Hugljómun og höfnun

Hvað vilt þú, KrummiMynd - eða það gerðist ekki, segir fólk stundum. Núna síðast tengdist það svartsokkafjalli Himnaríkis, og ég birti með glöðu geði myndina sem ég sendi Ellen frænku nýlega til að biðja hana um að koma upp á Skaga og hjálpa mér að para svarta sokka eins og hún gerði einu sinni með sturlað góðum árangri. Ég gekk varla í sokkum næstu vikur á eftir til að hafa skúffuna fulla og flotta sem lengst.

Hún hló bara. „Kallar þú þetta sokkafjall?“ spurði hún og samt hafði ég ketti með á myndinni til að auka líkur á því að hún kæmi. Hvernig getur hún ekki elskað og þráð svona sæta ketti? Mosi hefur samt fundið þetta á sér, hann er svo fúll á svipinn. Það eru komin einhver ár síðan við frænka vörðum síðast saman kvöldstund í að para saman fulla stórkommóðuskúffu eftir að ég hafði lýst yfir vanlíðan minni (hún er sálfræðingur) yfir lausum sokkum sem lágu tvístraðir um allt í skúffunni að ráði bróður hennar sem gerir slíkt sjálfur án tillits til mynsturs eða lita. Er það töff í Kópavogi? Já. Á Akranesi? Nei.

Þannig að ég paraði bara sjálf alla vega tvö pör við undirleik Genesis, Pink Floyd, Jethro Tull og fleiri af YouTube-veitunni sem býr endalaust til flotta lagalista fyrir mig í stíl við lagið sem ég vel ef ég nenni ekki að hlusta á lagalistana sem ég bjó til sjálf (mjög líkt Spotify). Núna valdi ég Carpet Crawlers með Genesis (geggjað lag) og svo fylgdi hin dýrlegasta músík á eftir. Þegar ég klára pörunina á morgun ætla ég að hlusta á hlaðvarp í fyrsta sinn. Vídjó heitir það, Hugleikur og einhver skemmtileg kona, skilst mér. Þá hlýt ég að geta klárað.

 

Ég gerði stóra uppgötvun í dag, fékk hugljómun ... varðandi fólkið sem er alltaf á móti öllu, alltaf að rífa kjaft og elskar YouTube eins og ég. Dæmi:

FlatttVeðurfarsbreytingar? „Nei, allt saman lygi, þetta gerist á einhverra alda fresti, jörðin er bara að hreinsa sig, ekkert að marka veðurfræðinga.“

Bóluefni við covid-19: „Nei, þetta er samsæri, ekkert að marka lækna og vísindamenn. Þið eruð eins og skíthræddar rollur í réttum.“

Voru guðirnir geimfarar? Man eftir þessari bók sem gerði allt vitlaust fyrir áratugum. Held þó að ég hafi ekki nennt að lesa hana. Kannski trúa einhverjir á guði frá öðrum hnöttum. Ég trúi Men in Black betur, lokaatriðunum.

Jörðin flöt. „Auðvitað, það er bara verið að ljúga að okkur, hvernig getur jörðin verið hnöttótt? Við myndum svo pottþétt detta af henni ef við byggjum í t.d. Ástralíu ... eða er Ástralía kannski ekki til?“ 

Tungllendingin 1969. „Neibbs, allt sett á svið, flottur leikur, flott leiktjöld. USA-lygi, leikrit til að spæla Rússa.“

 

Eftir þessa hugljómun efast ég stórlega um að ofsahræðsla búi að baki mörgum samsæriskenningum sem verði til þess að fólk slökkvi á rökhugsuninni og afneiti því sem það veit innst inni að er rétt. Nei, þetta er einfaldlega bara krúttlegur og barnslegur mótþrói. Auðvitað gæti mér skjátlast, ég er nógu þroskuð til að viðurkenna það, en það eru bara svo margir sálfræðingar í fjölskyldunni að það eru nánast engar líkur á því.

VeiðimennirnirSjálf á alveg til að vera í mótþróa stundum, er nánast uppreisnargjörn á köflum; fór á Varið land-fundinn góða og æpti: Ísland úr Nato, herinn burt, það var á unglingsárunum þegar ég nennti úr húsi, en af því að ég er svo heimakær birtist mótþróinn núorðið mest þegar kemur að sjónvarpinu. Var það ekki bara mín sem hreinlega gleymdi alltaf að horfa á Verbúð, Helgar með Helga, og löngu fyrr Hemma Gunn og Spaugstofuna? Ef það er ekki uppreisnarmótþróaþrjósku-eitthvað ... Ég horfi bara á ALLA LEIÐ, fréttir, VEÐUR og Gísla Martein. Bíð eftir eldgosi, það er langbesta sjónvarpsefnið. Mætti ekki endurtaka flottustu senurnar úr því á RÚV 2?

Um helgina sá ég reyndar tvær góðar bíómyndir: Konuna í búrinu og Veiðimennina. Eftir bókum Jussi Adler-Olsen sem ég á flestar, kannski allar. Get t.d. ekki beðið eftir næstu bók, eins og ég hef áður bloggað um. Natríumklóríð endaði allt of spennandi. Þessar tvær bíómyndir fann ég inni á RÚV en held að búnar hafi verið til fleiri myndir eftir þessum bókum sem kannski er von á hjá RÚV á næstu vikum. Ég mun horfa á þær.

Þriðja myndin sem ég horfði á um helgina (af því að ég nennti ekki að standa upp úr sófanum) var leigumorðingjamyndin Bruges, fannst hún ömurleg. Kallið mig bara plebba en fyndnin í henni var svo langt frá sótsvörtum húmor föðurættarinnar úr Þingeyjarsýslu (Flatey) með dassi af Skagafjarðar-móðurættar-glensheitum (Hróarsdal). Ég get sem sagt ekki bara gefið auglýsingastofum góð ráð, heldur líka handritshöfundum. Ef vilji er fyrir því, gæti ég alveg  tekið að mér að velja bíómyndir fyrir sjónvarpsstöðvarnar, ég þótti góð í því 1983 þegar ég valdi stundum myndir fyrir ólöglega bíórás Æsufells og Asparfells þetta hálfa ár sem ég bjó þar. Ég myndi vanda valið sérstaklega fyrir gamlárskvöld þar sem veljarar allra stöðva líta svo á að ALLIR séu úti að djamma SEM ER EKKI. Ég, mikil djammdrottning á köflum, hef bara djammað einu sinni á gamlárskvöld, það var 1986. Bæði fyrir þann tíma og eftir hef ég ár hvert hugsað: Æ, hvað það væri nú gaman að horfa á eins og eina góða bíómynd áður en ég fer að sofa. En það voru bara gamlar margendursýndar, sjaldnast sæmilega skemmtilegar.

 

En nú er þetta orðið of seint, kæru bíómyndaveljarar íslenskra sjónvarpsstöðva. Nú höfum við val, við sem heima sitjum og loks búin að læra á fjarstýringarnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 161
  • Sl. sólarhring: 296
  • Sl. viku: 1705
  • Frá upphafi: 1453864

Annað

  • Innlit í dag: 126
  • Innlit sl. viku: 1414
  • Gestir í dag: 120
  • IP-tölur í dag: 119

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband