum ágætlega varið í sólinni.

Spennandi bókEr að lesa einstaklega spennandi bók sem heldur mér rólegri on the svals. Hún er eftir Dean Koontz, heitir Life Expectancy og segir frá Jimmy sem fæðist óveðursnótt nokkra (9. ágúst 1974) á sömu mínútu og afi hans, kökugerðarmeistarinn, deyr. Rétt áður hafði fárveikur afinn, öllum að óvörum, farið að tala og spáð fyrir um nokkra hættulegar dagsetningar í lífi ófædda barnsins og sagt ýmsa hluti sem hann átti ekki að geta vitað. Sömu nótt fæddist annað barn, sonur trúðs við sirkus sem var í heimsókn í bænum, konan dó en barnið lifði. Í reiði sinni og sorg skaut trúðurinn lækni og hjúkku, hljóp út með barnið og hvarf. Pabbi Jimmy hafði reykt með honum á biðstofu feðranna og var hálf smeykur við trúðinn. Honum fannst skrýtið þegar hann skrapp til pabba síns á sama sjúkrahúsi að sá gamli varaði hann við trúðnum ... úps. Nú bíð ég bara eftir því hvað gerðist fyrsta daginn af þessum fimm hræðilegu dögum sem afi Jimmys sagði fyrir um. Elska svona bækur. Þær eru margar góðar eftir Koontz en ein þeirra, Demon Seed, er þó líklega með verri bókum sem ég hef lesið. Vona að Skjaldborg haldi áfram að þýða bækurnar eftir hann og það bara beint í kilju!

Einu sinni skrifaði ég grein um dagsetningar og hvaða orka fylgir hvaða mánaðardegi út frá talnaspekinni. Jú, maður finnur margt á Netinu ... Þetta birtist í Vikunni og hér kemur þetta á blogginu. Dagurinn í dag er t.d. tilvalinn til að hvetja fólk til góðra verka! Góða skemmtun! (Þetta er nú bara samkvæmisleikur ...)


Hvað er best að gera hvenær!

Samkvæmt talnaspekinni hefur hver dagur mánaðarins sína merkingu. Gott er t.d. að prófa eitthvað nýtt fyrsta dag mánaðar og þann tólfta ætti maður að reyna að brjóta upp mynstur, jafnvel breyta atburðarás ef maður getur. Hér kemur listi yfir alla daga mánaðarins og þá orku sem hver þeirra hefur.

1. dagur mánaðar er góður til að prófa eitthvað nýtt, opna fyrir nýjar hugmyndir og breyta aðferðum, jafnvel fá þér nýja klippingu.

2. dag mánaðar skaltu leggja þig fram við að vera samstarfsfús gagnvart fjölskyldu, vinum og samstarfsmönnum.

3. dagur mánaðar er góður til að ræða málin við fjölskyldu, vini og samstarfsmenn.

4. dagur mánaðar er góður til að koma öllu í röð og reglu, bæði í vinnunni og á heimilinu.

5. dag mánaðar er gott að tala hreint út, sleppa tökum og losa sig úr fjötrum.

6. dagur mánaðar er góður til að fást við allt sem tengist tilfinningunum og andlegum málum.

7. dag mánaðar er gott að íhuga og yfirfara verkefni og ljúka við það sem þú hefur á þinni könnu.

8. dag mánaðar er gott að fást við þau mál sem tengjast vinnu, viðskiptum og eigin fjármálum.  

9. dag mánaðar skaltu sýna mannlegu hliðarnar og koma vini og/eða nágranna til hjálpar.

10. dag mánaðar er gott að hefja nýjar áætlanir sem tengjast framtíð þinni.  

11. dagur mánaðar hentar vel til að taka á móti hugljómun og góðum straumum.

12. dag mánaðar er snjallt að nota til að brjóta upp mynstur eða breyta atburðarrás.

13. dagur mánaðar er góður til þess að líta yfir farinn veg og vega og meta árangur þinn.

14. dagur mánaðar er dagur ævintýramennsku, nú er rétti dagurinn til að taka áhættu.

15. dag mánaðar er gott að nýta sér þá kænsku sem þú býrð yfir og taka stjórnina í þínar hendur.

16. dagur mánaðar er dagur mikillar orku og þér gengur vel að ljúka verkefnum þínum.  

17. dagur mánaðar er hentugur til að koma sér á framfæri við aðra.

18. dag mánaðar er gott að horfa jákvæðum augum á líf sitt og umhverfi ... í gegnum rósrauðu gleraugun.

19. dagur mánaðar er sá dagur sem gott er að vera á réttum stað á réttum tíma.

20. dagur mánaðar hentar vel til þess að renna yfir valkostina og velja þann besta.

21. dagur mánaðar er hentugur til að skreppa út fyrir bæinn eða skella sér á spennandi stað, listasafn eða veitingahús.

22. dag mánaðar er gott að taka yfirvegaðar ákvaðanir og finna leiðir til að taka á vanda síðustu daga.

23. dagur mánaðar er vel til þess fallinn að grípa þau tækifæri sem bjóðast.  

24. dagur mánaðar eru dagurinn til að opna nýjar dyr og búa til ný sambönd.  

25. dagur mánaðar er góður til þess að nota orku, kraft og einbeitingu þína í að leysa smáatriðin í lífi þínu.

26. dagur mánaðar er dagur sköpunar og skemmtunar.

27. dagur mánaðar er tilvalinn til að hvetja fólk í kringum þig til góðra verka.

28. dagur mánaðar er góður til að finna nýtt athvarf, t.d. nýtt og spennandi kaffihús.

29. dag mánaðar er gott að nota til að velja bestu tækifærin.

30. dagur mánaðar hentar vel fyrir sjálfsdekur; nudd, snyrtingu eða í heilsulind.

31. dagur mánaðar er rétti dagurinn er til að leggja línurnar í erfiðum málum.

 


Djarft en árangurslaust sólbað og nýjasta boldið!

Mikið rosalega var leikurinn spennandi ... og Tyrkirnir góðir! Vegna ferða í sumarbúðirnar til Hildu hef ég ekkert séð til Tyrkjanna á mótinu og var stórhrifin núna. Vonandi verður leikurinn á morgun jafngóður. Rússland-Spánn!

 

Misbrúnar hendurErfðaprinsinn fór í bæinn í dag, að sjálfsögðu með strætó í sparnaðarskyni, og ég brá mér í ansi djarft sólbað í svona klukkutíma. Þyrfti að gera það aftur á morgun þar sem ekki dugði að hylja alveg hægri handlegginn í sólbaðinu, hann er enn talsvert brúnni en sá vinstri sem er bara viðbjóður. Sé til hvað ég get gert með brúnkuklút ef hyljaraaðferðin gengur ekki.

Nennti ekki í sólbað eina sekúndu í gær og hafði smá samviskubit, enda alin upp við að nota hvern einasta sólargeisla. Ég man eftir því þegar eitt sumarið á áttunda áratugnum varði einn eftirmiðdag, kom eftir hádegi á miðvikudegi og svo rigndi daginn eftir og alla restina af sumrinu!

Þetta er nú meiri heppnin, tvö ár í röð hef ég fengið svona gott veður í sumarfríinu mínu!

 

Horfði með öðru auganu í gær á Traveler, þáttinn þarna sem hætt var framleiðslu á eftir átta þætti og allt skilið eftir í lausu lofti. Þáttinn sem Stöð 2 keypti til að gleðja sumaráhorfendur sína. Þeir fara vonandi í skaðabótamál fyrir svikin, varla hafa gert þetta viljandi. „Spennuþættir á útsölu, vantar bara fjóra þætti, eða endinn. Ódýrt, ódýrt!“

 

Út í óvissunaEngar martraðir hafa angrað mig síðan asíski morðinginn elti okkur erfðaprins, enda les ég saklausar bókmenntir núna. Leitin eftir Desmond Bagley er bara þrælskemmtileg í enn eitt skiptið. Leitaði árangurslaust að skemmtilegri ástarsögu en fann enga. Bagley bregst ekki, hann skrifaði meira að segja spennusögu sem gerist á Íslandi, Út í óvissuna.

 

 

Þeir feitu og falleguÍ boldinu er það helst að frétta að Thorne, ekkillinn sorgmæddi, bróðir Ridge, sonur Stefaníu og eitt sinn kvæntur Brooke, er orðinn skotinn í geðlækninum Taylor, (konunni sem keyrði á konu hans og drap hana óvart og enginn veit af því nema Stefanía, Hector slökkviliðsmaður og dóttirin Phoebe). Hector er samt alltaf rosalega skotinn í henni og þar sem hann er orðinn blindur eftir atvikið þegar hann batt Taylor við handriðið til að varna því að hún segði Thorne sannleikann og það kviknaði í og bjálki datt ofan á hann, vorkennir Taylor honum og leyfir honum að búa á heimili hennar og Phoebe. Það pirrar Stefaníu, mömmu Ridge og Thorne, alveg hryllilega mikið og hún segir hann vera að notfæra sér samúð og sektarkennd Taylors.

Nick svaf hjá Bridget, fyrri konu sinni og núverandi stjúpdóttur, þegar hann hélt að Brooke, kona hans, væri farin aftur til Ridge. Brooke kyssti alla vega Ridge í hita augnabliksins. Bridget elskar hann enn og hlakkar til að fá hann aftur til sín. Brooke tókst þó að telja honum hughvarf og trú um ódauðlega ást þeirra og aumingja dr. Bridget fær ekki prinsinn sinn. Nick langar mest af öllu að segja Brooke frá þessu en Bridget kveinar: „Nei, ekki segja mömmu!“ Ridge er farinn eitthvað til útlanda með Donnu, yngri systur Brooke og tilvonandi stjúpmóður hans ef kjaftasögur eru réttar, til að sýna henni að hann hefði ekki verið að notfæra sér hana til að gera Brooke afbrýðisama.


Sumaróhljóð, kattarpössun og sólbað í kynþokkabol

Ekki að spyrja að krökkunum í unglingavinnunniSumarhljóðin eru sannarlega ekki alltaf krúttleg. Jú, lóan kvakar, spóinn gargar og allt það en það er ekkert krúttlegt við háværar garðsláttuvélar í gangi klukkan hálfníu á morgnana þegar fólk í sumarfríi ætlar að sofa til tíu. En gaman var að sjá hvað krakkarnir í unglingavinnunni hafa verið duglegir upp á síðkastið. Verð víst að viðurkenna það. Svefnófriður er fórnarkostnaður fyrir fallegt umhverfi.

 

 

Tommi sæti í stofuglugganumNú er Bjartur Sigþórs- og Míuson kominn í stutta pössun í himnaríki. Vera hans hefur verið sallaróleg hingað til og hafa þeir Tommi lygnt aftur augunum hvor framan í annan en það þýðir „friður“ á kattamáli. Sjálf hef ég laðað að mér marga stygga ketti með svona hægu blikki, ætti kannski að prófa það á karlana svo ég gangi mögulega út áður en ég verð fimmtug. Nú er bara nokkrar vikur til stefnu. Held þó að „friður“ virki ekkert endilega á strákana. Og þó. Hef ögn meiri áhyggjur af Kubbi sem þolir illa aðra ketti en sjálfa sig. Hún er soddan prinsessa.

 

Sólbrúnka eða bruniÆtla í sólbað á svölunum á eftir, það er logn úti og bara algjört dýrðarinnar veður. Ekki get ég komið til vinnu aftur eftir rúma viku eins og undanrenna á litinn. Er þegar komin í kynþokkabolinn sem mamma gaf mér í afmælisgjöf í fyrra en hálsmál hans nær niður á nafla og rúmlega það. Ekki mjög siðprúður bolur, verð ég að segja. Hvað var hún móðir mín að hugsa?

Veit einhver hvernig það er ... ef maður notar sólvörn verður maður þá ekkert brúnn? Eða kemur sólvörnin bara í veg fyrir bruna? Jamm, ég er óvön svona sólböðum og þarf að taka spennandi bók með mér á svalirnar ef ég á að tolla þar.


Mariah Carey grætir barn, Robbie Williams fitnar og fleira sjokkerandi ...

Robbie WilliamsNýlega komst ég yfir nokkur nýleg, erlend tímarit og er æf út í Moggann og fleiri fyrir að halda svona merkilegum fréttum um Hollywood-stjörnurnar frá okkur lesendum. Að sjálfsögðu deili ég þeim með bloggvinum mínum. Finnst það eiginlega vera samfélagsleg skylda mín.

Ekki vissi ég t.d. að Robbie Williams væri orðinn kærulaus um ímynd sína og hefði bætt á sig heilmörgum kílóum. Honum hættir víst til að fitna og þarf að hafa mikið fyrir því að halda sér í formi. Hann sást kyssa einhverja Sophiu á dögunumLiz Hurley og hvað með kærustuna Aydu Fielding, konuna sem hann hreifst svo af vegna þess að hún vissi ekki hver hann var?

Svo langar David Beckham ógurlega í enn eitt barn en þau hjónin hafa alltaf þráð stóra fjölskyldu.

Það náðist mynd af aumingja Liz Hurley á dögunum sem sýnir að hún er komin með skallablett á hnakkann.

Jeremy Clarkson, aðalgæinn í Top Gear, bílaþættinum skemmtilega á SkjáEinum, þjáist víst af miðaldurskrísu, hann gengur a.m.k. um í grænum, forljótum mokkasíuskóm.

Oprah og RachelRachael Ray og Oprah Winfrey eru orðnar svarnar óvinkonur en sú fyrrnefnda á frægðina þeirri síðarnefndu algjörlega að þakka. Oprah sagði víst við Rachel: „You make me sick.“ Rachel segir um þessa fyrrum vinkonu sína: Oprah er stjórnsöm tík!“

Meiri fitufréttir: Í Chicago er verslun sem heitir Oprah´s Closet og þar eru seld notuð föt af sjónvarpskonunni. Oprah hefur víst fitnað um 30 kíló síðustu þrjú árin en vakið hefur athygli að aðeins föt síðan hún var sem grennst eru til sölu þar.

Bobbi og WhitneyLeikarinn Nick Nolte, 68 ára, hefur átt við mikið áfengisvandamál að stríða og leitaði til Hare Krishna-sértrúarhópsins eftir hjálp og segist hafa verið edrú um tíma í kjölfarið. Kærasta hans, Clytie Lane, 39 ára, kynnti hann fyrir hópnum. Þau Clytie eiga saman 7 mánaða barn.

Dóttir Whitneyjar Houston, Bobbi Kristina, reyndi að fremja sjálfsmorð á dögunum og ekki í fyrsta sinn. Í þetta skiptið gerði hún tilraun til að stinga móður sína með hnífi fyrst. Hún vill ekki búa hjá mömmu sinni að sögn heimildamanna.

kirstieKirstie Alley er hætt í megrun og bætir hratt á sig. Hún sýndi sig í bikiní í fyrra einmitt í þætti Opruh Winfrey. Kirstie finnst mjög gott að borða snakk og ís fyrir framan sjónvarpið og segja heimildamenn að henni hafi tekist á þann hátt að þyngjast um næstum 40 kíló.

Hasselhoff og CorinaDavid Hasselhoff féll fyrir einum keppanda í America´s Got Talent, Corinu Brouder sem er 29 ára. Þau deita nú grimmt. Þau sáust á sama hóteli og saman á tónlistarhátíð þar sem David leit hræðilega illa út en var allur á hjólum í kringum Corinu. Systir Corinu var með í för og vakti þríeykið mikla athygli.

Mariah CareyMariah Carey grætti 8 ára stúlku (ég græt reyndar líka þegar ég heyri hana syngja). Hún var að kynna plötu sína á Hard Rock Café í Hollywood og mætti tveimur og hálfum tíma of seint. Hún harðneitaði að árita nokkuð nema plötuna sína og lét eins og algjör díva. Litla daman hafði beðið í röð í nokkra klukkutíma með plakat af söngkonunni og þegar kom að henni hrakti söngkonan hana á brott með dónaskap og svo lét hún sig hverfa ... meira að segja áður en þeir sem keyptu þó geisladisk gátu fengið áritun á þá. Sumir af aðdáendunum urðu svo reiðir að þeir köstuðu geisladiskunum á jörðina og trömpuðu á þeim.

Kalli og MartaMartha Stewart mun fljótlega giftast milljarðamæringnum Charles Simonyi, þau náðu víst saman aftur. Þegar hann bað hennar sagði hún „JÁ, JÁ, JÁ, JÁ!“ samkvæmt heimildum hins virta tímarits National Enquirer. Enda er hún orðin 66 ára ... Charles er bara 59 ára unglamb.

meganfoxSystir Marks Wahlberg leikara sat í fangelsi fyrir tryllt rifrildi við kærastann og komu vopn við sögu ... hún beið róleg eftir að litli bróðir borgaði hana út en ekki fylgdi sögunni hvort hann gerði það.

Megan Fox leikkona, ein kynþokkafyllsta kona heims, stal 500 króna gloss úr Wal-Mart og má ekki koma þangað framar, aldrei í lífinu!

Adam Sandler er víst ökklabrotinn.


Uppnám á svölum vegna klæðaburðar, smá sjónvarp og oggu bold

Svipað og hjá mérNáði góðu korteri á svölunum í dag ... sem er gott miðað við að sólböð eru ekki á dekurlistanum í himnaríki. Klæðaburður minn var skelfilegur. Blátt mynstrað pils og eiturgrænn fleginn bolur ... mávarnir görguðu af viðbjóði. Svo kom hafgola ég fauk inn enda lauflétt af hungri. Reyni að ná öðru korteri á morgun, þá er þetta orðið gott í sumar.

Saumaklúbburinn MissingEitt kvöldið fyrir stuttu horfði ég á spennuþátt sem heitir Missing. Skil ekki hvers vegna Stöð 2 kallar hann ekki saumaklúbb ... tvær konur í aðalhlutverkum, líklega af því að yfirmaður þeirra er karlkyns. Nema hvað, önnur konan fær alltaf flóknar sýnir um horfið fólk og þarf að reyna að ráða í þær með aðstoð samstarfskonu sinnar áður en týnda fólkið hverfur alveg. Ég var farin að hlæja eftir smátíma því að samstarfskonan truflaði alltaf sýnirnar með því að spyrja umhyggjusöm hvort allt væri ekki örugglega í lagi þegar sýna-konan stóð og horfði stjörf út í loftið eins og hún hefur gert til einhverra ára þegar hún fær sýnir. Þar með vaknaði sjáandinn sífellt upp úr transinum, samt ráðin í lögguna vegna þessarra hæfileika sinna. Frekar fyndið.

Nú verður tveggja tíma lokaþáttur Gray´s Anatomy í kvöld og hér ríkir mikil tilhlökkun. Erfðaprinsinn lætur engan segja sér hvað honum finnst skemmtilegt í sjónvarpinu og horfir á það efni sem hann fílar, hvort sem það heitir kjéddlínaefni eða kaddlaefni. Nú horfir hann á Simpsons á meðan ég fylgist með boltanum. Mikið rignir á aumingja fótboltamennina, þeir eru rennblautir.

HamstrahjóliðSumarbúðirnar hennar Hildu systur eru komnar á fullt og geta áhugasamir kíkt á sumarbúðabloggið (www.sumarbudir.blog.is) og dáðst að handbragðinu á skrifunum. Jú, einmitt, mín skrifaði þetta eftir fréttum úr sveitinni. Ég spurði Hildu hvernig hópurinn, sem kom í gær, væri og hún sagði að hann væri einstakur, gjörsamlega frábærir krakkar. Hún segir þetta alltaf í hverri viku og mér finnst það svo fyndið. Um 80 börn eru hjá henni núna en þegar hún var á Hvanneyri hafði hún pláss fyrir yfir 100. Ég man eftir því þegar sumarbúðirnar voru að byrja fyrir 10 árum og þá komu 30-40 börn á viku fyrsta sumarið. Svo jókst fjöldinn sífellt og síðustu árin þar voru alltaf 70-100 börn.

Taylor og StefaníaÞað er allt að verða vitlaust í boldinu enn eina ferðina. Þegar Taylor ætlaði að fara að kjafta öllu í Thorne rændi Hector henni og batt við handriðið. Svo fór hann að sveifla eldi til og frá, hún sparkaði í hann, hann rotaðist og bæði hefðu brunnið inni ef ekki hefði verið fyrir Stefaníu. Hún leysti ekki Taylor frá handriðinu fyrr en sannleikurinn var kominn í ljós, eða að Taylor hefði ekið á Dörlu. Þetta verður greinilega ættarleyndarmál, Stefanía er meira að segja búin að biðja löggumanninn um að hætta rannsókninni. Þegar Taylor kíkir á Hector á sjúkrahúsinu kemur í ljós að hann er orðinn blindur! Hún segir honum að Stefanía vilji að þessu verði áfram haldið leyndu og Hector er feginn að þurfa ekki að fara í fangelsi.


Harla óvenjuleg fjölskylda ...

Duggar fjölskyldanJim Bob og Michelle Duggar giftust 21. júlí 1984. Þau langaði ekki til að eignast börn alveg strax og fannst þau hvorki hafa efni á því né vera tilbúin. Fjórum árum síðar ákváðu þau að drífa í því. Michelle missti fóstur og komst að því að það var getnaðarvarnarpillunni að kenna sem hún hafði tekið fram að þessu. Trúaður heimilislæknir þeirra sagði þeim frá þessu með pilluna og hjónin iðruðust sárlega og fannst þau sjálfselsk með afbrigðum ... áttu að heita kristið fólk. Síðan hafa þau ekki hætt að eiga börn og það 18. á að fæðast í janúar á næsta ári.
Michelle er 41 árs og hefur verið ófrísk í rúm 11 ár eða í 137 mánuði. Að meðaltali eru 18 mánuðir á milli barnanna. Bleiur á börnin eru orðnar 90 þúsund talsins. Setja þarf 200 sinnum i þvottavél á mánuði.

Nöfn fjölskyldumeðlima hefjast öll á J nema mömmunnar. Öll börnin læra að spila á fiðlu og píanó. Í hópnum eru tvennir tvíburar. Hér kemur listi yfir krúttmolana, aldur þeirra og svo í réttri röð: eftirlætisdægradvöl, uppáhaldsmatur og hvað þau ætla að verða þegar þau verða stór:

Joshua, 20 ára, f. 3. mars 1988. Búa til myndbönd, mexíkómatur, lögmaður.
Jana, 18 ára, f. 12. janúar 1990. Passa börn, kjúklinganúðlusúpa, ljósmóðir.
John-David, 18 ára, f. 12. janúar 1990. Broomball, kjúklingaspagettí, verktaki.
Jill, 16 ára, f. 17. maí 1991. Að lesa, taco og trúboði.
Jessa, 15 ára, f. 4. nóvember 1992. Að sauma, pickles og snyrtifræðingur.
Jinger, 14 ára, f. 21. desember 1993. Á hestbaki, lasagna, kokkur.
Joseph, 13 ára, f. 20. janúar 1995. Hafnabolti, lasagna, trésmiður.
Josiah, 11 ára,  f. 28. ágúst 1996. Sund, lasagna, trúboði.
Joy-Anna, 10 ára, f. 28. október 1997. Hjólreiðar, hrærð egg, hjúkrunarfræðingur.
Jedidiah, 9 ára, f. 30. desember 1998. Leika með hundinum, pítsa, pabbi.
Jeremiah, 9 ára, f. 30 desember 1998. Leika á róló, mjúkar kringlur, listamaður.

Jason, 8 ára, f. 21. april 2000. Á hestbaki, vanilluís og slökkviliðsmaður.
James, 6 ára, f. 7. júlí 2001. Vera í baði, kjúklingafylling, lögreglumaður.
Justin, 5 ára, f. 15. nóvember 2002, Taka til í leikherberginu, kjúklinganúðlusúpa, smiður.
Jackson, 3 ára, f. 23. maí 2004. Vera í baði, kjúklingafylling, stóri bróðir.
Johannah Faith, 2 ára, f. 18. október 2005.
Jennifer Danielle, 10 mánaða, f. 2. ágúst 2007.

Hvað ætli yngsta barnið verði látið heita? 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 111
  • Sl. sólarhring: 318
  • Sl. viku: 1655
  • Frá upphafi: 1453814

Annað

  • Innlit í dag: 83
  • Innlit sl. viku: 1371
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 80

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband