Hægri brúnka, Stöð 2 og flottir tónleikar í Tónbergi í kvöld

Svona ...Mikið ofboðslega er heitt að sitja hérna við tölvuna. Glugginn nær yfir næstum allan suðurhluta vinnuherbergisins og þegar sólin skín verður hreinlega ólíft. Hef ekki tímt að kaupa almennilegar gardínur vegna útsýnisins og skortur á borvélarkunnáttu veldur því að ekki hanga hér rúllugardínur. Hægri höndin á mér, sú sem er nær glugganum þegar ég vinn, er strax orðin talsvert útiteknari en sú vinstri sem segir mér að hægt sé að verða brúnn í gegnum gler, ekki reyna að telja mér trú um annað. Þetta var líka svona í fyrra. Ég var kolbrún á hægri en næpuhvít á vinstri. Þegar ég tók svona kornflexpakkapróf á Netinu einu sinni til að ganga úr skugga um hvort heilahvelið ég notaði meira fékk ég þá útkomu að ég notaði þau jafnmikið sem þýðir að ég gat ekki hallað mér að brúnu hendinni hægra megin og sætt mig við að vera brún og sæt, eða til vinstri og sætt mig við að vera hvít og fögur. Nei, þetta kostaði mikla tilvistarkreppu allt sumarið. Það kemur ekki til greina að snúa skrifborðinu til að fá jafnan lit, líklega verð ég bara að vinna með hanska.  

VaralitirFékk langþráðan varalit í pósti frá Ásdísi bloggvinkonu í gær en hún hefur selt slíka dýrgripi til styrktar Krabbameinsfélaginu. Takk, Ásdís, flottur litur. Vissi ekki að hann væri frá YSL ... sem er flott merki!
Mun breytast hægt og rólega, eða kannski rosalega hratt, í algjöra gellu með þessu áframhaldi.

Þegar ég fór í sjúkraþjálfun um hádegisbil sá ég að bíll frá Stöð 2 var í bænum. Vona að þeir geri góða og rétta frétt um flóttamannamálið, ræði við þá aðila sem halda utan um hlutina en ekki bara þá sem eru enn illa upplýstir um málið og hafa jafnvel smitast af hræðsluáróðri. Ekki komum við sérlega vel út úr fréttum RÚV í gærkvöldi, það hefði mátt vinna þá frétt mun betur. Bíð spennt eftir fréttum Stöðvar 2 í kvöld!

Tónleikar Þjóðlagasveitarinnar verða í kvöld og annað kvöld kl. 20 í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Tónleikarnir heita Elíft andartak og þar verður fallegur flutningur í tali, tónum og söng. Ég get sannarlega mælt með Þjóðlagasveitinni, hef verið á tónleikum með henni og hreifst mjög!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

  Ég held að málið sé að breyta reglulega inni í vinnuherberginu - raða húsgögnum (lesist tölvuborði) hingað og þangað svo þú verðir brún í gegnum gluggann á alla vegu. Skil þig vel að vilja ekki setja gardínur fyrir glugga sem hefur yndislega flott útsýni, en stundum er slíkt bara lífsspursmál - eða þannig.

Varalitur mun lítið fyrir þig gera í gellumálum - ert þegar hin hrikalegasta gella og fátt sem getur gert betur en þegar er. Vonandi munu flóttamenn/konur ekki finna fyrir mótlæti þegar það kemur á skagann, alveg nóg sem þau þurfa að glíma við í heimalandinu. En, eigðu ljúfan dag mín kæra og njóttu sólarinnar.

Tiger, 20.5.2008 kl. 16:39

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Úpps, þú þarft greinilega að venda uppröðuninni eftir ákveðinn fjölda sólardaga og vona að það verði jafn margir á hina hliðina.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.5.2008 kl. 17:12

3 Smámynd: Andrea

röndótta mær------------- kann ekki meira! :) er annars ekki lag sem er byrjar einhvern veginn þannig?

Andrea, 20.5.2008 kl. 18:27

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hehehhe, jú, Andrea. Þegar ég syng Röndótta mær þá kemur tra la la á eftir. Kann heldur ekki meira.

Anna, það er nefnilega ekki þorandi að skipta um stöðu í júní, skipta aftur í júlí, svo í ágúst ... hanskarnir eru enn eina ráðið.

Eigðu sömuleiðis ljúfan dag, Tigercopper! 

Guðríður Haraldsdóttir, 20.5.2008 kl. 18:37

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Það var nú sjálfur framkvæmdastjóri miðborgarinnar í Reykjavík, JFM, sem sönglaði þetta svo frægt varð um árið, með þá kvinnu sína Önnu Björns í hlutverki hinnar röndóttu í einu af eldri tónlistarmöndböndum held ég sem gerð hafa verið!? Gott ef ekki faðir J. hafi sönglað líka eitthvað með honum í laginu.

Röndótta Mæær,

má ég koma þér örlítið nær?

Hún sagði neineinei, neineineineineinei!

o.s.frv.

Magnús Geir Guðmundsson, 20.5.2008 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 37
  • Sl. sólarhring: 422
  • Sl. viku: 2154
  • Frá upphafi: 1456104

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1792
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sjö saman í Karíba
  • Facebook ógnir
  • Herbergi drengsa

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband