Færsluflokkur: Matur og drykkur

Dularfulla teskeiðahvarfið og víðförult kaffi

AfmælistertaHeld að öll afmælisaðföng séu komin í himnaríki. Einarsbúð færði mér fullan kassa af vörum sem ég pantaði fyrr í dag. Þurfti m.a. að panta litlar plastskeiðar til að fólk geti skóflað upp í sig tertunum og þá er best að hafa þær allar mjúkar. Alla vega verða rúllubrauðterturnar mjúkar, ég geri þær annað kvöld. Rækju- og laxabrauðtertur. Ég skil ekki hvað hefur orðið af öllum teskeiðunum mínum og kökugöfflunum sem ég hef sankað að mér í gegnum árin. Best að spyrja kettina.

KaffisjúklingurAnna kom fyrr í dag á eðalkagganum sínum með lánskaffikönnu + þrjá stóra brúsa í dag + afmæliskaffið sem hún sótti fyrir mig niður í Bankastræti. Aukaplastpoki fylgdi með og þegar ég kíkti ofan í hann sá ég kíló af lífrænt ræktuðu kaffi og kvittun um að þetta kaffi hefði verið greitt af konu nokkurri í Grafarholtinu. Ég hringdi strax í Kaffitár og komst að því að konan sú stóð við afgreiðsluborðið til að sækja kaffið sitt ... sem fannst ekki þrátt fyrir mikla leit þar sem það var á Akranesi! Víðförulla en gert var ráð fyrir. Anna ákvað bara að skutla kaffinu heim til konunnar á leið heim í Árbæinn og uppskar fyrir það mikið þakklæti Kaffitárs og konunnar í Grafarholtinu. Expressóvélin mín myndi ekki anna þessu kaffiþyrsta liði sem kemur á sunnudaginn og síðustu árin hef ég fengið lánaða hraðvirka og mjög góða könnu.


Liðlegur kaupmannssonur og afmælisgestapælingar

Í EinarsbúðLeisígörl er komin í lag og umbúðirnar utan af henni, sem breiddu úr sér um hálft himnaríki, eru horfnar. Það eina sem ég gerði var að panta vörur úr elsku Einarsbúð. M.a. pappadiska, kókosbollur og svona áríðandi afmælisveisludót. Guðni kaupmannssonur kom þeysandi upp stigana með kassann, sá eini sem hleypur léttilega með þungar vörur, og ég bað hann um að kíkja á stólinn. Með því að nota greind okkar beggja og krafta hans tókst þetta! Svo horfði hann á pappann og spurði hvort ég vildi ekki losna við hann. Ég hugsaði mig lengi um ... not!
Bræðurnir í Kjötborg á Ásvallagötu dekruðu við mig í 18 ár og Einarsbúð tók svo við í fyrra.

 

BoðskortSendi út nokkur frekar hallærisleg afmælisboðskort í dag, eða SMS-skilaboð. Svo þarf ég að hringja í nokkra og senda líka tölvupóst. Tíminn flýgur svo hratt og ég gaf mér aldrei tíma til að skrifa eitthvað, ljósrita og senda út, eins og ég hef yfirleitt alltaf gert. Bloggvinir ættu ekkert að hika við að mæta, það er hægt að senda mér tölvupóst á gurri@mi.is til að fá nánari leiðarlýsingu. Það er líka gott þannig að sirka út hversu margir koma. Talan er yfirleitt 50-90 manns. Þegar færri koma treð ég alltaf afgöngum á síðustu gestina en banna fólki að borða of mikið þegar margir koma ... hehehe!

 

Kalli og Kamilla, alþýðleg í afmælinu í fyrraAfmælin hafa verið stranglega bönnuð börnum en enginn má samt hætta við að koma þótt hann/hún fái ekki pössun. Auður Haralds er búin að afboða sig, Laufey er á Spáni, Áslaug Dóra á Ítalíu, Katrín Snæhólm í Englandi, Anna og Erling upptekin, Margrét frænka að fara að eiga barn (spái því að það fæðist á morgun, 9. ágúst) en Karl Bretaprins býst við að koma, það veltur samt á Kamillu.


Matarblogg með meiru

ÞorskurinnRabarbarapæ með ísNú er komið að langþráðu matarbloggi ... Hulda, gömul vinkona af Skaganum, hringdi í mig með kortersfyrirvara og bauð mér í mat, afar góðan þorskrétt. Ég rauk af stað og á móts við Einarsbúð mættumst við en hún hafði þá ákveðið að fara á bílnum á móti mér, enda maturinn tilbúinn.

Minnir að Hulda hafi sagst hafa sett soðin hrísgrjón (einn poka) neðst í eldfast mót, saltað vel, raðað þorskflökum ofan á, kryddað með aromat og hvítlaukssalti. Hún skar niður sveppi og 2-3 litlar paprikur og stráði yfir. Bræddi saman einn sveppaost og hálfan piparost í rjóma og hellti yfir. Bakaði svo í ofni. Hljómar vel en bragðaðist enn betur. Ferskt salat og hvítlauksbrauð með. Í eftirmat var síðan þetta líka góða rabarbarapæ með ís.

Gamla húsið mittTók myndir af matnum og líka út um eldhúsgluggann hjá henni en gamla, ástkæra húsið mitt sést vel þaðan, húsið sem ég bjó í þegar ég sat inni saklaus ... í hjónabandi, 1978-1982. Gamla græna Grundin mín er orðin blá ... og appelsínugul, sýndist mér.  Mér finnst að þetta hús eigi að vera rautt!

Tveimur árum eftir að ég flutti frá Skaganum í annað sinn gerði vitlaust veður. Suðvestanátt og stórstreymt ... ávísun á stórslys, spyrjið bara BYKO-fólk í Vesturbænum! Nú, öldurnar gengu á land og yfir gamla húsið mitt og kjallarinn fylltist af sjó! Þá voru settir varnargarðar úr stórgrýti. Það kom mikið grjót og þari upp á lóð til Huldu líka ... hrikalega spennandi!!! Hulda lofaði að hringja í mig og bjóða mér í heimsókn næst þegar svona nokkuð gerist! Þá er að tíma að fara frá sjónum fyrir neðan hjá mér. Hulda býr norðanmegin á Skaganum og hefur Snæfellsjökul fyrir augunum á meðan ég sé "bara" höfuðborgarsvæðið, Suðurnesin, Leifsstöð og stundum Ameríku í góðu skyggni ...

Sigþóra með TommaHulda kíkti í smáheimsókn í himnaríki á eftir og Sigþóra kom nokkrum mínútum seinna. Ég hafði keypt götumál (pappamál undir kaffi) sem hún var að færa mér en hún vinnur hjá Rekstrarvörum þar sem þessi glös fást.

Nú get ég tekið latte með mér í strætó á morgnana! Tommi réðst á Sigþóru í miklum knúshug og tældi hana til að klappa sér.  Sá verður kelinn í afmælinu, búið ykkur bara undir það, þið sem gerið mér þann heiður að mæta á sunnudaginn!


Af lykt og Lúkasar-tuðspjalli í strætóskýli

Ráð við lyktEinhver undarlegur fnykur hefur truflað mig síðan í gærkvöld og ég er loksins búin að átta mig á því að þetta hefur eitthvað með vindáttina að gera. Ég fór um allt himnaríki og leitaði að upptökunum; kattasandurinn var hreinn, ekkert „óhent“ rusl að mygla og sjálf er ég hrein eins og kettirnir. Ég trúi því varla að verið sé að bræða fiskimjöl hér á Skaganum ... Ef svo er þá vil ég banna þessa vindátt eða verksmiðjuna.

Herbergið sem hún gisti íEinu sinni á Hringbrautarárunum leyfði ég erlendri konu að gista hjá mér eina nótt, jú, það tengist líka lykt. Ég byrjaði að sjóða fisk fyrir kisurnar næsta morgun en sá að ég var að missa af strætó í vinnuna og suðan ekki enn komin upp, skrýtið hvað það tekur alltaf langan tíma þegar maður er að flýta sér. Næturgesturinn bauðst til að klára verkið og ég bað hana að lækka niður í einn þegar suðan væri komin upp. Hún varð móðguð í framan og spurði hvort ég héldi að hún kynni ekki að sjóða fisk.
Ég rauk í vinnuna og kom heim upp úr kl. 5. Þá mætti mér ein sú viðurstyggilegasta lykt sem ég hef fundið. Upptökin var að finna á eldavélinni. Fiskurinn hafði mallað í rúma átta klukkutíma, eldavélin var enn stillt á einn, konan löngu farin út og kom ekkert aftur, enda átti hún bara að gista eina nótt. Sú kunni að sjóða fisk! Mig minnir að ég hafi orðið að fleygja pottinum ... og íbúðinni.

Lúkas í strætóskýliÉg var tiltölulega nýbúin að kaupa á Hringbrautinni og ekkert byrjuð að gera íbúðina upp. Teppi voru á öllum gólfum og ég hafði ekki einu sinni haft efni á því að mála. Herbergið var hreint, rúmfötin hrein og eflaust straujuð líka ... en kerlingin kvartaði yfir ömurlegri aðstöðu við fólkið sem bað mig um að hýsa hana. Hún rumskaði samt ekkert þegar ókunnugur maður komst inn í íbúðina um nóttina og settist á rúmstokkinn hjá mér, svipað og gerðist í Buckingham-höll ekki svo löngu áður. Þessi meinlausi maður hafði bara farið útidyravillt, enda ekki erfitt í gömlu Verkó. Útihurðin var biluð og ég gleymdi að skella í lás uppi og því komst gaurinn svona langt.  

Lúkasar-tuðspjallið. Talandi um spjöll ... á strætóskýlum. Þessa mynd tók ég í skýli í Mosfellsbæ á laugardaginn.

 



Tertuáletrun, horfinn leisígörlstóll og eldrauður ástareldur

Terta SigurjónuFáránlega mikil umferð á leiðinni frá Hellu í dag, hélt að morgundagurinn ætti að vera martröðin mikla á vegunum. Kom við í Eden og keypti Ástareld, minn guli er orðinn frekar druslulegur, og vinunum hefur fækkað í takt við það. Nú ákvað ég að breyta til og fá mér eldrauðan Ástareld þótt hættulegt sé upp á piparmeydóminn.

Held að Katrín Snæhólm hafi haft rétt fyrir sér í sambandi við leisígörl ... enginn nýr stóll er kominn í stað þess gallaða, það er mjög dularfullt. Nú situr einhver lesandi bloggsins ofsaglaður og svolítið skakkur í stólnum mínum, alveg eins og Katrín spáði.

HvalfjörðurVið Inga ókum Hvalfjörðinn á leið á Skagann og það var skemmtileg tilbreyting, myndi samt ekki nenna að gera það á hverjum degi. Tíkin Fjara sat vælandi aftur í. Henni finnst sveitin æði og dýr svo spennandi, af og til sá hún nefnilega hesta og kindur. Hún vælir líka svona þegar hún sér konur með töskur. Hún kom upp í himnaríki í smástund og Tommi finnur á sér hvað hún er meinlaus og óttast hana ekki en Kubbur sat titrandi uppi á fataskáp í herberginu mínu.

Get nú svo sem ekki klagað Hildu fyrir mikið þrælahald ... ég hjálpaði til seinnipartinn í gær og í allt gærkvöld og þess á milli tróð Sigurjóna, matráðskona og gömul skólasystir úr Austurbæjarskóla, í mig klikkaðislega góðum mat. Hún kallaði meira að segja þegar við Hilda vorum að fara í dag: „Viljið þið ekki tertusneið áður en þið leggið af stað?“ Ekki séns að neita svo góðu boði.

Þarf að panta marsipantertuna fyrir afmælið á morgun. Vantar góða áletrun á hana, hefur einhver hugmynd? Búin að nota t.d.:

  DOFRI HVANNBERG – 10. ÁGÚST
TIL HAMINGJU MEÐ FYRSTA FALLHLÍFARSTÖKKIÐ

Man að ég fékk hana mjög ódýrt í bakaríinu ...


Óætur húsfélagsfundur og þrælfyndinn Monk

NammmmmHússtjórnarfundur var haldinn í kvöld og ómissandi ritarinn úr himnaríki var boðaður með hálftíma fyrirvara. Þar sem húsfélagsformaðurinn er kokkur hugsaði ég mér gott til glóðarinnar að fá eitthvað gott að borða, hafði ekki enn snætt kvöldverð. Hann Níels eiturbrasari (í kvöld) bauð BARA upp á Prins Póló með kaffinu og það var ekki hægt að drekka kaffið hans af því að hann átti bara FJÖRMJÓLK út í það. Ég reyndi að segja honum á síðasta fundi að það væri plebbalegt að nota annað en nýmjólk, G-mjólk eða kaffirjóma út í kaffi en húsfélagsformaðurinn er í heilsuátaki og því voru móttökurnar svona meinlætalegar. Mig grunar líka að þetta hafi verið gulur Bragi ... Ég man nú eftir þeim húsfundum þegar kokkurinn hrærði í rækjusalat og skellti í bakarístertu. Kannski hefur Lýðheilsustöð þessi áhrif ... alla vega hefur karlinn ekkert minnkað reykingarnar síðan 1. júní, frekar en aðrir landsmenn sem reykja ... sem mér finnst stórundarlegt. Ætlunin var víst með reykingabanninu á veitingastöðum að gera reykingamönnum svo erfitt fyrir að þeir hættu. (Fliss)

monkMjög fyndið atriði var í Monk-þætti í kvöld á Sirkus plús. Verkfall sorphreinsunarmanna stendur yfir og Monk er hjá sálfræðingnum sínum, alveg að fríka út yfir lyktinni í borginni og öllu sorpinu sem hefur safnast upp. Sálfræðingurinn spyr pirraður: „Adrian, have you been sending me your trash?“

Risíbúðin í hinum stigaganginum hefur verið seld og ég fæ pólsk hjón sem nágranna. Þarna fékk ég loksins útskýringuna á örvæntingafulla útlendingnum sem hringdi bjöllunni hjá mér fyrir nokkrum vikum og fór næstum að skæla þegar ég sagði honum að himnaríki væri ekki til sölu. Hann fór bara stigagangavillt, þessi elska. Ég hélt að hann hefði farið húsavillt því að seljandinn hafði, eins og bloggvinir mínir muna, heimsótt mig ÓVÆNT korter í Evróvisjón (í alvöru) og fengið að skoða sig um vegna fyrirhugaðra breytinga á sinni íbúð. Svona breytast nú hlutirnir hratt.


Hefnd álfanna

Álfar og huldufólkÍ fyrri færslu minni var ég vitanlega að gantast þegar ég sagðist ekki trúa á álfa, huldufólk og tröll. Mér hefndist fyrir þetta hallærislega grín ... allt fór nefnilega úrskeiðis í himnaríki skömmu eftir að ég ýtti á Vista færslu. Diskur brotnaði, ég missteig mig og Tommi gubbaði á baðgólfið, að auki hófst þáttur með Oprah Winfrey í sjónvarpinu. Eins gott að passa það sem maður segir.

„Afsakaðu að ég bý á efstu hæð,“ sagði ég við móðan sendil sem kom með Tandoori-kjúklinginn til mín áðan. „Ekkert að afsaka,“ muldraði sendillinn hræðslulega og rétt þorði að fá borgað. Sumir hafa ánægju af þessu smáa í lífinu ... en ætlunin var nú ekki að hræða drenginn. Jú, letin hafði yfirhöndina og hringt var eftir góðum mat í stað þess að elda sjálf. Einu sérþarfirnar sem ég hef í sambandi við þennan tiltekna mat er að það þarf að krydda kjúklinginn meira en venjulega og sleppa furuhnetunum í salatið, þá er þetta líka algjörlega fullkominn kvöldmatur á sunnudegi og þannig var hann líka.


Dularfulla After Eight-ið og sögulegur samningur við strætóbílstjóra

Hlaupið upp lúmsku brekkunaHef ekki komið í Ártún í lengri tíma. Það var ósköp gaman að rifja upp gamlar minningar með því að hoppa út úr leið 18 þar, hlaupa niður milljóntröppurnar, fara undir brúna og þjóta upp lúmsku brekkuna. Fór létt með þetta allt saman, enda lítill snjór núna, bara rigning. Skrýtið að standa síðan í tíu mínútur á algjörlega mannlausri stoppistöð sem er yfirleitt full af fólki.

Bílstjórinn sem ók fjögur-strætó frá Mosó var hress að vanda. Sagði mér að ég hefði misst af Slade-lagi, C´mon feel the Noise, og fleiri góðum í útvarpinu, jú, við höfum sama tónlistarsmekkinn. Hann bað mig um að gera sér greiða. Hann nennir ekki að lesa Harry Potter sjálfur og spurði hvort ég væri ekki til í að segja honum hvað hefði gerst á þessum fyrstu 200 blaðsíðum sem ég er búin með. Frá Kollafirði og að Kjalarnesi sagði ég honum það helsta í stuttu máli. Hann er sem sagt kominn á samning, fær að vita allt jafnóðum alveg til enda. Sat beint fyrir aftan hann og gat talað frekar lágt. Ásta er gjörsamlega áhugalaus um Potter og afplánaði þetta með mæðusvip en ég veit ekki um strákinn sem sat við hlið okkar hinum megin við ganginn. Hann hélt alla vega ekki fyrir eyrun. Bílstjórinn keyrði eins og engill alla leiðina, með hunangsblíða rödd mína í eyrunum mestallan tímann!

Við Ásta verðlaunuðum okkur fyrir ... uuuu, góða frammistöðu í vinnunni ... og fengum okkur kaffi og köku í Skrúðgarðinum, sátum úti og nutum sólarinnar, það er nefnilega sól á Skaganum. Stelpurnar á kaffihúsinu vita orðið nákvæmlega hvernig ég vil hafa latte-inn minn; ekki sjóðheitan og enga froðu, takk! Kaffið var líka fullkomið! Keypti græna kortið en þegar ég ætlaði að kippa því með voru svona milljón útlendingar sem biðu eftir afgreiðslu svo að ég sæki það bara á morgun.

After EightMía systir og Sigþór vildu endilega verðlauna mig fyrir að passa Bjart svona vel. Þau færðu mér After Eight ... og ég sem er hætt að borða sælgæti fram að afmæli ... AE-pakkinn lá heillengi (alla vega í tíu mín.) við hliðina á Harry Potter-bókinni eftir að Bjartur var farinn og ég vissi ekki fyrr til en allt í einu var búið að opna hann og troða nokkrum aftereitum upp í mig. Ég þorði ekki að berjast á móti. Sólin bræddi súkkulaðirestina í dag og ég mátti horfa á pakkann fljúga inn í ísskáp þegar ég kom heim úr vinnunni. Mikið verður gott að klára þessa galdrabók, þá verður lífið eðlilegt á nýjan leik og skemmtilegt meinlætalífið hefst í himnaríki.  


Mikið haft fyrir Harry Potter

Potter og SkessuhornDagurinn hófst ótrúlega eðlilega og það var ekkert sem bjó mig undir þær miklu hremmingar sem síðar gerðust þar sem lögreglan, kattagras, matvörur með sjálfstæðan vilja, Skessuhorn og Harry Potter komu við sögu. Þetta byrjaði allt ósköp sakleysislega með símtali.
„Penninn, góðan dag!“
„Góðan dag, hvað verður opið lengi í dag?“
„Til klukkan tvö.“
„Eigið þið nýju Harry Potter-bókina?“
„Já.“

Ég tölti af stað, alveg að drepast í bakinu sem ég hefði átt að líta á sem aðvörun. Nei, ég óð beint út í skelfinguna. Nokkur fjöldi fólks var í bókabúðinni. Ég leit í kringum mig og sá nokkrar gamlar Potter-bækur í hillu og eina splunkunýja sem ég greip feginsamlega. Tók einnig Skessuhorn, hið frábæra vikublað Vestlendinga, og bjó mig undir að borga. Einhver hrollur fór um mig svo að ég fór aðra leið heim, gekk framhjá apótekinu og stóðst freistinguna að fara þar inn, fór Arnarholtið og horfði á gamla æskuheimili mitt, skærgult á lit en samt ótrúlega ógnvekjandi. Skagabrautin var mannlaus sem var frekar skerí. Sundurlausar hugsanir þutu í gegnum höfuðið og ein sat þar föst. Kattagras fyrir Tomma og Kubb! Einmitt það sem hefur lengi vantað fyrir innikettina mína. Ég áttaði mig svo á því á leiðinni í Krónuna að ef undirgöng væru undir gamla Skaganesti hefði gönguleið mín verið eins og rembihnútur.

Löggurnar fyrir neðan himnaríkiTil að styðja við bakið tók ég innkaupakörfu (göngugrind) og gekk óhrædd inn í Krónuna. Ætlunin var að kaupa kattagras fyrir 129 krónur, ekkert meira þótt það væri reyndar svolítið tómlegt í ísskápnum þar sem ég komst ekki í Einarsbúð í gær. Í búðinni fóru undarlegir atburðir að gerast. Ýmsar matvörur duttu ofan í körfuna, chili-pipar, hvítlaukur, tilbúinn fiskréttur, mjólk, skyr, jarðarber og annað sem ég myndi aldrei í lífinu kaupa. Ég hristi Potter-bókina reiðilega en allt kom fyrir ekki. Galdrarnir kostuðu mig rúmlega 6.000 krónur. Þá var hryllingurinn bara rétt að hefjast. Óþægileg en ókeypis plastpokahöldin skárust svo í lófana að ég þurfti nokkrum sinnum að gera hlé á leið minni heim til að pústa og leyfa mislitum höndum mínum að anda. Hvar eru Þrestir á rauðum jeppum þessa heims þegar þeir eiga að vera úti að rúnta og hjálpa bloggvinkonum sínum heim með vörur? Þetta var orðið þvílíkt lögreglumál að ég nötraði af þreytu þegar ég staulaðist inn úr dyrunum. Setti kælidótið inn í ísskáp af veikum mætti og bjó mér til róandi latte sem ég er að drekka núna. Þegar ég var að skola mjólkurkönnuna sá ég tvær löggur (sjá sönnun á mynd) út um eldhúsgluggann. Það verður sko bið á því að ég hætti mér út um helgar, hvað þá að ég kaupi næstu bók með Harry Potter!


Sósuskortur, spennusögur og nýr, undarlegur útlitsgalli

Zinger salatLoksins komst ég í strætó í dag. Hafði rúman hálftíma til umráða eftir lendingu í Mosó og hvað gera konur þá? Nú auðvitað fara þær í KFC og kaupa Zinger-salat ... mér finnst það svo gott. Gat þó ekki torgað nema helmingnum þar sem bara einhver hryllingssósa var til út á salatið, Honey Mustard-uppáhaldssósan búin. Svona gerir maður ekki þreyttri og svangri Skagakonu.

Vonaði að Tommi væri á vaktinni en ég er alveg komin út úr vaktaplönum strætóbílstjóranna eftir allt þetta rand á einkabílum undanfarið. Tommi keyrir líklega um helgina. Kom of seint heim til að geta horft á boldið á Stöð 2 plús ... en það gerist hvort eð er allt svo löturhægt þar, líklega nægir að horfa á fimmtudaginn næsta til að ná auðveldlega þræði margra daga. Ekki séns að ég nenni að horfa á þættina endurtekna eftir hádegi á morgun. Þá er nefnilega tímataka í Formúlunni! Hver lendir á ráspól? Spenna, spenna!

Fyrir einhverjum vikum kom út kiljan Þrír dagar í október. Hún er eftir Fritz nokkurn Jörgensson. Sagan fór svolítið hægt af stað þannig að ég sat ekki stöðugt við hana ... fyrr en líða fór á, þá negldi ég hana á tveimur kvöldum og ætlaði ekki að tíma að gera hlé til að fara að sofa. Steingerður mælti líka með henni sem hvatti mig til dáða. Þetta er splunkunýr spennusagnahöfundur sem lofar góðu.
Nú er ég að lesa svona Da Vinci bók um starfsmann Rannsóknarréttarins sem er í leynilegum erindagjörðum til að hafa upp á Predikaranum. Sjálfur Leonardo Da Vinci er persóna í bókinni. Með rigningunni kom eirðin og stefnan er að gera skurk í lestri um helgina.  

Handleggirnir á mérHvað mynduð þið segja ef ég opinberaði það hér og nú að ég þjáðist af stórfelldum útlitsgalla? Hægri höndin á mér (og handleggurinn) er nokkuð brún, á meðan sú vinstri er bara ljósbrún, eiginlega ljósdrapplituð.

Til að enginn taki eftir þessu væri t.d. snjallt að hafa aðra höndina á sífelldri hreyfingu en það gæti þó hrætt fólk. Hvernig getur svona gerst? Sólin skín vissulega meira á þá hægri þegar ég sit við tölvuna heima í sólskini en ég hélt ekki að væri hægt að verða brúnn í gegnum glerrúðu og ekki hef ég haft hægri handlegginn út um bílgluggann hjá Ástu eða Birki ... Allir sem ég þekki eru jafnbrúnir, hvað er eiginlega í gangi? Næstu sólböð verða framin í langerma bol öðrum megin og stutterma hinum megin. Hver veit nema það verði nýtt trend.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 33
  • Sl. sólarhring: 188
  • Sl. viku: 830
  • Frá upphafi: 1516347

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 689
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband