Færsluflokkur: Matur og drykkur

Flokkar: Sjónvarp, matur og drykkur, bækur

LaugardagskvöldTónlistarveislan í gær kom í veg fyrir að ég gæti klárað að horfa (hlusta) á boldið en það hefur heilmargt gerst að undanförnu. Barn Bridget fæddist of snemma og dó og í sorginni hefur Bridget loks áttað sig á því að Nick er bara með henni vegna barnsins. Nú gerir hún í því að ýta honum í fang móður sinnar, Brooke. Felicia, sem er að deyja úr krabbameini, var búin að sjá fyrir sér að Nick, sem reyndist vera faðir barnsins hennar, og Bridget tækju að sér Nicholas litla sem myndi þá alast upp með Nichole litlu (sem dó). Bjargvættur Taylor, sem ég man aldrei hvað heitir, átti villta ástarnótt með Feliciu níu mánuðum áður en Nicholas litli fæddist vill láta athuga hvort hann sé mögulega faðir Nicholasar. Felicia má ekki heyra á það minnst. Lengra var ég nú ekki komin. Veit ekki hvar Stefanía er, hún hefur ekkert sést. Hvað þá Amber.

SunnudagskvöldAnnars hefur dagurinn verið góður. Erfðaprinsinn viðraði móður sína um kaffileytið og bauð henni með í Skrúðgarðinn. Besti kaffidrykkurinn á staðnum, tvöfaldur latte með 150°F mjólk, hefur nú verið endurskírður, hann heitir ekki lengur Kaffi-Gurrí, heldur Íslensk kjötsúpa. Þetta á víst að vera húmor ... Minnir óneitanlega á bolinn sem Anna vinkona gaf mér eitt sinn með mynd af sjálfri mér og léttmjólk framan á. Myndin var tekin á einu sunnudagskvöldinu hennar á Álftanesi, ég hef án efa drukkið kók það kvöldið. Eftir allt nöldrið í mér um að léttmjólk væri ekki boðleg út í kaffi (bara nýmjólk) var þetta bara gott á mig. María hugsar eins og Anna: refsum nöldurskjóðunni. Þetta er sem sagt síðasta nöldrið mitt! Á morgun hefst nýtt líf, nöldurlaust. Þá fæ ég kannski bol með réttri mjólkurtegund og kaffidrykkurinn fær sitt rétta nafn aftur. Hver biður um kjötsúpu þegar hann langar í latte? Ha, María! Ja, ég pantaði heitt súkkulaði í mótmælaskyni. Verst að María var ekki á staðnum og stelpurnar föttuðu ekkert. Þegar við mættum á staðinn var stund milli stríða, rólegt eftir mikla ös og svo drifum við okkur út þegar allt fór að fyllast aftur. Það veitti sannarlega ekki af því að fá kaffihús á Skagann. Tengingin við strætó (endastöð) er líka snilldarleg. 

Lauk við bókina Englar dauðans (eftir Þráin Bertelsson) í dag. Hún er mjög góð; spennandi, sorgleg og óhugnanleg ... og stundum fyndin. Veit ekki hvort Ævar Örn er með krimma núna en ég á Yrsu eftir. Við eigum orðið skrambi góða sakamálahöfunda. Man þegar Leó Löve sendi frá sér spennubók fyrir mörgum árum og sumum fannst bjánalegt að skrifa slíka sögu sem átti að gerast á saklausa landinu okkar. Ja, æsku okkar Íslendinga og sakleysi er greinilega lokið ...

Tók silfurslegna mynd út um gluggann í gærkvöldi og aðra ögn gylltari í kvöld. Bjútífúl!


Matur, spurningakeppni og brúðkaup aldarinnar ...

Samstarfsfólkið í matsalnumVikulega spurningakeppnin fór fram í matsalnum í hádeginu við borðið okkar, annan föstudaginn í röð. Doddi spurði okkur spurninga upp úr helgarblaði DV og náði ég að svara þremur af tíu, hinir gátu bara eina til tvær. (múahahahaha) Vona að þetta viti á gott. Vissi hvað nýja bókin hennar Gerðar Kristnýjar heitir, nafn prests innflytjenda á Íslandi og eitthvað eitt enn. Hinir vissu þetta kannski en ég var fljótust að svara, sjúkkkkk! Vona að Útsvar (sem nálgast hratt) verði með álíka spurningar, þá rúllum vér Skagamenn þessu auðveldlega upp.

LambalæriGrænmetislasagna og lambalæri í matinn í dag. Brúðkaup aldarinnar með mat frá London hvað! Annars verð ég að segja að ég er dauðfegin að mér var ekki boðið í brúðkaup Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Hvað hefði verið hægt að gefa þeim í brúðargjöf?

Læt mér alveg nægja að hafa komist í brúðkaup aldarinnar á síðustu öld!!! Þar tókst mér að gleðja Thor Vilhjálmsson með því að spyrja hann klukkan hvað hann hefði fæðst þann 12. ágúst, til að tékka hvort okkar væri eldra. Honum var plantað við borð hjá okkur vinkonunum og var voða skemmtilegur borðherra.


Mötuneytiskjötbúðingskartöflumúsarsósurauðbeður

GrænmetiKjötbúðingur, kartöflumús og brún sósa, majóneshrásalat og rauðbeður, í æsku var svona eitthvað algjör draumamáltíð en ekki lengur. Gleymi því stundum að sæmilega metnaðarfullur salatbar er á staðnum.

Sigþóra sá að ég hafði reynt að hringja í morgun og lét heyra í sér nokkru síðar. Jú, hún var með á hreinu hvað gerðist í morgun. Strætó missti afl á milli Mosó og Reykjavíkur (fyrsta ferð dagsins fer alla leið í Ártún). Hún fór út á stoppistöðinni okkar og sá sér til hrellingar að strætó var orðinn afllaus og stóð kyrr á stoppistöðinni. Hasar í vinnunniSvo fór að rjúka úr honum og þetta var enginn smáreykur. Hin samviskusama Sigþóra dreif sig í vinnuna, enda mæting kl. 7.30, og einhverjir aðrir verða að segja okkur hvernig allir farþegarnir komust á áfangastað. Líklega hefur aukabíllinn tekið hring og hirt upp fólkið.

Slinkur kom á mig í morgun (tengist hvorki kynlífi né drykkju) smáhasar í gangi, og það þurfti ekki meira til, nú geng ég kengbogin, alveg að drepast í bakinu. Mikið er dásamlegt að það verður sjúkraþjálfun á morgun! Sjúkkitt, gott að ég fæ far með Ástu heim, það er ekki sniðugt að taka strætó með hálfgert þursabit. Hitapoki og íbúfen hjálpar eitthvað.


Af tvíburum, kjötsúpu og sjokkerandi Monk-leysi ...

KjötsúpuveisluborðiðErfðaprinsinn með Ísak og ÚlfÞá er ég búin að smakka bestu kjötsúpu í heimi og það er ekki einu sinni hægt að gefa uppskrift að henni hér á blogginu, hún er nefnilega aldrei eins í tvö skipti hjá Míu. Drykkurinn var voða spennandi (ekki áfengur), eitthvað rosagott sem Mía bruggaði sjálf. 

Mesta tilhlökkunarefnið var þó að hitta tvíburana hugumstóru og þeir brugðust ekki, voru hvers manns hugljúfi. Þeir borðuðu kjötsúpuna (stappaða) með bestu lyst. Rifist var um að halda á þeim. Þótt þeir þekki erfðaprinsinn lítið voru þeir afskaplega rólegir í fangi hans, eins og sjá má á myndinni.

 --------        ------------         ------------        -------------        ------------          ------------          --------

TímaþjófurinnHilda notaði ferðina og skilaði mér mynd sem hún hafði verið með í láni, grafíkmynd eftir Magnús Kjartansson, keypti hana seint á níunda áratugnum. Mikið var ég glöð að endurheimta hana þar sem enn er veggpláss fyrir myndir í himnaríki en á Hringbrautinni var hver flötur nýttur. Minnir að hún heiti Tímaþjófurinn.

Sigþór og Mía með Ísak og ÚlfErfðaprinsinn var í sjokki eftir að við komum heim, Monk var ekki í kvöld á dagskránni og engin viðvörun um það. Mér fór reyndar að verða svolítið illa við Monk þegar ég komst að því að hann er svo nískur. Níska er dauðasynd að mínu mati.

Gáfaða og vel gerða fólk Íslands (skv. Jóni Gnarr) kaus Næturvaktina sem besta sjónvarpsþáttinn, það gerði ég líka! Er bara ansi ánægð með úrslitin. Var líka mjög ánægð með að Egill hafi fengið tvenn verðlaun, hef gaman af þáttunum hans. Nú er Glæpurinn byrjaður, danski spennuþátturinn sem mér finnst svo skemmtilegur. Síðan ætl´ég að gefa Prison Break séns (á Stöð 2 plús), finnst samt eins og verið sé að draga áhorfendur svolítið á asnaeyrunum og framleiða meira og meira þar sem þættirnir slógu í gegn. Þekki ungan mann sem hefur séð fyrstu sex þættina í þessarri nýju þáttaröð, segir þennan fyrsta alveg sæmilegan en næstu fimm mjög spennandi.


Kínverskar kótilettur, fagurblár fjaðurpenni og Jason ...

Helga afmælisbarn og AprílNýkomin úr höfuðborginni eftir stanslaust át, hlátur og skemmtilegt spjall í kvöld. Jú, litla systir varð fertug í dag og hélt upp á það með látum! Fór með Ingu í Kringluna til að kaupa afmælisgjöf, auðvitað í Eymundsson. Keypti fínan gullkassa og skellti nýrri jólabók ofan í hann, þessari nýju eftir höfund Flugdrekahlauparans, disk með Katie Melua, súkkulaðikúlum (þær fást orðið í bókabúðum), bókamerki og fjöður (penna). Helga trylltist úr hamingju yfir ... já, haldið ykkur ... fjöðrinni, sem kostaði c.a. 50 kall.  

Kínverskar kótilettur og meðlætiÍ matinn voru kínverskar kótilettur (mig grunar að flogið hafi verið sérstaklega með þær til landsins frá Kína fyrir afmælið) og svakalega voru þær góðar.
Hilda krútt skutlaði mér í Mosó og í strætó á heimleiðinni sást friðarsúlan einstaklega vel.

 

Erfðaprinsinn lá í stofusófanum með elskuna sína yfir sér, eða gráa, þykka flísteppið sem ég keypti handa honum á laugardaginn og hann fór að elska við fyrstu sýn. Uppþvottavélin mallaði dugnaðarlega en Jónas er orðinn rykfallinn af notkunarleysi, hefur ekkert fengið að gera í nokkra daga, greyið. Þarf nauðsynlega að gera eitthvað í þessu. Hugmyndir, anyone?

Vinnufélaginn Jason StathamTók þessa mynd í vinnunni síðdegis en hún sýnir útsýnið úr sætinu mínu. Ef ég lít upp sé ég bara krúttmolann hann Jason Statham á bakinu á tölvunni hennar Bjarkar. Nú er kannski skiljanlegt hvers vegna mér líður alltaf svona vel í vinnunni. Ekki skemmir bráðhuggulegur síminn fyrir. 

Fjær á myndinni má sjá skvísurnar á Séð og heyrt og enn fær sést inn í umbrotsdeildina þar sem Guðný og sætu strákarnir halda til.  

Svo er það bara elskan hún Ásta kl. 6.50 í fyrramálið á fínu drossíunni. Skrýtið að B-manneskja, eins og ég, nái að vakna svona snemma, stundum hress eins og fólk í kornfleksauglýsingu, líklega er það vegna þess að þetta er eiginlega um miðja nótt. 


Hámarksorka, dularfulli geðilli bílstjórinn og óguðleg Vika!

KaffitárÓsköp ljúf strætóferðin áðan, Kiddi keyrði eins og engill og alltaf jafngott að hvíla í örmum Ástu á morgnana, skyldi hann Böddi vita af þessu? Var með uppáhaldsfarþegana sitt hvorum megin við mig, en Sigþóra sat hinum megin við ganginn og ... svaf. Það tekur hana innan við 10 sekúndur að steinsofna í strætó. Þar sem ég get aldrei sofið í flugvélum, loftbelgjum, skíðalyftum, lyftum eða í strætisvögnum þá er ég sjálfvirki vekjarinn hennar. 

Inga beið okkar neðst í Súkkulaðibrekkunni, hún var að vinna í grenndinni og ákvað að skutla Sigþóru upp kvikindið og fara síðan í Kaffitár Bankastræti með mig. Orkan er því í hámarki því að tveir latte voru keyptir til að djúsa í Hálsaskógi fram eftir morgni! Hvílíkt dásemdarlíf. 

Spjallað á stoppistöðÉg þarf að komast að því hvaða strætóbílstjóri það er sem margir kvarta sáran undan. Hann fleygði víst stelpu út í gær af því að hún var með kaffimál (með loki) og beljar geðillskulega á farþegana sem virðast fara ósegjanlega í taugarnar á honum, samkvæmt því sem ég heyri. Þetta hlýtur að vera einhver í afleysingum, einhver sem hatar Skagamenn vegna velgengni í fótbolta, fallegs kvenfólks eða eitthvað! Þarf að finna út úr þessu! Þetta er eitthvað alveg nýtt því að geðbetri menn en bílstjórana á Skagastrætó er erfitt að finna ... until now!

Vikan kemur út á morgun. Hún er komin í hús hérna og eitthvað byrjað að dreifa henni. Ótrúlega athyglisvert viðtal við Teit Atlason guðfræðing sem hvetur fólk til að skrá sig ÚR þjóðkirkjunni ... Forsíðuviðtalið er við Siggu Lund útvarpskonu sem var heilaþvegin af sértrúarsöfnuði og endaði gjaldþrota eftir veru sína þar. Mjög skemmtilegt og opinskátt viðtal. Við áttuðum okkur á því í vinnsluferlinu að tvö stærstu viðtölin tengjast trúfélögum og er það algjör tilviljun.


Ofsótt af kjötsúpu

UppbyggingMikil ánægja ríkir með Þjóðahátíðina í Skrúðgarðinum sl. sunnudag. María sagði mér yfir súpunni í dag að það hefði komið skemmtilega á óvart hversu vel var mætt, það var fullt út úr dyrum og eins daginn áður þegar Ármann Reynisson kynnti vinjetturnar sínar.

Við erfðaprins ókum einn brimhring um Skagann þótt það verði ekki háflæði fyrr en kl. 16. Tók mynd á leið upp Faxabrautina sem sýnir örlítið þá uppbyggingu sem er í gangi. Verið er að byggja stórt hús, risastórt, stærra en Turninn í Kópavogi. Húsið hægra megin er gamla mjólkurstöðin, einu sinni Veitingahúsið Langisandur, og nú eru þar íbúðir.  Skagamenn voru 6.000 fyrir nokkrum mánuðum, nú nálgumst við 60.000, styttist í 6 milljónir með þessu áframhaldi.

Afmælisbörn dagsins eru Katrín Fjeldsted læknir og Margrét Blöndal útvarpskona. Þær fá náttúrlega klikkaðar afmæliskveðjur úr himnaríki. Litla systir og systursonur eiga svo afmæli á morgun.  Mía systir hringdi og sagði að okkur erfðaprinsi væri boðið í kjötsúpu á laugardaginn í tilefni af 15 ára afmæli sonarins. Er farin að halda að kjötsúpa ofsæki mig.


Þrír frakkar og enginn í fríi!

Þrír frakkarVissi að þetta yrði góður dagur, eiginlega frábær! Skemmtileg byrjun á vikunni. Ég átti stefnumót við gamla og góða vinkonu sem ég hef ekki hitt alveg hrikalega lengi. Við hittumst á Þremur frökkum og borðuðum saman hádegisverð. Í kaupbæti hitti ég óvænt aðra gamla og góða vinkonu sem búsett er í Bath í Englandi. Kom heim til að vera við jarðarför. Upplýsingar: Sú sem þjónaði okkur var að fara til Flórída seinna í dag. Englandsvinkonan flýgur heim til Englands í fyrramálið og vinkona mín mun verja jólunum á Hawaii! En ... ekki öfunda, ekki er allt sem sýnist, onei!!! Það er nefnilega allt morandi af viðbjóðslegum skordýrum í útlöndum, stórhættulegum og svo ófríðum að þau geta drepið mann úr hræðslunni einni saman. Mætti ég frekar biðja um íslenskt veður; frost og snjó með tilheyrandi geitungaskorti!

Við fengum okkur sveppasúpu í forrétt og ég get alveg sagt það og staðið við að ég hef aldrei fengið betri sveppasúpu (ekki einu sinni hérna í mötuneytinu ...). Langar að læra að búa til svona súpu og hafa sem forrétt um jólin eða eitthvað! Oft verða súpurnar of saltar á veitingahúsum en þarna var ekki klikkað á neinu. Í aðalrétt fékk vinkonan sér rauðsprettu en ég veðjaði á karfa með rjóma-wasabi-sósu. Mjög, mjög gott. Hvítvínsglas með, hikk! Ég er eiginlega enn á rassgatinu!

Góða þjónustukonan heimtaði að gefa mér leifarnar í catty-bag (vinkona mín blaðraði því að ég ætti kisur) og mér hefði nú alveg fundist við hæfi að fá þær í Harrods-poka ... svona miðað við gæði staðarins og bragð matarins ... en nei, það var Bónuspoki, eins og ég sé eitthvað lágvöruverslanagengi! Kommon, hvað ætli fólkið í strætó segi þegar ég mætti með Bónuspoka?


Allra þjóða kvikindi ...

jamaicaPólskur maturÞetta var nú meiri snilldin þarna í Skrúðgarðinum. Fullt út úr dyrum af fallegum Skagamönnum af mörgum þjóðernum. Féll fyrir pólsku súrkáli og rjómasíld, súpu frá Jamaíka, indverskum kartöfluréttum, úkraínskum kartöflum með reyktu svínakjöti, skoskum þjóðdansi, taílenskum kjúklingarétti, ungverskri kjötsúpu, kássu frá Nígeríu og þrælskemmtilegu fólki. Pólsk kona á nú heimboð í himnaríki. Veit ekki hvað hún er búin að búa lengi hérlendis en hún talar lýtalausa íslensku. Eini gallinn við þetta allt saman var að ég gleymdi myndavélinni.
Erfðaprinsinn var ekkert spenntur fyrir því að mæta en honum fannst svo gaman að ég þurfti að draga hann út eftir rúman klukkutíma. Hann var lystarlaus til að byrja með en þegar hann kom auga á taílenska kjúklingaréttinn brustu hlekkirnir og hann sagði: „Já, takk,“ þegar honum var boðið að smakka. María færði mér skaðabætur, einn latte, fyrir að hafa verið með kjötsúpu á þriðjudaginn. Hún tekur nöldrið í mér allt of alvarlega. Það var síðan algjör tilviljun að við erfðaprins þutum út þegar átti að fara að sýna línudans, ég sver það. 

Jónas olnbogabarn„Aðeins að hjálpa bróður mínum,“ sagði erfðaprinsinn og sópaði ganginn, eða þann hluta sem geislinn blokkeraði. Jónas var settur í að ryksuga, flokka korn og hreinsa arininn á meðan við skruppum út en í stað þess að vera kominn í hleðslu aftur og himnaríki tandurhreint hafði hann stöðvast ofan á lúmskum lampafæti á gamaldags þriggja arma gólflampa. Hann komst hvorki upp né niður og slökkti bara á sér. Sá fær ekki að fara á ballið. Spennan milli bræðranna er ekki úr sögunni. Jónas er allt í einu „búinn“ að ryksuga og kominn í hleðslu. Mjög grunsamlegt. Sumir þurfa greinilega frið til að horfa á sjónvarpið eða lesa ...

Yngsta systir mín á stórafmæli á miðvikudaginn. Hún hringdi áðan og sagði mér að taka annan hvorn soninn með í afmælið. Held að hún meini Jónas og vonist svo til að ég gleymi honum.  


Þjóðahátíð í Skrúðgarðinum

Indverskur maturVið erfðaprins hrutum yfir hádegisfréttum í stofunni og svo aftur yfir Stöð 2 plús klukkutíma seinna. Held að veðrið geri þetta að verkum. Kalt, hvasst, lægð og svona. Ætlum þó að fara að hypja okkur niður í Skrúðgarð á þjóðahátíðina sem er á vegum Rauða krossins. Þar verður fólk af ýmsum þjóðernum ... og matur, sem er æðislegt þar sem fátt finnst í ísskápnum í himnaríki. Vona að sem flestir Skagamenn mæti. Þetta er liður í Vökudögum og stendur frá 14-18 í dag. Skyldi Tommi brjóta odd af matlæti sínu og prófa eitthvað annað en sviðahausa, bringukolla og kjötsúpu? Það verður nú spenna dagsins. 

Held að fleiri en Skagamenn séu velkomnir, hviðurnar á Kjalarnesi eru ekki nema rétt yfir 20 m/sek. Strætó fer í 32.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 76
  • Sl. sólarhring: 161
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 1516089

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 615
  • Gestir í dag: 73
  • IP-tölur í dag: 72

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband