14.5.2022 | 18:51
Komin í hundana og Slava Ukraine
Þetta hefur verið ansi hreint spennandi dagur og viðburðaríkur. Eins og besta partí - samt missti ég af jarðskjálftanum, var of mikið á ferðinni. Stundum er það hreinlega slæmt ...
Allt hófst með fyrstu kynnum okkar Parísar sem er nokkurra mánaða gamall labradorhvolpur í Nýju blokkinni, hún fæddist á æskuheimili mínu, bak við Einarsbúð, svo hún er af verulega fínum ættum. Okkur kom ógurlega vel saman, svo vel að ég ætlaði ekki að hafa mig á kjörstað sem er kominn á hlaðið hjá mér, til að vera, held ég. Enda svo sem mjög miðsvæðis - en Skagafólk sér um talninguna, eins og alltaf í bæjarstjórnarkosningum. Svo er Eurovision og við Inga ætlum að fá okkur lax og meððí í kvöldmat, erum reyndar allt of saddar eftir koss-ningakaffið. Mikið er gaman að lífið sé farið aftur í gang en ég sakna enn grímunnar (tengist hrukkum). Svo hittum við elsku Ástu í bókasafninu og ég komst í fyrsta sinn í klappfjarlægð við flotta hundinn hennar, hann Storm.
Yndisleg kona frá Úkraínu flutti í húsið mitt í dag og kíkti í stutta heimsókn í Himnaríki eftir að við rákumst saman fyrir utan. Ég sagði auðvitað Slava Ukraine sem er nokkurs konar slagorð með ósk um velgengni landsins. Ungur sonur hennar er orðinn besti vinur kattanna. Hann mun koma í heimsókn á hverjum degi, segir móðir hans sem talar fínustu ensku. Hún er yfir sig hrifin af Íslandi og Akranesi og hlakkar mikið til að horfa á Eurovision í kvöld með löndum úr næsta húsi.
Við systur ákváðum að skreppa til Vestmannaeyja í tveggja daga sumarfrísskemmtiferð í ágúst, alltaf gaman að fara til Eyja. Ég er alveg búin að éta ofan í mig Akureyrarbannið, enda margt breyst til batnaðar í stóru málunum þar (kattahatrið). Nú þyrfti Húsavík að taka sig á, svo ég geti farið að heimsækja ættingjana. En það er gaman að breyta til og langt síðan ég hef migið í saltan sjó (Herjólfur), eða ekkert farið á skip síðan jólin 2018 þegar Norwegian Epic rúntaði um með okkur sjö saman.
Tekst Rússum að gera það sem þeir hafa hótað og eru víst svo góðir í, að skemma talningu í Eurovision svo Úkraína sigri ekki? Þeir hafa montað sig af kosningum í USA 2016 (Trump) og Brexit - til að skemma lýðræðið. Ég yrði voða ánægð með Úkraínu, líka England. Svo lenti ég á séns (sjá mynd nr. 2) bara við að giska á að Ísland lenti í 8. sæti. Þetta lag okkar er svo dásamlegt að ég trúi ekki að lendi neðar. Ég er ekki búin að svara þessum bráðhuggulega aðdáanda mínum sem er svo góður í íslensku - sé til eftir Eurovision. Segið svo að Eurovision sé ekki best í heimi!
Bloggar | Breytt 15.5.2022 kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2022 | 00:57
Bæjarferð, Íslykilsbull og tæknisauðsháttur
Skemmtilegur dagur í bænum í dag og alveg þess virði að vakna klukkan níu, taka strætó 10.15 og vera komin í Mjódd kl. 11.09 - næsti komutími þangað ekki fyrr en kl. 15.09 sem er ansi seint ef á að heimsækja mömmu sína klukkan 14. Við fjölsystrum í afmælisheimsókn til mömmu (f. 5. maí) sem var mjög gaman. Færðum henni blóm, cappuccino og fínasta kruðerí úr Bernhöfts. Enginn Siggi bakari á staðnum til að svara fyrir allt horror-möndluskrautið á kökum og skort á rjómabollum. En nóg var nú til samt af fínheitum ... og það var voða gaman að hitta þar óvænt Einar Thorlacius, gamlan strætóvin og lögfræðing (samt ágætur) sem oft hefur mætt í afmælið mitt, hann kemur í ár en ég vonast til að geta loks haldið stærra partí en 12 manna jólakúluafmæli eins og í fyrra og hitteðfyrra.
Við Hilda fórum líka í Fiskikónginn á Sogavegi og keyptum lax, tilbúinn í ofninn og þvílíkur dásemdarmatur ... og rúgbrauðið! Það er mjög góð fiskbúð hér á Akranesi en engin spenna ríkir þar fyrir heimsendingum - Eldum rétt greip það tækifæri og færir mér fisk vikulega - með meiru og Einarsbúð sér um rest.
Morgunninn í bænum hófst á kaffihúsi í Kópavogi með vinkonu sem ég hef sárt saknað. Hún tók myndina hér fyrir ofan af mér og stráksa. Ég lít miklu betur út en þetta í baðspeglinum heima. Myndir bæta alltaf á mig um 20 kílóum og hrukkum og alles. Við höfðum bara klukkutíma sem við nýttum alveg ágætlega samt. Það var eldgos síðast þegar við áttum saman góða stund - gosið sást vel úr rauða sófanum mínum sem hún sat í. Það kom einn nokkuð stór jarðskjálfti í morgun en það var svo gaman hjá okkur að við fundum ekki fyrir honum.
Kannski er ég algjör risaeðla ... mér líður stundum eins og tæknin sé farin að éta börnin sín, hlutir gerðir flóknari í stað þess að einfalda þá. Stráksi fer í sumarbúðir í júní, en ekki er lengur hægt að greiða fyrir dvöl hans í gegnum heimabanka og ekki er hægt að hafa samskipti með tölvupósti eða í síma, allt fer í gegnum nýtt tölvukerfi sem mér finnst alls ekki einfalda hlutina fyrir okkur sem notum það bara einu sinni á ári. Því að breyta því sem var einfalt, fljótlegt og virkaði vel?
Mynd: Þessi VW-Bjalla kom á markaðinn þegar ég var eins árs. Sextán árum síðar (þegar ég fékk bílpróf) hafði hún breyst og ekki til hins betra. Hvar er tæknin núna 2022, eða rúmum fimmtán, tuttugu, þrjátíu árum seinna? Fer orkan kannski í að búa til flókið bull til að rugla í fólki í stað þess að sjá almenningi fyrir góðu kaffi í bílferðum þess um landið?
En áfram með diss á tæknina: Nýlega fór ég með ónefndum ungum manni á Vinnumálastofnun á Akranesi, var með vegabréfið hans og ætlaði að aðstoða hann við að sækja um starf á vissum vinnustað. Við fengum dásamlegar móttökur en því miður var ekki hægt að sækja um starfið upp á gamla mátann. Nei, hann er ekki með snjallsíma, sagði ég. Þær (ekkert nema lausnir og elskulegheit) komu með þá hugmynd að sækja um Íslykil fyrir hann, í raun var það eini möguleikinn, og svo sat ég ein við tölvuna og sótti um fyrir hann eftir að Íslykill kom í hús. Mér finnst þetta voðalega falskt öryggi fyrir fólk, það hefði verið hægt að stela umslaginu með Íslyklinum og mögulega gera einhverjar gloríur. Gleymdist að gera ráð fyrir fötluðum í öllum látunum við að rafvæða landið? Hæ, Persónuvernd!
Annað: Ég veikist sárasjaldan (einn-sautján-tuttugu) og vissi lengi vel ekki af Heilsuveru, eiginlega ekki fyrr en covid-bólusetningar hófust. Og af því að ég hafði aldrei þurft að nota þetta dæmi var ég eins og sauður fyrst. En svona sauðsháttur heitir víst ekki heilsuhreysti, heldur aldurinn! er mér tjáð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2022 | 15:47
Norræna ósýnileg, stórfengleg umbreyting og afmælisbörn
Umbreytingin í gær varð gríðarleg, ég þekkti mig ekki í speglinum eftir klipp og lit, og var hleypt inn að framan í innanbæjarstrætó. Hélt að það tengdist minnkandi covid-smitum en gaurinn sem kom inn við Vallholt þurfti að gjöra svo vel að fara inn um afturdyrnar.
Ég orgaði í gleðiblandinni sigurvímuþögn og sendi Önnu Júlíu hugræna fimmu á meðan ég vafði betur treflinum yfir undirhökuna og dýpkandi drættina í kringum munninn, ægifögur alveg. Var á hraðferð svo frumsýning á klippinunni við mjólkurkælinn í Einarsbúð verður að bíða ögn.
FYRIR-myndina hefði ég kannski átt að blörra til að koma aðdáendum mínum ekki í uppnám. Undirliggjandi fegurð leynir sér samt ekki, finnst mér. Eftir-mynd má sjá hér neðar.
Í dag á mamma enn eitt stórafmælið, orðin 88 ára. Það er langlífi í ættinni, hún er yngst systkina sinna og ein eftir, meira að segja yngri tvíburinn en Hadda tvíburasystir hennar lést fyrir nokkrum árum. Systkinin fæddust öll á 20 árum og ólust upp í fínu timburhúsi við Laugaveg 91 þar sem síðar reis stórhýsið Domus, er ekki tískuverslunin Sautján þar núna? Greinilega allt of langt síðan ég gekk frá Hlemmi niður Laugaveginn. Þetta var beint á móti Stjörnubíói. Mamma sagði okkur miklar sögur um bíóferðir systranna ásamt Sissu vinkonu þeirra af Grettisgötu. Þær voru kallaðar þríburarnir og fóru stundum í bíó þrisvar á einum degi, enda stutt líka í Nýja bíó, Gamla bíó og Austurbæjarbíó.
Svo hefði Tommi bílstjóri orðið 63 ára í dag, hefði hann ekki dáið fyrir nokkrum vikum, elsku karlinn. Ég sakna hans mikið.
Vinkona mín fór með Norrænu frá Seyðisfirði í gær. Ég ætlaði að gera eins og í denn, fylgja henni úr hlaði með aðstoð vefmyndavélarinnar en, eins og síðast og eins og þar áður, var sá möguleiki ekki lengur til staðar, nema tæknikunnáttu minni hafi farið svona stórlega aftur. Ekki heldur hægt að komast beint frá norsku veðursíðunni, yr.no, sem er hneyksli. Nú legg ég til að ferjuferðir Norrænu verði framvegis frá Akranesi. Þótt það lengi siglinguna eitthvað smávegis er bara svo gaman að vera í skipi og Skagamenn munu ekki spara við sig þegar kemur að vefmyndavélum. Nýverið voru settar upp þrjár hér á Skaganum, reyndar öryggisvélar, en hva ... Ég væri búin að fara nokkrum sinnum með Norrænu ef yxi mér ekki svona í augum að fara alla leið til Seyðis ... Vefmyndavélin þar við höfnina hefur verið nokkur sárabót því eins og við nördarnir vitum er fátt betra en vefmyndavélar í staðinn fyrir að fara sjálf á staðinn. Einu sinni bilaði vélin sem sýndi út fjörðinn, ég sendi fyrirspurn í tölvupósti til bæjarins og fékk svar frá sjálfum BÆJARSTJÓRANUM sem lofaði að kippa í spotta sem hann og gerði. Vonandi verður hann eða hans líki kosinn inn eftir nokkra daga og hefur það sitt fyrsta verk að koma vefmyndavélunum í lag. Ég vil endilega fá Norrænu í beinni.
EFTIR-myndin tekin á vettvangi í gær, eða í innanbæjarstrætó. Engar falsanir með speglum, þetta er bara svona flott.
Vegagerðin sem sér nú um strætósamgöngur á landsbyggðinni þurfti að grípa til sinna ráða þegar farþegum fækkaði í covid. Nýlega var samgöngukortið hækkað um 92% í verði sem hvetur án efa Skagamenn í stöflum að nýta sér að komast á milli á sama verði og hluti Norðlendinga. Sennilega ætlunin allan tímann að víkka út atvinnusvæði höfuðborgarinnar alla leið norður að Staðarskála. Við Skagamenn erum barmafull af þakklæti, fáum loks að sjá ný andlit en fólkið fyrir norðan hefur aldrei verið talið neitt sérlega ófrítt. Möguleikar mínir hafa því aukist, verð að muna að segja mömmu nýjar fréttir af vendingum í tengdasonamálum hennar, núna á laugardaginn þegar ég kíki á hana í afmælisheimsókn.
Ég minnni samt Vegagerðina á að þegar tilraunaaksturinn var í gangi 2004 kostaði jafnmikið í strætó og innanbæjar í Reykjavík og aðsóknin svo mikil að ferðirnar skiluðu gróða, þrátt fyrir aukavagna og að á þeim tíma kostaði enn í göngin. En hvað er ég að bulla, ég á ekki bíl og hef því ekki hugmynd um hvernig á að reka strætó ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2022 | 22:59
Heimsókn eftir hálfa öld
Ég fékk stórmerkilegt heimboð nýlega og þáði það um ellefuleytið í morgun. Þess virði að vakna snemma í fríinu sínu ... Í fyrsta sinn í rétt rúm 50 ár sá ég æskuheimili mitt. Strax á leið upp tröppurnar fór ég að söngla Those were the days, my friend ... en Mary Hopkin (72 ára afmæli í dag) sem söng það í Eurovision sem var þó aldrei sýnt í beinni á Íslandi í þá daga, athugull krakki eins og ég náði iðulega að sjá í Mogganum nafn sigurvegarans, aldrei viðvörun, Reuters-skeytið bara þýtt og birt og ekkert hugsað um okkur sem áttum eftir að sjá keppnina sem kom ekki fyrr en með haustskipinu, minnir mig.
Ekki var lengur bónaður brúnn dúkur í stiganum upp á efri hæð (nú einbýlishús, áður tvíbýli) en tvöfaldar svaladyr og gamla elliheimilið, núverandi heimili listakonu, var kunnugleg sjón út um gluggann. Allt var enn á sama stað en samt svo breytt. Geggjað flott bað til hægri og löngu búið að fjarlægja gerektið þar sem ég hafði skorið út með litlum skærum; Mamma asni (ég var bara að reyna að kenna henni að refsa mér ekki fyrir óþekkt og loka mig inni á baði, henni var nær að leyfa mér að ganga í skóla þar sem ég lærði að lesa og skrifa). Allt orðið minna en í minningunni, eins og ég bjóst við, en samt er húsið rúmgott og fínt. Ljómandi gott kaffi í bolla og tilhlökkun í gangi, nefnilega full neðri hæð af labradorum, þrír hvolpar og þrjár gullfallegar tíkur.
Húsráðandi lofaði mér því að mæta í heimsókn með eitthvað af stóðinu, kettir Himnaríkis elska hina kurteisu labradora (hef fengið þrjá slíka í heimsókn í gegnum árin) og líka maltísana, frændur mína, Golíat og Herkúles. Ég vona að það verði alvara úr því að ég fái gömlu tíkina stundum í nokkurra daga húsmæðraorlof (hvíldarinnlögn) til mín þar sem hún verður dekruð upp úr skónum - og dregur mig í gönguferðir sem ég nenni í ef ég er með eitthvað í taumi; hund, mann eða stein.
Þar sem við stóðum við svaladyrnar, beint á móti dyrunum inn í íbúðina uppi (ekkert breytt sem sagt) rifjaðist upp sagan af fulla manninum, aðdáanda mömmu, sem hafði prílað upp á grindverk, skriðið upp á bílskúrinn, farið yfir metralangt bilið yfir á svalirnar þar sem dyrnar voru, aldrei þessu vant, ekki læstar, og inn á stigaganginn og bankaði. Með fullan innkaupapoka af sælgæti til að færa börnum konunnar sem hann var svo skotinn í. (Gamall bekkjarbróðir pabba úr háskóla). Mamma hringdi í lögregluna sem dreif sig á milljón upp á Skaga, hafði verið í kartöfluflutningum við Akrafjall eða eitthvað á svörtu maríunni (aðrir tímar). Mamma ætlaði að opna dyrnar í hvelli og Mía systir þjóta niður stigann, karlinn í nokkurra sentimetra fjarlægð samt ... slæm áætlun en kláru stórusystur datt í hug að fleygja bara lyklunum út um gluggann til löggunnar sem beið við dyrnar. Og aðdáandinn var handtekinn. Hann gleymdi sælgætinu sem ekki var gert upptækt sem sönnunargagn svo ekki þurfti að fara í Hallasjoppu, Siggasjoppu, Skaganesti eða á Fólksbílastöðina næstu laugardaga. Svo forhert var þessi einstæða móðir og börn hennar fjögur að við átum allt sælgætið með bestu lyst.
Mynd 2: Ferming stóru systur, 1969, einmitt á gamla æskuheimilinu. Þar sem vantaði málverk en naglar voru í veggjum settum við bara upp útlensk púðaver. Bo bedre hvad?
Auðvitað fór ég í Einarsbúð á eftir og hitti tvær skemmtilegar konur. Covid er sannarlega að verða búið, samkvæmislífið er komið í fullan gang. Ég sagði þeim (önnur er mamma vinkonu minnar) að ég hefði skoðað gamla æskuheimilið, nærri 51 ári eftir flutningana í bæinn, þá rifjaði hún upp að hún hafi nú búið á neðri hæðinni með fjölskyldu sinni í nokkur ár (fyrir mína tíð) og vissi heilmargt um fyrri íbúa, einn þeirra (kona) flutti víst aldrei út, er þarna svífandi enn um húsið ...
Fyrirgefðu, væri þér sama, það er verið að funda hérna, sagði ég ákveðin við mann sem ætlaði að troðast að mjólkurkælinum. Hann fór þá hægra megin við bananadæmið og virtist ekki sáttur. Hefði hann verið á réttum aldri, hefði ég fært mig þegjandi og eggjandi en ég lít hræðilega út þessa dagana, það tók því ekki að reyna neitt. Mikið sem ég sakna grímunnar, þótt hún geri kannski lítið fyrir úr sér vaxið hárið með gráu strípunum en maður þekkist alla vega síður.
Ég á vissulega tíma í klipp og lit í fyrramálið (ég verð sótt af minni ástkæru hárgreiðslukonu í bítið) svo auðvitað hefði ég átt að fresta för í Einarsbúð þar til á morgun eða hinn.
Við húsráðandi fórum út í garð í lokin (sjá mynd nr. 3 hér ofar, 2 hundar og umhverfið svo dásamlega gamaldags, lítið breyst). Ég benti á stað milli bílskúrs og þvottahússdyra: Þarna var kartöflugarðurinn. Og hún alveg: Játs, það var lítill veggur þarna sem ég skildi aldrei tilganginn með, hann hefur verið til að stúka af kartöflugarðinn. Þarna tel ég mig hafa bjargað sálarheill hennar, það hefði verið ömurlegt ef hún hefði aldrei vita hvað þessi veggur gerði. Fólk spanderaði líka ekki ljósmyndum nema rétt um hájólin (dýrir flasskubbar og vesen að fara með í framköllun) og á sumrin í ljótar landslagsmyndir sem sýndu yfirleitt ekkert. Hefði vissulega verið gaman að eiga fleiri myndir úr íbúðinni. Fleiri myndir úr æsku.
Mynd 4: Við Hilda með Gerðu vinkonu okkar úr næsta húsi. Myndin auðvitað tekin í garðinum sem hefur breyst mikið. Háa tréð sem sést til vinstri á mynd nr. 3 af hundunum, er ansi hreint mikið lægra þarna fyrir aftan okkur.
Bloggar | Breytt 4.5.2022 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2022 | 18:30
Hugljómun og höfnun
Mynd - eða það gerðist ekki, segir fólk stundum. Núna síðast tengdist það svartsokkafjalli Himnaríkis, og ég birti með glöðu geði myndina sem ég sendi Ellen frænku nýlega til að biðja hana um að koma upp á Skaga og hjálpa mér að para svarta sokka eins og hún gerði einu sinni með sturlað góðum árangri. Ég gekk varla í sokkum næstu vikur á eftir til að hafa skúffuna fulla og flotta sem lengst.
Hún hló bara. Kallar þú þetta sokkafjall? spurði hún og samt hafði ég ketti með á myndinni til að auka líkur á því að hún kæmi. Hvernig getur hún ekki elskað og þráð svona sæta ketti? Mosi hefur samt fundið þetta á sér, hann er svo fúll á svipinn. Það eru komin einhver ár síðan við frænka vörðum síðast saman kvöldstund í að para saman fulla stórkommóðuskúffu eftir að ég hafði lýst yfir vanlíðan minni (hún er sálfræðingur) yfir lausum sokkum sem lágu tvístraðir um allt í skúffunni að ráði bróður hennar sem gerir slíkt sjálfur án tillits til mynsturs eða lita. Er það töff í Kópavogi? Já. Á Akranesi? Nei.
Þannig að ég paraði bara sjálf alla vega tvö pör við undirleik Genesis, Pink Floyd, Jethro Tull og fleiri af YouTube-veitunni sem býr endalaust til flotta lagalista fyrir mig í stíl við lagið sem ég vel ef ég nenni ekki að hlusta á lagalistana sem ég bjó til sjálf (mjög líkt Spotify). Núna valdi ég Carpet Crawlers með Genesis (geggjað lag) og svo fylgdi hin dýrlegasta músík á eftir. Þegar ég klára pörunina á morgun ætla ég að hlusta á hlaðvarp í fyrsta sinn. Vídjó heitir það, Hugleikur og einhver skemmtileg kona, skilst mér. Þá hlýt ég að geta klárað.
Ég gerði stóra uppgötvun í dag, fékk hugljómun ... varðandi fólkið sem er alltaf á móti öllu, alltaf að rífa kjaft og elskar YouTube eins og ég. Dæmi:
Veðurfarsbreytingar? Nei, allt saman lygi, þetta gerist á einhverra alda fresti, jörðin er bara að hreinsa sig, ekkert að marka veðurfræðinga.
Bóluefni við covid-19: Nei, þetta er samsæri, ekkert að marka lækna og vísindamenn. Þið eruð eins og skíthræddar rollur í réttum.
Voru guðirnir geimfarar? Man eftir þessari bók sem gerði allt vitlaust fyrir áratugum. Held þó að ég hafi ekki nennt að lesa hana. Kannski trúa einhverjir á guði frá öðrum hnöttum. Ég trúi Men in Black betur, lokaatriðunum.
Jörðin flöt. Auðvitað, það er bara verið að ljúga að okkur, hvernig getur jörðin verið hnöttótt? Við myndum svo pottþétt detta af henni ef við byggjum í t.d. Ástralíu ... eða er Ástralía kannski ekki til?
Tungllendingin 1969. Neibbs, allt sett á svið, flottur leikur, flott leiktjöld. USA-lygi, leikrit til að spæla Rússa.
Eftir þessa hugljómun efast ég stórlega um að ofsahræðsla búi að baki mörgum samsæriskenningum sem verði til þess að fólk slökkvi á rökhugsuninni og afneiti því sem það veit innst inni að er rétt. Nei, þetta er einfaldlega bara krúttlegur og barnslegur mótþrói. Auðvitað gæti mér skjátlast, ég er nógu þroskuð til að viðurkenna það, en það eru bara svo margir sálfræðingar í fjölskyldunni að það eru nánast engar líkur á því.
Sjálf á alveg til að vera í mótþróa stundum, er nánast uppreisnargjörn á köflum; fór á Varið land-fundinn góða og æpti: Ísland úr Nato, herinn burt, það var á unglingsárunum þegar ég nennti úr húsi, en af því að ég er svo heimakær birtist mótþróinn núorðið mest þegar kemur að sjónvarpinu. Var það ekki bara mín sem hreinlega gleymdi alltaf að horfa á Verbúð, Helgar með Helga, og löngu fyrr Hemma Gunn og Spaugstofuna? Ef það er ekki uppreisnarmótþróaþrjósku-eitthvað ... Ég horfi bara á ALLA LEIÐ, fréttir, VEÐUR og Gísla Martein. Bíð eftir eldgosi, það er langbesta sjónvarpsefnið. Mætti ekki endurtaka flottustu senurnar úr því á RÚV 2?
Um helgina sá ég reyndar tvær góðar bíómyndir: Konuna í búrinu og Veiðimennina. Eftir bókum Jussi Adler-Olsen sem ég á flestar, kannski allar. Get t.d. ekki beðið eftir næstu bók, eins og ég hef áður bloggað um. Natríumklóríð endaði allt of spennandi. Þessar tvær bíómyndir fann ég inni á RÚV en held að búnar hafi verið til fleiri myndir eftir þessum bókum sem kannski er von á hjá RÚV á næstu vikum. Ég mun horfa á þær.
Þriðja myndin sem ég horfði á um helgina (af því að ég nennti ekki að standa upp úr sófanum) var leigumorðingjamyndin Bruges, fannst hún ömurleg. Kallið mig bara plebba en fyndnin í henni var svo langt frá sótsvörtum húmor föðurættarinnar úr Þingeyjarsýslu (Flatey) með dassi af Skagafjarðar-móðurættar-glensheitum (Hróarsdal). Ég get sem sagt ekki bara gefið auglýsingastofum góð ráð, heldur líka handritshöfundum. Ef vilji er fyrir því, gæti ég alveg tekið að mér að velja bíómyndir fyrir sjónvarpsstöðvarnar, ég þótti góð í því 1983 þegar ég valdi stundum myndir fyrir ólöglega bíórás Æsufells og Asparfells þetta hálfa ár sem ég bjó þar. Ég myndi vanda valið sérstaklega fyrir gamlárskvöld þar sem veljarar allra stöðva líta svo á að ALLIR séu úti að djamma SEM ER EKKI. Ég, mikil djammdrottning á köflum, hef bara djammað einu sinni á gamlárskvöld, það var 1986. Bæði fyrir þann tíma og eftir hef ég ár hvert hugsað: Æ, hvað það væri nú gaman að horfa á eins og eina góða bíómynd áður en ég fer að sofa. En það voru bara gamlar margendursýndar, sjaldnast sæmilega skemmtilegar.
En nú er þetta orðið of seint, kæru bíómyndaveljarar íslenskra sjónvarpsstöðva. Nú höfum við val, við sem heima sitjum og loks búin að læra á fjarstýringarnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 5
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 131
- Frá upphafi: 1533332
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 121
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni