Færsluflokkur: Matur og drykkur
28.8.2007 | 20:01
Kökublogg - langþráð rabarbarapæ Huldu
Rabarbarapæið hennar Huldu
200 g smjörlíki, mjúkt
200 g sykur
200 hveiti
100 g suðusúkkulaði, saxað
Rabarbarabitar (nóg til að þekja pæbotninn)
Hnoðið vel saman smjörlíki, sykri og hveiti. Setjið megnið af deiginu í pæform og þekið upp kantana. Skerið rabarbara í sneiðar og raðið ofan á. Stráið súkkulaðibitum yfir. Setjið afganginn af deiginu ofan á, eins og á t.d. hjónabandssælu og þrýstið niður á rabarbarann. Stráið kanilsykri yfir (gefur klikkað bragð) og bakið við 200°C þar til er fallega brúnt. Gott með ís eða rjóma. Komið svo í himnaríki með pæið og gefið að smakka.
P.s. Hulda notaði Season All á þorskinn (sorrí, Jóna) en segir óhætt að nota það krydd sem fólki finnst gott.
27.8.2007 | 23:04
Samsæri strætóbílstjóranna ...
Þingeysku montgenin eru víðsfjarri núna, ég sver það. Það er bara hreinn og klár sannleikur að dugnaðurinn var gríðarlega mikill í undirritaðri sem púlaði í vinnunni til kl. 18 í dag. Það tókst að koma ákveðnu verkefni á fullt skrið þannig er hægt að fara til elsku Betu í fyrramálið með góðri samvisku og láta hana sjúkraþjálfa sig. Sjálfur nýi ritstjórinn á DV skutlaði mér án nokkurrar miskunnar upp í Mosó. Þetta var samt ekki alveg í leiðinni fyrir hann en kommon, aldrei of vel farið með góðar samstarfskonur.
Ekki var verra að elskan hann Tommi sat undir stýri í 18.45 strætó. Vagnstýran á leið 15 bað hann um að hinkra í eina mínútu eftir sér og hann svaraði eins og hreinræktaður daðurbósi: Ég geri allt fyrir þig! Þetta sannar enn og aftur að strætóbílstjórar eiga ekki bara kærustur á hverri stoppistöð, heldur er greinilega eitthvað í gangi á milli þeirra ... allra. Hafið þið ekki séð þá veifa hver öðrum krúttlega þegar þeir mætast? Ótrúleg uppgötvun í boði Guðríðar.
Eftir að við komum upp og yfir Lopabrekkuna mátti sjá hvað risastóra hringtorgið er að verða flott. Held samt að spæleggið, stóra hringtorgið á Akranesi, sé glæsilegra en það munar ekki miklu!
Hógværðin bar mig ofurliði í morgun, eins og svo oft áður. Þar sem Prentmetsstrákurinn var ekki í sama strætó og ég í morgun kunni ég ekki við að hoppa út og sníkja far þótt vagnarnir væru þarna á sama tíma. Þegar ég skoppaði síðan út við Vesturlandsveginn hrópuðu samstoppistöðvarmenn mínir á Skaganum, alla vega einn, að ég hefði átt að láta vaða ... Svo þaut ég léttilega undir brúna og upp brekkuna en komst ekki langt því að þessi dásamlegi trukkari stoppaði og bauð mér far. Til að leiðrétta misskilning í fæðingu ... ég gæti verið móðir hans og er mjög lítið fyrir unga menn, eiginlega bara ekki neitt. Sorrí strákar!
Ég gleymi alltaf að hringja í Huldu til að fá rabarbarabökuuppskriftina. Hún leiðrétti kryddið sem ég skrökvaði upp á hana í þorskuppskriftinni, held að ég hafi sagt hana hafa notað Aromat en það var Season All ... eða öfugt! Eða kannski eitthvað allt annað ... en algengt. Sumir rugla alltaf saman apóteki og bakaríi, þetta kryddrugl er ekki mikið skárra!
25.8.2007 | 16:41
Nýr heimilisvinur kominn til að vera
Jónatan kíkti aftur í heimsókn á svalirnar og er hér með orðinn heimilisvinur hér. Ætli hann borði brauð? Líklega bara hvað sem er. Hann verður pottþétt í fæði hér í vetur. Mér finnst svo fyndið hvað hann hefur gaman af því að stríða kisunum. Um leið og hann sér hreyfingu hjá mér þá flýgur hann á brott, enda hefur hann enga ástæðu til að treysta mannfólkinu. Mávar hafa aldrei pirrað mig, kannski af því að ég hef oft þurft að verja ketti fyrir fólki sem finnst t.d. smáfuglarnir rétthærri. Þótt ég pirrist yfir skordýrakvikindum, eins og geitungum, þá er ég að verða svo þroskuð að ég sætti mig við þau ... í Reykjavík. Hér í himnaríki gera fiskiflugur sig heimakomnar og á meðan þær stinga ekki þá eru þær hjartanlega velkomnar.
Hér var sko sofið út í dag og þótt ég vaknaði um tíuleytið lék ég á sjálfa mig og sneri á hina hliðina, múahahhaha! Vaknaði svo ekki almennilega fyrr en elskan hún Steingerður hringdi. Líklega kíkir hún í heimsókn á morgun, enda orðið allt of langt síðan hún hefur komið. Sakna hennar enn sárlega af Vikunni en samgleðst henni með velgengnina hjá h-blaði.
Jæja, best að ná Tomma inn af svölunum, hann bíður lævíslega eftir hr. Jónatan en hefur ekkert í hann, fer sér bara að voða ef ég passa hann ekki. Er að hugsa um að horfa á eina DVD-mynd eða svo. Sit allt of sjaldan í leisígörl, eins og hún er þægileg. Myndin af vinunum var tekin áðan. Kubbur sat utan linsunnar og hugsaði sinn gang.
24.8.2007 | 20:05
Tveir kettir og einn stríðinn mávur
Slapp heim fyrir lokun Einarsbúðar og gat pantað nauðsynjar á borð við mjólk. Latte er hinn nýi drykkur himnaríkis og bragðast ansi vel. Kaffirjómi heyrir sögunni til þangað til ég fer næst í fitun. Einnig frétti ég nýlega að Einarsbúðarhangikjötið (álegg) væri svo guðdómlegt að fólk kæmi utan af landi til að kaupa það sem álegg í flatkökuveislur. Keypti að sjálfsögðu eitt bréf og líka flatkökur.
Kettirnir komust í hann krappan, eða hefðu gert ef svalaglugginn hefði verið opinn. Risastór mávur sat á svalahandriðinu og sendi þeim ósvífið augnaráð, naut þess að hafa öruggt gler á milli sín og þeirra.
Aðrar nauðsynjar á borð við boldið voru einnig teknar inn og þar er að verða heitt í kolunum, a.m.k. hjá sumum. Í ljós kom að Eric stefnir ekki að því að hætta með Brooke, heldur ætlar neyða hana til að gleyma Nick, tengdasyni þeirra. Eric rifjar þó upp góðar stundir með Stefaníu, fv. konu sinni, en akkúrat á sama tíma eru Nick og Brooke að rifja upp trylltar ástríður sínar. Nick ætlar þó staðfastur að fórna sér og verða fjölskyldumaður með Bridget, verst að hún vill það ekki, enda komu skilnaðarpappírarnir í morgun. Eric bíður eftir nýlegri brúði sinni, Brooke, (sem ætlar að segja honum upp) með kampavín og rómantískan glampa í augum og neitar að hlusta á það sem hún segist þurfa að segja honum. Hann ætlar að sofa hjá henni í nótt. Nick ræðst inn á Bridget og Stefaníu og segir þeim að hjónabandi Erics og Brooke ljúki í kvöld en samt elski hann bara Bridget og barnið og þrái heitast að vera með henni. Þú ert ástin mín, segir Nick við Bridget. Treystu mér, verum fjölskylda! Skrifaðu undir, Bridget, segir Stefanía. Tjaldið fellur.
23.8.2007 | 21:32
Næstum því nauðgunarsaga ...
Heiða (Skessa) vakti athygli bloggheima á svefnlyfinu Flunitrazepam fyrir nokkrum mánuðum. Fyrir tilstilli hennar fór af stað herferð þar sem beðið var um að lyfið yrði tekið út af markaði. Fjöldi fólks, m.a. ég, sendi tölvupóst til Lyfjastofnunar en lyfið er enn á markaði. Flunitrazepam er svefnlyf sem hefur enga jákvæði virkni fyrir þá sjúklinga sem neyta þess, fram yfir þá tugi annarra svefnlyfja sem eru á lyfjaskrá.
Virka efnið í lyfinu hefur þó þau neikvæðu áhrif að af því skapast algjört minnisleysi og getuleysi til að greina umhverfi sitt. Þessi atriði hafa valdið því að lyfið hefur þann vafasama heiður að vera þekkt sem nauðgunarlyf (Date-Rape). Lengi hefur tíðkast, hér á landi sem annars staðar, að lauma því í drykki kvenfólks til að ná fram áðurnefndu minnis- og getuleysi og ef allt fer samkvæmt áætlun fylgir nauðgun í kjölfarið. Það er nánast ógerlegt fyrir fórnarlamb þessa að kæra til lögreglu sökum minnisleysis. Árið 2006 var Flunitazepam ávísað í ríflega 11.000 skömmtum. Þar sem lyfið hefur enga sérstöðu til bóta fyrir þá sjúklinga sem nota það fer ég þess á leit að Flunitrazepam verði tekið af lyfjaskrá hér á landi hið snarasta. Öryggi stúlkna/kvenna hlýtur að vega þyngra en svo að nauðsyn teljist til að hafa þetta hættulega lyf í umferð.
Ótrúlegasta fólk getur lent í því að lyfi sé laumað í drykk þess, meira að segja skvísa á borð við undirritaða. Ég skrifaði eftirfarandi frásögn sem lífsreynslusögu í Vikuna 2000 eða 2001. Hún er hér í styttri útgáfu:
Fyrir tæpum 25 árum fór ég á ball í Broadway í Breiðholti. Var í för með systrum mínum tveimur og mági. Mágurinn fór að spjalla við kunninga sem hann hitti og við systurnar settumst saman í sófa, alsælar að vera allar saman á balli. Fljótlega kom ungur, myndarlegur maður til okkar sem vildi endilega bjóða okkur í glas. Við þáðum það en mér til mikilla vonbrigða kom hann með romm og kók. Smekkur minn var plebbalegur á þessum tíma, ég hefði frekar viljað White Russian. Meðan við drukkum og spjölluðum gerði maðurinn ítrekaðar tilraunir til að fá mig með sér út á dansgólfið. Mér fannst skemmtilegra að spjalla við systur mínar og afþakkaði boð hans. Áður en ég var búin úr glasinu fór mér að líða illa, var flökurt og mig svimaði. Ég ákvað að reyna að hressa mig við á snyrtingunni. Það þýddi lítið að kæla ennið svo að ég ákvað að reyna að kasta upp. Svo man ég lítið meira fyrr en ballið var búið þegar ég heyrði rödd annarrar systur minnar. Mér tókst við illan leik að umla eitthvað nógu hátt til að hún heyrði og að opna dyrnar. Hún kallaði á mág okkar og saman drösluðu þau mér fram. Ég reyndi að segja þeim að ég væri ekki drukkin en drafaði svo mikið að það skildist eflaust ekki. Samt var ég farin að hressast. Dyraverðirnir horfðu á mig með ógeði og fyrirlitningu og sögðu að réttast væri að hringja á lögregluna, ... svona ógeðslegar fyllibyttur, ... eitthvað. Ég fór heim í leigubíl og tók lyftuna upp á 7. hæð. Bjó hjá mömmu í Asparfellinu á meðan ég beið eftir íbúð. Hún var vakandi og varð frekar hissa að sjá svo lítt drykkjusjúka dóttur sína í undarlegu ástandi, slagandi og slappa. Næsta morgun vaknaði ég eldhress fyrir allar aldir, ekki einu sinni með höfuðverk. Þorði síðan ekki svo mikið sem horfa á rommflösku vegna þessa mikla ofnæmis fyrir rommi sem ég hlaut að vera með.
Tíu árum seinna sagði ég vinkonu minni frá romm-ofnæmi mínu og því sem gerðist í Broadway. Hún starði á mig og sagði: Ertu virkilega svona barnaleg? Auðvitað laumaði maðurinn lyfi í glasið þitt!
Ég tek svo sannarlega undir með Heiðu! Ef til eru sambærileg svefnlyf, án þessara aukaverkana, þá burt með þetta lyf af markaðnum! Hagsmunir fórnarlamba svefnnauðgara ættu að vega þyngst!
P.s. Bloggleysi dagsins hefur stafað af miklu annríki.
18.8.2007 | 17:49
Ýsa var það, heillin!
Í gærkvöldi var allur kattamatur búinn í himnaríki. Mjög svo pattaralegir kettirnir grétu sáran en þá mundi ég allt í einu eftir fiski inni í frysti. Vissi að Tommi myndi verða ánægður en Kubbur vill helst bara þurrmat, sættir sig við túnfisk (ekki kisutúnfisk þó) en lítur t.d. ekki við rækjum. Hungrið bar matvendni hennar ofurliði að þessu sinni og hún virtist bara ánægð með nýsoðna ýsu. Tommi lá um tíma ofan á eldavélinni og beið eftir því að suðan kæmi upp.
Ég ætlaði að sofa til tíu eða ellefu í morgun en það átti ekki fyrir mér að liggja. Blessuð klukkan hringdi kl. 6.15. Það var reyndar ansi mikil nautn að geta slökkt á henni að þessu sinni og haldið áfram að sofa. En allt of skömmu síðar, kannski um tíuleytið, hófst nágranni minn handa við eitthvað mjög hávaðasamt á planinu fyrir neðan. Þetta þýddi að ég þurfti aftur og aftur að bæta mér upp svefntruflanir og var ekki komin á kreik fyrr en um þrjú! Ég hef nú lent í því að þurfa að sofna alveg upp á nýtt eftir að hafa verið vakin til að fá mína átta tíma samfleytt. Kannski hefði ég gert það ef Ellý hefði ekki hringt og boðið mér með í Bónus.
Tommi á flugnaveiðum í himnaríki.
Hér á Skaganum er ágæt Bónusverslun. Hún er ekki staðsett í göngufæri við himnaríki, heldur er langt uppi í sveit en ég er svo sem vön því að allt sé miðað við fólk á bílum. Við Ellý (á bíl) klikkuðum báðar á Einarsbúð fyrir lokun í gær, ég vann lengi og hún stendur í flutningum, og urðum að kaupa einhvers staðar inn. Verðlagið er mjög svipað og í Einarsbúð, nema það er ekkert kjötborð í Bónus. Mjólkin í eins lítra pakkningum mun renna út á morgun svo að ég varð að kaupa eins og hálfs lítra-pakkninguna. Svakalega þarf ég að drekka af latte næstu dagana. Held að Ellý hafi óvart keypt tvo lítra ... hún gleymdi að kíkja á dagsetninguna, ég ráðlagði henni að fara bara aftur og skipta.
Ungur afgreiðslumaður benti mér kurteislega á að ég væri nú svolítið skrýtin (orðalag mitt) að kaupa svona heilsubuff frá Himneskri hollustu, það gerðu svo fáir í Bónus. Ég sagði honum að fólk missti af miklu, þetta væri eðalfæða, bæði holl og góð. Ég var á undan Ellýju að versla og beið eftir henni frammi. Ungur maður, líklega þriggja ára, gerði uppreisn gegn móður sinni og neitaði að fara heim. Hann var sár yfir því hvað hún stoppaði stutt inni í búðinni og keypti kannski ekki það sem hann dreymdi um. Ég spurði hann hvort að hann vildi þá koma heim með mér en hann varð svo hræddur að hann flúði til mömmu sem þakkaði mér fyrir. Ég dauðsá eftir því að hafa mætt eins og Grýla út í Bónus. Ég á bæði meik og maskara heima ... en snyrtileti mín hefur mögulega kostað unga manninn ör á sálinni. Þetta verður alla vega uppspretta óteljandi martraða hjá honum. Aldrei of illa farið með góð börn ... myndu kannski einhverjir segja en mér þykir vænt um börn og það er ljótt að hræða þau. Ég var bara að spjalla, eins og ungi afgreiðslumaðurinn um heilsubuffin.
17.8.2007 | 08:37
T.G.I.Friday ...
Sá að klukkan var alveg að verða 6.41 þegar ég byrjaði að búa mér til latte í götumáli í morgun. Veðjaði við sjálfa mig, eins og svo oft, að ég myndi ná þessu og samt ekki missa af strætó. Sé mest eftir því að hafa ekki lagt eitthvað undir þar sem ég gjörsigraði sjálfa mig og hljóp í loftinu út á stoppistöð með latte í annarri og Tár, bros og takkaskó í hinni. Heimir sat undir stýri og kom okkur örugglega á áfangastað, þessi elska. Sagði mér að hann hefði verið í heyskap alla síðustu helgi hjá foreldrum sínum.
Samferðafólk mitt sendi mér undarlegt augnaráð þegar það sá hvaða bók ég var að lesa en ég lét það ekki á mig fá, er endanlega frjáls úr viðjum smáborgaralegra lífsreglna og hámaði í mig þessa svokölluðu unglingabók ... fyrir stráka! Ef rithöfundar, tískumógúlar og ýmsir bisnissmenn vissu bara hvað þeir gera mikla skyssu með því að setja aldurstakmörk eða kynjabinda hlutina. Það ætti að sjálfsögðu að auglýsa þessa bók sem frábæra fyrir t.d. krakka, kerlingar og ketti ... eða ekki. Man hvað ég var sár út í SkjáEinn þegar reynt var að höfða til UNGA FÓLKSINS með dagskránni og ég barðist við erfiðar hugsanir ... er ég svona barnaleg að hafa gaman af þessu, er þetta einhver klikkun hjá mér að geta horft á þetta? O.s.frv. Held reyndar að Skjárinn sé hættur þessu bulli. Hef reyndar ekki sérlega gaman af því sem á að höfða til míns aldurshóps, eins og t.d. Jay Leno. Mætti ég þá biðja um Conan O´Brien, plís eða hinn þarna, Jon Stewart (?)! Skjárinn féll reyndar ofan í þá viðurstyggilegu, mannfjandsamlegu gryfju að vera með svokallað kvenvænt sjónvarpsefni á þeim tíma sem Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð yfir í fyrrasumar. Djöfull var ég móðguð út í þá en vissulega missti ég alltaf af þessum viðbjóði þar sem ég horfði á fótboltann. Þeir settu hundleiðinlega "stelpuþætti" á dagskrá. Þetta er svo skoðnanamyndandi fyrir ungar stelpur sem halda að þær eigi að fyrirlíta fótbolta og horfa á kvenlegan hrylling Ég er enn öskureið vegna allra þeirra ára sem ég horfði ekki á fótbolta og jafnvel píndi mig til að horfa á sannsögulegar sjónvarpsmyndir. (Fliss)
Þetta verður langur, annasamur en örugglega guðdómlegur dagur í dag. Megi hann samt verða enn betri, dásamlegri og skemmtilegri hjá ykkur (þetta eru ekki væmnar, sætar óskir til ykkar, heldur árangursríkur galdur sem byrjar að virka NÚNA!) Mikið er ég samt þakklát fyrir að það skuli vera föstudagur og helgin að koma! Vá, hvað ég skal sofa!
15.8.2007 | 08:19
Fokið í bæinn
Það var ansi hvasst á leiðinni í bæinn. Þegar við ókum niður Kollafjörðinn kom mikil hviða, það hvein í öllu og bíllinn hristist til. Ég gerði mig stífa að vanda til að hjálpa bílstjóranum að halda strætó á veginum. Konur veinuðu og karlar kveinuðu ... eða hefðu gert ef þetta væru ekki Skagamenn, hörkutól komin af Jóni Hreggviðssyni og einnig Hallgrími (vonda) sýslumanni sem sýndi aumingja Kristrúnu litla miskunn (en það er önnur saga). Konan við hliðina á mér glennti upp augun og andaði aðeins hraðar þegar við lá að við fykjum út í sjó, það var allt og sumt. Á nokkrum sekúndubrotum var ég komin á kaf í björgunarstörf og var m.a. að skamma útlensku konuna fyrir að hafa ekki sett bílbelti á litlu dóttur sína þar sem þær sitja fremst.
Núna tvo daga í röð hef ég búið mér til latte heima til að taka með mér í strætó svo að nú er þetta orðið að vana! Eins gott að ég lærði á frussufroðudæmið og er ekki lengur hrædd við það. Kann núna að hita mjólk án þess að hún breytist í froðu en margir halda að það eigi að vera froða í latte! Mikill misskilningur. Ég skalf á stoppistöðinni en karlarnir tóku sig saman og hlýjuðu mér með faðmlögum og kossum ... eða hefðu gert væru þetta almennilegir karlmenn. Held að strákarnir mínir á sætukarlastoppistöðinni hefðu ekki látið þetta tækifæri sér úr greipum ganga.
Er eitthvað svo ofboðslega spræk núna ... held að það sé vegna þess að ég sofnaði eldsnemma í gærkvöldi, líklega fyrir tíu, sem er hálfgert heimsmet í himnaríki. Missti af Shield, uppáhaldsþættinum mínum ... nema hann sé ekki lengur á dagskrá, minnir að sl. þriðjudag hafi hann ekki verið. Svo halda þessir sem ríða rækjum hjá sjónvarpsstöðvunum, sérstaklega Stöð 2 að alvörukonur vilji eitthvað væl til að horfa á, neibbs, það eru hörkulögguþættir sem virka á okkur stelpurnar. Hafið endilega ljúfa þætti inn á milli fyrir mjúku mennina ... en hættið að kalla þá daga Stelpustöð! Hnuss!
12.8.2007 | 22:56
Langar örfréttir af veislunni
Þetta var dásamlegur dagur. Um 60 manns kíktu í kaffi í dag og brauðterturnar tíu kláruðust hratt. Þær voru búnar um sexleytið ... arggg! Ætla pottþétt að búa til fleiri fyrir næsta afmæli.
Ég beið spennt eftir Barbie- tertunni frá Dagbjörtu en þetta reyndist vera glæsileg Strætó- terta, rosalega flott. Hún setti Tomma undir stýri og hafði okkur Tomma og Kubb sem farþega. Vakti mikla lukku.
Sumir voru örlátari í gjöfum en aðrir, (ekki er þó allt sem sýnist) t.d. kom Guðrún Vala alla leið frá Borgarnesi með Pólverja handa mér í afmælisgjöf ... hélt ég þangað til ég heyrði hann útskýra fyrir öðrum afmælisgesti: Ég og kona mín eiga heima í Borgarnes! Þegar Raggi mætti svo, ekki með Oddnýju sína, heldur Sigurjón bróður sinn, bjóst ég við að Sigurjón væri afmælisgjöfin mín ... en Raggi tók hann til baka. Þeir bræður gáfu mér eggjabakka, nýorpin landnámsegg, ég hefði getað ungað út bragðgóðum leikföngum fyrir kettina.
Sigurjón útskýrði fyrir mér að eitthvað ljósbrúnt dæmi utan um svalaumgjörðina utan frá virkaði eins og svampur, fylltist af vatni, þetta yrði að laga! Sigurjón er smiður og veit sínu viti!
Edda frænka dreif sig með strætó til mín og var svo heppin að Tommi var að keyra. Hann bað hana að borða eina pönnuköku fyrir sig í afmælinu ... vona að Tommi fyrirgefi mér að engar pönnukökur voru á boðstólum. Hann hefði mætt ef hann hefði verið í fríi, sagði hann Eddu.
Það er ein sneið eftir af afmælistertunni og ég ætla að úða henni í mig seinna í kvöld.
Ég uppgötvaði í dag að ég er orðin fullorðin. Hingað til hef ég alltaf rifið pakkana upp jafnóðum, eins og smákrakki, en nú geymdi ég það þangað til í veislulok. Þetta er miklu sniðugra og fullorðinslegra, nú man ég frá hverjum ég fékk hvað. Þetta voru frábærar gjafir, takk ástsamlega fyrir mig! Afmælinu lauk og enn var allt bjart úti, það hefur aldrei gerst áður. Það kom metfjöldi af börnum, eða sex-sjö, og það var bara gaman. Vel uppalin og góð börn. Saknaði þess heilmikið að sjá ekki litlu Aðalheiði Hilmarsdóttur sem ég vonaðist eftir ... Tvíburarnir hennar Heiðdísar frænku slógu í gegn. Það er eiginlega nauðsynlegt að leyfa börn svona þriðja hvert ár! Held það nú!
Ásta og Böddi koma aftur á morgun í afganga, heil skálarterta eftir ... (í henni er brúnn tertubotn, smátt skornar perur, rjómi, kókosbollur og súkkulaðibitar, öllu hrært saman í mauk, algjört góðgæti). Ætla rétt að vona að þau mæti svöng. Ég verð í fríi á morgun og hef því svo sem allan daginn til að borða af skálartertunni og fara í bað með öllu flotta, nýja baðdótinu mínu, get mátað nýju fötin, kveikt á nýjum kertum, puntað með fína dótinu og svona.
P.s. Man ekki hvernig á að setja myndir í albúm en ætla að fikta mig áfram með það og setja inn allar afmælismyndirnar. Held að ég hafi náð að mynda flesta.
12.8.2007 | 14:34
Örstutt
Jæja, ég hef 5 mínútur. Þá þarf að hella upp á fyrstu stóru könnuna, skera niður brauðterturnar og slíkt. Himnaríki lítur út eins og himnaríki, allt skúrað út úr dyrum.
Þema afmælistertunnar í ár er eins og stundum áður: Ég fékk hana ódýrt.
Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar, elsku bloggvinir nær og fjær til sjávar og sveita.
Hendi inn myndum í dag eftir bestu getu svo að hægt verði að vera með, meira að segja frá Spáni, Laufey. Knús í bili.
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 9
- Sl. sólarhring: 259
- Sl. viku: 806
- Frá upphafi: 1516323
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 671
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni