Heimsókn eftir hálfa öld

Æskuheimilið á AkranesiÉg fékk stórmerkilegt heimboð nýlega og þáði það um ellefuleytið í morgun. Þess virði að vakna snemma í fríinu sínu ... Í fyrsta sinn í rétt rúm 50 ár sá ég æskuheimili mitt. Strax á leið upp tröppurnar fór ég að söngla Those were the days, my friend ... en Mary Hopkin (72 ára afmæli í dag) sem söng það í Eurovision sem var þó aldrei sýnt í beinni á Íslandi í þá daga, athugull krakki eins og ég náði iðulega að sjá í Mogganum nafn sigurvegarans, aldrei viðvörun, Reuters-skeytið bara þýtt og birt og ekkert hugsað um okkur sem áttum eftir að sjá keppnina sem kom ekki fyrr en með haustskipinu, minnir mig.

 

Ekki var lengur bónaður brúnn dúkur í stiganum upp á efri hæð (nú einbýlishús, áður tvíbýli) en tvöfaldar svaladyr og gamla elliheimilið, núverandi heimili listakonu, var kunnugleg sjón út um gluggann. Allt var enn á sama stað en samt svo breytt. Geggjað flott bað til hægri og löngu búið að fjarlægja gerektið þar sem ég hafði skorið út með litlum skærum; Mamma asni (ég var bara að reyna að kenna henni að refsa mér ekki fyrir óþekkt og loka mig inni á baði, henni var nær að leyfa mér að ganga í skóla þar sem ég lærði að lesa og skrifa). Allt orðið minna en í minningunni, eins og ég bjóst við, en samt er húsið rúmgott og fínt. Ljómandi gott kaffi í bolla og tilhlökkun í gangi, nefnilega full neðri hæð af labradorum, þrír hvolpar og þrjár gullfallegar tíkur.

Húsráðandi lofaði mér því að mæta í heimsókn með eitthvað af stóðinu, kettir Himnaríkis elska hina kurteisu labradora (hef fengið þrjá slíka í heimsókn í gegnum árin) og líka maltísana, frændur mína, Golíat og Herkúles. Ég vona að það verði alvara úr því að ég fái gömlu tíkina stundum í nokkurra daga húsmæðraorlof (hvíldarinnlögn) til mín þar sem hún verður dekruð upp úr skónum - og dregur mig í gönguferðir sem ég nenni í ef ég er með eitthvað í taumi; hund, mann eða stein.

 

Ferming Míu systur 1969Þar sem við stóðum við svaladyrnar, beint á móti dyrunum inn í íbúðina uppi (ekkert breytt sem sagt) rifjaðist upp sagan af fulla manninum, aðdáanda mömmu, sem hafði prílað upp á grindverk, skriðið upp á bílskúrinn, farið yfir metralangt bilið yfir á svalirnar þar sem dyrnar voru, aldrei þessu vant, ekki læstar, og inn á stigaganginn og bankaði. Með fullan innkaupapoka af sælgæti til að færa börnum konunnar sem hann var svo skotinn í. (Gamall bekkjarbróðir pabba úr háskóla). Mamma hringdi í lögregluna sem dreif sig á milljón upp á Skaga, hafði verið í kartöfluflutningum við Akrafjall eða eitthvað á svörtu maríunni (aðrir tímar). Mamma ætlaði að opna dyrnar í hvelli og Mía systir þjóta niður stigann, karlinn í nokkurra sentimetra fjarlægð samt ... slæm áætlun en kláru stórusystur datt í hug að fleygja bara lyklunum út um gluggann til löggunnar sem beið við dyrnar. Og aðdáandinn var handtekinn. Hann gleymdi sælgætinu sem ekki var gert upptækt sem sönnunargagn svo ekki þurfti að fara í Hallasjoppu, Siggasjoppu, Skaganesti eða á Fólksbílastöðina næstu laugardaga. Svo forhert var þessi einstæða móðir og börn hennar fjögur að við átum allt sælgætið með bestu lyst.

Mynd 2: Ferming stóru systur, 1969, einmitt á gamla æskuheimilinu. Þar sem vantaði málverk en naglar voru í veggjum settum við bara upp útlensk púðaver. Bo bedre hvad? 

Gamli garðurinn minnAuðvitað fór ég í Einarsbúð á eftir og hitti tvær skemmtilegar konur. Covid er sannarlega að verða búið, samkvæmislífið er komið í fullan gang. Ég sagði þeim (önnur er mamma vinkonu minnar) að ég hefði skoðað gamla æskuheimilið, nærri 51 ári eftir flutningana í bæinn, þá rifjaði hún upp að hún hafi nú búið á neðri hæðinni með fjölskyldu sinni í nokkur ár (fyrir mína tíð) og vissi heilmargt um fyrri íbúa, einn þeirra (kona) flutti víst aldrei út, er þarna svífandi enn um húsið ...

Fyrirgefðu, væri þér sama, það er verið að funda hérna,“ sagði ég ákveðin við mann sem ætlaði að troðast að mjólkurkælinum. Hann fór þá hægra megin við bananadæmið og virtist ekki sáttur. Hefði hann verið á réttum aldri, hefði ég fært mig þegjandi og eggjandi en ég lít hræðilega út þessa dagana, það tók því ekki að reyna neitt. Mikið sem ég sakna grímunnar, þótt hún geri kannski lítið fyrir úr sér vaxið hárið með gráu „strípunum“ en maður þekkist alla vega síður.

Við Hilda með Gerðu

Ég á vissulega tíma í klipp og lit í fyrramálið (ég verð sótt af minni ástkæru hárgreiðslukonu í bítið) svo auðvitað hefði ég átt að fresta för í Einarsbúð þar til á morgun eða hinn.

 

Við húsráðandi fórum út í garð í lokin (sjá mynd nr. 3 hér ofar, 2 hundar og umhverfið svo dásamlega gamaldags, lítið breyst). Ég benti á stað milli bílskúrs og þvottahússdyra: „Þarna var kartöflugarðurinn.“ Og hún alveg: „Játs, það var lítill veggur þarna sem ég skildi aldrei tilganginn með, hann hefur verið til að stúka af kartöflugarðinn.“ Þarna tel ég mig hafa bjargað sálarheill hennar, það hefði verið ömurlegt ef hún hefði aldrei vita hvað þessi veggur gerði. Fólk spanderaði líka ekki ljósmyndum nema rétt um hájólin (dýrir flasskubbar og vesen að fara með í framköllun) og á sumrin í ljótar landslagsmyndir sem sýndu yfirleitt ekkert. Hefði vissulega verið gaman að eiga fleiri myndir úr íbúðinni. Fleiri myndir úr æsku.

 

Mynd 4: Við Hilda með Gerðu vinkonu okkar úr næsta húsi. Myndin auðvitað tekin í garðinum sem hefur breyst mikið. Háa tréð sem sést til vinstri á mynd nr. 3 af hundunum, er ansi hreint mikið lægra þarna fyrir aftan okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 247
  • Sl. viku: 1482
  • Frá upphafi: 1453951

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1238
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband