Færsluflokkur: Ferðalög

Þrír frakkar og enginn í fríi!

Þrír frakkarVissi að þetta yrði góður dagur, eiginlega frábær! Skemmtileg byrjun á vikunni. Ég átti stefnumót við gamla og góða vinkonu sem ég hef ekki hitt alveg hrikalega lengi. Við hittumst á Þremur frökkum og borðuðum saman hádegisverð. Í kaupbæti hitti ég óvænt aðra gamla og góða vinkonu sem búsett er í Bath í Englandi. Kom heim til að vera við jarðarför. Upplýsingar: Sú sem þjónaði okkur var að fara til Flórída seinna í dag. Englandsvinkonan flýgur heim til Englands í fyrramálið og vinkona mín mun verja jólunum á Hawaii! En ... ekki öfunda, ekki er allt sem sýnist, onei!!! Það er nefnilega allt morandi af viðbjóðslegum skordýrum í útlöndum, stórhættulegum og svo ófríðum að þau geta drepið mann úr hræðslunni einni saman. Mætti ég frekar biðja um íslenskt veður; frost og snjó með tilheyrandi geitungaskorti!

Við fengum okkur sveppasúpu í forrétt og ég get alveg sagt það og staðið við að ég hef aldrei fengið betri sveppasúpu (ekki einu sinni hérna í mötuneytinu ...). Langar að læra að búa til svona súpu og hafa sem forrétt um jólin eða eitthvað! Oft verða súpurnar of saltar á veitingahúsum en þarna var ekki klikkað á neinu. Í aðalrétt fékk vinkonan sér rauðsprettu en ég veðjaði á karfa með rjóma-wasabi-sósu. Mjög, mjög gott. Hvítvínsglas með, hikk! Ég er eiginlega enn á rassgatinu!

Góða þjónustukonan heimtaði að gefa mér leifarnar í catty-bag (vinkona mín blaðraði því að ég ætti kisur) og mér hefði nú alveg fundist við hæfi að fá þær í Harrods-poka ... svona miðað við gæði staðarins og bragð matarins ... en nei, það var Bónuspoki, eins og ég sé eitthvað lágvöruverslanagengi! Kommon, hvað ætli fólkið í strætó segi þegar ég mætti með Bónuspoka?


Leyniþjónustan, sumarbolur og heittelskuð eyrnaskjól

Á Hlemmi í morgunEkkert Ástu - BDSMS í morgun, heldur blákaldur strætisvagn. Kiddi sat undir stýri. Hann steingleymdi að seinni bíllinn á aldrei að fara á Kjalarnesið, heldur bara aukabíllinn, og rúllaði samt eftir hverfinu án þess að nokkur kæmi inn eða færi út en maður fer reyndar alltaf lengri leiðina með svona frábæra farþega! Útvarpsstöðin Bylgjan var á og sem betur fer ekki nógu hátt stillt til að hægt væri að hlusta á eitthvað skelfilegt en undanfarin skipti sem hún hefur verið á og nógu hátt stillt til að heyra, hefur verið talað um lýs í rúmi og hýsla í drykkjarvatni. Get auðveldlega lifað án slíkrar vitneskju, veit að lúðrar Almannavarna blása ef eitthvað stórhættulegt gerist, hitt er bara hræðsluáróður sem á að fá mig til að kaupa ákveðna tegund tannkrems. Sem betur fer var talstöðin í botni, Ástu reyndar til mikils ama, og það mátti heyra: „Leið 19 á Hlemmi, viltu bíða eftir númer 6 í Ártúni,“með ýmsum tilbrigðum. Þetta varð MIKLU léttbærara ef maður tók leyniþjónustuna á þetta: „Hættustig 19, hættustig 19, á Hlemmi, hér pissa 6 menn algjörlega óleyfilega, mjög líklega Árbæingar.“ Já, þetta var léttbærara!

Gula gellanSkil varla hvernig við Sigþóra komumst upp Súkkulaðibrekkuna fyrir kulda en hún var í kuldaúlpu, ég var kúl í þunnri, síðri regnkápu en allar úlpur bæjarins (í búðunum) ná ekki einu sinni niður á rass og ef ég kaupi mér vetrarúlpu þá vil ég að hún nái minnst niður á mið læri, það er ekki nóg að vera bara hlýtt niður að mitti. Sem betur fer fann ég grænt og hallærislegt, eldgamalt eyrnaskjól ofan í tösku þegar ég leitaði að leðurvettlingunum frá Möggu. Hverníg mér gat dottið í hug að fara í gulan, stutterma sumarbol undir peysuna í morgun mun ég ekki geta skilið og í þokkabót gleymdi ég að setja grænu, glitrandi hálsfestina frá Áslaugu um hálsinn á mér. Þetta hlýtur að vita á góðan dag!


Ævintýrahöfuðborgin

HH á ísskápnumHvað er Hermann Hreiðarsson að gera á ísskápnum mínum?“ spurði ég erfðaprinsinn skömmu eftir heimkomu í dag. Ég tók allt í einu eftir því að einn flottasti íþróttamaður landsins glápti illilega á mig þegar ég var að búa mér til kaffi. Fátt varð um svör en ég kvarta ekki. Hann er orðinn ósköp skrautlegur ísskápurinn, m.a. nokkrar myndir af sjálfum erfðaprinsinum frá því hann var lítill og sætur. Nú er hann bara sætur. Hilda er þarna líka og Elvis Presley.

Stærsta hús í heimiVið Inga byrjuðum í Rúmfatalagernum í Smáratorgi og ég gekk út með fjögur teppi. Tvö svo hroðalega ódýr að það hefði verið bjánalegt að kippa þeim ekki með. Við fórum með fenginn út í bíl og svo var gengið yfir bílastæðið til að kíkja á nýju leikfangabúðina í stærsta húsi í heimi sem verið er að byggja í Kópavogi. Við vorum  báðar svo fátækar þegar börnin okkar voru lítil að okkur datt í hug að bæta þeim upp æskuna núna þegar við erum orðnar svona ríkar ...  Hvorug okkar er orðin nógu gömul til að verða amma þannig að við höfðum eiginlega enga afsökun fyrir því að ganga í gegnum búðina. Þarna var eitthvað um tómar hillur og heilmikið um börn með blik í auga.
 

Kommóðan guðdómlegaÁður höfðum við kíkt inn í Pier, nýja búð við hliðina á Toys-búðinni, sem opnaði í gær. Hún er óhugnanlega flott, eiginlega bara sjúklega æðisleg! Verðið á sumu þarna var líka ansi gott og þá er ég ekki að tala um hátt. Án þess að hafa ætlað að kaupa nokkuð féll ég kylliflöt fyrir míní-kommóðu án þess að vera mikið fyrir mínídót. Litirnir á skúffunum heilluðu mig algjörlega. Það kemst ansi lítið í skúffurnar, verð að viðurkenna það, varla eldspýtustokkur ... en erfðaprinsinn, stórhrifinn, sagði að hlytum að finna not fyrir þetta með tímanum. Hann fékk stórt og þykkt og grátt flísteppi úr RL, mitt teppi var svart og hvítt og fínrósótt, hrikalega mjúkt. Ódýru teppin voru ekki svo slæm heldur.

Það var alltaf eitthvað í gangi alla bæjarferðina. Ég sá t.d. lögguna í slag við skátaflokk, virtust vera mótmæli, og allt voða spennandi, blikkandi ljós og íslenski fáninn á fleygiferð, en Inga vildi meina að skátarnir væru bara í skrúðgöngu og löggan að liðka fyrir umferðinni. Mér finnst mín saga betri. Svo var haldið í Taco Bell sem er til húsa í KFC í Hafnarfirði, það vissi ég ekki. Inga valdi, enda vön, pantaði og borgaði sem var voða kósí. Virkilega góður matur og við drukkum fjalladrykk með.

Enn eitt ævintýriðÞað var ekkert lát á ævintýrunum. Á leiðinni í Taco Bell létum við þvo bílinn og fórum í gegnum nokkur æsispennandi stig á bílaþvottastöðinni. Skvettustigið, árásarstigið, bládraugaganginn, gardínustigið og í lokin Kjalarnes í hviðum-stigið.

Tók með mér Mary Higgins Clark-bókina til að lesa í strætó á heimleiðinni sem reyndist vera algjör óþarfi. Inga ákvað bara að skutlast á Skagann með teppin og kommóðuna og ég fékk að fylgja með, heilir tveir tímar í strætó frá Mosó ... sem hún vissi ekki, þannig að þetta voru bara helber almennilegheit hjá henni.


Frábær byrjun á föstudegi ...

Mikið var hressandi að taka loksins strætó og rifja upp hvað Skagamenn, og þá aðallega strætófarþegarnir, eru skemmtilegt fólk. Tommi kom okkur öllum heilum í höfn og lék á als oddi. Mikið er Rás 2 skemmtileg á morgnana. Tommi skammaði mig að vanda fyrir glyðrugang með Ástu ... einkabíladæmið þarna undanfarna morgna. Ég "séðogheyrtaði" hann sem þaggaði niður í honum. Nú hefur hann eitthvað að gera í pásunum sínum í dag.

Mmmmm latteInga beið okkar Sigþóru við rót Súkkulaðibrekkunnar og skutlaði okkur upp hana. Þegar við héldum frá Rekstrarvörum eftir að hafa skilað Sigþóru af okkur hugsaði ég upphátt: "Ó, hvað mig langar í kaffi!" !Ókei," sagði Inga og við skutluðumst niður í bæ, beint í Kaffitár í Bankastræti sem opnar 7.30. Krossant var keypt og ilmandi latte með 150°F heitri mjólk. Sem sagt heitri mjólk en ekki sjóðandi logsuðuheitri. Bylgjan var á hjá Ingu og það var eins og við manninn mælt ... verið var að tala um hýsil í vatnsbólum ... einhvern slíkan viðbjóð, eins og síðast þegar ég hlustaði, en þá voru það litlu kvikindin sem halda til í uppi í rúmum landsmanna. Ef ég hlusta ekki á svona útvarpsefni get ég auðveldlega gleymt því að ég hef kannski milljónir hjásvæfa (sem er nú nokkuð vel af sér vikið þar fyrir utan). Rás 2 spilar bara ljúf lög sem fá mann til að lyngna aftur augunum og vera hamingjusamur. Þetta er sko allt sagt með fullri virðingu fyrir elskunum á Bylgjunni, þau eru æði. Nema þegar Heimir opnar munninn um reykingafólk, Tíu litlir negrastrákar hvað!!!

HarðskafiJá, ég kláraði Arnald í gær og var einstaklega ánægð með bókina. Arnaldur er með fína fléttu og gaman að sjá hvert púsl í gátunni lenda á sínum stað smám saman. Ég horfði bara á House og gat eiginlega ekki slitið mig frá Life on Mars, enda líklega síðasti þátturinn. Sofnaði um miðnætti sem er samt allt, allt, allt, allt of seint. Bæti mér það upp um helgina. Sigþóra sagðist afa komið móð og másandi út á stoppistöð og næstum sofið yfir sig í morgun. Hún hafði 20 mínútur til stefnu. Ég hló nöturlega, enda hafði ég bara sjö mínútur. Sem betur fer tók ég fötin mín til í gærkvöldi og hárið var ekki allt út í loftið þótt ég hafi eiginlega sofnað með það blautt (ég las auðvitað Arnald í baði). Ekkert kaffi, bara klæða, bursta og út! Samt var ég rosalega sæt, Tommi hafði einmitt orð á því í morgun, eða hefði gert kynni hann að koma fram við kvenfólk. Þegar ég gaf honum Séð og heyrt sagði ég honum að Jói Fel væri svona maður sem kynni þá list, eins og vísað er í á forsíðunni, en Tommi hnussaði og sagði að Jói væri smjaðrari ... hahahhaha. Held að þegar Tómas fer næst á konuveiðar taki hann lurk með sér, roti eina huggulega og dragi hana á hárinu inn í helli sinn. Hún fær eflaust eitthvað gott að borða því að Tommi er með súrtunnu úti á svölum á hellinum sínum!


Með Arnald í bláum plastpoka

Við Kjalarnes kl. 17.05 í dagÞað bærðist varla hár á höfði okkar Ingu á leiðinni á Skagann rétt fyrir fimm, kannski af því að við sátum inni í lokuðum bíl. Við göngin mættum við svo miklum fjölda bíla að við héldum að það væri verslunarmannahelgin. Nei, þá höfðu tveir risabílar, þungfærir og hægir, ekið löturhægt í gegnum göngin og safnað öllum bílunum á eftir sér. Þeir voru eins og hoppandi beljur sem verið var að hleypa út í fyrsta sinn eftir veturinn. Tók mynd þar sem við vorum fyrir aftan strætó á Kjalarnesinu í dag. Þarna beygir þessi elska inn í hverfið (örugglega Elli) og hann mætir senn vagninum frá Akranesi, kannski Tomma?

Með okkur í för var nýja bókin hans Arnaldar í bláum plastpoka og nú skal lesið ... mig langar ótrúlega mikið til að klára hana í kvöld. Held að erfðaprinsinn muni gera allt til að halda mér að lestri svo að hann geti dottið í hana á morgun. Bókin byrjar vel og fyrsta (kannski eina) morðið komið ... eða mig grunar að það sé morð þótt það sé látið líta út fyrir að vera annað ...

Sá svo að hviðurnar voru komnar í 33 m/sek (úr 27) þegar Inga hélt í bæinn aftur. Strætó gengur ekki í slíkum rokum. Vona að það verði rólegheitaveður í fyrramálið þegar ég tek strætó ... í fyrsta eða annað skiptið þessa vikuna. Þetta heitir strætóvanræksla! Allt Ástu að kenna ...

Svona veður á allraheilagramessu veit á kaldan og íhleypingasaman vetur.


Í dag er glatt í þakklátum hjörtum ...

Algjörlega sviðsett myndSpölur reyndi án árangurs að nappa okkur Ástu fyrir of hraðan akstur í göngunum og voru búnir að setja upp þriðju myndavélina! Allt kom fyrir ekki, við fórum ekki yfir 70! Lentum líka í svívirðilega spennandi ævintýri á leiðinni ... rúðupissið kláraðist og salt flæðandi yfir framrúðuna. Við hefðum alveg eins getað verið með lokuð augun þessa metra sem voru að næstu bensínstöð. Á bensínstöðinni var Georg Bjarnfreðarson að vinna (þetta skilja þeir sem horfa á Stöð 2 á sunnudagskvöldum). Af því að við vorum svo fáránlega sætar hreytti hann ekki miklu í okkur, bara því að fólk notaði almennt of mikið rúðupiss. Við vorum svo þakklátar og glaðar í hjörtum okkar ...  Ásta fyrir að eiga ekki svona mann og ég fyrir að eiga ekki mann.

Sulla mjólkÉg var langfyrst í vinnuna, komin um 7.40, og dúllaði mér við að „skipta á“ kaffikönnunni (henda bláa pokanum með korginum, bæta við kaffibaunum og solles) og til að losna nú við allt sull henti ég rörinu af öllum litlu G-mjólkurfernunum svo að fólk noti nú skærin til að opna fernurnar ... MorgunkaffiðMér finnst þetta bara eðlilegt. Það fer alltaf jafnmikið af G-mjólkinni útfyrir eins og fer í bollann og það er pirrandi ...

Hafið það svo hrikalega gott í dag, „isskurnar“, og njótið þess í tætlur að drekka morgunkaffið ... morgunteið ... morgunkókómjólkina ... hvaðeina sem kemur ykkur í gírinn.


Stórtónleikar Ástu og sofandi sauðir

The WallFórstu EKKI á Roger Waters-tónleikana?“ öskraði Ásta á mig rétt upp úr sjö í morgun. Forsaga málsins: Ásta sendi mér BDSMS (Bjargar Deginum SMS) eldsnemma og sótti mig kl. 7 að himnaríki. Þegar við beygðum inn á Garðabrautina hófust tónleikar úr geðveiku hljómflutningstækjunum í flottu drossíunni. The Wall, jessss! Rétt áður en Ásta hækkaði gat ég sagt henni að ég hefði séð myndina The Wall svona sjö sinnum í bíó, tvisvar í vídjó og einu sinni í sjónvarpinu ... já, og þyrfti svo að eignast hana á DVD. Í Mosó vorum við farnar að tala aðeins saman og Ásta sagði Roger Waters-tónleikana þá bestu EVER, samt fór hún líka á Metallicu-tónleikana. Þegar ég viðurkenndi að hafa ekki farið gargaði hún. „Hva, ég nenni ekki ein á tónleika, hvað þá bíllaus,“ reyndi ég að afsaka mig en Ásta horfði stjörf af hneykslun fram á veginn. Friðarsúlan sást ekki sem útskýrir kannski lætin í henni. Svo þegar hún ók frá Lynghálsinum í áttina að Landspítalanum heyrði ég að hún hækkaði allt í botn. Ásta er töffari.

Umferðin í Kollafirði í morgunMig langar að senda bílstjóranum á sérkennilega, ameríska (en frekar litla) bílnum sem var á ferð á Kjalarnesi og fór niður í Kollafjörðinn um kl. 7.15 í morgun fokk jú-kveðju fyrir að keyra á 70 og safna bílaröð fyrir aftan þig. Gaurinn á litla sendiferðabílnum á Vesturlandsveginum milli Mosó og Rvíkur sem hélt sig vinstra megin, einmitt á 50-70 km/klst við hliðina á trukknum á hægri akrein, fær líka mergjaðar kveðjur.


Hetjan Inga og viska Hallgríms ...

Bjartur og vitlaust veður 22.10.07Vitlaust veður við himnaríki kl. 16.30, ætlaði varla að komast út úr bílnum hennar Ingu, hvað þá þennan stutta spotta upp að dyrum. Reyndi að dekra hana á ýmsan hátt til að koma inn (kjúklingur í kvöldmat, leggja sig í leisígörl) og bíða af sér það versta en hún vildi halda í bæinn. Hetjan. Þannig að hún situr ein að björgunarsveitarmönnunum, dúllan, krúttið. Buxurnar mínar urðu gegnblautar þegar ég hljóp inn í Rekstrarvörur og sótti Sigþóru. Hún fékk að hætta aðeins fyrr til að ná heim.
Hviðumælirinn í Mosó sagði 26 m/sek á Kjalarnesi en engin viðvörun var vegna Hafnarfjalls. Í útvarpinu heyrðum við að hviðurnar þar færu upp í 40 m/sek. Mælirinn hefur kannski fokið.

Ávaxtamarkaður í EinarsbúðÍ göngunum endursagði ég það sem Hallgrímur læknir talaði um í morgunþættinum á Rás 2 undir átta í morgun. Aldrei hef ég heyrt að maður ætti ekki að tannbursta sig með flúortannkremi ... það dregur víst úr virkni joðs, skjaldkirtillinn starfar því ekki rétt ... bla, bla ... og maður brennir hitaeiningum. Hann talaði líka um nauðsyn þess að borða ávexti á morgnana, helst á 40-60 mínútna fresti fram að hádegisverði. Þá fær maður sér ekki kartöflur með fiskinum eða kjötinu, heldur grænmeti. Ég hlýddi því í hádeginu og borðaði ítalskar kjötbollur með salati. Síðan á ekkert að borða eftir c.a. 5, 6 á kvöldin. Rangt mataræði sljóvgar og býður heim sjúkdómum og orkuleysi, sagði hann.

Hallgrímur læknir er eini læknirinn sem hefur vottorð frá landlækni um að hann sé heill á geði, það kom líka fram í þættinum. Fyrir 15 árum sagði hann að sykur væri fíkniefni, þá var hlegið að honum. Fáir hlæja núna, allra síst ég þar sem ég berst við djöfullegar freistingar á leiðinni upp Súkkulaðibrekkuna á morgnana.

Elskan hann Bjartur fer heim á morgun. Hans verður sárt saknað (ekki af Kubb sem hvæsir á hann ef hann kemur nálægt). Hann er svo góður. Myndin að ofan er af honum, ekki Tomma. Þeir eru svo líkir. Svaka gaman fyrir Míu og Sigþór að hafa farið á West Ham leik þar sem hetjurnar sigruðu, 3:1. Hlakka til að heyra ferðasöguna.  


Hrekkir og fyrirhuguð hetjudáð krútts

Að hrekkja fólk getur verið góð skemmtun. Að hrekkja konur inni á kvennaklósetti er enn betri skemmtun. Kíkið á þetta:

http://break.com/index/absolutely-hilarious-bathroom-mirror-prank.html Veðrið er heldur betur að færast í aukana. Kíkti á hviðumæli Vegagerðarinnar og það hvessir hratt: http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/faerd-og-astand/faerd-og-vedur/sudvesturland/linurit/st036.html  (refresh-aðu fyrir nýjustu upplýsingar)

Hringdi í Ingu áðan til að tékka á hugrekki hennar og hún hlakkar bara til að fara í óvissuferð út í brjálaða storminn. Algjör hetja þessi manneskja. Hún var reyndar óhress yfir því að ég kallaði Sigþóru krútt í fyrsta bloggi dagsins en ekki hana. Reyndi að útskýra fyrir henni að sönn krútt ættu ekki bestu stundir sínar í húsbyggingaverslunum. Þetta er hér með tekið aftur. Inga er krútt.

 

 


Bílstjórar í biðröð, brjóstsykurslykt og stormur í vændum ...

Gvendur HafnfirðingurFerðin í morgun var ljómandi fín þrátt fyrir blikkandi rautt ljós og hávært aðvörunarhljóð úr mælaborði strætó. Líklegt að aðvörunarkerfið hafi bilað því vagninn malaði eins og köttur og skilaði okkur rúmlega heilum á húfi í bæinn. Tommi er lasinn og Gvendur Hafnfirðingur kom alla leið frá heimabæ sínum í morgun til að leggja af stað frá Skrúðgarðinum 6.41 og skutla okkur í bæinn. Svona erum við nú æðislegir farþegarnir á Skaganum að bílstjórar alls staðar af á landinu bíða í röðum. Hélt að svona hörkunaglar og víkingar eins og Tommi, sem leggja sér magála, súrt slátur, hrútspunga og ísbirni viljandi til munns, veiktust aldrei. Hann hefur kannski farið í matarboð í gær og fengið pasta.

Vont veðurVeðrið var æðislegt á leiðinni ... en þá á nú eftir að breytast þegar líður á daginn, búið er að spá stormi, takk fyrir. Kannski kemur Sigþóra með okkur Ingu upp á Skaga seinnipartinn, reyndar detta við það möguleikarnir á því að grípa sér sætan björgunarsveitarmann til eignar niður í 33.33 prósent, ja, ef ekki niður í 10 prósent, Sigþóra er svo sæt og mikil dúlla. Við Inga erum vitanlega MJÖG sætar líka en líklega engar dúllur. Dæmi: Til að gleðja Ingu þá er best að gefa henni borasett eða vélsög. Hún þekkir alla í BYKO og Húsasmiðjunni með nafni og hikaði t.d. ekki við að hringja í framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar til að fá góða uppskrift að steypu. Það stóð nefnilega ekki aftan á sementspokanum: 2 msk sement, 1 dl vatn, 1 msk sandur. Kannski er Sigþóra engin dúlla og sýnir bara á sér sparihliðina í strætó. Ja, það kemur í ljós í dag.

Verulega blaut rigningÉg ákvað að stríða Sigþóru á leiðinni og spurði hana sakleysislega hvernig hundslappadrífusagan hennar hljómaði. Systir hennar kom með þessa hugmynd í kommentakerfinu á dögunum. Sigþóra sagðist hafa ætlað að útskýra það fyrir manneskju sem ekki vissi hvað hundslappadrífa væri: "Það er svona blaut rigning," og systur hennar hafa strítt henni á þessu síðan.

Brjóstsykurslyktin var að drepa okkur á leiðinni upp kúlurass-(súkkulaði-)brekkuna og Sigþóra sagði að það hefði verið verra um daginn, en þá var verið að búa til lakkrís! Mér finnst líklegt að við mætum einhvern morguninn í Nóa Síríus ... með lambhúshettur á höfði, betlipoka og biðjandi augnaráð.

Algjör synd að Árbæingar hafi fengið að stela leið 18 sem áður gekk upp súkkulaðibrekkuna, það kostar okkur Sigþóru ekki bara mæði, heldur þurfum við líka að standast mismunandi freistingar á hverjum degi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 853
  • Frá upphafi: 1515948

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 715
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband