Færsluflokkur: Matur og drykkur

Ævintýrahöfuðborgin

HH á ísskápnumHvað er Hermann Hreiðarsson að gera á ísskápnum mínum?“ spurði ég erfðaprinsinn skömmu eftir heimkomu í dag. Ég tók allt í einu eftir því að einn flottasti íþróttamaður landsins glápti illilega á mig þegar ég var að búa mér til kaffi. Fátt varð um svör en ég kvarta ekki. Hann er orðinn ósköp skrautlegur ísskápurinn, m.a. nokkrar myndir af sjálfum erfðaprinsinum frá því hann var lítill og sætur. Nú er hann bara sætur. Hilda er þarna líka og Elvis Presley.

Stærsta hús í heimiVið Inga byrjuðum í Rúmfatalagernum í Smáratorgi og ég gekk út með fjögur teppi. Tvö svo hroðalega ódýr að það hefði verið bjánalegt að kippa þeim ekki með. Við fórum með fenginn út í bíl og svo var gengið yfir bílastæðið til að kíkja á nýju leikfangabúðina í stærsta húsi í heimi sem verið er að byggja í Kópavogi. Við vorum  báðar svo fátækar þegar börnin okkar voru lítil að okkur datt í hug að bæta þeim upp æskuna núna þegar við erum orðnar svona ríkar ...  Hvorug okkar er orðin nógu gömul til að verða amma þannig að við höfðum eiginlega enga afsökun fyrir því að ganga í gegnum búðina. Þarna var eitthvað um tómar hillur og heilmikið um börn með blik í auga.
 

Kommóðan guðdómlegaÁður höfðum við kíkt inn í Pier, nýja búð við hliðina á Toys-búðinni, sem opnaði í gær. Hún er óhugnanlega flott, eiginlega bara sjúklega æðisleg! Verðið á sumu þarna var líka ansi gott og þá er ég ekki að tala um hátt. Án þess að hafa ætlað að kaupa nokkuð féll ég kylliflöt fyrir míní-kommóðu án þess að vera mikið fyrir mínídót. Litirnir á skúffunum heilluðu mig algjörlega. Það kemst ansi lítið í skúffurnar, verð að viðurkenna það, varla eldspýtustokkur ... en erfðaprinsinn, stórhrifinn, sagði að hlytum að finna not fyrir þetta með tímanum. Hann fékk stórt og þykkt og grátt flísteppi úr RL, mitt teppi var svart og hvítt og fínrósótt, hrikalega mjúkt. Ódýru teppin voru ekki svo slæm heldur.

Það var alltaf eitthvað í gangi alla bæjarferðina. Ég sá t.d. lögguna í slag við skátaflokk, virtust vera mótmæli, og allt voða spennandi, blikkandi ljós og íslenski fáninn á fleygiferð, en Inga vildi meina að skátarnir væru bara í skrúðgöngu og löggan að liðka fyrir umferðinni. Mér finnst mín saga betri. Svo var haldið í Taco Bell sem er til húsa í KFC í Hafnarfirði, það vissi ég ekki. Inga valdi, enda vön, pantaði og borgaði sem var voða kósí. Virkilega góður matur og við drukkum fjalladrykk með.

Enn eitt ævintýriðÞað var ekkert lát á ævintýrunum. Á leiðinni í Taco Bell létum við þvo bílinn og fórum í gegnum nokkur æsispennandi stig á bílaþvottastöðinni. Skvettustigið, árásarstigið, bládraugaganginn, gardínustigið og í lokin Kjalarnes í hviðum-stigið.

Tók með mér Mary Higgins Clark-bókina til að lesa í strætó á heimleiðinni sem reyndist vera algjör óþarfi. Inga ákvað bara að skutlast á Skagann með teppin og kommóðuna og ég fékk að fylgja með, heilir tveir tímar í strætó frá Mosó ... sem hún vissi ekki, þannig að þetta voru bara helber almennilegheit hjá henni.


Langur Laugavegur

BúðirMikið var gaman að horfa á Wallender í gærkvöldi ... eða hefði verið ef augnlokin hefðu ekki reglulega farið í verkfall og augun heimtað hvíld ... (aðeins að hvíla augun) Það slökknaði alveg á mér í gær, ég fékk mér ekki einu sinni latte, of mikið átak, og þurfti síðan gífurlega mikinn viljastyrk til að standa upp úr leisígörl til að fara í rúmið.

Við Inga fengum þá hugmynd að kíkja í búðir á eftir (hugmynd Ingu), Langur laugardagur og svona ... og fá okkur kannski síðbúinn hádegismat í Taco Bell (hugmynd mín). Mig vantar ósköp fátt, helst gott og hlýtt og stórt teppi til að vefja um þann sem situr í Leisígörl, oftast mig, og svo yfir þann sem liggur í sófanum, oftast erfðaprinsinn. Yfirleitt eru þessi teppi bara í barnastærð, bleik með kögri, er ekki að leita að svoleiðis. Líklega finn ég þetta bara IKEA eða The Rúmfatalagers. Inga hefur hrósað Taco Bell og loks fæ ég að prófa. Finnst mexíkóskur matur mjög góður. Í góðum félagsskap verður þetta eflaust ekki óbærilegt, eins og ég hata búðaráp. 

Hrafnaþing stendur yfir á planinu fyrir neðan og þegar ég ætlaði að smella mynd af þeim kom hundur gangandi með mann í eftirdragi svo að krummarnir færðu sig. Svo skellur stormur á um hádegisbil, alltaf jafnmikið fjör ... þetta verður góður dagur.


Hneyksli í matsalnum

LitirÍ matsalnum í dag var hægt að velja um „sakleysisleg“ og frekar girnileg silungsflök, sem flestir féllu fyrir, og chili-bollur með chili-sósu. Meðfæddar gáfur mínar leiddu mig beint að chili-bollunum og ég sá ekki eftir því.

Ekki var nóg að fólkið við borðið mitt gargaði reglulega: „Bein, oj bara!“ og fleygði matnum og fékk sér chili-bollur í staðinn, heldur þurfti ég sárasaklaus að afplána að maðurinn í fjólubláu peysunni sem sat við næsta borð sneri á móti öðrum manni sem var í RAUÐUM bol.  ...  og maður setur ekki rautt og fjólublátt saman.

Tískuvitund minni og litaskynsemi var stórlega misboðið. 


Britney, fermingar og klikkuð aðdáun vegna klippingar gærdagsins

Britney greyiðVið Ásta vorum óvanalega menningarlegar í morgun og krufðum mál Britneyju Spears til mergjar á leið til vinnu. Báðar höfum við andstyggð á Kevin Federline, óábyrgu fyllibyttunni sem fékk forræðið yfir börnum þeirra Britneyjar og finnst að hann mætti alveg fara í meðferð eins og hún og líka á foreldranámskeið. Jamm, það gengur ekki að tala  eingöngu um landhelgismálið eða galla þess að ganga í Evrópusambandið eða verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum (sorrí, ég elska þetta frumvarp).

Nýja Vikan er komin í hús og Björk, dásamlega samstarfskona mín, skrifar þar grein um það þegar tvær fermingarveislur eru haldnar fyrir eitt fermingarbarn vegna ósamkomulags foreldranna, ja eða haturs. Bæði prestur og sálfræðingur segja skoðun sína á þessu og svona ... en það sem er merkilegast við greinina er að ljósmynd af ERFÐAPRINSINUM skreytir hana, hann er þar að fá sér sneið af fermingartertu! Veislan var haldin í Búsetasalnum þáverandi. Þá var Búseti til húsa í Hamragörðum (húsi Jónasar frá Hriflu), Hávallagötu 24, þar sem Kári Stefánsson keypti og hefur komið sér vel fyrir í! Ekki sakar að geta þess að lítið loftvarnarbyrgi er í kjallaranum, nema Kári hafi látið rífa það. Snilldarhús. Geri ráð fyrir að salurinn þar sem fermingarveislan var gegni nú hlutverki stássstofu. Ekki voru haldnar tvær fermingarveislur fyrir erðaprinsinn, heldur ein. FermingartertaÉg var reyndar atvinnulaus á þessum tíma og lögðust allir á eitt við að gera þetta glæsilegtu fermingu landsins og það tókst! Mía systir keypti t.d. fermingarfötin, mamma splæsti í tertu (bókina), Laufey vinkona keypti kransakökuna og fullt af liði bakaði, Lena tók fermingarmyndirnar og ég fékk salinn ókeypis. Fyrrverandi eiginmaður og konan hans gerðu t.d. tvær gómsætar brauðtertur, þessar elskur.

Ég ætlaði sko ekkert að skrifa um fermingarveislur í dag, penninn tók af mér völdin. Eigið sjúklega, æðislega góðan og skemmtilegan dag í dag, kæru bloggvinir, og þá er ég auðvitað ekki bara að tala um Moggabloggvinina, oseiseinei ...

P.s. Allir prófarkalesararnir (sem komu í hús á eftir mér) hafa rekið upp aðdáunaröskur yfir flottri klippingu minni. Ég reyni að vera kurteis og lítillát og segi takk, en ég er alveg sammála þeim. Anna í Mozart er snillingur! Hún hafði svo sem gott hráefni í höndunum. Mikið verður gaman þegar liðið mætir núna klukkan níu. Þá fæ ég aðdáun sem dugar mér í heila viku, og ég get sleppt því að mæta á Mörkina (Sódóma á Akranesi) í Ölver (Glæsibæ) eða á Hafnarkrána (við höfnina) í mánuð.


Opinberun Tómasar ...

Taílenskur maturKomst að því í Skrúðgarðinum í hádeginu að Akranes er nafli alheimsins. Rut sem vinnur þar var í flugvélinni frá Tyrklandi sem hlekktist á í lendingu nýlega. Mjög óskemmtileg lífsreynsla, að hennar sögn, þegar vélin skall harkalega niður á völlinn og hélt svo áfram á ofsahraða eftir brautinni. Hún er samt fúlust yfir því að hafa ekki enn fengið allan farangurinn sinn sendan eins og átti að gera strax. Kjötsúpa (arg) var í matinn í Skrúðgarðinum, eitthvað sem hefði átt að gleðja elskuna hann Tomma bílstjóra en Tommi hafði engan tíma til að slafra henni í sig. Allur að koma til, karlinn, eftir leiðindapest sem hefur hrjáð hann í nokkra daga. Hann kennir taílenskum mat, sem hann borðaði fyrir rúmri viku, um veikindin. Man ekki hrollvekjandi lýsingar hans á matnum en ég sagði að hann væri nöldurskjóða. Svona karlar sem taka súrsað, grænleitt slátur úr tunnu fram yfir meinhollar kræsingar frá Asíu. Það kom glampi í augu erfðaprinsins þegar hann heyrði matarlýsingar Tomma, svipaður og þegar hann bað mig um að giftast Jean Claude van Damme um árið. Jamm, kannski langar hann í fornmann sem stjúpföður, kannski fannst honum Tommi bara svona skemmtilegur. Einhver á staðnum fór að tala um kjöt á teini í kjölfarið og þegar Tommi sagðist alveg vera til í eitthvað slíkt á meðan það væri íslenskt lambakjöt kom í ljós að þetta er uppnefni á súludansmeyjum. Þá veit maður hvernig Tommi er ...

Nýklippt og æsandiUmhverfisstofnun Akranesborgar sendi mig í klippingu í dag, eða hefði gert ef það hefði séð mig. Erfðaprinsinn átti tíma í klippingu í Mozart og ég plataði hann til að leyfa mér að fara í staðinn. Gat ekki beðið í viku í viðbót en þá á ég tíma.
Mér fannst mjög grunsamlegt að lenda fyrst í stól við hliðina á Heiðrúnu sem var í mínum bekk í barnaskóla og síðan við hlið Hlínar. Það var reyndar einstaklega gaman að hitta þær ... en þetta var samt spúkí. Svo töluðum við aðeins um Madonnu og Michael Jackson sem eru jafngömul okkur ... og ég held að hinir á stofunni hafi trúað því að þau hafi verið í okkar bekk. Það lá við árekstrum á Skagabrautinni þegar ég gekk út. Gljáinn í hárinu blindaði ökumennina að vísu eitthvað. Liturinn á skolinu sem Anna setti í mig heitir Coffee eitthvað og er rosaflottur.


Í dag er glatt í þakklátum hjörtum ...

Algjörlega sviðsett myndSpölur reyndi án árangurs að nappa okkur Ástu fyrir of hraðan akstur í göngunum og voru búnir að setja upp þriðju myndavélina! Allt kom fyrir ekki, við fórum ekki yfir 70! Lentum líka í svívirðilega spennandi ævintýri á leiðinni ... rúðupissið kláraðist og salt flæðandi yfir framrúðuna. Við hefðum alveg eins getað verið með lokuð augun þessa metra sem voru að næstu bensínstöð. Á bensínstöðinni var Georg Bjarnfreðarson að vinna (þetta skilja þeir sem horfa á Stöð 2 á sunnudagskvöldum). Af því að við vorum svo fáránlega sætar hreytti hann ekki miklu í okkur, bara því að fólk notaði almennt of mikið rúðupiss. Við vorum svo þakklátar og glaðar í hjörtum okkar ...  Ásta fyrir að eiga ekki svona mann og ég fyrir að eiga ekki mann.

Sulla mjólkÉg var langfyrst í vinnuna, komin um 7.40, og dúllaði mér við að „skipta á“ kaffikönnunni (henda bláa pokanum með korginum, bæta við kaffibaunum og solles) og til að losna nú við allt sull henti ég rörinu af öllum litlu G-mjólkurfernunum svo að fólk noti nú skærin til að opna fernurnar ... MorgunkaffiðMér finnst þetta bara eðlilegt. Það fer alltaf jafnmikið af G-mjólkinni útfyrir eins og fer í bollann og það er pirrandi ...

Hafið það svo hrikalega gott í dag, „isskurnar“, og njótið þess í tætlur að drekka morgunkaffið ... morgunteið ... morgunkókómjólkina ... hvaðeina sem kemur ykkur í gírinn.


Litskrúðugur matur ...

Litríkur matur erfðaprinsinsSvakalega eru þeir góðir þættirnir um matinn, þessir sem eru sýnir á RÚV. Í endursýndum þætti í dag var kannað hvort vissar matartegunir geti hægt á öldrun. Í ljós kom að tómatar vernda húðina og best er að neyta 100 g af tómatpuré á dag, sérstaklega fyrir þá hættir til að sólbrenna. Spínat reyndist vera gott fyrir sjónina og getur hægt á aldurstengdri sjóndepru. Útkoma úr einni tilrauninni kom mjög á óvart, ekki bara mér, heldur tilraunadýrunum í þættinum, ungum djammstelpum sem voru fengnar til að borða hreinsandi mat. Jafnstór hópur borðaði venjulegan mat. Eftir viku kom í ljós að enginn munur var á hópunum, þær sem lifðu á „ógeðsdrykkjum“ voru ekkert „hreinni“. Það má greinilega ekki vanmeta getu líkamans til að hreinsa sjálfan sig. Að vísu prófuðu tvær samstarfskonur mínar svona kúr og voru ansi hollar um tíma. Það sást heilmikill munur á þeim útlitslega á einni viku, þær geisluðu, en samkvæmt þessu voru þær ekkert hreinni að innan en við hin! Útkoman út úr þessu öllu saman varð sú að við ættum að borða sem litríkastan mat. Litarefnið í tómötunum o.fl. er það sem gildir, kom fram í þættinum. Án þess að hafa séð hann eldaði erfðaprinsinn ansi litríkan mat í kvöld. Ég ætti ekki að kjafta frá því ...  en hann bar kokkteilsósu með. Hann er nú í bíó.

MonkÞað þarf heldur betur að halda vel á spöðunum í kvöld, enda góð sjónvarpsdagskrá. Þegar 20 mínútur eru liðnar af Monk þarf að skipta yfir á danska spennuþáttinn á RÚV og þegar honum lýkur skipta á Stöð 2 plús og sjá restina af Monk. Þá hefst Næturvaktin frábæra og síðast er lögfræðispennuþátturinn Damages.

Bakið næstum albatnaði við tvær íbúfen, hitapoka og volgt bað. Fimm fullir katlar af sjóðheitu vatni dugðu til að koma smáhita í vatnið. Anna, mín manneskja hjá Orkuveitunni, segir að þetta sé innanhússvandamál í húsinu. Best að kvabba á nágrönnunum við tækifæri.  


Matar"kuklarinn" Solla

Ég heyrði brot úr Samfélaginu í nærmynd í gær þar sem viðmælandinn líkti Sollu hjá Himneskri hollustu við kuklara. Ég var steinhissa, enda skrifar Solla greinar um hollt mataræði, ekki dulræn málefni. Á bloggsíðu Svans læknis, sem var mögulega viðmælandinn í útvarpinu, segir líka að það hafi ekki komið honum á óvart þegar Solla lauk grein sinni með því að ætla að tala næst um himalayakristalinn. Sá skilningur var lagður í kristalinn að viðkomandi Solla hlyti að trúa á stokka og steina ... Ég rannsakaði málið ... Himalaya-kristall er SALT!!!

Mér finnst greinarnar hennar Sollu mjög góðar og hvetjandi fyrir okkur sófadýrin sem kannski blekkjum okkur með því að kaupa bananabombur og appelsínusúkkulaði ... til að fullnægja ávaxtaþörf dagsins ... hehehe. Veit ekki til þess að Solla hafi nokkru sinni tjáð sig um spádóma áruþvottavélar eða slíka samkvæmisleiki. Hún er öll í mataræðinu og hlýtur að hafa á einhvern hátt rétt fyrir sér þar sem hún hreinlega geislar af orku og lífsgleði ...

Spælandi að ná ekki að komast með Ástu á Skagann núna kl. 15 en það er föstudagur og mikið að gera. Yfirleitt erum við búnar um fjögur til fimm og það er mikill munur frá því áður þegar þetta var yfirleitt fram á kvöld.  Ætla meira að segja að reyna að ná 15.45-vagninum.


Jólaundirbúningur, bold og skrýtin sjúkdómseinkenni á mbl ...

Jólin nálgastVið Ásta kíktum í Húsasmiðjuna á heimleiðinni. Ég keypti kannabis (ilmdropa) og eitt jólaskraut. Jólin nálgast óðfluga, eins og sést í búðum. Líklega verður þetta eini jólaundirbúningurinn í himnaríki, a.m.k. í október. 

----    ----   ----   ------     -----    -----     -----     ----- 

Belgískar vöfflurÞar sem Ridge er búinn að segja Taylor upp þarf hann að finna sér nýja konu í staðinn. Hann kíkir á minnisblaðið. Bíddu, jú, Brooke er hætt með Nick, tengdasyni sínum, og nýskilin við Eric, pabba Ridge. Hún ætti að vera nokkurn veginn á lausu. Hann fer og biður hennar. Nick birtist í miðjum klíðum með Hope litlu, dóttur Brooke og hins tengdasonarins sem Brooke tældi, Deacon. Þau voru úti í búð til að kaupa belgískar vöfflur. Hann spyr Ridge hvaða erindi hann eigi við Brooke. Nokkuð mikil afbrýðisemi hjá tengdasyninum. Af hverju er hann ekki hjá óléttu konunni sinni?  Brooke tekst að koma þeim út og heldur áfram að hafna Ridge.

Meiri belgískar vöfflurÁ sama tíma heima hjá Taylor: Stefanía kemur í heimsókn og sér að Taylor liggur döpur í sófanum. Steffí vill meina að hjónabandi þeirra Ridge sé aldeilis ekki lokið, hann hafi bara brugðist of harkalega við eldgamla framhjáhaldinu og kossi brunakarlsins!
Brooke segir Ridge að fara aftur til Taylor! Hann segist eiga heima hjá Brooke og börnunum.  
„Þú særðir mig meira en nokkur hefur gert,“ segir Brooke. Hún afhjúpaði Stefaníu, eða gervihjartaáfall hennar sem var sett á svið til að neyða Ridge til að velja Taylor, og með hjálp Jackie, mömmu Nicks, og ekki dugði það til að opna augu Ridge þannig að loks þegar Ridge hefur áttað sig er það of seint. Ridge elskar Brooke. „Ekki gera mér þetta,“ segir hún.
Stefaía kveður sorgmædda Taylor og hviss, bang, brunakarlinn birtist með rauða rós. Hann á erfitt með að fela gleði sína yfir skilnaðinum. Hvar er Amber? Hvar eru Rick og unga brúðurin hans?   

„Vefköku notanda vantar“ ... kemur stundum þegar ég reyni að blogga eða kommenta. Eru þetta ekki aðeins of miklar upplýsingar um viðkomandi bloggara? Þetta minnir á sjaldgæfan sjúkdóm.


Hugrekki æskunnar ...

Himnaríki 455Við erfðaprins fórum í brimleiðangur að skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts brynjuð myndavél og hugrekki, eða það hélt ég. Þar verða öldurnar oft risastórar og gaman að sjá þær skella á klettunum. Svo var byrjað að væla: „Það tekur svo í bílinn. Heldurðu að öldurnar komi yfir bílinn ... bíllinn, bíllinn, bíllinn.“ Ég held að sumum þyki vænna um bílinn sinn en mömmu sína. „Farðu nær,“ sagði mamman, heyrnarlaus á allt rugl. Haglél, skvettur, þrumur og eldingar halda mér ekki frá góðum öldum.

Öldurnar voru bara stórar, eins og sést á myndinni, sem ég náði af einni skvettunni. Erfðaprinsinn fór enn nær en þetta og þurfti að lauma sér fram hjá gámum og drasli til að komast ... og bakka svo alla leiðina til baka. Múahahahaha! Eins gott að hann kann að bakka eins og kona. Annars hefðum við getað lent í ógöngum ... Ég fór ekkert út úr bílnum, veðrið var svo vont og það hrikti í öllu.  

Tveir vitarSvo var farið að vitunum tveimur og lætin í sjónum þar voru sæmileg, ekkert samt rosaleg. Reyndi að skora á prinsinn að aka Faxabrautina heim en því miður hafði hann séð út um glugga himnaríkis að öldurnar gengu þar yfir. (sjá mynd af Faxabraut í síðustu færslu á undan) Hvar er hugrekki æskunnar?
Að síðustu var haldið í Einarsbúð (fyrir utan búðina var logn!) og þar fengum við góðar móttökur að vanda. Steikja á lauk og fisk fyrir móður sína til að bæta fyrir heigulsháttinn. Nú dynur haglél á gluggum, þvílík snilld.

Svona veður. Nammmmm!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 167
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 830
  • Frá upphafi: 1516180

Annað

  • Innlit í dag: 150
  • Innlit sl. viku: 691
  • Gestir í dag: 146
  • IP-tölur í dag: 144

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband