Færsluflokkur: Matur og drykkur
30.9.2007 | 13:00
Samkvæmistímabilið hafið
Mikið er veðrið stórkostlegt. Mótokrossmótið hefði átt að vera í dag. Svo verður klikkað veður í nótt og á morgun, algjört slagveður. Mikið vona ég að Ásta verði á bíl í fyrramálið, svona til öryggis ef strætó gengur ekki.
Við erfðaprins ætlum að sjá Astrópíu í kvöld í Bíóhöllinni á Akranesi. Við keyrðum þar framhjá í gær og eina sem við sáum var að myndin yrði sýnd sunnudag og mánudag, upplýsingar væru í síma 431 1100. Mikið höfum við reynt að hringja þangað en enginn símsvari segir KLUKKAN HVAÐ myndin verður, bara bíbbbb-hljóð. Hringdi í Ástu sem heldur að sýningar séu klukkan átta. Ætla samt að leita á Netinu, upplýsingar hljóta að finnast einhvers staðar.
Guðmundur kom í frábæra heimsókn í gær og gerði sér lítið fyrir og bauð okkur erfðaprinsinum út að borða á Galito. Fyrir forvitna þá fékk Guðmundur sér kalkúnasamloku, erfðaprinsinn litla pítsu og himnaríkisfrúin grænmetisrétt. Snilldarmatur. Við vorum tiltölulega nýbúin að úða í okkur eplaköku með vanillu- og súkkulaðifyllingu þannig að hungrið var svo sem ekki að drepa okkur. Mjög líflegt var á Galito. Allt fullt í salnum fyrir innan þannig að við sátum frammi og gátum m.a. fylgst með því hvaða Skagamenn nenntu ekki að elda og sóttu sér frekar pítsu.
27.9.2007 | 12:28
Vandræðalegar uppákomur, pínkubold og góð súpa
Ylfa Mist skrifaði svo hryllilega fyndið komment hérna nýlega og sagði frá mjög persónulegu SMS-i sem hún sendi á rangt gemsanúmer ... fékk til baka fjandsamlegt svar þar sem hvorugt hjónanna í þessu númeri sagðist kannast við að þekkja hana ... arggggg! Ég hafði skömmu áður kommentað hjá Ólínu Þorvarðar sem bloggaði um það þegar einhver braust inn í gemsann hennar og sendi ótal skilaboð til hinna ýmsu ... Í fréttum komu síðan leiðbeiningar um það hvernig ætti að gera þetta og nú er ég hrædd. Sérstaklega eftir þetta sem kom fyrir mig og sagði frá hjá Ólínu ...þegar tölvan mín hóf að senda ókunnugum manni klámmyndir frá mér og ég vissi ekkert fyrr en hann baðst vægðar ... en ég var alsaklaus af þessu. Vírusar gengu mikið á þessum tíma, meira að segja í vinnutölvum. Óttast mest að vera klámdrottning í huga þeirra sem fengu kannski svona glaðning frá mér og héldu að ég væri í alvörunni að senda dónapóst.
Æ, höfum við ekki öll lent í einhverju svona hræðilega vandræðalegu?
Súpan hennar Maríu í Skrúðgarðinum er einstaklega góð í dag. Bragðmikil og hlýjaði um hjartarætur sem veitir ekki af í þessu slagviðri. Ágætis bragðauki var svo að fá elskuna hann Tomma á staðinn þótt hann skammaði mig fyrir svik við Strætó bs, að hanga svona í einkabílum, eins og einhver prinsessa. Hélt hann vissi af bláa drossíublóðinu sem rennur um æðar mér ...
Þegar ég vaknaði í morgun var boldið byrjað og rekkjusnakk stóð yfir, ég bjóst við einhverju krassandi en þá voru það bara Nick og Bridget að væmnast eitthvað. Í gær voru jólin hjá Forrester-fjölskyldunni og sonur Nicks og Feliciu (dauðvona dóttur Erics og Stefaníu) var skírður, eða það stóð til. Stefanía og Felicia báðu hvor aðra innilega afsökunar á því að vera a) vond móðir, b) vond dóttir. Meira sá ég nú ekki ...
Jæja, best að fara að baka. Týndi sonurinn fer alveg að koma.
26.9.2007 | 17:11
Frægukarlablogg og flottar öldur
Þegar ég sat og gúffaði í mig góðum mat í hádeginu settist hjá mér enginn annar en Örn Árnason. Hann var að fara að lesa inn á risaeðluþáttinn sem er á Stöð 2 á laugardagskvöldum, minnir mig. Ég bjóst við einhverju svakalega fyndnu Spaugstofugríni en ... maðurinn sagði: Er ekki Steingerður enn að vinna með þér? Ég hló samt kurteislega til öryggis og sagði honum allt um snillinginn hana Steingerði. Þau Örn voru saman í bekk í gamla daga og miðað við blikið í augum hans held ég að hann hafi verið skotinn í henni í 10 ára bekk. Ég játaði fyrir Erni að ég hefði verið yfir mig ástfangin af Jakobi Þór leikara á sama aldri. Svona geta nú leyndarmálin fokið óvænt upp úr manni næstum 40 árum seinna þegar maður er að reyna að veiða leyndarmálin upp úr öðrum. Fleiri frægukarlar voru á vappinu í vinnunni minni, sætir íþróttafréttamenn, alla vega einn, og sjálfur Egill Helgason, sem hefur bjargað fyrir mér alltofkvenmiðuðusjónvarpsefnis - miðvikudagskvöldunum með Kiljunni, þættinum sem ég ætla sannarlega að horfa á í kvöld.
Svo fékk ég drossíufar heim með hálflasinni Ástunni minni og hef eiginlega setið við gluggann síðan og horft á öldurnar, þær eru ekkert smáflottar núna. Ljósmynd nær þeim engan veginn. Gluggarnir eru orðnir vatnsheldir en enn er smáleki við svaladyrnar. Nú verð ég að fara að hringja í góða smiðinn minn áður en hann gleymir mér alveg. Eftir að hann er búinn að gera sitt má veturinn koma í allri sinni dýrð!
24.9.2007 | 20:00
Fokið yfir hæðir ...
Vá, það var svo mikið rok á leiðinni í bæinn. Sérstaklega undir Akrafjallinu, skömmu áður en við komum í göngin, og líka þegar við keyrðum niður í Kollafjörðinn. Sem betur fer fukum við ekki út í sjó. Við Heimir komumst að þeirri niðurstöðu að best væri að sprengja Esjuskrattann í loft upp. Ég sagði að þessar væluskjóður, fjallgöngumenn, myndu alveg tryllast ef við kæmum með þá hugmynd og þá var nú sjálfhætt við, hver þorir að angra fjallgöngumenn? Miðað við laugardagsmyndina á Stöð 2 myndi þeir láta braka í brotnum beinum og annað ógeðslegt sem tengist opnu fótbroti.
Heimir var voða þakklátur þegar ég sagði honum að alltaf þegar við mættum risatrukkum gerði ég mig alla stífa til að hjálpa rútunni að haldast á veginum. Ég sá líka á honum að honum fannst mikið til um þegar ég saup hveljur þegar mestu lætin voru. Verst hvað ég borðiði lítið í dag, bíllinn var of léttur fyrir bragðið en samt komumst við heil í Mosó.
Hilda var með AFGANG af hrygg handa mér. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún tekur dóttur sína fram yfir systur sína sem hefur þó þekkt hana miklu lengur en dóttirin. Krakkarassgatið hennar kveinaði af löngun í hrygg í gær þar sem hún þurfti að fara á ráðstefnu í Svíþjóð í morgun. Og hvað gerði Hilda, hún lét þetta eftir dekurdýrinu, eldaði mánudagshrygginn í gær. Ég er samt ekkert beisk, afgangurinn af hryggnum bragðaðist rosalega vel og líka kjúklingabringurnar og þegar Hilda sagði: "Ekki vera HRYGG," þá tók ég gleði mína aftur. Hilda datt í símann núna og tengdasonurinn á heimilinu er að vaska upp, þarf að hafa eitthvað fyrir stafni ... af söknuði eftir Ellen sinni.
Er í Makkafjanda og get því ekki sett inn myndir eða svert athyglisverð orð ... vona samt að þið nennið að lesa þetta.
24.9.2007 | 17:15
Loksins ...
Sá að strætó er farinn að ganga. Jibbí. Líklega var þetta fyrsta ferð dagsins, kl. 16.41. Sem þýðir að ég tek hann 17.41 í bæinn. Það var ekki bara gaman að sitja föst á Skaganum, margt að gera í dag, fyrir utan vinnuna, m.a. fara í mat til Hildu systur í Kópavoginum. Ég læt lambahrygg ekki fram hjá mér fara, enda mjög langt síðan ég hef smakkað hann. Hilda er líka soddan matreiðslusnillingur ...
Það er farið að lægja en samt er enn hvasst í hviðum, sé á síðu Vegagerðarinnar að þær fara upp í 28 m/sek sem er auðvitað ekkert miðað við 45, eins og var í nótt og morgun.
Hér er mynd af Tomma sem ég tók á Írskum dögum í sumar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.9.2007 | 20:32
Beðið eftir storminum ...
Það hefur sjaldan verið dásamlegra að komast heim en í dag. Þvílík þreyta, þvílík vöðvabólga. Kannski kann Jónas að nudda axlir, held þó að hann kunni bara að ryksuga. Dónalega samstarfskona mín kenndi mér að setja grófa myndbandið inn í færsluna hér fyrir neðan. Ég hélt að það væri svo saklaust og sætt. Svona getur maður nú orðið mikill dóni alveg óvart. Ég bið a.m.k. helming bloggvina minna afsökunar.
Náði strætó kl. 17.45 og ætlaði að versla inn fyrir helgina á bensínstöðinni ... litla stúlkan með eldspýturnar og 1944 ... Ætlar þú kannski í Einarsbúð, spurði Elli bílstjóri þegar ég hreyfði mig ekki til að fara út við stoppistöðina á Garðabrautinni. Ne ... Þrátt fyrir mikla þreytu uppgötvaði ég á rúmu sekúndubroti að klukkan var ekki orðin sjö og enn opið. Já, svaraði ég, það ætla ég sko að gera! Þar sem búið er að spá æsispennandi stormi á morgun keypti ég rafhlöður, hangikjöt, vatnsflöskur, flatkökur, hleratimbur og súkkulaði. Ég hef lært ýmislegt af því að horfa á CNN á fellibyljatímanum.
Tvær samstarfskonur mínar eru nú á leiðinni austur fyrir/yfir Fjall og ætla að verja helginni í sumarbústað. Ætlunin er að detoxa og þær tóku með sér fleiri kíló af spínati, kókosvatni, jarðarberjum og öðru gúmmulaði til að búa sér til heilsudrykki. Vonandi mundu þær eftir að taka blandarann með. Mér fannst á annarri þeirra að hún væri alveg til í að taka frekar steikur og bjór með ... Ég hringdi í þær þegar ég sá veðurspána og bað þær um að vera ekkert á ferðinni á morgun. Lítil hætta á því, við verðum örugglega á klósettinu, sögðu þær. Helgin mín, sú síðasta í bili sem einbúi, verður mun áhugaverðari en þetta.
Talandi um mat ... Uppi varð fótur og fit hjá Gestgjafanum í gær þegar fín lambakjötsmáltíð hvarf ... áður en náðist að mynda hana. Áður en kom til þess að starfsmenn væru teknir í blóðprufu og lygamælispróf gaf sökudólgurinn sig fram. Það reyndist vera einn stjórinn á staðnum, mikið ljúfmenni sem var fyrirgefið á stundinni, enda hafði hann stór orð um það hvað maturinn bragðaðist vel. Úlli þurfti að elda upp á nýtt og við flissuðum þegar Ási gekk pakksaddur í gegnum salinn. Já, völva Vikunnar var búin að spá stóru hneykslismáli á árinu þar sem þjófnaður kæmi mögulega við sögu.
Hér kemur svo eitt alvörumyndband fyrir þá bloggvini sem kunna gott að meta:
http://www.youtube.com/watch?v=1vfSk-6tIvo&mode=related&search=
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.9.2007 | 12:35
Dúmbó og Tommi
Af hreinum skepnuskap út í sjálfa mig hafði ég kveikt á símanum í sjúkraþjálfuninni ... og hann hringdi auðvitað á versta tíma. Held að ég hafi útskrifast á þessarri stundu í sjálfsstjórn og þolinmæði.
Ætlaði svo í súpu í Skrúðgarðinum. María hafði gleymt loforðinu síðan í gær og í stað framandi, indverskrar súpu beið sama gamla, góða kjötsúpan (sem er samt gómsæt). Tommi sagði að gúllassúpa með chili hljómaði líka vel, verst að það kviknaði í klósettinu í kjölfarið, bætti hann við í stíl Ástu, þau tala nefnilega mannamál. Já, Tommi bílstjóri var í Skrúðgarðinum og lét gamminn geysa að vanda. Ég komst m.a. að því að honum finnst kaffidrykkja í strætó ekki kúl. Líklega heldur hann að farþegar mæti með sjóðandi heitt kaffi í venjulegum kaffibolla og njóti þess að skvetta því yfir hina farþegana. Hmmm. Hann og Gummi bílstjóri, sem hefur verið að keyra útlendinga um hálendið í allt sumar, eru sömu nöldurseggirnir og segja að ef leyft verði kaffi í strætó þá heimti þeir að fá að borða kæstan hákarl undir stýri. Karlskröggarnir mínir ... hehehehehe ...
Þegar ég tek kaffi með mér í strætó þá næ ég yfirleitt að ljúka við það á stoppistöðinni, enda er bara ætlunin að hlýja sér í morgunfrostinu. Kaffið, sem er í lokaða kaffimálinu mínu, er orðið moðvolgt og myndi ekki skaða neinn, hvað þá í dropaformi, þar sem drykkjargatið er pínulítið.
Hitti mann í sjúkraþjálfuninni og bauð honum góðan dag. Kannski man hann ekki eftir því en einu sinni bað pabbi hann um að keyra mig upp í Hvalfjörð.
Þarna voru lögð fyrstu drög að áhuga mínum á aksturíþróttum því að ungi maðurinn ók á næstum 100 km/klst á flotta Benzinum sínum við mikla hrifningu mína þar sem ég sat í framsætinu og hvorki búið að finna upp öryggisbelti né malbik. Mikið leit ég upp til hans eftir þetta og var örugglega pínulítið ástfangin af honum um tíma þótt ég væri bara sjö ára.
Helsti keppinautur hans um ástir mínar á þessum tíma var Steini í Dúmbó.
17.9.2007 | 08:58
Vetrarkuldi ... og kaffidrykkjubann skollið á í strætó
Enginn Heimir hjá mér í dag, sagði Kolla á Bylgjunni og dæsti mæðulega. Ég hló hróðug, nýkomin upp úr Hvalfjarðargöngunum, enda sat Heimir fyrir framan mig og keyrði strætó. Hann brunaði fram úr aukabílnum, sem tímajafnaði á Kjalarnesinu, en tafðist örlítið við að hleypa kvensmiðnum út skömmu síðar. Þegar við renndum í hlað í Mosó náði aukabíllinn okkur. Ætlar þú virkilega að leyfa honum að ná þér? spurði ég Heimi. Við erum ekki í kappakstri, sagði Heimir rólyndislega og gerði ekkert til að stinga aukabílinn af. Þetta var nokkuð sem ég hefði ekki viljað vita ... því að hluti af spennu minni yfir að fara með strætó í haust hefur verið þessi tryllingslega spennandi kappakstur á milli aðalbíls og aukabíls. Svo var þetta allt blekking og bara tilviljun hvor kemst fyrr í mark.
Ég tók latte með í strætó í morgun, óafvitandi um að slíkt væri í raun bannað! Las nefnilega í DV að farþega í Rvík hefði verið meinaður aðgangur í vagn vegna þess að hann hélt á götumáli með kaffi. Þeir hjá Strætó bs segja að Gísli Marteinn hefði lofað þessu með kaffið upp í ermina á þeim. Hvað er svona slæmt við kaffidrykkju í strætó? Varla sullar fullorðið fólk mikið niður, sérstaklega þar sem það drekkur kaffið sitt í gegnum pínulítið gat á lokinu.
Engin Sigþóra var í aukabílnum þannig að ég gekk alein og einmana upp kúlurassbrekkuna og bjóst við að Prentmetsgæinn æki framhjá mér á móts við súkkulaðiverksmiðjuna. Kannski kom hann bílnum ekki í gang í Mosó, enda var ansi kalt í morgun. Tók vetrarvettlingana með en fattaði ekki að fara í sokkabuxur. Veturinn er að skella á, folks!
14.9.2007 | 20:33
Af kaffimáli, alþingissamferðamanni og norskum veðurvef
Mikið er gott að helgin er loksins komin. Þusti með leigubíl í Mosó undir hálfsjö og náði síðustu síðdegisferðinni. Þar var fyrir nýr bílstjóri, ósköp indæll eins og allir hinir. Farþegarnir voru heldur ekki af verri endanum; gaur af sætukarlastoppistöðinni (sem aukabíllinn stelur í heild sinni frá mér í morgunferðinni) og svo Gutti, þingmaðurinn okkar. Við ræddum gáfulega saman á leiðinni, m.a. um verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum og fleiri kúl frumvörp. Gutti hefur verið í alþingismannafríi, þeyst um kjördæmi landsins og setið ýmsa nefndarfundi. Nóg að gera þótt þingið sé í fríi. Hann kenndi mér þegar ég var í 12 ára bekk hérna á Skaganum og þótti okkur bekkjarsystkinunum rosalega gaman að fá tilbreytinguna en hérna í eldgamla daga sátum við uppi með sama kennarann svo árum skipti og hann kenndi ALLT nema leikfimi og sund. Við vorum reyndar heppin með Rögnvald, hann var frábær. Mig minnir að við höfum verið afar góður bekkur og ekkert kvalið kennaranemann Gutta neitt svakalega mikið, eiginlega bara ekkert. Þá hefði hann líka ekki yrt á mig í strætó.
Mamma hringdi í mig í gær og sagði mér að hún hefði prófað að setja fyrst kaffið í bollann sinn og síðan mjúlkurskvettuna ... og það væri svo miklu betra. Ef hún hefur byrjað að drekka kaffi á unglingsaldri, eins og ég, þá hefur hún drukkið það á rangan hátt, eða sett mjólkina fyrst, í heil 60 ár! Það er heilmikill bragðmunur!
Veðuráhugafólk athugið. Hér er spennandi veðurvefur: www.yr.no og loks hægt að sjá veðurhorfurnar nákvæmlega á hverjum stað fyrir sig. Ég skellti inn orðinu "Akranes" og fékk staðfestingu á að hér verður mikil veðurblíða að vanda á næstunni. Munið bara að skrolla svolítið niður síðuna.
10.9.2007 | 22:51
Kuldavandamál leyst, myndarskapur og fleira
Ég hef alls ekki gaman af væmna konuþættinum Men in Trees, beið bara spennt eftir nýja lögguþættinum, Amazing Grace. Sá á eftir að taka áhorf frá Omega.
Þrjár afar girnilegar kiljur bíða eftir athygli og fá hana ... eftir CSI New York á SkjáEinum plús ef ég nenni að standa upp til að skipta um stöð ...
Ansi áhugaverð álit komu fram í kvöld í Íslandi í dag um efnahagsmál og heimsendi í þeim efnum mögulega, kannski, jafnvel, líklega bráðlega. Saknaði þess að engin kona sagði álit sitt, hélt reyndar að þær væru í meirihluta í viðskiptafræðinni og hefðu haslað sér völl í þessum geira.
Nú er það er hreinlega spurning um að hugsa sig rosavel um áður en ég veð út í framkvæmdir í himnaríki þar sem ég á ekki digra sjóði á reikningi, ekki frekar en flestir. Verst er að nýju svalirnar leka og parkettið liggur undir skemmdum. Veit ekki hvort ég á að hringja í smiðinn minn, hann er alla vega ekki búinn að segja mér upp og hefur enn lykla að himnaríki, eða aðilana sem settu upp svaladyrnar. Ef smiður bæði mín í dag myndi ég líklega játast honum þótt ég sé alls ekki í giftingarstuði. Gerir maður ekki allt fyrir gamla, slitna parkettið sitt?
Inga stoppaði stutt í dag en fékk að sjá ofurmennið Jónas butler ryksuga himnaríki. Nú hefur Inga öðlast tilgang í lífinu og stefnir á eitt svona krútt. Hún hefði átt að sjá til mín þegar ég bjó mér til latte með öllu tilheyrandi með butler í stuði við að þrífa eldhúsgólfið. Nú veit ég með vissu að ég kann enn að hoppa og er ansi efnileg í ballett. Vil ekki breyta heilabúi Jónasar þar sem hann er búinn að læra himnaríki utanbókar ... ef hann rekst í löpp sem er fyrir honum gæti hann forritað það inn á minnið. Held ég.
Myndarskapurinn var geysimikill í himnaríki í kvöld. Rótargrænmeti, laukur, chili og fleira skellt í ofninn og kjötbiti steiktur. Það sem gerði þetta enn frekar óhugnanlega skrýtið var að Jamie Oliver var akkúrat að elda og spjalla í sjónvarpinu um leið.
Eitthvað varð að gera þegar kuldinn var allt að drepa, snilldarhugmyndin um að skrúfa frá ofnunum eftir sumarfríið virkaði líka vel. Það blæs nefnilega og rignir frá Ameríkunni, mjög líklega hefur lítill fellibylur fokið hingað. Nú er vel hlýtt og notalegt. Stutt í háttatíma.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 6
- Sl. sólarhring: 287
- Sl. viku: 803
- Frá upphafi: 1516320
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 668
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni