6.5.2021 | 09:10
Leyndarmál afhjúpað
Klukkan var enn sjö eitthvað í morgun þegar ég var komin með kaffi í bolla, búin að búa um, setja í þvottavél ... nú er aldurinn aldeilis farinn að láta vita af sér, magnað, frábært. Það er frekar fúlt að vera alveg að verða kona á mínum aldri (Hæ, Krabbameinsfélag) og þurfa samt að sofa til tíu hið minnsta. Loksins eru kostir hækkandi aldurs farnir að tikka inn. Kannski sofnaði ég frekar snemma í gær, en samt! Kannski er ég að verða búin að bæta mér það upp að hafa þurft að vakna um og fyrir klukkan sex árum saman til að ná fyrsta strætó í bæinn. Kannski.
Skilst að afmælið hennar mömmu hafi gengið alveg ágætlega í gær og minntist á í bloggi gærdagsins atvik sem ég hef ekki enn þorað að viðurkenna fyrir henni. En það er nú alveg eitt sem mamma viðurkenndi ekki fyrir okkur börnum sínum fyrr en við vorum komin vel á fimmtugsaldurinn og við erum enn í sjokki. Ég var farin að vinna hjá Vikunni og var falið að finna fimm aðila til að baka og gefa uppskrift í kökublaðið. Mér datt mamma í hug, athuga hvort hún vildi eða tímdi að gefa uppskrift að Nammi, nammi, gott, gott-tertunni sem auðgaði æsku okkar systkina sem vorum eins og litlu börnin með eldspýturnar, í huga sumra, af því að við áttum útivinnandi mömmu. Hvítur botn, vættur í perusafa, súkkulaðifrómas (sem mamma kallaði frúmas) og perur úr dós. Þessi terta var bökuð og borin fram um jól og páska, ekki mikið oftar en það, og var algjör spariterta. Ég vissi ekki um neina aðra sem fengu Nammi, nammi, gott, gott, svo sérstök var þessi draumaterta æsku minnar. Ég var ekki einu sinni með uppskriftina, hef aldrei kunnað að búa til frómas. (Myndinni rændi ég af Albert eldar, en Albert er einn allra mesti kökusnillingur í heimi, jafnvel þótt hann noti stundum hnetur, möndlur, döðlur og rúsínur ...)
Mér til gleði var mamma alveg til í að deila uppskriftinni að Nammi, nammi, gott, gott, hún bakaði hana og svo kom Gunni ljósmyndari og myndaði bæði tertu og bakara og ég þurfti svo að taka stutt viðtal við mömmu. Þar kom sitt af hverju athyglisvert fram, eins og setningin sem er sem brennd inn í heilabörkinn á mér: Þetta er nú bara venjuleg peruterta þótt ég hafi ekkert verið að segja börnunum mínum frá því. Og þetta flokkast undir enn eitt bernskuáfallið, sjokkið. Hitt stóra dæmið var að fá ekki að taka nema tvær bækur á dag í Bókasafni Akraness ... þessu helgasta musteri minninga minna (afsakið klisjutilgerð en bókasafnið var uppáhaldsstaðurinn).
Getur eldgos orðið hversdagslegt?
Ég er eiginlega hætt að horfa heilluð og stjörf yfir hafið, á eldgosið, þetta er orðið að eðlilegum hlut að hafa gos handan við hlaðið; að hafa þetta í sjónvarpinu og sjá út um gluggann í góðu skyggni, alveg jafnhversdagslegt og að hafa drepsótt í gangi í heiminum, að þurfa að ganga með grímu ... Það er greinilega hægt að venjast öllu.
Mér finnst samt enn mjög merkilegt að lifa þessa tíma, fyrsta eldgos á Reykjanesskaga í mörg hundruð ár - fyrsta hræðilega drepsóttin á heimsvísu í 100 ár.
Brjálæðislega tilbreytingarlaus skólaár í barnæsku þar sem ekkert mátti gera sem hefði mátt líta á sem skemmtilegt nema fara í ljósatíma hjá skólahjúkkunni (sjá nýlega, átakanlega bloggfærslu) hefðu átt að kenna manni að gleðjast lengi yfir gosi eða pest, vera góður undirbúningur í raun upp á að geta glaðst lengi yfir öllu. Aumingja gosið hamast við að breyta sér, er til dæmis núna að reyna að líkja eftir Geysi. Boring.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.5.2021 | 18:58
Fimmti maí
Mamma á afmæli í dag, orðin 87 ára sem er ekkert miðað við t.d. Filippus drottningarmann (99), eða drottningarmóður sem varð rúmlega 100 ára. Það er almennt langlífi í ættinni (já, við erum skyld bresku konungsfjölskyldunni) og mamma eldhress, bauð upp á snittur og súkkulaðiköku - en því miður var ég föst á Skaganum í vinnu, henni var nær að eiga ekki afmæli um helgi.
Margir góðir eiga afmæli í dag, eins og Tommi bílstjóri, og einnig annar maður sem fæddist 5.5 1955 (kt. 050555-) og týndi veskinu sínu snemma á áttunda áratug síðustu aldar, sirka 1972-1973 - og ég fann það. Vitið þið hvað það var mikið vesen að finna ókunnuga manneskju á þessum árum, þótt maður hefði nafnnúmer viðkomandi? Ekkert Internet, bara heimasímar. Einhverra hluta vegna datt mér ekki í hug að skella veskinu inn á miðbæjarstöð lögreglunnar. Þetta var myndarlegur maður, eldgamall að vísu, og bara spennandi að reyna að finna hann - og það tókst!
Ég fékk aðstoð vinkonu við að afhenda veskið. Ég man ekki einu sinni nafn mannsins, bara tölurnar hans. Eins og áður hefur komið fram man ég flest póstnúmer, mörg símanúmer og þekki bíla í sundur á bílnúmerum, ekki lit eða tegund. Gæti þó ekki þulið upp bílnúmerin sem ég þekki þótt ég yrði pyntuð - þekki þau bara þegar ég sé þau. Afhendingin fór fram niðri við höfn, ég veit, furðulegt, sennilega hættulegt, en ungi maðurinn var sjómaður. Mig minnir að ég hafi talað við hann í síma og hann beðið mig um að koma með það að skipinu/bátnum.
Ég þorði ekki að segja mömmu frá þessu, hún hefði bannað mér að fara. Í bókum sem ég las af áfergju var svonalagað ávísun á að láta sjanghæja sig, ræna sér í til dæmis uppvaskið um borð, en á þessum tíma kunnu karlar á flest annað en uppþvottabursta. Mig minnir að við höfum farið um borð, að enginn af áhöfninni hafi verið þarna nema hann og þess vegna þorðum við. Hef svo bara séð Herjólf að innan (1974), Akraborgina (196x - 1998) og Norwegian Epic (2018) svo ég hef aldeilis migið í saltan sjó. Stefni alltaf á að komast með Norrænu til Færeyja, Danmerkur en það vex mér í augum að koma mér alla leið til Seyðisfjarðar. Ég er hreint ekki viss um að strætó gangi þangað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2021 | 15:30
Þar sem kaffið er gott ...
Veit um unga konu sem fór á sóttkvíarhótel í fimm daga. Eitthvað var hún ósátt við þessa fangavist fyrirfram en ákvað svo að taka jákvæðnina á þetta. Líta á þetta sem ljúft frí, fara í stöku göngutúra og njóta þess svo að slaka á, liggja í freyðibaði með reyfara í hönd, horfa á Netflix og gera það sem hún hafði sjaldan haft samvisku til að gera, eða að liggja í algjörri leti.
Henni fannst maturinn á hótelinu virkilega góður svo hún skrifaði sæt þakkarskilaboð til eldhússins eftir hverja máltíð ... og viti menn, síðustu tvo dagana fékk hún alltaf tvo eftirrétti í stað eins, sem þakklætisvott fyrir falleg orð. Hún sagði að þetta hefði verið frábær tími sem endurnærði hana á sál og líkama. Þetta var ekki útdráttur úr nýrri bók um Pollýönnu - en viðhorfið skiptir greinilega heilmiklu máli.
Ég er enn að reyna að upphugsa leið til að komast í fimm daga vist á svona hóteli ... en kem ekki auga á neinn möguleika í stöðunni. Við Hilda systir erum reyndar að hugsa um að skreppa norður yfir langa helgi nú í sumar, föstudag til mánudags, sem yrði sennilega eina alvöruferðalag sumarsins, nóg við að vera hér á Akranesi og í bænum. Eða á Flúðum jafnvel.
Hvar er gott að gista þar sem fæst líka gott kaffi - er þá líka að meina kaupstað, kauptún? Við fundum ágætt kaffi víða á sjálfri Akureyri, í Listasafninu í Gilinu, í Hofi, Sykurverki en það allra, allra besta var á Siglufirði, í súkkulaðigerðinni sem ég man ekki hvað heitir ... Fríða? Við vorum á hraðferð í gegnum Krókinn í fyrra og fundum bara vont kaffi þar (sömu sortina á fjórum stöðum, ég er Skagfirðingur, má skammast!) en ég veit ekki hvað hefur eiginlega gerst þar, eða þá við Þjóðveg 1 á leið norður, kaffibreytingar eins og eldur í sinu.
Kannski ættum vér systur bara að fara á Snæfellsnesið - það er svoooo gott kaffi á Rjúkanda (áður Vegamót) og þess virði að fara sérferð bara fyrir einn lattem, jafnvel með strætó bara þótt það kosti að sofa úti eða eitthvað eða ganga heim.
Kaffið þar er frá Kaffibrugghúsinu úti á Granda í Reykjavík. Fann það út eftir rannsóknarvinnu ... eða fyrirspurn á Facebook-síðu Rjúkanda. Mig minnir að maturinn hafi verið mjög góður en ég man samt miklu, miklu betur eftir kaffinu ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2021 | 18:00
Stóri brandarinn - eina tilbreytingin
Um daginn heyrði ég auglýsingu í útvarpinu: Kína túra, eða Kínatúra, jafnvel Kína-túra og skildi ekki hvað verið var að auglýsa. Svo áttaði ég mig ... Key Natura sem er hollustu-eitthvað, held ég - en það skiptir svakalega miklu máli hvernig auglýsingar eru lesnar.
Einu sinni fékk nokkuð vinsæl hljómsveit hér á landi ekki að auglýsa tónleika (ball?), RÚV harðneitaði að lesa hana upp og Mogginn að birta hana - af því að nafn hljómsveitarinnar var svo óviðeigandi, svo dónalegt. Jú, þetta var hljómsveitin Sjálfsfróun. Nú þurfti að leggja heilann í bleyti, og loks kom einhver með lausnina ... og það var hljómsveitin Handriðið sem spilaði einhvers staðar eða lék fyrir dansi. Dásamlegt.
Stóri brandari æsku minnar var þegar þulurinn í útvarpinu mismælti sig, sagði óvart: Foreldrakjöt, foreldrakjöt i heilum og hálfum skrokkum ... Hugsa sér hvað lífið var leiðinlegt, alla vega tilbreytingarlaust, þegar þetta var það fyndnasta af öllu fyndnu. Jú, það var sérlega gaman að heyra nafnið sitt í útvarpinu þegar ferðir flugvélarinnar Guðríðar Þorbjarnardóttur komust í fréttir
Ekki skrítið að maður hafi flýtt sér að læra að lesa til að upplifa bara eitthvað. Bækur voru samt margar svo hræðilega fullar af boðskap að það var ekki fyndið. Fátækt fólk var gott, ríkt fólk var flest mjög vont og var sko alls ekki hamingjusamt þótt það ætti fyrir reikningunum sínum, þá væri nú betra að vera fátækur ... og aðeins guðhrætt fólk var gott fólk. Hreint hús ... það voru auðæfi fátæka fólksins og ég var næstum fallin fyrir því, sátt við að vera fátæk í hreinu húsi, hjarta mitt var að minnsta kosti hreint ... en svo kom peningagræðgin upp í mér þegar ég var orðin fullorðin og kaus að vera ekki fátæk og sæl, heldur rík og sæl, eða sæmilega rík og sæl, en það er enn í framkvæmd, áratugum seinna. Samt, þegar ég horfi á Bold and the Beautiful og sé hvað ríka fólkið er óhamingjusamt ...
Það var sterk innræting í mörgum af þessum bókum; Leyndarmál Winthers gamla - Blómakarfan - Pollýanna ... og alls ekki slæmt að kenna börnum að vera heiðarleg og góð við menn og dýr, en að fátækir ættu að sætta sig við molana sem féllu af borðum þeirra ríku og svo framvegis hefur aldrei verið mér að skapi. Kannski er ég bara bölvaður kommi.
Ég man hvað ég þráði tilbreytingu, horfði oft út um ganggluggann í skólanum, þar sem sást til norðurs, að Snæfellsjökli, og dreymdi um árabát svo ég gæti róið út í buskann, það var allt betra en þetta. (Draumurinn rættist löngu síðar, sjá mynd, ég komin í bát og meira að segja með bæði kaffi og bók). Samt var ég alls ekki þunglynd, fannst bara að lífið hlyti að bjóða upp á eitthvað meira en þetta. Stappaði niður fótum þegar mamma sagði að lífið væri ekki dans á rósum, og sagði að maður ætti að reyna að láta það vera þannig, rósum án þyrna samt. Og hálfri öld síðar, í öllu framboðinu af tilbreytingu, er ég hætt að nenna að horfa á sjónvarp, nema frá gosstöðvunum og fréttir - en ég hlusta enn mikið á tónlist og les líka mjög mikið. Svo mikið að ég hef frestað ellifjarsýni minni um 20 ár, les mikið án gleraugna sem heldur víst augunum í þjálfun.
Það allra mest spennandi í skólanum var þegar maður fékk að fara í ljós, mátti fara úr miðjum tíma jafnvel. Ég reyndi að vera aumingjaleg á svipinn, eins veikindaleg og ég gat, þegar Jóna skólahjúkka skoðaði krakkana í bekknum og valdi úr þá sem þurftu extra D-vítamín. Þótt kirkjan haldi því fram að það sé eldgamall siður að skólabörn fari í kirkju fyrir jól er það ekki rétt, ég er ekki eldgömul og ég fékk aldrei að fara neitt (ekki heldur sonur minn, f. 1980). Ég hefði orðið hrikalega ánægð með að einn dagur yrði brotinn upp og við fengjum að fara í kirkju, bara eitthvað út úr skólanum. Útrásina fyrir að kynnast trú fékk ég þegar ég tölti mér stundum á samkomur hjá KFUK, hjá Kristrúnu, en það var mjög öflugt trúarlíf í gangi á Akranesi, fyrir utan skólana.
Undir lokin á skólagöngu minni í Barnaskóla Akraness bryddaði elskan hann Rögnvaldur sem kenndi okkur síðustu tvö árin, upp á byltingarkenndri kennsluaðferð í landafræði. Við nemendur hans (um 30 alls), 3-4 í hóp, fengum úthlutað einu landi, áttum að teikna það upp á stórt spjald og lita það, standa síðan fyrir máli okkar, með kennaraprik í hönd, sýna t.d. höfuðborgina og allt það merkasta við landið - og landafræði breyttist í uppáhaldsfagið um tíma. Hjálmar teiknikennari var reyndar annar svona frábær kennarinn, eitt sinn langaði mig að teikna húsin sem sáust út um gluggann á stofunni og fékk leyfi til þess, slíkt var nánast algjört einsdæmi. Maður átti að sitja kyrr. Myndin varð ógurlega flott en týndist því miður í flutningunum til Reykjavíkur ... eða týndist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2021 | 23:08
Sunnudagsklúbbur um morð
Fínasta helgi búin, og hún fór nánast eins og hún átti að fara eða; Föstudagur: baka súkkulaðiköku, Hilda í heimsókn, borða kvöldmat á Galito, drekka eitt rauðvínsglas, skandalísera, bönnuð á Galito, kveðja Hildu, lesa, lesa, sofa. Laugardagur: Vakna, borða kornfleks, lesa, lesa, lesa, vinkona í heimsókn, fara með henni á Galito að borða kvöldmat, þekkjast ekki á Galito vegna grímu, drekka Pepsí með matnum, kveðja vinkonu, lesa, lesa, sofa. Sunnudagur: Vakna, borða skyr, lesa, lesa, fá vinkonu í heimsókn, fara ekki á Galito, spjalla um spennubækur í tvo tíma, borða jarðarberjatertu sem hún kom með með góðu kaffi, kveðja vinkonu, lesa, lesa, horfa á eldgos út um gluggann til hægri og kíkja á eldgos í sjónvarpinu, lesa, blogga, lesa, lesa, fara að sofa á miðnætti.
(Efri myndin: Ég horfði ekki á einn einasta fótboltaleik um helgina!!!)
Ég sakna alltaf sunnudagskvöldanna hjá Önnu vinkonu á Álftanesi, þar sem við hittumst nokkrar vinkonur vikulega ... á síðustu öld. Góð músík (skrítin, alltaf skemmtileg) og fjölbreytileg umræðuefni. Svo fluttu 3/5 af upprunalega hópnum til útlanda (ég bað í alvöru þáverandi forsætisráðherra (SH) í virðulegu nýárspartíi um að stöðva þá vinkonu sem flutti til Bretlands, en æðsti maður landsins (var Samherji nokkuð kominn þá?) kom engu tauti við hana. Löngu seinna flutti svo 1/5 á Skagann. Væri meira en til í að vera í sunnudagsklúbbi, t.d. kl. 16-18 aðra hverja viku og töluðum um morð og aðra glæpi í bókum, gott kaffi og jarðarberjaterta á borðum. Gaman að fá löggu í klúbbinn, lyfjafræðing (sem getur reddað sannleikslyfi svo löggan segi eitthvað djúsí) og bara alls konar.
- - - - - -
Ég hef litlu sambandi náð við mávana í ár. Þeir bjóða mér ekki blíðlega góðan daginn þegar ég kem með opinn faðminn út á svalir ... djók, ég er ekki svalatýpan sem faðmar sólina, frekar hið gagnstæða, (hangi á bílastæðum, í skugga).
Jónatan mávur, gamli vinur okkar Einars, settist á svalahandriðið þegar hann langaði í brauð en ef ég fer með eitthvað í brekkuna við þyrlupallinn (á hlaðinu á himnaríki) greini ég engan sérstakan áhuga. Ég nenni ekki að skreyta matinn sem ég gef þeim.
Þeir eru nú samt vanmetnir mávarnir, manni var kennt/innrætt að fyrirlíta þá af því að þeir voru ekki jafnsætir og lóur eða svanir - en hver man ekki eftir forsíðumynd í Mogganum eitt árið þar sem fagur svanur var að gæða sér á æðarunga á Reykjavíkurtjörn? Svanir myrða án nokkurrar miskunnar, ráðast meira að segja á lömb!
Sjokkerandi, en samt er okkur innrætt að svanir séu góðir en mávar ekki. Ég á kisur en sumir verða steinhissa þegar ég segi þeim að ég sé mikil hundamanneskja, væri sennilega með hund ef ég byggi ekki á 3,5. hæð ... Finnst hundar alveg jafndásamlegir og kettir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2021 | 13:51
Stór en samt svo lítill ...
Hilda systir kom til mín í gær sem var æði eins og alltaf. Og í gær upplifði ég enn og aftur hvað það er gott að búa á stað eins og Akranesi sem er bæði svo lítill og svo stór (bráðum átta þúsund íbúar - hæ, vantar dýralækni!).
Ég dró Hildu með á lagerhreinsun tveggja verslana, Módels og Hans og Grétu, og gerði ansi góð kaup. Eins og glöggir lesendur bloggsins vita hata ég búðaráp en það þarf líka að vera skynsamur í þessu nokkuð dýra landi, hmmm. Fékk virkilega töff sumarjakka á drenginn (7.500 kr. samt merkjavara) og lítinn hitamæli í kjöt (á 100 kall eða álíka).
Til að gera endurskoðandann ekki snarvitlausan bað ég um nótu á kennitölu vegna jakkans. Það var ekki hægt að fá slíka nótu á þessum stað, gamla verkalýðshúsinu sem var lagerhreinsunar-húsnæðið, en önnur konan við afgreiðslu kvaðst búa í næsta húsi við mig, hún skyldi skella nótunni í póstkassann hjá mér. Ekki kom þó til þess því bæði okkur Hildu og þessari konu hafði dottið í hug að fá sér í svanginn á Galito, svo nótan var bara afhent þar. Svona er að búa á Akranesi ...
Er að hamast við að klára ýmis verkefni í dag áður en næsta heimsókn skellur á - og sú vinkona sem hingað kemur lýsti því yfir að hana langaði að fara með mér á Galito ... svo ég fæ eflaust titilinn GÓÐKUNNINGI eða FASTAGESTUR eftir þessa helgi. Alveg sátt við það. Var mjög hneyksluð á Hildu að fá sér pítsu sem innihélt bæði hnetur og döðlur - og hún fussaði yfir mínum mat sem innihélt tómata sem hún hefur ofnæmi fyrir. Samt gekk allt vel, sennilega af því að ég keypti rauðvínsglas með og var orðið góðglöð eftir þrjá sopa, ég veit, ég er hænuhaus. Sennilega hefur hann vitað það, gaurinn í Hollywood (við Ármúla) sem reyndi grimmt við mig og sagði: Viltu sopa? Í dag skil ég ekkert í því af hverju ég móðgaðist yfir þessu.
- - - - - - - - - -
Ég er enn oggulítið aum í hægri handlegg, ekki síst ef ég kýli fast í hann, en smávægilegur slappleikinn fyrst eftir bólusetningu miðvikudagsins er bara minningin ein. Ill-hjartaðir vinir mínir (tveir) sem segja hlutina eins og þeir eru ... og sögðu mér miklar hryllingssögur af hroðalegum aukaverkunum, hafa nú alveg þrjá mánuði til að segja mér allt um afleiðingar seinni sprautunnar. Svona er ég alltaf heppin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 39
- Sl. sólarhring: 271
- Sl. viku: 530
- Frá upphafi: 1529472
Annað
- Innlit í dag: 32
- Innlit sl. viku: 445
- Gestir í dag: 32
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
Katrín Snæhólm Baldursdóttir
-
Þröstur Unnar
-
Anna Ólafsdóttir Björnsson
-
Helga Magnúsdóttir
-
Fjóla Æ.
-
Sumarbúðirnar Ævintýraland
-
Jóna Á. Gísladóttir
-
Steingerður Steinarsdóttir
-
Bertha Sigmundsdóttir
-
Svava S. Steinars
-
Guðrún Jóhannesdóttir
-
Vésteinn Valgarðsson
-
Heiða B. Heiðars
-
Lára Hanna Einarsdóttir
-
Baldvin Jónsson
-
Jens Guð
-
www.zordis.com
-
Elín Arnar
-
Andrés.si
-
Vefritid
-
Kristín M. Jóhannsdóttir
-
Saumakonan
-
Laufey B Waage
-
Ingibjörg Gunnarsdóttir
-
krossgata
-
Kristján B. Jónasson
-
percy B. Stefánsson
-
Ólafur fannberg
-
gua
-
Anna Gísladóttir
-
Hlynur Jón Michelsen
-
Jón Svavarsson
-
Brynjar Svansson
-
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
-
Gunna-Polly
-
Hólmgeir Karlsson
-
Sigríður Jósefsdóttir
-
Svala Jónsdóttir
-
Katrín Anna Guðmundsdóttir
-
Eva Þorsteinsdóttir
-
Hrönn Sigurðardóttir
-
halkatla
-
Guðný M
-
Einar Vignir Einarsson
-
Ingibjörg Stefánsdóttir
-
Kristín Björg Þorsteinsdóttir
-
Vilborg Valgarðsdóttir
-
Þóra Guðmundsdóttir
-
Inga Dagný Eydal
-
Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
-
Helga Guðrún Eiríksdóttir
-
Kristín Katla Árnadóttir
-
Birna Mjöll Atladóttir
-
Ingibjörg R Þengilsdóttir
-
Hrólfur Guðmundsson
-
Halla Rut
-
Brynja Hjaltadóttir
-
Eyþór Árnason
-
Guðrún Vala Elísdóttir
-
The baristas
-
Helgi Már Barðason
-
Eydís Rós Eyglóardóttir
-
Guðný Jóhannesdóttir
-
Ásta Kristín Norrman
-
Anna Sigríður Guðmundsdóttir
-
Kolgrima
-
Huld S. Ringsted
-
Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
-
HAKMO
-
Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
-
Bradshaw
-
Kolbrún Baldursdóttir
-
Ásta Björk Solis
-
Margrét Guðjónsdóttir
-
María Anna P Kristjánsdóttir
-
Rebbý
-
Kjartan Pétur Sigurðsson
-
Markús frá Djúpalæk
-
Bogi Jónsson
-
Alheimurinn
-
Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
-
Svala Erlendsdóttir
-
Kokkurinn Ógurlegi
-
Binnan
-
Daníel Halldór
-
Linda Linnet Hilmarsdóttir
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Erna Friðriksdóttir
-
Kristín Erla Kristjánsdóttir
-
Katrín Ósk Adamsdóttir
-
Fiðrildi
-
Valgeir Ómar Jónsson
-
lady
-
Toby
-
Vera Knútsdóttir
-
Ragnar Páll Ólafsson
-
Sverrir Stormsker
-
Valdís Rán Samúelsdóttir
-
Kej
-
Ingigerður Friðgeirsdóttir
-
Sigvarður Hans Ísleifsson
-
Alexander Már Benediktsson
-
Alfreð Símonarson
-
Birna Dís
-
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
-
Janus
-
Tinna Gunnarsdóttir Gígja
-
Eyrún Inga Þórólfsdóttir
-
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
-
Elsa Rut Jóhönnudóttir
-
Þóra Sigurðardóttir
-
gudni.is
-
Ásgeir Rúnar Helgason
-
Sigurður Axel Hannesson
-
Inga Helgadóttir
-
Kjartan Pálmarsson
-
Hlynur Hallsson
-
Herdís Sigurjónsdóttir
-
Ása Hildur Guðjónsdóttir
-
Steingrímur Helgason
-
Sæþór Helgi Jensson
-
Sif Traustadóttir
-
Maddý
-
Turetta Stefanía Tuborg
-
Gúrkan
-
Gunnlaugur Stefán Gíslason
-
Ólöf María Brynjarsdóttir
-
Tiger
-
Hdora
-
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
-
Brynja skordal
-
Edda Agnarsdóttir
-
Helga skjol
-
Mummi Guð
-
Kristín Einarsdóttir
-
Guðbjörg Ottósdóttir
-
Sæmundur Bjarnason
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
Linda
-
Gylfi Guðmundsson
-
Handtöskuserían
-
Agnes Ólöf Thorarensen
-
Júdas
-
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
-
Sigurbrandur Jakobsson
-
TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
-
Álfheiður Sverrisdóttir
-
Kjartan Magnússon
-
Bylgja Hafþórsdóttir
-
Vertu með á nótunum
-
Marilyn
-
Anna Mae Cathcart-Jones
-
Söngfuglinn
-
Dísa Gunnlaugsdóttir
-
Ónefnd
-
Ásta
-
leyla
-
Þórður Helgi Þórðarson
-
Jónína Rós Guðmundsdóttir
-
Anna Ragna Alexandersdóttir
-
Laufey Ólafsdóttir
-
Einar Indriðason
-
Gísli Tryggvason
-
Lilja G. Bolladóttir
-
Þorsteinn Briem
-
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
-
Ragnheiður Ástvaldsdóttir
-
Eygló Sara
-
I. Hulda T. Markhus
-
Himmalingur
-
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
-
Hildur Helga Sigurðardóttir
-
Aprílrós
-
Bókaútgáfan Salka ehf
-
Svetlana
-
Sigríður Guðnadóttir
-
Andrea
-
Jón Þór Bjarnason
-
Inga Sig
-
Sigríður Inga Sigurðardóttir
-
Einar Örn Einarsson
-
Heiður Helgadóttir
-
Guðrún Ágústa Einarsdóttir
-
Stella Jórunn A Levy
-
Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
-
Perla
-
Ingi Thor Jónsson
-
Sigríður Þórarinsdóttir
-
Vinir Tíbets
-
Pálmi Guðmundsson
-
cakedecoideas
-
Bwahahaha...
-
Bullukolla
-
Jónas Sen
-
Hildigunnur Rúnarsdóttir
-
Renata
-
Mamma
-
Bergljót Hreinsdóttir
-
Hrannar Baldursson
-
Letilufsa
-
Sigrún Jónsdóttir
-
Adolf Friðriksson
-
Björgvin R. Leifsson
-
Brúðurin
-
Guðrún Eggertsdóttir
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Margrét Birna Auðunsdóttir
-
Methúsalem Þórisson
-
Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni