Færsluflokkur: Ferðalög

Slátur, ófærð, ævintýri og "bóndar" ...

Slátur„Fuss og svei,“ sögðu tvær Viku-stelpur undir hádegi, það var nefnilega slátur í matinn. Áhrifagjörn er ég ekki þegar kemur að slátri og í matsalnum beið líka dásamlegur matur! Lifrarpylsa, blóðmör, rófustappa og uppstúf með kartöflum. Þetta bjargaði algjörlega annasömum degi og þeir sem „lögðu í“ slátrið urðu mun hamingjusamari á svipinn eftir matinn en meinlætafólkið sem fékk sér af salatbarnum. Það var ekki bara slátrið sem bjargaði deginum, heldur kíkti Guðmundur almáttugur, bloggvinur vors og blóma, í örheimsókn og kyssti örþreytta bloggvinkonu sína í lok vinnudags.

AnnaVið Erla (borgarstjóraakranessdóttir) vorum svo heppnar að elsku vélstýran okkar skutlaði okkur í Mosó eftir vinnu þar sem bíll Erlu beið, pikkfastur á bílastæðinu. Við reyndum að ýta spólandi tryllitækinu án árangurs, ég hljóp meira að segja í Bónus og keypti kattasand sem dugði þó ekki til. Mosóstjórnvöld mættu hugsa meira um mokstur á bílastæðum ... segir Skagamærin ... hummmm , og kastar stórgrýti úr gróðurhúsi þar sem meira mætti vera um mokstur hér líka ...

Fastir jepparGummi strætóbílstjóri gargaði hæðnislega á okkur út strætó og sagði að við ættum ekki að fara á þessari smádollu upp á Skaga, það væri bæði hvasst og hált á leiðinni. Við hlustuðum sem betur fer á hann, settumst upp í heitan og þægilegan strætóinn og ákváðum að láta Gumma sjá um stressið við aksturinn. Honum fórst það líka vel úr hendi og bjargaði okkur á snilldarhátt þegar lítill fólksbíll stoppaði snögglega á miðjum vegi fyrir framan okkur, skömmu fyrir göng. Sá bjó sig undir að beygja til vinstri og munaði minnstu að hann fengi heilan strætó aftan á sig. Svona er að spara stefnuljósin. Við horfðum líka hrelld á nokkra JEPPA utanvegar, ég sem hélt að jeppar kæmust allt. Fólksbílaliðið á vanbúnu bílunum hefur greinilega haldið sig fjarri Vesturlandsvegi. Gummi sagði okkur að annar Skagastrætóinn (alltaf tveir í fyrstu ferð, hinn fór aðalleiðina út úr bænum í morgun) hefði fest sig á Innnesveginum í morgun og þess vegna var löggan á staðnum til að hrekja okkur til baka. Gummi tók svo farþegana með í bæinn í 7.41 ferðinni klukkutíma seinna.

Ellý, Halldóra og KubburVeðrið var mun verra norðanmegin rörs í kvöld og sást varla á milli stika, klikkuð hálka og mikið rok og skafrenningur. Hoppaði tindilfætt en þreytt eftir að hafa hjálpað Gumma að halda sér á veginum með því að gera mig stífa, út á Garðabrautinni.

Svarti bíllinn fyrir aftan strætó flautaði á mig ... þetta var elskan hún Ellý, bráðum amma, að koma úr gufu og skutlaði mér þessa tuttugu metra heim. Eftir góðan latte er ég að komast til meðvitundar. Vona að ég nái að halda mér vakandi fram yfir Útsvar ...

 Elsku strákar, nær og fjær til sjávar og sveita. Hugheilar hamingjuóskir með bóndadaginn! (Í DV í dag er auglýsing sem segir: Bóndar, til hamingju með daginn ...)


Akranesi-Rvk ... hetjudáð Ástu í klikkaðri ófærð

Bíll við bíl við bíl við bílSko, ég veit að ég hef ýmist kallað Ástu kaldlynt karlrembusvín eða góðlynt geðprýðikvendi , svona rétt eftir skapinu sem ég er í og hvernig það passar inn í pistlana. Ég hef held ég aldrei kallað hana hetju, þótt hún eigi það vissulega skilið, sérstaklega eftir ævintýri morgunsins. Við vorum "seint" á ferð frá Akranesi, eða lögðum í hann 6.50 skv. áætlun.

Á Innnesvegi, rétt áður en við komum að samkomuhúsinu Miðgarði (ekki í Skagafirði) sáum við blá lögguljós ... æ, æ, ætli hafi orðið óhapp? Afspyrnusætur lögreglumaður kom að bílnum, horfði með aðdáun á okkur, alla vega Ástu, hún er svo grönn, og sagði okkur að það væri lokað, bílar festust bara í sköflum og svona. Nú, við snerum við og ákváðum að fara aðalleiðina út úr bænum, ekkert heim að sofa aftur kjaftæði. Það var ansi blint á leiðinni og brjálæðingurinn sem fór fram úr okkur áttaði sig of seint á mistökunum því að nú gat hann ekki lengur notað okkur sem þrautakóng, heldur við hann.

Svona var umferðin í morgun ... perla við perluSem betur fer var ákaflega veðursælt í Hvalfjarðargöngunum og ögn minna óveður virtist vera sunnanmegin rörs. Við sáum nokkra bíla sem höfðu ekið út af á leiðinni og svo urðu útvarpsmenn Bylgjunnar alltaf ákveðnari í því að fólk ætti hreinlega að halda sig heima. "Of seint," hvæsti Ásta milli samanbitinna tannanna og munnurinn varð eins og herptur handavinnupoki, þétt reyrður. Ekki var Gurrí, samferðakona hennar, mikið skárri á svip, varirnar hugsanlega ögn kyssilegri, og hringdi í örvæntingu sinni í Björk samstarfskonu sína. Samdi um að verða hirt upp á Miklubrautinni á strætóstoppistöðinni við Kringluna. Guðríður vissi sem var að Ásta væri hetja en grunaði engan veginn að hún þyrði upp í Árbæ of oll pleisis í svona veðri, þar verður alltaf ófært í hvelli ... (spæling dagsins var ætluð vélstýrunni) en hetjulundin efldist í hjarta hennar eftir að hún heyrði að ég gerði ráð fyrir að hún kæmist ekki nema Vesturlandsvegur-Miklubraut-Hringbraut-Landspítali. Ég fékk far upp að dyrum. Af því að ég er ekki kvikindi þá lét ég Björk vita ... annars myndi þessi góðlynda og samviskusama samstarfskona mín láta hefja leit að mér í kringum stoppistöðina við Kringluna, eins og það sé ekki nóg að gera hjá löggum og björgunarsveitum núna.

"Vá, en falleg glitrandi perlufesti," sagði ég dreymin á svip og horfði ofan af brúnni sem liggur upp í Árbæ. "Þetta er ekki perlufesti," sagði Ásta greindarlega, "þetta er óendanleg röð bíla. Það eru bílljósin sem rugla þig í ríminu," bætti hún samúðarfull við. Vá, eins gott að við vorum svona snemma á ferð. Ásta bjóst við hálftíma ferð frá Hálsaskógi niður á Landspítala. 

Svona var þetta framan afPrófarkalesararnir buðu mér kaldhæðnislega góða kvöldið, þegar ég mætti rúmlega átta, þær "löngu" komnar. Ég hef alveg gleymt að hæða þær undanfarið þegar þær mæta á eftir mér en ég mun ekki klikka á því í framtíðinni ... Gulla var um 45 mínútur á leiðinni úr Hafnarfirði en náði samt að verða á undan mér. Nú er það bara stóra spurningin ... Hvernig kemst ég heim á Skagann í kvöld? Best að tékka á annarri hetju, Erlu minni sem vinnur í sama húsi ... skyldi hún hafa lagt í hann í morgun, sko? Annars tek ég við tilboðum frá einlægum aðdáendum sem vilja appelsínusúkkulaði úr mötuneytinu og eru á leið á Skagann eftir kl. 17 í dag og langar í fallegan og vitsmunalega örvandi félagsskap. Ásta verður löngu komin heim, vonandi, hún ætlar að halda upp á afmælið sitt með öðru afmælisbarni og skemmtilegum vinkonum til áratuga.

Mér hefur verið fagnað eins og hetju í vinnunni í morgun, samstarfsfólkið heldur líklega að ég búi á Sauðárkróki eða Hafnarfirði eða þekki ekki fólk með hetjulund og bílpróf ...


mbl.is Fólk haldi sig heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strætóbílstjóri í stuði, elding og kvikindisleg kaffimóðgun

Aukabílnum í morgun ...Við Ásta lögðum af stað nokkru fyrr en vanalega í morgun, eða kl. 6.40 um miðja nótt, og kipptum Sigþóru með okkur við íþróttahúsið. Það var lærdómsríkt að lenda fyrir aftan aukabílinn sem við náðum í skottið á skömmu fyrir göng. Hann hleypti sem betur fer engum fram úr sér þegar úr göngunum var komið, eins og stærri bílar gera gjarnan, heldur hélt sig á báðum akreinum alveg þar til mjókkaði í eina. Enda ók hann alveg nógu hratt fyrir þá sem fyrir aftan komu. Það var frábært að hafa svona stóran og traustan bíl fyrir framan okkur sem stjórnaði hraðanum á Vesturlandsvegi. Hélt að aukabílstjórinn hefði samt nóg með að ala upp farþegadruslurnar sem geta aldrei að þeir eigi að fara út að aftan, líka þeir sem sitja fremst, og að hann stoppi ekki fyrir neinum nema viðkomandi hringi bjöllunni. Við Grundahverfið á Kjalarnesi neyddumst við til að halda áfram þjóðveginn þótt aukabíllinn tæki krók eftir farþegum og beygði inn. Í kveðjuskyni æfði bílstjórinn Ástu í viðbragðsflýti með því að hægja hratt á sér þarna á þjóðveginum og gefa ekki stefnuljós. Ásta var að drepast úr þakklæti, svona bílstjórar eru ekki á hverju strái.

Þegar við vorum alveg að verða komnar inn í Reykjavík lýstist himinhvolfið upp. Við urðum óvænt aðnjótandi þess mikla heiðurs að upplifa sjaldgæfa eldingu! Loksins! Eldingin veit eflaust á að þetta verður dagur hinna miklu dugnaðar- og afkasta!

Kaffi í götumáliÁ heimleið í gær, nálægt kl. 17, stakk hin kaffiþyrsta Ásta upp á því að við kæmum við í Mosfellsbakaríi og keyptum kaffi í götumáli. Ekki óraði okkur fyrir því að skömmu síðar myndum við stynja af gleði og ánægju yfir velheppnuðum latte. Ásta ofurkurteisa lýsti því yfir í næstu klukkutíma samfleytt að þetta væri sko miklu, miklu betra kaffi en það sem ég færði henni á morgnana úr vélinni minni og það var ekki fyrr en í Kollafirði sem henni datt í hug að spyrja hvort ég væri nokkuð móðguð. Ég sagði mjög, mjög kuldalega að smekkur fólks væri misjafn, hún hefði verið afar kaffiþyrst skömmu áður, kaffið hefði verið vel heitt og hlýjað henni á ísköldum höndum og svona, hún væri líka vön bráðdrepandi viðbjóðslegu sjúkrahúskaffi á Landspítalanum o.s.frv.. Nei, ég væri ekkert móðguð. Kannski bara óvön því að fólk segði svona beint við í mig að ég væri feit ...


Strætó í æð ...

Elsku elsku strætó á HlemmiSvo langt er síðan ég tók strætó síðast að ég gat ekki hætt eftir eina ferð, heldur ók með fjórum vögnum í morgun um ég veit ekki hvað mörg póstnúmer. Heimir var að keyra leið 27, þessi elska (Tommi er á seinni vakt) og Ásta sat fremst og gætti sætis míns eins og sjáaldurs augna sinna. Mjög margir ágirntust víst sætið á leiðinni Skrúðgarður - Garðabraut sem telur bara fjórar stoppistöðvar með endastöðinni. „Ég hélt að þú værir bara hætt að taka strætó,“ sagði Heimir vonleysislega, enda hinir farþegarnir örugglega óbærilega leiðinlegir, vanalega steinsofandi alla leið. „Ég er ekkert hætt að taka strætó, krúttið mitt,“ svaraði ég og hugsaði um vetrarfríið sem Ásta fer í í byrjun febrúar. Vonandi verður gott veður, sól og blíða á meðan. Held að Heimir sakni þess að gaf bílstjórunum alltaf Séð og heyrtið mitt á miðvikudögum þegar ég var búin með það. Eftir að Ásta fór að bjóða mér far hafa þeir þurft að horfa sorgmæddir út í buskann í hléunum sínum.

Efst í Lúmsku brekkunni í ÁrtúniFór alla leið í Ártún með Heimi á leið 27 og þar beið aukabíll leiðar 6 sem fór með mig niður á Lækjartorg. Ég var í mjög áríðandi erindagjörðum, þetta var ekkert rúntkjaftæði. Líkamsrækt dagsins kom þegar ég næstum hljóp upp Bankastrætið og náði að verða kúnni númer 2 í biðröðinni hjá Kaffitári. „Tveir latte út, mjólkin 150°F, engin froða, takk,“ sagði ég á starbökksku kaffimáli. Tek fram að hitamælar á kaffihúsum eru vanalega á Farenheit, ekki Celsius. Þetta er heitt kaffi en ekki sjóðandi viðbjóður! Ég horfði nokkuð stressuð á klukkuna ... sem vantaði 13 mínútur í átta ... hljóp niður Bankastrætið með límt fyrir drekkugötin á bollunum og nýbökuðu múffuna á milli þeirra í plastpokanum. Leið 1 var búin að koma við á stoppistöðinni á Lækjargötu og var stopp við ljósin. Ég horfði hundslegum bænaraugum á bílstjórann sem opnaði fyrir mér, þessi elska. Hans verður minnst í bænum mínum, Akranesi ...

Auðvitað náðum við upp á Hlemm á mettíma, en kl. 7.59 átti leið 18 að vera þar. Hann er aðeins á hálftímafresti núna og þessi áður kúffulli strætó var tómur næstum alla leið, enda hættur að fara Höfðana, næstum að Vogi, og svo upp Súkkulaðibrekkuna á leið sinni í Grafarholt ... hann dúllar bara mannlaus um Árbæinn, þar sem alla vega tveir strætisvagnar á annarri leið eru fyrir! Vona að við Skagamenn lendum á móti Reykjavík í átta liða úrslitum Útsvars þá get ég beðið Gísla Martein að redda þessu ... annars hætti ég að vera aðdáandi hans.

Strætó, strætóBílstjórinn á leið 18 er fyrrum bóndi úr Landeyjunum. Sonur hans tók við búskapnum og karlinn dreif sig bara í strætóakstur í bænum! Nú, hvernig veit ég þetta? Ég og bílstjórinn bonduðum þegar ég rétti honum appelsínugulan og gamaldags skiptimiða ... mjög afsakandi á svip. Sagði honum að við værum bara með svona skiptimiða í Skagavagninum. Hann fylltist áhuga á mér, held ég örugglega, og spurði mikið hvernig Skagastrætó gengi og hve lengi við værum á leiðinni, hversu margir farþegar og fleira. Á Snorrabrautinni vorum við orðin mestu mátar. Þrátt fyrir spjall horfði ég vel í kringum mig, enda langt síðan ég hef rúntað um Reykjavík í strætó.

Við töluðum eins og verstu utanbæjarmenn, hneyksluðumst á akstursmáta borgarbúanna, máttum nefnilega horfa upp á árekstur á Bústaðavegi rétt fyrir ofan kirkjugarðinn og sáum líka lögguna stoppa gamlan mann á rauðum bíl, mögulega fyrir of hægan akstur ... hver veit, en það var nú bara í nösunum á okkur. Sjálf hef ég búið lengur í Rvík en annars staðar og fædd þar og bílstjórinn talaði mikið um að ökumenn væru eiginlega allir afar liðlegir við strætóbílstjóra.

Þessi aukahringur minn í morgun tók u.þ.b. klukkutíma en mikill og langur annadagur er fram undan í dag, þurfti að hefja hann vel með sjúklega góðu latte-i og nýbökuðu súkkulaðimöffins ... enda er ég full af orku núna. Held að strætó í æð hafi líka gert mér gott.

Veit einhver hvernig maður finnur slóðina að nýju vefmyndavélinni í Eldey? Er orðin þreytt á að vera á Kötluvaktinni í öllum frístundum mínum, langar til að fylgjast með bí-bí núna, vonandi líka brimi ef vefmyndavélin er skemmtilega staðsett! Afar misheppnað að segja fréttir af vefmyndavél en ekki hver slóðin að henni er! Mistök, mistök ...


Morðfýsn í morgunsárið ... eða bara geðillska?

Árbæ í morgun ...Ferðin í bæinn gekk bara ansi vel í morgun ... Við bjuggumst við hálku en henni var ekki fyrir að fara nema í Árbænum og ... reyndar smá á Akranesi þar sem aldrei er saltborið. Ásta hafði miklar sögur að segja frá ófærðinni í gær, skafrenningnum, hægfara umferð, ísmanninum ógurlega og fleira og ég var dauðspæld yfir því að hafa ekki verið með. Í gær var frábært veður á Skaganum á meðan björgunarsveitarmenn voru kallaðar út á Suðurnesjum og skaflar mynduðust í Árbæ sem segir að best sé að búa á Akranesi. 

Slæmar stellingarVarúð - geðillskubloggbútur: Annað hvort situr nýr sölumaður í sætinu mínu á kvöldin hér í vinnunni eða þessi gamli hatar mig. Ég fann fyrir sjaldgæfri geðillsku, eða mögulega morðfýsn, þegar ég settist við skrifborðið mitt áðan. Sölumannskvikindisdruslufíflsauminginn var búinn að snúa upp á símasnúruna (þessa frá tóli að tæki) þannig að ekki var hægt að lyfta tólinu nema allt færi í klessu, hafði greinilega varið heillöngum tíma í að gera símann minn ónothæfan ... þar til ég lagaði hann, og hann var líka búinn að festa stólinn minn í ömurlegri stellingu, sjá bæði efri og neðri myndir til hægri. Svoleiðis stellingu. Ritstjórinn á skíðumÉg þarf að skrifa honum aftur og biðja hann um að skilja við skrifborðið og stólinn eins og hann kom að því! Annars ...

Ný Vika var að koma í hús, fer líklega í sjoppur á morgun, aðallega hinn ... óxla flott blað. Vona að þið hamist við að kaupa blaðið áfram ... þar sem ykkar einlæg ritstýrir næstu tvær vikurnar, ritstjórinn minn gerðist svo ósvífinn að fara í vetrarfrí til útlandos. Rennir sér eflaust á skíðum eins og einhver prinsessa á meðan ég þræla og púla .... tíhíhíhí ... Vona að hún skemmti sér konunglega og fari lika rosalega varlega. Getur það ekki alveg farið saman?


Hviður á Kjalarnesi ... þessum líka lognpolli

Pálmatrén á Kjalarnesinu í morgunFærðin var virkilega fín í morgun þótt nokkur vindur væri á Kjalarnesi ... afar óvenjulegt að blakti þar strá og þetta olli okkur bæði, skelfingu, ótta og hræðslu. Ásta var frekar snemma á ferðinni í morgun, svona 4 mínútum fyrr en vanalega, því að hún bjóst við leiðindafærð. Svo reyndist enginn vetur á leiðinni, ja, ekki fyrr en við komum upp í Hálsaskóg (Hálsahverfi, Árbæ) og við lentum meira að segja í drögum að skafrenningi þegar við ókum niður götuna þarna hjá vínbúðinni Heiðrúnu glúgg, glúgg. Vindhviða feykti snjókornum yfir bílinn en við hlógum bara af  eintómum kúlheitum. Lífsreyndar, óttalausar konur.

Ég þamba alltaf Aloa Vera-safann á fastandi maga (þennan í hvíta og rauða brúsanum) og líður voða vel af honum. Held að ég sé ekki ímyndunarveik ... en mér finnst orðið auðveldara að vakna á morgnana. Miðað við það sem Jens Guð segir, að þetta sé stútfullt af vítamínum, þá er það ekki svo fráleitt.

Sakna strætóVið ókum fram úr Tomma í Kollafirðinum og ég horfði að vanda með fyrirlitningu á vagninn, þessa strætólúsera sem taka almenningsfarartæki ... hnusss, það er munur en við Ásta, múahahahahha! Nei, djók, ég horfði ástar- og saknaðaraugum á Tommabíl. Nú fer Ásta brátt í vetrarfrí og þá rifja ég upp spennandi ferðir með vagninum, labbið upp Súkkulaðibrekkuna og önnur ævintýri. Það er gaman hjá okkur Ástu á morgnana en aðeins minna um villt ævintýri.

Ásta setti dynjandi "danstónlist" á, svona tónlist sem unglingarnir hlusta á. Hún leyfði mér að hlusta í nokkrar sekúndur og sagði svo að sér fyndist þetta frekar leiðinleg tónlist. Ég tók undir og samþykkti að þetta væri viðbjóður. Ég hef hingað til sagt slíkt um kántrí en ég er búin að breyta og svona danstónlist er komin í fyrsta sæti í viðbjóði. Sonur Ástu er í æfingaakstri og tekur alveg yfir bílinn þegar ökutímarnir fara fram, m.a. með svona tónlistarofbeldi ... en Ásta kvartar ekki.  Ókei, einu sinni fannst mér rapp leiðinlegt og það var ekki fyrr en Coolio rauf rappmúrinn hjá mér með Gangsta´s Paradise sem ég áttaði mig á því hversu dásamlegt tónlist það væri. Tóndæmi: http://youtube.com/watch?v=N6voHeEa3ig


Misst af strætó ...

cartman_chFall er kannski fararheill, ég ætla rétt að vona það og þá er ég að hugsa um ævintýri kvöldsins sem verða á dagskrá RÚV um áttaleytið í kvöld. Núna í morgun um kl. 6.44 þegar ég hljóp út á stoppistöð sá ég að allt var tómt og mátti ég standa þar alein í ábyggilega 10 mínútur ... Loks rann upp fyrir mér ljós, ég hafði misst af vagninum í fyrsta skipti síðan sögur himnaríkis hófust. Strætó leggur af stað frá Skrúðgarðinum 6.41 og er ansi fljótur á leiðinni á Garðabrautina, þeir hangsa ekkert þessir bílstjórar, fj ... stundvísin alltaf að drepa þá. Ég var náttúrlega fáránlega syfjuð í morgun og miðað við umfang morgunverka (ég er ekki að segja að ég sé feit) þá voru þessar tíu mínútur sem ég gaf mér frá því haus var rifinn frá kodda ekki nægur tími. „Það þurfti að setja nýja jakkann í poka, nei, annars, ég fer bara í þessum, hann er ekki jafnmikill Cartman-jakki þótt hann sé stuttur, ætli ég hafi tíma til að gera mér latte, nei, líklega ekki. ..“. Svona flögruðu greindarlegar hugsanir um í fagurlega mótuðum kollinum.

Nú fer ég bara „næstu ferð“ með Gumma bílstjóra alla leið í Mosó. Eins gott að ég kláraði öll mín verkefni heima í gærkvöldi í rólegheitunum. Átti eftir að ljúka við að lesa bókina Aðgerð Pólstjarnan til að skrifa um hana ... hún olli sannarlega engum vonbrigðum. Frábært að fá heila bók um mál sem enn er heitt ... og ég verð að segja annað, rosalega er ég hreykin af löggunni okkar! Bókin er samt ekkert skrifuð til dýrðar henni, staðreyndir tala bara sínu máli. Flott, Ragnhildur ... og þetta var ekki smjaður til að Ísafjarðarliðið leyfi Skagaliðinu að sigra, sei, sei, nei ... Jæja, er komin með rugluna og bara 10 mínútur í að „næsti strætó“ fari frá Skaga, ég ætla EKKI að missa af honum.


Sögur af Vesturlandsveginum

Ýkt mynd síðan í morgunÍ morgun, fyrsta dag í ekkijólum var algjört rennifæri í bæinn. Þess vegna skildum við Ásta ekkert í því að bílarnir tveir fyrir framan okkur óku á 70-80 km/klst á Kjalarnesinu. Eftir nokkrar mínútur í nagandi óvissu um það hvort bílarnir færu upp í löglegan hraða ákvað Ásta einhliða og af djarfmennsku að fara fram úr. Það var spennandi augnablik en þar sem enginn bíl var sjáanlegur á móti gekk þetta ákaflega vel og tók stuttan tíma. Ég var alveg sallaróleg en mér til hugarhægðar fór ég þó að hugsa um samtal sem ég átti við Sigrúnu „sveitó“, samferðakonu mína sl. laugardag, þar sem við ókum saman til höfuðborgar og til baka. Sigrún bjó í Danmörku í mörg ár og sagði m.a. að eftir búsetu þar gæti hún alls ekki farið fram úr hægfara bíl ef hún væri á hægri akrein og sá of hægi á vinstri, slíkur væri vaninn eftir siðmenningarumferðarsiði í DK, fólk héldi sig venjulega hægra megin og notaði þá vinstri til framúraksturs.

Sjáið sokkabuxurnar húðlitu og hallærisleguVið vorum einmitt á vinstri akrein og búnar að vera það frá Mosó þegar ég sagði Ástu þetta og horfðum á bíl á c.a. 104 km/klst aka fram úr okkur hægra megin. „Já, einmitt svona,“ sagði ég, „af því að þú ert á 90 vinstra megin þótt sú hægri sé auð.“ Ásta brosti blíðlega og fattaði ekki háðslegan undirtóninn hjá mér, enda hver tekur mark á manneskju sem þorir ekki að keyra bíl og hefur allt sitt umferðarvit úr Formúlunni og Útvarpi Umferðarráðs? Ég veit t.d. í gegnum Formúluna að maður ekur ekki yfir heila lína, heldur bíður þar til hún brotnar, en ansi margir Íslendingar hafa gleymt þeirri reglu eða virða hana ekki. Ralf Schumacher þurfti að aka í gegnum þjónustusvæðið í refsingarskyni fyrir að aka yfir heila línu eitt árið í Formúlunni og þannig lærði ég þetta. Til að Formúlu-óaðdáendur skilji hvað átt er við þá er það mikil þolraun að aka í gegnum þjónustusvæðið ... krókódílasíki beggja vegna, langleggja konur í húðlitum sokkabuxum (sem er sko ekki í tísku) trufla, fullt af bensíntittum að reyna að troða bensíni á bílinn, aðrir að skipta um dekk. Sannkölluð martröð að lenda í þessu ... fyrir utan að tefjast kannski um 20 sekúndur við þetta og missa alla von um sigur.

Tónleikar pónleikarHeld að það hafi truflað Ástu frá því að vera hægra megin að við vorum svo ósammála um tónleika. Hún er tónleikasjúk en ég er orðin löt, hætt að þola breytingar á ástkærum lögum. Nenni t.d. ekki á Jet Black Joe-tónleikana af því að ég veit að lögin eiga ekki eftir að hljóma nákvæmlega eins og á plötunum ... Ásta horfði með samúð á mig og hélt sig vinstra megin ... Ég sagðist vera viss um að Sigga Guðna, gamla barnapía erfðaprinsins, myndi ekki syngja Freedom með þeim og svo væri strengjasveit eða brassband með. Svona hallærisdæmi eins og Sálin og Sinfó! Sinfóníuhljómsveitir ættu að halda sig við klassíska tónlist og Sálin við poppið. Ásta hefði ekið upp á gangstétt vinstra megin, ef slíkt hefði verið fyrir hendi, af hneykslan. Tek það fram að ég er hrifin af Sálinni ... fyrir að hafa gefið einni plötu nafnið 12. ágúst, sem er afmælisdagurinn minn!

Ég er svöngÉg veit að þetta líka frábæra umferðar- tónleikablogg tekur á engan hátt fram spennandi daður- og næstum kynlífslýsingum úr strætó ... en ætli ég komist nokkuð í strætó fyrr en á föstudaginn ... og einmitt þá þarf ég að vera með spariföt í poka þar sem Útsvar verður um kvöldið. Það er ákveðið stress í gangi, óvíst að einn meðlimurinn geti verið með ... og sá sem er til vara, er heldur ekki 100% um að hann komist. Er nokkuð viss um að þetta sé að undirlagi Ísafjarðarliðsins til að taka okkur á taugum, held að doktorarnir þar óttist speki alþýðunnar/lýðsins/múgsins/öreiganna ... sem les bækurnar áður en þær eru notaðar sem eldiviður! Reykta taðið er steikt á pönnu og etið, ríka fólkið sníður jakka sína og pils niður í ábreiður og gefur fátækum. Jamm, ég er að missa mig hérna í Oliver Twist-fílingi, enda glorhungruð og hálftími síðan opnað var fyrir morgunverð í mötuneytinu. Eigið dásamlegan dag, elskurnar.


Í örmum vetrarnætur ... eða bara Sigþóru í strætó

Sigþóra fékk leigubíl á gamlárskvöldStrætóferðir heyra til undantekninga núorðið ... svo oft hef ég fengið far upp á síðkastið. Ég sá ekki betur í morgun en að Heimir væri grátbólginn og hálffölur af söknuði eftir okkur. Hann tók líka gleði sína þegar sjálf drottningin úr himnaríki sveif inn í vagninn. Hann hamaðist á útvarpstökkunum til að gera mér til hæfis, held ég, og stillti á Bylgjuna eða Rás 2 til skiptis. Hefur hann aldrei heyrt minnst á X-ið? Rosa væri gaman að heyra í Kent (If you were here) eða Rammstein (Sonne) eða Wu Tan Clang (For Heaven Sake) eða Eminem (The Way I am) og hækka allt í botn í rútunni. Kúrði með elskunni henni Sigþóru sem hafði það rosalega gott um áramótin að sögn. Hún skrapp í Mörkina (Sódóma/Gómorra Akurnesinga) með systur sinni á gamlárskvöld eftir að hún hafði sannfærst um að leigubílstjórinn (jamm, bara einn á Skaganum) væri að vinna. Mér skilst að hann sé ekkert allt of vinnusamur, enda gengur svo sem innanbæjarstrætó til kl. 18 alla virka daga og maður er vissulega ekkert svo marga klukkutíma að ganga Skagann þveran og endilangan.

Inn við beiniðVið Sigþóra slitum okkur treglega úr faðmlögunum og hlunkuðumst út við Vesturlandsveginn undir hálfátta. Með hendurnar fullar af veski og plastpoka láðist mér að skella einhverju hlýlegu, t.d. horni af einum af þremur treflunum, yfir eyrun. Þegar ég kom í vinnuna var ég ekki bara með blóðbragð í munni eftir áreynsluna (langt síðan mar hefur tekið Súkkulaðibrekkuna svona hratt), harðsperruverki í aftanverðum lærunum ... heldur geðveikan hlustaverk. Eftir að háls-, nef- og eyrnalæknirinn sagði við mig um árið að ég hlyti að vera með viðkvæm eyru (sem var ekki) urðu það áhrínsorð og það má ekki hvessa með éljum á hálendinu án þess að ég fengi gigtarverk í eyrun. Smáýkt, þoli samt illa vindblástur í eyrun, sérstaklega yfir vetrartímann. Græna, prjónaða eyrnaskjólið verður sko sett ofan í tösku í kvöld.


Svefnleysi, Pink Floyd og valið í lífinu ...

Pink FloydVið Ásta vorum frekar framlágar í morgun, þótt ekkert skorti upp á fegurðina. Eins gott að aðstoðarbílstjórinn frá himnaríki mætti með hressandi latte út í bíl. Lítill svefn hjá báðum, Ásta datt ofan í myndina Ray, ég ofan í nýja og þykka ævintýrabók frá Uppheimum um rúnir og slíkt. Las 160 blaðsíður fyrir svefninn og hlakka til að lesa meira í kvöld. Við Ásta náðum þriggja tíma svefni hvor ... að meðaltali, Ásta tveimur tímum, ég fjórum. Mestu mistökin sem maður gerir er að hugsa að nú sé dagurinn ónýtur vegna of lítils svefns ... þá verður hann nefnilega ónýtur. Held að við báðar höfum náð mun meira en átta tíma svefni hverja nótt síðan fyrir jól og þá höfum við nú aldeilis safnað í sarpinn, áttum þetta svefnleysi bara inni. Komum beint í snjóinn í bænum, (auð jörð á Akranesi) alla vega hér í efri byggðum Hálsaskógar. Á leiðinni hlýddum við á tónleikaútgáfu af Shine on you Crazy Diamond og ég hélt að hann ætlaði aldrei að fara að syngja, þvílíkt langt intró. Tónleikaútgáfur þykja mér yfirleitt hundleiðinlegar en Pink Floyd tókst reyndar ekki að eyðileggja þetta guðdómlega lag alveg með nýjum trillum og dúllum. Fyrri hluti lagsins hér:

http://www.youtube.com/watch?v=O_gmXtxScYs&feature=related

I wish ...Hér í vinnunni var allt fremur draugalegt þegar ég mætti. Ein samstarfskonan kom reyndar rétt fyrir átta og þá þorfði ég loks að koma undan skrifborðinu. Held að flestir mæti svo kl. 10 eftir svona marga frídaga, minnir að það sé venjan á flestum vinnustöðum þegar hægt er að koma því við. Ef ég hefði ætlað að fremja slíkan lúxus hefði ég misst af fari með drossíu upp að dyrum. Lífið er val!  Jamm. Vona að ég muni enn hvernig á að skrifa frábærar og stórkostlegar greinar á ljóshraða ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 830
  • Frá upphafi: 1515925

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 703
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband