Færsluflokkur: Matur og drykkur

Af hvölum og köttum

Bjartur. Hvalur í baksýnFlýtti mér heim með fyrsta strætó eftir síestu vagnstjóranna, spennt að vita hvernig kattasambýlið hefði gengið fyrsta daginn. Ef ég hefði ekki skilið alla glugga eftir harðlokaða væri ég núna að leita að Bjarti ÚTI. Hann var hvergi sjáanlegur og kom ekki þótt ég kallaði. Hann birtist loksins malandi og ánægður með að sjá frænku. Nú víkur hann ekki frá mér. Hann hefur m.a. legið í glugganum við hliðina á mér, á lyklaborðinu og nú ofan á dagblöðunum í dag sem eru ofan á skrifborðinu.
Þrátt fyrir geigvænlegan hita í himnaríki bjó ég mér til heitan latte ... akkúrat það sem þurfti. Hefði farið í Skrúðgarðinn ef áhyggjur af kisunum hefðu ekki komið til. Þær voru óþarfar.

Gaf Tomma og Bjarti smá blautmat (jólamat) til að þeir gætu sameinast um eitthvað skemmtilegt (Kubbur borðar ekki svona) ... en þegar Bjarti fannst Tommi kominn of nálægt sér urraði hann og slæmdi loppunni í hann. Aumingja Tómas hefðarköttur flúði undir eldhúsborð, grútspældur út í þennan fyrrum leikfélaga sinn. Ástandið verður orðið gott á morgun eða hinn, ég er viss um það.

Niðri á Langasandi lá lítill hvalur, hálfur uppi á landi og hálfur í sjónum. Mjög skrýtið hvað fólkið á sandinum kippti sér lítið upp við þetta. Það var ekki fyrr en ég miðaði stjörnukíkinum á gripinn að ég sá að þetta var uppblásið leikfang, svona míní-keikó. Hann sést á myndinni, er í sjónum fyrir aftan Bjart, rétt við hausinn á honum.


Konan á vespunni og kúnstugt kattalíf

Við VesturgötunaÞetta verður svona matar- og kisublogg, aldrei þessu vant ... Hulda snillingur var með gráðaostfylltar kjúklingabringur í matinn. Hún steikti líka saman sneiðar af gulrótum og döðlum með kókosmjöli ... mjög gott þótt ég hafi sleppt döðlunum.
Hulda býr hinum megin á Skaganum, Vesturgötumegin, hefur sjóinn upp við garðinn sinn og er með útsýni yfir til Snæfellsjökuls. Hún er líklega eina konan á Skaganum sem fer allra sinna ferða á lítilli vespu og finnst það alveg frábært. Hún sagði mér að fólk á öllum aldri ferðaðist á þennan máta á Spáni og því ekki á Akranesi.
Myndin af rólu og brimi er tekin rétt hjá húsinu hennar. Hún hefur alla vega þetta útsýni. Fattaði ekki að taka með mér myndavélina í kvöld ...

Bjartur í glugganumElskan hann Bjartur er kominn í pössun og byrjaði á því að ráðast á Tomma sem flúði undir rúm. Kubbur er enn uppi á skáp og nú er augnaráðið hræðslulegt. Kommon, kettir mínir, Bjartur er minni en þið og skíthræddur, þess vegna lætur hann svona. Mía og Sigþór ætluðu aldrei að geta kvatt dúlluna sína, ætla að heimsækja hann á morgun. Það á að fara að mála gluggana hjá þeim og þeim fannst betri meðferð á kettinum að koma honum í sumarbúðir í himnaríki en loka hann inni einhvers staðar á meðan málningin er að þorna, svo tekur eitthvað annað við svo að Bjartur verður í nokkra daga. Hann er farinn úr glugganum og lagstur í stól fyrir aftan mig, elsku dúllan eltir mig um allt. Mínir eigin kettir eru í gíslingu og þora ekki að ganga frjálsir um af hræðslu við hrædda köttinn ... þetta kattalíf.

Jæja, best að fara að horfa á nýju DVD-myndina með Hugh Grant. Ellý segir að hún sé góð! 


Tommi tölvuséní, góður eftirréttur, heimsókn og sjónvarpsdiss

Tölvuséníið á heimilinuTommi köttur (ekki strætóbílstjóri) gekk yfir lyklaborðið mitt til að sýna mér extra-ástreitni og áður en ég náði að setja hann niður á gólf hafði honum einhvern veginn tekist að lita eitt bréfið í tölvupóstinum appelsínugult. Þetta gæti ég ekki gert þótt lífið lægi við. Mjög dularfullt. Fannst ég vera komin inn í Dean Koontz-bók, nema Dean notaði labradorhund sem ofurgáfað kvikindi í einni bóka sinna. Appelsínugulur litur er sagður mjög góður og skapandi. Hér með birti ég litaða bréfið frá samstarfskonu minni, líklega var það tilgangurinn með þessu öllu saman, guði sé lof að þetta var saklaust bréf. En svona er bréfið:

JarðarberjabúðingurGÓÐUR EFTIRRÉTTUR
750 g vanillu skyr.is án viðbætts sykurs
1 peli þeyttur rjómi

Hrært saman og berjum blandað í (t.d. jarðarberjum og/eða bláberjum)
Látið standa í kæli í um eina klst. og skreytt með berjum.
Ath: hægt að setja smá ósætt hafrakex í botninn!

 
HuldaGömul vinkona af Skaganum kom í heimsókn seinnipartinn og sat með mér á svölunum í smástund. Þótt ég sé hálfgerður hermit þá finnst mér fólk í raunheimum bara virkilega skemmtilegt. Ég leyfði Huldu að smakka góða eftirréttinn úr tölvupóstinum sem ég klessi saman á einni mínútu en notaði mun minni uppskrift. Huldu fannst þetta MJÖG gott og mér líka. Þoli ekki bláber (ormar í þeim) og notaði jarðarber.

  

America´s got talentHorfði á America´s Got Talent áðan í fyrsta sinn, missti af fyrsta þættinum. Miðað við það sem ég hef séð á youtube.com hefði ég miklu frekar viljað fá Britain´s Got Talent. Ant og Dec, kynnarnir í bresku þáttunum, eru svo æðislegir ... og kannski er maður bara búinn að fá nóg af ammmrískum svona þáttum. Ég er tryggasta kvikindi sem fyrirfinnst en treysti mér t.d. ekki til að horfa á ameríska ædolið sl. vetur ... þá var ég búin að fá nóg, löngu á eftir öllum sem ég þekki.

Nokkrir breskir þættir hafa reyndar verið á dagskrá undanfarin misseri, m.a. draugagangsþáttur og tískuþáttur en mér fannst þeir reyndar alveg skelfilegir. Draugaþátturinn er með þekktum miðli sem „finnur fyrir“ framliðnum í þekktum draugahúsum og sjónvarpsfólkið með honum skrækir ógurlega. Tískuþátturinn er þannig að tvær gellur auðmýkja nokkrar kerlingar í hverjum þætti, fá þær helst til að skæla og viðurkenna hvað þær eru ljótar og hallærislegar en svo redda gellurnar öllu! Arggg!     


Næstum því strætókynlíf og fágæt fegurð í útvarpi

Ósköp var notalegt að sjá Ástu í strætó í morgun, brúna og úthvílda. Sumarfríið hennar búið. Hún var aðeins of lítið klædd og ég aðeins of mikið. Erfitt að ráða í þetta veður ...

Var eitthvað pínu hrædd um að gleyma að fara í viðtal á Rás 2 kl. 8.30 og rjúka beint í vinnuna af gömlum vana en auðvitað er ég ekki alveg svona utan við mig. Elti bara Ástu út í Ártúni og við biðum eftir leið 6. Enginn aukabíll beið okkar Skagamanna, eins og venjulega, svo að vagninn okkar varð algjörlega pakkfullur þegar tugir Skagamanna bættust við annað eins af Grafarvogsbúum. Mér fannst nándin við náunga minn bara nokkuð notaleg og þetta er það næsta sem ég hef komist kynlífi allt of lengi. Fór alla leið niður í Bankastræti með sexinu og keypti mér latte ... veit alveg hvernig RÚV-kaffið er.

Viðtalið á gekk glimrandi vel og ég var svoooo sæt, enda vaknaði ég eldsnemma í morgun til að farða mig, eiginlega sofnaði ég ekkert ... Verst að þetta var í útvarpi en ég held að hlustendur hafi samt náð þessu. Útvarpskonurnar Hrafnhildur og Guðrún eru voða skemmtilegar ... en þegar Tommi er undir stýri á strætó hlustum við í Skagavagninum alltaf á þennan þátt. Jæja, best að vinna, nóg verður að gera í dag!  


Góður túristadagur, guðleg stríðni og ... grobb

RekkkjavikkFór á Skrúðgarðinn vel sjúkraþjálfuð þegar klukkan var að verða hálftólf og það var líklega eins gott því mig minnti að síðasta ferð fyrir fjögurra klukktíma síestu bílstjóranna væri kl. 12.41. Hún er klukkutíma fyrr. Ætlaði að fara að tölta heim á leið og kveðja kettina með kossi þegar Tommi birtist, stórhneykslaður á því að ég hefði ekki verið með í fyrstu ferð í morgun. Í Ártúni tók ég fimmuna og fékk spennandi óvissuferð, sá meira að segja stórt skemmtiferðaskip í Sundahöfn ... sumaráætlun strætó er bara kúl á köflum. Ákvað á Hlemmi að taka ferðamanninn á þetta og labbaði niður Laugaveginn, full hrifningar á þessarri fallegu borg, Rekkjavikk. Sá nýja plötubúð við hlið Skífunnar með plötum sem fást ekki alls staðar. Samt fann ungi strákurinn ekkert með Rick Wakeman, heldur ekki sá ljúfi í Skífunni. Að finna King Arthur-plötuna verður bara nýja takmarkið mitt í lífinu. Hitti Rúnar, son vinkonu minnar, í Bókabúð M&M þar sem hann vinnur. Hann sagðist vera búinn að lesa lífsreynslusögubókina, kannaðist við eina söguna úr henni og fannst það ekki leiðinlegt, sagan líka létt og jákvæð. Latte-inn á Kaffitári var guðdómlegur en þá var tími til kominn að skreppa í viðtalið sem gekk mjög vel.

Þvílík heppni að ná síðan korterísex-strætó heim. Sat við hliðina á skemmtilegri konu á leiðinni, verst að við fórum ekki að spjalla fyrr en síðustu mínúturnar. Hún er húsasmiður og það vekur furðu margra, sagði hún. Frétt í útvarpinu fékk hana til að fara að spjalla og við nutum þess að femínistabeljast svolítið.   

Tomkrús minn almáttugurGetur verið að það sé einhver ósýnilegur þarna úti sem fylgist með mannfólkinu, grípur inn í stöku sinnum inn í og ... finnst gaman að stríða? Jafnvel einhver guðlegur? Kannski nýi frelsarinn, þessi hjá Vísindakirkjunni?

Var ekki fyrr búin að sleppa orðinu hér á blogginu um að ég væri aldrei bitin af pöddum ... þegar ég nældi mér í nokkur bit, líklega staraflóarbit. Það er svona þegar maður bregður sér af bæ. Þetta hefði aldrei gerst í himnaríki!

 

Skemmtiferðarskipið að faraUm leið og ég fór að fylgjast með leiknum sem nú fer fram fyrir neðan austurglugga himnaríkis skoruðu Víkingar mark. Nú held ég mig bara vestanmegin, veit í hjarta mínu að ÍA skorar tvö mörk í seinni hálfleik.

Skemmtiferðarskipið sem ég dáðist að í dag sigldi framhjá himnaríki rétt áðan á leið til frekari ævintýra. Finnur þó vart fegurra land en Ísland. (Þetta mun flokkast undir nýja færsluflokkinn minn)


Sætari fyrir eða eftir brottnámið ... og tillaga um breytingar á Írskum dögum

Indverskur kjúklingarétturMamma og erfðaprinsinnFékk notalegt símtal um kvöldmatarleytið. Stóra systir bauð mér í kjúkling. Mágur minn sótti mig á nýja, flotta, svarta bílnum og haldið var til veislunnar. Við ókum fram hjá tjaldstæðinu á leiðinni ... og þar var nú hálfgerð rúst, sumir höfðu bara skilið tjöldin eftir. Finnst ekki ólíklegt að dagskrá Írsku daganna verði eitthvað breytt í kjölfarið. Kannski verða bara þjóðdansasýningar, reiptog og aflraunir, og allt endar svo í spennandi bingóorgíu í Bíóhöllinni. Það ætti að fæla drykkju- og ofbeldisboltana frá. Þeir hafa kannski verið 1% af gestum en settu ljótan svip á. Aðkomumenn, auðvitað. Eflaust Reykvíkingar úr Breiðholti, sagði Mía systir og mamma þóttist ætla að berja hana. Mamma er nefnilega hamingjusamur Breiðhyltingur. Já, mamma var í heimsókn hjá Míu og ég var hálfkvíðin að hitta hana ... eftir að Morgunblaðið birti játningu mína um fyrsta kossinn. Bjóst við skömmum: „Hvað varstu að gera á balli svona ung? Hvernig datt þér í hug að kyssa ókunnugan strák?“ Komst að því að mamma hefur orðið frjálslyndari með árunum og fannst þetta allt í lagi. Hún viðurkenndi þó að hún hefði ekki verið ánægð 1972 með þetta ef hún hefði vitað ... þess vegna segi ég: Höfum unglingana okkar í hlekkjum til þrítugs! Við vitum ekkert hvað þau eru að gera!
Myndin t.v. hér að ofan er af háttvirtri móður minni með erfðaprinsinn, c.a. tveggja ára. 

Lítil vinkona í brúðkaupsveislunniFéll kylliflöt fyrir enn einni Önnunni í brúðkaupsveislunni. Þetta var nokkurra mánaða stelpa sem ég fékk að halda á og við smullum svona líka vel saman. Komst að því að virðuleg móðirin er vinkona Rúnar sem bjó í íbúðinni á móti minni á Hringbrautinni. Rún bjó við það harðræði að hafa bara RÚV á heimilinu og kíkti stundum í heimsókn og fékk að horfa með mér á MTV. Stundum kíktu vinkonur hennar með og þá var fjör. Man vel eftir einu skiptinu þar sem við sátum þarna nokkrar 12 ára og skemmtum okkur yfir Space Man með Babylon Zoo. Það kom í minn hlut að útskýra fyrir þeim að myndbandið fjallaði um venjulegan mann sem geimverur rændu og breyttu ... úúúúúú ... og ein þeirra varð hálfhrædd við myndbandið á eftir. Sorrí.

Óttalegt súkkulaðikvikindi ...Man hvað við Guðrún vinkona vorum algjörlega á öndverðum meiði um hvort hann væri sætari fyrir eða eftir. Hún sagði fyrir, þar sem hann var ósköp venjulegur jakkafatagæi, en mér fannst hann miklu flottari eftir brottnámið ... kominn í blátt pils og allt. Hann er nú óttalegt súkkulaði samt ...
Jamm, svona getur nú komið fyrir góðar konur þegar þær eru tónlistarsveltar í næstum 20 ár og fá svo MTV, sem var skrambi gott í kringum 1995. Hætti að hlusta á nýja tónlist þegar diskóið hélt innreið sína, fannst það skelfilegt (fyrirgefðu Palli). Vaknaði svo upp úr tónlistarkómanu 95. Hér fyrir neðan er lagið Space Man. Hvort finnst ykkur gaurinn sætari sem hallærislegur hagfræðingur eða rosasæt geimvera? Svör óskast!
http://www.youtube.com/watch?v=uE8G-sJ2f4s


Frábært brúðkaup og fréttir af blautri frænku á Hróarskeldu

Hinn írski TommiRauðhærður, vígalegur strætóbílstjóri sat undir stýri þegar ég tók vagninn í bæinn. Þetta reyndist bara vera Tommi dulbúinn sem Íri í tilefni Írsku daganna. Hann ók nokkrum rosalega slöppum unglingum heim til Reykjavíkur með fyrsta strætó í morgun, þeir voru alveg búnir á því. Kalt í tjaldinu, þeir voru svangir og vildu komast heim til mömmu. Steinsváfu alla leiðina, þessar dúllur, að sögn Tomma.

AnnaÞetta varð síðan algjör lasagna-dagur. Anna, brúðkaup, Anna, brúðkaupsveisla, Anna.

Anna beið í Mosó og við fórum beint í Kringluna í brúðkaupsgjafar- og latteleiðangur. Ég ætlaði að kaupa Matreiðslubók Nönnu handa brúðhjónunum en hún var greinilega uppseld þannig að ég keypti nýju, stóru Kjúklingauppskriftabókina, hún er voða flott. Bætti við plötu með Ljótu hálfvitunum og smellti svo Lífsreynslusögubókinni með. Vona að þau verði ánægð. Kannski lauma ég bók Nönnu að þeim síðar.
Fór svo heim með Önnu á Álftanesið og vá, hvað húsið hennar hefur tekið miklum breytingum! Hef fylgst náið með endurbótunum á blogginu hennar en alltaf er skemmtilegast að sjá þetta með berum augum.

Anna Ósk og HelgiBrúðkaupið var mjög fallegt og látlaust. Milli brúðkaups og veislu naut ég þess að vera með Önnu aftur og nú var Ari, maðurinn hennar, kominn heim. Þarna var ákveðið að þau hjónin færu upp í sumarbústað í Borgarfirði um kvöldið og myndu skutla mér heim á Skaga í leiðinni.

Veislan var algjört æði. Sat við borð með hluta af fjölskyldu brúðgumans og Guðrúnu, föðursystur brúðarinnar. Kaffi Konditori Copenhagen í Hafnarfirði sá um veisluna og fólk var mjög ánægt með kræsingarnar.

Reyktur lax í forrétt, nautakjöt m/rótargrænmeti og gratíneruðum hvítlaukskartöflum í aðalrétt og glæsileg terta í eftirrétt. Þegar danski krónprinsinn trúlofaði sig var boðið upp á svona tertu. Kaffið með kökunni var gott en það er ekki algengt, yfirleitt kaupir fólk allt það fínasta í veislur en býður svo upp á vont kaffi með.

Upp úr níu komu Anna og Ari og sóttu mig. Það var gaman á leiðinni, mikið spjallað og Anna lét einn góðan flakka:
Viðskiptavinurinn: „Ég ætla að fá bensín fyrir 200 krónur.“
Bensínafgreiðslumaðurinn: „Viltu svo að ég hræki í rúðupissið fyrir þig?“

Ellen, systurdóttir mín, hringdi í mig rétt áðan frá Hróarkeldu.
„Varð að láta þig vita að ég er á tónleikum með Red Hot Chili Peppers, hlustaðu!“
„Vá, grát, mig langar að koma, ertu nokkuð að drukkna í rigningunni, elskan?“
„Neibbs, ég keypti mér ný föt og nýtt tjald og þarf bara að vera eina nótt í viðbót hérna, svo fer ég til Köben! Hringi í þig ef lagið þitt kemur og leyfi þér að hlusta!“
„Það heitir Road Trippin’, já, hringdu ef það kemur.“
http://www.youtube.com/watch?v=LZvRj726ipg


Rjúkandi rústir og vísir að grill-einelti?

Við Kirkjubrautina í morgunVaknaði um níuleytið í morgun, sem eru hálfgerð helgi-spjöll, en brúðkaupið bíður með öllum sínum dásemdum í dag. Allt var þögult, eins og um hánótt væri, en núna um tíuleytið eru unglingarnir farnir að streyma að Langasandinum. Ja, alla vega fólk sem var einu sinni unglingar og annað sem stefnir hratt í það. Hjá einum bloggvini mínum, Skagamanninum Þresti, http://motta.blog.is/blog/motta/#entry-257259 má lesa að Skaginn sé ónýtur eftir læti næturinnar. Allt sefur maður nú af sér, eins og mest spennandi fótboltaleik síðustu ára og nú þetta.

Allir á Skaganum voru úti á grilla í gærkvöldi, götugrill og gleði um allar götur. Við Þröstur vorum útundan ... göturnar okkar sökka greinilega, nema þetta sé bara undarleg tilviljun ... Grillmatur er hvort eð er náttúrlega algjör viðbjóður.   

Hef verið frekar ódugleg við að bolda undanfarið en nýjustu fréttir eru þessar:
Nick fullvissaði Bridget um ást sína og hún var að springa úr hamingju. Það stóð ekki lengi, þegar Bridget átti erindi á skrifstofu mömmu sinnar var Stefanía þar og blaðraði öllu í Bridget sem stirðnaði upp. Taylor og Ridge eru við það að taka saman aftur. Hann hefur þó viðurkennt fyrir henni að vera veikur fyrir Brooke. Það er líka Eric pabbi hans, þó ekki blóðfaðir, en hann er farinn að deita Jackie, sem er fyrrum eiginkona blóðföður hans og móðir Nicks. Eric var einu sinni kvæntur Brooke og á með henni tvö börn; Bridget og Rick.
Er komin með það á hreint að til að spara leikaralaun er fólkið í þáttunum látið deita hvert annað, giftast og skilja og svona og lítil endurnýjun verður. Mögulega má rekja furðulegt hegðunarmynstrið til skyldleikaræktunar.

Strætó leggur af stað frá Skaganum kl. 11.41, ef það er þá ekki búið að kveikja í honum, og hinum megin við rörið, eða í Mosó, mun elskan hún Anna bíða. Við náum að eiga stund saman áður en brúðkaupið hefst hálfþrjú. Nú er það bara bað, flott föt, spartl í andlitið og hír æ komm!


Allt að gerast á Skaganum ...

Hljómsveitin á Írskum dögumVið Steingerður brunuðum á Skagann eins og fínar frúr og vorum komnar rétt um sexleytið. Komumst að því að bókabúðinni er lokað á sekúndunni sex. Engin brúðargjöf keypt þar.

Hálfgert umsátursástand ríkti á Skaganum (stuð), unglingar og hasshundar í röðum (sá a.m.k. einn hund) og rokktónleikar fyrir utan kaffihúsið sem var LOKAÐ! Opna á kl. 10 í kvöld í tjaldi við hliðina, sem verið var að setja upp við dúndrandi tónlist hljómsveitarinnar.

Steingerður og Freyja í Skrúðgarðinum

 

Við kíktum aðeins í Skrúðgarðinn sjálfan sem er fyrir aftan kaffiðhúsið. Mikið er hann orðinn fallegur.  

Besta kaffið er vitanlega í himnaríki og var Steingerður dregin þangað. Freyja terroriseraði því kettina, alla vega Kubb sem varð eins og dalmatíu-klósettbursti í útliti, en Tommi hetja fílar hunda bara ágætlega. Lokaði þá samt báða inni svo að Freyja yrði til friðs.

Kettirnir voru búnir að rústa stofunni þannig að ég get ekki frestað tiltekt lengur. Það hefur verið ákveðin sjálfsblekking í gangi undanfarið þegar ég geng viljandi gleraugnalaus um himnaríki og finnst vera frekar fínt! Nú verður ráðist á draslið með hörku!

 
Ránsskútur?Eitthvað undarlegt er í gangi. Fékk hjartslátt af spennu þegar ég leit til hægri, eða út á sjó. Fjöldi seglskúta stefnir til Akraness ... örugglega unglingar. Náði mynd af þremur þeim fremstu, fleiri eru á leiðinni. 

Skyldi saga Tyrkja-Guddu verða endurtekin í dag? Kemur í ljós ef ég blogga ekki meira í kvöld. Best að taka úr lás. Alltaf gaman að lenda í ævintýrum. Best að brosa þó ekki þar sem það er nú á hreinu með nýlegum dómsúrskurði að það veitir leyfi til ofbeldis.


Furðulegt háttalag kattavinar um morgun

Of hátt stillt útvarp orsakar margtAlveg furðulegur fjandi kom yfir mig í strætó í morgun. Aðstæður voru þannig að góðlega konan (sem ég held að sé þroskaþjálfi) hafði hlammað sér fremst og hjartahreini (hélt ég) djákninn tróð sér fram fyrir mig og settist hjá henni. Að vanda hafði móðirin, sem ekkert er fyrir börn, skellt sér hinum megin við ganginn með óbundið barn sitt svo að ég þurfti að setjast aftar. Þreytan var líka að yfirbuga mig og syfjan ... mér hafði reyndar tekist að klæða, bursta og það allt á tíu mínútum án þess að nokkurt stress væri í gangi, fumleysi einkenndi athafnir mínar, eins og svo oft.... Jæja, byrjar svo ekki útvarpið í strætó að baula beint inn í eyrað á mér. Sem betur fer var það Rás 2, annars hefði ég andast þarna í sætinu. Mér fannst einhvern veginn svo óyfirstíganlegt að losa öryggisbeltið, fara alla leið fram í til Tomma og biðja hann um að lækka. Hávaðinn var of mikill til að ég gæti kallað ...

Súkkulaði ... nammmmmmÞá byrjaði þetta skrýtna að færast yfir mig og ég skildi fyrst ekki hvað þetta var ... það var ekki fyrr en á Kjalarnesinu, rétt eftir göngin, að ég fattaði að þetta var VÍSIR AÐ GEÐILLSKU! Það er tilfinning sem ég hef ekki fundið fyrir mjög lengi, mjög, mjög lengi! Nú, í stað þess að láta það bitna á samferðamönnum mínum reyndi ég að hugsa um eitthvað skemmtilegt, eins og brúðkaupið sem ég er að fara í á morgun, hjá elskunni minni henni Önnu Ósk sem ég hef þekkt síðan hún fæddist. Það er svo langt síðan ég hef farið í brúðkaup ... ekki síðan á Gay Pride í hittiðfyrra (gagnkynhneigt brúðkaup) þarna þegar ég varð fyrir móðgun sama dag í Lífstykkjabúðinni sem hefur markað mig ævilangt, ... að ég veit ekki alveg hvað ég á að kaupa í brúðargjöf. Ég var svo blönk í hitt skiptið að ég hafði bara efni á því að kaupa matreiðslubókina Súkkulaði sem vakti reyndar ógurlega lukku og var ein af fáum gjöfum sem ekki var skipt ... en ég er aðeins ríkari núna.

Ef ykkur, hjartkæru, fallegu bloggvinir, dettur eitthvað sniðugt í hug til að gefa í brúðkaupsgjöf þá er heilt kommentakerfi hérna fyrir neðan sem bíður eftir gáfulegum athugasemdum ykkar.

Hætt að vera geðvondÁ leið út úr strætó laumaði ég því að Tomma að taugar mínar hefðu verið orðnar úfnar eins og gaddavírsgirðing eftir útvarpsofbeldið  ... og Tommi varð eiginlega alveg miður sín ... hann sagði að þetta væri hipparútan með sérkerfi fyrir farþegana og málið væri bara að biðja um lækka ...

Geðillska mín gufaði endanlega upp þegar mér hafði tekist að eyðileggja daginn fyrir Tomma ... en ég gaf honum samt DV-ið mitt í kveðjuskyni. Á móts við Harðviðarval fann ég að kramdi fóturinn var óðum að jafna sig og heltan á undanhaldi. Líklega verð ég að labba niður á Skrúðgarð á morgnana til að geta notað samgöngutækið strætó (og sitja fremst) ... eða biðja Betu sjúkraþjálfara um túrbómeðferð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 59
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 1516373

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 712
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband