Aldrei of illa farið með góð miðbörn

MiðbörnSystirin sem ætlaði að koma í gær lét loks sjá sig í dag. Kötturinn Krummi var ekki jafngribbulegur og vanalega svo frændhundarnir þorðu að njóta þess að hitta Gurrí frænku. 

 

Í Krónunni kom að því sem hefur verið yfirvofandi í margar vikur, þá slógumst við systur, í þetta sinn um eldrauðan varalit sem hún sýndi áhuga og ég þurfti að neyta afls-, aldurs- og stærðarmunar til að ná honum af henni áður en öryggisvörðurinn kæmi. Þetta er mín Króna á Akranesi, hún getur bara keypt sína varaliti í Kópavogi og þótt ég noti sjálf aldrei varalit og Einarsbúð sé búðin mín, þarf að sýna þessum litlu systrum annað slagið hver er eldri, þótt hún minni mig reyndar ansi oft á það.

 

Við miðsysturnar höfum reyndar verið kúgaðar í gegnum tíðina, eins og öll miðbörn ... og afkróað fólk ræðst hvert gegn öðru, eins og dæmin sanna, því það þorir ekki að vaða í elstu gribburnar og yngstu dekurdrósirnar. Hvaða miðbarn hefur ekki lent í því að heyra: „Gjörið svo vel, heitt kakó og nýbakaðar pönnukökur - bara fyrir elsta og yngsta. Miðjur, sækið hræringinn og súra slátrið áður en það lendir í sorpatunnunni!“ Við fengum alveg jólagjafir en bara það sem elsta og yngsta vildu ekki. Á meðan þau fengu heitt súkkulaði með rjóma fengum við Neskvikk í undanrennu með sýrðum rjóma, og þegar við systkinin vorum orðin nógu gömul til að drekka kaffi, fengu þau Jamaica Blue Mountain, en við gamla uppáhellingu með hlóðabragði. Og þegar þau svo fengu hvítvín í fyllingu tímans, þurftum við Hilda að sætta okkur við mysu.

 

Þegar koma gervifréttir um gervirannsóknir á systkinum um að elsta sé gáfaðast og yngsta sé krúttlegast (sjúr!) má maður alveg vera viss um að höfundur greinarinnar eða greinanna og viðkomandi bullvísindamenn séu ekki miðbörn. Verst er að svo margir trúa þessu. Miðbörn þora ekki að verja sig, þá fá þau enn ljótari jólagjafir. Mig minnir meira að segja að ég hafi séð alvörurannsókn einu sinni um að elsta og yngsta systkini væri líklegri að verða raðmorðingi og mannæta en sú frétt fékk ekki að standa lengi á netinu og enginn prentmiðill vogaði sér að birta þetta.

 

Ef þið heyrið einhvern tíma eða sjáið í fréttum illa talað um einhvern, illa farið með einhvern er nánast víst að um miðbarn sé að ræða (kvótakóngar, Bjarni?), eða að gerandinn (elsta eða yngsta barn) haldi að viðkomandi sé miðbarn. Svo er aldrei talað um þetta. Ef ég blogga ekki meira hér hefur einhver þaggað niður í mér og mögulega verður bloggið látið hverfa, alla vega þessi færsla. Ef ég hverf ætti löggan að sjálfsögðu að tékka á frumburðum og örverpum þessa lands. 


Frestanir, spádómar og meint dánarorsök

Með sjóræningjaFullt af allskonar í gangi fyrrihluta dags en allt stefnir í rólegheit og stórgóða innivist í sólinni. Ég þræla drengnum út að vanda, það þarf að ryksuga og fara út með dósir, rusl og plast-pappír til að fá vasapeningana. Svona er nú grimmdin mikil í Himnaríki. Svo ætlaði Hilda systir að koma í dag, svo ætlaði hún ekki að koma, síðan seinnipartinn en heimsókn hefur nú verið frestað. Eins gott samt að hún komi fyrir miðvikudag, þegar drengurinn heldur á vit ævintýra í sumarbúðum. Skráning og greiðsla á dvalargjaldi krefst þess að maður hafi próf í kjarnorkuvísindum eða tölvunarfræðum (sportabler) en svo þarf að senda með drengnum lista upp á eldgamla mátann, fata- og lyfjalista, og þeir sem ekki eiga prentara verða að redda sér. HVAR ER TÆKNIN NÚNA? Það er hægt að fylla út skjöl á netinu sem myndi auðvelda prentaralausu fólki lífið ... en nei, sumt húkir enn í fornöld! (Ég er samt ekki að skammast út í bestu sumarbúðir heims, heldur þann sem ákvað þetta fáránlega skráningakerfi sem hentar íþróttafélögum ábyggilega betur en sumarbúðum og þýddi að ég fékk ekki að vita um visst covidsmit í vetur, fyrr en nú í vor. Þetta er ekki gott samskiptaform fyrir sumarbúðir, ein vika á ári og maður á ekkert erindi inn á þetta kerfi aftur fyrr en ári seinna svo eftiráskilaboð virka ekki.

Efsta myndin er af drengnum í „samningaviðræðum“ um húsverk. Fjörugt heimilislíf.

 

PersónuleikiKannski breytti Mía systir lífi mínu (kemur í ljós) þegar ég hringdi í hana og óskaði henni til hamingju með enn eitt stórafmælið núna 2. júní. Mér tókst að koma að ákveðnum áhyggjum mínum af kyrrsetu í fjörugu símtali og hún sagði mér frá mjög sniðugum YouTube-myndböndum Fabulous 50s exercise-sem hefðu farið sigurför um vinkvennahóp hennar. Ég fann þetta og eitt korterslangt fat-burning-walking-eitthvað sem mér líst ljómandi vel á og mun ábyggilega prófa einhvern daginn, það bíður bara í tölvunni minni. Ég bauðst til að passa hund í dag og fara með hann í gönguferð, en var mörgum klukkutímum of sein, held að Color Run-hlaupið hafi verið búið sem eigendur hundsins voru að fara á þegar ég sá þetta. Ekki lagaðist hreyfingar-ástandið þegar ég fór að horfa á The Lincoln Lawyer-þættina á Netflix í gærkvöldi í stað þess að hamast við að hreyfa mig. Ég skammta mér sirka einn þátt fyrir svefninn.

Mynd: Dánarorsök: Borðar of mikið, verður mér víti til varnaðar en ég gleðst þó innilega yfir að lifa næstum því nógu lengi til að fá að vita leyndarmálið í erfðaskrá Filippusar prins sem verður opinberað þegar ég verð 130 ára - en ég hlýt að tóra aðeins lengur en spáin gefur til kynna. 

  

Enn aukast líkur á stórum skjálfta hér suðvestanlands. Þegar fyrst var farið að tala um þetta í fyrra eða hitteðfyrra ákvað ég að pakka brothættu punti niður í stóra margnota poka en viku seinna ákvað ég að taka sénsinn bara, eins og í covid ... lifa lífinu, fara varlega og ef skjálfti/smit, þá bara taka því. Hef sem sagt ætlað mér í þennan tíma að kaupa kennaratyggjó til að festa hluti niður í skápnum, fína kristalinn minn og þann ófína, dauðir hlutir en samt óþarfi að vanvirða þá. Helst vildi ég að skjálftinn kæmi um nótt og fyndist bara úti í Viðey þar sem enginn býr.

 

GrannarNýja nágrannakona* mín frá Úkraínu er búin að átta sig á því að hún býr á langbesta stað á landinu. Hún varði hálfum deginum í Guðlaugu, heitu lauginni hér við Langasand og er orðin vel útitekin og júní varla byrjaður. Allar sögur sem hún hefur heyrt um kalt veðurfar og sólarleysi hér á landi hlýtur að vera sem versta skrök í  hennar huga. Hún horfir samúðaraugum á mig svona náhvíta og alltaf í langerma til að undanrennubláir handleggirnir hræði ekki fólk. Forfaðir minn frá Transylvaníu (sjá Íslendingabók) er sennilega sá eini sem myndi skilja mig, samt er ég alin upp við: „Hættu að lesa, ekki hanga svona inni í góða veðrinu ...“

*Ég fékk leyfi til að birta myndina. 

Sonur hennar, 6 ára, kom nýlega með kisunammi sem er geymt hér en drengurinn sér um að gefa þeim það þegar þau kíkja í heimsókn. Kettirnir dýrka drenginn og dá og finnst móðirin ekki sérlega slæm heldur. Mosi treysti sér ekki til að vera fjær þeim mæðginum en þetta, eins og sjá má á myndinni en þarna var nammið samt farið upp í skáp.

Keli, hinn skíthræddi og styggi köttur með fortíð, herðir upp hugann þegar gott kisunammi er í boði og í stað þess að halda sig undir rúmi þegar koma gestir leyfir hann klapp og knús fyrir bragðgott sælgæti.

Jæja, þá er að elda „Eldum rangt“ (sem sagt ekki Eldum rétt) og gefa drengnum að borða. Ég fer varlega í átið eftir dánarvottorð hirðvéfréttar minnar (sjá mynd) en held nú samt að hver sé sinnar eigin gæfusmiður. Ég frétti af konu sem fór til spákonu fyrir ábyggilega 40 árum og spákonan sagði konunni að hún fengi ekki manninnn sem hún var hrifin af. Þessi spádómur hafði þau áhrif að konan áttaði sig á því að hún gæti ekki hugsað sér lífið án hans og til að gera langa sögu stutta þá eru þau hamingjusamlega gift enn í dag - segið svo að spádómar geti ekki hjálpað fólki við að taka ákvarðanir! Þegar spákonan sagði við mig í gamla daga: Dökkhærður sjarmör og sjóferð, gat það alveg eins táknað ljóshærðan mann og strætóferð, og ég er nýbúin að átta mig á þessu. Ég gafst endanlega upp á strákastandi 10. júlí árið 1998 þegar Akraborgin hætti að ganga og hef verið lukkulega einhleyp síðan.  


Reiptog eða reipitog og tatnrafélag okkar Skagafólks

Mynd 1Eitthvað hefur útliti mínu hrakað fyrst bílstjórinn hleypti mér inn að aftan í innanbæjarstrætó í gær. Eftir klipp og lit síðast var það að framan, munið! Það sparaði mér hellingstíma að taka strætó niður í bæ, á málverkasýningu barna úr Grundaskóla sem haldin var í gamla Landsbankahúsinu. Ég hef alltaf verið hrifin af litagleði í myndum barna og hlakkaði til að kaupa mér eina slíka. Þær urðu reyndar tvær, mjög ólíkar en mjög, mjög flottar. Stykkið kostaði heilan tvöþúsundkall og ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki keypt eina enn. Það er veggpláss inni hjá stráksa og spurning um að lauma að honum mútufé til að fá að hengja upp flottar myndir þar, auðvitað læt ég ramma fínt inn. Stoppaði ekki lengi, ákvað að nota tækifærið þótt ekki væri föstudagur* og kíkja í elsku Einarsbúð. Ég tek sykurleysið mjög alvarlega og keypti mér minnstu gerð af sykurlausum ís hjá Frystihúsinu áður en ég lagði í gönguferðina í Einarsbúð en í vöffluformi til að fá kolvetni fyrir heilann.

*milli kl. 18 og 18.30.

Mynd 2Heppnin var með mér, ég hitti kaupmannshjónin, Ernu og Einar, sem ég hef elskað, dáð og dýrkað frá barnsaldri, en maður missir auðvitað alltaf af þeim með því að panta og fá heimsent sem er líka gott og minnkar sénsinn á því að fá kóvíd eða vera bitinn af lúsmýi, hugsa ég, en það er mikill tímasparnaður fyrir gangandi konu að láta þriggja mínútna símtal duga.

Ég rétt svo mundi eftir að segja Einari frá Oddfellow-konunum sem ég upplýsti um leynifélag einhleypra á Akranesi, fullu nafni:  Tilfinningagreindir Akurnesingar tækifærið nota og rabba á Akranesi. (Það er alveg rabbað líka). Við grétum af gleði þegar við sáum hvaða orð það næstum myndaði. Til dæmis: Samtök krúttlegra Einarsbúðarkúnna: SKE sem er erlendur málslæðingur og vart rithæft - hefði aldrei gengið upp, við viljum frekar að eitthvað gerist en ske-i. TATNRA-félagið er ljómandi fínt.

 

Ég sá að Einar varð hugsi, eins og hann áttaði sig á ástæðu grunsamlega mikillar umferðar fólks í kringum bananastandinn ýmist með banana eða melónur í körfunni, þarna hjá grænmetinu, það var eins og ljós rynni upp fyrir honum. Hann sagði lágt en ákveðið í lagertalstöðina: „Siggi minn, viltu panta ostrur! Fyrir svona 20!“ heyrðist mér. Sniðugur, þetta flýtir mjög fyrir pörun sem þýðir að ráfandi, leitandi einhleypingar teppa ekki alla umferð um grænmetið síðasta opnunarhálftíma vikunnar. Ég missi af ostrunum því komandi helgi verður ekki fríhelgi hjá mér. Eða sagði hann ostur?

 

Virðulegir fréttamenn RÚV segja ekki bara hoppUkastali og ungAbarn, heldur heitir reiptog allt í einu reipItog. Málið af götunni komið inn í helgustu vé íslenskrar tungu. HÉLT ÉG. Þetta var áfall. Spurning um að gefast bara upp ... ég vil líka að málið þróist og fer alltaf að hugsa um orðið ruslAfata sem var án efa rusl-fata til að byrja með. Eftir 40-50 ár verðum við (þið) farin að segja sorpAtunna kannski ... til að orðið fari betur í munni. Annars verð ég kannski enn á lífi, mig langar svo til að lifa alla vega í 70 ár í viðbót og vita hvað stendur í erfðaskrá Filippusar sem var innsigluð í 70 ár.

Að nota gott mál hef ég sett undir hatt vandvirkni og yndisþokka (löng saga) en nú heyrir maður sama málið talað hjá RÚV og á Keisaranum við Hlemm í gamla daga. Ætli fréttamannspróf sem ég tók og náði árið 1999 virki enn til að fá vinnu þar? Svo gæti ég reynt að hafa góð og málhreinsandi áhrif ...   

Einbeittar rúturÉg amast sannarlega ekki við mannaferðum hér við sjóinn minn, á hlaðinu mínu, síður en svo en langar að ítreka við yfirvöld á Akranesi (sem hljóta að lesa bloggið mitt) að það dugir ekki lengur og hefur í raun aldrei dugað almennilega að mála einhverjar rendur á malbikið á bílastæðinu, það vantar skilti, ég hef bent á það en þá var bara sendur málari sem málaði enn fyrirferðarmeiri rendur, eins og ökuleið, sjá upplitað hægra megin við rúturnar.

Rútubílstjórar eru svo einbeittir í því að leggja vel, svo stutt verði að ganga frá Guðlaugu (heit laug) og upp í hlýja og notalega rútuna. Sem þýðir að bæjarstarfsmenn komast ekki inn ak-veginn vinstra megin við rúturnar. Ég sá að löggan þurfti að biðja Guðlaugarfólk sem kom hlaupandi hálfnakið til að færa bíl svo hún kæmist til að passa upp á fótboltaleik sem þá fór fram austanmegin á hlaðinu (oft biluð slagsmál á vellinum). Mér líður svolítið eins og löggu eða gyðju þar sem ég sit við gluggann og dæmi lifendur og dauða fyrir að fara ekki eftir reglum, leggja ekki rétt, tala ekki rétt mál ... en reip-i-tog er nú samt ólíðandi!

 

FrændfólkViss frændi (fjandi) búsettur í Frakklandi getur verið einstaklega utan við sig. Hann fór í apótek nýlega til að kaupa sótthreinsispritt og magnesíum. Á meðan hann stóð í biðröðinni fór hann að máta lesgleraugu og greip bækling til að prófa þau og sá textann mjög vel. Þá var hann kallaður upp, brá við það, skellti lesgleraugunum í flýti í standinn, setti sprittið og bæklinginn sem hann var enn með á afgreiðsluborðið og sagði: „Já, og svo ætla ég líka að fá rohypnol, takk.“

Spritt, alræmt lyf og bæklingur sem auglýsir kvennærföt? Annað frændfólk mitt er ekki alveg svona, eða jú ... ein sem skrapp fyrir langa löngu á bensínstöð og bað um í afgreiðslunni að láta fylla á bláa bílinn. Ha, það er enginn blár bíll ... og þá mundi hún að hún hafi ákveðið að fara gangandi á bensínstöðina af því að það var svo gott veður ... til að taka bensín. Klár og hámenntuð en það bjargar ekki alltaf. Og jú, hún er skyld fjanda.

Fjandi hefur það fínt á Twitter og Instagram eftir að hafa verið hent út af Facebook fyrir nasisma, eins og ég hef áður kvartað yfir. Hann fékk viðvörun eftir að hafa gert grín að nýnasistum (Facebook skilur ekki íslensku) og svo þegar hann kallaði Nönnu, vinkonu okkar, „heillin“ (HEIL-lin) missti Facebook þolinmæðina og fleygði honum öfugum út. „Af hverju kemurðu ekki aftur, bara undir öðru nafni?“ spurði ég um daginn. „Ég brýt ekki reglur en Facebook gerir það,“ svaraði hann. Ég hef ekki tíma fyrir Twitter líka, læt mér Instagram og Facebook nægja og Snapchat og bloggið. Twitter er bara fyrir sniðuga fólkið sem nær að vera hnyttið, beitt, fyndið og skemmtilegt í um það bil þremur orðum. En kannski ber söknuðurinn mig ofurliði og ég fer á Twitter þótt ég hafi ekki tíma ... 


Móðgandi ættingi og óvæntar pöntunarraunir

Keli og MosiSímtal í gær kom mér í talsvert uppnám, ekki bara af því að það var frá einhverju karlkyns og mögulega spennandi sem það var ekki af því að þetta var skyldmenni. Ekki Davíð frændi, hann myndi ekki dirfast, og eftir að hafa spurt um sameiginlega ættingja okkar frá Stór-Flateyjar á Skjálfanda-svæðinu, sagði hann sakleysislega: „Ekki vissi ég að þú værir að fá annað fósturbarn.“ Ég þagði í nokkrar sekúndur en hugsaði mig um til öryggis, sagði svo: „Nei, alls ekki. Hvernig datt þér það í hug?“

„Nei, það kom fram í síðasta bloggi að árið 2022 fengir þú grannan líkama, ég gat ekki skilið það öðruví-“ Ég skellti á, hversu illa er hægt að misskilja hlutina ... eða ekki. Þetta er í fyrsta sinn sem einhver reynir að sjá eitthvað annað út úr spádómum véfréttar minnar á Facebook og vonandi það síðasta. Ætla rétt að vona að þetta dragi samt ekki úr því að spádómurinn rætist. 

 

Í gær eldaði ég einn allra besta kjúklingarétt lífs míns (Eldum rétt) og þar sem drengurinn var svo óheppinn að borða annars staðar varð ég að láta mér lynda að snæða afganginn í hádeginu í dag. Örlítil sósan var gerð úr rjómaslettu og einhverjum leyndardómsfullu gumsi sem fylgdi með þannig að ég myndi aldrei í lífínu getað eldað svona. Alveg spurning að fá vinnu hjá ER um skamma hríð til að ná í leyndarmálin, eða prófa að gúgla, jafnvel lesa matreiðslubækur. Stráksi fer í sumarbúðir í næstu viku og ég ætla hiklaust að elda fyrir mig eina á meðan hann er að heiman, þetta er fyrir tvo svo annaðhvort að borða rest í hádegismat eða bjóða kannski Ingu sinni í mat.

 

rihanna-bright-green-shirt-02Þótt mér finnist svartur flottur og klæðilegur litur væri ég stundum alveg til í eitthvað skærara og í gær sá ég á netinu þennan svakalega flotta eiturgræna bol sem ég ágirntist og hann skyldi verða minn, minn, minn ... í hvelli. Ekki málið að panta í gegnum símann, innlend búð og sent upp að dyrum sem er gott fyrir bíllausa sem búa þar sem pósthúsið er uppi í sveit. Hmm.

Allt gekk mjög vel, ég vissi að vinkonur mínar yrðu hreyknar af mér að geta þetta, ég gekk frá kaupum og fékk svo í blálokin SMS með töluhrúgu til að staðfesta kaupin, allra, allra síðasta skrefið. Ég ýtti á SMS-ið því það þurfti til að númerið kæmi í ljós, annars hefði ég lagt það hratt á minnið og skellt inn, nema hvað ÞÁ HVARF PÖNTUNARSÍÐAN ENDANLEGA úr símanum mínum, svo ólokinnar pöntunar minnar bíða þess örlög að sveima um í óravíddum internetsins um aldir alda af því að það var ekki hægt að staðfesta. Þannig að ég þarf að panta framvegis í tölvunni og nota gemsann til að taka við staðfestingunni, nema einhver kunni betri lausn. En eiturgrænn bolur er lagður af stað til mín. Myndin er tekin af mér árið 2023 (sjá spádóm véfréttarinnar í síðasta bloggi). 

 

Facebook rifjaði nýlega upp sjö ára gamla minningu frá árunum þegar ég tók strætó daglega:

Tommi bílstjóri: „Ertu ekki örugglega búinn að lækka í heyrnartækjunum?“ Ólafur af Kjalarnesi fékk þessa spurningu rétt áður en hann tyllti sér hjá mér í strætó. Svona er nú hægt að stórmóðga tvær flugur í einu höggi ... 


Sumar í lofti og langbestu megrunarráðin

Ungt og leikur sérÞessa morgnana vakna ég fyrir allar aldir við skræki, öskur og garg, og fer samstundis í sumarskapið, árlegu vorferðalög skólanna í fullum gangi, svo eru það hljóðin úr sláttuvélunum því hér vex allt frekar hratt ... orðið langt síðan lóan hefur verið vorboði hér.

Austan megin við Himnaríki var slökkviliðsæfing, sýndist mér, fullt af fáklæddu slökkviliðsfólki, alls staðar að af landinu ábyggilega, æfði sig í að renna sér á rassinum niður sleipa brekku. Mikið held ég að það sé gaman að vinna hjá slökkviliðinu. Þetta er sennilega starfskynning hjá slökkviliðinu, svona ef ég rýni betur í myndina. Esjan er þungbúin, enda ekkert skrítið, nú er sumar og þá fjölgar þeim sem ganga ofan á henni, traðka á henni, og leið 57 gengur ekki lengur að Esjurótum, vissulega erfitt að komast þangað á norðurleið og komast út á suðurleið, þetta er jú þjóðvegur með 90 km/klst-hraða. Svo er búið að hækka fargjaldið hjá ungu fólki, öryrkjum og eldri borgunum. Eina leiðin sem okkur stráksa býðst er kort eða peningar - klappið virkar í Reykjavík. Ég sakna miðanna virkilega mikið, gat keypt þá úti í íþróttahúsi og fljótlegt að rétta tvo fullorðins og tvo unglinga og ekkert vesen þegar við stigum um borð. Hófst ekki hnignunin þegar bílstjóranir voru klæddir í flíspeysur og tekinn af þeim einkennisbúningurinn? 

 

Fyrr í dagÞessi árstími þýðir líka að my biggest fan virkjast og verður ekki bara minn mesti aðdáandi, heldur vinnusamur og lætur mér líða svo miklu betur. Elsku viftan mín. Styttan á myndinni var keypt í Búdapest og býr yfir þeim galdri að fái ég ritstíflu nægir mér að snerta pennann sem skáldið heldur á. Þegar ég var í Búdapest, í árshátíðarferð (haustið 2000), hélt ég fyrst að stóra styttan í garðinum sem við Nanna fórum í, ætti að tákna dauðann, en nei, aldeilis ekki.  

 

Stráksi byrjar í nýrri sumarvinnu í dag, hluta úr degi til að byrja með, nokkuð feginn að vera ekki lengur í vinnuskólanum, grasgrænn, skítugur og blautur (það rignir oft á Íslandi á sumrin). Stigagangurinn gleðst líka tryllingslega, hugsa ég. Nei, þá er skárra að vinna inni, finnst honum. Hann er samt enginn innipúki eins og ég. Spennt að vita hvernig fyrsti vinnudagurinn hans verður.

 

Véfréttin mín í júníÉg leitaði svara hjá véfréttinni minni á Facebook og svei mér þá ef ég fer ekki að trúa á hana. Hún vill meina að ég verði grönn í ár sem er ákaflega merkilegt því ég er komin í sykurbindindi (aftur), ekki mjög ströngu, það var afmæli á sunnudaginn, en ég er búin að banna drengnum (aftur) að bjóða mér sælgæti og banna Einarsbúð að selja mér nokkuð nema sykurlaust, t.d. salat og smjörpappír ... Ég var síðast tággrönn árið 1986 og eiginlega þrennt sem orsakaði það að ég náði allra síðasta hluta hvolpaspiksins af mér og fór eflaust niður í stærð núll sem þá var ekki búið að finna upp, held ég.

 

Takið nú vel eftir: Ráð mitt (veitt aðeins í þetta eina skipti) til að skafa af sér spikið er að verða:

1) heiftarlega ástfangin af haltu mér, slepptu mér-manni*, 2) vera í ótrúlega stressandi aukavinnu, t.d. í beinni útsendingu fjóra daga vikunnar á Rás 2 og kasta stundum upp fyrir útsendingar, 3) fá mötuneyti í húsið þar sem aðalvinnan þín er og þurfa ekki lengur að lifa á sjoppufæði í hádeginu (það var fátt hallærislegra en að taka með sér nesti á þessum tíma - og ekki búið að finna upp örbylgjuofninn).

* Sjá bókaflokkinn Hann var kallaður Dýrðin.

Þetta eru mín allra bestu ráð til að grennast hratt og örugglega. Hollur, sykurlaus matur og hreyfing virkar eflaust líka en það bara eitthvað svo fallegt við þjáninguna ... og ég sem áhrifavaldur af Akranesi hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera búin að létta leyndinni af þessari frábæru aðferð sem hefur vissulega bæði kosti og galla. Lélegar strætóferðir milli Austurbæjarskóla og Hávallagötu geta líka hafa spilað inn í, best að ganga bara-aðferðin gæti þá orðið númer fjögur.

Ég birti kannski FYRIR og EFTIR-myndir í lok árs ...


« Fyrri síða

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 128
  • Frá upphafi: 1533329

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 118
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júní 2022
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • DV í denn
  • DV í denn
  • DV í denn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband