Færsluflokkur: Matur og drykkur
15.10.2007 | 14:15
Af óvissuferð og risakjötbollum ...
Eftir að ég heyrði utan af mér í morgun setningar á borð við: Veistu hver ældi í rútunni?... xxxxx pissaði óvart á mig í myrkrinu. og Hver fleygði forstjóranum í Hvítá? held ég að ég ætti að dauðskammast mín fyrir að hafa ekki farið í óvissuferðina á laugardaginn. Mér skilst á öllu að þetta hafi verið mjög skemmtileg ferð, river-rafting, heitir pottar, gufa og grillmatur á Drumboddsstöðum á eftir. Og drukkið! Jamm. Ef þetta hefði nú verið kaffismökkunarferð ...
Rosalega voru kjötbollurnar stórar í hádeginu og kartöflurnar litlar. Soldið asnalegt að sjá diskinn eftir að hafa fengið sér tvær og tvær. Múlakaffi vs frönsk matargerð ...
Viti dagsins fannst á google.com.
15.10.2007 | 08:45
Sjokk í morgunsárið og mögnuð kvikmyndagagnrýni
Matarboðið í gærkvöldi var guðdómlegt, maturinn afar góður og annað eftir því. Við ræddum m.a. um fyrirhugaða ferð á West Ham-leik seinna í vetur, en þau hjónin (Mía og Sigþór) ætla reyndar í West Ham-hópferð til London um næstu helgi. Við erfðaprins, sem nennum engum hópferðum, munum passa Bjart á meðan. Hvernig skyldi hann haga sér núna? Ganga um urrandi og hræða líftóruna úr heimilisköttunum eins og síðast? Stjórna öllu með harðri hendi og stelast til að liggja í uppáhaldsstöðum Kubbs og Tomma? Réttlætiskenndin í erfðaprinsinum leyfir ekki slíkt þannig að nú verður Bjartur alinn svolítið upp ... á ljúfan hátt.
Ásta sendi mér unaðs-SMS í morgun, "Er á bíl, sæki þig 7 mín í 7", þannig að ég bjó til latte handa henni líka. Við ókum í vindhviðum upp á 30 m/sek í drossíunni og fundum ekki fyrir neinu fyrr en rétt við staðinn þar sem hviðumælirinn er, logn annars staðar. Það vantar SAMT hviðumæla á fleiri staði þarna. Himinninn var orðinn svo blár að ekki sáum við Yoko-súluna en Venus skein þó skært sem segir mér að kannski fari eitthvað spennandi að gerast í ástamálum hjá piparfólki landsins ... held ég, nema þetta hafi verið ljósin á flugvél.
Ég er ekki fyrr búin að monta mig af eignum mínum í Mogganum í morgun (sparnaður af því að eiga ekki bíl) þegar stjörnuspáin mín í sama blaði sagði mér að gefa þær eða henda þeim: Of miklar eignir geta skapað vandamál og leitt huga þinn frá því sem þér er í raun annt um. Hentu þeim, gefðu þær og sjáðu hvort orkan vex ekki. Þannig að: Hver vill eiga espressóvél, himnaríki, erfðaprins, stjörnukíki og svona? Það gengur ekki að vera svona orkulaus þótt ég finni reyndar ekkert fyrir því. Hræðileg ljósmyndin í Mogganum, skelfileg, ég er í losti í alvöru og ætla héðan í frá að banna allar myndatökur. Greinilega var "sniðugasta" myndin valin þar sem falskur strætó var við hliðina (leið 6 sem ég tek aldrei) en ekki hugsað um fegurðargildi mitt. Ég sagði við blaðakonuna indælu að það væri á hennar ábyrgð að birta girnilega mynd af mér þannig að strákarnir tækju andköf. Hún er líklega á lausu sjálf líka miðað við valið. Beiskj, beiskj. ...
Mogginn er óvenjuinnihaldsríkur svona á mánudegi og fjallar líka um myndina Reign over me, alvöruþrungna dramamynd með "Adami Sandleri". Hún fær 3 stjörnur af 5 hjá Sæbirni´(hiss, hiss). Ég hef mikið reynt að horfa á þessa mynd en sofna alltaf, hún er frekar leiðinleg. Sandler lítur út nákvæmlega eins og Bob Dylan í þessarri mynd en myndin finnst mér vera frekar léleg og ótrúverðug stæling á The Fisher King. Muna ekki allir eftir henni? Sandler á bara að vera í gamanmyndum, ég tók hann alla vega ekki alvarlega í þessarri mynd og fór fljótlega að slefa af leiðindum, síðan hrjóta. Þrjóskan er samt svo mikil að ég ætla að reyna að klára myndina í kvöld. Skyldi hún skána?
Svo er hér afar hressandi frétt fyrir okkur femínistabeljurnar: http://www.theonion.com/content/video/domestic_abuse_no_longer_a
14.10.2007 | 12:50
Krúttfrændur, kokkteilsósa og nýr aðdáandi
Frábæru frændur mínir, Úlfur og Ísak, fóru í aðgerð til að loka gómnum núna í byrjun október. Þeir sem ekki vita þá fæddust þeir með alskarð. Þeir dvöldu í fimm daga á spítalanum í góðu yfirlæti en nældu sér fljótlega í umgangspest, þessar elskur. Samt var alltaf stutt í brosið hjá þeim, enda eru þeir með geðbetri börnum. Þarna liggja þeir í kerrunum sínum inni á sjúkraherberginu, með spelkur á handleggjunum til að varna því að þeir geti rifið upp saumana. Þeir eru þrælslappir þarna, dúllurnar.
---------- ------------ ------------- -----------
Hér í himnaríki lítur allt út fyrir latan sunnudag, erfðaprinsinn les, móðir hans íhugar næstu spennandi húsverk ... úúúú, setja í þvottavél, setja Jónas í gang og gefa krumma fiskbita, krummanum sæta sem hefur svifið hér fyrir utan gluggana og glatt augu okkar allra nema Jónasar. Jónatan svikari hefur eflaust fundið aðra svalakerlingu til að daðra við, enda mávur. Allir vita hvað þeir eru lauslátir. Svo þarf náttúrlega að undirbúa sig vel fyrir matarboðið í kvöld, farða sig, finna hugguleg föt og upphugsa skemmtileg umræðuefni til að fá fleiri boð.
--------- --------------
Mía er mjög góður kokkur, ég er svona meira í kökunum, enda í æfingu eftir öll afmælin. Eldaði þó góðar kjúklingabringur í gær. Kryddaði þær með Best á kjúklinginn og grillaði á mínútugrillinu og hafði stöppu úr sætum kartöflum með, já, og salat auðvitað. Þarf að venja erfðaprinsinn af plebbaskap en hann fékk sér kokkteilsósu líka. Hélt að ég væri af kokkteilsósu-kynslóðinni en ekki hann.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.10.2007 | 17:24
Samkvæmislífið fer á fullt ... loksins
Hugsa hlýlega til samstarfsfólks míns sem nú er í óvissuferð í rútu einhvers staðar. Vona að það skemmti sér konunglega með sundbolina sína og sundskýlurnar! Samt var engin sundlaugarferð fyrirhuguð, mögulega verður sundfatabrenna og þá mun ég naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki mætt, enda mikill sundlaugahatari (þá er ég ekki bara að tala um sundlaugarljóskastarann sem leggur mig í einelti, eins og ljósastaurinn sem eitraði líf mitt á Hringbrautinni).
Við erfðaprins fórum hins vegar í fullvissuferð á Skrúðgarðinn áðan og fátt kom okkur á óvart. Kaffið gott að vanda og kökurnar ekki síðri. Þvílíkur munur samt eftir að ég áttaði mig á því að tvöfaldur latte er svo miklu betri en einfaldur. Hittum elskuna hana Flórens, http://sigrunsveito.blog.is/blog/sigrunsveito/ , konuna sem bjargaði mér eftir fallið ógurlega á ógæfumölinni fyrir ári ... þegar ungi, sæti læknirinn neitaði að láta duga kyssa á bágtið. Nú veit ég að mörgum karlmönnum finnst gaman að bródera. Ég sagði þó stopp þegar hann ætlaði að hekla grisju yfir meiddið. Kvenlegar hannyrðadyggðir eru okkar stelpnanna!
Gott hjá erfðaprinsinum að vera svona duglegur viðra aldraða móður sína á fína kagganum. Verst hvað henni finnst fúlt að "liggja" svona á gólfinu í bílnum og geta ekki litið niður á aðra vegfarendur ... þetta er nefnilega alvörukaggi og maður situr niðri við jörð og það þarf liðugt kvikindi til að koma sér vel fyrir í honum. Ég er kannski liðug en ekki kvikindi. Samkvæmislífið er greinilega að hefjast aftur af fullum krafti eftir lægð, ferð á kaffihús í dag og matarboð hjá Míu systur annað kvöld.
Þetta er nú meiri aftakan á Laugardalsvellinum, vonandi ná okkar menn að snúa þessu dæmi við af fullri hörku núna í seinni hálfleik.
9.10.2007 | 16:31
Nýr heimilismeðlimur
Ó, hvað súpan á Skrúðgarðinum var góð, svona lúmskt sterk! Þetta er að verða vani á þriðjudögum að labba þessi 230 skref frá sjúkraþjálfuninni og þangað. Að þessu sinni var búið að hertaka allan hægri hluta kaffihússins og þar voru ungar mömmur á ferð. Ég skannaði úrvalið í skyndi, alltaf að leita að hentugri tengdadóttur, en sýndist þær allar hamingjusamlega giftar. Komst reyndar að því að Rut á Skrúðgarðinum á fagra dóttur á réttum aldri sem hún vill koma út. Annars skammaðist Rut yfir því hvað það er langt síðan boldað hefur verið á þessari síðu og úr því verður bætt síðar í dag.
--------- ------------- ------------
Átti erindi til sýslumanns og spurði að gamni afgreiðslukonuna hvort ökuskírteinið mitt væri í gildi en það rann út á síðustu öld. Hún hélt það nú og gat alveg stillt sig um að hlæja að 80-myndinni af mér. Skírteinið var orðið nokkuð sjúskað af notkunarleysi og hún gerði við það bara sisona! Það er allt svona á Skaganum, sannkallaður unaður að heimsækja hér verslanir og opinberar stofnanir! Kvarta svo sem ekkert undan þeim í höfuðborginni en það er allt miklu heimilislegra hérna, finnst mér. Í Einarsbúð keypti ég helling af frosnum berjum, skyri, klakapokum, melónu, perum og þess háttar og nú á að fara að drekka búst-drykki. Gat ekki stillt mig um að kaupa spínat og gulrætur líka. Það eru oft mjög góðar uppskriftir í Vikunni að svona orku- og heilsudrykkjum. Ég hef aldrei dottið niður á almennilegan morgunverð, vona að það breytist í kjölfarið. Nýjasti heimilismeðlimur í himnaríki er nefnilega blandari, keyptur í Módel.
5.10.2007 | 19:39
Rómantík, ólétta, matarvenjur og bold
Dagurinn gekk frábærlega vel. Það var meira að segja ágætur matur í hádeginu. Sigga Dögg, gamla nágrannakona mín af Hringbrautinni og skólasystir úr hagnýtri, settist við borðið hjá okkur í matsalnum og tjáði okkur að barnið í maganum á henni væri strákur. Hún á tvær stelpur fyrir og eitthvað af stjúpdætrum svo að þetta var bara gaman. Guðröður litli á að koma í heiminn í febrúar.
Þegar ég settist við borðið var þar hluti umbrotsdeildar, ógurlega hressir og skemmtilegir strákar. Þeir voru að tala um hvað Íslendingar kunnu lítið í matseld á öldum áður, nýtnin hafi verið svo yfirgengileg og litað matarmenninguna mikið. Einn þeirra var um tíma í skóla í Ástralíu eða á Nýja Sjálandi og valdamaður þar (forsætisráðherra?) fordæmdi hvalveiðar Íslendinga um svipað leyti. Unga manninum datt í hug að spyrja skólafélaga sína álits og þeim var eiginlega slétt sama þótt þeir segðust ekki treysta sér sjálfir til að drepa hval. Svo var farið að tala um matarvenjur og okkar maður sýndi þeim m.a. mynd af sviðahaus. Þá varð allt vitlaust og fólki fannst þetta viðbjóður. Við komumst að þeirri niðurstöðu við matarborðið að hvalveiðar hefðu sama og engin áhrif á íslenskan ferðamannaiðnað, það væri frekar úldni maturinn sem við montuðum okkur af við útlendinga. Einhver minntist svo á að svartir sviðahausar seldust miklu síður en þeir hvítu í íslenskum matvörubúðum sem sýndi að við værum enn meiri rasistar en við héldum. Já, alltaf fjör í matsalnum.
Í gær stoppaði mig einn krúttmolinn af Stöð 2, dýrðarinnar tæknimaður sem frétti í hádeginu nýlega að ég hefði leikið stórt hlutverk í Heilsubælinu í Gervahverfi; m.a. bláa öxl í sjúkrasloppi, hjúkkukappa og vinstri fót í brúðkaupi. Hann skellti þáttunum yfir á DVD og færði mér. Þessi elska. Ég kyssti hann að sjálfsögðu fyrir þótt ég sé vanalega afar sparsöm á kossa. Áður en maðurinn var horfinn úr salnum voru samstarfskonur mínar búnar að gifta mig honum í bak og fyrir. Svona þarf nú lítið til að rómantíkin ríði rækjum í vinnunni minni.
Náði strætó klukkutíma fyrr en vanalega á föstudögum, eða 17.45 og sat næstum við hliðina á einum af sætukarlastoppistöðinni, hressum manni sem sagðist hafa lesið fyrstu blaðsíðuna í Harry Potter í bókabúð um daginn ... og þá síðustu. Hann vill meina að allt fari ósköp vel miðað við þetta, ég verð að fara að klára bókina fyrir Jennýju og Ella bílstjóra. Hef dottið ofan í nokkrar nýjar bækur í millitíðinni og steingleymt galdrastráknum.
Taylor, geðþekki geðlæknirinn, er í vondum málum. Brooke virðist hafa áttað sig á að hún ætti sér aðdáanda; Hector, huggulega brunakallinn. Held að hann hafi falið sig inni í skáp eða baðherbergi þegar Brooke birtist og fattaði að eitthvað væri í gangi. Að sjálfsögðu þarf Brooke að fleygja hinni heilögu Taylor af stallinum og ætlar eflaust að blaðra í Ridge, sem var reyndar ekki heima hjá konu sinni á gamlárskvöld, eins og kom fram í síðasta bloggi.
Mér sýndist bjargvættur Taylor, þessi sem hefur verið að gera hosur sínar grænar fyrir Bridget, vera orðinn yfir sig ástfanginn af Feliciu, þessari sem neitar að fara í krabbameinsmeðferð, og er búin að arfleiða Nick (pabbann) og Bridget að barninu sínu. Skrýtið með ástina í boldinu. Brooke hefur átt sér nokkra sálufélaga og aldrei elskað jafnmikið og heitt nokkra menn fyrr og síðar í hvert skipti. Undir þetta falla þeir Ridge, Nick og Deacon svo fátt eitt sé nefnt af úrvalinu í boldinu. Að vísu eru karlanir samnýttir í tætlur og ættum vér íslenskar konur að taka þetta upp, ég meina hver nennir eftir karli til Hveragerðis ef hægt er að hafa t.d. tvo eða þrjá Skagamenn í takinu í eigin sápuóperu?
4.10.2007 | 08:44
Djöfulleg hugmynd að morgni dags
Ég næ þessu varla á fjórum mínútum, sagði ég við sjálfa mig í morgun, enda fötin mín í þurrkaranum (þurr) austanmegin í himnaríki og tannburstinn vestanmegin. Með fádæmaskipulagningu, sporléttelsi og engum köttunum sem þvældust fyrir tókst þetta nú samt. Stoppistöðin var grunsamlega þögul þegar ég flaug þangað í loftinu, og eiginlega var allt Akranes afar kyrrlátt í yndislegri rigningunni ... en svo heyrði ég greindarlegt hóstakjöltur úr steinsteypta strætóskýlinu og þar leyndist heill hellingur af fólki. Elskan hann Heimir mætti augnabliki síðar á strætó og Ásta sat þar með útbreiddan faðminn og frátekið sæti fyrir Gurrí sína. Kaffilausar en ótrúlega geðgóðar dormuðum við í bæinn í góðum félagsskap annarra Skagamanna. Sæti karlinn fyrir aftan okkur sagði eitthvað um að veifa þegar ég stóð upp, Ásta flissaði en ég hafði eiginlega ekki tíma til að segja HA, heldur rauk út. Smá morgunþoka í kollinum. Þarf að komast að þessu ...
- ----------- --------------- --------------
Inga beið fyrir neðan Vesturlandsveg og þar sem grimmur trukkabílstjóri hafði fælt hana úr vanalega staðnum sneri bíll hennar í átt að miðbænum. Eigum við að koma niðrí Kaffitár? spurði ég og rauðu hornin spýttust út úr hausnum á mér. Inga var greinilega einnig andsetinn af koffíndjöflinum því að hún gaf brosandi í og áður en varði vorum við komnar með kaffi í aðra og heitt súkkulaði-crossiant í hina og stefndum upp í Hálsaskóg (Lyngháls&Co). Ég stimplaði mig inn fyrir klukkan átta þrátt fyrir það. Í Bankastrætinu voru þrír strákar að vinna, hver öðrum huggulegri. Myndin er ekki af þeim.
3.10.2007 | 18:30
Miklu betri en kartöflur
Myndatakan gekk bara vel í dag. Förðuð og flott fyrir framan aftökusveitina tókst mér að pósa snilldarvel og gat nýtt reynsluna síðan í fegurðarsamkeppninni 1978, eða hefði getað gert ef mér hefði verið boðin þátttaka. Var líka búin að skoða Hagkaupsbækling í bak og fyrir og lærði aðferðina við að virka undirgefin með dassi af framakonudugnaði. Sænski ljósmyndarinn var að fríka út af gleði og fannst ég örugglega taka mig miklu betur út en kartöflurétturinn sem hann myndaði fyrr í morgun.
--------------- --------------- ----------------------
Fólkið í boldinu hjakkar svo í sama farinu að ég afber varla að horfa á það þótt ég hafi lofað að fórna mér annað slagið. Stefanía og Brooke, erkifjendurnir, hafa rifist síðan í síðustu viku um sama gamla dæmið eða þangað til Eric kemur og stoppar þær. Taylor er ein á gamlárskvöld og Hector (slökkviliðsmaður, ekki hundur) bendir henni á að gift kona ætti ekki að vera ein á svona kvöldi. Ridge er einhvers staðar að tískuhúsast í útlöndum og Taylor væflast um húsið í sexí undirfötum og vonar að eiginmaðurinn komi heim svo að hún geti tælt hann. Hún ætti bara að vita að karlar laðast ekki að líkama kvenna, heldur vitsmunum þeirra.
3.10.2007 | 09:25
Læknisraunir Ástu&son, lífshætta og heitavatnsleysi!
Ásta sagði mér læknisfarir sínar ekki rennisléttar á leiðinni í bæinn með drossíunni hennar. Hún fór til læknis nýlega út af verkjum í mjöðm og gerði þau mistök að taka unglingsson sinn með ... en stráksi hafði slasað sig og verið til meðferðar hjá þessum sama lækni. Læknirinn trylltist yfir því að hún "reyndi að fá tvo fyrir einn" á svona ósvífinn hátt svo að barnið hrökklaðist fram og næstu fimm mínútur af tíu mínútna tímanum fóru í að læknirinn fann hitt skiptið sem Ásta mætti með barn með sér (án þess að gerð væri athugasemd við það þá). Ásta var reyndar ekki að spara peninga með þessu, heldur tíma og hefði glöð greitt annan 4.000 kall og sloppið við svona leiðindi. Verkir í mjöðmum reyndust vera bólgur í vöðvafestum og ekki séns að hún fengi sjúkraþjálfun eða bólgueyðandi ... óver his dedd boddí. Hún skyldi bara fara að hreyfa sig.
Ég vorkenni lækninum mest að hafa ekki getað sagt hryssingslega að Ásta ætti að fara í megrun og hætta að reykja, því miður, hans vegna er Ásta tággrönn, reyklaus og fer í minnst klukkutíma gönguferð á dag.
Sonur Ástu hringdi í næsta símatíma læknisins og kvartaði yfir bólgnum fæti og sárum verkjum eftir að gifsið var tekið. "Hvað með það?" sagði læknirinn. "Ha?" hváði drengurinn. "Só vott?" endurtók doksi upp á ensku. Hann sagði honum að drullast til að fara að vinna en skrifaði reyndar vottorð fyrir hann. Hélt fyrst að Ásta væri að grínast þegar hún sagði mér þetta, þeir væru útdauðir þessir læknar sem héldu að þeir væru guð. Minnir að ég hafi einu sinni upplifað dónaskap frá eldri lækni með nefið upp í loftið. Það pirraði hann eitthvað að geta ekki sjúkdómsgreint mig.
Mér finnst læknar almennt með skemmtilegra fólki, hafa góðan húmor og taka sig ekkert of hátíðlega. Ásta var engin ástæða leiðindanna, hann er víst svona við alla, elsku guðinn.
Eldaði eina bestu súpu lífs míns í gærkvöldi og ætlaði að skella niðurskornum kjúklingabitum út í til að gera hana matarmeiri. Okkur erfðaprinsi fannst skrýtið að óútskýrða fýlan í ískápnum hvarf þegar kjúklingurinn var kominn úr honum en samt fundum við enga fýlu af kjúllanum. Ég skar bringurnar niður og skellti þeim á heita pönnu ... þá kom ísskápslyktin aftur en nú upp úr pönnunni. Við fleygðum kjúklingnum (sem ég keypti fyrir fjórum, fimm dögum, dagsetn. sást ekki) en ég þorði ekki einu sinni að reyna að lokka Jónatan máv til mín aftur með honum. Tel að við prinsinn höfum verið í lífshættu um tíma í gær, enda hafði ég eiginlega hugsað mér að skella hráum kjötbitunum beint út í súpuna og láta þá malla þar ...
Í dag verður ljósmyndataka og ég hata myndatökur, enda er ég oftast eins og vélsagarmorðingi á myndum, sérstaklega á debitkortinu mínu. Getur Vikan ekki notað þessa sjö ára gömlu mynd af mér sem er t.d. hér á blogginu? Nei, það þarf að festa hverja nýja hrukku og hverja nýja fitufellingu á filmu fyrir komandi kynslóðir ... sem er þannig séð allt í lagi, hrukkur eru smart og fellingar kúl, það er bara þetta attitjút hjá ljósmyndurum að þurfa að láta mann brosa, ég þoli ekki að brosa, finnst það ömurlegt ... fólk hræðist mig ekki brosandi og missir alla virðingu fyrir mér ef ég brosi ... arggg
Í gærkvöldi ætlaði ég að gera mig óhugnanlega fallega og lita hárið á mér dekkra fyrir komandi myndatöku. En það var heitavatnslaust í himnaríki!! Hvernig er hægt að gera mér þetta á svona mikilvægum tímamótum? ANNA!!! Hvernig getur Orkuveitan útskýrt þetta? Var búin að blanda litinn sem bíður víst enn hristur en opnaður inni á baði, hlýtur að vera orðinn ónýtur. Kostaði BARA 2.000 kall. Ég er því með brúnt hár í dag, ekki dökkbrúnt. Mútaði reyndar Róberti snillingsmeistara með fimmtíukalli til að setja mig í fótósjopp. Hann mun án efa gefa rétta mynd af guðdómlegu innræti mínu. Myndin til vinstri sýnir hvað ég myndast hræðilega illa svona dagsdaglega, enda ekki með dökkbrúnt hár í þetta skiptið.
P.s. Ætli liturinn sé ekki ónýtur? Kannski bjartsýni að reyna að nota hann ... þ.e.a.s. ef heita vatnið verður komið í kvöld.
2.10.2007 | 13:12
Þyrnirós ...
Einhver ótrúlegur svefnhöfgi sveif yfir vötnum í himnaríki í gær og gengið var til náða fyrir kvöldfréttir. Þetta var sögulegt því að í himnaríki er reynt að vaka sem mest og lengst. Líklega eru gömlu óþekktargenin úr æsku enn allt of virk ...
Í dag er orkan mikil, tala nú ekki um eftir góðan tíma hjá Betu og grænmetissúpu í Skrúðgarðinum ... sem ég gleymdi reyndar að borga fyrir. Vona að ég verði ekki sett í straff. Tommi kom inn á kaffihúsið, vældi og veinaði yfir því að ekki væri kjötsúpa á boðstólum á meðan ég gladdist yfir bragðgóðu, hlýjandi ekkikjötsúpunni. Svo kemur bara í ljós hvort María elskar meira, Tomma eða mig ... á þriðjudögum.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 276
- Sl. sólarhring: 319
- Sl. viku: 939
- Frá upphafi: 1516289
Annað
- Innlit í dag: 223
- Innlit sl. viku: 764
- Gestir í dag: 214
- IP-tölur í dag: 209
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni