Færsluflokkur: Matur og drykkur

Uppgangur á Skaganum og kvenfyrirlitning úti á Granda

Stóra blokkinÚtsýniðÉg er þakklát fyrir að hafa kíkt á gemsann minn í gærkvöldi þegar ég rétt mundi eftir að skella honum í hleðslu. Sá þá SMS frá elskunni henni Ástu: Verð á bíl, viltu far? Það var of síðla kvölds til að svara þannig að ég hringdi í hana í morgun og þáði farið. Beið niðri í gangi kl. 6.55 með latte í annarri og latte í hinni. Birkir þiggur ekki latte frá mér, heldur vill treina sér kaffigleðina þar til hann er kominn í vinnuna. Veit maðurinn ekki að sjúkrahúskaffi er ekki bara bráðdrepandi, heldur líka hryllilega vont? Það kemur í glærum plastpokum til að ekki sé hægt að rekja það og er notað til að grisja aðeins þetta lasna lið.

Ásta og Birkir (sönn ást) þáðu Moggann minn og DV með þakklæti þar sem LSH er ekki lengur með Morgunblaðið handa starfsfólki/sjúklingum. Sparnaður í gangi og eitthvað annað sem var tekið af líka, Ásta mundi ekki hvað það var. Held að það sé nafnið. Nú má bara segja Landspítali, ekki Landspítali háskólasjúkrahús. 

Sést í himnaríkiForeldrar Ástu voru að flytja í stóru blokkina á Skagaverslóðinni, sjá myndirnar að ofan. Þau eru á 6. hæð og Ásta segir að útsýnið sé gjörsamlega geggjað! Á myndinni hér til vinstri sést mögulega í himnaríki ef vel er gáð, blátt þak fyrir miðri mynd. Það er bara ein íbúð óseld í stóru blokkinnni sem segir mikið um uppganginn á Skaganum, allar dýru lóðirnar í Krosslandinu eru t.d. seldar og bæði raðhús og einbýlishús spretta upp eins og gorkúlur. Held að þetta hafi hafist þegar strætó byrjaði að ganga ... þótt Akranes sé ekkert úthverfi frá Reykjavík þá er fjarlægðin svo lítil. Mikið vona ég að Ásta drífi mig einhvern daginn í kaffi til foreldra sinna. Vona að þeim verði sama þótt ég hangi úti í glugga ... 

 

                   ------- ooo - O - ooo ----------

VeiðiMér finnst veiðarfærabúðarauglýsingin ömurleg og myndi ekki fara í þessa búð þótt ég fengi 99% afslátt af vöðlum og veiðistöngum. Sérstaklega eftir að ég sá yfirlætisleg svör eigandans í DV í dag þar sem honum finnst þetta bara sniðugt og segir að viðskiptavinunum finnist það líka. Ótrúlegt að nota hálfnakta konu til að auglýsa veiðistangir! Ég upplifði þetta sem algjöra fyrirlitningu og niðurlægingu! Hvernig á okkur að takast að ná jafnrétti á meðan litið er á okkur sem brjósta- og rassadillandi leikföng, bara til skrauts? Hvers konar karlrembuþjóðfélagi búum við í? Ég vil láta sekta búðareigandann fyrir kvenfyrirlitningu. Meira að segja "fornaldarlegt" þjóðfélag eins og Bandaríkin, þar sem dauðarefsingu er beitt, sýnir konum meiri virðingu. Þar þykir t.d. glæpsamlegt að áreita konur (og karla) kynferðislega á vinnustað og er hörð refsing við því en á Íslandi heyrist jafnvel í fólki: „Æ, hvað er kellingin að væla? Smáklíp í rassinn skaðar nú engan. Má hún ekki vera fegin að einhver líti við henni?“

By the way, Ásta fær ekki bílastyrk í vinnunni ... eins og Birkir!!!


Myndagláp og súrtunnan í sveitinni

The lives of othersTell No OneÞrjár bíómyndir vermdu DVD-tæki himnaríkis í dag og kvöld. Tvær þeirra voru erlendar og ein ammmrísk. Allar góðar, sérstaklega þær evrópsku. The lives of others (Das leben der anderen) er kannski ekki hröð en verður þrælspennandi þegar á líður. Hún endar líka flott! Fékk Óskarinn sem besta mynd ársins í flokki mynda á erlendu tungumáli. Franska spennumyndin Tell no one (hægra megin) fannst mér líka mjög góð, tryllingslega spennandi á köflum. Þriðja myndin var Perfect Stranger með Halle Berry og Bruce Willis. Óvæntur endir, meira að segja ég sem sé oft út næstu atriði, áttaði mig ekki. Guðrún vinkona kíkti aðeins og horfði með mér á hana. Hugsa að hún hefði fílað betur þá frönsku, hún er ekki mjög hrifin af karlamyndum eins og henni fannst Perfect Strangers vera, það er þó langt frá því að evrópsku myndirnar séu konumyndir. Ég flokka reyndar ekki myndir nema í góðar myndir, slæmar myndir og kéddlingamyndir (svona sannsöguleg, tárakreistandi dramakvikindi). Þær síðastnefndu horfi ég helst ekki á nema kefluð með eldspýtur til að halda augunum opnum.

Íslenskur maturGóður hafragrautur ...Við Tommi bílstjóri spjölluðum helling saman á leiðinni upp á Skaga á föstudagskvöldið. Umræðuefnið frá Kjalarnesi og upp á Skaga var íslenskur matur af gömlu gerðinni. Á meðan Tommi slefaði yfir stýrið af tilhugsuninni um besta mat í heimi (já, hann er skrýtinn) kúgaðist ég. Ég reyndi að segja honum frá hryllingnum sem ég lenti í í sveitinni þegar ég var stundum send í kjallarann til að sækja slátur í súrtunnuna. Þar sem súrsað hafði verið í tunnuna næstum ári áður var komið grænt slý í hana, fannst mér, það var svo dimmt, og ég þurfti að kafa með handleggnum upp að öxl til að sækja kannski einn kepp af súrri lifrarpylsu og annan af blóðmör. Síðan þurfti að pína þessu í sig með hrísgrjónagrautnum. Sem betur fer var aldrei hafragrautur í þessari sveit þar sem ég fékk ógeð á honum árinu áður í annarri sveit árinu áður þar sem ég var barnfóstra. Þá var eldaður hafragrautur kl. 7 á morgnana og skammtað á diskana, líka á minn þótt ég fengi að sofa til níu. Það var því slímkennt, kalt lím sem ég þurfti að pína í mig á hverjum morgni. Síðan hefur mér þótt hafragrautur viðbjóður. Líka súrt slátur. Annars var frábært að vera í sveitinni, fyrir utan þetta með slátrið og hafragrautinn.
Tommi talaði af miklum söknuði um það þegar hann fékk hafragraut á mánudögum, kekkjótt graðhestaskyr á þriðjudögum og hræring á miðvikudögum, í gamla daga. Samt talaði hann af sér ... og fyrir utan tónlistarsmekkinn, sem við eigum sameiginlegan, finnst okkur Seríos með bönunum út í rosalega gott. Sem betur fer hafa tímarnir breyst.


Eva frænka hittir Arvo Pärt og Mick Jagger borðar skyr í Æðey

Sendiherrabíllinn hennar MíuSkrapp í Skrúðgarðinn snemma kvölds. Þóttist vita að 59-árgangurinn væri horfinn þaðan og heim til Huldu. Það var ekki alls kostar rétt því að góðglaður og alveg sæmilega huggulegur maður var þarna að leita að hópnum sínum. Maðurinn horfði ástaraugum á mig þegar ég gekk inn og ég hélt að hann ætlaði að kyssa mig. „Hilda,“ sagði hann með nautnalegri svefnherbergisröddu. Því miður var ég svo fljótfær að ég leiðrétti hann og sagði honum að við Hilda hefðum þótt afar líkar sem börn og þættum jafnvel enn. Við María sögðum honum síðan heimilisfangið hjá Huldu og hann fór út. Frétti nokkrum mínútum síðar að hann hefði hlammað sér inn í svarta sendiherrabílinn hennar Míu og sagt: „Þær eru klikkaðar þessar kerlingar!“ Svo leit hann á Míu og fékk algjört áfall þar sem hann hafði sest upp í rangan bíl, ruddist út og færði sig yfir í lítið svart Fíat-vaskafat sem var rétt fyrir framan. Svo er sagt að konur ruglist á bíltegundum. Á morgun ætla ég sko að hringja í Huldu og spyrja hver það var sem mætti um hálfsjöleytið til hennar. Mér þætti gaman að vita hvað það var sem við María sögðum sem fékk hann til að segja að við værum klikkaðar.

Himnaríki 291MatargerðinMía bauð mér í mat og þetta var frábær kvöldstund. Matarboð fjögur kvöld í röð, keðjan má bara ekki slitna, hver býður á morgun? Ég valdi dinner-tónlistina, klassískan kórsöng (Ave verum corpus, Lacrimosa og þess háttar) og við borðuðum matinn að sjálfsögðu í hálfleik. Staðan var 1:0 fyrir Ísland. Við Sigþór mágur stóðum bæði upp, ég í smók og hann að eldhúsast eitthvað, akkúrat þegar íslenska markið var skorað. Við hefðum átt að vera stanslaust á ferðinni í kvöld, sorrí!
Mía greip með sér hráskinkubréf í búðinni þegar ég var að velja batteríin (í tækið sem varpar geislanum sem Jónas butler kemst ekki í gegnum) og þegar hún opnaði ísskápinn sá hún að Sigþór hafði keypt sams konar skinku: „Oft eru dauð hjón lík,“ tautaði hún. Ég hélt að hún ætlaði að fara að segja mér krassandi hjónabandssögu en þá var þetta bara málsháttur eftir Sverri Stormsker.

Mick JaggerYfir matnum hljómaði unaðsleg tónlistin og þegar mjög tilfinningaríkt verk eftir Arvo Pärt hófst sagði Mía okkur frá því þegar Guðrún Eva, dóttir hennar, sat einu sinni í flugvél og fékk sæti óvænt við hliðina á þessu fræga tónskáldi. Eva frænka er líklega mesti aðdáandi tónskáldsins fyrr og síðar og sat stjörf alla leiðina, henni datt ekki í hug að yrða á dýrðina. Þetta minnir á söguna um það þegar Mick Jagger kom til Ísafjarðar og gekk beint í flasið á sýslumanninum, mesta aðdáandanum. Mick mætti reyndar líka út í Æðey þar sem kunningjafólk Míu var statt. Unglingspiltur sá Mick út um gluggann og sagði: „Hva, er þetta Mick Jagger þarna úti?“ Það var bara sussað á drenginn fyrir þessa vitleysu þangað til Mick sjálfur gekk inn í eldhús. Uppi varð fótur og fit og fólkið ákvað að gefa honum að borða að gömlum og góðum sið, auðvitað eitthvað þjóðlegt. Skyr varð fyrir valinu. „Hvernig fannst þér skyrið?“ spurði einhver. „Áhugavert,“ svaraði Jaggerinn, upp á ensku. Hann sagði víst ekki mikið meira. Það virðist vera eitthvert lögmál í gangi þegar svona gerist. Nú veit ég að Radiohead menn mæta einhvern daginn í Skagastrætó, ja, eða Mozart!  


Uppdeit af boldi og tvær samviskuspurningar

Kaffið fyrstMamma var svo sæt að færa mér kaffi heima hjá Hildu í gærkvöldi. Eitthvað fannst mér bragðið skrýtið en liturinn var þó réttur. Ástæðunni laust ofan í huga minn, ég horfði rannsakandi á hana og spurði: „Settir þú mjólkina á undan kaffinu?“ „Já,“ svaraði mamma og var ekki einu sinni skömmustuleg á svipinn. Hún gerir þetta alltaf þegar hún fær sér kaffi og ég get ekki skilið það. Þetta gjörbreytir bragðinu til hins verra. Ég spyr bloggvini mína nær og fjær, til sjávar og sveita: Hvort er betra, að hella kaffinu fyrst í bollann eða mjólkinni? Ekki hika við að svara sannleikanum samkvæmt en ef þú ert með sama smekk og mamma þætti mér athyglisvert að fá rökstuðning fyrir því ...

Felicia, systir Ridge, Thorne og fleiriÞeir sem þykjast ekki hafa áhuga á boldinu ættu ekki að lesa lengra því að hér kemur upp-stefnumót af nýjustu atburðum hjá Forresterunum og fylgifiskum þeirra.
Eric spilar lymskulega á Stefaníu, fyrrverandi eiginkonu sína, og þykist vera hættur að þola Brooke, mjög nýlega fyrrverandi eiginkonu sína. Sú aðferð mun skila honum fyrirtækinu aftur, vill hann meina.  Hann trúir Brooke fyrir þessu og segist gabba Taylor og Ridge á sama hátt til að Stefanía láti örugglega sannfærast, hún sé alltaf svo veik fyrir honum.
Brooke dreymir kynæsandi dagdrauma um Nick, sem hún elskar, en ætlar að fórna hamingju sinni fyrir hamingju dóttur sinnar sem á von á kvenkyns stúlkubarni með Nick, eins og allir vita. Margt hefur gerst síðustu dagana, eiginlega er allt að verða vitlaust í boldinu.

Felicia, dóttir Erics og Stefaníu, hefur stungið upp kollinum og heldur til í strandhúsinu en þangað hleypir hún engum. Þar felur hún nefnilega ungbarn sem hún á með engum öðrum en NICK!!! Eins og allir vita er skortur á leikurum í Hollywood þannig að Nick var látinn deita Feliciu einhvers staðar á milli sambanda hans við Bridget og móður hennar. Þetta fór alveg fram hjá mér.
Felicia og Bridget eru sko hálfsystur ... sumir fara ekkert út fyrir fjölskylduna í leit að einhverju til að sofa hjá ... eða réttara sagt; snjallt að samnýta gaurinn ef hann er svona æðislegur.
Fatahönnun er í genunum á Forresterunum og er Felicia víst algjört séní á því sviði, móðir hennar biður hana um að koma og vinna hjá sér. Felicia er með krabbamein en fjölskylda hennar heldur ranglega að hún hafi læknast. Stefanía komst að þessu með barnið fyrir algjöra tilviljun, enda er konan sú yfirleitt með nefið niðri í öllu, blessunin. Tjaldið féll þegar hún hvatti Feliciu til að segja Bridget leyndarmálið! Hvað gerist í næstu viku? Úúúúúúú ...

Ég veit hvað er framundan. Gúgglaði mynd um daginn og lenti á síðu þar sem ég sá hvernig næstu vikurnar þróast hjá þessum hjartkæru heimilisvinum himnaríkis. Hefur einhver áhuga á því að fara svolítið fram í tímann og ég skelli næstu atburðum hér inn? Þá er engin hætta á að nokkur verði að hanga yfir sjónvarpinu í stað þess að undirbúa jólin. Það tekur sinn tíma að þrífa, baka, skreyta og lesa jólabækurnar. Er ekki bara gott að sleppa við boldið til áramóta?  


Þriðja matarboðið og ættardýrgripirnir

Magga móðursystir og DavíðEllen, Heiðdís tvíburamamma og EllýVinnudagurinn var einstaklega góður og okkur tókst að klára blaðið fyrir klukkan fimm. Ekki skemmdi fyrir að í hádeginu settist ég við borð hjá skemmtilegustu samstarfskonunum og sætasta manninum á staðnum en hann er tæknimaður á Stöð 2. Hann varð alla vega alsæll þegar ég hafði orð á þessu. Sármóðgaðar konurnar tóku gleði sína þegar ég sagðist vera hætt að tala um að konur væru sætar og karlar klárir, nú væri kominn tími á jafnrétti. Jóhannes tæknimaður settist síðan hjá okkur með kaffibollann sinn og við rifjuðum upp tvíburasögur af honum og Ástvaldi ... en þeir eru nákvæmlega eins, bræðurnir. Það var sjokkerandi að fara í afmæli til Jóhannesar á tíunda áratug síðustu aldar, setjast inn í stofu og spjalla við hann og fleiri gesti og svo birtist rétti Jóhannesinn með rjómapönnukökur! Eiginkonur tvíburanna voru ófrískar á sama tíma og fyrir algjöra tilviljun átti þær tíma í sónar sama dag. Ástvaldur mætti með sinni frú eftir hádegið en þá var bróðirinn búinn að koma með Hjördísi sinni. Andrúmsloftið hrímaði þegar „þessi maður“ mætti aftur en nú með aðra konu ... hvorug vissi greinilega af hinni! Ástvaldur var hálfspældur þar sem hann vann og vinnur sem tæknitröll á Landspítalanum, þær hefðu átt að þekkja hann, kéddlíngarnar í sónarnum! Svo vorkenndu vinkonur Hjördísar henni ógurlega þegar þær sáu brúðkaupsmynd af „Jóhannesi“ uppi í hillu, greinilega með fyrrverandi konu sinni. Ég elska tvíbura og tvíburasögur. Jóhannes er með nokkra kettlinga sem hann langar til að gefa á góð heimili, þeir eru orðnir fimm mánaða og móðirin mjög þreytt á þeim. Þvílík grimmd, aldrei hefði ég fleygt erfðaprinsinum að heiman fimm mánaða gömlum.

Úlfur og Ísak ættardýrgripirHitti ættardýrgripina Ísak og Úlf í kvöld í ljómandi fínu svona mafíufjölskyldumatarboði. Þeir hitta Gurrí frænku svo sjaldan og horfðu svolítið hissa á þessa skrítnu „Hildu“ (við þykjum svo líkar þangað til fólk kynnist innræti Hildu) en brostu samt, enda smekklegir krakkar.
Davíð frændi skutlaði náttúrlega saddri frænku beint í faðminn á Tomma bílstjóra. Tommi faðmaði mig alla vega í huganum þegar ég gaf honum Golfblaðið mitt.
Það stendur mikið til hjá 1959 árganginum á morgun, sagði Tommi. Hittingur í Skrúðgarðinum og síðan matur fyrir mannskapinn hjá Huldu MINNI. Nema ... aumingja Tommi er með matarklúbb annað kvöld, þennan árlega, og kemst ekki til Huldu. Að sjálfsögðu er þetta karlaklúbbur hjá Tomma, nema hvað. Reglurnar eru þannig að menn borða þar til stólarnir brotna undan þeim. Þoli ekki hvað ég fékk pempíulegt uppeldi, annars myndi ég stofna svona átklúbb þar sem mætti ropa og alles ...

Í gær sagði ég Sýn upp, kannski mun ég sjá eftir því vegna Meistaradeildarinnar. Þetta var bara yfirlýsing um heita spælingu vegna verðlags á Sýn 2. Tók reyndar Fjölvarpið í staðinn, fræðslurásirnar þarna með Sky News, BBC Prime og fl. Steingleymdi þessu í gær en bæti mér það upp um helgina með miklu glápi. Hef tíma til þess fyrst ég á húshjálp með gervigreind. Ég fékk nokkur símtöl í dag frá spenntum lesendum Vikunnar því að svona ryksuguróbót verður í krossgátuverðlaun hjá okkur. Fólk er mjög spennt. Mikið vona ég að einhver bakveikur ryksugunarhatari fái gripinn. Muna bara að lausnir þurfa að hafa borist okkur fyrir hádegi næsta fimmtudag. Mikið væri kúl að fá sprengjuleitarróbót frá sama fyrirtæki (iRobot) til að draga úr lausnunum.


Undradrengirnir

PíanósnillingarnirÍsak og ÚlfurSamkvæmislífið er greinilega hafið. Það bendir allt til þess ... matarboð þrjá daga í röð. Nanna í gær, Hilda í kvöld og Hilda á morgun. Galito á Akranesi sá um matinn í kvöld í boði Hildu ... gamli góði tandooríkjúklingurinn bregst ekki, beint heim að dyrum.

Mikil nautn var fólgin í því að sýna Hildu nýja gæludýrið, ryksuguróbótinn Jónas ... sem er nýjasta tillagan að nafni á hann. Afar mínir hétu báðir Jónas Jónasson svo að nafnið er heldur betur í ættinni. Hingað til hef ég nú bara kallað róbótinn litla krúttið. Hann hefur þrifið stofuna, eldhúsið og ganginn í heila tvo tíma í kvöld og mér sýnist hann orðinn þreyttur. Bráðum rúllar hann sér sjálfur í hleðslu.

Í matarboði morgundagsins hitti ég ástkæru tvíburana, barnabörn okkar systranna, við eigum helling í þeim með Míu. Ísak og Úlfur verða ársgamlir 19. desember nk. og þá útskrifast þeir væntanlega úr Tónlistarskóla Mínervu sem áttunda stigs nemendur (sjá mynd). Þeir eru undrabörn, eins og langamma þeirra, móðir mín, segir.

P.s. Þeir fara í þriðju aðgerðina sína 3. október nk. en þá á að loka gómnum. 


Matarboð ... og listinn sjálfur

AðalrétturMatarboðið í kvöld var hjá sjöunda besta bloggara landsins, skv. nýjasta Mannlífi. Nú hugsa eflaust margir, úps, var hún hjá Stefáni Pálssyni, Jónasi Kristjánssyni, Agli Helga eða kannski Mengellu? Onei, það var hjá Nönnu, einu sönnu Nönnu Rögnvaldardóttur, þeirri sem gerði þriðja hvern dönskustíl fyrir mig í landsprófi á Króknum í gamla daga og ég má teljast heppin að hafa ekki verið sett í sálfræðimat fyrir bragðið. Alltaf gaman að rugla góða dönskukennara í ríminu.  

Himnaríki 261Það var þríréttað sem telst ekki til tíðinda á Grettisgötunni, ég hef heyrt af sjörétta veislum þar á bæ, svo ekki sé minnst á Þorláksmessuboðin landsfrægu. Hilda systir segir margt um jólin, enda mikil jólastelpa, og eitt af því er að það komi engin jól nema hafa farið í boðið til Nönnu á Þorláksmessu. Lagt var fínt á borð og ekkert verið að spara silfrið. Fyrst kom einstaklega góður forréttur sem var í hráskinka, grænmeti, furuhnetur og sósa. Aðalréttur var skötuselur og bleikja, steikt með portobellosveppum og borið fram með sætkartöflumús. Í eftirrétt var heimalagaður ís með saftsósu. Maturinn var æðislegur og kvöldstundin mjög skemmtileg kvöldstund. Nanna hló að mér þegar ég fór út á svalir í smók því að ég sogaði að mér í leiðinni andrúmsloftinu í miðbænum. Er komin á þá skoðun að annað hvort vilji ég búa niðri í bæ eða á Akranesi. Sama hamingjan. Nanna tók undir það. Hentugt hvað Nanna býr nálægt Hlemmi svo að ég náði Mosóstrætó (15) á réttum tíma og fannst ekki mjög leiðinlegt þegar ég sá Tomma undir stýri á Skagastrætó, enda varð ferðin heim bara skemmtileg.

Jæja, hér kemur listinn yfir bloggarana, skv. Mannlífi og birt handa þeim sem búa í útlöndum, hinir mega helst ekki lesa.

Bestu bloggararnir:
1. Mengella
2. Stefán Pálsson
3. Jónas Kristjánsson
4. Henry Birgir Gunnarsson (Bolur djöfull)
5. Ármann Jakobsson
6. Eiríkur Örn Norðdal
7. Nanna Rögnvaldardóttir
8. Pétur Gunnarsson
9. Hnakkus
10. Arna Schram

Verstu bloggararnir:
1. Stefán Friðrik Stefánsson
2. Ellý Ármanns
3 Jón Axel Ólafsson
4. Egill Helgason
5. Steingrímur S. Ólafsson
6. Jónína Ben.
7. Björn Ingi Hrafnsson
8. Sóley Tómasdóttir
9. Katrín Anna Guðmundsdóttir
10. Jón Valur Jensson

Þetta er bara hrár listinn, greinin sjálf er upp á fjórar síður.

Ég er ekki sammála öllu þarna, það vantar marga góða bloggara inn á efri listann og nokkrum er ofaukið á hinum.  Vona að ég hafi svalað forvitni útlendinganna minna. Þeir verða að fá að vera með.


Blessuð börnin

Fyrir þá sem vilja hlæja svolítið fyrir svefninn er hér hið fínasta myndband sem sýnir svo ekki verður um villst hvað börn geta verið miklar skepnur:
http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=born&offset=0&id=2519

„Verð á bíl, sæki þig rétt fyrir sjö.“ Þetta hljómar kannski óskiljanlega en í mínum eyrum (augum) hljómaði þetta eins og áttundi kaflinn úr Stabat Mater eftir Pergolesi. Þetta þýðir fulla þjónustu í fyrramálið, verð sótt af Ástu og keyrð upp að dyrum í vinnunni. Unaðslegt SMS í fyrstu haustlægðinni. Mun að sjálfsögðu færa Ástu heitan og hressandi latte út í bíl í fyrramálið sem þakklætisvott.

Óska ykkur svo góðrar nætur og ljúfra drauma.


Haustlægð fyrir hetjur

Hugað ævintýrafólkNæstum full rúta af ævintýraþyrstum ofurhugum tók strætó heim seinnipartinn ... rauð tala blasti við á skiltinu, eigi svo ógnvekjandi talan 17, en strætó fer ekki ef hviður fara yfir 32 m/sek. Það sem vantar hviðumæli milli Hvalfjarðarganga og Kjalarnessbyggðar vissum vér farþegar að lítið væri að marka þetta. Ég byrgði mig því upp af nauðsynjavörum; vatni, álteppi, áttavita, samlokum og landakorti, svona til öryggis ef okkur bæri af leið. Þá gæti ég opnað Mary Poppins-töskuna mína á réttu augnabliki og gefið mannskapnum hressingu. Svo var bara fínt verður á leiðinni, eða þannig, bara venjulegt haustveður, rok og rigning. Heimir fór létt með að koma okkur heilum heim.

Vitlaust veðurTommi, Kubbur og róbótinn tóku mér hlýlega þegar ég kom heim. Nú þarf ég bara að ákveða hvaða herbergi óskírður hreinsar næst. Mikið ætla ég að kenna þessu krútti að sjá um þvottinn líka, alla vega að brjóta hann saman og ganga frá honum inn í skáp.  

Á morgun er spáð vitlausu veðri, rigningu og roki að suðvestan. Loksins vinnur Siggi stormur fyrir laununum sínum! Gluggi hinna 15 handklæða í stofunni hefur enn ekkert lekið síðan þéttingin fór fram fyrir þremur vikum þegar Óli granni kom í spartl-heimsókn með eiginkonu og barnabarni og fékk afmæliskaffi að launum. Smá bleyta var í bókaherbergisglugganum en ég hef ekki kíkt á svefnherbergisgluggann, þar setti ég handklæði í morgun. Annað hvort er það blautt eða þurrt ... det kommer bare i ljus.

Mig langar í svona brim:
http://www.youtube.com/watch?v=47hmqfXuA3A&mode=related&search


Ástir ... en afbrot á sjúkrahúsi

SpítaladvölinHringdi í eitt afmælisbarn dagsins í fyrradag, ekki þó Michael Jackson, og átti skemmtilegt spjall við það, vinkonu til 20 ára. Man ekki af hverju við fórum að tala um sjúkrahúslegur en hún minnti mig á stórfurðulega framkomu mína fyrir þremur árum þegar hún kom í sjúkraheimsókn til mín þar sem ég lá í morfínvímu eftir uppskurð. Þessir spítaladagar eru í mikilli móðu en vinkonan varð frekar sjokkeruð vegna gífurlegs fjandskapar míns út í heimsóknina sem þó var framin af algjörri góðmennsku. Ég hafði víst allt á hornum mér, talaði illa um stofufélagana sem ég hafði aldrei talað við vegna slappleika og einnig níddi ég niður starfsfólkið sem var samt bara gott. Þetta er eiginlega sprenghlægilegt! Ætli morfín sé innri maður eins og ölið?

Dásamlegt starfsfólkSem betur fer hefur vinkona mín húmor og gat flissað yfir þessu fljótlega. Ég man eftir að hafa hugsað þegar önnur vinkona kom: Hvað er hún eiginlega að gera hér? Enn ein vinkonan mætti og var svo full samúðar að ég fór að háskæla ... og var sprautuð niður þar sem hjúkka kom inn í sama mund til að taka blóðþrýstinginn! Hahahhaha, ég man eftir að hafa reynt að mótmæla því, það væri allt í lagi með mig, mér liði frábærlega ... en ég fékk engu um þetta ráðið.

Frábærar hjúkkurÉg hafði ekki einu sinni rænu á því að móðgast þegar sjúkraliði lét mig fá heitt latte frá Kaffitári og sagði að líklega hefði það verið dóttir mín sem kom með kaffið. „Dóttirin“ var reyndar vinkona, tveimur mánuðum yngri en ég, og átti von á öðru barnabarninu. Þar sem mátti lesa allt um aldur minn á sjúrnölum segir þetta kannski meira um útlit vinkonu minnar ... held ég.

Mikið var gott að vakna heima á laugardagsmorgninum og vera orðin að sjálfri sér! Ofnæmi fyrir hnetum, möndlum, döðlum, rúsínum og morfíni. Ég er ekki hæf í almennileg matarboð ...

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 804
  • Frá upphafi: 1516321

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 669
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband