Færsluflokkur: Matur og drykkur

Súpa í suðvestanátt ...

Sjórinn 23.10 2007María býður núorðið upp á framandi súpur í hádeginu á þriðjudögum í Skrúðgarðinum. Kannski að grátkastið mitt, þegar ég henti mér á gólfið og gargaði vegna eilífrar kjötsúpu hafi eitthvað með það að gera ... Súpan í dag var algjör snilld, bragðsterk og full af grænmeti, mögnuð í svona hryssingslegu veðri. María kryddaði hana m.a. með sterku kryddi sem hún keypti í Egyptalandi fyrr á árinu. Ásta er í stuttu fríi og kíkti í einn kaffibolla, þessi elska. Ég gat ekki hugsað mér að segja henni frá framhjáhaldinu, öllu strætókúrinu með Sigþóru á morgnana undanfarið.

Stoppið var stutt í Skrúðgarðinum, enda mágur minn rétt ókominn til að sækja Bjart. Bjartur fór með góðu í búrið, vissi greinilega að nú kæmist hann heim og gæti farið út! Slíkt er ekki í boði hér, ég þori ekki einu sinni að leyfa honum að fara út á svalir. Hann er svo mikill töffari að hann myndi kasta sér á fyrsta máv sem hann sæi ... og það gæti verið Jónatan. Tek enga sénsa.

Sjórinn er nokkuð magnaður núna, enda suðvestanátt, og flæðir nú hratt að, háflæði kl. 16-17. Gott að vera ekki í Akraborginni núna, segi það þótt ég sakni hennar sárt. Við erfðaprins ætlum í smábíltúr á eftir og skoða sjóinn betur, Vesturgötumegin. Myndavélin verður með í för. Þangað til og eftir það verður unnið af kappi. Brimið veitir góða orku til þess!

Mikið er ég alsæl með vísurnar sem koma stundum í kommentakerfinu. Takk, Jensen og fleiri!


Hetjan Inga og viska Hallgríms ...

Bjartur og vitlaust veður 22.10.07Vitlaust veður við himnaríki kl. 16.30, ætlaði varla að komast út úr bílnum hennar Ingu, hvað þá þennan stutta spotta upp að dyrum. Reyndi að dekra hana á ýmsan hátt til að koma inn (kjúklingur í kvöldmat, leggja sig í leisígörl) og bíða af sér það versta en hún vildi halda í bæinn. Hetjan. Þannig að hún situr ein að björgunarsveitarmönnunum, dúllan, krúttið. Buxurnar mínar urðu gegnblautar þegar ég hljóp inn í Rekstrarvörur og sótti Sigþóru. Hún fékk að hætta aðeins fyrr til að ná heim.
Hviðumælirinn í Mosó sagði 26 m/sek á Kjalarnesi en engin viðvörun var vegna Hafnarfjalls. Í útvarpinu heyrðum við að hviðurnar þar færu upp í 40 m/sek. Mælirinn hefur kannski fokið.

Ávaxtamarkaður í EinarsbúðÍ göngunum endursagði ég það sem Hallgrímur læknir talaði um í morgunþættinum á Rás 2 undir átta í morgun. Aldrei hef ég heyrt að maður ætti ekki að tannbursta sig með flúortannkremi ... það dregur víst úr virkni joðs, skjaldkirtillinn starfar því ekki rétt ... bla, bla ... og maður brennir hitaeiningum. Hann talaði líka um nauðsyn þess að borða ávexti á morgnana, helst á 40-60 mínútna fresti fram að hádegisverði. Þá fær maður sér ekki kartöflur með fiskinum eða kjötinu, heldur grænmeti. Ég hlýddi því í hádeginu og borðaði ítalskar kjötbollur með salati. Síðan á ekkert að borða eftir c.a. 5, 6 á kvöldin. Rangt mataræði sljóvgar og býður heim sjúkdómum og orkuleysi, sagði hann.

Hallgrímur læknir er eini læknirinn sem hefur vottorð frá landlækni um að hann sé heill á geði, það kom líka fram í þættinum. Fyrir 15 árum sagði hann að sykur væri fíkniefni, þá var hlegið að honum. Fáir hlæja núna, allra síst ég þar sem ég berst við djöfullegar freistingar á leiðinni upp Súkkulaðibrekkuna á morgnana.

Elskan hann Bjartur fer heim á morgun. Hans verður sárt saknað (ekki af Kubb sem hvæsir á hann ef hann kemur nálægt). Hann er svo góður. Myndin að ofan er af honum, ekki Tomma. Þeir eru svo líkir. Svaka gaman fyrir Míu og Sigþór að hafa farið á West Ham leik þar sem hetjurnar sigruðu, 3:1. Hlakka til að heyra ferðasöguna.  


Sennilega aðkomumaður ...

AðkomumaðurÉg er sármóðguð vegna viðbragða fólks við þessarri frétt og ætla t.d. aldrei að hlusta framar á Guðna Má Henningsson! 

Fólk flissar um bloggheima sem segir mér heilmikið um ástandið vegna næturlífs í bæjarfélagi viðkomandi. Þetta ER nefnilega fréttnæmt! Á Skaganum býr svo mikið rólegheitafólk að sérstakt þykir ef ölflaska brotnar.

Líklega hefur þetta mögulega bara verið sár maður yfir úrslitunum í Formúlunni og misst óvart brothætta flösku.

Langlíklegast er þó að þetta hafi verið aðkomumaður.


mbl.is Braut flösku framan við lögreglubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílstjórar í biðröð, brjóstsykurslykt og stormur í vændum ...

Gvendur HafnfirðingurFerðin í morgun var ljómandi fín þrátt fyrir blikkandi rautt ljós og hávært aðvörunarhljóð úr mælaborði strætó. Líklegt að aðvörunarkerfið hafi bilað því vagninn malaði eins og köttur og skilaði okkur rúmlega heilum á húfi í bæinn. Tommi er lasinn og Gvendur Hafnfirðingur kom alla leið frá heimabæ sínum í morgun til að leggja af stað frá Skrúðgarðinum 6.41 og skutla okkur í bæinn. Svona erum við nú æðislegir farþegarnir á Skaganum að bílstjórar alls staðar af á landinu bíða í röðum. Hélt að svona hörkunaglar og víkingar eins og Tommi, sem leggja sér magála, súrt slátur, hrútspunga og ísbirni viljandi til munns, veiktust aldrei. Hann hefur kannski farið í matarboð í gær og fengið pasta.

Vont veðurVeðrið var æðislegt á leiðinni ... en þá á nú eftir að breytast þegar líður á daginn, búið er að spá stormi, takk fyrir. Kannski kemur Sigþóra með okkur Ingu upp á Skaga seinnipartinn, reyndar detta við það möguleikarnir á því að grípa sér sætan björgunarsveitarmann til eignar niður í 33.33 prósent, ja, ef ekki niður í 10 prósent, Sigþóra er svo sæt og mikil dúlla. Við Inga erum vitanlega MJÖG sætar líka en líklega engar dúllur. Dæmi: Til að gleðja Ingu þá er best að gefa henni borasett eða vélsög. Hún þekkir alla í BYKO og Húsasmiðjunni með nafni og hikaði t.d. ekki við að hringja í framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar til að fá góða uppskrift að steypu. Það stóð nefnilega ekki aftan á sementspokanum: 2 msk sement, 1 dl vatn, 1 msk sandur. Kannski er Sigþóra engin dúlla og sýnir bara á sér sparihliðina í strætó. Ja, það kemur í ljós í dag.

Verulega blaut rigningÉg ákvað að stríða Sigþóru á leiðinni og spurði hana sakleysislega hvernig hundslappadrífusagan hennar hljómaði. Systir hennar kom með þessa hugmynd í kommentakerfinu á dögunum. Sigþóra sagðist hafa ætlað að útskýra það fyrir manneskju sem ekki vissi hvað hundslappadrífa væri: "Það er svona blaut rigning," og systur hennar hafa strítt henni á þessu síðan.

Brjóstsykurslyktin var að drepa okkur á leiðinni upp kúlurass-(súkkulaði-)brekkuna og Sigþóra sagði að það hefði verið verra um daginn, en þá var verið að búa til lakkrís! Mér finnst líklegt að við mætum einhvern morguninn í Nóa Síríus ... með lambhúshettur á höfði, betlipoka og biðjandi augnaráð.

Algjör synd að Árbæingar hafi fengið að stela leið 18 sem áður gekk upp súkkulaðibrekkuna, það kostar okkur Sigþóru ekki bara mæði, heldur þurfum við líka að standast mismunandi freistingar á hverjum degi.

 


Með lögguna í vasanum ...

FormúlanÞessi sunnudagur breyttist svolítið, eiginlega bara heilmikið. Það átti að fara í netbolinn og njóta  Formúlunnar með stæl. Á meðan ég sat og horfði á vísana á klukkunni færast löturhægt í áttina að Formúlu hringdi síminn. Glaðbeitt kvenmannsrödd. „Hæ, þetta er Hilda (systir). Við mamma (mamma) ætlum að kíkja í heimsókn á eftir, hvernig líst þér á það?“ Margar vikur frá síðasta hittelsi ... Ég horfði á símtólið og sjónvarpið til skiptis. Nú voru góð ráð dýr. Mér datt djöfullegt snilldarráð í hug á sekúndubroti og með geigvænlegri lymsku tókst mér að fresta komu þeirra. Ég sagði Hildu að Formúlan yrði á dagskrá kl. 4 (þá byrjaði sjálf keppnin) en AUÐVITAÐ yrðu þær samt að koma. Í lok setningarinnar kjökraði ég lágt. „Ég kem bara eftir fimm,“ sagði Hilda hlýlega en hrím myndaðist samt á símtólinu. Það gæti hafa verið ímyndun hjá mér. Svo hringdi ég í lögguna.

LögganÞeim mæðgum seinkaði nokkuð, eins og ég bjóst við, (múahahahaha) og mættu ekki fyrr en kappakstursmennirnir voru búnir að burra og byrjaðir að djúsa og grobba sig. Ég styrkti nefnilega lögreglukórinn á Akranesi um nokkra fimmtíukalla og lét bæði taka þær fyrir hraðakstur (91,5 km/klst) og loka göngunum í svona 43 mínútur til öryggis.

Úrslitin voru bara fín. Þegar minn maður (Hamilton) hafði klúðrað þessu (snemma í keppninni) varð svo mikið spennufall í himnaríki að ég hefði reyndar alveg þegið heimsókn til að dreifa huganum.

Það hringdu fleiri sem voru að pæla í að koma í heimsókn. Ég sagði frá Formúlu, lögregluríki og fyrirhugaðri innrás ættingja. Líklega eru allir svo hræddir við mömmu, kannski enn frekar Hildu, að enginn þorði að koma.

Einmana um helgar (not)Það var ekki fyrr en þrjár mínútur yfir níu í kvöld sem ég áttaði mig á þessu samsæri. Vinir mínir og ættingjar er andstyggilega þenkjandi, þessar elskur. Þeir lesa bloggið mitt og finna þannig út hvenær ég ætla að horfa á eitthvað verulega krassandi í sjónvarpinu. Síðan hringir liðið til að prófa mig. Elska ég vini mína og ættingja ... eða er ég orðin sjónvarpsfíkill? Hvað um allar þær löngu helgar sem ég hef setið emjandi að springa úr einmanaleika (aldrei) og enginn kemur?  Vá, hvað ég ætla ekki að gera neitt um næstu helgi.

Það var ekki nóg með að mæðgurnar heiðruðu himnaríki með komu sinni ... Hilda hljóp óvænt niður í bíl þegar heimsókninni virtist vera lokið, skildi mömmu eftir, kom svo upp með fullt af mat sem hún eldaði handa okkur. Svakalega gómsætan taílenskan kjúklingarétt.

Þetta var frábær dagur! 


Ævintýraleit, þjóðahátíð og tímatökur

Haldið var í ævintýraleit um kl. 14.30. Tókst að plata erfðaprinsinn út með því að segja honum að líklega væri kökuhlaðborð í Skrúðgarðinum og Dieselbuxur á 4.990 í Ozone. Sá upplýsingar um það síðarnefnda í Póstinum, litla sæta dagskrárblaðinu okkar Skagamanna sem alltaf er lesið í tætlur. „Okkur varð nú ekki kápan úr því klæðinu,“ stundi erfðaprinsinn beiskur við heimkomu. Buxurnar voru bara í stelpustærðum, sýndist okkur, ekkert slíkt fyrir hávaxinn myndarmann.

María á flótta undan myndavélinniSkrúðgarðsprinsessurnarUppskera dagsins var þó ekki rýr, heldur kaffi og heit súkkulaðikaka í mallakút og langþráður kattasandur. Kökuhlaðborðið verður líklega annan sunnudag í nóvember. Fyrsta sunnudaginn verður Þjóðahátíð, eitthvað dásamlega sniðugt á vegum Rauða krossins þar sem m.a. er hægt að njóta krása frá heimalöndum nokkurra útlendinga sem búa hér á Skaga. M.a. munu írsk menning, indversk og pólsk ráða ríkjum. Ekki séns að maður láti þetta fram hjá sér fara! María Skrúðgarðsdrottning er einstaklega uppátækjasöm og það verður bráðum salsakvöld hjá henni. Skil varla hvernig ég gat lifað innihaldsríku og góðu lífi áður en kaffihúsið kom.

Bjartur er enn í pössun í himnaríki og er mun stilltari en síðast. Hann heldur að mestu til í þvottahúsinu og sefur þar daglangt bak við þvottavélina, ofan á sokk sem gleymist alltaf að sækja. Litli högninn með eldspýturnar ... Hann kemur reglulega fram til að borða, drekka og láta klappa sér. Honum virðist líða vel þótt hann kúgi ekki heimiliskettina að þessu sinni.

Nú er tímatakan hafiní Formúlunni og spennandi að sjá hvernig ráspóll verður á morgun, allt galopið og þrír hafa möguleika á því að ná heimsmeistaratitlinum. Óskir mínar um heimsmeistara: 1. Hamilton. 2. Raikkonen. 3. Alonso. Ekki dirfast að mótmæla mér!

P.s. Búin með bókina hans Árna Þórarinssonar, hún er algjör snilld! Finnst Einar blaðamaður einstaklega skemmtileg persóna og vona að ég geti lesið um ævintýri hans næstu áratugina! 


Æsandi hryllingsblogg með erótísku ívafi

GeimverurFékk svona BDSMS frá Ástu í morgun um drossíufar en Ásta hélt samt að við kæmumst ekki í bæinn vegna hvassviðris. Ég trúi á veðurmælinn á Kjalarnesinu (þótt mætti setja upp annan rétt sunnan við göngin) og sagði henni að hviðurnar næðu ekki einu sinni 30 m/sek. „Drífðu þig bara, kjéddlíng,“ sagði ég og fór að búa til latte fyrir okkur. Ferðin gekk glimrandi vel en greinilega ekki hjá öllum ... við ókum fram á bilaðan aukastrætó milli Mosó og Rvk. Farþegarnir voru horfnir. Hvað er í gangi? Okkur Skagamönnum hefur reyndar snarfækkað undanfarna daga, alveg úr 6.243 íbúum niður í 2.585. Skyldu geimverur hafa étið farþegana? Hvers vegna sleppur bílstjórinn alltaf? Já, Ásta hefur væntanlega bjargað mér frá skelfilegum örlögum með því að senda mér þetta BjargardeginumSMS.

ÖryggisverðirnirSótti útprentaðar blaðsíður af tilvonandi næstu Viku í prentarann áðan og sá að guðdómlega lífsreynslusagan er m.a. tilbúin og ... líka sitthvað fleira sem ekki tengist virðulegu fjölskyldublaði, heldur dónablaði sem heitir B&B. Ég argaði upp yfir mig, ekki af hræðslu, kommon ég er lífsreynd. Þegar öryggisverðirnir komu hlaupandi (því miður alltaf tveir saman) var ég orðin róleg. Þeir slefuðu af leiðindum þegar þeir sáu klámsíðurnar og sögðust óttast mun meira dulbúna klámið, m.a. í tónlistarmyndböndum og í "sárasaklausum" bæklingum. Ég rétti úr mér aftur, þar sem ég stóð ögrandi við prentarann, þurrkaði votar varir og lokaði munninum. Ekki stund, ekki staður ...

Enn einn æsispennandi morguninn er sem sagt runninn upp. Hvað gerist í tíukaffinu? Mun Eiríkur  hreyfa augun getnaðarlega við vatnskælinn? Horfir nýi maðurinn áfergjulega á mig þegar ég fæ mér espressó með G-mjólk(urstreng) út í? Hvað ætli verði í hádegismatinn hér í Lynghálsinum? Kannski ostrur og hvítvín? Missið alls ekki af næstu færslu um Dindlana í Hálsaskógi!!!


Góður Taí-staður og skrýtinn vatnsþrýstingur ...

Hlakkað til kvöldbaðsinsAfsakið hvað ég kem seint,“ sagði ég skömmustuleg við Gumma strætóbílstjóra í morgun. Vagninn kl. 9.41 var ekki mjög þéttsetinn miðað við 6.41-vagninn sem er alltaf troðinn. Gummi var bara hress og líka konan sem sat hinum megin við ganginn. Hún var í spjallstuði og fljótlega skellti ég 24 stundum og Fréttablaðinu ofan í tösku. Vaknaði nefnilega með hausverk dauðans í morgun og kenni því um að þegar ég ætlaði að fara að stíga ofan í kvöldbaðið með sítrónuilmandi baðbombunni í gærkvöldi var vatnið ískalt! Þvílík vonbrigði. Hvað er eiginlega í gangi? Þetta tengist eitthvað þrýstingi á vatnið og er víst ekki Orkuveitunni að kenna. Annars hefði ég barið Orkuveitumennina, mennina á Orkuveitubílnum, sem voru að loka jarðveginum með túnþökum fyrir aftan strætóskýlið mitt. Ja, eða grafa lík einhvers sem þeir hafa myrt. Hvað veit maður. Þeir voru reyndar ógurlega gæðalegir og sætir og höfðu dúndurtónlistarsmekk. Ég hoppaði dansandi upp í strætó undir tónlist Nirvana ... "I´m so happy, tra la la ...“ söng Kurt Cobain.

Taílenskur maturVið skruppum út að borða í hádeginu, fjórar fagrar og fræknar samstarfskonur, á Krúa Taí í Kópavogi. Þetta er útibú frá Taílenska staðnum í Tryggvagötunni. Þvílíkur dúndurmatur. Við vorum alsælar með kjúllana okkar, missterka. Ég bað um þann sterkasta, kjúkling í rauðu karríi, en samt var hann ekkert rosalega sterkur eins og inverskur eða mexíkóskur matur getur orðið.

Það skemmdi heldur ekkert fyrir stemmningunni að stórhuggulegir menn í stríðum straumum komu og borðuðu þarna ...

 


Óperugaul, plebbar og urrandi vinnugleði

ÓperusöngkonaHver þarf sérstaka orkuveitu þegar súpan í Skrúðgarðinum er svona hressandi? Má varla vera að því að blogga fyrir urrandi vinnugleði. Búin með krassandi lífsreynslusögu og önnur opna við það að klárast ... Hlusta á Rick Wakeman flytja King Arthur í leiðinni og það er hreinlega göfgandi tónlist, ekki síður en Tvöfalt líf Veróniku sem fer næst á fóninn í tölvunni.

Talandi um tónlist ...

Um kvöldmatarleytið í sunnudaginn bauð Rás 1 upp á
óperuna Ariadne í beinni útsendingu. Með von í hjarta og spenning í maga prófaði ég að athuga hvort óperan væri kannski mögulega finnanleg á ruv.is fyrir þá sem voru jafnvel í matarborði þegar hún var flutt í útvarpinu. Ójá, hér er hún:  
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4367618

Plebbarnir (eða þeir sem ekki þola óperugaul og drekka jafnvel latte úr glasi) fá í staðinn ansi flott lag, það besta að mínu mati frá Beach Boys:
http://www.youtube.com/watch?v=H_KY_d9MQv8&mode=related&search=


Díana og Kalli frestuðu sínu ...

 Eilíf hamingja... um heilt ár, næstum upp á dag. Ég giftist manninum sem síðar varð fyrrverandi eiginmaður minn laugardaginn 26. júlí 1980. Komst að því seinna að það hafði þau áhrif að bresku hefðardúllurnar treystu sér ekki til að ganga í hjónaband fyrr en ári síðar, eða laugardaginn 29. júlí 1981. Laugardagar til lukku, my ass!

Það dugði ekkert minna ...Einn hirðmanna minna í helvíti, gamla heimilinu mínu, var á undan breska liðinu og sendi svohljóðandi bréf til London: „Brúðkaupin myndu skyggja hvort á annað auk þess sem dagskrá hirðanna er svo þétt að það væri hreint ómögulegt að koma tveimur brúðkaupum fyrir á henni.” Þannig að Kalli og Díana urðu að fresta sínu.

Ég hef ekki viljað opinbera þetta fyrr og svo var ég líka eiginlega alveg búin að gleyma þessu þar til Viktoría fór að væla þetta yfir Jóakim. Þeim var nær, þau hefðu bara átt að giftast hvort öðru og málið dautt. Sannleikurinn er sá að þegar svona virðulegt fólk gengur í hjónaband, jafnvel bara trúlofar sig, þá þurfa gjafirnar að vera svo dýrar að þjóðhöfðingjar meika ekki að kaupa tvær sama árið. Þannig að árið 1980 fengum við fyrrverandi tvo kristalsvasa, þríarma kertastjaka (sem mamma fékk í skiptum fyrir gamlan mjólkurbrúsa), ofnpott, stálfat, kökudisk og fleira flott. Næsta ár fengu Kalli og Díana svipaðar gjafir, enda brúðkaupsgestir búnir að jafna sig eftir örlætið árinu áður.

Jamm, ætti ég kannski að fara að sofa? Held það bara. 


mbl.is Jóakim spillir brúðkaupsáætlunum Viktoríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 240
  • Sl. sólarhring: 289
  • Sl. viku: 903
  • Frá upphafi: 1516253

Annað

  • Innlit í dag: 192
  • Innlit sl. viku: 733
  • Gestir í dag: 186
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband