Færsluflokkur: Ferðalög
30.11.2007 | 09:24
Konan í brekkunni ...
Fólkið í vinnunni starði á mig í morgun, eins og ég væri draugur. Þú hefur komist yfir Kjalarnesið? spurði ein kjörkuð, þó með smá Reynistaðabræðrabeyg í augnaráðinu. Já, ég komst svo sannarlega og það var voða gaman, enda Tommi undir stýri. Hann verður útvarpsstjarna í kvöld og spilar rokklög á Útvarpi Akranes FM 95.0. Mér skilst að aðeins hjartahreint, rauðhært og vestfirskt fólk nái stöðinni á höfuðborgarsvæðinu.
----- ---------- ------
Sat fremst við hlið Sigþóru í strætó og klappaði henni reglulega á róandi hátt, hún er svo veðurhrædd að eigin sögn, elsku kerlingin. Það komu vissulega nokkrar hressilegar hviður, enda 30 m/sek í hviðum, en Tommi hafði fulla stjórn á öllu, m.a. með því að aka hægt á köflum. Tommi, þessi lauslætisdaðurbósi, sagði okkur Sigþóru, smiðnum og Hlina (fólki í fremstu röð) að ekkert prýddi nú lengur Lopabrekkuna, engin Karítas biði og gleddi augu bílstjóranna, hún væri víst flutt til Akureyrar. Við komumst að þeirri niðurstöðu að henni hefði ekki bara boðist gott starf, heldur hafi hún fallið fyrir því að það er FRÍTT í strætó á Akureyri. Ég flutti upp á Akranes af því að strætó byrjaði að ganga á milli ... hvað ætli margir myndu flytja ef það væri þar að auki frítt ... kannski hefðum við ekki misst Karítas norður yfir heiðar!
"Viltu vera algjört krútt og stoppa fyrir okkur Sigþóru," sagði ég þegar við nálguðumst Hálsahverfi. "Ég þarf ekki að stoppa til þess," svaraði sár bílstjórinn og Sigþóra hló, enda skepna. Það er ekki bjalla í rútunni og ég reyni að nota mismunandi setningar í staðinn, til að bílstjórarnir fái ekki leið á mér, m.a.: Ef ég lauma að þér 50 kalli væri þú þá til í að stoppa næst? eða Þetta er rán, ef þér stöðvið eigi langferðabifreiðina mun ég syngja fyrsta kaflann í Ármanni og Vildísi eftir Kristmann Guðmundsson. ja, þetta síðasta hef ég reyndar ekki prófað en það verður brátt. Langur dagur fram undan, ég er með Pál Óskar í eyrunum og finnst nýja platan hans gjörsamlega æðisleg, tónlist sem gerir mann hamingjusaman, alveg í stíl við söngvarann.
29.11.2007 | 18:46
Fokið heim í heiðardalinn
Við Ásta komumst heilu og höldnu (í hviðum upp á 27 m/sek) alla leið í Einarsbúð og þangað mætti erfðaprinsinn ofsaglaður, enda finnst honum fátt skemmtilegra en fara í búðir. Á meðan ég lá í hægindastól í spennumyndahorninu keypti erfðaprinsinn í matinn og það lítur út fyrir guðdómlegan kvöldverð í himnaríki á laugardag. Fimm manna veislu.
Fékk þessa líka frábæru hjálp í Einarbúð við valið, ákvað að kaupa fylltan lambahrygg með gráðaosti og villisveppum, verður tilbúið á morgun. Það er nóg að segjast ætla að halda veislu þá er ekkert lát á hugmyndum og ráðgjöf í þessarri búð. Þetta verður ekki gamaldags ósmekkleg veisla með 20 tegundum af meðlæti og kokkteilsósu, eins og ég var þekkt fyrir, alla vega ein jól í gamla daga. Þess í stað verður ferskt salat og sætkartöfluréttur. Þarf reyndar að finna sellerírót til að fullkomna þann síðarnefnda. Jamms, það er nóg að gera á stóru heimili.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.11.2007 | 09:19
Dularfullt leyninúmer í morgunsárið
Sá tvö ný "missed calles" á gemsanum mínum þegar ég ætlaði að rjúka út á stoppistöð. Hmmm ... Ásta vön að senda gleðirík BDSMS, ekki hringja. Síminn minn er stilltur þannig að aðeins ein hringing heyrist, síðan bara hristingur og suð. Afar heimskulegt, þessu verður breytt í dag. Hringt var úr leyninúmeri svo að ég gat ekki hringt til baka. Vakti þess í stað með SMS-i tvær veikar vinkonur mínar. Það voru ekki Ásta eða Inga sem hringdu í morgun, komnar með leyninúmer. Prófaði ekki Sigþóru morgunhænu þar sem hún á ekki bíl ... Í strætó barðist ég við samviskubit yfir því að hafa valdið Ástu og Ingu auknum kvölum; höfuðverk, nefrennsli og geðvonsku, svona eins og gerist iðulega ef veikt fólk fær ekki að sofa. Það blandaðist kvíðakenndum hugsunum um erfiða Súkkulaðibrekkuna í roki og rigningu.
Við lúsuðumst í gegnum Kjalarnesið (frá göngum og fram hjá Grundahverfinu) á c.a. 30 km/klst þar sem vindhviðurnar voru viðbjóðslega sterkar, hélt að hurðin fyki af á köflum og við með ... þAÐ VANTAR ANNAN HVIÐUMÆLI ÞARNA áður en fleiri óhöpp verða (sl. vetur fauk strætó út af). Hjá mælinum, sem er staðsettur við Kollafjörð, var næstum logn, miðað við hitt helvítið! (Mælirinn sýndi 25 m/sek. sem er allt í lagi) Svakalega þurfti ég að gera mig stífa í morgun til að við fykjum ekki út af. Skil ekki hvernig smiðurinn og sessunautur hennar gátu masað og hlegið á leiðinni. Eftir að sessunauturinn var farinn út í Mosó spjölluðum við smiða um símatímann á Bylgjunni þar sem kvenhatarar af báðum kynjum gerðu grín að hugmynd Steinunnar um að breyta orðinu ráðherra. Ég heyrði engan hlæja þegar flugfreyjunafninu var breytt, það þótti sjálfsögð virðing við nýtilkomna karlmenn í faginu að kvengera þá ekki!
Einhver algjör töffari kom inn í strætó við íþróttahúsið á Akranesi og spurði hátt og snjallt hvort þessi vagn færi ekki í Hálsahverfið. (I wish, hugsaði ég). Ég stoppa við Vesturlandsveginn, fyrir neðan Hálsahverfið, sagði bílstjórinn ósveigjanlegur. Ég hef margoft reynt að múta þessum greinilega forríku bílstjórum með 50 krónum eða svo til að fara Hálsahverfið en það hefur ekki gengið. Brekkan getur verið ansi brött og vindasöm og sleip og löng ...
Hefði svo sem getað farið alla leið í Ártún og beðið þar í korter eftir leið 18 sem gengur Hálsana, eftir að hafa farið í gegnum allan Árbæinn. Sá fyrrum troðfulli strætisvagn sem gekk áður Stórhöfðann og upp Súkkulaðibrekkuna og stoppaði fyrir neðan húsið mitt skröltir nú hálftómur í Árbænum og ég er steinhætt að hitta sætu Pólverjana mína, einu karlana sem sendu mér áfergjulegt augnaráð svo snemma dags. Fer ekki ofan af því, þau hjá Strætó bs hefðu átt að fá mig til leiðsagnar, ekki einhvern Dana sem hefur aldrei upp í íslenskan strætó komið og fyrirlítur Ísland og þolir ekki þjóðina þar sem við erum búin að kaupa allt í Köben nema Tívolí.
Gerði ráð fyrir því/vonaði að við töffarinn myndum ganga samstiga upp Súkkulaðibrekkuna, kynnast og verða fínir vinir, eins og við skólastrákurinn minn í fyrra/hittiðfyrra, nei, þetta snobbhænsn, sem vinnur annað hvort í kaffiverksmiðju eða er í Kvikmyndaskólanum, lét eins og það sæi mig ekki ... og við sem tókum sama strætó! Svört sem syndin læddist ég alein og veðurbarin uppeftir í áttina að Lynghálsinum. Ég á tvö endurskinsmerki, Tuma tígurs-merki, sem ég keypti nýlega í Skaganesti, held að það sé alveg orðið tímabært að setja þau á kápuna mína kolsvörtu.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.11.2007 | 08:27
Þakkargjörð án sláturs og klikkað veður á Kjalarnesi
Við Inga fórum í guðdómlega þakkargjörðarmáltíð á TGI Friday í gær. Held að vér Íslendingar hefðum gott af því að fá svona sið, fjölskylduþakklætishátíð áður en aðventan gengur í garð. Er ekki hægt að íslenska þennan sið án þess að t.d. slátur komi við sögu? Það er nefnilega maturinn sem er æði, kalkúnninn með sætkartöflumús, trönuberjasultu, fyllingu og sósu ... namm. Þetta bragðaðist afar vel í gær og ekki skemmdi þjónustan fyrir! Hún var afbragð.
Södd og sæl og komin með smá amerískan hreim settist ég í leisígörl til að horfa á House lækni. Bókin um Aron Pálma lá í fanginu til að lesa í auglýsingahléum. Ja, mín bara sofnaði þegar þátturinn var hálfnaður. Vaknaði kl. 4 í morgun með bæði Aron Pálma og Tomma (getraun: kött eða bílstjóra?) í fanginu. Allt uppljómað í himnaríki. Svipað gerðist inni í bókaherbergi, erfðaprinsinn sofnaði yfir House, vaknaði um sexleytið, þegar ég fór á fætur, og var þá með Harry Potter á maganum og Kubb til fóta. Kláraði bókina í nótt, enda átti ég bara einn kafla eftir, og háttaði upp í rúm. Gott var að vakna tveimur tímum seinna við frábærlega dásamlegt BD-SMS frá Ástu. Þegar ég hoppaði út úr himnaríki var alsæll og einnig vel útsofinn erfðaprinsinn tekinn til við að lesa Potter.
Ferðin okkar Ástu í bæinn gekk stóráfallalaust þrátt fyrir klikkað veður á leiðinni. Við fórum hina leiðina út úr bænum, aðalleiðina svokölluðu, og sáum á skiltinu þar að vindhviður á Kjalarnesi voru bara 21 m/sek. Við reyndum að hlæja í gegnum hræðslutárin og skelfingarskjálftann þegar við komum upp úr göngunum sunnanmegin en hviðurnar voru sko ansi mikið meira en 21 metri á sekúndu! Það hefði verið ófært ef það hefði snjóað, mun kaldara á Kjalarnesi en á Skaganum, hefði getað snjóað ...
Þurrkurnar voru á mesta hraða hjá Ástu og hún bað mig, sem aðstoðarbílstjóra sinn um að fylgjast vel með þeim. Það síðasta sem ég man var þegar Ásta sagði: Nú þyngjast augnlokin ... Svo var ég bara komin við skrifborðið mitt. Í dag ætla ég að vera dugleg, ekki veitir af ... ég er sko að safna fyrir Hawaii-ferð handa Ástu.
22.11.2007 | 10:41
Dularfulli sendibíllinn sem ók of hægt ...
Heimir sat undir stýri í morgun og var eiginlega furðulostinn á svipinn næstum alla leiðina í bæinn. Farþegar voru nefnilega óvenjufáir, enda frost og Skagamenn kúra margir í kulda og trekki (þess vegna fjölgar okkur svona hratt) og svo ók dularfullur, svartur, skítugur og grunsamlegur sendiferðabíll fyrir framan okkur alla leið niður í Kollafjörð. Heimir, þetta mikla gæðablóð, fór að nöldra þegar við vorum stödd við Grundahverfið því að sendibíllinn hægði þá ferðina niður í 50 km/klst (leyfilegt að vera á 70) og svo gaf hann í og fór upp í 70 þegar við máttum vera á 90. Svona æsir mig alltaf svo upp og ég manaði Heimi til að blikka bílljósunum. Allir vita hvað gerist ef flautað er á annan bíl hér á landi og enginn nennir að standa í slagsmálum svona snemma morguns. Það var skrambi gott að komast fram úr í Kollafirðinum.
Mig grunar nú helst að þetta hafi verið .... byrjaði Heimir. Ég greip fram í fyrir honum. Þú veist að ég drep þig ef þú segir kjéddlíng, sagði ég hörkulega og brýndi kutana í huganum. Heimir hló taugaveiklunarhlátri en lauk setningunni: ...útlendingur! Það datt af mér andlitið og á meðan það skoppaði um strætó útskýrði Heimir að útlendingar gætu verið svo rosalega löghlýðnir, eiginlega einum of og keyrðu stundum of hægt ... sem væri erfitt fyrir strætóbílstjóra sem vildi halda áætlun.
Farþegarnir, fáu en stórhuggulegu, vöknuðu einn af öðrum þegar við nálguðumst heittelskaða höfuðborgina. Hvernig fór leikurinn? spurði Sigþóra þegar við bjuggum okkur undir að kasta okkur út við Vesturlandsveginn. Við erum öll svo náin í Skagastrætó að hún þurfti ekkert að útskýra spurninguna nánar. Þrjú núll fyrir okkur, laug ég blákalt, bara til að gleðja hana, heimurinn er alveg nógu grimmur og nauðsynlegt að búa sér til gleðiefni. Eitthvert karl-óféti leiðrétti þetta áður en ég gat hvesst á hann augun og núna afgreiðir Sigþóra kúnnana sína í Rekstrarvörum eflaust með tárin í augunum og ekka í hálsi.
Ég skalf úr kulda þegar við komum út úr strætó og trúði Sigþóru fyrir því að ég hefði ekki þorað að hjúfra mig upp að sessunaut mínum þar sem hann er karlkyns. Sigþóra sagði mér að hann héti Hlini og væri enginn annar en maðurinn hennar Ástu í bókasafninu! Konunnar góðu sem gerði uppvöxt minn hamingjuríkan með því að kynna mig fyrir fleiri bókum en Enid Blyton skrifaði ... Finnst mikið ævintýri að bókasafnsdrottning æsku minnar, sú sem kynnti mig fyrir t.d. Theresu Charles og Barböru Cartland, myndi ná sér í einn Hlina kóngsson?
Verkjalyfjablandan a la Gunnubúð (sjá komment við síðustu færslu) virkar afskaplega vel. Sjóðheitt bað í gærkvöldi og pillublandan gerðu líklega útslagið og ég er ekki orðin skökk enn þótt ég hafi setið við tölvuna í rúma tvo tíma. Þarf samt að fara að skoða rúm ...
20.11.2007 | 17:01
Flug og flughræðsla
Sit við tölvuna og vinn og hlusta í leiðinni á þátt í sjónvarpinu, Air Crash Investigation, sem fjallar um rannsókn flugslysa. Leikin atriði eru notuð til að skreyta þáttinn, veinandi farþegar, öskrandi flugstjórar og tölvugerð af þotu sem snýst í loftinu ... og hrapar. Viðbrögð fólks (leikara) á jörðu niðri eru líka átakanleg, hvað þá flugumferðarstjórans.
Sumir urðu flughræddir í æsku þegar við flugum eina páskana til Akureyrar. Hilda bjó þar. Skömmu fyrir lendingu fór vélin að hristast og við upplifðum okkur eins og kokkteila í hristara. Held að mér hafi verið flökurt í marga daga á eftir en það þarf heldur meira en þetta til að gera mig flughrædda. Sumir fóru að forðast að fljúga ef hægt var að keyra og nú er vitleysunni haldið við með því að horfa á svona þætti. Ekki gott að búa á eyju og líða svona. Alveg væri ég til í eitt stykki Gullfoss, íslenskt skemmtiferðaskip, eins og var til þegar ég var lítil og sigldi um heimsins höf, held ég. Svona til að geta örugglega farið með sumum í West Ham-fótboltaferð til London eftir áramótin.
20.11.2007 | 14:15
Af mæðrum, húmorsprófi og Tommaergelsi
Elskan hann Tommi kom í Skrúðgarðinn á meðan ég beið eftir súpunni. Hann er á seinni strætóvaktinni núna, Heimir á morgunvakt. Er alveg komin út úr þessu vegna drossíuferða með Ástu. Tomma seinkaði ógurlega einn daginn, sagði hann mér. Tvær konur með fimm börn, þrjú á fæti og tvö í vögnum, tóku sér far með honum. Svaka strætódrossía er í förum núna, eiginlega glæstur langferðabíll, og ekki byggð fyrir slíka farþegar og þurfti Tommi að leggja vagnana saman og setja í farangursgeymsluna áður en hægt var að bruna út úr bænum. Þegar Tommi var næstum kominn upp í sveit görguðu konurnar og spurðu hvers vegna hann færi þessa leið, þær höfðu ætlað sér að taka innanbæjarstrætó upp í hverfi en voru sannarlega ekki á leiðinni í Mosfellsbæinn. Nú, Tommi stoppaði, tók vagnana út og konugreyin þurftu að labba nokkuð langa leið til baka. Þar sem hver mínúta skiptir máli kom þetta sér ekki vel fyrir farþegana en eins og allir vita eru strætóbílstjórar með hjartahlýjustu mönnum og leið 15 hinkraði bara í smástund í Mosó.
Svo nöldraði Tommi yfir nýkomnum jólaskreytingum og sagði að nú væri tími villibráðar, við ættum ekki að skreyta fyrr en 11. des! Sá út um gluggann hjá sjúkraþjálfaranum að aðalgatan er að verða ansi jólaleg. Seríur í gluggum og jólaskreytingar við verslanir. María var meira að segja með jólatónlist í gangi í Skrúðgarðinum.
Litla, dásamlega dóttir Maríu var á staðnum og okkur kom samstundis vel saman. Barnið æsti mig fljótlega upp, ég sver það, ég var mjög stillt þegar ég kom inn. Erfðaprinsinn sótti mig þangað að vanda og fannst hegðun mín ekki við hæfi virðulegrar móður. Ég kannaði hvort barnið hefði húmor, hef þróað sérstakt próf í þá veru í gegnum tíðina. María sagði mér að sú stutta væri strákastelpa og ég spurði barnið hvort það væri kannski sjóræningjastelpa. Hún hnussaði og hélt nú ekki. Þá hófst prófið. Ertu þá þvottapoki? Eða kannski sjónvarp? Þú skyldir þó ekki vera strætisvagn? Og svo framvegis. Barnið skellihló og stóðst þannig prófið. Einn kosturinn við þetta próf er það að börnin vilja að maður haldi endalaust áfram ...
Erfðaprinsinn engdist og sagðist ekki vilja að fólk héldi að ég væri rugluð og færi að hlæja að mér, hann vildi ekki þurfa að meiða það ... Þá orgaði ég úr hlátri og stóðst væntanlega prófið hans. Jamm, þetta var skemmtilegt hádegi og grænmetissúpan sérdeilis góð. Við erfðaprins gripum síðan með okkur líklega bestu marmaraköku í heimi en hún fyrirfinnst í Harðarbakaríi. Svo verður bara unnið af krafti í dag! Kökublaðið kemur út í næstu viku! Það verður GEGGJAÐ!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2007 | 08:23
Reykur í Skagastrætó - hvar er Sigþóra?
Við Ásta sátum eins og fínar frúr í drossíunni á leið í bæinn. Á móts við Húsasmiðjuna brunuðum við fram úr Skagastrætó og misstum þar með af spennu dagsins. Ásta skutlaði mér í Hálsaskóg en á leiðinni niður á Landspítala sá hún strætóinn stopp við Vesturlandsveginn, við stoppistöðina okkar Sigþóru ... og það rauk úr honum. Veit ekki hvort kviknaði í honum, hann bræddi úr sér eða það sauð á honum.
Held að það mætti alveg velja betri bíla oní okkur þótt við séum bara Skagamenn ... það hefur verið frekar mikið baráttumál bæjarbúa að fá vagna sem halda vatni, vindi og mengun úr Hvalfjarðargöngunum og ekki er verra að öll öryggisbeltin séu í lagi ... Reyndi að sjálfsögðu að hringja í Sigþóru til að fá fréttir í beinni en hún svarar ekki, kannski í fríi, kannski veik, kannski er hún í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni. Hvað veit maður ...
Svaf ekki nema fjóra tíma í nótt, drakk þó ekki kaffi í gær eftir kl. 17, var grútsyfjuð en gat ekki sofnað. Skil ekki hvers vegna hressileikinn er svona mikill núna í morgunsárið. Best að reyna að verða samferða Ástu heim í dag og sofna eldsnemma í kvöld. Sef yfirleitt eins og engill og skil ekki svonalagað. Kannski var allt of gaman í kjötsúpuveislunni fyrir viðkvæmt taugakerfi mitt eða eitthvað, er reyndar ekki sérlega viðkvæm nema kannski þegar fluga eða blóm deyr í teiknimynd. Sem betur fer var ég með æsispennandi bók á náttborðinu, Grunnar grafir eftir Fritz Má Jörgensson, og hún bjargaði mér frá leiðindaandvöku ... Það er sko aksjónbók!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2007 | 22:59
Kínverskar kótilettur, fagurblár fjaðurpenni og Jason ...
Nýkomin úr höfuðborginni eftir stanslaust át, hlátur og skemmtilegt spjall í kvöld. Jú, litla systir varð fertug í dag og hélt upp á það með látum! Fór með Ingu í Kringluna til að kaupa afmælisgjöf, auðvitað í Eymundsson. Keypti fínan gullkassa og skellti nýrri jólabók ofan í hann, þessari nýju eftir höfund Flugdrekahlauparans, disk með Katie Melua, súkkulaðikúlum (þær fást orðið í bókabúðum), bókamerki og fjöður (penna). Helga trylltist úr hamingju yfir ... já, haldið ykkur ... fjöðrinni, sem kostaði c.a. 50 kall.
Í matinn voru kínverskar kótilettur (mig grunar að flogið hafi verið sérstaklega með þær til landsins frá Kína fyrir afmælið) og svakalega voru þær góðar.
Hilda krútt skutlaði mér í Mosó og í strætó á heimleiðinni sást friðarsúlan einstaklega vel.
Erfðaprinsinn lá í stofusófanum með elskuna sína yfir sér, eða gráa, þykka flísteppið sem ég keypti handa honum á laugardaginn og hann fór að elska við fyrstu sýn. Uppþvottavélin mallaði dugnaðarlega en Jónas er orðinn rykfallinn af notkunarleysi, hefur ekkert fengið að gera í nokkra daga, greyið. Þarf nauðsynlega að gera eitthvað í þessu. Hugmyndir, anyone?
Tók þessa mynd í vinnunni síðdegis en hún sýnir útsýnið úr sætinu mínu. Ef ég lít upp sé ég bara krúttmolann hann Jason Statham á bakinu á tölvunni hennar Bjarkar. Nú er kannski skiljanlegt hvers vegna mér líður alltaf svona vel í vinnunni. Ekki skemmir bráðhuggulegur síminn fyrir.
Fjær á myndinni má sjá skvísurnar á Séð og heyrt og enn fær sést inn í umbrotsdeildina þar sem Guðný og sætu strákarnir halda til.
Svo er það bara elskan hún Ásta kl. 6.50 í fyrramálið á fínu drossíunni. Skrýtið að B-manneskja, eins og ég, nái að vakna svona snemma, stundum hress eins og fólk í kornfleksauglýsingu, líklega er það vegna þess að þetta er eiginlega um miðja nótt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.11.2007 | 09:15
Hámarksorka, dularfulli geðilli bílstjórinn og óguðleg Vika!
Ósköp ljúf strætóferðin áðan, Kiddi keyrði eins og engill og alltaf jafngott að hvíla í örmum Ástu á morgnana, skyldi hann Böddi vita af þessu? Var með uppáhaldsfarþegana sitt hvorum megin við mig, en Sigþóra sat hinum megin við ganginn og ... svaf. Það tekur hana innan við 10 sekúndur að steinsofna í strætó. Þar sem ég get aldrei sofið í flugvélum, loftbelgjum, skíðalyftum, lyftum eða í strætisvögnum þá er ég sjálfvirki vekjarinn hennar.
Inga beið okkar neðst í Súkkulaðibrekkunni, hún var að vinna í grenndinni og ákvað að skutla Sigþóru upp kvikindið og fara síðan í Kaffitár Bankastræti með mig. Orkan er því í hámarki því að tveir latte voru keyptir til að djúsa í Hálsaskógi fram eftir morgni! Hvílíkt dásemdarlíf.
Ég þarf að komast að því hvaða strætóbílstjóri það er sem margir kvarta sáran undan. Hann fleygði víst stelpu út í gær af því að hún var með kaffimál (með loki) og beljar geðillskulega á farþegana sem virðast fara ósegjanlega í taugarnar á honum, samkvæmt því sem ég heyri. Þetta hlýtur að vera einhver í afleysingum, einhver sem hatar Skagamenn vegna velgengni í fótbolta, fallegs kvenfólks eða eitthvað! Þarf að finna út úr þessu! Þetta er eitthvað alveg nýtt því að geðbetri menn en bílstjórana á Skagastrætó er erfitt að finna ... until now!
Vikan kemur út á morgun. Hún er komin í hús hérna og eitthvað byrjað að dreifa henni. Ótrúlega athyglisvert viðtal við Teit Atlason guðfræðing sem hvetur fólk til að skrá sig ÚR þjóðkirkjunni ... Forsíðuviðtalið er við Siggu Lund útvarpskonu sem var heilaþvegin af sértrúarsöfnuði og endaði gjaldþrota eftir veru sína þar. Mjög skemmtilegt og opinskátt viðtal. Við áttuðum okkur á því í vinnsluferlinu að tvö stærstu viðtölin tengjast trúfélögum og er það algjör tilviljun.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 6
- Sl. sólarhring: 32
- Sl. viku: 833
- Frá upphafi: 1515928
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 706
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni