Færsluflokkur: Matur og drykkur

Grillarinn Úlfar, Írskir dagar og heimsókn Freyju

ÚlfarHann Úlfar kokkur á Gestgjafanum býr í Mosfellsbæ og fannst ekki mikið mál að skutla mér á stoppistöðina mína á leiðinni heim. Úlli er mikill dýramaður sem hætti m.a. í golfi til að geta einbeitt sér að kanínunum sínum! Hann og fjölskylda áttu eitt sinn glæsilegan kött sem var svona næstum því inniköttur. Hann hætti sér stundum út í Grafarvoginum þar sem þau bjuggu og eitt sinn lenti hann í skelfilegum slag við frekan fresskött úr nágrenninu. Konan hans Úlla sagði blíðlega við kettina: „Svona, hættið þessarri vitleysu!“ en Úlli greip blautt handklæði og bjó sig undir að skilja þá að með því að slá til þeirra. Ekki vildi betur til en svo að konan hans beygði sig eitthvað og varð fyrir handklæðinu. Hún datt niður ... ómeidd en nágrannarnir öskruðu úr hlátri yfir þessu fyndna fólki sem nýflutt var í hverfið. Bakgarðarnir voru í einni hrúgu, svona eins og sameiginleg lóð. Freki fresskötturinn kom ekki framar inn á yfirráðasvæði glæsikattarins.

GrillEinu sinni sem oftar grillaði Úlli. Nágrannarnir, sem líka voru úti að grilla, fylgdust spenntir með þessum fræga sjónvarpskokki, sem hann var þá. Allt gekk vel. Úlli var með fjórar litlar nautakjötssneiðar sem hann bjóst svo sem ekkert við að þurfa en skellti þeim samt á grillið, sneri þeim við eftir smástund, slökkti á grillinu og lokaði því. Hálftíma seinna opnaði hann grillið til að tékka á málum, og fjórar eldsúlur stóðu upp í loftið við mikla gleði grannanna. Hann hafði sett grillið á hæsta í stað þess að slökkva á því!

Tommi kom eftir smástund á strætó þótt heill hálftími væri í brottför og ég náði sætinu mínu! Rúntaði með honum inn í Mosfellsdal og til baka í Mosó þar sem ungarnir hans (farþegarnir) komu fljótlega með leið 15. Tommi sagði mér að mikill viðbúnaður væri fyrir Írsku dagana nú um helgina. Við fáum heilan hasshund og allt til að þefa af farþegunum, enda er pínuoggulítið um drykkju og dópneyslu ungmenna (undir 18 ára) á svona skipulögðum „fjölskylduskemmtunum“ sem eru nánast um hverja helgi yfir sumartímann.

Brosmild FreyjaLítil hætta er þó á því að ég verði handtekin á morgun. Elskan hún Steingerður ætlar að koma með mér á Skagann og taka Freyju með. Kannski við viðrum voffa á Langasandinum. Flóð verður líklega um kvöldmatarleytið svo að við ættum að ná smá sandræmu. Steingerður vill helst ekki leggja á kettina mína að fá Freyju í heimsókn en Freyja lítur á ketti sem skemmtileg þroskaleikföng, enda á hún tvo ketti sjálf; Matta og Týru. Akkúrat núna er ég að horfa á mann með ansi fjörugan sjefferhund niðri á sandi.

Stal þessarri stórkostlegu mynd af blogginu hennar Steingerðar. www.steingerdur.blog.is  



Frægðin og furðulegur kjúklingur

Forsíðuviðtalið okkar þessa vikuna er við 55 ára konu sem lifir lífinu til fulls, svo vægt sé til orða tekið. Börnin eru uppkomin og búin að gera hana að þrefaldri ömmu. Hún málar, ferðast, skrifar og bara nýtur þess að vera til. Hún á virkilega myndarlegan og góðan kærasta sem er 27 ára. Geri aðrir betur.  Hlakka til að lesa viðtalið við hana í strætó á leiðinni heim. Verð greinilega að hætta að glápa græðgislega á þessa gráhærðu gaura og ... nei, annars.

Gunni ljósmyndari skutlar mér í Mosó á eftir og tekur mynd af mér í strætó kl. 16.45 ... fyrir Séð og heyrt, já, ég legg ekki meira á ykkur. Fyrst er það Wall of Fame hérna á Moggablogginu, loksins tekin í sátt eftir að hafa skrifað ódauðlegar færslur hér síðan í lok janúar án nokkurrar viðurkenningar ... og nú er það Séð og heyrt! Ástæðan fyrir þessu síðarnefnda er útkoma bókarinnar með lífsreynslusögunum.

Ein bókabúðasamsteypa er strax búin að panta fullt í viðbót ... úje! Þetta heyrir maður þegar labbað er fram hjá lagernum. 

Þetta er náttúrlega ótrúlega skemmtilegt lesefni í flugvél, sumarbústað, strætó, uppi í rúmi, inni í eldhúsi, í vinnunni í felum bak við tölvuna, á rauðu ljósi og fleira og fleira ... Ég er mjög montin af þessu og bíð spennt eftir viðtökunum. Ég ítreka að þetta eru dagsannar sögur, nöfnum yfirleitt alltaf breytt og stundum aðstæðum. Þarf að leggja til við yfirmenn mína að ég fái að ferðast um landið og safna sögum!

Kjúklingurinn í hádeginu var ... uuu, áhugaverður. Við héldum fyrst að hann væri reyktur en þetta var bara kryddið. Náði ekki að klára bringuna, fíla ekki  mikið saltan mat. Mætti ég þá frekar biðja um vel sterkt indverskt eða mexíkóskt!


Ananas vesen, hrópaði hún þegar kynþokkafulli fréttamaðurinn hvessti brýrnar og tilkynnti um lækkað lánshlutfall hjá Íbúðalánasjóði vegna verðbólguþrýstings

Súkkulaðikaka fyrir smiðinnIðnaðarmaðurEr alveg grútspæld. Þessi breyting kemur sér alla vega illa fyrir mig.

Ef ekki væri svona mikið að gera hjá iðnaðarmönnum á sumrin væru endurbæturnar í himnaríki að baki og ég búin að taka fyrirhugað endubótalán.

Efast um að ég geti reitt fram 20% úr eigin vasa þótt forrík sé. Skrambans verðbólguþrýsingur. Held að ég verði að bjóða upp á eitthvað betra en kaffi til að lokka til mín iðnaðarmennina.

P.s. Æ, ég gat ekki stillt mig um að fylgja tískunni í fyrirsögnum hér á Moggablogginu. Ellý, Jenný, Jón Valur eru fyrirmynd mín að þessu sinni.


mbl.is Lánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað í 80%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stinnur rass á tíu dögum - byrjuð með námskeið

Sjúkrahús AkranssÞegar háæruverðugur heimiliskötturinn Tomma hoppaði EKKI upp í baðvaskinn sekúndubrotum áður en ég ætlaði að bursta tennurnar vissi ég að þetta yrði góður dagur! Það sannaðist líka strax þegar strætó kom ... með hinn Tomma undir stýri.  Ekki bara það, heldur var engin kerling í sætinu mínu!!! Ég gat teygt úr veika fætinum og að auki spjallað við Tomma. Veit ekki af hverju óskalög sjúklinga komu til tals en Tommi sagði okkur Sigþóru, sem sat hinum megin við ganginn, frá frægri kveðju sem barst þættinum eitt árið. Þar fengu allir á Sjúkrahúsi Akraness, hjúkkur, læknar og annað starfsfólk bestu kveðjur NEMA kokkurinn og sjúkraþjálfarinn. Heheh, þarf að segja Betu þetta þegar ég leggst næst á pyntingabekkinn hjá henni.

Hver þarf tækjasal ...Svakalegur munur er á mér eftir þessi tvö skipti hjá henni. Þar sem enginn klípur mig í rassinn reglulega (sorglega lítil kynferðisleg áreitni á þessum vinnustað og í strætó) þá geri ég það bara sjálf ... en ég uppgötvaði í gærkvöldi að ég er komin með þessa líka fínu rassvöðva og er með stinnan rass eins og súpermódel. Bara eftir tæplega tveggja vikna labb upp brekkuandskotann, frá Vesturlandsvegi og upp í Lyngháls. Ég vissi að vöðvarnir væru þarna einhvers staðar ... bara í afslöppun og með aðstoð Betu tókst mér að fara að labba og stinna mig alla upp. Svo borða ég ekki brauð eða sykur eða neitt slíkt þessa dagana ... orðin hundleið á bjúg til 15 ára eftir óverdós af pensilíni ... Held að ég þurfi bráðlega að fara að kaupa mér slæðu og sólgleraugu til að fá frið fyrir æstum mönnum. Það hefur oft komið sér vel að vera með sokkið andlit af bjúg til að fá frið, t.d. ef ég labba framhjá þar sem árshátíð lögreglumanna fer fram eða haustfagnaður hrossatemjara eða jafnvel bingó í Vinabæ.

Eitt nýtt fyrir íslenskunörda: Nú skrifum við Óskarsverðlaun með stóru Ó-i og líka heiti stjörnumerkjanna. Snilldarprófarkalesararnir mínir láta mig alltaf vita af breytingum vegna sjúklegs áhuga míns á stafsetningu. Geri vissulega stundum villur á blogginu og þarf að fjötra mig fasta einhvers staðar til að leiðrétta ekki ... en eins og Anna vinkona http://annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/250035 segir á síðu sinni að bloggið sé ritað talmál ... ég er svo sammála því, held að ég myndi ekki nenna að blogga ef ég velti hverju orði fyrir mér! Engist samt stundum yfir skorti á kommu eða smáorði eða setningaskipan osfrv.


Hetjudáðir og kosningaloforðin

LandspítalinnTvo daga í röð hef ég setið við hliðina á voða skemmtilegri konu í strætó á heimleiðinni. Hún vinnur á Landspítalanum og er heilaskurðlæknir eða ritari. Hún les bloggið mitt stundum og það eina sem hún virkilega man er að ég lofaði að fylgjast með kosningaloforðum nýju stjórnarinnar. Er einhver þarna úti sem veit eitthvað? Er þetta ekki allt í blússandi gangi hjá þessum elskum?

LatteDrýgði hálfgerða hetjudáð í gær og aftur í dag. Ég er loksins farin að þora að hita nýmjólk í espressóvélinni. Er skíthrædd við allt svona frussudæmi og hef leiðbeiningarnar fyrir framan mig og mun gera þar til ég kann þetta utan að og óttinn hverfur. Kaffirjómi er kúl en er bara svo leiðinlegur og kekkjóttur á sumrin ... eða ég óheppin með hann. Eini gallinn við vélina mína er að kaffið er ekki nógu heitt, alla vega ekki með kaldan kaffirjóma út í ... Nú drekk ég heitan latte (c.a. 150°F) þegar ég kem heim úr vinnunni og verð eldhress.  

Nick og Bridget giftust loksins. Taylor deitaði slökkviliðsmanninn. Brooke lætur sig dreyma blautlega drauma um kelirí við Nick, tengdason sinn, og kveður hann í huganum. Eins gott að hún sjái ekki fram í tímann. Múahhahaha! Þegar hún þarf að berjast um Nick við Taylor. Hvað verður þá um Bridget og barnið? Já, og hvað ætli verði um leiðindagerpið hann Ridge, fyrrum aðalhönk þáttarins? Nú er hann að væla í Brooke um að Taylor hafi fleygt sér út. „Takk fyrir umhyggjuna,“ segir hann beiskur þegar Brooke flaðrar ekki upp um hann. „Ég hef aldrei þarfnast þín jafnmikið,“ heldur hann áfram og það var lokasetning þáttarins.


Mikil seinkun á Skagastrætó ... og sjokk á Garðabrautinni

Nýlögð af stað frá MosóHelga systir sótti mig á BSÍ og skutlaði mér svo á síðustu stundu í Mosó eftir góðan kaffibolla og djúpsteiktan Camenbert í miðbænum. Alltaf svo gaman að hitta Helgu. Sérblogg um hana fljótlega. Við hefðum ekki þurft að flýta okkur. Ég hefði getað skroppið í bað, slegið meðalstóran garð með orfi og ljá, eða mögulega skrifað harmsögu ævi minnar ... það var sko klukkutíma seinkun vegna umferðar. Strætó ók á 10-20 km/klst næstum alla leið frá göngunum.
Háværir unglingar í eldri kantinum, kannski 16-17 ára, lögðu undir sig skýlið svo að sómakæru Skagamennirnir húktu úti í sífellt kólnandi veðrinu. Þeir kveiktu á blysum, hentu rusli um allt, firrtir unglingar sem leiddist. Trúi ekki að ég hafi verið svona slæm í denn, eða fyrir svo fáum árum.

Perlufestin í KollafirðiÉg hringdi í 540 2700 til að tékka á málum eftir svona hálftíma bið og var sagt að það væri a.m.k. hálftíma bið í viðbót. Fólk úr Mosfellsdal þurfti að sjálfsögðu að komast inn á Vesturlandsveginn þannig að löggan stoppaði umferðina í nokkrar mínútur til að hleypa þeim inn á og ekki lagaði það ástandið. Svo kom elsku strætó og þegar hann lenti í Mosó sá ég að farþegarnir af Skaganum klöppuðu allir. Það var sætaferðastemmning á leiðinni á Skagann, bílstjórinn var mjög skemmtilegur, enda ættaður frá Húsavík. Þegar við vorum að nálgast göngin sagði hann með mjög spúkí röddu: „Ég á að vera að mæta sjálfum mér núna ...“ Farþegarnir öskruðu, þetta var eins og að vera staddur í miðri hryllingsmynd. Aðalsjokkið var þó eftir.

SjefferhundurÞegar við ókum inn Garðabrautina og ég var að fara að standa upp til að fara út úr vagninum sá ég gullfallegan sjefferhund og tvo menn sem virtust vera að hvetja hann til að hoppa inn í bíl að aftan. Okkur í strætó til mikils hryllings fór annar maðurinn að lúberja hundinn þegar hann var kominn upp í bílinn. Hann notaði hnefana og barði hann í hausinn. Ég gat ekki stillt mig um að kalla upp yfir mig og bílstjórinn sá þetta líka. Hann sagði alveg í rusli: „Ég vona að ég eigi aldrei eftir að sjá svona lagað aftur!“ Ég var svo æst að ég ætlaði að ná gaurunum, adrenalínið gefur manni aukið hugrekki ... kannski voru þetta handrukkarar og þá væri ég núna með brotnar hnéskeljar ... en þeir voru lagðir af stað á bílnum. 

Ég er enn í rosalegu uppnámi, hvað getur maður gert? Kært þetta fyrir lögreglunni? Þegar almenningur skammast yfir grimmum hundum ætti frekar að tékka á eigendunum. Sama hvað hundurinn hefur gert af sér þá gerir maður ekki svona. Ef hann hefur verið þrjóskur að hoppa upp í bílinn og fær svona refsingu þá verður þetta illa grimmur hundur.
Ég man hvað mér fannst hræðilegt að sjá amerísku móðurina berja barnið sitt inni í bíl og fréttir af því komu í sjónvarpi um allan heim ... mér leið eins núna. Maður gengur ekki í skrokk á minni máttar ... ég gæti reyndar sjálf hugsanlega myrt með köldu blóði barnaníðing sem ég stæði að verki en ég get ekki setið hjá þegar fólk fer illa með börn eða dýr.


mbl.is Þung umferð í átt að höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótur munntóbakssvipur, pastasalat, skrifstofupúl og glannar

Ferðin austur á Hellu gekk mjög vel en umferð var frekar þung. Alveg merkilegt að sjá þessa framúraksturgaura/-píur sem tóku óþarfasénsa sem flýtti svo sama og ekkert fyrir þeim. Glannar!!! Magga kom með þá hugmynd að allir þeir sem tækju bílpróf færu fyrst í sálfræðipróf. Ekki galið! Annars breytast sumir dagfarsprúðir borgarar í hin mestu skrímsli bara við það að setjast undir stýri.

Þegar ég sat í leið 15 í Ártúni á leið til Möggu komu nokkrir unglingsstrákar inn í vagninn. Bílstjórinn bannaði þeim að taka hálffullar kókflöskur með sér inn. Þeir hentu þeim þá bara á götuna, ruslafata var samt í nokkurra skrefa fjarlægð. Það er svo auðvelt að kenna krökkum að nota ruslafötur ... bílstjórinn starði gribbulega á þá en sagði ekkert. Ég sat svo aftarlega að mér fannst ég ekki geta skipt mér af þessu.
Þessir strákar taka greinilega munntóbak og setja í efri vörina. Þeir litu allir út eins og tannlausir hálfvitar þegar þeir voru búnir að skella því í sig ... synd að þeir skuli ekki fatta hvað þeir eru hallærislegir og ljótir svona. Einn ættingi minn notar svona og mér finnst það skelfilegt Hehhehe, er búin að reyna allt til að hann hætti því. Segja að hann nái sér ekki í stelpu ... missi tennurnar ... missi tunguna ... lykti ógeðslega ... það vaxi rabarbari út úr eyrunum á honum ... en hann hlustar ekki á mig. Þetta er tískufyrirbrigði hjá unglingum núna, held ég.

Sigurjóna matráðskona sá tár sprautast fram á hvarma mína þegar ég fattaði að það voru pylsur í matinn (eins og ég hafi ekki vitað það, múahahahaha). Hún fór inn í kæli og sótti þetta líka dýrlega pastasalat og gleðin tók yfir. Sjúkkittt! Svo verða bakaðar vöfflur aðeins fyrr en vanalega á morgun svo að ég nái að fá mér eina áður en rútu-rassgatið kemur á Hellu um þrjúleytið.

Í kvöld höfum við Magga svo verið að vinna á skrifstofunni og haft nóg að gera. Hún er nýfarin í bæinn. Finnst gott að keyra í lítilli umferð á nóttinni ... gaf henni Pipp til að hún héldist vakandi.
Börnin hérna eru meiri krúttin, alveg dásamlega skemmtilegur hópur! Segi þetta kannski alltaf ... Finnst alveg synd að geta svona lítið spjallað við þau, þetta er svo stuttur tími sem ég hef ... allt tímaáætlun Þingvallaleiðar að kenna!


Karlar úr bókaheiminum kysstir og nýjar tvíburamyndir

Tvíburar rokka!Morgunþátturinn var ekki alveg undir hælnum á Möggu mágkonu í morgun eins og í gær. Eina rjómatíska lagið á Rás 2 var: "Komdu aftur  til  mín Dísa - komdu til mín Kenwood Chef!" Get alla vega ekki heyrt betur en maðurinn í laginu líki Dísu við hrærivél og því er ekkert skrýtið að konan hafi farið. Ég myndi ekki hanga lengi með manni sem kallaði mig AEG eða Bloomberg!

Ég vann lengi frameftir í fyrrakvöld og svaf því ekki nema í fjóra eða fimm tíma um nóttina. Það hafði afleiðingar. Ég dottaði við tölvuna eftir að ég kom heim um sjöleytið í gærkvöldi og skreið í bólið um hálftíu. Það var notalegt. Var of andlaus til að blogga og ákvað að ná góðum svefni, enda erfiður dagur fram undan í dag. Nú myndi ein kunningjakona mín segja að við værum orðnar svo gamlar að við yrðum að fá okkar svefn og engar refjar. Aftur á móti ef ég hefði vaknað hress eftir fimm tíma svefn tvo daga í röð hefði hún líka útskýrt það með ellinni, að við værum orðnar svo gamlar að við þyrftum ekki jafnmikinn svefn og þegar við vorum ungar. Ef hún fær í verk þá er það elliverkur... þessi kona er ekki orðin fimmtug! Þarf að fara að segja henni frá Madonnu, jafnöldru okkar! Það eru alla vega 40 ár í að hrumleikinn taki yfir hjá mér og þá ... þá fyrst er möguleiki á því að ég þori t.d. að prófa LSD. Þá er ég líka loksins orðin nógu gömul og stór til þess!

Ísak og ÚlfurDró vélstýruna með mér í matreiðslubókarkynningu Skjaldborgar eftir vinnu í gær. Út var að koma bók með kjúklingaréttum, ansi hreint girnileg og glæsileg bók. Búið var að elda flesta réttina úr bókinni og við fengum að smakka. Þetta var frábært. Við Anna hlömmuðum okkur hjá Skerjafjarðarskáldinu, höfundi Afa ullarsokks, og teiknaranum. Svo náði ég að kyssa helling af körlum úr bókaheiminum og meira að segja sjálfan Davíð Þór sem kom þarna þegar við Anna vorum að fara! Anna var söm við sig, mátti ekki heyra minnst á að keyra mig fyrir strætó, heldur var sko farið alla leið á Skagann. Samt hefði ég náð 18.30 strætó í Mosó ... Anna þurfti að fara að vinna kl. 20 þannig að þetta var bara keyrsla.

Færslan er skreytt með nýjum myndum af tvíburunum sætu sem stækka og dafna með hverjum deginum. Það er ekki að sjá á þessum myndum að drengirnir hafi fæðst með skarð í vör og gómi. Aðgerðin á þeim hefur tekist mjög vel. Mikið elska ég þessa stráka!


Góður mánudagur

ErnaFyrsti vinnudagurinn eftir sumarfrí gekk frábærlega, gott að vera komin aftur í röð og reglu þótt hitt sé auðvitað notalegt.

Inga sótti mig um hálffimm, dauðþreytt eftir daginn. Henni hafði dottið í hug að steypa eina tröppu við húsið sitt og hélt að það væri ekki mikið mál. Annað kom á daginn. Hún dreif sig í Húsasmiðjuna til að kaupa sement og tilheyrandi. Karlarnir þar gátu ekkert hjálpað henni með aðferðirnar við steypun, enda vanir iðnaðarmönnum sem vita allt.

IngaInga bjóst eðlilega við að uppskrift að steypu væri aftan á sementspokunum, 300 g sement, 200 g vatn, dass af möl ... eitthvað svoleiðis en svo gott var það ekki. Hún gerði sér þá lítið fyrir og hringdi í framleiðandann, Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi, og fékk að tala við framkvæmdastjórann. Sá skemmti sér vel yfir símtalinu og bjargaði henni um uppskrift verkfræðings nokkurs að góðri steypu, hann fræddi hana líka um þriggja ára háskólanám í steypun en það bíður betri tíma. Inga keypti sér líka slípirokk í dag og er að springa úr stolti. Svo á hún svo margar tegundir af verkfærum að ég kann ekki að nefna þau.

Mexíkóskur kjúlliFylltur kjúklingurSá næsti sem talar um konur sem sleppa sér í fatabúðum ætti að hitta hina fögru Ingu sem stundar steypuverslanir af ástríðu. Karlarnir seldu henni reyndar allt of mikið af sementi, ranga möl og hvaðeina en hún gat reddað því.  

Gat ekki stillt mig um að biðja hennar, enda stutt í framkvæmdir hjá mér og elsku smiðurinn er búinn að gleyma mér. Held reyndar að hann sé í sumarfríi.

Við sóttum Ernu og héldum á Skagann, náðum í Einarsbúð kl. 17.59, eða rétt fyrir lokun, og keyptum kjúklingabringur á útsölu. (Ég elska Einarsbúð) Inga kenndi okkur að gera mexíkóskan kjúklingarétt og kjúkling fylltan með gráðaosti og skinku. Algjört nammi. Skvísurnar eru farnar í bæinn og ég sit pakksödd með hellings afgang sem dugir í nokkrar máltíðir. Býst við að við gerum þetta að vana, í haust mun ég kenna þeim að búa til góðu súpuna mína  með chilipiparnum.


Jibbí, komin í vinnuna!

AkranesstrætóÉg gleymdi ekki að fara í vinnuna í morgun, sjúkkitt. Krúttið hann Tommi bílstjóri kom okkur klakklaust í bæinn á fínum tíma, enda lítil umferð og fáar stoppistöðvar á leiðinni. Mikið var notalegt að hlusta á Rás 2, góð lög og fínar útvarpskonur. Það eru aðeins meiri læti á Bylgjunni og viðkvæmt taugakerfi okkar Skagamanna á erfiðara með mikið stuð, viljum frekar dorma (nessum dorma) í þægilegri rútu.

Maður sem vinnur hjá Prentmet hoppaði út á Vesturlandsveginum og ég hafði þrjár sekúndur til að ákveða mig hvort ég færi út með honum. Strætó númer 18 er hættur að stoppa þarna fyrir neðan, heldur fer í Árbæinn fyrst (arggg) svo að ég þarf  að fara í Ártún ef ég ætla að ná honum ... EN  gönguferðahatarinn moi ákvað að tölta bara uppeftir. Þeir sem þekkja mig vita að þetta er mjög ólíkt mér. Þótt þetta sé frekar há brekka sem liggur þarna uppeftir þá er hún ekki næstum því jafnviðurstyggilega hræðileg og lúmska brekkan í Ártúni (sunnan megin við Ártúnsbrekkuna).

Vinnustaðurinn minnÉg blés ekki úr nös, enda labbaði ég löturhægt. Ástæða: helvítis verkurinn í vinstri fæti, verkurinn sem læknirinn sagði að myndi lagast (fyrir einu og hálfi ári), hann sagði reyndar ekki að þetta væri vírus, eins og algengt er á heilsugæslustöðvum. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni og komst ekkert áfram af viti fyrr en ég  fattaði að bora með fokkfingrinum þéttingsfast í vinstra lærið framanvert, þá fór þetta eitthvað að ganga. Upp brekkuna komst ég þótt ég liti eflaust út eins og hálfviti. Þetta er svolítið fúlt ... ég flyt á Skagann þar sem dásamlegar gönguleiðir eru um allt og ætla að fara að hreyfa mig meira en mér er of illt í fætinum til að geta gengið ... og myndi eflaust lagast ef ég hreyfði mig meira. Vítahringur dauðans! Mun heimta sjúkraþjálfun, nenni þessu ekki lengur.

Ég mætti langfyrst allra, rúmlega hálf átta, og hef m.a. afrekað að taka til á skrifborðinu mínu, fara í gegnum tölvupóstinn, panta espressóbaunir frá Kaffitári og hlusta á Króa á Rás 2 (Kristin R. Ólafsson) en við unnum saman úti í Vestmannaeyjum í gamla daga þegar þótti fínt að vinna í fiski. Hann man alveg örugglega ekki eftir mér en er sjálfur mjög minnisstæður og skemmtilegur.

Mikki bauð glaðlega góðan dag þegar hann kom loksins og ég kunni ekki við bjóða honum gott kvöld á móti þótt hann kæmi seinna en ég ... Doddi, aftur á móti sagði græðgislega: "Ný klipping?" Mikið er gott að vera komin aftur í vinnuna þar sem ég fæ sanna aðdáun! Held að Skagamenn og samfarþegar mínir í strætó gangi að mér vísri ... að vísu sagði samstrætóstoppistöðvarmaður minn: "Hvar hefur þú verið?" þegar ég birtist á stoppistöðinni kl. 6.43 í morgun. Smá sakn greinilega.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 492
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband