Sögur af Vesturlandsveginum

Ýkt mynd síðan í morgunÍ morgun, fyrsta dag í ekkijólum var algjört rennifæri í bæinn. Þess vegna skildum við Ásta ekkert í því að bílarnir tveir fyrir framan okkur óku á 70-80 km/klst á Kjalarnesinu. Eftir nokkrar mínútur í nagandi óvissu um það hvort bílarnir færu upp í löglegan hraða ákvað Ásta einhliða og af djarfmennsku að fara fram úr. Það var spennandi augnablik en þar sem enginn bíl var sjáanlegur á móti gekk þetta ákaflega vel og tók stuttan tíma. Ég var alveg sallaróleg en mér til hugarhægðar fór ég þó að hugsa um samtal sem ég átti við Sigrúnu „sveitó“, samferðakonu mína sl. laugardag, þar sem við ókum saman til höfuðborgar og til baka. Sigrún bjó í Danmörku í mörg ár og sagði m.a. að eftir búsetu þar gæti hún alls ekki farið fram úr hægfara bíl ef hún væri á hægri akrein og sá of hægi á vinstri, slíkur væri vaninn eftir siðmenningarumferðarsiði í DK, fólk héldi sig venjulega hægra megin og notaði þá vinstri til framúraksturs.

Sjáið sokkabuxurnar húðlitu og hallærisleguVið vorum einmitt á vinstri akrein og búnar að vera það frá Mosó þegar ég sagði Ástu þetta og horfðum á bíl á c.a. 104 km/klst aka fram úr okkur hægra megin. „Já, einmitt svona,“ sagði ég, „af því að þú ert á 90 vinstra megin þótt sú hægri sé auð.“ Ásta brosti blíðlega og fattaði ekki háðslegan undirtóninn hjá mér, enda hver tekur mark á manneskju sem þorir ekki að keyra bíl og hefur allt sitt umferðarvit úr Formúlunni og Útvarpi Umferðarráðs? Ég veit t.d. í gegnum Formúluna að maður ekur ekki yfir heila lína, heldur bíður þar til hún brotnar, en ansi margir Íslendingar hafa gleymt þeirri reglu eða virða hana ekki. Ralf Schumacher þurfti að aka í gegnum þjónustusvæðið í refsingarskyni fyrir að aka yfir heila línu eitt árið í Formúlunni og þannig lærði ég þetta. Til að Formúlu-óaðdáendur skilji hvað átt er við þá er það mikil þolraun að aka í gegnum þjónustusvæðið ... krókódílasíki beggja vegna, langleggja konur í húðlitum sokkabuxum (sem er sko ekki í tísku) trufla, fullt af bensíntittum að reyna að troða bensíni á bílinn, aðrir að skipta um dekk. Sannkölluð martröð að lenda í þessu ... fyrir utan að tefjast kannski um 20 sekúndur við þetta og missa alla von um sigur.

Tónleikar pónleikarHeld að það hafi truflað Ástu frá því að vera hægra megin að við vorum svo ósammála um tónleika. Hún er tónleikasjúk en ég er orðin löt, hætt að þola breytingar á ástkærum lögum. Nenni t.d. ekki á Jet Black Joe-tónleikana af því að ég veit að lögin eiga ekki eftir að hljóma nákvæmlega eins og á plötunum ... Ásta horfði með samúð á mig og hélt sig vinstra megin ... Ég sagðist vera viss um að Sigga Guðna, gamla barnapía erfðaprinsins, myndi ekki syngja Freedom með þeim og svo væri strengjasveit eða brassband með. Svona hallærisdæmi eins og Sálin og Sinfó! Sinfóníuhljómsveitir ættu að halda sig við klassíska tónlist og Sálin við poppið. Ásta hefði ekið upp á gangstétt vinstra megin, ef slíkt hefði verið fyrir hendi, af hneykslan. Tek það fram að ég er hrifin af Sálinni ... fyrir að hafa gefið einni plötu nafnið 12. ágúst, sem er afmælisdagurinn minn!

Ég er svöngÉg veit að þetta líka frábæra umferðar- tónleikablogg tekur á engan hátt fram spennandi daður- og næstum kynlífslýsingum úr strætó ... en ætli ég komist nokkuð í strætó fyrr en á föstudaginn ... og einmitt þá þarf ég að vera með spariföt í poka þar sem Útsvar verður um kvöldið. Það er ákveðið stress í gangi, óvíst að einn meðlimurinn geti verið með ... og sá sem er til vara, er heldur ekki 100% um að hann komist. Er nokkuð viss um að þetta sé að undirlagi Ísafjarðarliðsins til að taka okkur á taugum, held að doktorarnir þar óttist speki alþýðunnar/lýðsins/múgsins/öreiganna ... sem les bækurnar áður en þær eru notaðar sem eldiviður! Reykta taðið er steikt á pönnu og etið, ríka fólkið sníður jakka sína og pils niður í ábreiður og gefur fátækum. Jamm, ég er að missa mig hérna í Oliver Twist-fílingi, enda glorhungruð og hálftími síðan opnað var fyrir morgunverð í mötuneytinu. Eigið dásamlegan dag, elskurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta var stórfróðleg umræða. Mér þykir óumræðanlega sárt að hafa misst af að hitta þig á laugardagskvöldið en ég svaf af mér kvöldið fyrir framan sjónvarpið. Sorglegt en satt.  Hvort þetta er merki um eitthvað alvarlegt veit ég ekki en mikið skelfing var ég sjálfri mér reið fyrir klaufaskapinn.

Steingerður Steinarsdóttir, 7.1.2008 kl. 09:28

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Saknaði þín sárt, engill. Fór ekki heim fyrr en rétt fyrir miðnætti ... til að breytast ekki í grasker. Það gerist iðulega.

Guðríður Haraldsdóttir, 7.1.2008 kl. 10:47

3 Smámynd: SigrúnSveitó

Já, ég sé að Ásta getur lært ýmislegt af mér!!!  Þarf líklega að bjóða henni á rúntinn við tækifæri...hún hlustar greinilega ekki á þig!  Ussss!!  Skömm að þessu.

Vona að þú sért búin að fá þér morgunverð... 

SigrúnSveitó, 7.1.2008 kl. 11:13

4 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Sálin og Sinfó var slappt en Todmobile og Sinfó hins vegar flott. Enda Eyþór og Þorvaldur klassískt menntaðir og kunna að semja lög sem henta fyrir hljómsveitarbúning.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 7.1.2008 kl. 11:19

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Grasker, einmitt, hef ekki alltaf skilið afhverju ég rúlla svona oft inn ef ég kem heim eftir miðnætti, en þá er ég auðvitað orðin grasker  Jack O' Lantern  góður pistill og við verðum að kenna Ástu á akgreinarnar.  Vona að þú fáir eitthvað gott að borða í dag, ég ætla að borða salat og einhvern geðveikan ost sem ég keypti fyrir jól, jólaost.  Ég tékkaði á spánni í gærkvöldi áður en ég fór að sofa til að vera viss um að það yrði ekkert rok á þér í morgun.  Eigðu ljúfan dag mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.1.2008 kl. 11:55

6 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Jæja, ætlið þið að láta nægja að mæta tvær eða tvö til leiks á föstudaginn? Það er nú ójafn leikur, þykir mér. Ég get bundið aðra hönd fyrir aftan bak, það ætti að jafna leikinn, sérstaklega í leikrænu tilþrifunum. Erþaggibara?

Hlakka til að hitta þig sparibúna. Vonandi ekki dressed to kill

Ragnhildur Sverrisdóttir, 7.1.2008 kl. 13:09

7 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Heheheh, nei, helst vildi ég hafa fleiri. Mögulega kemur varamaður inn, ekki þó alveg öruggt. Uss, ekki vera að trufla mig, ég er að lesa alfræðiorðabækurnar í vinnunni ... ehhehehe

Guðríður Haraldsdóttir, 7.1.2008 kl. 13:32

8 Smámynd: Sverrir Einarsson

Oft hef ég nú skotist upp á skaga (reyndar líka norður í land) en kanski er ég bara hálf blindur, ekki hef ég rekist á neitt skilti sem segir mér á hvaða hraða ég "verði" að aka, bara skilti sem segir mér hvað ég má aka hraðast á þ.e.a.s. hámarkshraða. Þetta 90 skilti er ekki að segja okkur að við verðum að aka á þessum hraða heldur að þetta er hámarkshraði miðað við bestu aðstæður sem hugsast geta á veginum.

Hef ekki séð þennann vínkil á "góðakstrinum" hvað varðar refsingarnar, en ég held að það sé nóg fyrir þig að finna sýnar rásina á sjónvarpinu (þið hafið jú sjónvarp þarna í sveitinni ekki satt?) því eftir mínum bestu heimildum er þeim sem sýna frá Góðaksturskeppninni er bannað að sýna í lokaðri dagskrá.

Hafðu það sem best og farðu nú að koma með "gæðakönnun " á sveitastrætó miðað við tegund ökutækis og tíma á ferðum.

og svo er bara að rústa þessa "skólastjórabeyglu" frá ísó á föstudaginn gangi ykkur sem allra best (ég er nebbnilega ættaður ofan af skaga).

kv Sollaríbúinn í borginni og frv bloggari.

Sverrir Einarsson, 7.1.2008 kl. 15:29

9 identicon

 Hvar er boldið.Það er búið að rugla og ég gleymdi að borga.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 15:43

10 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Anna, og einhver fékk líka lánaðan leigubíl... ;)

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 8.1.2008 kl. 09:32

11 identicon

Hæ heyrðu ég er miklu bjartsýnari á að komast núna en ég var þegar ég talaði við þig síðast.  Ég heyri í þér á morgun betur, þá verð ég handviss!

Kv,

Háleynilegi varamaðurinn. 

Varamaðurinn háleynilegi (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 12:43

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Háleynilegi varamaður, ég bíð spennt og vona heitt!

Guðríður Haraldsdóttir, 8.1.2008 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 1974
  • Frá upphafi: 1454848

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1599
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Bakklóra
  • Snorri og Patrik
  • Vifta

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband