Fimmti maí

AfmæliMamma á afmæli í dag, orðin 87 ára sem er ekkert miðað við t.d. Filippus drottningarmann (99), eða drottningarmóður sem varð rúmlega 100 ára. Það er almennt langlífi í ættinni (já, við erum skyld bresku konungsfjölskyldunni) og mamma eldhress, bauð upp á snittur og súkkulaðiköku - en því miður var ég föst á Skaganum í vinnu, henni var nær að eiga ekki afmæli um helgi.

 

Margir góðir eiga afmæli í dag, eins og Tommi bílstjóri, og einnig annar maður sem fæddist 5.5 1955 (kt. 050555-) og týndi veskinu sínu snemma á áttunda áratug síðustu aldar, sirka 1972-1973 - og ég fann það. Vitið þið hvað það var mikið vesen að finna ókunnuga manneskju á þessum árum, þótt maður hefði nafnnúmer viðkomandi? Ekkert Internet, bara heimasímar. Einhverra hluta vegna datt mér ekki í hug að skella veskinu inn á miðbæjarstöð lögreglunnar. Þetta var myndarlegur maður, eldgamall að vísu, og bara spennandi að reyna að finna hann - og það tókst!

 

Ég fékk aðstoð vinkonu við að afhenda veskið. Ég man ekki einu sinni nafn mannsins, bara tölurnar hans. Eins og áður hefur komið fram man ég flest póstnúmer, mörg símanúmer og þekki bíla í sundur á bílnúmerum, ekki lit eða tegund. Gæti þó ekki þulið upp bílnúmerin sem ég þekki þótt ég yrði pyntuð - þekki þau bara þegar ég sé þau. Afhendingin fór fram niðri við höfn, ég veit, furðulegt, sennilega hættulegt, en ungi maðurinn var sjómaður. Mig minnir að ég hafi talað við hann í síma og hann beðið mig um að koma með það að skipinu/bátnum.

 

 

Ég þorði ekki að segja mömmu frá þessu, hún hefði bannað mér að fara. Í bókum sem ég las af áfergju var svonalagað ávísun á að láta sjanghæja sig, ræna sér í til dæmis uppvaskið um borð, en á þessum tíma kunnu karlar á flest annað en uppþvottabursta. Mig minnir að við höfum farið um borð, að enginn af áhöfninni hafi verið þarna nema hann og þess vegna þorðum við. Hef svo bara séð Herjólf að innan (1974), Akraborgina (196x - 1998) og Norwegian Epic (2018) svo ég hef aldeilis migið í saltan sjó. Stefni alltaf á að komast með Norrænu til Færeyja, Danmerkur en það vex mér í augum að koma mér alla leið til Seyðisfjarðar. Ég er hreint ekki viss um að strætó gangi þangað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Með því að slá inn 050555 í Íslendingabók sést að sautján Íslendingar fæddust 5. maí 1955, þar af níu karlmenn. cool

Sá líklegasti þeirra er Einar Hjaltason skipstjóri í Hafnarfirði, sem var í fjórða sæti á lista Íslensku þjóðfylkingarinnar
í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum árið 2016 en Mörlenska þjóð"fylkingin" fékk þá 0,2% atkvæða á landinu öllu.

Og í fimmta sæti á listanum var Birgir Loftsson, sagnfræðingur og kennari í Hafnarfirði, sem gapað hefur eins og nýveiddur þorskur á Moggabloggi Einars Björns Bjarnasonar. cool

Þorsteinn Briem, 6.5.2021 kl. 10:01

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

OMG - hahahahahaha, þetta er hrikalega fyndið. Auðvitað er þetta hann. Það væri eftir öllu ... Við erum náskyld í sjöunda og áttunda lið - og auðvitað í gegnum mömmu, 050534! 

Guðríður Haraldsdóttir, 6.5.2021 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Haraldsdóttir
Guðríður Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 312
  • Sl. viku: 1555
  • Frá upphafi: 1453714

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1296
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Sven-Göran
  • Hálka
  • Sumardagurinn fyrsti 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband